Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2008. |
|
Nr. 36/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X og (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.) Y(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi. Sératkvæði.
Með dómi Hæstaréttar 13. desember 2007 í máli nr. 244/2007 var málsmeðferð í máli, sem Á hafði höfðað til refsingar á hendur X, Y og fleirum, ómerkt vegna ágalla sem talin var á túlkun framburðar vitna við aðalmeðferð þess. Í kjölfar dómsins rituðu héraðsdómararnir sem hlut áttu að máli Hæstarétti bréf. Kröfðust X og Y þess að viðkomandi dómarar vikju sæti við endurtekna meðferð málsins og var þeirri beiðni hafnað með hinum kærða úrskurði. Í dómi Hæstaréttar var áréttað að þegar tekin sé afstaða til hæfis héraðsdómara málsins verði að hafa í huga að athugasemdir þeirra hafi ekki verið sendar Hæstarétti í tilefni af kæru eða áfrýjun máls, sbr. 1. mgr. 145. gr. laga nr. 19/1991, heldur eftir að rétturinn hafði dæmt í málinu og ómerkt héraðsdóm og lagt fyrir dómarana að taka málið til meðferðar að nýju. Eins og hér stæði á þætti mega fallast á það með X og Y að ummæli héraðsdómaranna í fyrrnefndu bréfi um framgöngu verjenda fyrir Hæstarétti geti gefið varnaraðilum ástæðu til að draga óhlutdrægni dómaranna í efa. Var því fallist á að dómararnir vikju sæti í málinu með vísan til 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2008. Barst málið Hæstarétti 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2008 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Ingveldur Einarsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Pétur Guðgeirsson, héraðsdómarar, vikju sæti í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðilum og fleirum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að framangreindir dómarar víki sæti í málinu. Þá krefst varnaraðili X kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I.
Með ákæru 5. maí 2006 höfðaði sóknaraðili opinbert mál á hendur varnaraðilum og fleiri mönnum þar sem ákærðu voru sakaðir um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur í máli þessu gekk 30. janúar 2007. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds. Í málflutningi fyrir Hæstarétti héldu verjendur ákærðu því fram að framburður vitna á íslensku hefði ekki verið túlkaður fyrir ákærðu, hvorki jafnhliða skýrslugjöf né í lok hennar. Þar sem í þingbók var einungis bókað í upphafi þinghalds að nafngreindur túlkur væri þar mættur til að túlka fyrir ákærðu skýrslur vitna þótti ekki verða séð að skýrslur vitna á íslensku hefðu verið þýddar fyrir sakborninga, hvorki jafnóðum né að þeim loknum og er þar á meðal skýrsla af kæranda málsins. Með dómi Hæstaréttar 13. desember 2007 í máli nr. 244/2007 var málsmeðferð að þessu leyti talin í andstöðu við e. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttamála Evrópu, héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju og endurtaka þær skýrslur vitna sem fram fóru á íslensku til þess að þær yrðu túlkaðar fyrir ákærðu.
Af ofangreindu tilefni rituðu héraðsdómarar málsins Hæstarétti bréf 4. janúar 2008 og segir þar að sú „fullyrðing verjenda ákærða fyrir Hæstarétti að skýrslur vitna á íslensku hafi ekki verið þýddar fyrir sakborninga [sé] röng, þar sem túlkur sá sem fenginn [hafi verið] til verksins við síðari aðalmeðferð málsins [hafi túlkað] framburð vitna yfir á taílensku fyrir ákærðu.“ Þá kemur fram að vegna fullyrðinga verjenda fyrir Hæstarétti hafi dómsformaður innt túlk þann, sem fenginn var til að túlka fyrir ákærðu við síðari aðalmeðferð, eftir því hvort hann teldi sig hafa túlkað eingöngu fyrir ákærðu úr taílensku á íslensku, eða hvort hann hefði einnig túlkað framburð íslenskumælandi vitna yfir á taílensku fyrir ákærðu. Með bréfi dómaranna fylgdi bréf túlksins og kemur þar fram að hann hafi túlkað úr íslensku á taílensku fyrir ákærðu, jafnhliða skýrslugjöf vitnanna. Í bréfi dómaranna er ennfremur tekið fram að þegar túlkað hafi verið fyrir ákærðu það sem vitni báru fyrir dóminum, hafi túlkur setið með þeim á áheyrendabekk, til hliðar við verjendur ákærðu, en gengt dómrunum. Hafi verjendur því tæpast getað fylgst jafn vel með því sem þar fór fram og dómarar málsins.
Verjendur varnaraðila í máli nr. 244/2007, sem dæmt var í Hæstarétti 13. desember 2007, skrifuðu réttinum bréf 8. og 11. janúar 2008 þar sem bréfi héraðsdómaranna er mótmælt. Í bréfi verjanda X er á það bent að rætt hafi verið við fyrrnefndan túlk og eftir honum haft að „hann hefði við aðalmeðferðina verið að reyna að hvísla að þeim ákærðu sem næst honum sátu.“ Af hálfu verjanda Y var mótmælt aðdróttunum um að hann hefði farið með rangt mál fyrir Hæstarétti um framkvæmd túlkunar í héraði.
II.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði reisa varnaraðilar kröfuna um að héraðsdómarar málsins víki sæti á 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu ákæruvaldsins er kröfunni mótmælt.
Af hálfu varnaraðila hefur meðal annars verið bent á að ekki verði séð í hvaða tilgangi bréf héraðsdómaranna 4. janúar 2008 til Hæstaréttar hafi verið skrifað þar sem það hafi enga réttarfarslega þýðingu. Í bréfinu komi fram fullyrðing um að verjendur varnaraðila hafi farið með rangt mál fyrir Hæstarétti. Af bréfinu verði einnig dregin sú ályktun að héraðsdómararnir telji að túlkun á framburðum vitna á íslensku við aðalmeðferð málsins hafi verið fullnægjandi þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í málinu. Hafi héraðsdómararnir þannig í raun tekið afstöðu til þess að frekari skýrslutökur fyrir héraðsdómi séu óþarfar og muni ekki leiða til breyttrar niðurstöðu málsins.
Þegar tekin er afstaða til hæfis héraðsdómara málsins verður að hafa í huga að athugasemdir þeirra voru ekki sendar Hæstarétti í tilefni af kæru eða áfrýjun máls, sbr. 1. mgr. 145. gr. laga nr. 19/1991, heldur eftir að rétturinn hafði dæmt í málinu og ómerkt héraðsdóm og lagt fyrir dómarana að taka málið til meðferðar að nýju. Eins og hér stendur á þykir mega fallast á það með varnaraðilum að ummæli héraðsdómaranna í fyrrnefndu bréfi um framgöngu verjenda fyrir Hæstarétti geti gefið varnaraðila ástæðu til að draga óhlutdrægni dómaranna í efa. Verður því fallist á að dómararnir víki sæti í málinu með vísan til 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Ingveldur Einarsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Pétur Guðgeirsson héraðsdómarar víkja sæti í málinu.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðilar byggja kröfu sína meðal annars á því að héraðsdómararnir hafi tekið afstöðu til sektar þeirra er þeir kváðu upp dóm í málinu 30. janúar 2007, sem ómerktur var með dómi Hæstaréttar 13. desember 2007. Séu því fyrir hendi atvik sem séu til þess fallin að draga óhlutdrægni dómaranna í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Þegar héraðsdómur í opinberu máli er ómerktur í Hæstarétti vegna galla á málsmeðferð og svo mælt fyrir að endurtaka skuli sönnunarfærslu við aðalmeðferð máls, tel ég að við hina nýju meðferð þurfi að vera fullnægt lagaskilyrðum um hlutleysi dómara á sama hátt og nauðsynlegt var við hina fyrri meðferð. Mörg dæmi er að finna úr dómaframkvæmd Hæstaréttar, þar sem dómara hefur verið talið skylt að víkja sæti ef hann telst hafa tekið afstöðu til sakarefnis eða málsaðila áður en að því kemur að fella dóm á mál. Vísast til sératkvæðis Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara í hæstaréttarmáli nr. 567/2006, sem dæmt var 22. nóvember 2006, þar sem dæmi um þetta eru nefnd.
Í 6. gr. laga nr. 19/1991 er kveðið svo á að dómari skuli víkja sæti í opinberu máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, í gæsluvarðhald skv. 2. mgr. 103. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði er eitt af skilyrðum gæsluvarðhalds að dómari telji að „sterkur grunur“ sé um að kærður maður hafi framið það brot sem er tilefni gæsluvarðhaldskröfu. Er ljóst að nefnt ákvæði 6. gr. byggist á því, að hlutlaus málsmeðferð sé ekki tryggð ef dómari, sem hefur tekið slíka afstöðu til sakarefnis fyrir útgáfu ákæru, á jafnframt að dæma í málinu. Við aðstæður á borð við þær sem hér eru uppi hefur héraðsdómari gert meira en að lýsa yfir líklegri niðurstöðu máls eða telja aðeins sterkan grun vera fram komin fyrir sekt varnaraðila. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að færð hafi verið fram lögfull sönnun fyrir sekt sakaðs manns og verði hún ekki vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991. Það er því mun ríkari ástæða til þess að héraðsdómari, sem svona stendur á um, víki sæti í máli en sá sem kveðið hefur upp úrskurð um gæsluvarðhald á þeirri forsendu að sterkur grunur sé fram kominn um sekt sakbornings. Samkvæmt þessu tel ég að héraðsdómarar í máli þessu hafi, er þeir kváðu upp dóm sinn 30. janúar 2007, tekið slíka efnislega afstöðu til sakarefnis málsins að telja verði að fyrir hendi séu aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni þeirra með réttu í efa þegar málið kemur til aðalmeðferðar á ný, sbr. nefnd lagaákvæði.
Með framangreindum röksemdum er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómara.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2008.
Með ákæru 5. maí 2006 höfðaði Ríkissaksóknari opinbert mál á hendur ákærðu, X, A, Y, B, C og D. Er þeim í ákæru gefið að sök brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1009. Héraðsdómur í máli þessu gekk 30. janúar 2007. Dómur Hæstaréttar í málinu féll 13. desember 2007, en með dóminum var héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju og endurtaka þær skýrslu vitna sem fram fóru á íslensku til þess að þær verði túlkaðar fyrir ákærðu.
Í kjölfar hæstaréttardómsins sendu dómarar málsins Hæstarétti bréf, þar sem segir orðrétt m.a.: ,,Sú fullyrðing verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti að skýrslur vitna á íslensku hafi ekki verið þýddar fyrir sakborninga er röng, þar sem túlkur sá sem fenginn var til verksins við síðari aðalmeðferð málsins túlkaði framburð vitna yfir á taílensku fyrir ákærðu “...
Af hálfu ákæruvalds var í þinghaldi í dag fallið frá ákærum á hendur ákærðu A, D og C.
Til þinghalds var boðað í málinu í dag og kröfðust ákærðu, X og Y, þess að dómarar málsins vikju sæti. Af hálfu ákærða B var því lýst yfir að hann tæki ekki undir kröfuna. Af hálfu ákæruvaldsins var kröfunni mótmælt.
Kröfu sína um dómarar víki sæti byggir ákærða, X, á 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og bendir á að dómarar málsins hafi þegar tekið afstöðu til sönnunargagna málsins, þar með talið munnlegs framburðar og komist að niðurstöðu um sekt ákærðu. Þá hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið gætt áskilnaðar 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð í þeirri dómsúrlausn. Við þær aðstæður sérstaklega telji ákærða sig hafa rökstudda ástæðu til að ætla að sömu dómarar séu vart líklegir til að líta málið öðrum augum öðru sinni, en markmiðið með endurtekinni aðalmeðferð geti vart átt að vera formsatriði og sýndarflutningur, heldur hljóti að felast í efnislegum rétti til nýrrar meðferðar, þar sem lagt sé að nýju mat á sekt að gættum öllum réttindum ákærðu. Að síðustu bendir ákærða á, að í ljósi bréfs héraðsdómara sem ritað sé til Hæstaréttar Íslands að gengnum dómi Hæstaréttar sé af hálfu ákærðu talið að ákærða hafi réttmæta ástæðu, þegar af þeirri ástæðu, til að álíta að hún muni ekki fá réttláta málsmeðferð í endurtekinni aðalmeðferð af hálfu sömu dómara. Í nefndu bréfi sé fullyrt að ,,farið hafi verið með rangt mál af hennar hálfu í málflutningi fyrir Hæstarétti. Sakborningur sem borinn er þeim sökum af hálfu dómara að segja ósatt til um atvik máls er snúa að dómurum hefur réttmæta ástæðu til þess að þeir dómarar sem bera hann þeim sökum séu ekki óvilhallir í málsmeðferðinni.“
Verjandi ákærða, Y, tekur undir framangreind sjónarmið verjanda ákærðu, X.
Niðurstaða.
Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Dómur í máli þessu var ómerktur í Hæstarétti og vísað heim í hérað einvörðungu til þess að endurtaka mætti skýrslur vitna sem fram fóru á íslensku. Verður af því ráðið að sömu dómurum er ætlað að dæma málið aftur, enda í samræmi við áralanga dómaframkvæmd.
Verður því háð ný aðalmeðferð þar sem endurteknar verða skýrslur sem fram fóru á íslensku og munu þær verða túlkaðar á tælensku. Að því loknu gefst ákærðu kostur á að tjá sig um þær skýrslur. Munu dómarar taka á ný afstöðu til munnlegs framburðar og leggja að nýju mat á sekt ákærðu að gættum öllum réttindum ákærðu.
Í fyrrgreindu bréfi dómara málsins til Hæstaréttar, sem getið er í rökstuðningi ákærðu fyrir því að dómarar víki sæti í málinu, er ekki vikið að því einu orði að ákærðu hafi sagt ósatt til um atvik máls er snúa að dómurum. Einungis er sagt að sú fullyrðing verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti að skýrslur vitna á íslensku hafi ekki verið þýddar fyrir sakborninga sé röng, enda liggur fyrir yfirlýsing túlks um að hann hafi túlkað fyrir ákærðu vitnaskýrslur sem fram fóru á íslensku. Þess er jafnframt getið í bréfinu að verjendur hafi tæpast getað séð hvað fram fór hjá túlki, þar sem hann sat á áheyrendabekkjum með ákærðu og því ekki haldið fram í bréfi þessu að verjendur ákærðu hafi vísvitandi farið með rangt mál.
Þegar allt framangreint er virt eru engin atvik eða aðstæður í máli þessu, sem til þess eru fallin að draga óhlutdrægni dómara málsins með réttu í efa.
Kröfu ákærðu um að dómarar málsins víki sæti er því hafnað.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ingveldur Einarsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Pétur Guðgeirsson víkja ekki sæti í málinu.