Hæstiréttur íslands

Mál nr. 857/2016

Procar ehf. og Vörður tryggingar hf. (Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
Marínu Elíasdóttur (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður

Reifun

P ehf. og V hf. kærðu úrskurð héraðsdóms og kröfðust þess að málskostnaðurinn sem þeim var gert að greiða yrði lækkaður. Í dómi Hæstaréttar var m.a. litið til þess að málið, sem rekið var sem skaðabótamál M á hendur P ehf. og V hf., hefði verið höfðað sem viðurkenningarmál og hefði engin gagnaöflun farið fram um fjártjón eða miska M fyrir málshöfðunina. Þá hefði M ekki lagt fram nein yfirlit um tíma eða reikninga vegna lögmannsþóknunar vegna starfa lögmannsins sem gætt hefði hagsmuna hennar á fyrri stigum. Loks lá fyrir að V hf. hafði greitt allan útlagðan kostnað M vegna matsins, þ.m.t. þóknun matsmanna. Með tilliti til framangreinds, umfangs málsins og þeirra gagna sem aflað hefði verið, svo og þess að málið hefði verið tekið fyrir alls 11 sinnum í héraði, var talið að lækka bæri málflutningsþóknunina úr 1.500.000 krónum í 1.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2016 þar sem sóknaraðilum var gert að greiða 1.500.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að dæmdur málskostnaður í héraði verði lækkaður. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili lenti í umferðarslysi 19. febrúar 2010 er bifreið í eigu sóknaraðilans Procar ehf. var ekið aftan á kyrrstæða bifreið við umferðarljós en hún var ökumaður bifreiðarinnar. Bifreiðin sem olli árekstrinum var vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá sóknaraðilanum Verði tryggingum hf. Varnaraðili taldi sig hafa orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn og leitaði læknis daginn eftir slys. Hún leitaði síðar til lögmanns, sem mun hafa ritað kröfubréf um skaðabætur til sóknaraðilans Varðar trygginga hf. er félagið svaraði með bréfi 21. október 2011, þar sem kröfunni var hafnað á þeirri forsendu að ólíklegt væri og ósannað að varnaraðili hefði orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn. Varnaraðili skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem kvað upp úrskurð 20. nóvember 2012, þar sem talið var að varnaraðili ætti ekki rétt til bóta úr hendi sóknaraðila. Varnaraðili höfðaði mál á hendur sóknaraðilum 17. desember 2014 og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna líkamstjónsins sem hún hafi hlotið í umferðarslysinu. Sóknaraðilar kröfðust frávísunar málsins vegna ætlaðrar vanreifunar þess og eftir að málið hafði verið flutt um þann þátt var kveðinn upp úrskurður 8. júlí 2015, þar sem frávísunarkröfunni var hafnað. Sóknaraðilar kröfðust til vara sýknu. Varnaraðili óskaði dómkvaðningar matsmanna 25. ágúst 2015 og fór hún fram degi síðar. Matsgerð er dagsett 28. janúar 2016 og var niðurstaða matsmanna að varanlegur miski varnaraðila vegna slyssins væri 8 stig og varanleg örorka 8%. Matsgerðin var lögð fram í þinghaldi 9. mars 2016. Næst var haldið þing í málinu 7. apríl sama ár og þá bókað að málinu væri frestað ótiltekið. Í þinghaldi 29. nóvember 2016 lýsti varnaraðili því yfir að búið væri að greiða kröfu hennar og útlagðan kostnað. Óskaði hún eftir því að málið yrði fellt niður en krafðist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Þeir andmæltu ekki niðurfellingu málsins en mótmæltu fjárhæð málskostnaðarkröfu varnaraðila. Var sá ágreiningur tekinn til úrskurðar og hafa sóknaraðilar skotið þeim úrskurði til Hæstaréttar til endurskoðunar.

Fyrir Hæstarétti er einungis deilt um þann málskostnað, sem sóknaraðilum var gert að greiða með hinum kærða úrskurði.

Í 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 segir að til málskostnaðar teljist, auk tilgreinds útlagðs kostnaðar, kostnaður af flutningi máls og annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli. Af gögnum málsins, meðal annars tjónskvittun sóknaraðilans Varðar trygginga hf. og málskostnaðaryfirlitum varnaraðila, liggur fyrir að sóknaraðilar hafa greitt að fullu útlagðan kostnað varnaraðila vegna málsins, samtals 678.011 krónur. Er sá kostnaður ekki hluti af þeim málskostnaði sem ákveðinn var í hinum kærða úrskurði.

Meðal gagna málsins eru tvö yfirlit lögmanns varnaraðila um þann tíma sem hann kveðst hafa varið til gæslu hagsmuna umbjóðanda síns í málinu. Hið fyrra nær til 7. apríl 2016 og eru þar tilgreindir 65,25 unnir tímar, en hið síðara til 29. nóvember sama ár og eru þar tilgreindir 93,75 unnir tímar.

Við ákvörðun málskostnaðar verður að líta til þess að málið var höfðað sem viðurkenningarmál og engin gagnaöflun hafði þá farið fram um fjártjón eða miska varnaraðila, þótt aflað hefði verið læknisvottorða. Þá verður að líta til þess að sóknaraðilar kröfðust frávísunar og var málið flutt um þá kröfu, auk þess sem varnaraðili óskaði með réttu eftir dómkvaðningu matsmanna og sinnti gagnaöflun vegna þess. Varnaraðili naut í upphafi aðstoðar annars lögmanns en þess sem rak héraðsdómsmálið fyrir hana. Gætti sá lögmaður hagsmuna hennar fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og sýnist hafa aflað ýmissa gagna um orsök slyssins og áverka varnaraðila. Ekki liggur fyrir að varnaraðili hafi orðið fyrir kostnaði vegna starfa þess lögmanns en ekkert yfirlit um unna tíma, reikningur vegna lögmannsþóknunar eða kvittun fyrir greiðslu hans hefur verið lögð fram í tilefni þeirrar aðstoðar. Varnaraðili hefur því ekki sannað að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna starfa þess lögmanns sem hún geti krafið sóknaraðila um í formi málskostnaðar. Með tilliti til umfangs málsins og þeirra gagna sem aflað hefur verið, framangreindra atriða og þess að alls var þingað ellefu sinnum í málinu er málskostnaður varnaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.  

Dómsorð:

Sóknaraðilar, Procar ehf. og Vörður tryggingar hf., greiði varnaraðila, Marínu Elíasdóttur, 1.000.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2016.

Mál þetta, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, af Marínu Elíasdóttur, kt. 090760-4599, Hjallavegi 1, 104 Reykjavík, með stefnu birtri 17. desember 2014 á hendur Procar ehf., kt. 670709-1830, Skúlagötu 13, 101 Reykjavík, og Verði tryggingum hf., kt. 441099-3399, Borgartúni 25, 105 Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi skaðabótaskylda stefndu vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi þann 19. febrúar 2010, þegar bifreiðinni KJ-975 var ekið aftan á bifreið stefnanda, TJ-263.

Við fyrirtöku málsins þann 29. nóvember sl. óskaði lögmaður stefndu formlega eftir því að málið yrði fellt niður en sú afstaða hafði komið fram 7. apríl sl.

Lögmaður stefnanda krafðist þess að stefndu yrði, in solidum gert að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál auk virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefnandi væri ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Þá krafðist lögmaður stefnanda þess að stefndu yrði einnig gert að greiða lögmannsþóknun Bryndísar Guðmundsdóttur hdl. vegna vinnu hennar við þetta mál á fyrri stigum, og að dómurinn mæti þá fjárhæð að ályktum.

Stefndu mótmæltu framkomnum málskostnaðarkröfum sem allt of háum. Fór fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins þann 29. nóvember sl.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 105. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er mál þetta fellt niður.

Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi frá innanríkisráðuneytinu þann 5. febrúar 2014, sem takmarkað er við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Upplýst er að útlagður kostnaður hafi verið greiddur að fullu.

Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga, nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu gert að greiða óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Ekki þykja efni til að ákvarða málskostnað með hliðsjón af c. lið 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns stefnanda, Bjarna Hólmars Einarssonar hdl, sem telst hæfilega ákveðin 1.300.000 og þóknun Bryndísar Guðmundsdóttur hdl. vegna vinnu hennar á fyrri stigum málsins, sem telst hæfilega ákveðin 200.000 krónur, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Mál þetta er fellt niður.

      Stefndu, Vörður tryggingar hf. og Procar ehf., greiði samtals 1.500.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

      Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Marínar Elíasdóttur greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns hennar, Bjarna Hólmars Einarssonar hdl, 1.300.000 krónur og þóknun Bryndísar Guðmundsdóttur hdl, 200.000 krónur.