Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Verðbréfaviðskipti
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2015. Hann krefst þess aðallega að ógiltur verði lánssamningur, sem hann gerði við Byr sparisjóð 14. desember 2007, en til vara að samningnum verði rift. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins varð Byr sparisjóður til á árinu 2006 við sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar, en í ársbyrjun 2007 rann Sparisjóður Kópavogs einnig saman við þann fyrstnefnda. Á miðju ári 2007 sameinaðist Sparisjóður Norðlendinga síðan Byr sparisjóði. Áfrýjandi mun hafa verið stofnaður á árinu 1990 til að hafa á hendi innflutning, umboðs- og heildverslun, rekstur fasteigna og lánastarfsemi, en á þeim tíma, sem hér skiptir máli, sátu í stjórn hans Sólrún Sævarsdóttir aðalmaður og Guðmundur Sigurðsson varamaður og munu þau hafa verið einu hluthafarnir í félaginu. Sólrún varð stofnfjáreigandi í Sparisjóði vélstjóra 7. apríl 1999 og Guðmundur 5. mars 2003, en á þeim grunni urðu þau stofnfjáreigendur í Byr sparisjóði þegar hann varð til samkvæmt framansögðu.
Stjórn Byrs sparisjóðs kynnti stofnfjáreigendum með bréfum 24. og 31. ágúst 2007 að ákveðið hafi verið að auka stofnfé í sparisjóðnum um 2.971.234.536 krónur með útboði og ættu stofnfjáreigendurnir rétt til áskriftar að nýjum hlutum, sem seldir yrðu á genginu 1,89751665. Guðmundi og Sólrúnu, sem munu þá bæði hafa átt stofnfé í sparisjóðnum að fjárhæð 150.000 krónur, var á þessum grunni boðið hvoru fyrir sig að kaupa nýtt stofnfé að nafnverði 1.788.154 krónur, sem þau þáðu. Fyrir þetta nýja stofnfé greiddi hvort þeirra samtals 3.410.245 krónur, en í skýrslu fyrir héraðsdómi kvað Sólrún þau hafa staðið straum af þessum kaupum með sparifé sínu. Að þessu gerðu nam þannig stofnfjáreign hvors þeirra í Byr sparisjóði 1.938.154 krónum.
Aftur sendi stjórn Byrs sparisjóðs stofnfjáreigendum bréf 28. nóvember 2007 og tilkynnti að ákveðið hafi verið að auka stofnfé sparisjóðsins um 12.200.000.000 krónur með útboði, þar sem hlutirnir yrðu seldir á genginu 1,9447635. Var stofnfjáreigendum boðið að skrifa sig fyrir nýju stofnfé í hlutfalli við eign sína, en samkvæmt því mun Guðmundi og Sólrúnu hafa hvoru um sig gefist kostur á að kaupa stofnfé að nafnverði 12.120.839 krónur fyrir 23.682.354 krónur. Að öðru leyti sagði meðal annars í bréfinu: „Ef stofnfjáreigandi kýs að nýta ekki rétt sinn til kaupa á nýju stofnfé, eykst réttur annarra stofnfjáreigenda hlutfallslega sem því nemur ... Ef stofnfjáreigandi nýtir að engu leyti rétt sinn til kaupa á nýju stofnfé í útboðinu mun eignarhlutur hans í sparisjóðnum þynnast um 86,20% að því gefnu að allt stofnfé sem boðið er til sölu í útboðinu seljist. Byr sparisjóður hefur samið við Glitni banka hf. um að fjármagna fyrir stofnfjáreigendur, sem þess óska, kaup á stofnfjárhlutum í útboðinu. Stofnfjáreigendur þurfa sjálfir að hafa frumkvæði að því að sækja um fjármögnun og mun verða gefinn kostur á að setja fram beiðni um slíkt með rafrænum hætti eftir að þeir hafa skilað inn staðfestingu til sparisjóðsins á áskrift í útboðinu. Mat á lánsbeiðnum er háð lánareglum Glitnis banka hf. ... Eindagi áskriftar er 21. desember 2007.“
Samkvæmt skýrslu Sólrúnar fyrir héraðsdómi áttu þau Guðmundur í framhaldi af þessu bréfi samtöl við starfsmenn Byrs sparisjóðs, sem hafi hvatt þau mjög til þátttöku í útboðinu og sagt „að á tveimur árum myndu þeir borga út arð sem að næmi þessari upphæð, þannig að við þyrftum í rauninni aldrei að taka áhættu.“ Hafi starfsmaður sparisjóðsins jafnframt hringt til sín til að ræða um þetta og hafi verið sett á þau „tímapressa frá bankanum að svara og pressa bara að tapa peningum“ vegna fyrri kaupa þeirra á stofnfé sem myndi „þynnast“ á þann hátt sem getið var um í bréfinu. Þau hafi ekki viljað taka lán hjá Glitni banka hf. til að taka þátt í útboðinu og leitað þess í stað til Byrs sparisjóðs, sem hafi svarað því til að „þau gætu ekki lánað okkur sem sagt persónulega ... af því að þeir máttu ekki lána okkur fyrir að kaupa hlutabréf í bankanum.“ Hafi síðan komið fram að sparisjóðurinn gæti veitt áfrýjanda lán í þessu skyni þótt aldrei hafi staðið til að hann fengi stofnfjárbréf, sem keypt yrðu, framseld frá sér og Guðmundi. Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti Guðmundur þessu á líkan hátt og sagði meðal annars að Byr sparisjóður hafi ekki getað lánað sér og Sólrúnu „fyrir stofnfé til okkar“, en spurður að því hvort hann hafi lagt til að áfrýjandi „yrði þá á pappírum skráður lántaki“ í þeirra stað sagðist hann halda að sparisjóðurinn „hafi bent á að við gætum farið þessa leið.“
Áfrýjandi gerði samning við Byr sparisjóð 14. desember 2007 um „lán að jafnvirði allt að 60.000.000 kr.“, sem yrði að helmingi greitt út í svissneskum frönkum og að helmingi í japönskum jenum. Skyldi lánið endurgreitt með mánaðarlegum afborgunum á 25 árum, í fyrsta sinn 2. febrúar 2008, en á lánstímanum bæri skuldin svonefnda LIBOR vexti með 3,2% álagi. Í grein 1.4 í samningnum var tekið fram að lánsféð skyldi greitt inn á tiltekinn reikning, sem óumdeilt er að hafi tilheyrt Byr sparisjóði, en þar sagði einnig: „Tilgangur lánveitingar þessarar er að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í BYR. Lántaki skuldbindur sig til þess að ráðstafa láninu til þess verkefnis sem það er veitt til.“ Þá var í samningnum vísað til þess að áfrýjandi hafi sama dag sett tryggingu fyrir endurgreiðslu lánsins með því að gefa út tryggingarbréf til Byrs sparisjóðs með veði í nánar tilgreindum fasteignum að Smiðjuvegi 11 og Smiðjuvegi 11A í Kópavogi. Guðmundur og Sólrún undirrituðu í nafni áfrýjanda samninginn og beiðni um að lánið, sem kveðið var á um í honum, yrði greitt út 20. desember 2007. Í málinu liggur fyrir kvittun Byrs sparisjóðs frá síðastnefndum degi, þar sem fram kom að 59.088.822 krónur hafi verið greiddar inn á tiltekinn reikning í eigu áfrýjanda og sama fjárhæð í beinu framhaldi tekin af þeim reikningi til innborgunar á annan reikning, sem virðist hafa tilheyrt sparisjóðnum. Með þessu mun hafa greiðst kaupverð nýs stofnfjár, sem óumdeilt er að hafi verið skráð á nöfn Guðmundar og Sólrúnar, 23.682.354 krónur úr hendi hvors þeirra eða samtals 47.364.708 krónur. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um hvernig lánsfénu hafi að öðru leyti verið ráðstafað, en Guðmundur og Sólrún virðast síðan hvort um sig hafa greitt 481.800 krónur 21. janúar 2008 vegna „umframáskriftar í stofnfjárútboði“ Byrs sparisjóðs.
Á aðalfundi Byrs sparisjóðs 9. apríl 2008 var ákveðið að greiða stofnfjáreigendum 44% arð af stofnfé í eigu þeirra í árslok 2007. Samkvæmt þessu nam arður til hvors þeirra Guðmundar og Sólrúnar 12.381.934 krónum, en til frádráttar kom í hvoru tilviki fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 1.238.193 krónur. Arðinum ráðstöfuðu þau ekki til innborgunar á skuld samkvæmt lánssamningnum frá 14. desember 2007. Eftir gögnum málsins hefur áfrýjandi á hinn bóginn staðið skil á afborgunum af skuldinni með breytingum sem leiddu af því annars vegar að skilmálum lánssamningsins var breytt að því er varðar lánstíma og vexti með yfirlýsingu 25. nóvember 2008 og hins vegar að fjárhæð skuldarinnar var samkvæmt tilkynningum stefnda 8. janúar og 3. maí 2013 endurreiknuð með tilliti til þess að í samningnum hafi í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verið kveðið á um að fjárhæðin yrði bundin við gengi erlendra gjaldmiðla.
Fjármálaeftirlitið neytti 22. apríl 2010 heimildar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar í Byr sparisjóði, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann bráðabirgðastjórn, auk þess að taka ákvörðun um ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga sparisjóðsins til Byrs hf. Byr sparisjóður var síðan tekinn til slita 2. júlí 2010, en stefndi mun 12. júlí 2011 hafa keypt alla hluti í Byr hf. og það félag runnið saman við hann. Óumdeilt er í málinu að stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði hafi 22. apríl 2010 orðið með öllu verðlausir.
Að gengnum dómi Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 117/2011 beindi áfrýjandi bréfi til stefnda 11. júní 2012 með kröfu „um niðurfellingu á láni til kaupa á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í útboði sparisjóðsins í desember 2007.“ Þeirri kröfu hafnaði stefndi með bréfi 4. júlí 2012. Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 18. desember 2013.
II
Stefndi höfðaði fyrrnefnt mál nr. 117/2011, sem Hæstiréttur felldi dóm á 24. nóvember 2011 og vísað var til í bréfi áfrýjanda til stefnda 11. júní 2012, til heimtu kröfu samkvæmt lánssamningi, sem nafngreindur einstaklingur hafði gert við Glitni banka hf. til að standa straum af kaupverði stofnfjár í Byr sparisjóði í sama útboði og mál þetta varðar, en stefndi hafði eignast þá kröfu á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skuldbindinga Glitnis banka hf. Svo sem fram kom í áðurgreindu bréfi stjórnar Byrs sparisjóðs 28. nóvember 2007 hafði hann þá samið við Glitni banka hf. um að stofnfjáreigendum, sem bréfið var sent til, byðist þar lán til kaupa á nýju stofnfé í sparisjóðnum. Lántakinn, sem máli nr. 117/2011 var beint að, hafði sett nýja stofnfjárhluti sína að veði til Glitnis banka hf. til tryggingar endurgreiðslu lánsins, en einnig samið um að arður, sem greiddur yrði af stofnfénu, gengi til greiðslu inn á lánið. Í málinu bar lántakinn meðal annars fyrir sig að hann hafi gert lánssamninginn og veðsett stofnfjárhlutina í trausti þess, sem hann kvað starfsmenn Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hafa látið uppi í aðdraganda viðskiptanna, að ekki yrði gengið að öðrum eignum hans en stofnfjárhlutunum til fullnustu kröfu samkvæmt lánssamningnum ef ekki yrði staðið í skilum með greiðslur samkvæmt honum. Með því að nægilega þótti hafa verið sýnt fram á að starfsmenn bankans og sparisjóðsins hafi vakið þessa trú hjá lántakanum, þó svo að skilmáli þessa efnis hafi ekki komið fram í lánssamningi eða veðsamningi, var talið ósanngjarnt af stefnda að bera fyrir sig lánssamninginn að því leyti, sem samningurinn veitti honum rétt til að leita fullnustu í öðrum eignum lántakans en stofnfjárhlutunum, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Lántakinn var því sýknaður af kröfu stefnda.
Í máli þessu háttar svo til að áfrýjandi veitti Byr sparisjóði veð í tilteknum fasteignum sínum til að tryggja greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi þeirra frá 14. desember 2007, en sparisjóðnum var ekki veittur veðréttur í stofnfjárhlutunum, sem Guðmundur Sigurðsson og Sólrún Sævarsdóttir keyptu fyrir hluta af andvirði láns sparisjóðsins til áfrýjanda. Því hefur ekki verið borið við í málinu að starfsmenn Byrs sparisjóðs hafi á nokkru stigi ranglega vakið hjá áfrýjanda, Guðmundi eða Sólrúnu trú um að ekki yrði leitað fullnustu kröfu samkvæmt lánssamningnum í öðru en stofnfjárhlutunum, enda tilheyrðu þeir ekki áfrýjanda, sem var lántakinn og hafði að auki gagngert sett aðrar eignir sínar að veði til tryggingar skuldinni. Framangreindur dómur í máli nr. 117/2011 hefur því í engu atriði gildi sem fordæmi við úrlausn þessa máls.
Í áðurnefndri grein 1.4 í samningnum 14. desember 2007 var tekið fram að láni samkvæmt honum skyldi varið til „að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í BYR“ og skuldbatt áfrýjandi sig einnig til „að ráðstafa láninu til þess verkefnis sem það er veitt til.“ Bæði lánssamningurinn og beiðni um útborgun lánsins voru af hálfu áfrýjanda undirrituð af Guðmundi og Sólrúnu, sem skipuðu stjórn hans og voru um leið kaupendur stofnfjárhlutanna sem lánið tengdist. Án tillits til þess hvort óvenjulegt geti talist að einkahlutafélag taki lán til að standa straum af skuldbindingu eigenda sinna var sú gerð gild að lögum gagnvart Byr sparisjóði og orkuðu fyrrgreind ákvæði samningsins um ráðstöfun lánsfjárins ekki tvímælis. Þá verður að auki að gæta að því að Guðmundur og Sólrún hafa ekki svo að séð verði haft uppi kröfu á hendur Byr sparisjóði, eftir atvikum við slit hans, um ógildingu samnings þeirra um kaup á stofnfjárhlutum. Getur áfrýjandi ekki byggt kröfur sínar í málinu á því að annmarkar hafi verið á þeim kaupsamningi, sem gætu hafa valdið ógildingu hans, eða að atvikum hafi verið þannig háttað að rifta hefði mátt þeim kaupum, enda átti áfrýjandi ekki hlut að þeim lögskiptum. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Terma ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. mars 2015, er höfðað með stefnu útgefinni 16. desember 2013 af Termu ehf., Smiðjuvegi 11, 200 Kópavogi, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Íslandsbanka, Kirkjusandi 2, Reykjavík.
I.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að lánssamningur milli Termu ehf. og Byrs sparisjóðs, dags. 14. desember 2007, verði ógiltur.
Til vara, að lánssamningi milli Termu ehf. og Byrs sparisjóðs, dags. 14. desember 2007, verði rift.
Til þrautavara, að lánssamningi milli Termu ehf. og Byrs sparisjóðs, dags. 14. desember 2007, verði vikið til hliðar og breytt þannig að veðtrygging fyrir endurgreiðslu lánsins í fasteignunum Smiðjuvegi 11, Kópavogi, fastanr. 221-7795 og Smiðjuvegi 11a, Kópavogi, fastanr. 206-5309, verði felld úr gildi.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði í öllum tilvikum dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Mál þetta var upphaflega höfðað af Termu ehf., Guðmundi Sigurðssyni og Sólrúnu Sævarsdóttur. Í upphaflegri kröfugerð krafðist stefndi aðallega frávísunar málsins frá dómi, en til var sýknu af dómkröfum stefnenda auk málskostnaðar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 8. júlí 2014 var kröfum stefnenda, Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur, vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 518/2014 frá 25. ágúst 2014 var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest.
II.
Málsatvik
Mál þetta varðar lánssamning milli stefnandans Termu ehf. sem lántaka og Byrs sparisjóðs sem lánveitanda, en lánið var veitt til að fjármagna stofnfjárkaup Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur, eigenda og stjórnenda einkahlutafélags þeirra Terma ehf., stefnanda í máli þessu. Stefnandi átti aldrei stofnfjárbréf i Byr sparisjóði, en Guðmundur og Sólrún áttu persónulega stofnfjárbréf í Byr sparisjóði árið 2007. Þá hafði Sólrún verið stofnfjárhluthafi allt frá árinu 1998 er faðir hennar, sem var einn af upphaflegum stofnendum Sparisjóðs Vélstjóra og varð stofnfjárhluthafi árið 2004, gefið henni annað stofnfjárbréf sitt. Ágreiningslaust er með aðilum málsins að kröfuréttindi samkvæmt lánssamningnum eru nú á hendi stefnda.
Með bréfi stjórnar Byrs sparisjóðs, dags. 19. nóvember 2007, til stofnfjáreigenda, var tilkynnt fyrirhuguð stofnfjáraukning hjá sparisjóðnum. Í bréfinu kom fram hver stofnfjáreign og réttur Guðmundar og Sólrúnar til skráningar fyrir nýju stofnfé væri.
Með bréfi Byrs sparisjóðs til stofnfjáreigenda, 28. nóvember 2007, var tilkynnt að ákveðið hefði verið að auka stofnfé í Byr sparisjóði um 23.726.114.700 krónur með útboði þar sem stofnfjáreigendur gætu skráð sig fyrir nýju stofnfé. Í bréfinu kom fram að nafnverð hins nýja stofnfjár yrði 12.200.000.000 króna og að verð hvers stofnfjárhluta yrði 1,04476350 krónur. Athygli var vakin á því að útboðslýsingin væri aðgengileg á vef sparisjóðsins og voru stofnfjáreigendur hvattir til að kynna sér efni hennar. Eindagi áskriftar var 21. desember 2007. Í bréfinu kom fram að stofnfjáreigendur ættu rétt á að skrá sig fyrir nýju stofnfé að tilteknu nafnvirði og jafnframt var tiltekið hver stofnfjáreign hvers stofnfjáreiganda var. Þar var enn fremur vakin athygli á því að ef stofnfjáreigandi nýtti ekki rétt sinn til kaupa á nýju stofnfé í útboðinu myndi „eignarhlutur hans í sparisjóðnum þynnast um 86,20%“ að því gefnu að allt stofnfé sem boðið væri til sölu í útboðinu seldist, en óumdeilt er að svo fór í raun.
Í tilvísaðri útboðslýsingu, dags. í nóvember 2007, kom fram að hún væri gefin út vegna útgáfu á samtals 12.200.000.000 nýrra stofnfjárhluta í Byr sparisjóði sem yrðu seldir stofnfjáreigendum í sparisjóðnum í útboði og Fjármálaeftirlitið hefði staðfest lýsinguna. Þar kom jafnframt fram að útboðslýsingin væri unnin af Byr sparisjóði, sbr. 30. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, í samvinnu við stjórn, framkvæmdastjórn og KPMG hf. Í útboðslýsingunni var fjallað á ítarlegan hátt um sparisjóðinn og rekstrarstöðu hans. Í samantektarkafla lýsingarinnar kom fram að rekstur sparisjóðanna hefði gengið vel á árinu 2006. Hagnaður Byrs sparisjóðs hefði eftir tekjuskatt numið 2.676 milljónum króna á árinu 2006, en 511 milljónum króna hjá Sparisjóði Kópavogs, sem samþykkt hafði verið að sameinaðist Byr sparisjóði. Hagnaður sameinaðs sparisjóðs fyrstu sex mánuði ársins 2007 hefði verið 5.153 milljónir króna og væri hann umfram áætlanir. Horfur fyrir seinnihluta ársins 2007 væru einnig mjög góðar. Arðsemi eigin fjár á fyrstu sex mánuðum ársins 2007 hefði verið mjög góð eða 66,9%. Í samantektinni var síðan gefið yfirlit yfir rekstur og efnahag sparisjóðsins frá 2003 til 30. júní 2007 auk þess sem fjallað var með ítarlegri hætti um þessi atriði í kafla sem bar yfirskriftina „Útgefandalýsing“.
Í útboðslýsingunni var einnig fjallað almennt um stofnfé í sparisjóðnum og skilmála útboðsins. Þar var enn fremur vikið að einstökum áhættuþáttum er snertu Byr sparisjóð, svo sem áhættu tengdri stofnfjáreign, seljanleikaáhættu, almennri rekstraráhættu, fjárfestingaráhættu, útlánaáhættu, markaðsáhættu, lausafjár- og fjármögnunaráhættu o.fl. Þess var þó jafnframt getið að þessi upptalning væri ekki tæmandi og voru fjárfestar hvattir til að leita sér ráðgjafar ef eitthvað væri óljóst.
Guðmundur og Sólrún skráðu sig fyrir stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði að undangengnum munnlegum samskiptum við starfsmenn Byrs sparisjóðs. Fyrir hlutina skyldu þau hvort um sig greiða 23.682.354 króna fyrir eindaga 21. desember 2007. Vísast hér einnig til greiðsluseðla á dskj. nr. 20 á eindaga 21. janúar 2008 að fjárhæð 481.800 krónur vegna umframáskriftar Guðmundar og Sólrúnar. Guðmundur og Sólrún höfðu áður skráð sig fyrir stofnfjáraukningu að fjárhæð 3.393.053 krónur og 17.192 krónur hvor, sbr. greiðsluseðla á eindaga 24. september 2007 og 1. október 2007.
Varðandi fjármögnun kaupa Guðmundar og Sólrúnar á stofnfjárbréfunum var gerður lánssamningur milli stefnanda sem lántaka og Byrs sparisjóðs sem lánveitanda, dags. 14. desember 2007, en Guðmundur og Sólrún undirrituðu lánssamninginn sem fyrirsvarsmenn lántaka. Í samningnum kom fram að um væri að ræða lán að jafnvirði allt að 60.000.000 króna í nánar tilgreindum gjaldmiðlum og hlutföllum, en ágreiningslaust er að lánið hafi verið í íslenskum krónum haldið ólögmætri gengisbindingu. Í grein 1.4 í samningnum var kveðið á um að ráðstafa skyldi láninu beint inn á tilgreindan reikning lánveitanda, en tilgangur lánveitingarinnar var „að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í BYR“ og skyldi láninu ráðstafað til þess verkefnis.
Í 7. grein lánssamningsins sagði að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins hefði lántaki afhent lánveitanda tryggingarbréf nr. 1175-63-335175, útgefið 14. desember 2007, að upphaflegum höfuðstól 65.500.000 japanskra jena og 661.000 svissneskra franka, tryggt með 4. veðrétti og uppfærslurétti í fasteignunum Smiðjuvegi 11 og 11a, Kópavogi. Tryggingarbréfið var undirritað af Guðmundi og Sólrúnu fyrir hönd stefnanda.
Þann 14. desember 2007 undirrituðu þau Guðmundur og Sólrún fyrir hönd lántakanda, stefnanda í máli þessu, beiðni um útborgun framangreinds láns og var þess þar óskað að lánið yrði greitt út 20. desember 2007. Í kjölfarið var lánsfjárhæðinni ráðstafað í samræmi við grein 1.4 í lánssamningnum. Þá var gerð skilmálabreyting við lánssamninginn 25. nóvember 2008 þar sem endurgreiðslu- og vaxtaskilmálum lánsins var breytt, sem Guðmundur undirritaði fyrir hönd stefnanda.
Stofnfjáreigendum Byrs sparisjóðs var greiddur 44% arður vegna ársins 2007 sem skyldi lagður inn á bankareikning stofnfjáreigenda, sbr. bréf til stofnfjáreigenda „[í] þeim tilvikum sem stofnfjárhlutir hafa verið veðsettir var arði ráðstafað til veðhafa, þ.e. til greiðslu vaxta og niðurgreiðslu höfuðstóls í samræmi við lánaskilmála“. Guðmundur og Sólrún fengu greiddar 12.381.934 krónur hvor í arð vegna stofnfjárbréfa sinna og var sú fjárhæð, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, lögð inn á bankareikning þeirra. Voru þessir fjármunir þeim því til persónulegrar ráðstöfunar.
Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Byrs sparisjóðs til Byrs hf. á grundvelli ákvæðis VI til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Var öllum eignum og skuldbindingum sparisjóðsins, nema þær væru sérstaklega undanskildar, ráðstafað til Byrs hf. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010 var Byr sparisjóður síðan tekinn til slitameðferðar. Með kaupsamningi, dags. 12. júlí 2011, keypti stefndi alla hluti í Byr hf. sem sameinaðist síðar stefnda. Ágreiningslaust er með aðilum að kröfuréttindi samkvæmt umræddum lánssamningi Byrs sparisjóðs við Terma ehf. hafi við þetta færst til stefnda.
Þann 24. nóvember 2011 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 117/2011, sbr. einnig dóma í málum nr. 118/2011 og 119/2011 sama dag. Í máli nr. 117/2011 krafði Íslandsbanki hf., þ.e. stefndi, einstaklinginn Ó um greiðslu skuldar vegna láns sem Glitnir banki hf. hafði veitt Ó vegna kaupa hennar á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði, en bankinn hafði fengið stofnfjárhlutina að handveði til tryggingar greiðslu lánsins, og lánið síðar verið framselt stefnda. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom fram að engum vafa hefði verið undirorpið að Ó hefði með lánssamningi skuldbundið sig til að greiða til baka lán vegna kaupa á stofnfjárbréfum. Í ljósi ótvíræðrar greiðsluskyldu Ó á láninu var hins vegar talið að sú ráðgjöf, sem talið var að veitt hefði verið, og sem fól í sér að lántakan væri áhættulaus fyrir lántaka þar sem einungis væri krafist trygginga í stofnfjárbréfunum, hefði verið villandi. Var því talið ósanngjarnt af hálfu Íslandsbanka hf., þ.e. stefnda, að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann fól í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu Ó í öðrum eignum en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Af hálfu stefnanda er á því byggt að dómur þessi hafi þýðingu við úrlausn málsins en því er mótmælt af hálfu stefnda.
Þann 11. júní 2012 sendi lögmaður stefnanda bréf til stefnda, þar sem krafist var niðurfellingar á láni samkvæmt hinum umdeilda lánssamningi. Vísað var til framangreinds dóms í máli nr. 117/2011 og fullyrt að þar hefði verið staðfest „að Íslandsbanki hf. gæti ekki borið fyrir sig lánssamning til fjármögnunar kaupa á stofnfjárhlutum í Byr vegna þess hvernig Byr og Glitnir banki hf. höfðu staðið að sölu á stofnfjárbréfunum í Byr í desember 2007“. Stefndi svaraði síðastnefndu bréfi 4. júlí 2012 og tók fram að lán það sem um var deilt í máli nr. 117/2011 hefði ekki verið fellt niður heldur hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi gæti ekki leitað fullnustu í eignum lántaka umfram stofnfjárbréfin sem veðsett voru og arðgreiðslum af þeim. Í bréfi stefnda var tekið fram að sömu sjónarmið ættu ekki við um lánssamning stefnanda enda hefði félagið veðsett fasteignir sínar til tryggingar skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningnum en ekki stofnfjárbréf. Var kröfum um niðurfellingu lánssamningsins hafnað.
Ekki kom til frekari samskipta stefnanda og stefnda og var mál þetta síðan höfðað með stefnu þingfestri þann 19. desember 2013.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ógilda beri lánssamninginn eða víkja honum til hliðar að hluta þar sem skilyrði hans, að lánsféð færi ekki til lántakans, stefnanda, heldur alfarið til greiðslu á kaupum Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur á viðbótarstofnfé í Byr, sé ólögmætt. Byr sparisjóði hafi verið óheimilt að gera slíkt að skilyrði fyrir lánveitingu til félagsins. Viðskiptahættir Byrs hafi ekki verið í samræmi við góða viðskiptavenju eða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þá hafi lánsféð alls ekki runnið til lántakans og þar af leiðandi hafi samningurinn í raun aldrei komist á milli stefnanda og Byrs sparisjóðs. Hafi lánssamningurinn því bersýnilega verið til málamynda enda hafi stefnandi ekki fengið andvirði lánsins til frjálsrar ráðstöfunar heldur hafi það farið til Byrs sparisjóðs sjálfs, vegna samnings sparisjóðsins við þriðja aðila, Guðmund og Sólrúnu, um kaup á viðbótarstofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Samningurinn hafi verið gerður í þágu Byrs og beinlínis til þess að sniðganga reglur sparisjóðsins um útlán til stofnfjárkaupa þar sem Byr hafi verið óheimilt að lána til stofnfjáraukningar í sjálfum sér.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að í þeim tilvikum, sem stofnfjárhöfum hafi verið lánað til kaupa á viðbótarstofnfé í útboðinu 2007, hafi einungis verið lánað með veði í stofnfé og með því fororði að áhætta Byrs sparisjóðs skyldi aðeins vera bundin við verðmæti stofnfjárins sem slíks. Um þennan framkvæmdamáta vísar stefnandi til málsatvika í hæstaréttarmálinu nr. 117/2011. Byr hf., hafi eftir fall Byrs sparisjóðs og svo síðar stefndi sjálfur, eftir yfirtöku Byrs hf., fellt niður lán sem Byr sparisjóður veitti til stofnfjárkaupa í sparisjóðnum og án þess að ganga að lántakendum persónulega. Þetta staðfesti enn fremur að skilningur stefnda og fyrri kröfueigenda að stofnfjárlánum Byrs sparisjóðs sé sá að Byr sparisjóður hafi í reynd ekki mátt halda lánum til stofnfjárkaupa upp á lántakendur umfram það sem nam fullnustu í stofnbréfunum sjálfum sem sett voru að veði, líkt og gilti um lán Glitnis til stofnfjárkaupa í Byr sbr. hæstaréttarmálið nr. 117/2011. Þar sem andvirði lánsins til stefnanda gekk til Byrs sparisjóðs til greiðslu á stofnfjárbréfum Guðmundar og Sólrúnar, sem voru hinir raunverulegu lántakendur, sé ósanngjarnt að stefndi beri fyrir sig lánssamninginn sem slíkan og nýti sér veðtryggingu í eigum stefnanda fyrir stofnfjárkaupláni sem í reynd hafi verið veitt Guðmundi og Sólrúnu, til að knýja fram endurgreiðslu með þeim afleiðingum að mismuna þannig Guðmundi og Sólrúnu gagnvart öðrum stofnfjárlánþegum Byrs sparisjóðs, sem hafi fengið niðurfellingu sinna lána.
Í þriðja lagi, byggir stefnandi á því að forsendur fyrir lánveitingunni hafi verið rangar og þær brostið. Lánssamningurinn hafi alfarið verið bundinn kaupum Guðmundar og Sólrúnar, á viðbótarstofnfé í Byr sparisjóði og þau tvö byggt ákvörðun sína um kaup á viðbótarstofnfé á ráðgjöf Glitnis og starfsmanna Byrs og á fjárhagsstöðu sparisjóðsins skv. útboðsgögnum sem var sögð traust og góð. Hins vegar hafi fjárhagsstaða sparisjóðsins verið mun verri en útboðsgögn kváðu á um. Eignir sparisjóðsins hafi verið verulega ofmetnar, t.a.m. hafi ekki verið tekið tillit til tapsáhættu af lánum m.a. til tengdra aðila og sem mynduðu stóra áhættu. Þá hafi skuldir verið vanmetnar. Auk þess hafi heldur ekki verið gerð grein fyrir fyrirsjáanlegum lausafjárerfiðleikum sparisjóðsins og látið hjá líða að upplýsa um að sparisjóðurinn hafði ekki tryggt sér lánsfé til að mæta eigin skuldbindingum í nánustu framtíð. Ef upplýsingar að þessu lútandi hefðu verið kynntar með réttu, hefði ekki orðið af kaupum Guðmundar og Sólrúnar og því aldrei orðið af lánveitingunni.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að starfsmenn Byrs sparisjóðs og Glitnis banka hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þegar þau, Guðmundur og Sólrún, voru hvött til að kaupa viðbótarstofnfé í Byr sparisjóði. Í ljósi þessa byggir stefnandi á því að stefndi geti ekki borið fyrir sig lánssamning Byrs sparisjóðs við stefnanda og beri því að sæta ógildingu samningsins eða ella riftun hans eða breytingu þar sem samningurinn hafi verið til málamynda, lántakinn hafi aldrei fengið andvirði lánsins í hendur til ráðstöfunar og forsendur fyrir láninu hafi brostið sem hafi í reynd verið lán til Guðmundar og Sólrúnar til kaupa á stofnfé í Byr sparisjóði. Verði ekki fallist á ógildingu eða riftun samningsins byggir stefnandi á því að samið hafi verið um að ef kæmi til greiðslufalls væri Byr sparisjóði aðeins heimilt að ganga að stofnfjárbréfum Guðmundar og Sólrúnar í Byr sparisjóði og arðgreiðslum af þeim, í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í sambærilegum málum. Beri því að víkja lánssamningum til hliðar og breyta honum þannig að veðtryggingin í Smiðjuvegi 11 og 11a, Kópavogi falli niður.
Stefnandi byggir á reglum samningaréttarins um ógildingu og brostnar forsendur, sbr. 33. gr., 36. gr., og 36. gr. a, b og c í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og á dómafordæmum. Þá byggir stefnandi á almennum reglum kröfuréttar um riftun sem vanefndaúrræði.
Stefnandi byggir einnig á því að útboðslýsing Byrs hafi verið röng og villandi, hún hafi ekki gefið rétta mynd af fjárhagsstöðu Byrs sparisjóðs. Upplýsingar sem fram hafi komið í henni hafi ekki verið í samræmi við raunverulega stöðu sparisjóðsins og með gerð hennar hafi stjórn Glitnis banka hf. og Byrs sýnt af sér skaðabótaskylda og saknæma háttsemi gagnvart stofnfjárhöfum.
Stefnandi byggir á því að mikill aðstöðumunur hafi verið á stefnanda og Byr. Guðmundur og Sólrún hafi verið stofnfjárhafar og hinir raunverulegu lántakendur og viðsemjendur Byrs sparisjóðs sem hafi að öllu leyti séð um samningagerðina og kynningu á fjárhagsstöðu Byrs. Allan vafa, óvissuþætti og óskýrleika verði að skýra stefnanda í hag í samræmi við meginreglur samningaréttar. Guðmundur og Sólrún, hafi ekki fengið nægilega greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem fólst í lántöku til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði.
Stefnandi byggir á því að öll þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi að leiða til þess að kröfu hans eigi að taka til greina. Efni samningsins hafi verið ósanngjarnt gagnvart stefnanda vegna hins ósanngjarna og ólögmæta skilyrðis um ráðstöfun lánsins. Mikill aðstöðumunur hafi verið á aðilum þar sem Byr var fjármálafyrirtæki með mikla þekkingu á sviði lánsviðskipta og verðbréfaviðskipta en fyrirsvarsmenn stefnanda, sem eru einstaklingar og stefnandi lítið fyrirtæki, hafi ekki haft mikla reynslu eða þekkingu á þessu sviði. Einnig hafi ýmis atvik við samningsgerð leitt til þess að samningurinn var ósanngjarn. Þar megi nefna þann mikla þrýsting frá Byr um að Guðmundur og Sólrún ykju stofnfé sitt, Byr hafi brotið gegn verklagsreglum II. kafla laga nr. 108/2007. Auk þess sem útboðið hafi verið villandi og saknæmt, hafi verið brotið gegn öðrum lagafyrirmælum sem hafi gilt um útboðið. Enn fremur beri að líta til atvika við samningsgerð, þ.e. þess að athafnir Byrs í rekstri sínum, leiddu til þess að bréf Guðmundar og Sólrúnar urðu verðlaus.
Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir framsal kröfunnar samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins geti stefnandi haldið fram öllum þeim sömu mótbárum gagnvart stefnda og hann hélt fram gagnvart upphaflegum kröfuhafa, Byr sparisjóði.
Stefnandi byggir á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 108/2007, einkum II. kafla, við gerð lánssamningsins, bæði af hálfu Glitnis banka hf., forvera stefnda, sem og Byrs sparisjóðs, en þeim hafi borið að haga ráðgjöf sinni til stofnfjáreigenda í samræmi við ákvæði framangreindra laga um vernd fyrir almenna fjárfesta. Lögin hafi tekið gildi 1. nóvember 2007 en með því hafi verið leidd í lög hér á landi MiFID-tilskipun Evrópusambandsins sem kveði ítarlega á um skyldur fjármálafyrirtækja gagnvart almennum fjárfestum eins og stefnendum. Þá hafi starfsmenn Byrs í ráðgjöf sinni ekki farið að fyrirmælum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem hafi átt við um kaupin, sbr. einkum 5. gr., 8. gr. og 14.-16. gr. Með fjárfestingaráðgjöf sé átt við persónulegar ráðleggingar til viðskiptavina í tengslum við fjármálagerninga, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007. Stefnandi telur óumdeilt að lánið hafi verið veitt til verðbréfakaupa. Þar af leiðandi hafi bankinn komið fram sem samningsaðili í verðbréfaviðskiptum. Ekki hafi farið fram sérstök könnun á fjárhag stefnanda eða fyrirsvarsmanna og getu þeirra til að ráðast í kaup á stofnfjárbréfum. Byr hafi ekki mátt ráðleggja Guðmundi og Sólrúnu að taka lán til kaupanna á stofnfjárbréfunum. Bréfin hafi ekki verið skráð í kauphöll og markaður með þau hafi verið takmarkaður. Veruleg seljanleikaáhætta hafi því fylgt stofnfjárbréfunum og skuldsett kaup á slíkum bréfum því fráleit fyrir stefnendur. Með þessu hafi bankinn sýnt af sér saknæma og bótaskylda háttsemi gagnvart Guðmundi og Sólrúnu og vanefnt skyldur sínar gagnvart þeim. Skuldsett sala á stofnfjárbréfum til þeirra hafi verið brot á lögum nr. 108/2007 og saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu bankans.
Stefnandi byggir á því að stofnfjáraukning Byrs sparisjóðs hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, eða reglugerðar nr. 242/2006 um almenn útboð verðbréfa að verðmæti 210.000.000 kr. eða meira. Þá hafi hún ekki verið í samræmi við skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað og reglugerð nr. 243/2006 um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 809/2004 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB að því er varðar upplýsingar í lýsingum, svo og framsetningu þeirra, upplýsingar felldar inn með tilvísun, og birtingu lýsinganna, sem og dreifingu auglýsinga, ásamt viðauka.
Í útboðslýsingu og ráðgjöf starfsmanna Byrs sparisjóðs hafi skort verulega á fullnægjandi upplýsingar um þá áhættu sem hafi falist í því að virði bréfanna sem kaupa átti og rekstur sparisjóðsins gæti þróast til verri vegar og hvaða áhrif það hefði á skuldbindingu lántaka. Útboðslýsing og þær upplýsingar sem þar hafi komið fram um efnahag Byrs sparisjóðs hafi vægast sagt verið villandi og staða Byrs hafi verið mun verri en lýst hafi verið. Til að mynda hafi áhættan af því að lána stærstu lántakendum sparisjóðsins, s.s. FL Group, Baugs, hluthöfum Saxhóls og skyldum aðilum, verið stórlega vanmetin eins og komið hafi í ljós á árinu 2008. Að sama skapi hafi eignasafn sparisjóðsins verið stórlega ofmetið. Forsendur fyrir stofnfjárkaupum Guðmundar og Sólrúnar hafi því reynst verulega rangar í veigamiklum atriðum og í reynd brugðist með öllu við hrun fjármálakerfisins hér á landi haustið 2008, enda séu stofnfjárbréf í Byr sparisjóði nú verðlaus.
Við ráðgjöf til Guðmundar og Sólrúnar hafi jafnframt verið gengið út frá þeim forsendum að markaðsvirði stofnfjárbréfa Byrs sparisjóðs hafi verið umtalsvert hærra en nafnvirði þeirra, að stofnféð væri gefið út á verulega lægra gengi en markaðsvirði og að það myndi rýrna mikið í verði við stofnfjáraukninguna ef stofnfjáreigendur tækju ekki þátt í útboðinu. Á engan hátt hafi hins vegar, í þeirri ráðgjöf sem fram hafi farið á vegum Byrs og Glitnis, verið vikið að þeirri áhættu sem fylgdi viðskiptunum og hvers eðlis hún væri. Þá hafi í ráðgjöfinni verið gefið til kynna að lántakan væri í raun áhættulaus þar sem væntanlegar arðgreiðslur myndu líklega greiða lánið upp. Að öðrum kosti yrði leitað fullnustu í bréfunum að því marki sem þörf væri á. Þannig hafi ráðgjöf Byrs verið villandi og leitt til þess að fyrirsvarsmenn stefnanda tóku umrætt lán sem þau ella hefðu aldrei tekið. Ljóst sé að Byr hafi vanefnt og brotið gróflega lögboðnar skyldur sínar gagnvart stefnanda og fyrirsvarsmönnum hans í aðdraganda lántökunnar með hvatningu og þrýstingi á skuldbindingu félagsins og veðsetningu eigna þess sem tók í kjölfarið á sig gríðarlega fjárhagslega skuldbindingu í þeim tilgangi að auka hlut sinn í sparisjóðnum. Hin umfangsmikla skuldsetning í gegnum stefnanda, sem hafi numið 60 milljónum króna, hafi leitt til þess að mjög ríkar kröfur hafi orðið að gera til Byrs sparisjóðs um að skýra með raunhæfum og greinargóðum hætti frá þeirri áhættu sem hafi falist í svo skuldsettum stofnfjárbréfakaupum. Byr hafi borið að óska sérstaklega eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu fyrirsvarsmanna stefnanda á sviði þessarar tegundar verðbréfaviðskipta áður en ákveðið hafi verið að lána þeim með þessum hætti til kaupanna. Þau hafi haft takmarkaða þekkingu á verðbréfaviðskiptum og þar af leiðandi hafi aukist sú skylda Byrs sparisjóðs að upplýsa með fullnægjandi hætti um þá áhættu sem fólst í því að taka lán til að kaupa svo mikið magn stofnfjárbréfa. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að hefði upplýsingagjöf Byrs verið fullnægjandi og í samræmi við raunverulega stöðu bankans hefðu fyrirsvarsmenn stefnanda ekki tekið lán til kaupa á stofnfjárbréfunum eða boðið fram til tryggingar fasteignir stefnanda.
Að lokum er byggt á því af hálfu stefnanda að athafnir Byrs að öðru leyti, sem og Glitnis banka hf., í rekstri sínum fram að þeim tíma er stofnfjárbréfin féllu í verði, leiði til þess að rétt sé að víkja samningnum til hliðar í heild eða að hluta.
Varðandi riftunarkröfu byggir stefnandi á því að öllum skilyrðum riftunar sé fullnægt í málinu. Riftunarkrafa byggi sérstaklega á framangreindum málsástæðum sem og því að Byr sparisjóður og Glitnir banki hf. hafi verulega vanefnt skyldur sínar gagnvart fyrirsvarsmönnum stefnanda við útboðsgerð, upplýsingagjöf, ráðleggingar og samningsgerð um lánssamning þann sem krafist er riftunar á sem og almennt með ólögmætri og ámælisverðri framkomu í garð þeirra vegna útboðsins og gerð lánssamnings. Um sé að ræða bæði upprunalega og eftirfarandi vanefnd.
Útboðsgögn og ráðleggingar bankanna hafi verið forsenda og grundvöllur þess að umrætt lán var tekið og skyldur bankanna verið ríkar. Orsakasamband sé milli þessara vanefnda bankanna sem og þeirra atvika sem rakin séu í málsástæðum í stefnu og þeirrar skerðingar á hagsmunum stefnanda sem séu grundvöllur riftunarkröfu. Þá sé lánssamningurinn sem gerður hafi verið ólögmætur, enda feli hann í sér ólögmæta gengistryggingu.
Þá byggir stefnandi á því að með háttsemi sinni og atvikum eftir að lánssamningurinn komst á, fram að þeim tíma er stofnfjárbréfin féllu í verði, hafi Byr sparisjóður sýnt af sér háttsemi sem í felist veruleg vanefnd, enda sé um að ræða atvik og háttsemi sem stefnandi hafi með engu móti getað gert sér grein fyrir.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um ógildingu og brostnar forsendur. Þá er byggt á samningalögum nr. 7/1936, einkum III. kafla, almennum reglum kröfuréttar, lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, reglugerð nr. 242/2006 og reglugerð nr. 243/2006, ásamt viðauka.
Um kröfu um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt
Varðandi varnarþing er vísað til V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Þá tekur stefndi fram, í tengslum við málatilbúnað stefnanda, að ýmist sé rætt um meinta háttsemi Byrs sparisjóðs, Glitnis banka hf. eða beggja aðila, án þess að ráðið verði af málavaxtalýsingu í hverju meint aðkoma Glitnis banka hf. gagnvart stefnanda hafi verið fólgin og hvaða þýðingu hún þá hafi. Stefnandi blandi saman málavöxtum í þessu máli og málavöxtum áðurgreinds hæstaréttarmáls nr. 117/2011.
Stefndi telur að kröfuréttarsamband hans og stefnandans Termu ehf., sem byggt er á umþrættum lánssamningi frá 14. desember 2007, sé í fullu gildi svo og trygging sú sem fyrir hendi sé. Stefndi mótmælir því sérstaklega að Guðmundur Sigurðsson og Sólrún Sævarsdóttir teljist „hinir raunverulegu lántakendur“. Stefndi mótmælir því einnig sérstaklega sem röngu og ósönnuðu að um það hafi verið samið, þvert gegn því sem efni lánssamningsins og tryggingarbréfsins beri með sér, að „ef kæmi til greiðslufalls væri Byr sparisjóði aðeins heimilt að ganga að stofnfjárbréfum Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur í Byr sparisjóði og arðgreiðslum af þeim, í samræmi við framkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum“.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfur sínar á hendur stefnda fyrir tómlætis sakir. Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísi stefnandi til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 117/2011, en sá dómur, sem stefndi telur reyndar þýðingarlausan fyrir úrlausn sakarefnisins, var kveðinn upp 24. nóvember 2011. Liðu rúmlega tvö ár frá uppkvaðningu dómsins, sem stefndi telur að hafi þýðingu, til útgáfu stefnu og hátt í 17 mánuðir frá því að afstaða stefnda til krafna stefnanda lá fyrir með bréfi 4. júlí 2012. Mátti stefnanda, eins og aðstæðum var háttað, vera fyllilega kunnugt um tómlætisverkanir og réttaráhrif þeirra. Leit stefndi svo á að stefnandi myndi ekki hafa uppi frekari kröfur fyrir sitt leyti eftir viðbrögð stefnda við bréfi lögmanns hans. Í þessu sambandi sé einnig til þess að líta að við útgáfu stefnu voru liðin rúmlega sex ár frá því að stofnfjárútboð Byrs sparisjóðs átti sér stað. Þetta tómlæti stefnanda, svo sem liggi í eðli málsins, sé til þess fallið að torvelda alla sönnun, ekki síst með tilliti til eðlis sakarefnisins, en hér sé einnig að því að gæta að stefndi leiði rétt sinn frá öðrum lögaðila sem ekki sé lengur starfandi fjármálafyrirtæki. Til þess sé jafnframt að líta að stefnandi beri að því er virðist að einhverju leyti fyrir sig meinta annmarka á stofnfjárbréfum þeim sem Guðmundur og Sólrún skráðu sig fyrir, en slík kaup geti fallið undir gildissvið laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt því sem segi í 32. gr. sömu laga glati kaupandi rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda, án ástæðulauss dráttar frá því hann varð galla var eða mátti verða þess var, í hverju gallinn er fólginn og ef kaupandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku geti hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Stefndi vísar hér einnig til 2. mgr. 39. gr. sömu laga þar sem segir að kaupandi geti ekki rift kaupum nema hann tilkynni seljanda um riftun án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk eða hefði átt að fá vitneskju um gallann. Telja verður að sambærilegar reglur gildi samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Auk þess hafi lántaki, Terma ehf., greitt samningsbundnar afborganir lánsins, fyrirvaralaust, og þannig viðurkennt gildi hans í verki, þ. á m. eftir fyrrnefnd samskipti aðila sumarið 2012.
Þá telur stefndi að sýkna verði hann af dómkröfum stefnanda, a.m.k. aðal- og varakröfu, þegar af þeim ástæðum að svo virðist sem stefnandi vilji annars vegar að stofnfjárkaup þau sem um ræðir teljist gild en hins vegar, á sama tíma, að lánssamningur sá sem liggi til grundvallar fjármögnun kaupanna, verði ógiltur eða honum rift. Í reynd feli dómur í þessa veru í sér að Guðmundur og Sólrún fái stofnféð, sem þau hafa fengið verulegar arðgreiðslur af, að gjöf að því er virðist, og samhliða að hið undirliggjandi kröfuréttarsamband á milli stefnandans Terma ehf. og fjármögnunaraðila falli úr gildi. Slík niðurstaða hljóti að teljast lögleysa, meðal annars með tilliti til almennra auðgunarsjónarmiða, eðlis málsins og meginreglna fjármuna- og samningaréttar. Þrautavarakrafan sé ekki sama annmarka háð að þessu leyti, enda ekki verið að fella kröfurétt vegna lánsskuldbindingarinnar úr gildi, heldur eingöngu tryggingarrétt lánveitanda. Niðurstaðan geti þó að endingu orðið sú sama í fjárhagslegu tilliti sé Terma ehf. ekki greiðslufært.
Stefndi telur að hvað sem öðru líður verði að líta til þess að meintir ógildingarannmarkar, riftunarástæður og aðrar málsástæður stefnanda, varði í reynd, þegar öllu er á botninn hvolft, kaup Guðmundar og Sólrúnar á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði. Slíkt geti ekki, að því er stefndi telji, varðað með beinum hætti kröfuréttarsamband hans og stefnandans Termu ehf. vegna lánssamningsins, a.m.k. eins og málatilbúnaður stefnenda sé fram settur. Þá bendir stefndi á, að því sé ekki borið við af hálfu stefnanda að hann verði sjálfur fyrir einhverju tjóni gagnvart stefnda, svo sem að hann eigi engar kröfur á hendur meðstefnendum. Því sé þannig heldur ekki borið við að sakarefni málsins hafi haft einhver áhrif á innbyrðis lögskipti stefnandans gagnvart Guðmundi og Sólrúnu og sé sá þáttur málsins vanreifaður. Þegar af þessum ástæðum, einum og sér, sé ekkert hald í málatilbúnaði stefnanda, sbr. einnig síðari umfjöllun. Fær stefndi raunar ekki ráðið, í þessu ljósi meðal annars, hvernig almennar reglur kröfu- og samningaréttar megni yfirhöfuð að leiða til þess að kröfuréttarsambandi á milli lánveitanda og lántaka sé ógilt, rift, eða breytt, eða tryggingarrétti hliðrað, svo sem dómkröfur stefnanda feli í sér.
Stefndi byggir á því að það geti almennt ekki talist óvenjulegt, hvað þá óheimilt, ósanngjarnt eða í ósamræmi við góða viðskiptavenju eða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, að fjármálafyrirtæki eins og Byr sparisjóður semji á þann veg að lántaki endurgreiði peningalán, sem lánveitandi hefur veitt lántakanum, þ. á m. með því að áskilja sér tryggingarrétt í eignum lántaka. Stefndi vísar einnig til þess að þegar lán eru veitt í ákveðnum tilgangi sé almennt samið á þann veg að lánsfénu skuli ráðstafað beint inn á tiltekinn reikning í samræmi við tilgang lánsins. Óumdeilt sé að umþrætt lán var veitt í þeim tilgangi að fjármagna stofnfjárkaup, sbr. gr. 1.4 í lánssamningnum, og að lánsfénu var ráðstafað því til samræmis. Því teljist vart óeðlilegt að lántaki hafi ekki fengið andvirði lánsins til „frjálsrar ráðstöfunar“ og málatilbúnaður stefnanda hér að lútandi sé raunar með nokkrum ólíkindum. Að sama skapi sé haldlaust fyrir stefnanda að bera því við að samningurinn hafi í raun aldrei komist á eða verið til málamynda. Það fái enga stoð, hvorki með tilliti til efnis samningsins né málsatvika. Þá sé hér til þess að líta að Guðmundur og Sólrún undirrituðu lánssamninginn, útborgunarbeiðni lánsins, síðari skilmálabreytingu og tryggingarbréfið, sem fyrirsvarsmenn stefnanda, sem sé lántaki og veðþoli. Auk þess hafi lántaki, stefnandi, greitt samningsbundnar afborganir lánsins, fyrirvaralaust, og þannig viðurkennt í verki að hann sé lántaki.. Jafnframt sé því alfarið hafnað að lánssamningurinn hafi verið gerður „í þágu“ Byrs sparisjóðs og „beinlínis til þess að sniðganga reglur sparisjóðsins um útlán til stofnfjárkaupa“, enda séu þær fullyrðingar órökstuddar, auk þess sem raunin virðist fremur sú að lánssamningurinn hafi verið gerður í þágu Guðmundar og Sólrúnar fyrir tilstilli einkahlutafélags í þeirra eigu og umráðum.
Þá byggir stefndi á því að stefnanda sé haldlaust að vísa til þess „að í þeim tilvikum sem lánað hafi verið til stofnfjárhafa til að kaupa viðbótarstofnfé í útboðinu 2007, hafi einungis verið lánað með veði í stofnfé og með því fororði að áhætta Byrs sparisjóðs skyldi aðeins vera bundin við verðmæti stofnfjárins sem slíks“, og því síður að vísa „[u]m þennan framkvæmdarmáta [...] til málsatvika í hæstaréttarmálinu nr. 117/2011“. Þau sjónarmið og þær forsendur sem niðurstaða í máli nr. 117/2011 byggðist á eigi sýnilega ekki við í máli þessu að mati stefnda. Ekki sé unnt að líta svo á að Guðmundur og Sólrún hafi verið í sömu villu um eðli lánsskuldbindingarinnar og talin var vera fyrir hendi í téðu máli, enda hafi stofnfjárbréf Guðmundar og Sólrúnar ekki verið sett til tryggingar láninu, sem fyrr segir, auk þess sem lántaki, stefnandi, var ekki kaupandi stofnfjárbréfanna. Þá hafi lánveitandi í téðu máli verið annar en sá sem stofnfjáraukningin var í. Í þessu tilliti geti villa eða forsenda stefnanda, sem stefndi telur ekki vera fyrir hendi, aðeins hafa falist í því að lántaki hafi talið áhættu sína af lántökunni takmarkast við hinar veðsettu fasteignir, en því sé ekki einu sinni haldið fram. Þá áréttar stefndi það sem fyrr segi að í málatilbúnaði stefnenda sé ýmist rætt um meinta háttsemi Byrs sparisjóðs, Glitnis banka hf. eða beggja aðila, án þess að í neinu verði ráðið af málavaxtalýsingu stefnenda í hverju meint aðkoma Glitnis banka hf. gagnvart stefnendum hafi verið fólgin, sem málatilbúnaðurinn sé þó öðrum þræði reistur á. Í því sambandi bendir stefndi og á að kröfur vegna meintrar rangrar upplýsinga- eða ráðgjafar Glitnis banka hf. við stofnfjáraukningu í Byr sparisjóði verði ekki hafðar uppi á hendur stefnda, Íslandsbanka hf., eins og hér stendur á, heldur beri að beina þeim að Glitni hf., en stefndi leiði rétt sinn á hendur Termu ehf. frá Byr hf. en ekki Glitni hf.
Stefndi hafnar því einnig alfarið, sbr. og fyrri umfjöllun, að lánið hafi „í reynd“ verið veitt Guðmundi og Sólrúnu „sem voru hinir raunverulegu lántakendur“, en sú fullyrðing sé í andstöðu við gögn málsins. Verði litið svo á standi jafnframt upp á stefnanda að skýra hvernig slík lánveiting og sá tryggingarréttur, sem veittur var samhliða, fari saman við ákvæði laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. meðal annars 1. mgr. 79. gr. laganna. Hvað sem því líði þá liggi fyrir að stefnandi tók upplýsta ákvörðun um að taka lánið í eigin nafni en í þágu Guðmundar og Sólrúnar, þ.e. til að fjármagna stofnfjárkaup þeirra. Í málinu njóti hins vegar ekki við gagna um það hvort, og þá hvers konar, samkomulag sé fyrir hendi á milli stefnanda annars vegar og Guðmundar og Sólrúnar hins vegar, svo sem um ráðstafanir til að tryggja endurgreiðslu lánsins og þar með skaðleysi félagsins, en stefnandi beri allan halla af óskýrleika málatilbúnaðar síns að þessu leyti. Stefndi telur einnig vandséð hvernig Guðmundi og Sólrúnu sé mismunað gagnvart „öðrum stofnfjárlánþegum Byrs sparisjóðs sem fengu niðurfellingu sinna lána“, enda hafi þau ekki verið „stofnfjárlánþegar“. Persónuleg áhætta Guðmundar og Sólrúnar af lánveitingunni sé hins vegar að því er virðist ekki til staðar, sem fyrr segir, enda varð að ráði að fjármögnun stofnfjárkaupa þeirra fór í gegnum einkahlutafélag þeirra, stefnanda, en þau virðist hins vegar hafa notið alls hagnaðar af stofnfjárkaupunum. Hér sé því um allt aðra stöðu að ræða en þess einstaklings sem um ræddi í fyrrgreindu máli nr. 117/2011, eða annarra aðila í sömu stöðu.
Um málsástæður stefnenda er varða ráðgjöf og upplýsingagjöf í tengslum við stofnfjáraukningu Byr sparisjóðs, þ. á m. með vísan til forsendureglna, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, og allar aðrar málsástæður af viðlíka meiði, sbr. nánar efnisgreinar 28-29, 31-35, 36-45 og 46-49 í stefnu, þá hafnar stefndi þeim sem röngum og ósönnuðum, en hvað sem öðru líður þýðingarlausum með tilliti til sakarefnisins, sbr. einnig alla framangreinda umfjöllun. Sama eigi við um tilvísanir til einstakra lagaákvæða. Verði stefnandi, gegn andmælum stefnda, að sanna allar málsástæður sínar og fullyrðingar um málsatvik hér að lútandi, og þá hvernig þær eigi að ráða úrslitum sakarefnisins. Í því sambandi sé til þess að líta að stefndi er ekki í sérstakri aðstöðu til að leggja mat á réttmæti allra þessara fullyrðinga sem snúi mestmegnis að starfsemi lögaðilans Byr sparisjóðs á síðasta áratug. Sérstaklega skuli minnt á, vegna tilvísunar stefnanda til laga nr. 108/2007, að Byr sparisjóður virðist eingöngu hafa komið fram sem lánveitandi gagnvart stefnanda, en það félag hafi ekki verið aðili að neinum verðbréfaviðskiptum í skilningi laganna. Þannig hafi a.m.k. engar skyldur hvílt á sparisjóðnum gagnvart stefnanda á grundvelli laga nr. 108/2007, og voru Guðmundur og Sólrún ekki að stofna til fjárskuldbindingar við sparisjóðinn. Að sama skapi hvíldu engar skyldur á Glitni banka hf. gagnvart stefnanda, og slíkt í öllu falli vanreifað, sbr. og hér að framan. Um ráðgjöf og upplýsingagjöf í tengslum við stofnfjáraukningu Byrs sparisjóðs vísar stefndi hér einnig til málavaxtalýsingar að framan. Þá skuli áréttað í tilefni af ýmsum fullyrðingum stefnanda, svo sem að því hafi verið lofað að stofnfjárbréfin stæðu ein til tryggingar, sbr. t.d. efnisgrein 42 í stefnu, að það komi þá óneitanlega nokkuð spánskt fyrir sjónir að sérstaklega hafi verið stofnað til tryggingarskuldbindinga í fasteignum með aðkomu stefnanda, Guðmundar og Sólrúnar. Verði allur málatilbúnaður stefnanda, þ. á m. trúverðugleiki hans, að skoðast í því ljósi að hann haldi ítrekað fram staðhæfingum ýmiss konar þvert gegn því sem gögn málsins beri skýrlega með sér.
Sömu sjónarmið og að framan greinir eigi við um þær málsástæður stefnanda er varða fjárhagsstöðu Byrs sparisjóðs og að hún hafi verið önnur en gefið var til kynna við stofnfjárkaupin, og forsendur fyrir lánveitingunni hafi verið rangar og brostið. Vísar stefndi einfaldlega til þeirra gagna er vísað var til í útboðslýsingunni, þ. á m. til ársreiknings Byrs sparisjóðs fyrir árið 2006 og árshlutareiknings sparisjóðsins 30. júní 2007, en ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að fjárhagsupplýsingar sem þar koma fram, eða aðrar upplýsingar um fjárhagsstöðu Byrs sparisjóðs sem lágu til grundvallar útgáfulýsingunni, hafi verið rangar, villandi eða misvísandi. Slíkt sé ósannað og beri stefnandi allan halla af því. Þau atvik og þær aðstæður sem leiddu til yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Byr sparisjóði 22. apríl 2010, rúmum þremur árum eftir umrætt stofnfjárútboð, hafi komið síðar til og geti ekki, a.m.k. ekki gegn andmælum stefnda, talist sönnun á því hvernig stöðu sjóðsins var háttað á árinu 2007.
Þá mótmælir stefndi því, meðal annars sem órökstuddu og ósönnuðu, að „athafnir Byrs að öðru leyti, sem og Glitnis banka hf., í rekstri sínum fram að þeim tíma er stofnfjárbréfin féllu í verði, leiði til þess að rétt sé að víkja samningnum til hliðar í heild eða hluta“, en eins sé heldur vandséð hvernig meint óráðsía í rekstri Glitnis banka hf. kunni að hafa haft áhrif í þessa veru með hliðsjón af eðli sakarefnisins. Að sama skapi er því mótmælt að „með háttsemi sinni og atvikum eftir að lánssamningurinn komst á, fram að þeim tíma, er stofnfjárbréfin féllu í verði, hafi Byr sparisjóður, sýnt af sér háttsemi sem í felist veruleg vanefnd“, en með engu sé rökstutt í hverju sú háttsemi sé fólgin. Þessar málsástæður stefnanda séu vanreifaðar með öllu. Þess utan sé alkunna að áhætta fylgir lögskiptum áþekkum þeim sem hér um ræðir og geti aðilar slíkra viðskipta almennt ekki að lögum vikist undan þeim skuldbindingum sem þeir hafi undirgengist vegna síðar til kominna atvika sem reynast þeim eftir atvikum óhagfelld.
Að lokum er því andmælt sérstaklega af stefnda að staða stefnanda verði lögð að jöfnu við stöðu þeirra aðila sem um ræddi í máli Hæstaréttar nr. 117/2011.
Um lagarök vísar stefndi meðal annars til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og laga nr. 75/1997 um samningsveð. Einnig vísar hann til meginreglna fjármuna-, samninga- og kröfuréttar, þ. á m. um réttar efndir skuldbindinga, frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra og til tómlætisreglna sérstaklega. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Mál þetta er risið vegna lánssamnings milli stefnanda sem lántaka og Byrs sparisjóðs sem lánveitanda. Lánið var veitt til að fjármagna stofnfjárkaup Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur í Byr sparisjóði, en þau eru jafnframt eigendur og stjórnendur stefnanda. Kröfur í máli þessu lúta ekki sérstaklega að þeim kaupum. Stefnandi hefur ekki átt stofnfjárbréf i Byr sparisjóði. Til tryggingar lánssamningum var veð í fasteignum stefnanda að Smiðjuvegi 11 og 11a í Kópavogi. Lánssamningurinn var færður yfir í Byr hf. Með kaupsamningi, dags. 12. júlí 2011, keypti stefndi alla hluti í Byr hf. sem sameinaðist síðar stefnda. Ágreiningslaust er með aðilum að kröfuréttindi samkvæmt umræddum lánssamningi Byrs sparisjóðs við Termu ehf. hafi við þetta færst til stefnda.
Guðmundur Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og Sólrún Sævarsdóttir, stjórnarmaður stefnanda, komu fyrir dóm við aðalmeðferð og gáfu skýrslur um aðdraganda að persónulegum kaupum sínum á stofnfjárbréfum. Þau kváðust bæði hafa treyst Byr, sem hefði verið viðskiptabanki þeirra og stefnanda og því ákveðið að taka ekki lán til kaupanna hjá Glitni með veði í stofnfjárbréfunum. Sólrún kvað þar hafi ráðið mestu að endurgreiða átti Glitnislánin á 18 mánuðum. Guðmundur kvað Byr ekki hafa mátt lána þeim til kaupa á stofnfjárbréfunum og því hefði verið ákveðið að fara þá leið sem farin hefði verið við fjármögnun kaupanna. Hann gat ekki fullyrt um hver hafi átti hugmyndina að þessari leið, en halda að það hafi verið bankinn.
Stefndi heldur því fram að stefnandi geti eingöngu byggt á atriðum er varði lántökuna sem slíka, en engir ógildingarannmarkar eða riftunarsjónarmið tengist lánveitingunni.
Ekki er fallist á að ógilda beri lánssamningin á þeim grundvelli að lánsféð hafi ekki farið til lántakanda og verið honum til frjálsrar ráðstöfunar. Algengt er að lán séu veitt í ákveðnum tilgangi, t.d. til að greiða upp ákveðnar skuldir, og er þá samið á þann veg að andvirði láns er ráðstafað beint inn á tiltekinn reikning í samræmi við tilgang lánsins. Umrætt lán var veitt í þeim tilgangi að fjármagna umrædd stofnfjárkaup Guðmundar og Sólrúnar, sbr. gr. 1.4 í lánssamningum. Þannig var lánsfjárhæðinni að beiðni stefnanda ráðstafað til Byrs sparisjóðs sem greiðslu vegna viðskipta annarra lögaðila, Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur við Byr sparisjóð. Þá hefur hvorki verið sýnt fram á það af hálfu stefnanda að skilyrði fyrir lánveitingunni af hálfu lánveitanda hafi verið að lánsféð færi ekki til stefnanda né til kaupa á viðbótarstofnfé í Byr til að sniðganga reglur sparisjóðsins um útlán til stofnfjárkaupa, en ekkert var kveðið á um það við stofnfjáraukningu í Byr sparisjóði að greiðsla fyrir stofnfjárbréf mætti ekki berast frá þriðja aðila. Þetta telst því ósannað.
Þá verður ekki talið óheimilt, í andstöðu við viðskiptavenju eða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti að fjármálafyrirtæki eins og Byr sparisjóður semji á þann veg að lántaki endurgreiði peningalán þ. á m. með því að áskilja sér tryggingarrétt í eignum lántaka. Þá hefur stefnandi ekki fært sönnur á að um það hafi verið samið, ef til greiðslufalls á umræddri lántöku kæmi, að aðeins væri heimilt að ganga að stofnfjárbréfum Guðmundar og Sólrúnar í samræmi við framkvæmd Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum, en slíkt hefði verið þvert gegn efni lánssamningsins og tryggingarbréfsins.
Þá er ósannað að Guðmundur Sigurðsson og Sólrún Sævarsdóttir hafi verið hinir raunverulegu lántakendur, eins og stefnandi byggir á, og að í raun hafi verið um málamyndagerning að ræða. Í því sambandi vísast til þess að Guðmundur og Sólrún undirrituðu lánssamninginn, útborgunarbeiðni lánsins, síðari skilmálabreytingu og tryggingarbréfið, sem fyrirsvarsmenn stefnanda, sem lántaki og veðþoli, athugasemdalaust. Auk þess hafi lántaki, stefnandi, greitt samningsbundnar afborganir lánasamningsins, fyrirvaralaust og þannig viðurkennt gildi hans í verki, þ. á m. eftir samskipti aðila sumarið 2012.
Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 117/2011, en sá dómur var kveðinn upp 24. nóvember 2011. Stefna í máli þessu var ekki gefin út fyrr en rúmlega tveimur árum síðar eða þann 16. desember 2013 og rúmum 16 mánuðum eftir að afstaða stefnda til krafna stefnanda lá fyrir með bréfi dags. 4. júlí 2012. Með þessu þykir stefnandi hafa sýnt af sér tómlæti.
Stefnandi byggir á því „að í þeim tilvikum sem lánað hafi verið til stofnfjárhafa til kaupa á viðbótarstofnfé í útboðinu 2007, hafi einungis verið lánað með veði í stofnfé og með því fororði að áhætta Byrs sparisjóðs skyldi aðeins vera bundin við verðmæti stofnfjárins sem slíks“. Fyrirkomulag á kaupum á stofnfjárbréfum í Byr var hins vegar með ýmsu móti. Ekki verður fallist á að þau sjónarmið og þær forsendur sem niðurstaða í hæstaréttarmáli nr. 117/2011 byggðist á eigi við í máli þessu. Stofnfjárbréf Guðmundar og Sólrúnar voru ekki sett til tryggingar láninu, heldur fasteignir í eigu stefnanda og stefnandi var ekki kaupandi að stofnfjárbréfum. Þá leiðir stefndi á engan hátt rétt sinn frá Glitni banka eins og ástatt var í fyrrnefndu hæstaréttarmáli.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið byggir stefnandi kröfu sína um ógildingu eða riftum á lánasamningi aðila á atvikum sem í raun varða annan löggerning og lögaðila sem ekki eru aðilar að málinu. Stefnandi getur ekki krafist ógildingar eða riftunar á eigin gerningi á grundvelli samninga þriðja manns, sbr. grunnrök 2. mgr. 16. gr. eml. nr. F91/1991. Af þessum sökum koma hér ekki til úrlausnar málsástæður stefnanda sem byggjast á aðstæðum og atvikum kaupsamnings Guðmundar Sigurðssonar og Sólrúnar Sævarsdóttur um kaup á stofnfjárbréfum í Byr. Kröfur vegna meintrar rangrar upplýsinga- eða ráðgjafar Glitnis banka hf. við stofnfjáraukningu í Byr sparisjóði verða ekki hafðar uppi á hendur stefnda, en stefndi leiðir rétt sinn á hendur stefnanda frá Byr hf. en ekki Glitni hf., eins og rakið hefur verið. Þá hefur stefnandi ekki byggt á því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Guðmundur og Sólrún fengu hins vegar greiddan 44% arð vegna stofnfjárbréfa sinn á árinu 2007, hvort að fjárhæð 12.381.934 krónur.
Lánssamningur stefnanda var sjálfstæður löggerningur og ekki liggur annað fyrir í málinu en að skuldbindingar samkvæmt honum hafi verið uppfylltar. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að til staðar hafi verið nokkur þau atvik eða aðstæður hafi verið til staðar við samningsgerðina sem leiða ættu til ógildingar hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og dómsorði er kveðið á um.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. eml. nr. 91/1991. Dómari og aðilar eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Termu ehf.
Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.