Hæstiréttur íslands

Mál nr. 290/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Miðvikudaginn 7. maí 2014.

Nr. 290/2014.

A

(Helga Vala Helgadóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

B og

C

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Kærumál. Gagnaöflun. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr B og barninu D. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 16. apríl 2014 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr varnaraðilanum B og barninu D. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til d. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hennar verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir B og C krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms höfðaði sóknaraðili mál þetta gegn varnaraðilum til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun „er framkvæmd var hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann [...] 2012 þar sem veitt var leyfi til stjúpættleiðingar stefnda C á barninu D“. Undir rekstri málsins krafðist sóknaraðili þess að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum eins og getið var hér áður, en þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Mál þetta er rekið eftir almennum reglum laga nr. 91/1991. Sóknaraðili hefur ekki borið því við að mannerfðafræðileg rannsókn, sem kröfugerð hennar varðar, liggi nú þegar fyrir og geta því ákvæði d. liðar 1. mgr. 143. gr., sbr. X. kafla laga nr. 91/1991 ekki átt hér við. Í 1. mgr. 143. gr. sömu laga er ekki að öðru leyti að finna fyrirmæli um kæru, sem tekið gætu til þessa máls. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra er hér algerlega að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, íslenska ríkinu, B og C, hverjum fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. mars sl., er höfðað af A, [...], [...], á hendur íslenska ríkinu, B og C, báðum til heimilis að [...], [...].

Stefnandi krefst þess að ógilt verði stjórnvaldsákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá [...] 2012, þar sem veitt var leyfi til stjúpættleiðingar stefnda C á barninu D kt. [...]. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast allir sýknu af kröfu stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Í þinghaldi hinn 18. febrúar sl. lét lögmaður stefnanda færa til bókar þá kröfu að fram myndi fara mannerfðafræðileg rannsókn á stefnda B og barninu D. Lögmaður stefnda, B, mótmælti því að slík rannsókn færi fram en lögmaður stefnda, ríkisins, kvaðst þá ekki gera neina athugasemd við slíka rannsókn. Í upphafi þinghalds er málið skyldi flutt um þennan ágreining tók lögmaður stefnda, íslenska ríkisins, fram að hann mótmælti því nú að krafa stefnanda næði fram að ganga.

Í þessum þætti málsins er krafa stefnanda því sú að úrskurðað verði að fram skuli fara mannerfðafræðileg rannsókn á stefnda B og barninu D, kt. [...]. Stefndu krefjast þess hins vegar að kröfu þessari verði hafnað.

Stefnandi vísar til þess að honum sé nauðsyn á því að framangreind rannsókn fari fram til að hægt sé að sýna fram á það með óyggjandi hætti að stefndi, B, sé ekki blóðfaðir barnsins D. Stefnandi hafi skorað á stefnda, B, að láta slíka rannsókn fara fram, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hann hafi hins vegar ekki orðið við þeirri áskorun og nú beinlínis hafnað því að verða við henni. Faðerni barnsins hafi legið skýrt fyrir en það hafi samt verið ranglega skráð. Það hafi verið gert með fullri vitneskju stefndu B og C.

Stefndu, B og C, vísa til þess að engin lagaheimild standi til þess að úrskurða málsaðila til að sæta mannerfðafræðilegri rannsókn í máli eins og hér um ræði, þar sem krafist sé ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. Slíka heimild sé eingöngu að finna í 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, en henni verði einungis beitt í málum sem höfðuð séu á grundvelli þeirra laga. Sé því mótmælt að 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 veiti kröfu stefnanda einhverja stoð, enda fjalli það ákvæði eingöngu um afhendingu skjals sem viðkomandi hafi í vörslum sínum og verði ekki túlkað neitt víðar en það. Þá standi engin lagaheimild til þess að unnt sé að þvinga aðila til að leggja fram sönnunargögn.

Stefndi, íslenska ríkið, tekur undir það sjónarmið meðstefndu að enga lagaheimild sé að finna fyrir því að unnt sé með úrskurði í máli þessu að þvinga stefnda, B, til að sæta mannerfðafræðilegri rannsókn. Með vísan til þessa telji stefndi sig því verða að mótmæla því að slík rannsókn fari fram.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi þess að ógilt verði stjórnvaldsákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá [...] 2012, þar sem stefnda, C, var veitt leyfi til stjúpættleiðingar barnsins D. Lýtur krafa hans í þessum þætti málsins að því að úrskurðað verði að mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á stefnda, B, og barninu D. Stefndi, B, mótmælir því að rannsókn þessi fari fram.

Í þeirri undirstöðureglu íslenskrar stjórnskipunar, sem nefnd er lögmætisreglan, felst að íþyngjandi ákvörðun, eins og úrskurður um mannerfðafræðilega rannsókn, verður að byggjast á skýrri lagaheimild. Er heimild til slíkrar rannsóknar einungis að finna í 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, en á grundvelli þeirrar lagagreinar getur mannerfðafræðileg rannsókn farið fram til sönnunar í dómsmáli sem rekið er um faðerni barns samkvæmt barnalögum. Verður 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 með engu móti skýrð á þann veg að hún veiti með einhverjum hætti heimild til slíkrar rannsóknar. Samkvæmt því ber að hafna framangreindri kröfu stefnanda um mannerfðafræðilega rannsókn.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnanda, A, um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á stefnda, B, og barninu D.