Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2017

Naust Marine ehf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Gunnari Hrafni Hall (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Stéttarfélag
  • Laun
  • Viðbótarkrafa
  • Tómlæti

Reifun

G, sem var verkfræðingur að mennt, starfaði hjá N ehf. frá september 2012 til júlí 2015. Við starfslok kom upp ágreiningur milli aðila um tiltekna þætti í starfskjörum G á ráðningartímanum en aðilar deildu m.a. um hvaða kjarasamningur skyldi gilda um þau. Höfðaði G mál og krafði N ehf. um greiðslu vegna vangoldinnar desember- og orlofsuppbótar, viðbótargreiðslu fyrir svonefndar bakvaktir og greiðslu vegna réttar til vikulegs frídags og kjarasamningsbundins frítökuréttar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Stéttarfélags verkfræðinga og fleiri hafi gilt um starfskjör G að því marki sem ekki hefði verið réttilega frá honum vikið í ráðningarsamningi. Þá var jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um að G ætti rétt til greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2015 og orlofsuppbótar sem og vegna vangoldinna frídaga og brota gegn frítökurétti. Að því er varðaði svonefndar bakvaktir sem G stóð ásamt fleirum frá síðla árs 2012 til mars 2014 er þær voru aflagðar, sagði Hæstiréttur að G hefði athugasemdalaust tekið við greiðslum fyrir vaktirnar. Lægi ekkert fyrir um að hann hefði síðar á starfstímanum látið að því liggja að hann hygðist hafa uppi viðbótarkröfu vegna þessa. Honum hefði verið kunnugt um að framkvæmdastjóri N ehf. leit ekki svo á að um eiginlegar bakvaktir væri að ræða og að engum starfsmanni hefði verið skylt að sinna þeim. Þá hefði G ekki getið þess á fundi með framkvæmdastjóranum við starfslok að hann teldi sig ekki hafa fengið að fullu greitt fyrir vaktirnar. Hefði G mátt vera það ljóst að miðað við þann kjarasamning sem hann taldi að gilti um starfskjör sín, svo sem staðfest var í Hæstarétti, gæti hann átt kröfu um viðbótargreiðslu, auk þess sem hann hlyti að hafa vitað að N ehf. taldi sig hafa greitt að fullu fyrir þessa vinnu. Var krafa G hvað þetta varðaði því talin niður fallin fyrir tómlætis sakir og N ehf. sýknað af henni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að krafan verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi upphaflega fyrir sitt leyti 22. ágúst 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu gagnsakar 20. september sama ár og gagnáfrýjaði hann öðru sinni 28. sama mánaðar. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 3.550.844 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. október 2012 til 31. júlí 2015, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi réðst gagnáfrýjandi, sem er verkfræðingur að mennt, til starfa hjá áfrýjanda í september 2012. Skriflegur ráðningarsamningur var fyrst gerður 15. janúar 2013. Þar sagði um starfssvið gagnáfrýjanda: ,,Aðal verkefnin verða: Verkefnastjórn, hönnun, forritun, prófanir og startup ásamt öðrum tengdum verkefnum í tæknideild fyrirtækisins.“ Í 4. grein samningsins var fjallað um laun og launabreytingar og kom þar fram að mánaðarlaun gagnáfrýjanda skyldu frá 31. desember 2012 vera 501.975 krónur og þau skyldu taka sömu breytingum og um væri samið í ,,gildandi kjarasamningi VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma.“ Í niðurlagi samningsins sagði að um starfskjör gagnáfrýjanda gilti að öðru leyti en tilgreint væri í samningnum ,,kjarasamningur VFÍ og viðsemjenda“.

Í skýrslu gagnáfrýjanda fyrir dómi lýsti hann því að um tveimur mánuðum eftir ráðningu hafi hann byrjað að taka svonefndar bakvaktir sem falist hafi í því að hann hafi ásamt sex eða sjö öðrum starfsmönnum skipt með sér að hafa símavakt utan vinnutíma í eina viku í senn. Hafi sá, sem vaktina stóð hverju sinni, fengið farsíma sem viðskiptavinir gátu hringt í til þess að fá nauðsynlega aðstoð sem ekki gat beðið. Í sumum tilvikum hafi verið unnt að leysa vanda viðskiptamanns í símtalinu, en í öðrum hafi þurft að sinna aðstoðinni frá skrifstofu aðaláfrýjanda eða jafnvel fara í útkall hér á landi eða í útlöndum. Í síðarnefndu tilvikunum mun öll vinna hafa verið greidd sérstaklega. Spurður um hve mikil vinna hafi fylgt þessum vöktum svaraði gagnáfrýjandi að það hefði verið misjafnt, allt frá því að aldrei hafi verið hringt í þeirri viku, sem um ræddi, upp í það að vera nokkur símtöl. Í skýrslu framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda fyrir dómi kom fram að upphaflega hafi þessu verið hagað þannig að viðskiptamenn hafi getað hringt í hvaða starfsmann tæknideildar sem var og hafi það ekki verið greitt sérstaklega þótt starfsmennirnir hafi verið ónáðaðir utan vinnutíma. Að ósk starfsmanna hafi þeirri skipan verið komið á, sem lýst hefur verið og ákveðin greiðsla fyrir. Hafi það verið til hagsbóta fyrir starfsmenn miðað við það sem áður hafði tíðkast. Engum hefði verið skylt að taka þessar vaktir og með þeim hafi einungis verið ætlunin að auka þjónustu við viðskiptamenn. Aðaláfrýjandi hefði ekki haft af þessu neinar tekjur, eins og önnur tilgreind fyrirtæki sem komið hafi upp bakvaktakerfi. Þetta hafi verið símavaktir, sem ekki hafi verið íþyngjandi fyrir starfsmenn. Gagnáfrýjandi kvað þetta fyrirkomulag hafa verið aflagt í byrjun árs 2014 og hafi ástæða þess verið óánægja í röðum starfsmanna um fyrirkomulag og greiðslur fyrir þessar vaktir. Samkvæmt framlögðum gögnum mun gagnáfrýjandi hafa síðast fengið greitt fyrir þessa vinnu 31. mars 2014. Á því ári tók gagnáfrýjandi við starfi þjónustustjóra hjá aðaláfrýjanda. Hann mun hafa sagt upp störfum í byrjun júlí 2015 og er ágreiningslaust að samkomulag hafi orðið um að síðasti vinnudagur hans yrði 3. sama mánaðar, en hann fengi greidd laun út þann mánuð. Við starfslok kvaðst gagnáfrýjandi hafa átt fund með framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda þar sem hann hafi upplýst að sér sýndist ,,vanta orlofsuppbót og jafnvel aftur í tímann“. Framkvæmdastjórinn hafi ekki samsinnt því þar sem kjarasamningur Félags ráðgjafaverkfræðinga, er gilt hafi um starfskjör gagnáfrýjanda, gerði ekki ráð fyrir slíkum greiðslum. Gagnáfrýjandi kvað þetta hafa verið í fyrsta sinn sem hann heyrði á þetta félag minnst. Niðurstaðan hafi orðið sú að hann myndi leita réttar síns og hafi hann í framhaldinu snúið sér ,,til VFÍ“. Kröfubréf gagnáfrýjanda var dagsett 30. maí 2016.

II

Aðaláfrýjandi samdi ráðningarsamning þann sem gagnáfrýjandi starfaði eftir. Tilvísun í þeim samningi um það hvaða kjarasamningur skyldi gilda um starfskjörin, að öðru leyti en því sem mælt var fyrir um í ráðningarsamningnum, var ekki fyllilega skýr og verður aðaláfrýjandi að bera hallann af því. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins, annars vegar og Stéttarfélags verkfræðinga og fleiri, hins vegar, hafi gilt um starfskjörin að því marki sem ekki var réttilega frá honum vikið í ráðningarsamningnum.

Krafa gagnáfrýjanda er í þremur liðum. Í fyrsta lagi krefst hann greiðslu á vangoldinni desember- og orlofsuppbót á ráðningartímanum. Í öðru lagi eigi hann rétt á viðbótargreiðslu fyrir svonefndar bakvaktir og í þriðja lagi hafi hann ekki fengið greitt vegna réttar til vikulegs frídags, auk þess sem aðaláfrýjandi hafi brotið gegn kjarasamningsbundnum frítökurétti hans.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að gagnáfrýjandi eigi rétt til greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2015, 52.338 krónur, og orlofsuppbótar, 101.493 krónur, en ómótmælt er að hann hafi við starfslok vakið athygli á því að þær greiðslur hefðu ekki verið inntar réttilega af hendi.

Að framan er lýst vinnu gagnáfrýjanda við það sem nefnt hefur verið bakvaktir eða símavaktir. Vegna óánægju í hópi starfsmanna sem sinntu vöktunum var þessi skipan felld niður í ársbyrjun 2014 og kvaðst framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda eftir það hafa sinnt þessu einn. Gagnáfrýjandi tók athugasemdalaust við greiðslum fyrir vaktirnar. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi síðar á starfstíma sínum hjá aðaláfrýjanda látið að því liggja að hann hygðist hafa uppi viðbótarkröfu vegna þessarar vinnu. Honum var þó kunnugt um að framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda leit svo á að ekki væri um eiginlegar bakvaktir að ræða og að engum starfsmanni hafi verið skylt að sinna vöktunum. Gagnáfrýjandi gat þess heldur ekki á fundi með framkvæmdastjóranum við starfslok í byrjun júlí 2015 að hann teldi sig ekki hafa fengið að fullu greitt fyrir vaktirnar. Það var fyrst með bréfi 30. maí 2016, um ellefu mánuðum eftir starfslok og tuttugu og sex mánuðum eftir að hann og aðrir starfsmenn hættu að ganga þessar vaktir, sem hann hafði uppi viðbótarkröfu. Ekkert liggur fyrir um að hann, sem sjálfur er verkfræðingur að mennt og gegndi frá árinu 2014 yfirmannsstarfi hjá aðaláfrýjanda, hafi ekki átt þess kost að hafa kröfuna fyrr uppi. Eins og fram er komið hefur verið fallist á afstöðu gagnáfrýjanda til þess hvaða kjarasamningur gilti um starfskjör hans. Honum mátti því vera ljóst frá upphafi að miðað við þann kjarasamning gæti hann átt kröfu um viðbótargreiðslu, auk þess sem hann hlaut að vita að aðaláfrýjandi taldi sig hafa greitt að fullu fyrir þessa vinnu. Þegar gagnáfrýjandi hafði uppi kröfu um viðbótargreiðslu 30. maí 2016 var hún samkvæmt framansögðu niður fallin fyrir tómlætis sakir og verður aðaláfrýjandi sýknaður af henni.

Krafa gagnáfrýjanda um vangoldna frídaga tekur til alls starfstíma hans hjá aðaláfrýjanda og krafa um greiðslu vegna brota á frítökurétti tekur til tímabilsins frá nóvember 2013 til maí 2015. Hann gerði á starfstíma sínum hjá aðaláfrýjanda ekki athugasemdir við að hann ætti rétt til viðbótargreiðslu vegna þessara atriða og gat heldur ekki um það á fundi með framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda við starfslok heldur setti kröfuna fyrst fram með bréfi 30. maí 2016. Þótt rétt hefði verið af gagnáfrýjanda að hafa strax uppi kröfu til að halda til haga kjarasamningsbundnum rétti sínum til þessara greiðslna leiðir það aðgerðarleysi hans þó ekki til þess að krafan að þessu leyti teljist niður fallin. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um þessa kröfuliði, verður niðurstaðan um þá staðfest.

Samkvæmt öllu framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 971.072 krónur. Vegna tómlætis gagnáfrýjanda um að tefla fram kröfu sinni verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um upphafstíma dráttarvaxta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest, en rétt er að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Naust Marine ehf., greiði gagnáfrýjanda, Gunnari Hrafni Hall, 971.072 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2016 til greiðsludags.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 20. mars 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar f.m. var höfðað 9. september 2016. 

Stefnandi er Gunnar Hrafn Hall, Furuási 5, Hafnarfirði.

Stefndi er Naust Marine ehf., Miðhellu 4, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 3.550.844 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 145.306 krónum frá 31. október 2012 til 30. nóvember 2012, af 190.076 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 208.032 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 230.417 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2013, af 526.999 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 705.193 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 932.299 krónum frá þeim degi til 30. júní sama ár, af 992.105 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, af 1.170.299 krónum frá þeim degi til 31. ágúst sama ár, af 1.308.622 krónum frá þeim degi til 30. september sama ár, af 1.486.816 frá þeim degi til 31. október sama ár, af 1.626.362 krónum frá þeim degi til 30. nóvember sama ár, af 1.727.650 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 1.779.750 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 2.016.527 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2014, af 2.385.611 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 2.619.220 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 2.870.703 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 2.899.403 krónum frá þeim degi til 30. júní sama ár, af 2.925.914 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, af 2.975.813 krónum frá þeim degi til 31. ágúst sama ár, af 2.979.661 krónu frá þeim degi til 31. október sama ár, af 3.004.611 krónum frá þeim degi til 30. nóvember sama ár, af 3.059.733 krónum frá þeim degi til 15. desember sama ár, af 3.133.333 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 3.183.232 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2015, af 3.267.561 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 3.343.644 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 3.394.366 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 3.484.588 krónum frá þeim degi til 31. maí sama ár, af 3.486.217 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, en af 3.550.844 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I

Stefndi rekur starfsemi á sviði framleiðslu á sérhæfðum búnaði fyrir fiskiskip. Stefnandi hóf störf sem verkfræðingur hjá stefnda í september 2012 og var skriflegur ráðningarsamningur gerður 15. janúar 2013. Í ráðningarsamningnum kom fram að stefnandi væri ráðinn til að sinna verkefnastjórn, hönnun, forritun, prófunum og „startup“, ásamt öðrum tengdum verkefnum í tæknideild fyrirtækisins. Samkvæmt ráðningar­samningnum var vikulegur vinnutími stefnanda 40 klukkustundir og daglegur vinnutími frá klukkan 8:00 til 16:00. Yfirvinnu skyldi stefnandi eingöngu vinna með samþykki yfirmanns. Í samningnum var samið um að mánaðarlaun stefnanda næmu 501.975 krónum. Tækju þau breytingum í samræmi við „gildandi kjarasamning VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma.“ Orlofstaka færi samkvæmt lögum um orlof. Í samningnum kom fram að um kjör stefnanda skyldi að öðru leyti en í samningnum greindi, gilda „kjarasamningur VFÍ og viðsemjenda“. Fyrir liggur að stefnandi tók á árinu 2014 við starfi þjónustustjóra hjá stefnda.

Óumdeilt er að um tveimur mánuðum eftir að stefnandi hóf störf hjá stefnda gekk hann inn í „bakvaktarfyrirkomulag“ í tæknideild stefnda sem fólst því að hafa meðferðis síma í eigu stefnda í viku í senn og svara símtölum viðskiptavina utan hefðbundins vinnutíma. Fyrir vikutímabil voru greiddar 30.000 krónur og aukalega 5.000 krónur fyrir helgi- og frídaga umfram venjulegar helgar. Símavaktin var lögð af á árinu 2014.

Stefnandi sagði starfinu upp í júlí 2015 og var síðasti vinnudagur hans 3. þess mánaðar. Við starfslok átti stefnandi fund með framkvæmdastjóra stefnda þar sem hann spurði meðal annars um uppgjör desember- og orlofsuppbóta. Var óuppgerðum kröfum hafnað og í því sambandi vísað til kjarasamnings Félags ráðgjafar-verkfræðinga. Í kjölfarið leitað stefnandi til Verkfræðingafélags Íslands. Með bréfi lögmanns stefnanda 30. maí 2016 var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda vangoldnar greiðslur vegna desember- og orlofsuppbóta, bakvaktargreiðslna, viðbótarfrítökuréttar stefnanda vegna sjö daga vinnuviku og frítökuréttar. Byggði krafan á því að ekki hefði verið gætt lágamarksréttinda stefnanda samkvæmt kjarasamningi Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Erindinu var svarað fyrir hönd stefnda með bréfi lögmanns hans 20. júní 2016 þar sem öllum framkomnum kröfum var hafnað og var sú afstaða stefnda áréttuð með bréfi 2. ágúst sama ár. 

II

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að í ráðningarsamningi aðila hafi verið vísað til kjarasamnings „VFÍ og viðsemjanda á hverjum tíma“. Byggir stefnandi á því að framangreint verði að túlka sem svo að um sé að ræða kjarasamninga Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, enda sé stefndi félagi í Samtökum iðnaðarins, aðila að Samtökum atvinnulífsins. Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skuli samningar um lakari kjör en koma fram í almennum kjarasamningum vera ógildir. Í þeim tilvikum sem stefnandi hafi sætt lakari kjörum hjá stefnda en mælt sé fyrir um í viðhlítandi kjarasamningi sé gerð krafa um bætur sem nemi því að kjarasamningsbundinna lágmarksréttinda hefði verið gætt. Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda til annarra greiðslna og réttinda sem kveðið sé á um í lögum og tilvísuðum kjarasamningi, enda séu þau lágmarksréttindi starfsmanns.

Kröfur stefnanda í málinu byggja í fyrsta lagi á því að stefnanda hafi samkvæmt launaseðlum hvorki verið greidd sérstök desember- né orlofsuppbót á ráðningartímanum. Þetta sé andstætt kjarasamningi Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem vísað hafi verið til í ráðningarsamningi, en samkvæmt ákvæði 1.5 í samningnum skuli starfsmenn fá desember- og orlofsuppbót greidda í samræmi við heildarkjarasamninga Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt heildarkjarasamningum Samtaka atvinnulífsins hafi desemberuppbót numið 50.500 krónum árið 2012, 52.100 krónum árið 2013, 73.600 krónum árið 2014 og 73.600 krónum árið 2015. Að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda á fyrsta og síðasta starfsári hjá vinnuveitanda, sem skerðir réttinn til desemberuppbótar með gjalddaga í desember 2012 og 2015, hafi stefnandi átt rétt til desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 195.993 krónur, úr hendi stefnda á starfstímanum. Vangreidd desemberuppbót sundurliðist þannig:

Gjalddagi

Fjárhæð

15. des. 2012

17.956 krónur

15. des. 2013

52.100 krónur

15. des. 2014

73.600 krónur

15. des. 2015

52.338 krónur

Samkvæmt heildarkjarasamningum Samtaka atvinnulífsins skyldi orlofsuppbót fyrir tímabilið maí 2012 til apríl 2013 nema samtals 27.800 krónum, 28.700 krónum fyrir tímabilið maí 2013 til apríl 2014, 39.500 krónum fyrir tímabilið maí 2014 til apríl 2015 og sömu upphæð fyrir tímabilið maí 2015 til apríl 2016. Að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda á fyrsta og síðasta starfsári hjá vinnuveitanda, sem skerðir hlutfallslega réttinn til orlofsuppbótar með gjalddaga í apríl 2013 og 2016, séu enn ógreiddar samtals 101.493 krónur vegna vangoldinnar orlofsuppbótar. Vangreidd orlofsuppbót sundurliðist þannig:

Gjalddagi

Fjárhæð

30. apr. 2013

21.004 krónur

30. apr. 2014

28.700 krónur

30. apr. 2015

39.500 krónur

30. apr. 2016

12.289 krónur

Í öðru lagi byggja kröfur stefnanda í málinu á því að samkvæmt kafla 2.5 í kjarasamningum Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins komi fram að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli. Fyrir hverja klukkustund á bakvakt þar sem vakthafandi starfsmaður sé bundinn heima eigi hann að fá greitt sem svari til 33% dagvinnustundar. Á almennum frídögum og stórhátíðum skal hlutfallið nema 50%. Fyrir bakvakt þar sem ekki sé krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns en hann sé tilbúinn til vinnu strax og til hans næst skuli greiða 16,5% af dagvinnukaupi fyrir hverja klukkustund á bakvakt, en 25% fyrir almenna frídaga eða stórhátíðardaga.

Er á því byggt að stefnandi hafi sinnt bakvöktum hjá stefnda frá því fljótlega eftir að hann hóf þar störf og fram til þess að stefndi hafi lagt bakvaktafyrirkomulag niður á árinu 2014. Stefnandi lýsir bakvöktum sem svo að hann hafi verið bundinn við vinnusímann og tilbúinn að svara símtölum og leysa þau vandamál sem upp kæmu strax. Fyrir vikið hafi hann til dæmis ekki getað leyft sér að fara í kvikmyndahús, styttri ferðalög innanlands seinnipart dags og um helgar eða annað sem tafið gæti viðbragð þegar hann hefði verið á bakvakt. Hafi honum því borið að fá greiðslu sem næmi 33% dagvinnustundar fyrir hvern tíma á bakvakt. Í staðinn hafi honum verið greiddir dagpeningar fyrir bakvaktir samkvæmt ákvörðun vinnuveitanda, að fjárhæð 4.286 krónur, hvort sem bakvakt hafi verið staðin um helgi eða á virkum degi. Þá hafi stefnandi staðið bakvakt yfir jól og áramót 2013 án þess að hátíðarálag hafi verið lagt á bakvaktargreiðslur. Stefnandi gerir ekki athugasemdir við útreikninga vinnuveitanda á fjölda bakvakta stefnanda, fyrir utan tvær bakvaktir í október 2012 sem stefnandi hafi aldrei fengið greiddar. Samanlagt hafi stefnandi fengið greiddar 471.460 krónur frá stefnda fyrir unnar bakvaktir fyrir stefnda. Samkvæmt því sem boðið sé í kafla 2.5 í kjarasamningi hafi hann á hinn bóginn átt að fá greiddar 2.907.576 krónur.  Mismunurinn nemi því 2.436.116 krónum. Vangreiddar bakvaktargreiðslur sundurliðist þannig:

Gjalddagi

Fjárhæð

31.10.2012

100.536 krónur

31.1.2013

296.582 krónur

28.2.2013

178.194 krónur

30.4.2013

158.259 krónur

30.6.2013

59.805 krónur

31.7.2013

178.194 krónur

31.8.2013

138.324 krónur

30.9.2013

178.194 krónur

31.10.2013

139.546 krónur

30.11.2013

98.453 krónur

31.12.2013

236.777 krónur

31.1.2014

287.958 krónur

28.2.2014

183.709 krónur

31.3.2014

201.585 krónur

Kröfur stefnanda byggjast í þriðja lagi á því að samkvæmt ákvæði 2.4.3 í kjarasamningi skuli starfsmaður hafa að minnsta kosti einn vikulegan frídag á hverju sjö daga tímabili sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Almennt skuli miðað við að vikulegi frídagurinn sé á sunnudegi. Þó sé heimilt með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í hans stað komi tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili.

Stefnandi kveðst byggja á því að samkvæmt upplýsingum úr tímaskráningarkerfi á tímabilinu september 2012 til júlí 2015 hafi stefnandi unnið samtals 32 vikur án þess að njóta vikulegs frídags um helgi, þar af fimm vikur árið 2012, tvær vikur árið 2013, fimmtán vikur árið 2014 en tíu vikur árið 2015. Ekki hafi verið gert sérstakt samkomulag við stefnanda um frestun vikulegra frídaga svo sem heimild sé til í kjarasamningi. Að teknu tilliti til umreiknaðs dagvinnukaups stefnanda á hverju tímabili hafi stefnandi vanefnt að greiða stefnanda sem nemi 111.925 krónum fyrir árið 2012, 47.843 krónum fyrir árið 2013, 374.244 krónum fyrir árið 2014 og 253.610 krónum fyrir árið 2015. Alls nemi vangoldnar greiðslur vegna helgarvinnu á tímabilinu því 787.622 krónum. Vangreiddir frídagar sundurliðist þannig:

Gjalddagi

Fjárhæð

31.10.2012

44.770 krónur

30.11.2012

44.770 krónur

31.12.2012

22.385 krónur

30.4.2013

47.843 krónur

31.1.2014

74.849 krónur

28.2.2014

49.899 krónur

31.3.2014

49.899 krónur

30.6.2014

24.950 krónur

31.7.2014

49.899 krónur

31.10.2014

24.950 krónur

30.11.2014

49.899 krónur

31.12.2014

49.899 krónur

31.1.2015

76.083 krónur

28.2.2015

76.083 krónur

31.3.2015

50.722 krónur

30.4.2015

50.722 krónur

Þá hafi það komið upp í að minnsta kosti níu skipti á starfstíma stefnanda að brotið hafi verið gegn frítökurétti stefnanda samkvæmt ákvæði 2.4.2 í kjarasamningi, þegar honum hafi verið gert að vinna lengri vaktir en svo að hann gæti náð 11 klukkustunda samfelldri hvíld á sólarhring og án þess að frítökuréttur safnaðist. Hafi stefnanda aldrei verið greitt dagvinnukaup af frítökurétti svo sem heimild sé til í kjarasamningi. Nemi vangoldin laun stefnanda á tímabilinu samtals 29.619 krónum vegna þessa. Vangoldinn frítökuréttur sundurliðist þannig:

Gjalddagi

Fjárhæð

30.11.2013

2.835 krónur

31.1.2014

6.277 krónur

30.6.2014

1.561 krónur

30.8.2014

3.848 krónur

30.11.2014

5.223 krónur

31.1.2015

8.246 krónur

30.5.2015

1.629 krónur

Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi verið verið hlunnfarinn um greiðslu á samtals 3.550.844 krónum, sem sé dómkrafa stefnanda. Krafan sundurliðist þannig:

Orlofsuppbót                                                                     101.493 krónur

Desemberuppbót                                                               195.993 krónur

Bakvaktargreiðslur                                                        2.436.116 krónur

Frídagar                                                                            787.622 krónur

Frítökuréttur                                                                       29.619 krónur

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda, sérstaklega um skyldu vinnuveitanda til að greiða umsamin laun og aðrar greiðslur, samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum. Þá vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sérstaklega 1. gr., laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr. og laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Þá vísar stefnandi til kjarasamnings Verkfræðingafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 1. apríl 2011 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  

III

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi að fullu gert upp við stefnanda öll laun og tengdar greiðslur vegna ráðningarsambands aðila sem slitið hafi verið í júlí 2015.

Stefndi kveðst byggja á því að viðmiðunarkjarasamningur, sem gilt hafi um ráðningarsambandið, hafi verið kjarasamningur milli annars vegar Félags ráðgjafarverkfræðinga og hins vegar Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands. Byggir stefndi á því að aðilar hafi haft fulla heimild til að miða við þann kjarasamning um ráðningarsambandið.

Stefndi byggir á því að sannað sé að báðir aðilar hafi miðað við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga allan þann tíma sem ráðningarsambandið hafi varað og vísar stefndi í því sambandi til hækkana á launatöxtum og skráningar stefnanda sjálfs á frídögum. Stefndi byggir jafnframt á því að það hafi verið hagstæðara fyrir starfsmenn stefnda að miða við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga heldur en þann samning sem stefnandi byggi kröfur sínar í málinu á.

Þá byggir stefndi á því að skráðar vinnureglur o.fl. sem aðgengilegar hafi verið starfsmönnum á innra neti stefnda, í svonefndri símavaktarmöppu, starfsmanna­handbók og með öðrum hætti hafi verið hluti ráðningarkjara aðila.

Stefndi byggir sérstaklega á því að þegar litið sé til stöðu stefnanda og aðstöðu hans í starfi hjá stefnda sé ósanngjarnt með öllu að stefnandi setji fram kröfur um ýmsar launatengdar greiðslur langt aftur í tímann umfram þau ráðningarkjör sem hafi tíðkast hjá stefnda og sambærilegum fyrirtækjum. Vísað er sérstaklega til tómlætis stefnanda og þess að hann hafi aldrei haft uppi mótmæli eða athugasemdir við launagreiðslur eða efni launaseðla á meðan á ráðningarsambandi aðila hafi staðið.

Stefnandi kveðst byggja á því að samkvæmt kjarasamningi Félags ráðgjafar­verkfræðinga hafi ekki verið skylt að greiða orlofs- og desemberuppbót. Til vara byggir stefndi á því að orlofs- og desemberuppbót hafi verið felld inn í mánaðarlaun stefnanda en jafnframt á því að stefnanda hafi engu að síður verið greidd sérstök desemberuppbót á árunum 2012 til 2014. 

Varðandi kröfu stefnanda um bakvaktargreiðslur byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu ekki grundvallaðar á kjarasamningi Félags ráðgjafarverkfræðinga. Jafnframt er byggt á því að ekki hafi verið um að ræða eiginlegar bakvaktir í skilningi kjarasamninga, meðal annars þess kjarasamnings sem stefnandi miði við. Þannig hafi ekki verið um það að ræða að starfsmaður hafi verið reiðubúinn til að sinna útkalli, það er að mæta á starfsstöð, heldur hafi starfsmaður átt að vera reiðubúinn til að sinna símtali í farsíma þar sem hann hafi þá verið staddur. Starfsmaður hafi þannig getað sinnt símavaktinni á ferðalagi eða í bæjarferð. Stefndi byggir á því að samið hafi verið sérstaklega við stefnanda, og aðra starfsmenn stefnda sem sinnt hafi símavaktinni, um greiðslur fyrir starfann. Sá samningur hafi komið skýrt fram á einblöðungi um símavaktina og hafi það samkomulag og greiðslutilhögun verið hluti af ráðningarkjörum stefnda og stefnanda. Stefnandi hafi gengið inn í fyrirliggjandi tilhögun og samkomulag við upphaf starfs síns. Stefndi vísar sérstaklega til þess að kröfur stefnanda um bakvaktargreiðslur byggi á ákvæði kjarasamnings um greiðslur fyrir bakvaktir sem gildi einungis hafi ekki verið samið um annað milli aðila. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þekkt ákvæði kjarasamninga um greiðslur fyrir útkallsbakvaktir en þrátt fyrir það ekki gert kröfu um greiðslu fyrir símavaktina á þeim grundvelli fyrr en eftir starfslok hjá stefnda, þegar liðin hafi verið um tvö ár frá því að símavöktunum hafi verið hætt. Hafi báðir aðilar litið svo á að samið hefði verið um tilhögun greiðslna fyrir símavaktina.

Varðandi vikulega frídaga er sem áður á því byggt að um ráðningarsamband aðila hafi gilt kjarasamningur Félags ráðgjafarverkfræðinga og þær reglur um vikulega frídaga og frítökurétt sem stefnandi vísar til eiga því ekki við. Kveður stefndi stefnanda sjálfan hafa miðað við kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga varðandi frídaga en sem dæmi hafi stefnandi skráð frí á gamlársdag, sem ekki sé frídagur samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi miði nú við. Þá er á því byggt að stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á því að hann fengi vikulegan frídag eða að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags kæmu tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili enda hafi hann gegnt þeirri stöðu hjá stefnda að honum hafi sjálfum borið að gæta að þessu. Leiði önnur niðurstaða til þess að stefnandi hafi í raun haft sjálftöku þegar litið sé til eðlis starfs stefnanda og stöðu hans hjá stefnda. Hafi helgarvinna stefnanda öll farið fram í vinnuferðum erlendis, án samþykkis yfirmanns, á grundvelli ákvörðunar stefnda sjálfs.

Um varakröfu sína vísar stefndi til framangreindra málsástæðna og jafnframt til 5. mgr. greinar 2.5, um bakvaktir þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns, í kjarasamningi þeim sem stefnandi miði kröfur sínar við.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar og samningaréttar. Þá styðst málskostnaðarkrafa stefnda við 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til og skulu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða vera ógildir.

Stefnandi, sem er verkfræðingur að mennt, byggir málatilbúnað sinn á því að starfskjör hans í starfi fyrir stefnda, frá september 2012 til starfsloka í júlí 2015, hafi ekki svarað til lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Stéttarfélags verkfræðinga o.fl. Kjarasamningurinn gildir fyrir verkfræðinga, tölvunarfræðinga og byggingarfræðinga sem starfa á almennum markaði.

Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að miða starfskjör stefnanda við kjarasamning milli Félags ráðgjafarverkfræðinga og Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands o.fl. Hefur stefndi vísað til þess að val hafi staðið á milli kjarasamninganna tveggja og að starfsmenn hafi notið betri kjara samkvæmt þeim síðarnefnda. Fyrir liggur samkvæmt kafla 1.1 í kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga og Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands o.fl. að samningurinn gildir fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga í þjónustu þeirra vinnuveitenda sem aðild eiga að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Samkvæmt því er um sérkjarasamning að ræða sem aðeins tekur til starfa verkfræðinga á almennum vinnumarkaði sem starfa í þágu tiltekinna vinnuveitenda.

Í skýrslu Bjarna Þórs Gunnlaugssonar framkvæmdastjóra stefnda fyrir dómi kom fram að stefndi væri ekki aðili að Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Á hinn bóginn liggur fyrir að stefndi er aðili að Samtökum iðnaðarins, sem er aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt framansögðu verður í málinu byggt á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Stéttarfélags verkfræðing o.fl. hins vegar. Breytir þá engu þó að stefndi hafi haft kjarasamning Félags ráðgjafarverkfræðinga í huga með tilvísun í „kjarasamning VFÍ og viðsemjenda“ í ráðningarsamningi við stefnanda, enda gildir sá samningur þá einungis að því leyti sem hann veitir starfsmanni ríkari rétt en sá kjarasamningur sem um starfið gildir.

Stefndi hefur hvað sem framangreindu líður hafnað greiðsluskyldu á einstökum kröfuliðum stefnanda svo sem áður er rakið. Í öllum tilvikum byggir stefndi á því að stefnandi hafi með tómlæti af sinni hálfu glatað rétti til að hafa uppi kröfu á hendur honum vegna launatengdra greiðslna. Stefnandi starfaði hjá stefnda frá september 2012 uns hann lét af störfum rúmum tveimur og hálfu ári síðar, í júlí 2015. Fyrir liggur að stefnandi hafði fyrst uppi kröfu vegna vangoldinnar desember- og orlofsuppbótar, bakvaktargreiðslna, frídaga og frítökuréttar með bréfi lögmanns hans 30. maí 2016. Jafnvel þó nokkur tíma hafi því liðið áður en stefnandi aðhafðist nokkuð verður ekki talið að hann hafi með því fyrirgert kröfum til launa og launatengdra greiðslna á hendur stefnda í samræmi við kjarasamning.

Verður nú vikið nánar að einstökum kröfuliðum.

Í málinu gerir stefnandi kröfu um vangoldna desember- og orlofsuppbót á starfstímanum. Samkvæmt ákvæði 1.5 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. skulu starfsmenn fá desember- og orlofsuppbót greidda í samræmi við heildarkjarasamninga Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt í ráðningarsamningi að fella uppbót inn í mánaðarlaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt. Stefndi hefur mótmælt kröfum stefnanda á þeim grundvelli að desember- og orlofsuppbót hafi verið felld inn í mánaðarlaun stefnanda en að því gengnu að stefnandi hafi fengið desemberuppbót greidda árin 2012, 2013 og 2014.  

Stefndi hefur ekki fært sönnur fyrir því að desember- og orlofsuppbót hafi verið innifalin í mánaðarlaunum stefnanda og verður hann að bera hallan af þeim sönnunarskorti. Í málinu liggur fyrir launaseðill stefnanda í desember 2012 þar sem fram kemur að hann fékk greiddar 106.700 krónur í viðbótargreiðslu vegna 13. mánaðar, í hlutfalli við starfstíma hans á árinu, en desemberuppbót var ekki sérstaklega tilgreind. Gerði stefnandi þrátt fyrir það ekki athugasemd um ógreidda desemberuppbót er hann ritaði undir ráðningarsamning við stefnda 15. janúar 2013. Þá hefur stefnandi ekki mótmælt að hafa móttekið frá stefnda 150.000 krónur í desember árið 2013 og 200.000 krónur í desember 2014, í formi fégjafar, án athugasemda. Þar sem stefnandi lét átölulaust þennan greiðsluhátt uppbótar í desember verður talið að hann hafi samþykkt hann, en greiðslurnar eru ótvírætt umfram lágmarksréttindi hans samkvæmt kjarasamningi. Verður því hafnað kröfu stefnanda um vangreidda desemberuppbót, að öðru leyti en sem nemur greiðslu fyrir árið 2015, 52.338 krónum, sem ekki sætir tölulegum athugasemdum.  

Að mati dómsins hefur stefndi ekki fært sönnur á það að stefnandi hafi fengið greidda kjarasamningsbundna orlofsuppbót 1. maí ár hvert á starfstímanum og verður hann því dæmdur til að greiða stefnanda vangreidda orlofsuppbót, samtals 101.493 krónur, en krafan sætir ekki tölulegum athugasemdum. 

Ágreiningur aðila um ógreiddar bakvaktargreiðslur lýtur einkum að því hvort um hafi verið að ræða eiginlegar bakvaktir sem greiða skyldi fyrir eftir kjarasamningi. Þá byggja mótmæli stefnda við kröfu stefnanda jafnframt á því að samið hafi verið sérstaklega um greiðslur fyrir vaktina og hafi það samkomulag verið hluti af ráðningarkjörum stefnanda.

Óumdeilt er að áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda var tekin upp sú tilhögun af hálfu stefnda að símtölum viðskiptavina til tæknideildar stefnda eftir klukkan 16:00 á daginn og um helgar var beint í einn og sama símann, sem gekk á milli starfsmanna deildarinnar, að jafnaði í viku í senn. Fyrir liggur að símavaktinni fylgdi „bakvaktarmappa“ þar sem á fremstu síðu var að finna upplýsingar um hlutverk vakthafandi starfsmanns og tilhögun á greiðslum. Þá liggja frammi í málinu skráningarblöð bakvaktar á tímabilinu þar sem skráð var hvenær síminn gekk á milli starfsmanna, hvaða símtölum var svarað og aðrar aðgerðir. Af aðila- og vitnaskýrslum fyrir dómi verður ráðið að starfsmenn hafi haft val um þátttöku í símavörslu og að fyrirspurnir og erindi sem bárust hafi gjarnan verið leyst með einföldum hætti í símtalinu. Til þess gat þó komið að vakthafandi starfsmaður leysti verkefni í gegnum tölvu eða færi á skrifstofu stefnda, eða í skip sem stödd voru innanlands, og var þá greitt sérstaklega fyrir þá vinnu samkvæmt tímaskýrslu. Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi verður lagt til grundvallar að sjaldnast hafi þurft að sinna erindum sem bárust í símann án tafar. Jafnframt átti vakthafandi starfsmaður kost á að leita til annarra starfsmanna vegna verkefna ef svo bar undir. Þá er komið fram að símtöl gátu verið allt frá því að vera ekkert á vaktaviku yfir í nokkur símtöl.

Samkvæmt ákvæði 2.5.1 í í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. er heimilt að semja við starfsmann „um að hann sé á bakvakt, þ.e. reiðubúinn að sinna útkalli eða annarri vinnuskyldu.“ Kemur fram að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en sé „reiðubúinn til að sinna útkalli“ og er í ákvæðinu gerð grein fyrir tvenns konar fyrirkomulagi bakvakta, annars vegar „þar sem vakthafandi starfsmaður er bundinn heima“ og hins vegar „bakvakt þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns en hann er tilbúinn til vinnu strax og til hans næst“. Er mælt fyrir um hvað greitt skuli fyrir bakvaktirnar „[s]é ekki um annað samið í ráðningarsamningi“.

Meðal málsgagna er skráning stefnanda á vöktum allt frá 24. október 2012. Á launaseðlum stefnanda frá sama tíma er skýrt hvað greitt var fyrir hverja bakvakt, en samkvæmt því voru greiddar 4.286 krónur fyrir hvern dag, eða sem svarar einum sjöunda af 30.000 krónum. Með vísan til þessa, og upplýsinga í áðurnefndri bakvaktamöppu, mátti stefnanda vera kunnugt um greiðslur fyrir símavörsluna áður en hann ritaði undir ráðningarsamning við stefnanda 15. janúar 2013. Fyrirkomulagið var lagt af á fyrri hluta ársins 2014, eftir því sem fram kom við meðferð málsins, vegna kröfu starfsmanna stefnda um að greiðslur yrðu hækkaðar og að framkvæmdastjóri stefnda hafi eftir það einn staðið símavaktina. Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi gert athugasemdir við þær greiðslur sem greiddar voru fyrir símavörslu fyrr en eftir að hann lét af störfum í júlí 2015. Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að samþykki stefnanda hafi legið fyrir frá upphafi um fjárhæð sem greidd yrði fyrir símavörslu.

Svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkast, hvað sem því líður, við að þau séu hinum síðarnefnda jafn hagstæð eða betri en kveðið er á um í kjarasamningi sem tekur til starfsins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnanda hafi verið skylt að vera heima þann tíma sem hann var á áðurgreindum bakvöktum auk þess sem ganga verður út frá því, með hliðsjón af framburði aðila- og vitna fyrir dómi og yfirlitum yfir símsvörun í símann, að ekki hafi verið krafist tafarlausra viðbragða af hans hálfu við erindum sem í símann bárust. Á hinn bóginn fólst í bakvaktinni, þó ekki hafi oft eða mikið á það reynt, að stefnanda bar á vakt að vera reiðubúinn að sinna útkalli eða annarri vinnuskyldu ef svo bar undir. Með vísan til þessa verður að telja í ljós leitt að aðstæður hafi verið slíkar að fyrrgreint ákvæði kjarasamningsins hafi átt við og hafi stefnda því borið að greiða stefnanda sem svarar 16,5% af dagvinnulaunum fyrir hverja klukkustund á bakvakt virka daga en 25% af sömu launum á almennum frídögum og stórhátíðum, en um er að ræða lágmarkskjör launþega samkvæmt kjarasamningi fyrir slíka bakvakt.

Að virtu því sem að framan greinir, er krafa stefnanda um vangreiddar greiðslur fyrir bakvaktir tekin til greina, þó þannig að þær skulu reiknast sem 16,5% af dagvinnulaunum stefnanda fyrir hverja klukkustund virka daga en 25% af sömu launum á almennum frídögum og stórhátíðum. Stefndi hefur öðru leyti ekki mótmælt samantekt stefnanda yfir vangreiddar bakvaktagreiðslur og verður honum því gert að greiða stefnanda 982.328 krónur vegna þessa kröfuliðar.

Stefnandi byggir að auki á því að hann eigi óuppgerða frídaga vegna vinnu um helgar á tímabilinu frá september 2012 til starfsloka í júlí 2015. Stefndi byggir kröfu um sýknu af þessum þætti málsins á því að stefnandi hafi, í ljósi stöðu sinnar hjá stefnda, sjálfur borið ábyrgð á því að hann fengi vikulegan frídag eða að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað hans kæmu tveir samfelldir frídagar á 14 daga tímabili. Þá hafi helgarvinna stefnanda öll farið fram í vinnuferðum erlendis, án samþykkis yfirmanns, á grundvelli ákvörðunar stefnda sjálfs. Stefndi hefur vísað til starfsmannahandbókar á innra neti stefnda um að starfsmenn skuli ekki vinna á sunnudögum í „startup“ ferðum erlendis nema að beiðni verkkaupa og/eða framkvæmdastjóra.

Í ákvæði 2.4 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkfræðingafélags Íslands o.fl. er fjallað um lágmarkshvíld. Þar er meðal annars kveðið á um að vinnutíma skuli haga þannig á hverjum sólarhring að starfsmaður fái að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Þá kemur fram í ákvæði 2.4.3 að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður að minnsta kosti fá einn vikulegan frídag og skuli almennt miða við að sá frídagur sé á sunnudegi. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, með samkomulagi við starfsmann, að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað hans komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum.

Í málsgögnum liggja fyrir tímaskráningarskýrslur og yfirvinnuskýrslur vegna vinnu stefnanda erlendis. Stefnda mátti samkvæmt því vera kunnugt um að stefnandi hefði ítrekað innt af hendi vinnu á sunnudögum í þessum ferðum og jafnframt að stefnandi nýtti ekki rétt til frídaga sem af því leiddi. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu gerði stefndi engar athugasemdir við framangreint og getur því ekki borið fyrir sig að stefnandi hafi með þessu tekið sér sjálftöku um frídaga eða að ónýttir frídagar skuli vera niður fallnir. Með því að stefndi hefur ekki haldið því fram, að frídagafjöldi vegna helgarvinnu stefnanda sé rangt reiknaður, verður þessi kröfuliður tekinn til greina að fullu, samtals 787.622 krónur. 

Að lokum byggir stefnandi á því að á starfstímanum hafi honum í níu skipti verið gert að vinna lengri vaktir en svo að hann næði 11 klukku­stunda lágmarkshvíld fyrir upphaf næsta vinnudags. Af þeim sökum eigi hann uppsafnaðan en óuppgerðan frítökurétt. Stefndi hefur ekki mótmælt kröfunni að öðru leiti en með vísan til þess að um ráðningarsamband aðila hafi gilt kjarasamningur Félags ráðgjafarverkfræðinga en þeirri málsvörn stefnda hefur þegar verið hafnað. Verður krafa stefnanda í þessum þætti málsins því tekin til greina, enda um lágmarksrétt stefnanda að ræða samkvæmt ákvæði 2.4.2 í þeim kjarasamningi sem um starfið gilti, en krafan hefur ekki sætt tölulegum athugasemdum. Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda samtals 29.619 krónur vegna vangoldins frítökuréttar.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.953.400 krónur (52.338 + 101.493 + 982.328 + 787.622 + 29.619) með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Rétt þykir að miða upphafstíma dráttarvaxta við málshöfðun, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 

Með hliðsjón af þessum málsúrlitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Naust Marine ehf., greiði stefnanda, Gunnari Hrafni Hall, 1.953.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2016 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.