Hæstiréttur íslands

Mál nr. 191/2004


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004.

Nr. 191/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Heimi Jakobi Þorfinnssyni

(Ólafur Garðarsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar.

H var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Hafði H sex sinnum áður hlotið dóm fyrir slík brot. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð, en til vara að hún verði skilorðsbundin.

Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 31. janúar 2004 og þannig brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði hefur sex sinnum áður hlotið dóm fyrir slík brot, síðast 15. mars 2001 þegar Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, en með honum var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 14 mánuði. Með þeim dóm var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið tvívegis undir áhrifum áfengis og án ökuréttar. Jafnframt var sex mánaða skilorðbundin fangelsisrefsing samkvæmt dómi frá 18. mars 1999 tekin upp og dæmd með. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Heimir Jakob Þorfinnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. mars 2004.

Málið höfðaði lögreglustjórinn í Kópavogi með ákæru útgefinni 12. mars 2004 á hendur ákærða, Heimi Jakobi Þorfinnssyni, kt. [...], [...], „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa að kvöldi laugardagsins 31. janúar 2004, ekið bifreiðinni RU-042, sviptur ökurétti, vestur Arnarnesveg í Garðabæ, uns akstur hans var stöðvaður við Reykjanesbraut.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 82,1998, og 57,1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er með þeirri játningu, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærði er nú dæmdur í sjötta sinn fyrir akstur sviptur ökuréttindum.  Litið er til þess að um endurtekna ítrekun brota af sama tagi er að ræða. Þykir heildarrefsing samkvæmt dómvenju hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. 

Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Heimir Jakob Þorfinnsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.