Hæstiréttur íslands
Mál nr. 279/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Opinberir starfsmenn
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 279/2012.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján B. Thorlacius hrl.) |
Kynferðisbrot. Opinberir starfsmenn.
X var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot í opinberu starfi sem þar voru talin varða við 199. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2012 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir brot gegn 199. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að refsing verði ákveðin svo væg sem heimilt sé.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, fyrir Hæstarétti, Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. febrúar 2012.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 3. nóvember 2011, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...],[...],
fyrir kynferðisbrot í opinberu starfi, með því að hafa mánudaginn 18. júlí 2011, á bensínstöð [...],[...],[...], við skyldustörf sem lögreglumaður, sært blygðunarsemi A, kt. [...], starfsmanns stöðvarinnar, og áreitt hana kynferðislega með því að koma því til leiðar að hann gat nálgast hana einslega í lokuðu herbergi við upplýsingaöflun vegna lögregluverkefnis og segja þar við hana að hún væri „alltaf jafn sexý“ og stuttu síðar með því að pota tvisvar með penna í vinstra brjóst hennar, snerta hana svo með hendi á sama stað og loks strjúka henni með fingri á hægra brjósti, utan klæða.
Telst þetta varða við 199. gr. og 209. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 8. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.100.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. júlí 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknu af bótakröfu. Í báðum tilvikum er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði, að mati dómsins.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að hinn 22. júlí 2011 lagði A fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Greindi hún svo frá að lögreglan hefði verið kölluð til þennan dag vegna bensínstuldar á bensínstöðinni sem í ákæru greinir. Ákærði og B, samstarfsmaður hans, hafi komið á vettvang vegna þessa. Hún hafi boðið lögreglumönnunum inn á skrifstofu í því skyni að skoða upptöku úr eftirlitsmyndavél þar sem bensínstuldurinn sést. Hún lýsti því er ákærði bað samstarfsmann sinn um að víkja aðeins út af skrifstofunni þar sem hann ætlaði að ræða aðeins við hana persónulega eins og lýst er í skýrslunni. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð A hjá lögreglu frekar, en fyrir liggur upptaka úr eftirlitsmyndavél bensínstöðvar [...] á [...] í [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir og sjást samskipti ákærða og A, þótt ekkert heyrist.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 8. september 2011, þar sem fram koma skýringar hans á því sem fram fór. Hann lýsti kynnum þeirra A og fleiru, en neitaði að hafa í greint sinn gerst sekur um kynferðisbrot.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa sinnt eftirliti ásamt B lögreglumanni, samstarfsmanni sínum, er hann ætlaði að koma við á bensínstöð [...] við [...] í [...] og kaupa sér eitthvað að drekka. Er þeir voru á leiðinni þangað inn hafi A tekið á móti þeim og hafi hún sagt að hún hefði rétt lokið við að kalla til lögreglu vegna ætlaðs bensínsþjófnaðar skömmu áður. Úr varð að ákærði og B sinntu þessu útkalli. A vildi fá lögregluna inn á skrifstofu til að sýna upptöku af hinum ætlaða bensínþjófnaði. Þar inni var málið rætt og A sýndi upptökuna og lýsti ákærði því er hringt var í manninn sem hlut átti að máli. Ákærði kvaðst hafa rætt málið við A og B hafi stundum verið inni á skrifstofunni en farið fram þess á milli. Ákærði kvað hafa komið að því að hávaði barst inn á skrifstofuna og hafi hann þá lokað dyrunum og kvað hann ekkert samband milli þess að hann lokaði dyrunum og þess sem gerðist inni í herberginu. Hann hafi lokað dyrunum vegna hávaða. Þegar hann lokaði hafi A sagt „X viltu vera einn með mér“. Fram kemur á upptökunni að A brosir eftir að ákærði lokaði dyrunum. Hann kvaðst ekki muna hver viðbrögð hans voru en þau hafi haldið áfram að ræða málið sem hann var kominn til að sinna. Hann lýsti því er daður byrjaði milli þeirra og hafi A tekið fullan þátt í því. Ákærði lýsti því er A stóð á fætur og spurði hann „er ekki gredda í stráknum“. Hann lýsti viðbrögðum sínum og bar jafnframt um það að þau hefðu oft hist áður og A hafi strokið sér og kallað hann ,,sæta“, ,,X minn“, ,,foli“ og fleira þessu líkt. Ákærði lýsti viðbrögðum sínum við ummælum A eftir að hún stóð á fætur og hann hafi þá beint penna sem hann hélt á í áttina að henni, en hann hafi ekki snert hana með pennanum. Upptakan var skoðuð með ákærða. Þar sést hann standa og A við hlið hans. Ákærði tekur niður minnispunkta á blað og beinir pennanum í tvígang að A án þess að líta hana. Ekki sést af upptökunni hvort penninn kom við hana, en ákærði kvað það ekki hafa gerst eins og rakið var. Á upptökunni sést A setjast brosandi niður eftir þetta. Ákærði kvað hana hafa sest niður aftur eftir þetta og þau rætt saman og daður verið í gangi milli þeirra. Hann lýsti því er að því kom að hann gekk að A og snerti á henni öxlina og sagði eitthvað við hana eins og „þú ert nú allt í lagi“. Hafi hún þakkað honum fyrir og sagt að ákærði væri ,,alltaf jafn sætur“. Stuttu síðar hafi hún staðið á fætur og staðið við hlið ákærða sem snerti hægra brjóst hennar með vísifingri vinstri handar. Hún hafi þá gefið til kynna að hún vildi þetta ekki. Ákærði hafi þegar hætt og þau gengið saman hlæjandi út úr herberginu. Hún hafi beðið um að fá að vita hvort rituð yrði skýrsla um málið og fleira. Ákærði lýsti því sem gerðist í framhaldinu, m.a ferð sinni heim til A til að greina henni frá lyktum málsins.
Ákærði kvaðst ekki hafa sagt við A að hún væri alltaf jafn sexí og ekki hafa potað tvisvar með penna í vinstra brjóst hennar. Þá hafi hann ekki snert hana með hendi á sama stað eins og lýst er í ákærunni. Á upptökunni kemur fram að ákærði beinir hendinni í áttina að A en ekki sést hvort snerting átti sér stað.
Ákærði kvað hið eina rétta í ákærunni það sem fram komi í niðurlaginu. Hann hafi strokið henni með fingri á hægra brjósti, utan klæða. Þetta hafi átt sér stað skömmu áður en þau yfirgáfu skrifstofuna.
Ákærði kvað daður hafa byrjað milli þeirra A fljótlega eftir að dyrunum var lokað. Bæði hafi átt hlut að máli. Spurður um það hvort honum hafi fundist A hafa gefið tilefni til þess að ákærði snerti hana eins og hann gerði, vísaði ákærði til daðursins sem stöðugt væri í gangi milli þeirra. Hann hafi talið að „daðurleikurinn“ væri í gangi og vísaði til háttsemi A í mörg skipti er hann kom á bensínstöðina, eins og rakið hefur verið að ofan, og tók fram að hann hafi vitað af eftirlitsmyndavélunum inni í herberginu. Hann telji því að, eins og á stóð, og sé tekið mið af fyrri samskiptum þeirra A, hafi hann ekki gerst brotlegur við lög. Ákærði kvað samband þeirra A eiga sér upphaf er þau voru „saman“ frá því í ágúst-september 2006 í um þrjá mánuði. Hann lýsti þessum tíma, en þá hafi samband þeirra verið mjög náið. Hann kvað A hafa tekið að heilsa sér aftur u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að upp úr sambandi þeirra slitnaði. Ákærði lýsti því er að því kom að samband þeirra breyttist þannig að A tók að koma upp að honum og snerta hann, m.a. hafi hún klipið hann í rassinn og heilsaði honum iðulega með orðunum „hæ sæti“ og á líkan hátt og lýsti hann þessu. Hún hafi m.a. komið fram fyrir afgreiðsluborðið á vinnustað sínum og heilsað á þennan hátt. Svona hafi þetta gengið lengi. Hann hafi ekki brugðist við þessu á ákveðinn hátt fyrr en á árinu 2011, er hann heilsaði henni á svipaðan hátt eins og „hæ sæta“. Hann lýsti því að eins konar daðursamband hafi verið milli þeirra A í einhver ár. Hann hafi upplifað háttsemi A á þessum tíma og samband þeirra sem daðursamband.
Vitnið A kvaðst hafa verið við störf á bensínstöð [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir og hafi hún hringt á lögreglu vegna bensínþjófnaðar. Ákærði og annar lögreglumaður komu á vettvang. Þau þrjú hafi farið inn í herbergi, sem í ákæru greinir, í því skyni að skoða upptöku úr eftirlitsmyndavél vegna bensínþjófnaðarins. Í fyrstu hafi þau rætt það mál, en síðan hafi ákærði sagt við félaga sinn að hann ætli að ræða við hana persónulega og hafi hann þá lokað dyrunum. Hún kvaðst hafa spurt ákærða hvers vegna hann lokaði dyrunum. Hann hafi þá sagt við sig „þú ert alltaf jafn sæt“. Hún hafi spurt ákærða hvort hann væri ekki enn í sambandi, sem hann játti og spurði hana hins sama á móti. Þau hafi áfram rætt bensínþjófnaðinn og ákærði ritað niður á blað og beðið hana um að standa upp og sjá það sem hann skrifaði niður. Hún hefði þá staðið upp og staðið við hlið ákærða og horft á blaðið hjá honum. Hann hafi þá rekið penna sem hann hélt á þrisvar sinnum í brjóstið á henni. Á upptökunni sést A brosa á þessu augnabliki og setjast niður. Hún kvaðst hafa sest aftur niður og verið hrædd. Hún kvaðst stuttu síðar hafa staðið upp og ætlað að dyrunum hinum megin við ákærða en hann hafi þá verið kominn í veg fyrir hana og þá hafi hann strokið brjóstið á henni, en hún ýtt hendinni frá og sagt honum að hætta, sem hann gerði. Þau hafi síðan farið saman út úr herberginu. Hún kvaðst ekki hafa gefið ákærða til kynna, er hann lokaði dyrunum, að hún vildi ekki vera ein með honum þarna inni, enda kvaðst hún hafa talið að hann ætlaði að ræða bensínþjófnaðinn. Undir lok upptökunnar sést A standa upp og ganga að ákærða sem beinir hendinni í átt til hennar. Ákærði hefur borið að hann hafi ekki snert hana í þetta sinn, en ætla verður að þetta tilvik sé það sem lýst er í ákærunni og ákærða er gefið að sök að hafa „snert hana svo með hendi á sama stað“. A var spurð um þetta og mundi hún ekki hvort ákærði snerti hana þarna. Henni var bent á að af upptökunni virðist mega ráða, þar sem samskipti þeirra sjást í herberginu, að vel fari á með þeim og alls ekki sé unnt að ráða af upptökunni að illindi hafi verið milli þeirra, þau brosa og allt virðist með felldu og var húnspurð um það. Hún kvað engin illindi hafa verið, en sér hefði fundist óþarfi að ákærði gerði það sem lýst var. Henni var kynntur framburður ákærða þess efnis að hann hafi lokað dyrunum vegna hávaða sem barst þangað inn og að hún hafi eftir þetta spurt hvort hann vildi vera einn með henni. Hún svaraði því að ákærði hefði sagt við félaga sinn að hann ætlaði að ræða persónulega við hana. Hún var spurð hvort hún myndi hvað þeim fór á milli meðan þau dvöldu í herberginu og bent á að af upptökunni að dæma hefði farið vel á með þeim. Hún kvað þau ákærða hafa verið í sambandi fyrir sex árum og sér hafi ekki verið illa við ákærða. Hún kvað samband þeirra þá hafa verið náið. Þau hafi verið að ræða sín á milli um sambönd sín á báða bóga. Hún kvað ekkert daðurtal hafa verið milli þeirra inni í herberginu. Henni var kynnt innihald framburðar ákærða þess efnis að það sem gerðist inni í herberginu hafi verið eðlilegt eins og á stóð, ef samskipti þeirra í gegnum tíðina eru höfð í huga. Hún kvaðst vera góðhjörtuð manneskja og ekki geta verið vond við fólk. Hún kvað bros sín sem sjást á upptökunni vera kurteisisbros. Hún hafi á sama tíma fundið til ótta. Hún kvaðst stundum hafa heilsað ákærða með því að ávarpa hann „hæ sæti“ og ákærði hafi iðulega svarað kveðjunni á sama hátt. Hún kvað ekki daðursamband á milli þeirra og kveðjan sem hún kastaði á ákærða hafi verið vinakveðja en ekki daðurskennd kveðja. Hún var spurð hvað hefði orðið til þess að hún lagði fram kæru, með vísan til framburðar hennar hjá lögreglu, þar sem hún greindi svo frá að hún hefði hlegið að því sem gerðist er hún ræddi atburðinn við sambýlismann sinn. Hún kvaðst ekki hafa farið að hugsa um atburðinn fyrr en eftir heimkomu þennan dag og nefndi hún þá að ákærði hefði hringt í sig síðar sama dag og sagt að hann hefði nýjar upplýsingar um bensínþjófnaðinn. Eftir það kom hann á heimili hennar, síðar sama dag, vegna málsins. Hann hafi þar sagt henni það sama og henni hafi áður verið sagt af lögreglu. Hún hafi því talið að ákærði hefði gert rangt með háttsemi sinni. Hún lýsti öðrum samskiptum þeirra sem ekki eru ákæruefni og verða ekki rakin hér.
Eins og rakið hefur verið var upptakan skoðuð undir aðalmeðferðinni. Eins og rakið hefur verið, var ekki margt sem gerðist inni í herberginu og var hún spurð um skýringu á því hvers vegna hún varð svona hrædd við ákærða, m.a. ef höfð voru í huga fyrri samskipti þeirra. Hún kvað ástæðu hræðslunnar mega rekja til atburðar sem átti sér stað fyrir rúmum tveimur árum og lýsti hún því. Síðan hafi hún verið hrædd við ákærða. Hún kvað sér hafa liðið illa eftir það sem gerðist inni í herberginu á bensínstöðinni og kvaðst ekki enn geta lokað dyrunum þar. Hún hafi leitað til sálfræðings. Hún fái kvíðaköst og sé hrædd við lögreglumenn og lögreglubíla. Hún hafi lokað sig inni í húsi í heilan mánuð eftir þennan atburð.
Vitnið C er stöðvarstjóri á bensínstöðinni sem í ákæru greinir. Hann lýsti því er unnusti A kom að máli við hann vegna málsins og er hann afhenti lögreglu upptöku úr eftirlitsmyndavél sem fjallað hefur verið um að framan.
Vitnið Hafdís Kjartansdóttir sálfræðingur skýrði og staðfesti vottorð sem hún ritaði og dagsett er 15. janúar 2012, vegna A. Hún bar um kvíða og felmtursviðbrögð og depurð sem hún greindi í fari A í upphafi. Hún kvað þessi einkenni koma fram er A sjái lögreglumenn eða lögreglubifreið og skýrði hún þetta nánar. Hún kvaðst hafa rætt atvikið, sem í ákæru greinir, við A og skýrði hún það. Hún kvað A hafa greint frá því að ákærði hefði káfað á brjósti hennar og hann hefði ekki hætt þrátt fyrir að hún reyndi að stöðva hann og að hún hefði þurft að „ryðjast framhjá honum til að komast út“. Hún kvað A hafa lýst öðru tilviki í samskiptum þeirra ákærða, þar sem hann hefði gengið lengra en hún hefði heimilað. Fram kom að Hafdís skoðaði ekki upptökuna sem að framan greinir. Hún var í tilefni þess spurð hvort ekki væri eitthvað annað en það sem átti sér stað, á þeim tíma sem í ákæru greinir, sem skýrt gæti ástand A eins og því er lýst í vottorðinu sem að framan greinir. Hafdís kvað fyrri samskipti A og ákærða hafa gert það að verkum að upplifun hennar af atburðinum 18. júní 2011 varð verri.
B kvaðst hafa verið starfsmaður lögreglunnar á þeim tíma sem í ákæru greinir og fóru þeir ákærði saman á bensínstöðina. Hann kvað A hafa beðið þá ákærða um að koma inn á skrifstofuna til að hún gæti sýnt þeim upptöku úr eftirlitsmyndavél af ætluðum bensínstuldi. Hann lýsti vinnu vegna bensínstuldarins, m.a. símtali við eiganda bifreiðarinnar. B mundi ekki eftir öðrum samskiptum ákærða og A en spjalli um hinn ætlaða bensínstuld. B kvað ákærða hafa sagst ætla að ræða við A og kvað hann ákærða hafa beðið sig um að bíða frammi og lokaði dyrunum eftir það. Hann kvað sér hafa virst ákærði og A þekkjast, þeir hefðu verið búnir að ljúka því að ræða málið við hana og kvaðst hann því ekki hafa gert neina athugasemd við það þótt dyrunum væri lokað. Spurður um samskipti ákærða og A áður lýsti hann mörgum komum lögreglunnar á bensínstöðina og þar hafi þeir margoft hitt hana og rætt við hana. Þau ákærði hafi rætt saman eins og vinir sem þekktust. Samræður þeirra hafi verið á léttum nótum, eins og vina sem hittist og samband þeirra virst annað og meira en þegar rætt er við starfsmann á bensínstöð venjulega.
Vitnið D lögreglumaður kvað lögregluna vera í samskiptum við [...] og hann komi því iðulega í starfinu á bensínstöðina sem um ræðir í ákærunni. Hann lýsti tveimur tilvikum, að hann taldi á árinu 2010, er hann kom með ákærða í verslunina og hafði hann heyrt A ávarpa ákærða með orðunum „hæ sæti“. Hún hafi verið komin fram fyrir afgreiðsluborðið og komið til ákærða og þau rætt saman í kjölfarið. Hann kvaðst af þessum sökum hafa talið að þau ákærði og A þekktust vel, en hann hafi ekki velt þessu fyrir sér. Hann gat að öðru leyti ekki borið um samskipti þeirra.
Vitnið E lögreglumaður kvaðst iðulega hafa komið, í starfi sínu sem lögreglumaður, á bensínstöð [...] við [...], m.a til að kaupa eldsneyti. Er E var með ákærða í för á bensínstöðinni, hafi ákærði og A heilsast mjög innilega. Hún hafi komið fram fyrir afgreiðsluborðið og klappað ákærða á bakið og ávarpað hann „sæll X minn“ eða „sæll sæti“. Hann kvað þetta hafa vakið athygli þar sem þetta væri ekki hefðbundin kveðja á bensínstöð. Hann kvað þetta hafa verið með sama hætti í flest skiptin sem komið var á bensínstöðina og A hafi verið þar við störf. Hún hafi alltaf fagnað ákærða. Hörður kvaðst hafa farið á bensínstöðina þrisvar til fjórum sinnum í viku eftir atburðinn sem í ákæru greinir. Hann hafi verið í lögreglubúningi og hitt A og rætt við hana. Hann hafi ekki merkt neinar breytingar í fari hennar, eins og að hún hræddist menn í lögreglubúningi.
Niðurstaða
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot í opinberu starfi, með því að hafa sært blygðunarsemi A og áreitt hana kynferðislega eins og í ákærunni greinir. Ákærði neitar sök.
Ákærða er gefið að sök að hafa sagt við hana, greint sinn, að hún væri „alltaf jafn sexý“. Ákærði neitar að hafa viðhaft þessi ummæli. Vitnið A bar ekki um það fyrir dómi að ákærði hefði viðhaft hin tilvitnuðu ummæli. Eru þau samkvæmt þessu ósönnuð gegn neitun ákærða og er ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Þá er ákærða gefið að sök að hafa brotið af sér með því að „pota tvisvar með penna í vinstra brjóst hennar“. Ákærði neitar þessu og kvað pennann ekki hafa snert A. Af upptöku eftirlitsmyndavélarinnar sést hvar ákærði beinir penna tvisvar sinnum í áttina að A, ekki þrisvar sinnum eins og hún bar um fyrir dóminum. Ákærði er greinilega að taka niður minnispunkta á þessum tíma og hefur fengið A til þess að standa á fætur og þau bera saman bækur sínar. Ekki sést af upptökunni hvort penninn snerti A. Þá sést hún setjast brosandi niður eftir þetta. Ekkert kemur fram á upptökunni sem er til þess fallið að styðja vitnisburð A þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni og telja sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi snert hana með pennanum. Er þessi hluti ákærunnar því ósannaður, gegn neitun ákærða, og er hann sýknaður af þessum hluta ákærunnar.
Þá er ákærða gefið að sök að „snerta hana svo með hendi á sama stað“. Ákærði neitar þessu. Vitnið A mundi ekki hvort ákærði snerti hana eins og hér er lýst. Gegn neitun ákærða er þetta ósannað og er hann sýknaður af þessum hluta ákæru.
Loks er ákærða gefið að sök að „strjúka henni með fingri á hægra brjósti utan klæða“. Ákærði játar þessa háttsemi, en telur hana ekki saknæma eins og á stóð. Hann kvað A hafa gefið til kynna að hún vildi þetta ekki, hann hafi þá þegar hætt og þau gengið brosandi út úr herberginu og sést það á upptökunni. Ákærði hefur borið að hann hafi talið eins konar daðursamband á milli þeirra A og var framburður ákærða um þetta rakinn að framan. Vitni hafa borið um samskipti þeirra, er ákærði kom í starfi sínu á bensínstöðina þar sem A starfaði. Ákærði og A báru bæði um það fyrir dóminum að inni í herberginu ræddu þau annað og fleira en hinn ætlaða bensínstuld. Þau hafi einnig rætt persónuleg málefni hvort annars eins og rakið var.
Kynferðisleg áreitni er skilgreind svo í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna: „Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt“. Þegar margnefnd upptaka er skoðuð kemur ekkert annað fram en að vel fari á með ákærða og A. Ekkert kemur þar fram sem er til þess fallið að renna stoðum undir vitnisburð A, um það að það sem ákærði gerði og sagði inni í herberginu, hafi verið henni á móti skapi fyrr en skömmu áður en þau gengu hlæjandi út úr herberginu er hún gaf ákærða til kynna að hún vildi ekki að hann stryki henni með fingri á hægra brjósti utan klæða, eins og lýst er í ákærunni. Er samskiptin inni í herberginu eru skoðuð í heild, m.a. að bæði hafa borið að þar hafi verið rædd persónuleg málefni hvors um sig og fyrri samskipti þeirra, er það mat dómsins að ákærði hafi ekki getað vitað fyrir fram að það að strjúka A með fingri á hægra brjósti væri í óþökk hennar. Þegar honum varð það ljóst hætti hann því þegar í stað. Þá er það álit dómsins, að öllu ofanrituðu virtu og einkum ef haft er í huga hvernig samskipti ákærða og A voru og er þá einnig haft í huga hvernig hún tók á móti ákærða við komu hans á bensínstöðina endranær, að tilvikið er ákærði strauk fingri um hægra brjóst hennar geti ekki talist alvarlegt, þannig að það verði þess vegna metið sem kynferðislega áreitni. Að þessu virtu er það mat dómsins að ákærði hafi verið í góðri trú um að háttsemin væri A ekki á móti skapi en hann hætti þegar í stað er hún gaf annað til kynna. Samkvæmt öllu ofanrituðu er ekki unnt að meta háttsemina sem hér um ræðir sem kynferðisbrot eins og gert er í ákærunni og er ákærði sýknaður af þessu hluta ákærunnar.
Samkvæmt því sem að nú hefur verið rakið er ákærði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Eftir þessum úrslitum ber að vísa miskabótakröfu A frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal 439.250 króna málsvarnarlaun Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns en þóknun verjandans er fyrir vinnu hans undir rannsókn málsins og dómsmeðferð og 251.000 króna réttargæsluþóknun Ragnhildar Lárusdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A. Tekið hefur verið tillit tilvirðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Miskabótakröfu A er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 251.000 króna réttargæsluþóknun Ragnhildar Lárusdóttur héraðsdómslögmanns og 439.250 króna málsvarnarlaun Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.