Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
Þriðjudaginn 26. janúar 1999. |
|
Nr. 31/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn S (Sigurmar Albertsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Krafist var framlengingar gæsluvarðhaldsvistar S, eingöngu á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en S var undir rökstuddum grun um innflutning á 630 grömmum af kókaíni. S hafði þegar setið í gæsluvarðhaldi í rúmlega mánuð á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Ekki var fallist á að gæsluvarðhaldsvist S yrði framlengd á þessum grunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa átt þátt í innflutningi á um 630 g af kókaíni til landsins, svo sem hann er borinn sökum. Sóknaraðili reisir ekki kröfu sína um gæsluvarðhald á því að þess sé þörf vegna rannsóknar málsins, heldur eingöngu á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki verður fallist á að hér séu alveg næg efni til að beita gæsluvarðhaldi með stoð í því ákvæði. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 20. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Helga I. Jónssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að S verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram þar til héraðsdómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. mars 1999 kl. 16.00.
Kærði mótmælir kröfunni.
Að morgni 19. desember 1998 var G handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu frá Bandaríkjunum með 630 g af kókaíni, falin í farangri sínum. G kveðst hafa flutt efnið inn frá Mexíkó fyrir kærða og Ó. Hafi sér verið lofað hluta efnisins eða peningum sem greiðslu fyrir sína þátttöku í málinu.
Kærði neitaði í upphafi allri aðild að málinu. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald 22. desember síðastliðinn sem rennur út kl. 16.00 í dag. Við síðari yfirheyrslur hefur kærði játað aðild að málinu með þeim hætti að hann hafi komið á sambandi milli Ó og G, en þeir hafi leitað til kærða hvor í sínu lagi. Ó hafi beðið kærða að útvega fyrir sig burðardýr til innflutnings á fíkniefnum. Hafi G komið að máli við kærða og kvartað undan fjárskorti og spurt hvort hann vissi um leið til að “búa til pening” og jafnframt tekið fram að hann væri reiðubúinn að flytja inn fíkniefni gegn greiðslu. Hafi kærði ákveðið að koma á sambandi milli þeirra, en hann hafi átt að fá í sinn hlut sem næmi 5% af söluandvirði fíkniefnanna. Þá játar kærði að hafa leigt sumarbústað sem nota átti sem afhendingarstað efnanna og að hafa ekið bílaleigubifreið, sem G hafði útvegað, út á Keflavíkurflugvöll fyrir komu G til landsins. G og Ó bera hins vegar að kærði hafi tekið fullan þátt í skipulagningu umrædds fíkniefnainnflutnings.
Kærði er undir sterkum grun um þátttöku í stórfelldu broti sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við bætist að kærði var handtekinn í júní 1998 með rúmlega 300 g af kókaíni og 176 af kannabisi sem hann játar að hafi verið ætlað til sölu. Að mati dómsins eru brot kærða þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald. Verður krafa Lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Kærði, S, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. mars 1999 kl. 16.00.