Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


           

Fimmtudaginn 20. janúar 2000.

Nr. 284/1999.

Hraðfrystihúsið hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Gylfa Sigurðssyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Örorka. Sakarskipting. Gjafsókn.

G hafði að mestu lokið við viðgerð á togvindu skips í eigu H þegar hann féll um togvír, sem lá slakur frá togvindunni og aftur í gálga skipsins. Kvað G vírinn hafa numið rétt ofan við hné sitt og hafi hann borið vinstri hönd fyrir sig við fallið. Varð G af þessum sökum óvinnufær og hlaut varanlega örorku, sem metin var 35%. Á það var fallist með héraðsdómi, að óforsvaranlegt hefði verið og ástæðulaust af hendi starfsmanna H að skilja við togvírinn slakan í um 50 cm hæð frá þilfari, fáum skrefum frá þeim stað, þar sem komið var út um dyr frá stiga stjórnborðsmegin á skipinu. Hefði af þessum viðskilnaði stafað sérstök hætta fyrir G og samstarfsmenn hans, sem kvaddir voru til að vinna að viðgerð um borð í skipinu. Yrði af þessum sökum að fella bótaábyrgð á H. Í ljósi atvika málsins þótti hins vegar með ólíkindum, að G og samstarfsmenn hans hefðu ekki veitt togvírnum athygli á meðan á verki þeirra stóð. Var talið, að með fullri aðgæslu hefði G getað forðast slysið og ætti hann því nokkra sök á því hvernig fór. Voru G dæmdar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þar á meðal vegna skerðingar lífeyrisréttinda, varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en helming tjónsins varð G að bera vegna eigin sakar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að þær verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem stefnda hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hóf stefndi störf sem rennismiður hjá Vélsmiðjunni Þrymi hf. á Ísafirði á árinu 1993. Hann mun hafa lokið verklegum hluta náms í rennismíði, en ekki bóknámi. Vorið 1996 vann hann sem starfsmaður vélsmiðjunnar um níu vikna skeið að ýmsum viðgerðum á skipi áfrýjanda, Bessa ÍS 410. Þegar því verki var lokið var farið með skipið í reynslusiglingu og kom þá fram bilun á hemli í togvindu. Var stefnda falið á vegum vélsmiðjunnar að gera við bilunina 31. maí 1996 ásamt tveimur iðnnemum, þeim Helga Hjartarsyni og Jóhanni B. Gunnarssyni. Skipið var þá við bryggju í Súðavík.

Þegar umræddri viðgerð var að mestu lokið kveðst stefndi hafa farið í nánar tilteknum erindagerðum niður í skipið og komið síðan aftur upp um stiga stjórnborðsmegin að verkstaðnum á efra þilfari þess. Þegar hann hafi komið út um dyr ofan við stigann hafi orðið á vegi hans togvír, sem hafi legið slakur frá togvindunni, sem gert var við, og aftur í gálga. Vírinn hafi verið einn til tvo metra frá fyrrnefndum dyrum og numið rétt ofan við hné stefnda. Hann kveðst hafa fallið um vírinn og borið fyrir sig vinstri hendi. Hafi hann fengið sáran verk í hendina, en jafnframt hnykk í bakið. Hann hafi þó lokið vinnu þennan dag og unnið lítillega daginn eftir, en þá þurft að hverfa frá störfum vegna verkja í baki. Stefndi leitaði til læknis 3. júní 1996 og fékk lyf vegna verkjanna, sem hann kveður ekki hafa komið að gagni. Var hann loks sendur með sjúkraflugi til Reykjavíkur 13. sama mánaðar og lagður þar inn á sjúkrahús. Kom þá í ljós brjósklos í baki og gekkst hann undir aðgerð samdægurs af þeim sökum. Hann kveðst að mestu hafa verið óvinnufær síðan.

Í málinu krefst stefndi bóta vegna þess tjóns, sem fyrrnefnt slys leiddi til. Hann reisir kröfur sínar á álitsgerð læknis 23. mars 1998, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi hlotið 25% varanlegan miska af slysinu, en 35% varanlega örorku. Þá var þar einnig talið að stefndi hafi ekki mátt vænta frekari bata eftir 31. desember 1997. Miðar hann kröfur um tímabundið atvinnutjón og þjáningabætur við það tímamark, sbr. 2. gr. og 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

II.

Vinnuveitandi stefnda tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið 19. júní 1996. Lögreglan hóf rannsókn á því 29. sama mánaðar með því að taka skýrslu af stefnda, þar sem hann greindi frá atvikum á eftirfarandi hátt: „Mætti segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi verið að vinna við bilað togspil og hafi togvírinn legið þannig að slaki hafi verið á honum og hafi hann legið þannig að hægt hafi verið að klofa yfir hann. Mætti kveðst hafa átt erindi í verkstæði skipsins og verið að koma upp aftur og þurft að klofa yfir vírinn er hann hafi hrasað og borið fyrir sig vinstri hendina. Mætti kveðst hafa dottið yfir vírinn og lent á vinstri hendinni og vinstri öxl.“ Stefndi lét þess einnig getið að hann hafi gefið skýrslu vegna slyssins hjá Vinnueftirliti ríkisins 24. eða 25. sama mánaðar.

Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins 24. júní 1996 sagði eftirfarandi um þann atburð, sem málið er sprottið af: „Tildrög slyssins voru þau að hinn slasaði var að vinna við viðgerð á togvindu togarans. Togvírinn lá frá togvindunni og aftur í gálga í um það bil meters hæð þvert í gangveginum niður í viðgerðarverkstæðið. Hinn slasaði var að klofa yfir vírinn er hann fellur við og lendir illa á dekkinu.“ Í umsögninni var þess ekki getið eftir hverjum þessar upplýsingar voru hafðar.

Í skýrslu, sem lögreglan tók 9. september 1996 af áðurnefndum samverkamanni stefnda, Helga Hjartarsyni, lýsti hann aðdraganda slyssins þannig: „Mætti segir að þeir hafi verið að vinna við að skipta um bremsu í togspili og hafi togvírinn af spilinu legið þannig að slaki hafi verið á honum og hafi þannig verið hægt að klofa yfir hann auðveldlega. Mætti segir að Gylfi hafi farið niður í vélarými skipsins og þegar hann hafi verið að koma þaðan hafi hann gengið á togvírinn og við það hafi Gylfi dottið fram fyrir sig, beint á dekk skipsins.“

Lögreglan tók skýrslu 4. október 1996 af hinum samverkamanni stefnda, Jóhanni B. Gunnarssyni. Í henni skýrði hann meðal annars svo frá: „Mætti segir að í umrætt sinn séu þeir þrír að vinna við togspil skipsins sem lá við bryggju. Hann segir að þeirra vinna við spilið hafi aðeins verið hluti úr degi. Togvír hafi legið frá tromlu og í blökk, frá henni og í fleiri blakkir aftur í hlera. Frá tromlu í blökkina hafi vírinn verið slakur og ca. 40-50 cm frá dekki, hafi vírinn verið í þeirri afstöðu þegar þeir hófu vinnu við togspilið, ekki hafi verið neitt rætt um að breyta því, um skamma vinnu hafi verið að ræða, þ.e. hluti úr degi. Mætti segir að umræddur togvír sé þvert á leið þess sem þarf að fara niður á verkstæði skipsins og svo aftur að spilinu, hafi verið innan við tveir metrar frá hurð og að vírnum. Mætti segir að hinn slasaði hafi þurft niður á verkstæði og sé að koma þaðan með eitthvað sem tilheyrði vinnunni, kveðst ekki muna hvað það var en það hafi ekki verið neitt þungt. Hann kveðst sjá að hinn slasaði gengur beint á vírinn og fellur kylliflatur við. ... Mætti segir að ekki hafi þurft að klofast yfir vírinn, hann hafi verið í ca. hnéhæð. Mætti segir nánar að hinn slasaði hafi verið búinn að lyfta öðrum fæti yfir vírinn en krækt hinum í og fallið við það.“

Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar stefndi að um það leyti, sem vinnu að viðgerð togspilsins var að ljúka, hafi hann ætlað að finna vélstjóra til að láta vita af verklokum. Í þeim erindum hafi hann gengið þvert yfir skutrennu skipsins og niður um stiga bakborðsmegin. Hann hafi engan vélstjóra fundið og þá farið gegnum vélarúm skipsins sem leið lá á verkstæði þess, þar sem hann hafi sótt smurolíukönnu. Þaðan hafi hann síðan gengið upp um stiga stjórnborðsmegin og í framhaldi af því fallið um áðurnefndan togvír. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvernig vírinn lá eða séð hann áður en slysið bar að höndum, heldur fyrst orðið var við hann þegar hann snerti á sér lærið rétt ofan við hné. Stefndi hafi þá lyft fæti og dottið kylliflatur fram fyrir vírinn. Hafi verið rangt í lögregluskýrslu að hann hafi verið að klofa yfir vírinn, en það mætti rekja til ónákvæmni af hans hendi við skýrslugjöfina. Fyrir dómi kvaðst Helgi Hjartarson ekki minnast þess hvaða leið stefndi hafi farið þegar hann gekk niður í skipið umrætt sinn eða hvort þeir hafi veitt togvírnum eftirtekt áður en slysið varð. Nánar aðspurður sagðist Helgi ekki minnast þess hvort stefndi hafi áður þurft að fara yfir vírinn þennan dag, en hann héldi að þeir hljóti að hafa farið niður í skipið þá leið strax um morguninn. Jóhann B. Gunnarsson sagðist fyrir dómi ekki muna hvaða leið stefndi fór þegar hann hélt niður í skipið umrætt sinn. Þeir hafi ekkert leitt hugann að togvírnum, enda ekki verið að vinna við hann. Jóhann kvaðst ekki muna hvort stefndi hafi gengið á togvírinn eða verið að reyna að klofa yfir hann þegar slysið varð, en fyrr í framburði sínum hafði Jóhann þó staðfest að upplýsingar í lögregluskýrslu væru réttilega eftir sér hafðar.

III.

Fallist verður á það með héraðsdómi, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, að óforsvaranlegt hafi verið og ástæðulaust af hendi starfsmanna áfrýjanda að skilja við togvírinn, sem um ræðir í málinu, slakan í um 50 cm hæð frá þilfari fáum skrefum frá þeim stað, þar sem komið var út um dyr frá stiga stjórnborðsmegin á skipinu. Af þessum viðskilnaði stafaði sérstök hætta fyrir stefnda og samstarfsmenn hans, sem voru kvaddir til að vinna að viðgerð um borð í skipinu. Verður af þessum sökum að fella bótaábyrgð á áfrýjanda vegna slyss stefnda.

Til þess verður hins vegar að líta að í fyrrnefndri skýrslu, sem lögreglan tók af stefnda, sagðist hann hafa verið að klofa yfir togvírinn þegar hann varð fyrir slysinu. Greint er á sama veg frá málsatvikum að þessu leyti í áðurnefndri umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið, en ætla verður að hún sé reist á skýrslu, sem stefndi kvaðst sjálfur hafa gefið starfsmanni vinnueftirlitsins, enda ekki fram komið að nokkur annar hafi verið til frásagnar um þetta efni. Er þetta jafnframt í samræmi við framburð Jóhanns B. Gunnarssonar fyrir lögreglu, sem áður er getið. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi og samstarfsmenn hans hafi verið við störf um borð í skipinu í meira en klukkustund áður en slysið varð, þeir hafi leyst af hendi verk sitt í þröngri aðstöðu og í um sex til átta metra fjarlægð frá slysstaðnum. Er í þessu ljósi með ólíkindum að þeir hafi ekki veitt togvírnum athygli meðan á verkinu stóð, en auk þess gefa áðurgreind ummæli, sem höfð voru eftir Jóhanni B. Gunnarssyni í lögregluskýrslu, eindregið til kynna að þeim hafi verið kunnugt um legu togvírsins fyrir slysið. Fyrrgreind skýring stefnda við skýrslugjöf fyrir dómi á misræmi, sem var á milli frásagnar hans þar og í lögregluskýrslu, er ótrúverðug þegar litið er til þess hversu ítrekað kom fram á fyrstu stigum eftir slysið að það hafi borið að höndum þegar hann reyndi að klofa yfir togvírinn. Að öllu þessu gættu verður að leggja til grundvallar að stefnda hafi verið kunnugt um hvernig togvírinn lá áður en hann slasaðist. Með fullri aðgæslu hefði hann getað forðast slysið. Hann á þannig nokkra sök á því hvernig fór. Verður hann af þessari ástæðu sjálfur að bera tjón sitt að helmingi.

IV.

Aðilarnir fella sig báðir við niðurstöðu héraðsdóms um bætur handa stefnda fyrir varanlega örorku, 5.962.247 krónur, varanlegan miska, 1.094.500 krónur, og tímabundið atvinnutjón, 1.564.074 krónur. Við ákvörðun síðastnefndrar fjárhæðar komu til frádráttar dagpeningar, sem stefndi naut frá Tryggingastofnun ríkisins og úr slysatryggingu launþega, svo og laun í veikindaforföllum frá vinnuveitanda hans.

Stefndi hefur lagt fram fyrir Hæstarétti gögn frá Lífeyrissjóði Vestfirðinga, þar sem staðfest er að lífeyrisréttindi hans skerðist með nánar tilteknum hætti ef ekki verður af greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins vegna tímabilsins, sem hann á rétt til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón. Fallist verður á það með héraðsdómi að tjón stefnda geti ekki talist að fullu bætt nema tillit verði jafnframt tekið til þessa liðar í kröfum hans. Er óumdeilt að framlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs af fyrrnefndum 1.564.074 krónum hefði numið 93.844 krónum.

Krafa stefnda um þjáningabætur er sem áður segir reist á álitsgerð læknis um að stefndi hafi ekki mátt vænta frekari bata af áverkum, sem hann hlaut við slysið, eftir 31. desember 1997. Því til samræmis reiknar stefndi sér þjáningabætur fyrir 50 daga, sem hann hafi verið rúmliggjandi, og til viðbótar 497 daga, sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi. Krafa hans þannig reiknuð miðað við þær fjárhæðir, sem greinir í 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, nemur alls 453.690 krónum. Áfrýjandi hefur ekki rökstutt að atvik séu hér með svo sérstökum hætti að efni séu til að beita heimild í lokamálslið tilvitnaðs lagaákvæðis til að lækka þessa kröfu stefnda.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að óbætt tjón stefnda nemi alls 9.168.355 krónum. Af því tjóni verður stefndi að bera helming vegna eigin sakar. Áfrýjandi verður því dæmdur til að greiða honum 4.584.178 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Í málinu hefur ekki verið krafist endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda, sem verður því óröskuð. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Hraðfrystihúsið hf., greiði stefnda, Gylfa Sigurðssyni, 4.584.178 krónur með 2% ársvöxtum frá 31. maí 1996 til 23. apríl 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. maí sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 7. sept. 1998.

Stefnandi er Gylfi Sigurðsson, kt. 061066-3819, Pólgötu 5, Ísafirði.

Stefndi er Hraðfrystihúsið hf., kt. 630169-2249, Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal.

Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 9.415.797 kr. með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 frá 31. maí 1996 til 20. nóv. 1997 og höfuðstólfærist þeir vextir árlega, í fyrsta skipti 31. maí 1997. Fjárhæðin beri síðan dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 20. nóv. 1997 til greiðsludags. Höfuðstólfærist þeir vextir árlega, í fyrsta sinn 20. nóv. 1998.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 10. ágúst 1998.

 

Dómkröfur stefnda:

Aðallega er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins en til vara er krafist lækkunar og að málskostnaður verði felldur niður.

 

Ekki eru gerðar  kröfur á hendur réttargæslustefnda sem ekki gerir kröfur í málinu.

 

Málavextir:

Stefnandi starfaði sem rennismiður hjá Vélsmiðjunni Þrymi hf. á Ísafirði. Hinn 31. maí 1996 var stefnandi við störf að viðgerð á togvindu í togaranum Bessa ÍS-410 sem starfsmaður Vélsmiðjunnar Þryms hf. Með stefnanda voru að störfum í umrætt sinn vinnufélagar hans þeir Helgi Hjartarson og Jóhann Bæring Gunnarsson, sem einnig voru starfsmenn vélsmiðjunnar.

Þeir vinnufélagarnir voru að gera við bremsu í togspili. Í stefnu segir að  togvírinn hafi legið í um meters hæð frá vindu og aftur í gálga, þvert í gangveginum niður í viðgerðarverkstæði skipsins. Að sögn stefnanda hafði hann farið niður í vélarými skipsins bakborðsmegin og var að koma þaðan upp stjórnborðsmegin er hann gekk á togvírinn en við það hrasaði hann illa og datt á dekk skipsins.

Að sögn stefnanda hjá lögreglunni á Ísafirði  hinn 29.  júní 1996 varð slysið með þeim hætti að hann hefði verið að vinna við bilað togspil og hafi togvírinn legið þannig að slaki hafi verið á honum og hafi verið hægt að klofa yfir hann. Stefnandi átti erindi í verkstæði skipsins og var að koma upp aftur og þurfti að klofa yfir vírinn er hann hrasaði og bar fyrir sig vinstri höndina. Stefnandi datt yfir vírinn og lenti á vinstri hendinni og vinstri öxl.

Stefnandi taldi meiðslin ekki alvarleg og lauk vinnu daginn sem hann slasaðist. Stefnandi mætti til vinnu daginn eftir og lauk ákveðnu verki en fór að því búnu heim vegna eymsla í baki. Mánudaginn 3. júní leitaði stefnandi til læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði vegna verkja. Þar fékk stefnandi lyf miðað við að um væga tognun í baki væri að ræða. Lyfin linuði ekki verki stefnanda og fór hann aftur til læknis þriðjudaginn 11. júní og fékk sterkari lyf. Þau lyf linuðu bakverkinn en við það kom fram verkur í hægri fæti. Að kvöldi þriðjudagsins hafði stefnandi aftur samband við lækni sem ákvað að breyta um lyf og sagði læknirinn stefnanda að koma á sjúkrahúsið næsta morgun. Þá var stefnandi lagður inn og var þar meðhöndlaður með sjúkraþjálfun og einnig með deyfilyfjum. Að  morgni fimmtudagsins 13. júní var stefnandi fluttur með sjúkraflugi og lagður inn á Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem hann greindist með mikið brjósklos. Um kvöldið var gerð aðgerð á baki stefnanda. Stefnandi var útskrifaður af sjúkrahúsinu daginn eftir.

Bati lét á sér standa eftir aðgerðina. Stefnandi var til meðferðar á Reykjalundi í sex vikur frá janúar 1997. Eftir það var hann í sjúkraþjálfun á Ísafirði fram til júní sama ár. Í september 1997 versnaði stefnanda skyndilega og dvaldi þá í fjóra daga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. að sögn stefnanda hefur hann verið frá vinnu frá því að slysið varð ef frá er talin tilraun hans til að hefja aftur vinnu í ágúst 1996. Þar var að sögn um hálfsdagsstarf að ræða en frá því starfi kvaðst stefnandi hafa orðið að  hverfa vegna meiðsla sinna.

Hinn 23. mars 1998 mat Atli Þór Ólason dr. med. þá örorku sem hann telur stefnanda búa við af völdum slyssins.

Niðurstaða læknisins var sú að við slysið 31. maí 1996 hafi stefnandi orðið fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1.Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

Frá 31.05 1996 til 31.12.1997………. 100%

2.Þjáningabætur skv. 3. grein:

Rúmliggjandi, 50 dagar.

Batnandi, með fótaferð,

frá 31.05 1996 til 31.12.1997, að frádregnum 50 dögum.

3.Varanlegur miski skv. 4. grein 25%.

4.Varanleg örorka skv. 5. gr. 35%.

5.Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka 25%.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi telur að slys hans megi rekja til saknæmrar  háttsemi stefnda og starfsmanna hans. Togvírinn hafi legið í eins meters hæð þvert yfir gangveginn. Slíkur frágangur sé algjörlega óforsvaranlegur og til þess fallinn að skapa hættu. Um sé að ræða þröngt göngusvæði þegar komið sé úr vélarrúminu nær landganginum. Það sé óumdeilanleg skylda skipverja að ganga þannig frá að öll notkun sé örugg. Þá tíðkist að ganga þannig frá togvír sem þessum að hann sé strekktur aftan í blökkina og festur í hlera. Sé vírinn hins vegar ekki nægilega festur geti slaknað á honum eins og hafi gerst þegar slysið varð. Það að bremsa togvindunnar hafi verið biluð breyti í engu skyldu starfsmanna um borð að ganga þannig frá vírnum að hætta stafaði eigi af. Enda hindri sú bilun ekki æskilegan frágang á vírnum. Þá hvíli sú ótvíræða skylda á útgerðinni að sjá til þess að öll umgengni sé örugg. Sú skylda sé ítrekuð í reglum um vinnuöryggi á fiskiskipum  nr. 414/1995. Ekkert bendi til að stefnandi hafi ekki sýnt af sér nægilega aðgæslu. Áréttað er í því sambandi að stefnandi hafi unnið mikið á skipinu síðustu mánuðina fyrir slysið og frágangur vírsins hafi aldrei verið með þessum hætti.

Stefnandi sundurliðar endanlega kröfu sína svo samkvæmt lögum nr. 50/1993:

1.Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.

 

 

 

18 mánuðir m.v. tekjur 1995

kr. 3.280.304

 

Lækkun vegna dagpeninga frá

Tryggingastofnun ríkisins

 

kr.   373.632

 

Lækkun vegna greiddra launa á

tímabili óvinnufærni

 

kr. 1.109.163

 

Eftirstöðvar

kr. 1.797.509

 

Lífeyrissjóðsframlag 6%

kr.   107.851

 

Krafa vegna tímabundins

atvinnutjóns

 

 

 

kr. 1.905.360

 

 

 

2. Þjáningarbætur

 

 

Rúmliggjandi 50 dagar x 1420

“   71.000

 

497 dagar x 770

“  382.690

kr.  453.690

 

 

 

3.Varanlegur miski skv. 4. gr.

 

 

25% af 4.378.000

 

kr. 1.094.500

 

 

 

4.Örorkubætur skv. 6. gr.

 

 

Árslaun 1995

kr. 2.186.869

 

+ 6% framlag í lífeyrissjóð

“   131.212

 

x 7,5 föld árslaun

“   17.385.607

 

35% af því

“    6.084.963

 

-5% sbr. 9. gr.

“   304.248

 

 

5.780.715

 

+ vísitöluhækkun skv. 15. gr.

kr.   181.532

kr. 5.962.247

 

 

Samtals

=============

kr.       9.415.797

           

Krafa stefnanda vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku er miðuð við tekjur hans samkvæmt skattframtali frá árinu áður en fyrrgreint slys varð, nánar tiltekið 1995.  Þá er miðað við að ekki verði um frekari bata að ræða eftir áramótin 1998.  Stefnandi segir það í samræmi við álit Atla Þórs Ólasonar læknis í örorkumati hans dags. 23. mars 1998.

Með vísan til þessa telur stefnandi að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart sér á afleiðingum slyssins. Þar sem útgerðin hefur ábyrgðartryggingu hjá Tryggingarmiðstöðinni er félaginu stefnt til réttargæslu, sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfur um skaða- og miskabætur úr hendi stefnda styður stefnandi við almennar reglur skaðabótaréttarins, þar á meðal regluna um vinnuveitandaábyrgð.

Þá vísast til 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Um útreikning bóta vísast til skaðabótalaga nr. 50/1993.

Um vaxtakröfur er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987.

Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Af  hálfu stefnda er því haldið fram að miðað við framburð stefnanda og þeirra sem gefið hafi skýrslu  hjá lögreglu sé ljóst að togvírinn hafi legið slakur frá tromlu og í blökk og muni hafa verið í um það bil 50-100 cm hæð frá dekki. Hafi stefnandi þurft að klofa yfir togvírinn þegar hann átti erindi niður í verkstæði skipsins og síðan aftur til baka.

Af hálfu stefnda er ekki á það fallist að frágangur á togvírnum hafi verið algerlega óforsvaranlegur og til þess fallinn að skapa hættu.

Það er ekki véfengt af hálfu stefnda að staða togvírsins hafi verið eins og áður var lýst, en því er hins vegar alfarið hafnað að viðskilnaður við hann geti talist á einhvern hátt óforsvaranlegur. Togvírinn sé hluti af veiðarfærum og búnaði skipsins og sé því til staðar hvort sem hann er slakur eða strekktur og geti því alltaf þvælst fyrir mönnum ef ekki sé gætt fyllstu varúðar.

Af hálfu stefnda er lögð áhersla á eftirfarandi:

Stefnandi hafi verið að vinna við umrætt togspil og togvírinn og lega hans hljóti því að hafa blasað við honum þegar hann kom að því verki og ef honum hafi ekki litist á staðsetningu vírsins hafi hann getað gert ráðstafanir til að breyta því.

Í umræddu verki hafi verið þrír starfsmenn Vélsmiðjunnar Þryms, þ.e.a.s. stefnandi sem sé meistari í rennismíðum og tveir ungir menn, nemar, og þar af leiðandi sé ljóst að stefnandi hafi stýrt því verki sem þarna var verið að vinna.

Samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs af tildrögum slyssins hafi hann verið nýbúinn að klofa yfir vírinn á leið sinni niður í viðgerðarverkstæðið og hafi hann verið að klofa yfir vírinn á bakaleiðinni þegar hann rak aftari fótinn í vírinn og féll. Það þurfi því ekki að velta vöngum yfir því að stefnandi hafi vitað nákvæmlega um legu og staðsetningu togvírsins. Stefnandi hafi séð vírinn og hér hafi því ekki verið neitt óvænt á ferðum sem hafi komið stefnanda í opna skjöldu og hann  hafi ekki getað varast með eðlilegri aðgát.

Aðstæður sem þessar  séu alvanalegar um borð í skipum og ekkert öðruvísi en gengur og gerist. Ljóst sé að þeir sem sinni þar viðgerðarvinnu verði að vera við því búnir að vírar, bobbingar, veiðarfæri og annað þess háttar kunni að vera til staðar á því svæði sem þeiru eru að vinna, enda verði því ekki við komið að allt slíkt dót verði fjarlægt þegar skip kemur til hafnar og gera þurfi við eitt eða annað.

Það sé meginregla í íslenskum rétti að menn þurfi almennt að kunna fótum sínum forráð og það sé bjargföst skoðun stefnda að slys þetta verði eingöngu rakið til vangæslu stefnanda sjálfs eða óhappatilviks en ekki vegna þess að aðstæður hafi verið ófullnægjandi eða hættulegar þannig að stefndi beri á því ábyrgð að lögum og því beri að sýkna.

Varakrafa um lækkun byggist í fyrsta lagi á því að nægi framanritað ekki til sýknu þá hljóti það a.m.k. að leiða til þess að stefnandi verði að bera meginhluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

Í tengslum við lækkunarkröfu stefnda eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við tölulega meðferð stefnanda á kröfum sínum:

Frá tímbundnu tjóni skv. 2. gr. skaðabótalaga beri að draga dagpeninga frá Tryggingamiðstöðinni hf. 233.435 kr. og slysalaun frá vinnuveitanda, Vélsmiðjunni Þrym hf., 1.538.522 kr.

Mótmælt er lífeyrissjóðsframlagi, 6%, á tímabundið tjón. Stefndi telur að sú krafa hafi ekki lagastoð.

Varðandi þjáningarbætur er bent á lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga þar sem krafa stefnanda sé hærri en 200.000 kr.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og bent á að örorkumat Atla Þórs Ólasonar lækns er dagsett 23. mars 1998 og  hljóti upphafstíminn að verða að taka mið af þvi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga  nr. 25/1987.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi: Stefnandi, Baldur Jónsson framkvæmdastjóri, Helgi Hjartarson vélsmiður og Jóhann Bæring Gunnarsson vélvirkjanemi.

 

Niðurstaða

Af hálfu stefnda var ekki tilkynnt um slys stefnanda fyrr en 19. júní 1996, en slysið varð 31. maí 1996. Það má virða stefnda það til vorkunnar að hafa ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni strax, þar sem það virðist hafa verið álit stefnanda og vinnufélaga hans í upphafi að um lítilvægt óhapp væri að ræða. En eftir 13. júní 1996 var fullt tilefni til þess að tilkynna um slysið og hlutast til um það að atvik að slysinu væru upplýst svo vel sem unnt var.

Sá fyrsti sem gaf skýrslu vegna slyssins var stefnandi sem gaf skýrslu 29. júní 1996. Ekki virðist strax hafa verið hlutast til um skýrslutöku af vinnufélögum stefnanda í öllu falli gáfu þeir ekki skýrslur um atvik málsins fyrr en 9. sept.1996 að Helgi Hjartarson, vinnufélagi stefnanda, gaf skýrslu fyrir lögreglunni á Ísafirði. Jóhann Bæring Gunnarsson, vinnufélagi stefnanda, gaf skýrslu vegna málsins fyrir lögreglunni á Akureyri 4. október 1996.

Fram er komið að stefnandi hefur lært rennismíði en ekki lokið iðnskólanámi.

Í skýrslu stefnanda fyrir lögreglunni á Ísafirði kvaðst stefnandi hafa átt erindi í verkstæði skipsins og verið að koma upp aftur og hafi hann þurft að klofa yfir vírinn er hann hafi hrasað og borið fyrir sig vinstri höndina. Stefnandi kvaðst hafa dottið yfir vírinn og lent á vinstri hendinni og vinstri öxl.

Hér fyrir dómi bar stefnandi um sama atriði að þetta væri ónákvæmi hjá sér í skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa komið labbandi upp og labbað þetta skref út að vírnum og fengið vírinn í lærið rétt fyrir ofan hné. Stefnandi kvaðst hafa lyft fótunum og dottið bara kylliflatur fram fyrir vírinn. Stefnandi kvaðst hafa gengið á vírinn. Vírinn hafi verið í hæð svona  rétt fyrir ofan hné. Fram kom hjá stefnanda að það hefði ekki viðgengist um borð í togaranum Bessa þær níu vikur sem hann vann áður í skipinu að vír lægi þarna.

Fram kom hjá Baldri Jónssyni fyrrum vélstjóra á togaranum Bessa að hann minnti að á þeim níu vikum sem stefnandi hafði áður verið við vinnu í togaranum hefði vírinn allur verið inn á keflinu. Baldur taldi það ekki óvanalegt að vír sé í þessari stöðu. Fram kom hjá Baldri að þeir vélstjórarnir hefðu stjórnað vinnu um borð í skipinu í sambandi við togspilið en annar frágangur veiðarfæra hafi verið í höndum stýrimanns eða skipstjóra. Það hafi verið vélstjórarnir sem kölluðu mennina til viðgerðar og sögðu þeim hvað þeir áttu að gera.

Í skýrslu Helga Hjartarsonar fyrir lögreglunni á Ísafirði bar Helgi að togvírinn af spilinu hafi legið þannig að slaki hafi verið á honum og hafi þannig verið hægt að klofa yfir hann auðveldlega. Stefnandi hafi farið niður í vélarými skipsins og þegar hann hafi verið að koma þaðan hafi hann gengið á togvírinn og við það hafi stefnandi dottið fram fyrir sig beint á dekk skipsins.

Við aðalmeðferð málsins bar Helgi um þetta atriði að hann hafi bara séð stefnanda allt í einu fljúga og detta niður á dekkið. Þá hafi stefnandi verið að koma upp frá verkstæðinu.

Í skýrslu Jóhanns Bærings Gunnarssonar fyrir lögreglunni á Akureyri bar Jóhann að stefnandi hafi þurft niður á verkstæði og hafi verið að koma þaðan með eitthvað sem tilheyrði vinnunni. Jóhann kvaðst  hafa séð að stefnandi gekk beint á vírinn og féll kylliflatur við. Í skýrslu Jóhanns kom fram að togvír hafi legið frá tromlu og í blökk, frá henni og í fleiri blakkir aftur í hlera. Frá tromlu í blökkina hafi vírinn verið slakur og ca. 40-50 cm frá dekki. Vírinn hafi verið í þeirri afstöðu þegar þeir hófu vinnu við togspilið. Ekki hafi neitt verið rætt um að breyta því, um skamma vinnu hafi verið að ræða, þ.e. hluta úr degi. Jóhann bar að ekki hefði þurft að klofast yfir vírinn, hann hafi verið í ca. hnéhæð. Stefnandi hafi verið búinn að lyfta öðrum fæti yfir vírinn en krækt hinum í og fallið við það.

Við aðalmeðferð málsins bar Jóhann Bæring að hann hefði séð stefnanda hrasa á togvírnum sem var fyrir aftan togspilið þegar hann kom upp.

Eins og hér hefur verið rakið er visst misræmi í frásögnum þeirra stefnanda og vinnufélaga hans í skýrslugjöf þeirra fyrir lögreglu og hér fyrir dómi en þegar framburðir og atvik málsins eru virt þykir bera að leggja til grundvallar að stefnandi hafi gengið á vírinn.

Hvorugur þeirra Helga eða Jóhanns vissi hvaða leið stefnandi hafði farið niður í skipið en fram kom hjá Jóhanni að maður færi bakborðsmegin ef ætlunin væri að fara og ná í vélstjóra.

Fram kom við skýrslutökur þessar að umræddur vír hafi verið í 1-2 metra fjarlægð frá dyrunum sem stefnandi var að koma inn úr.

Fram er komið að fyrir slysið, sem málið er af risið, hafði stefnandi unnið ásamt vinnufélögum sínum, starfsmönnum Vélsmiðjunnar Þryms hf., að miklum breytingum í togaranum Bessa ÍS-410. Sú vinna tók um 9 vikur. Þegar því verki var lokið var farið í prufusiglingu á skipinu til þess að reyna nýja vinnslulínu. Í þeirri ferð brotnaði spilbremsa og var skipinu siglt til Súðavíkur til viðgerðar. Vélstjórar tóku spilið í sundur. Þegar skipið kom til hafnar á Súðavík voru starfsmenn Vélsmiðjunnar Þryms, þeir stefnandi og vinnufélagar hans, Helgi Hjartarson og Jóhann Bæring Gunnarsson, sendir um borð í Bessa. Vélstjórar skipsins munu hafa sagt þeim stefnanda og vinnufélögum hans hvað þyrfti að gera. Þeir vinnufélagarnir tóku spilbremsu í land og fóru með á verkstæði á Ísafirði. Að því loknu fóru þeir með spilbremsuna um borð í skipið og héldu áfram verki sínu við að koma togspilinu í lag. Vélstjórar skipsins höfðu lagst til svefns þar sem þeir höfðu vakað nóttina áður. Þeir vinnufélagarnir áttu að láta vélstjórana vita þá er verkinu væri lokið. Eftir að stefnandi og félagar  hans höfðu unnið í u. þ. b. eina og hálfa klukkustund var verkinu lokið og fór stefnandi þá niður í stjórnklefa vélstjóra til þess að láta vélstjórana vita af því að verkinu væri lokið. Vélstjórarnir voru ekki í stjórnklefanum þar sem þeir voru enn sofandi. Síðan fór stefnandi í verkstæði skipsins, sem er á þilfari I stjórnborðsmegin og náði þar í smurkönnu.

Stefnandi og félagar hans unnu verk sitt á  þilfari II í skipinu á milli vindumótors og togspils stjórnborðsmegin, sbr. framlagðan uppdrátt af skipinu Bessa á dskj. 29. Stefnandi sagði að þá er hann fór niður til þess að hafa samband við vélstjórana hafi hann farið þvert yfir skipið og niður stigana bakborðsmegin og þá leið undir þilfar I og niður í stjórnklefa vélstjóra. Þaðan kvaðst stefnandi hafa farið í verkstæðið á þilfari I til þess að sækja smurkönnu og þaðan upp stigana stjórnborðsmegin á þilfar II. Þá er hann kom upp á þilfar II kvaðst hann hafa komið út um dyr sem sýndar eru  á ljósmyndum á dskj. 28. Það var fyrir framan þessar dyr sem stefnandi hrasaði um togvír sem lá líkt og fram kemur á ljósmyndunum á dskj. 28 í svona hnéhæð.

Stefnandi er einn til frásagnar um leið þá sem hann fór til þess að hitta vélstjórana. Þegar litið er til staðhátta í skipinu eins og þeir koma fram á framlögðum uppdrætti, en þar er stjórnklefi vélstjóra bakborðsmegin undir þilfari I en verkstæðið á þilfari I stjórnborðsmegin, þá er leiðin sem stefnandi lýsti eðlileg leið. Verður því lagt til grundvallar að þar sé rétt frá skýrt. Með vísan til þessa verður við það miðað að stefnandi hafi ekki séð togvírinn, sem hann datt um, á leið sinni niður í skipið.

Sá frágangur sem þarna var á togvírnum, þ.e. að hafa hann í ca. hnéhæð í eins til tæplega eins og hálfs meters fjarlægð frá dyrunum þar sem komið var upp á þilfarið stjórnborðsmegin, verður að teljast óforsvaranlegur og til þess fallinn að skapa hættu. Hér ber og til þess að líta að þarna var verið að kveðja til starfa í skipinu menn úr landi sem ekki voru skipverjar. Það var ekki í verkahring stefnanda og vinnufélaga hans að stjórna fyrirkomulagi á þilfari og þessi umbúnaður blasti ekki við þar sem vinnusvæði þeirra var. Umbúnaður þessi á togvírnum var líka ástæðulaus þar sem skipið var ekki á veiðum. Fram er komið að á þeim níu vikum sem stefnandi og vinnufélagar hans höfðu unnið í skipinu fyrir prufusiglinguna hafi þessi umbúnaður ekki verið viðhafður.

Dómurinn telur orsök slyss stefnanda hinn óforsvaranlega frágang á togvírnum. Á tjóni því sem hlaust af þessum frágangi ber stefndi ábyrgð, skv. 1. mgr. 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þar sem ekkert er fram komið um sérstaka óvarkárni stefnanda eða önnur atvik sem fella eigi ábyrgð á hann á hluta tjónsins verður felld óskipt bótaábyrgð á stefnda á tjóni stefnanda.

Það er ágreiningslaust að stefnandi hafi vegna slyssins hlotið varanlega örorku 35% og varanlegan miska 25%.

Kröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku, 5.962.247 kr., hefur ekki verið tölulega mótmælt og verður hún því tekin til greina. Sama er um kröfu stefnanda vegna varanlegs miska, 1.094.500 kr. Í greinargerð stefnda var gerður áskilnaður um rétt til athugasemda varðandi kröfu stefnanda um þjáningabætur 453.690 kr. Málið var dómtekið án þess að rökstudd mótmæli við þessum lið væru sett fram og verður krafa samkvæmt þessum lið því tekin til greina.

Ágreiningur er með aðilum um tímabundið atvinnutjón stefnanda. Stefndi telur að frá tímabundnu tjóni skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 beri að draga dagpeninga frá Tryggingamiðstöðinni hf., 233.435 kr., og slysalaun frá vinnuveitanda, Vélsmiðjunni Þrym hf., 1.538.522 kr.

Við endanlega kröfugerð stefnanda lækkaði stefnandi kröfu sína vegna greiddra launa á tímabili óvinnufærni um 1.109.163 kr. Lækkun þessi var af hálfu stefnanda rökstudd með því að samkvæmt skattframtali stefnanda vegna ársins 1996 hafi heildarlaun hans á árinu 1996 verið 2.429.912 kr. Laun stefnanda fyrir slys hafi verið 1.320.749 kr. og því hafi launagreiðslur til stefnanda eftir slys numið 1.109.163 kr..

Samkvæmt framlögðu skattframtali voru árslaun stefnanda 1995  2.186.869 kr. Það er óumdeilt að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi staðið í 18 mánuði. Miðað við tekjur ársins 1995 telur stefnandi tímabundið atvinnutjón sitt án tillits til mótframlags í lífeyrissjóð nema 3.280.304 kr. Frá fjárhæð þessari dregur stefnandi 373.632 kr. vegna dagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins og 1.109.163 kr. sem stefnandi telur stefnda hafa greitt á tímabili óvinnufærni. Stefndi telur að frá tímabundnu tjóni skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 beri að draga dagpeninga frá Tryggingamiðstöðinni hf., 233.435 kr., og slysalaun frá vinnuveitanda, Vélsmiðjunni Þrym hf., 1.538.522 kr.

Ekki verður séð af framlögðu skattframtali stefnanda vegna ársins 1996 hvaða laun hann fékk fyrir slysið 29. maí 1996 og hvað eftir slysið, en framtaldar árstekjur hans eru 2.429.912 kr. Lagðir hafa verið fram launaseðlar v/stefnanda frá Vélsmiðjunni Þrym hf. Einn seðillinn er fyrir tímabilið 20. maí 1996 til 26. sama mánaðar. Þar segir að laun alls séu 1.243.965 kr. Á launaseðli fyrir tímabilið 27. maí 1996 til 2. júní 1996 eru laun stefnanda 76.784 kr. Einn launaseðillinn ber áletrunina lokaseðill ’96. Þar eru heildarlaun tilgreind 2.429.912 kr. og veikindalaun 1.578.898. Þessi tilgreindu veikindalaun, 1.578.898 kr., passa ekki við það að heildarlaun stefnanda á árinu hafi verið 2.429.912 kr. fyrst laun stefnanda til 26. maí 1996 námu 1.243.965 kr. og laun stefnanda fyrir tímabilið 27. maí til 2. júní 1996 námu 76.784 kr.

Þessar tölur gefa til kynna að stefndi hafi greitt stefnanda í laun eftir slysið 1.109.163 kr. og verður við það miðað við niðurstöðu málsins.

Það virðist óumdeilt að stefnandi hafi fengið 233.435 kr. í dagpeninga úr slysatryggingu launþega sem vinnuveitandi stefnanda var með hjá Trygginga-miðstöðinni hf. Fjárhæð þessa ber samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að draga frá bótum vegna tímabundins atvinnutjóns.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að bætur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns séu réttilega ákveðnar 1.564.074  kr.

Af fjárhæð þessari ber stefnda að greiða 6% eða 93.844 kr. sem mótframlag í lífeyrissjóð. Að öðrum kosti telst tjón stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns ekki að fullu bætt.

Það er því niðurstaða dómsins að stefndi er dæmdur til þess að greiða stefnanda                   9.168.355 kr. (1.564.074 + 93.844 + 453.690 + 1.094.500 + 5.962.247) með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 31. maí 1996 til 23. apríl 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði málskostnað, 1.005.890 kr., sem renni í ríkissjóð. Málskostnaður stefnanda, 1.005.890 kr., þar  með talin þóknun talsmanns stefnanda, Karls Axelssonar hrl., 1.000.000 kr., greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar  hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, Hrafkell Guðjónsson stýrimaður og Róbert Dan Jensson stýrimaður.

Dómsorð:

Stefndi, Hraðfrystihúsið hf., greiði stefnanda, Gylfa Sigurðssyni, 9.168.653 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 31. maí 1996 til 23. apríl 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Heimilt er að höfuðstólsfæra áfallna vexti á tólf mánaða fresti í fyrsta skipti 31. maí 1997.

Stefndi greiði málskostnað, 1.005.890 kr., sem renni í ríkissjóð. Málskostnaður stefnanda, 1.005.890 kr., þar  með talin þóknun talsmanns stefnanda, Karls Axelssonar hrl., 1.000.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.