Hæstiréttur íslands
Mál nr. 79/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 30. janúar 2015 |
|
Nr. 79/2015. |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl.) Y (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) Z og (enginn) Þ (enginn) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms þar sem kröfu ákæruvaldsins um upptöku var vísað frá dómi að hluta. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran hafði borist héraðsdómi að liðnum fresti samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015, þar sem kröfu sóknaraðila um upptöku var vísað frá dómi að hluta. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreint ákvæði dómsins um frávísun verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þann hluta upptökukröfunnar til efnisúrlausnar.
Varnaraðilarnir X og Y krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest. Varnaraðilarnir Z og Þ hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Dómur í málinu var kveðinn upp mánudaginn 19. janúar 2014 klukkan 9.15 að viðstöddum fulltrúa ákæruvaldsins og verjendum. Kæra barst héraðsdómi 22. sama mánaðar klukkan 12.40, en þá var liðinn frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjenda varnaraðilanna X og Y, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda varnaraðilans Y, og Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda varnaraðilans X, 124.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 20. maí 2014, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...], [...],
Y, kennitala [...],
[...], [...],
Z, kennitala [...],
[...], [...], og
Þ, kennitala [...],
[...], [...],
fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið saman að framleiðslu mikil magns fíkniefna á tveimur aðgreindum stöðum á höfuðborgarsvæðinu:
1. Gegn ákærðu X og Y með því að hafa miðvikudaginn 9. júní 2010 á heimili ákærðu að [...] í [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 1.776,90 g af maríhúana, 333,40 g af kannabisplöntuhluta og 568 kannabisplöntur og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.
M. 007-2010-[...]
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
2. Gegn ákærðu öllum með því að hafa síðla árs 2009, að [...] í [...], sett upp ræktunarstöðu fyrir og ræktað allt að 204 kannabisplöntur í sölu- og dreifingarskyni, en lögreglan fann og lagði hald á myndband við húsleit í húsnæði ákærðu X og Y að [...] þann 9. júní 2010, er sýnir ákærðu setja upp framangreinda ræktunaraðstöðu. Lögreglan fann aðstöðuna sem notuð var til ræktunarinnar í húsnæðinu að [...] þann 10. júní 2010 en þá var búið að taka niður framangreinda ræktun.
M. 007-2010-[...]
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á framangreindum fíkniefnum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á þeim munum sem notaðir voru til framleiðslu kannabisplantnanna, með vísan til 7. mgr. 5. gr. sömu laga, sbr. munaskýrslur nr. 78317 og 78494 í máli 007-2010-[...] og nr. 78361 í máli nr. 007-2010-[...].“
Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.
Verjandi ákærða Y krefst sýknu en til vara vægustu refsingar og að gæsluvarðahaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.
Verjandi ákærða Z krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.
Verjandi ákærða Þ krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóð samkvæmt tímaskýrslu.
Ákæruliður 1
Í frumskýrslu lögreglu um þennan ákærulið segir að hinn 9. júní 2010 hafi farið fram húsleit að [...] í [...] samkvæmt dómsúrskurði. Báðir ákærðu voru sagðir búa þar ásamt unnustum sínum. Í frumskýrslunni er því lýst sem lagt var hald á og af frumskýrslu og öðrum gögnum málsins má ráða að lagt var hald á fíkniefnin og plönturnar sem í þessum ákærulið greinir.
Teknar voru skýrslur af ákærðu hjá lögreglunni í júní og júlí 2010. Við skýrslutökur af ákærða Y játaði hann að hafa átt fíkniefnin sem hér um ræðir og að hafa staðið einn að kannabisræktuninni. Ákærði X neitaði aðild að málinu.
Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi
Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst hafa búið í [...] á þessum tíma ásamt meðákærða Y sem væri góður vinur sinn. Ákærði hefði verið lítið þar síðasta mánuðinn á undan húsleitinni sem gerð var í júní 2010 en hann hafi þá að mestu búið hjá unnustu sinni í [...]. Hann kvaðst hafa leigt herbergi í [...] og greitt meðákærða Y fyrir það. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af kannabisræktuninni sem var í þeim hlutum húsnæðisins sem ákærði Y hefði sagt vera í útleigu. Ákærði var spurður hvort hann hefði ekki orðið var við fíkniefnin sem fundust á neðri hæð hússins, þeim hluta hússins sem ákærðu gengu báðir um. Hann kvað svo ekki vera og tók fram að hann hefði lítið verið þarna síðasta mánuðinn áður en húsleitin fór fram enda kvað hann meðákærða hafa greint sér frá því að hann hefði nýlega komið þessum efnum fyrir á þeim stað þar sem lagt var hald þau. Við húsleitina fundust dagbók og teikningar þar sem teiknuð hafði verið uppsetning á kannabisræktun að mati lögreglunnar. Ákærði kvaðst ekki eigandi þessara muna og kunni ekki skýringu á tilvist þeirra en tók fram að fjöldi manns hefði komið í húsnæðið að [...] í partí og þess háttar. Í herbergi ákærða X fannst myndavél sem lagt var hald á. Á myndavélinni eru myndskeið af kannabisræktuninni sem um getur í ákærulið 2. Spurður um þetta kvaðst ákærði hafa lánað meðákærða Þ myndvélina og ákærði viti ekkert um þessi myndskeið. Ákærði kvað svo langan tíma liðinn að hann myndi ekki nú hvort og þá hvenær meðákærði Þ skilaði myndavélinni eða hvað hann hefði haft hana lengi að láni. Ákærði kvaðst hafa frétt að því er lögreglan leitaði hans og hann hefði því gefið sig fram við lögregluna. Hann mundi ekki nánar um aðdraganda þessa.
Ákærði Y játar sök en kvaðst einn eigandi fíkniefnanna og hafa staðið einn að kannabisræktuninni sem hér um ræðir. Hann lýsti ræktuninni og búnaði sem hann keypti vegna hennar en búnaðurinn hafi verið ódýr og fábrotinn. Meðákærði hefði enga aðkomu átt að þessu sakarefni. Ákærði hefði búið í húsnæðinu á þessum tíma og meðákærði X leigt eitt herbergi. Meðákærði hefði þó haft aðgang að öllu húsinu en ekki dvalið mikið þar. Ákærði kvaðst hafa reykt kannabis á þessum tíma og því ekki komið á óvart þótt kannabisefni væru á borðum í húsnæðinu eins og þau voru við leit lögreglu. Þá hefði það ekki komið meðákærða á óvart af þessum sökum þótt hann hefði séð kannabis uppi á borðum í húsnæðinu.
Vitnið A, verkefnastjóri á Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði, skýrði og staðfesti matsgerð sem unnin var vegna rannsóknar á kannabisplöntunum sem fundust að [...]. Hann kvað styrk sýnis í plöntu hafa verið í lægri kantinum en styrk sýnis úr þurrum blómhluta plöntu hafa verið fyrir ofan meðaltal er tekið sé mið af meðtali styrks í rannsökuðum sýnum áður og skýrði hann það nánar. Hann kvað efnið THC vera í öllum kannabisplöntum en styrkurinn væri misjafn og skýrði hann það.
Vitnisburður lögreglumanna, sem unnu að rannsókn þessa sakarefnis og að sakarefni samkvæmt ákærulið 2, er rakinn í tengslum við við ákærulið 2 og er vísað til þess sem þar er rakið um þennan ákærulið. Ekkert í vitnisburði lögreglumanna breytir niðurstöðu þessa ákæruliðar og þykir því mega vísa til vitnisburðarins við ákærulið 2.
Niðurstaða ákæruliðar 1
Sannað er með skýlausri játningu ákærða Y og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir en jafnframt er sannað með fjölda kannabisplantna, efnismagni sem lagt var hald á og framburði ákærða Y að efnið var ætlað í sölu- og dreifingarskyni að mestu leyti en ákærði bar að hann hefði notað kannabis daglega.
Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði X neitar sök. Ekkert af fíkniefnunum eða kannabisplöntunum sem hér um ræðir var í herbergi því sem ákærði X hafði til umráða að [...] er lögreglan gerði þar húsleit hinn 9. júní 2010. Þótt ákærði hafi haft aðgang að öðrum rýmum hússins, meðal annars þeim er fíkniefnin og kannabisplönturnar fundust í, verður ákærði ekki fyrir það eitt talinn hafa verið vörslumaður þessa en ákærði Y hefur sagst vera eigandi þessa og ræktandi kannabisplantnanna. Enginn framburður, vitnisburður eða önnur gögn eru um það að ákærði hafi haft þessi fíkniefni eða kannabisplönturnar í sínum vörslum eða komið að ræktun þeirra. Óskýr framburður ákærða Z hjá lögreglu á árinu 2010 um að honum hafi verið sýnd ræktunin að [...] um áramótin 2009-2010, er hann var mjög ölvaður að sögn og mundi ekki eftir fyrir dómi nú, breytir ekki niðurstöðu málsins að því er ákærða X varðar. Að öllu ofanrituðu virtu og gegn eindreginni neitun ákærða X frá upphafi er ósannað að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna hann.
Ákæruliður 2
Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst hafa lánað meðákærða Z fyrir [...] jeppa á sínum tíma. Hann taldi Z hafa endurgreitt lánið en bíllinn hafi verið ódýr. Hann mundi ekki hvort hann greiddi flugmiða fyrir meðákærða Z í september 2009, það gæti þó verið að Z hefði beðið sig um lán fyrir flugfarinu en hann minnti að Z hefði verið að flytja til landsins á þessum tíma. Þeir meðákærði Z hefðu verið ágætir vinir á þessum tíma en síðan kom upp ósætti sem tengdist kvennamálum. Ákærði X kvað meðákærða Z segja ósatt við skýrslutöku hjá lögreglu þar sem hann bar að ákærði hefði greitt fyrir flugmiðann og bifreiðina og að það tengdist kannabisræktun. Er meðákærði Z gaf þessa skýrslu hjá lögreglu hefði ósættið milli þeirra verið komið upp. Ákærði neitaði því að rödd hans kæmi fram á myndskeiði sem fannst á myndavél ákærða en myndskeiðið er frá [...] og kvaðst ákærði aldrei hafa komið þangað. Eins og rakið var í ákærulið 1, fannst teikning í herbergi ákærða að [...] sem sýnir, að mati lögreglunnar, [...] þar sem kannabisræktunin var mynduð. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt tilvist teikningarinnar en tók fram að margir sem voru í partíum í húsinu hefðu haft aðgang að herbergi hans þar og hann verið lítið þar sjálfur.
Ákærði Y neitar sök. Hann staðfesti veru sína á myndskeiði frá [...] og að auk sín væru þar meðákærðu Z og Þ. Starfsmaður [...], kallaður B, hefði tekið myndskeiðið en ákærði vissi ekki deili á þeim manni. Hann kvað meðákærða X ekki hafa komið að [...] þann tíma sem ákærði var þar. Ákærði kvaðst hafa komið við að [...] í því skyni að „kíkja á C“. Hann viti ekki um ræktunina sem hér um ræðir og hann hefði aðstoðað C, sem var með húsnæði á leigu, við að koma plöntum fyrir í pottum auk þess að hjálpa honum eitthvað en hann hefði farið eftir það. Ákærði Z bar um það hjá lögreglunni að þeir meðákærði Þ væru að aðstoða ákærðu Y og X við uppsetningu kannabisræktunar að [...] sem sjáist á myndskeiðinu. Ákærði kvað þennan framburð meðákærða Z hjá lögreglu rangan. Spurður um ástæðu þessa framburðar Z vísaði ákærði til ósættis þeirra Z og X í þessu sambandi.
Ákærði Z neitar sök. Hann kvaðst hafa aðstoðað meðákærða Þ við uppsetningu ræktunaraðstöðunnar að [...] sem komi fram á myndskeiðinu sem skoðað var undir aðalmeðferðinni. Ákærði taldi líklegast að hann hefði boðist til að aðstoða meðákærða Þ en hann hefði ekki átt að fá greitt fyrir aðstoðina. Hann hefði þurft fjárhagsaðstoð við að koma til landsins um þetta leyti og taldi hann líklegt að hann hefði fengið lán hjá meðákærða X vegna þess og endurgreitt lánið. Þá hefði meðákærði X lánað sér peninga vegna bifreiðakaupa í nóvember 2010 en ákærði hefði endurgreitt lánið sem var að fjárhæð 199 þúsund krónur. Lánin vegna farmiðakaupanna og bílsins tengdust ekki sakarefninu sem hér um ræðir á neinn hátt. Ákærði kvaðst vera á fyrrgreindu myndskeiði frá [...] ásamt meðákærðu Y og Þ. Hann viti ekki hver tók myndskeiðið. Spurður um það hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að um kannabisræktun hafi verið að ræða kvað ákærði öllu meira vera ræktað af kryddjurtum og öðrum plöntutegundum í ræktunaraðstöðu sem þessari. Hann kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir því að um kryddjurtir hefði verið að ræða enda kvað hann það ekki hafa komið sér við. Samskiptum þeirra ákærðu lauk um áramótin 2009/2010. Hann hefði verið kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu nokkru síðar og þá hefðu atburðirnir verið orðnir þokukenndir. Ákærði kvað lögregluna hafa boðið sér að ljúka málinu eftir skýrslutöku sem fram fór í lögreglubíl. Ákærði átti að bera kennsl á sig á mynd sem tekin var af upptökunni frá [...]. Ákærði þekkti sig á myndinni og við það var honum sleppt úr haldi lögreglu. Viku síðar bankaði lögreglan upp á hjá honum og færði til skýrslutöku. Hann kvaðst hafa kynnt sér þá skýrslu og mundi ekki eftir því nú að atburður hefði verið með þeim hætti sem þar væri lýst. Ákærði lýsti því að til ósættis hefði komið milli þeirra meðákærða X vegna kvennamála. Ákærði var spurður um breyttan framburð fyrir dómi frá því sem hann greindi frá hjá lögreglu um farmiðakaupin og bílakaupin. Ákærði kvaðst hafa verið í þeirri stöðu við skýrslutökuna hjá lögreglu að lögreglan hefði vitað af fíkniefnum á heimili ákærða á þessum tíma og hann hefði kosið að svara lögreglunni í samræmi við það sem hann taldi lögreglu vilja heyra en hann kvað lögregluna greinilega hafa verið áfjáða í að spyrja um meðákærða X. Ákærði hefði því svarað lögreglunni eins og hann taldi að kæmi sér best en ekki vegna óvildar eða ósættis þeirra meðákærða X.
Ákærði Þ neitar sök. Hann staðfesti að vera á myndskeiðinu frá [...] en hann hefði leigt húsnæðið og verið umráðamaður þess á þessum tíma. Í fyrstu hefði hann rekið þar [...] en sá rekstur hefði ekki gengið upp. Ákærði kvaðst hafa fengið myndavélina sem myndskeiðið er á lánaða hjá meðákærða X. „B á [...]“ hefði tekið myndskeiðið upp en ákærði hefði kynnst honum ,,á djamminu“ á þessum tíma og báðir haft áhuga á kannabis. B hafi haft mikinn áhuga á að sjá það sem fram fór í húsnæðinu að [...] og ákærði hefði beðið hann um að taka myndskeiðið sem um ræðir á myndavélina sem hann fékk lánaða hjá meðákærða X. Ákærði kvaðst hafa viljað mynda ræktunarkerfið sem hafi verið mjög sérstakt. Hann taldi sig hafa eytt myndskeiðunum af myndavélinni áður en hann skilaði henni en svo virðist ekki hafa verið. Rekstur [...] hafi ekki gengið upp, eins og rakið var, og ákærði hefði á þessum tíma reykt kannabis daglega, tekið áhættuna og sett upp ræktunarkerfið sem sjáist á myndskeiðinu en þetta hefði verið nærri jólum árið 2009. Ræktunin var sett upp til að fá kannabis til eigin neyslu en ekki í söluskyni. Hann setti ræktunarkerfið upp eftir myndefni sem hann sá á netinu. Þetta var gert í tilraunaskyni og hafi hann sett niður blóm í kerfið. Ætlunin hafi þó verið að setja niður kannabisplöntur en ræktunin hefði aldrei komist á það stig að unnt væri að ganga úr skugga um það hvort þetta væru kannabisplöntur þar sem það sem sett var niður hafi verið rótarlausir græðlingar sem gátu verið hvað sem er. Ekki hefðu verið plöntur í öllum hólfum í ræktunarkerfinu. Hann kvaðst hafa fengið græðlingana frá þremur aðilum og ekki hafði verið vitað fyrir víst hvort þeir voru afleggjarar af kannabisplöntum. Hann kvaðst ekki geta giskað á fjölda plantnanna sem settar voru niður og hann mundi ekki hversu marga afleggjara hann fékk. Hann kvaðst hafa staðið að ræktuninni, sem hann kvaðst ekki getað talið kannabisræktun, þar sem ekkert kannabis hefði fengist úr henni. Ætlunin hafi verið að rækta kannabis til eigin neyslu en ekki í söluskyni en hann kvað sig hafa langað að prófa kannabisræktun. Hann kvað ræktunarkerfið ekki hafa virkað og að lamparnir, sem nota átti við ræktunina, hafi ekki verið settir upp. Allar plöntunar hefðu drepist innan tveggja vikna eftir uppsetningu ræktunarkerfisins. Hann hafi þá hætt ræktuninni sem hann stóð einn að. Hann kvað meðákærða Z, æskuvin sinn, og vissi að hann hafði verið mikill áhugamaður um kannabis. Hann hefði boðið honum í heimsókn til sín að [...] og sýnt honum hvað hann væri að gera. Meðákærði Z hefði rétt sér hjálparhönd meðan hann var í heimsókn að [...] en ákærði hefði ekki beðið hann um að aðstoða sig við ræktunina eða neitt sem hana varðaði. Meðákærði Z hefði aðstoðað sig við að vinna þá hluti sem ákærði kvaðst ekki hafa getað unnið einn auk þess sem meðákærði Z hefði vitað meira um uppsetningu svona ræktunarkerfis en ákærði og megi líklega rekja það til dvalar hans erlendis. Myndskeiðið sem um ræðir sýnir upptöku dagana 10. og 11. nóvember 2009. Nánar spurður um þetta kvað ákærði hugsanlegt að meðákærði Z hefði komið í heimsókn í tvö til þrjú skipti að [...]. Hann muni það ekki nú. Ákærði kvað meðákærða X ekki eiga hlut að málinu og hann hafi aldrei komið að [...]. Ákærði kvað meðákærða Y ekki hafa átt neina aðild að ræktuninni sem hér um ræðir. Hann hafi hinsvegar heimsótt ákærða að [...], eins og sjáist á myndskeiðunum. Ákærði var spurður um græðlingana sem fundust í húsnæðinu við leit lögreglu í júní 2010. Ákærði kannaðist ekki við þá en græðlingarnir eru ekki hluti sakarefnis máls þessa.
Vitnið D rannsóknarlögreglumaður lýsti húsleit sem hann fór í að [...] í [...] hinn 9. júní 2010. Upplýsingar höfðu borist um kannabisræktun þar og á fleiri stöðum. Hann lýsti kannabisræktuninni sem hafi verið í hesthúsi við húsið. Þá hafi verið græðlingar í öðrum herbergjum í húsinu og lýsti hann því. Fíkniefni sem var búið að pakka hafi legið fyrir allra augum í stofu og eldhúsi. Hann kvað myndavél hafa fundist í herbergi ákærða X og á henni voru myndskeið frá kannabisræktun að [...]. Þá hafi fundist teikning í herbergi ákærða X en teikningin sýni að hans áliti uppsetningu kannabisræktunar. Á myndskeiðinu frá [...], á myndavél ákærða X, koma fram dagsetningar. Rannsókn leiddi í ljós að myndavélin var rétt stillt og sýni réttar dagsetningar. D kvaðst þekkja rödd ákærða X sem rödd mannsins sem tók upp myndskeiðin en D kvaðst þekkja röddina vegna fyrri lögregluafskipta af X. Hann lýsti því hvernig lögreglan fann húsnæðið að [...]. Hann lýsti vinnu sinni við rannsóknina sem meðal annars leiddi í ljós að ákærði X hafði greitt flugfar ákærða Z hingað til lands á þessum tíma. Hann kvað lögreglu hafa skoðað símagögn sem tengjast símum ákærðu og staðsetningum símanna. Athugaðir voru dagarnir 10. og 11. nóvember 2009 er myndskeiðin að [...] voru tekin. Þá hafi komið í ljós að símar flestra eða allra ákærðu voru staðsettir í grennd við heimili þeirra og engum símtölum hefði verið svarað. D kvað svo hafa virst sem ákærðu hefðu skilið símana sína eftir heima er þeir voru að [...]. Í beiðni um matsgerð, sem vitnið undirritaði, er rætt um meinta kannabisræktun að [...]. D vísaði til reynslu sinnar við rannsókn sambærilegra mála og vegna hennar hafi það sem fram fór að [...] verið talin kannabisræktun. Því hefði það verið orðað svo í matsbeiðninni að óskað hafi verið eftir mati sérfræðings á því hvort svo væri en lögreglan hafi ekki fullyrt það í beiðninni.
Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa skoðað myndskeiðin sem voru á myndavél ákærða X. Hann kvaðst hafa þekkt ákærðu á myndskeiðunum og þekkt rödd ákærða X á myndskeiðinu sem rödd mannsins sem tók myndina en vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða X frá 11 ára aldri. Hann kvað það sem fram fór að [...] og sjáist á myndskeiðinu sambærilegt því sem lögreglan hafi margsinnis séð við rannsókn mála er varða ræktun kannabisplantna.
Vitnið F rannsóknarlögreglumaður lýsti því er lögreglan fór í húsleit að [...] en kannabisræktun hafi verið á tveimur stöðum í húsinu þar sem ákærðu Y og X bjuggu ásamt unnustum sínum. Þá hafi fíkniefni fundist í opnu rými í stofu og í eldhúsi. Hann kvaðst hafa skoðað myndskeiðin frá [...] sem voru á myndavél ákærða X en myndavélin fannst í herbergi hans að [...]. Þá hafi fundist í herberginu teikning sem hann kvað ljóst að væri af húsnæðinu að [...]. Hann kvaðst hafa merkt á myndbandinu að kannabisræktun ætti sér stað að [...]. Hann lýsti því hvernig lögreglan fann húsnæðið eftir að hafa skoðað myndskeiðin.
Vitnið G rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni við fingrafaragreiningu en fingraför fundust á gróðurhúsalampa að [...]. Í niðurstöðu G segir að tvö af fjórum fingraförum sem fundust á lampanum hafi verið eftir ákærða Þ.
Meðal gagna málsins er beiðni lögreglu um matsgerð, dagsett 13.12.2010. Beiðnin er svo felld:
„Matsandlag er myndbönd MVI_1147 til og með MVI_1151 af meintri kannabisræktun að [...] dagsett 10. og 11. nóvember 2009. Samkvæmt talningu Lögreglu er plönturnar á myndböndunum 204.
Þess er óskað að H lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands leggi mat á eftirfarandi:
1. Áætlaður verði ræktunartími kannabisplantna fram til þess dags er myndböndin þann 10. og 11. nóvember 2009.
2. Áætlaður verði hversu langur ræktunartími hefði þurft að koma til viðbótar þar til kannabisplöntur hefðu náð hámarksvexti.
3. Áætlaður verði hvaða hlutur kannabisplantna hefði verið nýtilegur til framleiðslu ávana- og fíkniefna viðað við stig ræktunar þann 11. nóvember 2009.
4. Áætlað verði magn ávana- og fíkniefnaafurða (þurrkaðir plöntuhlutar, lauf, marihuana) haldlagðri kannabisplantna hefði komið til uppskeru þann 11. nóvember 2009.
5. Áætlaður verði hvaða hlutar kannabisplantna hefði verið nýtanlegur til framleiðslu ávana- og fíkniefna, ef til áframhaldandi ræktunar og uppskeru hefði komið. viðað við hámarksvöxt hverrar plöntu.
6. Áætlað verði magn ávana- og fíkniefnaafurða (þurrkaðir plöntuhlutar, lauf, marihuana) kannabisplantna hefði komið til uppskeru miðað við hámarksvöxt hverrar plöntu.
7. Tekur matsmaður faglega staðið að ræktuninni.
H hefur verið sendur geisladiskur með myndböndunum.“
H ritaði svofellda matsgerð sem dagsett er 10. janúar 2011:
„Að beiðni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) í bréfi dagsettu 13. desember 2010 var undirritaður fenginn til að leggja skriflegt mat á umfang kannabisræktunar í máli LHR nr. 007-2010-[...]. Grundvöllur matsins sem hér fer á eftir byggir á 5 myndböndum merkt MVI_1147 til og með MVI_1151 af kannabisræktun að [...] og sagsett 10 og 11. nóvember 2009, upplýsingum um kannabisræktun á netinu og faglegu mati höfundar. Samkvæmt talningu lögreglu og matsmanns eru plönturnar á myndböndunum samtals 204.
Stuttlýsing á innihaldi ofangreindra myndbanda:
|
Myndband |
dagsetning |
Innihald |
|
MVI 1147 |
10/11 2009 |
Hér er verið að smíða sk. vatnsræktunarkerfi (hydroponic-) fyrir inniræktun á plöntum sem eru í pottum af virki eða öðru dauðu efni (eins og steinull eða trénisríku kurli) Öll næring fyrir plönturnar er blandað í rennandi vatn sem vökvar og nærir plöntunar. |
|
MVI 1148 |
10/11 2009 |
Hér er verið að umpotta snyrta(trimmaða) kannabisgræðlinga(Cannabis indica eða C. infica X C. sativa) sem hafa verið ræktaðir í steinull og gera þá klára fyrir vatnsræktina ( myndband 1147) þar sem græðlingarnir eiga að vaxa til fulls þroska. |
|
MVI 1149 |
11/11 2009 |
Hér er verið að setja kannabisplöntur í vatnsræktunarkerfið á myndbandi 1147 og stilla vökvunarbúnaðinn. |
|
MVI 1150 |
11/11 2009 |
Sama og á myndbandi 1149 þar sem verið er að setja upp vökvunarbúnaðinn. |
|
MVI 1151 |
11/11 2009 |
Tal óskýrt. Allt klárt fyrir ræktunina á samtals 204 plöntum. Þó er eftir að setja upp ljósabúnað. |
1. Allar kannabisplöntunar sem sjást á þessum myndböndum eru 2-4 vikna gamlar miðað við eðlileg ræktunarskilyrði. Ekki er hægt með vissu að ákvarða hvort plönturnar hafi vaxið uppaf fræjum eða græðlingum.
2. Það er mjög breytilegt hvað kannabisafbrigði (yrki) þurfa langan vaxtartíma til þess að ná hámarksuppskeru af marijúana sem væntanlega er verið að stefna að hér. Á myndböndunum er ekki hægt að greina hvaða yrki er verið að rækta. Einnig fer það mjög eftir ræktunarskilyrðum hversu langan tíma ferlið tekur. Til þess að fá hámarksuppskeru af marijúana af þessum plöntum þarf til viðbótar 2-4 mánuði miðað við kjör ræktunarskilyrði.
3. Plönturnar á myndböndunum eru enn mjög efnislitlar og bara blöð og stönglar. Úr blöðum og stönglum kannabisplantna má vinna hassolíu.
4. Ekki er hægt að áætla magn hassolíu sem má vinna úr þessum plöntum 11. nóvember 2009 þar sem þungi og vatnsinnihald plantnanna liggur ekki fyrir.
5. Það má nýta alla hluti plöntunnar til framleiðslu á ávana- og fíkniefnum. Eftirsóttasti hlutinn er þó ófrjóvguð kvoðarík kvenblóm og bikarblöð plöntunnar. úr þeim má bæði vinna marijúana og hass. Blöð og stöngla má nýta til framleiðslu á hassolíu.
6. Hver fullvaxta vel ættuð kvenkyns kannabisplanta sem ræktuð er innandyra við kjöraðstæður og nægt vaxtarými gefur af sér frá 60 til 129 g af marijúana. Þar að auki gefur hver planta af sér um 60 til 120 g í glöðum og stönglum. 204 kannabisplöntur geta því gefið frá um 12000 g af marijúana og 204 g af hassolíu miðað við 60% tetrahýdrókannabínól ( THC) innihald. Það skal þó tekið fram að í vatnsræktun eins og verið er að setja upp á myndböndunum er ekki stefnt að hámarksuppskeru af hverri plöntu hefur af hverjum fermetra. Þannig fæst betri nýting á takmörkuðu innirúmi og ljósorkunni út gróðurlömpunum. Vel heppnum ræktun í svona kerfi getur gefið í hverri ræktun 1 gramm af maríjúana fyrir hver Watt í HPS (high pressure sodium) gróðurlömpum. Það þýðir að 400 W HPS lampi á að geta gefið samtals 400 g af marijúana í hverri ræktun.
7. Það sem sést á myndböndunum eru fagleg vinnubrögð á uppsetningu á vatnsræktunarkerfi fyrri kannabisræktun. einnig krefst ræktunin sjálf í svona kerfi fagþekkingar og reynslu. Nákvæmar leiðbeiningar um vatnsræktun eru aðgengilegar á mörgum vefsíðum en engu að síður þarf líka góðan skilning á gróðurhúsræktun og „græna fingur“.“
H lektor kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði matsgerð sína. Hann kvaðst hafa greint af myndböndum frá [...] að plönturnar þar væru kannabisplöntur og skýrði H það. Hann taldi plönturnar sem voru 204 talsins. Á upptökunni sjáist menn koma græðlingum fyrir í ræktunarkerfi og ,,að gera klárt“. Ræktunarkerfið hafi verið færanlegt en gróðurlampa vantaði. Annað var til staðar til að láta plönturnar vaxa. Hann kvað breytilegt hversu mikið magn af efninu THC mældist í kannabisplöntum, það væri alltaf eitthvað en ekki væri unnt að greina styrk þess af myndum.
Vitnið I rannsóknarlögreglumaður lýsti húsleit að [...] í [...]. Hann lýsti munum og fíkniefnum sem lagt var hald á. Hann staðfesti skýrslu sem hann ritaði vegna þessa. I tók lögregluskýrslu af ákærða Z. Hann kvað engum þrýstingi hafa verið beitt við þá skýrslutöku og vísaði hann til skýrslunnar sem tekin var upp í hljóð og mynd.
Niðurstaða ákæruliðar 2
Ákærðu neita allir sök. Myndskeiðin á myndavél ákærða X frá [...] voru tekin upp 10. og 11. nóvember 2009 en þar má sjá er verið er að setja upp ræktunaraðstöðu. Af myndskeiðunum og matsgerð og vitnisburði H lektors og af framburði allra ákærðu utan ákærða X má ráða að ræktunaraðstaðan er fyrir kannabis og að ræktaðar voru 204 kannabisplöntur. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í vitnisburði lögreglumannanna sem báru um ræktunina. Ráða má af umfangi kannabisræktunarinnar að hún var að mestu í sölu- og dreifingarskyni en ákærði Þ kvað ræktunina ætlaða til eigin nota. Sannað er með framburði ákærða Þ, myndskeiðunum sem tekin voru upp að [...] og lýst hefur verið, matsgerð og vitnisburði H og með öðrum gögnum málsins en gegn neitun ákærða Þ, að hann setti upp að [...], síðari hluta árs 2009, ræktunaraðstöðu fyrir og ræktaði 204 kannabisplöntur að mestu í sölu- og dreifingarskyni.
Gegn eindreginni neitun ákærðu Y og Z er ósannað að þeir hafi verið aðalmenn í brotinu sem ákært er fyrir. Ákærði Y kvaðst hafa komið við að [...] í því skyni að ,,kíkja á C,, og hann hafi aðstoðað C sem var með húsnæðið á leigu við að koma plöntum fyrir í pottum. Einnig hafi hann hjálpað honum eitthvað m.a við að klippa niður plöntur sem ákæri gerði ráð fyrir að væru kannabisplöntur. Ákærði Z kvaðst hafa aðstoðað meðákærða Þ við uppsetningu ræktunaraðstöðunnar að [...]. Taldi hann líklegast að hann hefði boðist til að aðstoða meðákærða Þ en hann hefði ekki átt að fá greitt fyrir aðstoðina. Ákærði Þ kvað ákærða Z hafa rétt sér hjálparhönd er hann kom í heimsókn að [...], eins og rakið var, hann hafi m.a. aðstoðað sig við að vinna verk sem ákærði hefði ekki getað unnið einn. Ákærðu Y og Þ sjást á myndskeiðunum frá [...] og báðir þekktu sig þar á mynd. Með vísan til þess sem fram kemur á myndskeiðunum, þar sem ákærðu Y og Þ sjást aðstoða ákærða Þ við kannabisræktunina, til framburðar þessara tveggja ákærðu og til framburðar ákærða Þ verða ákærðu Y og Z taldir hafa gerst sekir um hlutdeildarbrot.
Ekkert tengir ákærða X við brotið sem hér um ræðir utan myndskeiðið á myndavél hans sem fannst við húsleit að [...] hinn 9. júní 2009. Enginn hinna ákærðu hefur borið fyrir dómi að ákærði X eigi þátt í málinu. Engu breytir í þessu þótt lögreglumenn hafi borið fyrir dómi að þeir þekktu rödd ákærða X sem mannsins sem tók myndskeiðin að [...]. Enginn hefur borið um aðild hans að málinu. Að þessu virtu og öðrum gögnum málsins er, gegn eindreginni neitun ákærða X, ósannað að hann hafi gest sekur um háttsemina sem hér um ræðir og ber að sýkna hann.
Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni en að því er ákærðu Y og Z varðar ber jafnframt að vísa til 22. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Y hlaut sektardóm á árinu 2005 fyrir fíkniefnalagabrot og gekkst hann undir lögreglustjórasátt á árunum 2008 og 2009 fyrir sams konar brot. Hann hlaut sektardóm fyrir umferðarlagabrot á árinu 2014. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. 78. gr. almennra hegningarlaga og þykir refsing hans hæfilega ávörðuð 12 mánuði.
Ákærði Z hlaut dóm fyrir fíkniefnalagabrot á árinu 2003. Síðan hefur hann hlotið fjóra refsidóma fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot og fyrir brot gegn 157. gr. almennra hegningarlaga. Síðasti dómurinn er frá [...] 2014, 6 mánaða fangelsi fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagbrot og var þá dæmdur upp skilorðsdómur fá árinu 2013. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga við alla síðastgreindu fjóra refsidóma. Með vísan til alls ofanritaðs þykir refsing ákærða Z hæfilega ákvörðuð 3 mánuði.
Ákærði Þ hefur frá árinu 2004 hlotið þrjá refsidóma fyrir umferðarlagabrot. Hann gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 2007 fyrir fíkniefnalagabrot og viðurlagaákvörðun á árinu 2011 fyrir umferðarlagabrot. Refsing ákærð Þ þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði.
Mjög langur tími er liðinn frá því ákærðu frömdu brot sín. Samkvæmt gögnum málsins voru teknar skýrslu af ákærðu hjá lögreglunni um mitt ár 2010 og rannsókn málsins þá að mestu lokið en matsgerð er dagsett 10. janúar 2011. Ákæra var gefin út um þremur og hálfu ári síðar. Engin haldbær skýring hefur verið gefin þessum drætti sem er aðfinnsluverður.
Að þessu virtu þykir rétt að fresta fullnustu refsingar ákærðu eins og í dómsorði greinir. Komi til afplánunar refsivistar ákærða Y skal með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga draga frá refsivistinni gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru upptækar dæmdar 568 kannabisplöntur, 1.776,9 g af marijúana og 333,4 g af kannabisplöntuhlutum.
Í ákæru er krafist upptöku ,,á þeim munum sem notaðir voru til framleiðslu kannabisplantnanna“. Ekki er unnt að ráða af ákærunni við hvað er átt. Þessi tilgreining upptökukröfu er ekki í samræmi við e-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 en gera verður þá kröfu að í ákæru séu taldir upp þeir munir sem krafsist er að dæmdir verði upptækir. Er þessi hluti upptökukröfunnar svo óljós að honum ber að vísa frá dómi.
Ákærði Y greiði 157.235 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins vegna ákæruliðar 1.
Ákærðu Y, Z og Þ greiði óskipt 4.250 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins vegna ákæruliðar 2.
1.145.760 króna málsvarnarlauna Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Y greiði 1.145.760 króna málsvarnarlaun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns.
Ákærði Z greiði 957.600 króna málsvarnarlaun Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.
Ákærði Þ greiði 957.600 króna málsvarnarlaun Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Fullnustu refsivistar ákærðu skal fresta skilorðsbundið í 1 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hvers um sig niður að þeim tíma liðnum haldi hver um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistar ákærða Y skal draga frá henni með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann sætti vegna málsins.
Upptækar eru dæmdar 568 kannabisplöntur, 1.776,9 g af marijúana og 333,4 g af kannabisplöntuhlutum. Að öðru leyti er upptökukröfu vísað frá dómi.
Ákærði Y greiði 157.235 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærðu Y, Z og Þ greiði óskipt 4.250 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
1.145.760 króna málsvarnarlaun Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Y greiði 1.145.760 króna málsvarnarlaun Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns.
Ákærði Z greiði 957.600 króna málsvarnarlaun Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.
Ákærði Þ greiði 957.600 króna málsvarnarlaun Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns.