Hæstiréttur íslands

Mál nr. 704/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsgerð


                                     

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 704/2011.

 

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X og

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Y

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Matsgerð

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að Y og skipuðum verjanda hans yrði meinað að sækja fundi, sem dómkvaddur matsmaður í máli ákæruvaldsins á hendur þeim X og Y myndi efna til. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til þess að ekki væri unnt að útiloka að Y kynni að hafa hagsmuni af því að vera á matsfundi og að það gæti skipt máli fyrir undirbúning varnar hans í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðilinn X skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. desember 2011, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans X um að varnaraðilanum Y og skipuðum verjanda hans yrði meinað að sækja fundi, sem dómkvaddur matsmaður í máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðilunum myndi efna til. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess að dæmt verði að varnaraðilinn Y og skipaður verjandi hans „eigi ekki rétt á að vera viðstaddir matsfund né hafa önnur afskipti af framkvæmd mats hins dómkveðna matsmanns“.

Ákæruvaldið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn Y krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé unnt að útiloka að varnaraðilinn Y kunni að hafa hagsmuni af því að vera á matsfundi og að það geti skipt máli fyrir undirbúning varnar hans í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. desember 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, útgefinni 15. ágúst 2011, á hendur X, kt. [...], A, [...] og Y, kt. [...], B, [...]. Ekki er þörf á því samhengisins vegna að rekja hér nákvæmlega efni ákærunnar, en efni hennar er í megindráttum eftirfarandi:

Ákæran skiptist í tvo kafla, A og B. Í A kafla ákærunnar er ákærðu X einni gefin að sök tilgreind brot gegn lögum um dýravernd, lögum um búfjárhald o.fl., reglugerð um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki og reglugerð um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra. Nánar tiltekið er ákærðu gefið að sök að hafa á árinu 2011 vanrækt að tryggja góðan aðbúnað, meðferð og fóðrun sauðfjár á bænum A í [...], sem ákærða var umráðamaður og eigandi að, með hætti sem nánar er lýst í þremur ákæruliðum, merktum I, II og III.

Í B kafla ákærunnar er ákærðu X gefin að sök brot gegn sömu lögum og rakið er hér að framan, auk reglugerðar um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra. Nánar tiltekið er ákærðu gefið að sök að hafa frá byrjun árs 2011 til 7. apríl s.á. vanrækt að tryggja góðan aðbúnað, umhirðu og fóðrun um 70 sauðfjár, sem ákærða var ábyrgðarmaður og eigandi að. Meðákærða Y er gefin að sök hlutdeild í þeirri háttsemi ákærðu sem lýst er í þessum hluta ákærunnar, með því að hafa á umræddu tímabili veitt liðsinni í verki og tekið féð í sínar vörslur, án þess að geta veitt því húsaskjól né nægilegt hey eða það var af lélegum gæðum. Eru ætluð brot samkvæmt þessum hluta ákærunnar talin framin að B í [...].

Í ákæruskjali er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist, með vísan til 18. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., að ákærðu X verði bannað að eiga eða halda búfé.

Í þinghaldi 8. nóvember sl. var að kröfu skipaðs verjanda ákærðu X dómkvaddur matsmaður til að skoðunar og mats á annars vegar fjárhúsum og hlöðum á jörðinni A og hins vegar á inngirtu svæði og helli innarlega á jörðinni. Var bókað í þingbók um að matsmaður skyldi kynna verjendum beggja ákærðu, auk fulltrúa ákæruvalds, hvenær matsfundur fari fram.

Með bréfi, dags. 16. desember 2011, krafðist verjandi ákærðu X úrskurðar vegna ágreinings sem upp hafi komið í tengslum við framkvæmd matsins. Er þess þar krafist að úrskurðað verði um það „hvort meðákærði eigi rétt á að vera viðstaddur matið og skipta sér af því að öðru leyti“. Er vísað til 133. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, kröfunni til stuðnings.

Er einvörðungu sú krafa hér til umfjöllunar.

Af hálfu ákærða Y er þess krafist að framangreindri kröfu ákærðu X, um að honum og skipuðum verjanda hans verði meinuð þátttaka í matsfundi sem fram mun fara á jörðinni A á næstunni, verði hafnað. Tekur ákæruvaldið undir þá kröfu með ákærða Y.

I

Í beiðninni er til þess vísað að hinn 8. nóvember sl. hafi verið dómkvaddur matsmaður, að ósk verjanda ákærðu, til að meta tilteknar aðstæður á heimili hennar að A í [...]. Tilgangur matsins sé, eins og fram komi í matsbeiðni, að kanna aðstæður ætlaðra brota sem um sé fjallað í I. og II. lið í A kafla ákæru málsins.

Í matsbeiðni hafi þess verið óskað að verjanda ákærðu og sækjanda málsins yrði gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. Í þinghaldi þar sem dómkvaðning hafi farið fram hafi verið bókað að hinum dómkvadda matsmanni bæri, auk framangreindra, að tilkynna verjanda meðákærða, Y, um matsfund í málinu.

Í beiðninni kemur fram að ákærða leggist eindregið gegn því að meðákærði eða verjandi hans fái að vera viðstaddir skoðun matsandlagsins. Í tölvupóstbréfi ákærðu til verjanda síns frá 27. nóvember sl. árétti hún þessa afstöðu sína með orðunum: „Það kemur ekki til greina að C eða neinn frá [...] komi hingað vegna þess að þeir eru með mál fyrir [...] gegn mér. Við viljum ekki sjá þá hér.“ Muni ákærða með þessum orðum vera að vísa til tilgreinds einkamáls sem bíði aðalmeðferðar.

Í beiðninni er bent á að A kafli ákærunnar lúti einvörðungu að ákærðu X og meintur brotavettvangur sé jörðin A. B kafli ákærunnar beinist hins vegar gegn báðum ákærðu og þar sé meintur brotavettvangur að B í [...]. Það sem meta eigi séu aðstæður á A, vegna A kafla ákærunnar. Matið sé því meðákærða með öllu óviðkomandi og fráleitt að hann eigi nokkurra hagsmuna að gæta við það.

II

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, getur dómari úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar. Krafa sú sem hér er til umfjöllunar varðar ágreining sem upp er kominn í tengslum við framkvæmd mats sem til stendur að fari fram á jörðinni A, þar sem ákærða býr. Telst hún ekki of seint fram komin, enda þótt hún hafi ekki verið höfð uppi í því þinghaldi er bókað var í þingbók um dómkvaðningu matsmanns og hverjum matsmaðurinn skyldi tilkynna um matsfund.

Í XIX. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fjallað um matsgerðir. Samkvæmt ákvæðum þessa kafla er gert ráð fyrir því að „aðilar“ séu kvaddir á dómþing þar sem matsbeiðni er tekin fyrir og að matsmaður tilkynni „aðilum“ hvar og hvenær verði metið. Þá er gert ráð fyrir því að „aðilum“ sem viðstaddir séu matið, sé gefinn kostur á að tjá sig eftir þörfum um gögn sem matsmaður aflar sér til afnota við matið. Í fleiri ákvæðum kaflans ræðir um „aðila“ og aðkomu þeirra að framkvæmd mats, án nánari tilgreiningar eða afmörkunar á því hverjir teljist aðilar í skilningi þeirra.

Ákæruvaldið hefur höfðað mál þetta gegn báðum ákærðu í einni og sömu ákærunni og eiga þau því bæði aðild að málinu. Ákærða Y er einungis gefin að sök hlutdeild í brotum ákærðu X samkvæmt B kafla ákærunnar og ljóst er að matsgerð sú sem dómkvöddum matsmanni hefur verið falið að vinna lýtur einvörðungu að aðstæðum á jörðinni A, þar sem ætluð brot ákærðu X einnar eru talin framin samkvæmt ákæruliðum í A kafla hennar. Hvað sem því líður verður ekki fallist á það með ákærðu að hún eigi, sem matsbeiðandi, að ráða því hvort meðákærða verði gefinn kostur á að fylgjast með mati því sem til stendur að fari fram á næstunni á jörð hennar, enda er hér um sakamál að ræða, sem ekki lýtur sömu lögmálum um málsforræði aðila og almenn einkamál. Enda þótt matsgerð matsmannsins komi ekki til með að snúa að aðstæðum á jörðinni B þykir engan veginn unnt að útiloka það á þessu stigi málsins að meðákærði kunni að hafa hagsmuni af því að fylgjast með og koma á framfæri athugasemdum sínum við framkvæmd mats á jörðinni A, enda eru sakarefnin samkvæmt bæði A og B köflum ákærunnar samkynja og varða að mestu leyti sömu ákvæði laga og reglugerða.

Þá þykir ekki verða hjá því litið að þær ástæður sem ákærða hefur gefið fyrir kröfu sinni varða á engan hátt atvik máls þessa.

Af hálfu verjanda ákærðu var við flutning um kröfu þessa vísað til ákvæða Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 71. gr. hennar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Samkvæmt 3. mgr. 129. gr. laga nr. 88/2008 er þeim sem umráð hefur þess sem matsgerð lýtur að skylt að veita matsmanni aðgang að því, nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Af öðrum ákvæðum XIX. kafla laganna er, eins og áður var rakið, gert ráð fyrir aðkomu aðila máls að framkvæmd mats, m.a. því að þeir séu viðstaddir er mat fer fram. Verður ákærða að sæta þeirri takmörkun á friðhelgi einkalífs og heimilis sem löggjafinn hefur mælt fyrir um með ákvæðum XIX. kafla laga nr. 88/2008, enda verður réttur manna til slíkrar friðhelgi takmarkaður með lögum, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er ljóst að matsandlagið er fjárhús, hlöður og tilgreint svæði á jörð ákærðu en ekki heimili hennar.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið þykja ekki efni til að taka til greina kröfu ákærðu X um að ákærða Y og skipuðum verjanda hans verði meinuð þátttaka í matsfundi sem fram mun fara á næstunni að A í [...] og verður þeirri kröfu því hafnað.                

Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærðu X um að ákærða Y og skipuðum verjanda hans, C hrl., verði meinuð þátttaka í matsfundi sem fram mun fara á næstunni að A í [...].