Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2017

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Lykilorð

  • Rán
  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Skilorðsrof

Reifun

B var sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, tilraun til ráns og þjófnaðarbrot. Með brotum sínum rauf B skilorð dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2014 þar sem hann var dæmdur í 30 daga fangelsi. Var sá dómur tekinn upp og refsing B ákveðin í einu lagi fyrir bæði málin, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var einnig litið til þess að ránsbrot B hefðu verið alvarleg og ófyrirleitin en hann hefði ýmist verið vopnaður hnífi eða hamri og hefði að auki hulið andlit sitt tvívegis er hann framdi þau. Á hinn bóginn var litið til þess að hann hefði gefið sig að fyrra bragði fram við lögreglu og hefði játað brot sín skýlaust. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2017. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða og að hann verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og  heimfærslu brota hans til refsiákvæða.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, tilraun til ráns og þjófnaðarbrot á tímabilinu 29. nóvember til 19. desember 2015. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2014 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað.  Ákærði hefur nú með brotum sínum rofið skilorð þess dóms. Ber því að að taka dóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í héraðsdómi er rakin niðurstaða geðheilbrigðismats A geðlæknis 24. nóvember 2016. Þar kemur meðal annars fram að ákærði sé greindur með væga þroskaskerðingu. Hann sé að mati læknisins sakhæfur og fær um að greina rétt frá röngu. Þá telur læknirinn að refsing geti borið árangur. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem hnekkja þeirri niðurstöðu geðlæknisins, en  hann telur á hinn bóginn að verði ákærði dæmdur til fangelsisrefsingar verði að taka mið af því að refsing geti orðið honum þungbær meðal annars vegna þroskahömlunar hans.

Ránsbrot ákærða voru alvarleg og ófyrirleitin, en hann var ýmist vopnaður hnífi eða hamri og huldi að auki tvívegis andlit sitt er hann framdi þau. Verður litið til þessa við ákvörðun refsingar hans og þess að hann hefur með brotum sínum rofið skilorð áðurnefnds dóms. Til mildunar refsingar er að hann gaf sig að fyrra bragði fram við lögreglu og hefur játað brot sín skýlaust. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en ekki kemur til álita að skilorðsbinda hana þar sem ákærði rauf með brotum sínum skilorð fyrri dóms. Vegna andlegra haga ákærða er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga getur Fangelsismálastofnun, að undangengnu sérfræðiáliti, leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og  í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Baldur Örn Magnússon, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 385.625 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 23. ágúst 2016, á hendur:

,,Baldri Erni Magnússyni, kt. [...],

  Njálsgötu 65, Reykjavík,

fyrir eftirtalin hegningarlagabrot, framin á árinu 2015:

  1. Rán, með því að hafa sunnudaginn 29. nóvember farið inn í verslun [...] við [...] í Reykjavík, vopnaður hamri og með andlitið hulið lambhúshettu og skipað B, starfsmanni verslunarinnar, að afhenda sér peninga og sígarettur. Ákærði hvarf á brott með um 30.000 krónur og fjóra pakka af sígarettum.

M: [...]

Telst brot þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Tilraun til ráns, með því að hafa laugardaginn 19. desember farið inn í verslun [...] við [...] í Reykjavík, vopnaður hníf og skipað C, starfsmanni verslunarinnar, að afhenda sér pening, sígarettur og síma. Ákærði hljóp á brott tómhentur eftir að annar maður gekk inn í verslunina.

M: [...]

Telst brot þetta varða við 252. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 19. desember, í apóteki [...], [...], Reykjavík, stolið tveimur ilmum, samtals að verðmæti kr. 19.978.

M: [...]

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Rán, með því að hafa laugardaginn 19. desember farið inn í verslun [...] við [...] í Reykjavík, vopnaður hníf og með andlitið hulið grímu og skipað B, starfsmanni verslunarinnar, að afhenda sér peninga og sígarettur. Ákærði hvarf á brott með um 30.000 krónur og sex pakka af sígarettum.

M: [...]

Telst brot þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir D, f.h. [...]., kt. [...], kröfu um að ákærða Baldri Erni Magnússyni, kt. [...], verði gert að greiða [...] skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 19.978,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga, nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða hinn 19.12.2015, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9.gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Ákærði kom sjálfviljugur á lögreglustöð og játaði ránsbrotin sem ákært er fyrir.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um brotin sem í ákæru greinir og eru þau rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Ákærði gekkst undir geðheilbrigðismat hjá A geðlækni en mat hans er dagsett 24. nóvember 2016. Í matinu er meðal annars svofelldur kafli:

„Álit

Það er enginn vafi á því að hann uppfyllir skilmerki fyrir vægri þroskahömlun F70 (skv. greiningarkerfi Alþjóða Heilbrigðismálastofnunarinnar, ICD-10). Þessi greining er vel grundvölluð með tveimur greingarprófum hjá GRP, það síðara nokkurra ára gamalt og ekki ástæða til að endurtaka að mínu mati.

Hann er einnig vafalítið með fjölþættan fíknivanda, F19.2. Hann hefur undanfarin ár notað amfetamín, kókaín og misnotað ritalín og sprautað sig reglulega undanfarin ár. Hann virðist nota marijuana reglulega.

Hann er án vafa með spilafíkn sem illa hefur gengið að ráða við.

Hann er ekki með geðrofssjúkdóm eða annan sjúkdóm sem veldur ranghugmyndum eða ofskynjunum.

Þegar farið er yfir hans sjúkrasögu og ástand hans í dag þá tel ég ekki að hann hafi verið í geðrofsástandi þegar hann braut af sér 29. nóvember og 19. desember 2015. Hann hefur vafalítið verið undir áhrifum geðvirkra efna s.s. kókaíns, sem gefið hefur honum aukið sjálfstraust og gert hann óttalausari, en ekkert bendir til annars en að hann hafi vitað muninn á réttu og röngu. Það sem styður þetta er m.a. það að hann óttast að verða tekinn af lögreglunni og reyndi að dulbúa sig.

Þegar kemur að mati sakhæfi, í þeim málum sem um ræðir hér, þá tel ég að sú væga þroskahömlun sem hann er greindur með geri hann ekki óhæfan til að greina rétt frá röngu og að hann hafi verið fær um að stjórna gjörðum sínum.

Að mínu mati er hann því sakhæfur, þótt það sé að sjálfsögðu dómsins að skera endanlega úr um það.

Ég tel refsingu geta borið árangur, en æskilegt væri að taka tillit til hans stöðu við ákvörðun refsingar. Fangelsisvist tel ég að gæti orðið honum þungbær og alls ekki æskileg innan um almenna fanga þar sem hætta er á því að aðrir gætu misnotað sér þroska hömlun hans í eigin þágu  með einum eða öðrum hætti. Verði hann dæmdur til fangelsisvistar þarf, að mínu mati, að gera sértakar ráðstafanir, sem taka mið af þessu. Samfélagsþjónusta væri að mínu mati refsins sem gæti skilað árangri. Hann ætti að geta sinnt einföldum störfum eins og hann gerði þegar hann vann í endurvinnslu á sínum tíma. Ég tel hann færan um að átta sig á því að ef hann stæði sig ekki í slíkri vinnu þá yrði afleiðingar af því s.s. fangelsisvist. Það yrði honum vafalítið hvatning til að standa sig.  Viðtöl við meðferðaraðila, mæting á AA fundi og hugsanlega meðferð á stofnun væru úrræði sem gætu bætt hans langtímahorfur.“

A geðlæknir skýrði og staðfesti mat sitt fyrir dómi. Hann kvað ákærða greina mun á réttu og röngu og gera grein fyrir því að það sem hann gerði væri ragt. Hann kvað ákærða hafa verið færan um um að stjórna gerðum sínum. A kvað væga þroskahömlun eins og hjá ákærða vera á bilinu 50 til 70 stig þar sem meðalgreind sé talin 100. Ákærði hafi um tíma verið talinn með greind nærri 60. Greind ákærða svari til vitsmunaþroska 9 til 12 ára gamals barns.

Meðal gagna málsins eru gögn er varða heilsufar ákærða og rannsóknir sem hann hefur gengist undir frá unga aldri vegna þroska o.fl. Þar kemur ítrekað fram að ákærði er greindur með væga þroskahömlun. Vitnið A geðlæknir mat ákærða einnig með væga þroskahömlun, eins og rakið var.

Einstaklingur með slíka þroskahömlun hefur vitsmunaþroska á við 9 til 12 ára gamalt barn eins og vitnið A bar. Þótt ákærði geri greinarmun á réttu og röngu er það mat dómsins að refsing í tilviki ákærða, sem hefur vitsmunaþroska á við 9 til 12 ára gamalt barn, beri ekki árangur í skilningi 16. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða verður því ekki gerð refsing í málinu.

Bótakrafa [...] fellur niður vegna útivistar.

Ekki liggur fyrir reikningur um útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákæri greiði 443.266 króna málsvarnarlaun Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærða, Baldri Erni Magnússyni, er ekki gerð refsing í málinu.

Ákærði greiði 443.266 króna málsvarnarlaun Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.