Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 20. maí 2011.

Nr. 316/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Svanhvít Yrsa Árnadóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 31. maí 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að kröfu um einangrun verði hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2011, þriðjudaginn 17. maí

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 31. maí  n.k. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær um kl. 16:00 hafi lögreglu borist tilkynning frá Tollyfirvöldum um að lagt hafi verið hald á rúm 58 kíló af fíkniefninu Kat (Catha edulis), í sex pappakössum, sem senda átti til Bandaríkjanna Norður-Ameríku og Kanada.  Kassarnir hafi verið sóttir á [...] [...] að [...] af starfsmönnum [...] fyrr um daginn.

Hafi lögreglumenn farið á umrætt hótel og fengið þær upplýsingar frá starfsmanni hótelsins að tveir erlendir gestir í herbergi [...] hafi komið í anddyri hótelsins með pappakassa sem [...] hafi svo sótt.  Hafi lögreglumennirnir þá farið að herbergi [...] þar sem kærðu Y og Z hafi verið handteknir, grunaðir um ofangreint fíkniefnamisferli.  Í viðræðum við annan þeirra (sjá nánar meðfylgjandi frumskýrslu lögreglu) hafi komið fram að hann hafi flutt umrædd efni í ferðatöskum hingað til lands og komið þeim svo fyrir í pappakössum.  Þetta hafi hann gert að beiðni Þ.  Hafi Þ þá verið handtekinn þar sem hann kom gangandi að herbergi [...].  Í herbergi Þ nr. [...] hafi kærði X verið, sem sömuleiðis var handtekinn.

Að kvöldi sunnudagsins 15. maí sl. hafi kærði X komið hingað til lands með flugi frá London.  Í farangri hans hafi fundist pappakassar, límbandsrúllur og flutningapappírar frá hraðflutningafyrirtækinu [...], sjá nánar meðfylgjandi skýrslu Tollstjóra.

Eins og fram komi í skýrslu lögreglu, dags. í dag, hafi lögreglu borist upplýsingar frá starfsmönnum gistiheimilisins [...], [...], um að kærði X hafi pantað þar 15. maí sl. tvö herbergi fyrir Æ og Ö frá 16. til 18. maí.  Daginn eftir hafi X komið að nýju ásamt öðrum erlendum karlmanni og breytt bókuninni þannig að fólkið kæmi ekki fyrr en í dag eða á morgun og yrði fram á föstudag 20. maí.  Samkvæmt upplýsingum frá tollyfirvöldum hafi farþegarnir Æ og Ö komið hingað til lands þann 14. maí sl. frá Namibíu í gegnum Frankfurt.  Lögregla leiti nú þessara manna.

Í málinu liggi fyrir framburður Y um að hafa komið hingað til lands ásamt félaga sínum Z með umrædd efni í fjórum ferðatöskum.  Þetta hafi hann gert að beiðni manns sem heitir X, sem jafnframt hafi greitt flugfargjald þeirra.  Þ hafi síðan aðstoðað þá við að koma efnunum fyrir í pappakössum sem X hafi komið með hingað til lands.  Þ hafi greitt þeim 300 pund fyrir að flytja töskurnar hingað til lands.  Z hafi svo aðstoðað sig við að koma kössunum í hendur [...].  Með vísan til framangreinds og til gagna málsins sé ljóst að kærði sé nú undir rökstuddum grun um að hafa flutt hingað til lands fíkniefni þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga eða lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. 

Megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því hafa samband við samverkamenn eða með því að koma undan gögnum og/eða fjármunum. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að ljúka nauðsynlegri rannsókn án þess að sakborningur geti spillt rannsókninni. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Meint sakarefni sé stórfellt fíkniefnalagabrot, sem varðað geti við almenn hegningarlög nr. 19/1940 eða fíkniefnalöggjöfina. Brotin geti varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Fram er komið að varnaraðili er undir sterkum grun um að hafa framið brot sem getur varðað margra ára fangelsi.  Óhjákvæmilegt er að láta kærða sæta gæsluvarðhaldi til þess að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.  Ber því að taka kröfu lögreglustjórans til greina.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 31. maí  n.k. kl. 16:00. Þá skal kærði sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, eftir því sem nauðsynlegt kann að þykja.