Hæstiréttur íslands
Mál nr. 387/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Aðfararheimild
- Stefnubirting
- Lúganósamningurinn
- Lagaskil
|
|
Fimmtudaginn 29. ágúst 2013. |
|
Nr. 387/2013.
|
Ilhamar Comérico e Indústria de Peixe Congelado, Lda. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Íslenska félaginu ehf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Aðför. Aðfararheimild. Stefnubirting. Lúganósamningurinn. Lagaskil.
Með úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu Í ehf. um að felld yrði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um heimild til að fullnægja dómi, sem kveðinn var upp af portúgölskum dómstóli, og málskostnaður milli aðila felldur niður. Með hinum erlenda dómi var Í ehf. gert að greiða portúgalska félaginu I skaðabætur vegna viðskipta málsaðila með saltfisk, en Í ehf. tók ekki til varna í málinu. Í ehf. kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar og bar því einkum við að stefna í hinu erlenda dómsmáli hefði ekki verið birt sér til samræmis við áskilnað íslenskra laga og að dómur í því hefði heldur ekki verið birtur sér samkvæmt áskilnaði Lúganósamningsins frá árinu 1988, sbr. lög nr. 68/1995. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að 1. maí 2011 hefðu tekið gildi lög nr. 7/2011 um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, en samkvæmt lögunum hefði samningur þess efnis, sem gerður var í Lúganó árið 2007 og kom í stað eldri samningsins frá 1988, lagagildi hér á landi. Talið var að leysa bæri úr málinu á grundvelli ákvæða hins nýja samnings. Uppfyllti stefnubirting fyrir Í ehf. áskilnað 2. tölul. 34. gr. hins nýja Lúganósamnings og þótti félagið hafa fengið vitneskju um stefnuna svo tímanlega að það hefði getað undirbúið málsvörn sína, en ákvæði samningsins væru sérákvæði sem gengju framar öðrum ósamrýmanlegum ákvæðum íslenskra laga. Þá þótti sú staðreynd að hinn erlendi dómur hefði ekki verið birtur Í ehf. ekki standa viðurkenningu hans í vegi samkvæmt ákvæðum Lúganósamningsins. Aðrar málsástæður Í ehf. voru taldar haldlausar. Var hinn kærðir úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um heimild til að fullnægja dómi, sem kveðinn var upp af portúgölskum dómstóli 17. desember 2007, og málskostnaður milli aðila felldur niður. Vísar sóknaraðili til kæruheimildar í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Krefst sóknaraðili þess aðallega að kæru varnaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað sem varnaraðila verði gert að greiða sér. Í báðum tilvikum gerir sóknaraðili kröfu um kærumálskostnað.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 5. júní 2013. Vísar hann til kæruheimildar í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 og q. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, auk 2. töluliðar 37. gr. Lúganósamningsins um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995. Krefst varnaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, auk þess sem hann krefst málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Hinn 1. maí 2011 tóku gildi lög nr. 7/2011 um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Samkvæmt 2. gr., sbr. 1. gr., þeirra laga hefur samningur þessa efnis, sem gerður var í Lúganó 30. október 2007 og kom í stað eldri samnings sem gerður var í sömu borg 16. september 1988, lagagildi hér á landi. Ísland er aðili að hinum nýja samningi og Portúgal, sem aðildarríki Evrópubandalagsins, er bundið af honum. Eftir 1. mgr. 63. gr. samningsins skal honum beitt „þegar krafist er viðurkenningar eða fullnustu á dómi ... í því ríki sem beiðni er beint til.“ Þar sem sóknaraðili krafðist þess fyrst með aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2011 að dómur hins portúgalska dómstóls, sem kveðinn var upp 17. desember 2007, yrði lýstur fullnustuhæfur hér á landi ber að leysa úr máli þessu á grundvelli ákvæða hins nýja samnings, en ekki eldri samnings.
Ákvæðum eldri samningsins var beitt við úrlausn þessa máls í héraði án þess að gerð hafi verið athugasemd við það af hálfu málsaðila. Þar sem ákvæði nýja samningsins, sem helst á reynir, eru sama efnis og samsvarandi ákvæði eldri samnings eru ekki efni til að ómerkja hinn kærða úrskurð af þessum sökum.
II
Samkvæmt 44. gr. og viðauka IV við áðurgreindan Lúganósamning, sbr. lög nr. 7/2011, verður úrskurði héraðsdóms um fullnustuhæfi erlends dóms hér á landi skotið til Hæstaréttar. Sé úrskurður kæranlegur er heimilt samkvæmt 3. mgr. 151. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr., laga nr. 91/1991 að kæra hann til staðfestingar um annað en málskostnað, svo sem sóknaraðili gerði, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 23. mars 1999 í máli nr. 94/1999 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 1384.
Krafa sóknaraðila um að kæru varnaraðila verði vísað frá Hæstarétti er annars vegar reist á því að hún uppfylli ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 og hins vegar að varnaraðili reki mál til endurupptöku hins umþrætta dóms í Portúgal fyrir þarlendum dómstólum, samhliða þessu máli. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 skal í kæru til Hæstaréttar greina ástæður sem kæra er reist á. Í kæru varnaraðila eru í stuttu máli taldar upp ástæður hennar, sem eru í meginatriðum þær sömu og hafðar voru uppi af hans hálfu í héraði, án þess að þær séu sérstaklega rökstuddar. Með þessu móti fullnægði kæran því lágmarksskilyrði sem fram kemur í fyrrgreindu lagaákvæði. Sú röksemd sóknaraðila að vísa beri máli þessu frá Hæstarétti vegna þess að varnaraðili leitist við að fá fyrrnefndum dómi hnekkt fyrir portúgölskum dómstólum á sér ekki lagastoð, enda heldur hann fast við þær kröfur sínar að dómurinn verði lýstur fullnustuhæfur hér á landi og að honum verði heimilað að gera fjárnám hjá varnaraðila fyrir dómkröfunni. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að vísa kæru varnaraðila frá Hæstarétti.
Í kærunni er tekið fram að krafa varnaraðila fyrir Hæstarétti sé meðal annars reist á því að sóknaraðili hafi „sýnt af sér tómlæti við innheimtu hinnar umdeildu kröfu.“ Þessi málsástæða hefur ekki verið skýrð frekar í málatilbúnaði varnaraðila hér fyrir dómi, svo sem nauðsynlegt hefði verið vegna þess hve óljós hún er, og kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins vegna vanreifunar.
III
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði á mál þetta rót sína að rekja til kaupa sóknaraðila á saltfiski af varnaraðila. Í aðilaskýrslu framkvæmdastjóra varnaraðila fyrir héraðsdómi kvað hann þessi viðskipti aðallega hafa átt sér stað á fyrri hluta árs 2006. Hafi þeim lokið með því að komið hafi upp ágreiningur milli málsaðila um gæði fisks í síðustu vörusendingunni frá varnaraðila til sóknaraðila. Í skýrslu framkvæmdastjórans kom fram að ekki hafi tekist að jafna ágreininginn þrátt fyrir að aðilar hafi talast nokkrum sinnum við í síma og sent tölvubréf sín á milli. Kvað hann þau samskipti hafa farið fram á ensku og hafi þeim lokið í júlí eða ágúst 2006.
Sóknaraðili taldi fyrir sitt leyti að stór hluti saltfisksins sem hann hafði keypt af varnaraðila væri gallaður. Af þeim sökum höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila fyrir einkamáladómstóli í Baxio Vouga héraði í Portúgal þar sem hann krafðist bóta vegna gallans. Hinn portúgalski dómstóll sendi varnaraðila stefnuna ásamt fleiri skjölum með ábyrgðarbréfi á heimilisfang að Suðurhrauni 3 í Garðabæ og var kvittað fyrir móttöku bréfsins 24. apríl 2007. Samkvæmt gögnum málsins var lögheimili varnaraðila á þessum stað til 27. apríl 2006 þegar það var flutt að Iðavöllum 7a í Keflavík. Í fyrrgreindri aðilaskýrslu framkvæmdastjóra varnaraðila sagði hann að starfsmaður hjá öðru fyrirtæki, sem hafði haft aðsetur á sama stað og varnaraðili, hafi kvittað fyrir móttöku á ábyrgðarbréfinu. Sagðist framkvæmdastjórinn hafa fengið í hendur skjölin sem send voru með bréfinu. Aðspurður kvað hann skjölin hafa verið á portúgölsku, en hann hafi getað greint heiti sóknaraðila á einhverjum þeirra. Hann hafi ekki aðhafst neitt frekar þar sem hann hafi ekkert getað „ætlað það að þetta væru einhver dómskjöl.“ Á afriti af frumgerð stefnunnar á portúgölsku, sem liggur fyrir í málinu, sést að hún stafaði frá „Tribunal Judicial de Aveiro“. Þar var varnaraðila sem stefnda veittur 60 daga frestur til að taka til varna.
Hinn 17. desember 2007 kvað hinn portúgalski dómstóll upp útivistardóm í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Voru dómkröfur þess fyrrnefnda teknar til greina og sá síðarnefndi dæmdur til að greiða honum 37.700,71 evru með nánar greindum vöxtum. Í kjölfarið sendi dómstóllinn tilkynningu um dóminn ásamt afriti af honum til varnaraðila í ábyrgðarbréfi að Suðurhrauni 3 í Garðabæ. Fyrir liggur að hann veitti því bréfi ekki viðtöku.
Eins og áður greinir krafðist sóknaraðili þess með aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2011 með vísan til 31. gr. eldri Lúganósamnings, sbr. lög nr. 68/1995, og 11. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 að dómur hins portúgalska dómstóls yrði lýstur fullnustuhæfur hér á landi. Ennfremur að heimilað yrði að gera fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld hans við sóknaraðila „að fjárhæð 60.507,12“ sem síðan var sundurliðuð þar sem höfuðstóll samkvæmt dóminum og aðrar upphæðir voru greindar í evrum og loks heildarfjárhæðin „60.507,12 evrur“. Beiðnin var árituð af héraðsdómara 14. febrúar 2012 þar sem aðför var heimiluð til fullnustu kröfu samkvæmt henni.
Varnaraðili var boðaður til fjárnáms af sýslumanninum í Keflavík 3. maí 2012 og sú boðun birt framkvæmdastjóra hans 7. sama mánaðar. Aðfarargerðin var tekin fyrir hjá sýslumanni 23. maí 2012 þar sem mætt var af hálfu beggja aðila. Í ljósi þess að varnaraðili hafði daginn áður lagt fram beiðni um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar um fullnustuhæfi dómsins á grundvelli 36. gr. áðurgreinds samnings var gerðinni frestað þar til ákvörðun héraðsdóms lægi fyrir. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp 22. maí 2013 eins áður greinir. Áður hafði sóknaraðili farið fram á við dómstól í Portúgal að umræddur dómur yrði felldur úr gildi. Með úrlausn 31. október 2012 hafnaði dómstóllinn að verða við þeirri kröfu. Sóknaraðili mun hafa skotið úrlausninni til æðra dóms í Portúgal, en ekkert liggur fyrir um afdrif þess málskots.
Krafa sóknaraðila um að ákvörðun héraðsdómara 14. febrúar 2012 um heimild til að fullnægja dómnum, sem kveðinn var upp af hinum portúgalska dómstóli 17. desember 2007, verði endurupptekin og felld úr gildi er í fyrsta lagi reist á því að stefna í máli því sem höfðað var og síðar dæmt í Portúgal hafi ekki verið réttilega birt fyrir sér. Við birtingu stefnunnar hafi átt að gæta ákvæða íslenskra laga um það efni, en það hafi ekki verið gert. Þá liggi ekki fyrir neitt vottorð um birtinguna eins og áskilið hafi verið í 2. tölulið 46. gr. eldri Lúganósamnings þar sem kveðið var á um að ef um útivistardóm væri að ræða skyldi sá sem krefst fullnustu á honum leggja fram frumrit eða staðfest afrit af skjali sem sýndi að stefna eða samsvarandi skjal hafi verið birt þeim sem útivist varð hjá. Varnaraðila hafi því ekki verið réttilega birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega að hann gæti undirbúið vörn sína. Af þeim sökum sé dómurinn ekki viðhlítandi aðfararheimild hér á landi, sbr. 2. tölulið 27. gr. samningsins. Í öðru lagi byggir sóknaraðili kröfu sína á því að dómurinn hafi ekki verið birtur fyrir sér, svo sem áskilið hafi verið í 1. tölulið 47. gr. samningsins, í þriðja lagi að ákvörðun um heimild til að fullnægja dóminum hafi ekki verið birt fyrir sér og í fjórða lagi að aðfararbeiðni sóknaraðila sé óskýr. Ekki er gerð sérstök grein fyrir síðastgreindu tveimur málsástæðunum í málatilbúnaði varnaraðila hér fyrir dómi.
IV
Eins og fram kemur í kafla I ber að leggja ákvæði hins nýja Lúganósamnings, sem lögtekinn var hér á landi með 2. gr. laga nr. 7/2011, til grundvallar við úrlausn málsins. Ákvæði samningsins eru sérákvæði sem þýðir að þau ganga framar öðrum ósamrýmanlegum ákvæðum hérlendra laga nema atvik leiði ótvírætt til annarrar niðurstöðu. Ákvæði 2. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 53/2008, þar sem segir að stefna frá öðru ríki verði birt hér á landi eftir reglum XIII. kafla laga nr. 91/1991 og í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, öðlaðist fyrst lagagildi 5. júní 2008. Kemur það ákvæði því ekki til álita við úrlausn málsins vegna þess að varnaraðila var sem fyrr segir birt stefnan í máli því, sem sóknaraðili hafði höfðað á hendur honum í Portúgal, í apríl 2007. Sama gildir um ákvæði Haagsamningsins frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum, en sá samningur öðlaðist ekki gildi að því er Ísland varðar fyrr en 1. júlí 2009.
Meginreglan er sú samkvæmt 1. mgr. 33. gr. áðurgreinds Lúganósamnings, sbr. 1. mgr. 26. gr. eldri Lúganósamnings, að dómur, sem kveðinn hefur verið upp í ríki sem bundið er af samningnum, skal viðurkenndur í öðrum samningsríkjum án þess að nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar sé þörf, sbr. og 11. tölulið 1. mgr. 1. gr., 3. tölulið 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1989. Í 34. gr. og 35. gr. samningsins er mælt fyrir um það í hvaða tilvikum dómur skuli ekki viðurkenndur. Samkvæmt 2. tölulið 34. gr. samningsins ber ekki að viðurkenna útivistardóm ef varnaraðila var ekki birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega að hann gæti undirbúið vörn sína.
Ákvæði 2. töluliðar 34. gr. ber að skýra þannig að stefna teljist birt í skilningi þess ákvæðis ef fylgt hefur verið við birtingu hennar réttarreglum þess ríkis þar sem dómur var kveðinn upp og þeim alþjóðlegu reglum sem það hefur skuldbundið sig til að hlíta. Portúgalski dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að varnaraðila hafi verið birt stefna í málinu sem sóknaraðili hafði höfðað gegn honum í samræmi við ákvæði þarlendra laga. Sú niðurstaða styðst við ákvæði portúgalskra réttarfarslaga, sem lögð hafa verið fram í málinu, og verður hún ekki vefengd. Þar sem Portúgal hafði á þeim tíma þegar stefnan var birt ekki skuldbundið sig til að annar háttur yrði á hafður við stefnubirtingu hér á landi var stefnan samkvæmt framansögðu réttilega birt varnaraðila. Stendur því eftir að leysa úr því á grundvelli málsatvika hvort varnaraðili hafi fengið vitneskju um stefnuna svo tímanlega að hann gæti undirbúið vörn sína í málinu. Í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns varnaraðila fyrir dómi kom fram að honum hafi borist stefna í málinu eftir að ábyrgðarbréf, sem hana hafði að geyma, hafði verið móttekið. Þótt stefnan væri á portúgölsku komu heiti málsaðila fyrir í upphafi hennar og hún bar með sér að stafa frá „Tribunal Judicial“ sem hefði átt að vekja þá hugmynd hjá þeim, sem enskumælandi er og stundað hefur erlend viðskipti, að um væri að ræða skjal, útgefið af dómstóli. Að teknu tilliti til þessa og hve skammur tími var liðinn frá því að aðilarnir höfðu deilt um gæði á salfisknum sem sóknaraðili hafði keypt af varnaraðila án þess að samkomulag hefði tekist þeirra á milli, verður fallist á með héraðsdómi að sú skylda hafi hvílt á varnaraðila að kynna sér nánar efni skjalsins. Í stefnunni var honum gefinn 60 daga frestur til að taka afstöðu til og láta vita af því hvort hann tæki til varna í málinu. Samkvæmt þessu telst stefnan hafa verið birt varnaraðila svo tímanlega að hann hefði getað undirbúið vörn sína, sbr. 2. tölulið 34. gr. áðurgreinds samnings. Af þeim sökum stendur ákvæðið því ekki í vegi að dómurinn verði viðurkenndur hér á landi.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að dómurinn hafi verið birtur varnaraðila í samræmi við ákvæði portúgalskra laga. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. áðurgreinds samnings má einungis synja beiðni um fullnustuhæfi dóms af einhverri þeirri ástæðu sem tilgreind er í 34. gr. og 35. gr. samningsins. Af því leiðir að þær greinar hafa að geyma tæmandi talningu á undantekningum frá fyrrgreindri meginreglu 1. mgr. 33. gr. hans. Að því virtu er birting dóms ekki skilyrði fyrir viðurkenningu hans, svo sem varnaraðili heldur fram. Þá eru aðrar málsástæður fyrir kröfu hans haldlausar.
Eins og ráða má af lýsingu málsatvika í kafla III mun varnaraðili ekki hafa fengið vitneskju um hinn erlenda dóm fyrr en fyrirsvarsmaður hans var boðaður til að mæta við fjárnám 7. maí 2012. Sökum þess að sóknaraðili lét hjá líða að tilkynna varnaraðila um niðurstöðu dómsins og skora á hann að greiða dómkröfuna áður en hann leitaði fjárnáms hjá honum verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að málskostnaður falli niður.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2013.
Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 23. maí 2012, óskaði sóknaraðili þess með skírskotun til 36. gr., sbr. 37. gr., laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum að ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 14. febrúar 2012 um fullnustuhæfi dóms þriðja einkamáladómstóls Aveiro í Baixo Vouga-héraði í Portúgal 17. desember 2007 verði endurupptekin og felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
I.
Atvik máls þessa er að rekja til kaupa varnaraðila á saltfiski af sóknaraðila. Sóknaraðili hefur m.a. atvinnu af fiskútflutningi og varnaraðili er portúgalskur lögaðili sem flytur inn fisk þar í landi. Varnaraðili heldur því fram að stór hluti einnar sendingar hafi verið verulega gallaður og á þeim grundvelli hafi hann höfðað mál á hendur sóknaraðila fyrir þriðja einkamáladómstól Aveiro í Baixo Vouga-héraði í Portúgal þar sem hann krafðist bóta vegna hins gallaða saltfisks. Stefna var birt 24. apríl 2007 með ábyrgðarbréfi. Stefnan og önnur gögn, er fylgdu sendingunni, vor öll á portúgölsku og þar á meðal móttökukvittun sem er undirrituð með nafninu „Sirrý“. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Guðmundur Gunnarsson, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að Sirrý væri starfsmaður í móttöku hjá Ísafoldarprentsmiðju. Varnaraðili hafi áður haft skrifstofu í sama húsi og Ísafoldarprentsmiðja en hafi á þessum tíma verið fluttur til Keflavíkur. Bróðir Guðmundar sé framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju og hann hafi komið póstsendingunni til skila. Guðmundur kvaðst ekki hafa neina þekkingu á portúgölsku og hafi samskipti aðila, bæði tölvu- og símasamskipti, farið fram á ensku. Hann kvaðst hafa séð nafn varnaraðila á nokkrum skjölum í þeim skjalabunka sem fylgdi sendingunni en ekki gert sér grein fyrir að um stefnu væri að ræða. Hann kvaðst ekki hafa séð ástæðu til þess að láta þýða skjölin þar sem þau hafi borist honum án allra skýringa eða viðvörunar um hvers kyns var.
Útivistardómur gekk í málinu 17. desember 2007 í Portúgal og voru kröfur varnaraðila teknar til greina að öllu leyti og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 37.700,71 evru að viðbættum vöxtum frá dagsetningu stefnu til greiðsludags. Með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2012 fór varnaraðili fram á að ofangreindur dómur yrði lýstur fullnustuhæfur hér á landi og að heimilað yrði að gera fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuld sóknaraðila auk áfallinna vaxta og kostnaðar, eða samtals fyrir 60.507,12 evrum. Beiðni varnaraðila var árituð 14. febrúar 2012 um að aðför væri heimiluð. Fjárnámsbeiðni varnaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík 23. maí 2012 og var þá mætt af hálfu sóknaraðila við gerðina og framgangi hennar mótmælt. Sama dag var framangreind endurupptökubeiðni sóknaraðila móttekin hjá Héraðsdómi Reykjaness. Í ljósi þessa ákvað sýslumaður að fresta gerðinni uns niðurstaða fengist í þessu máli.
Sóknaraðili segir að hann hafi reynt að fá málið endurupptekið í Portúgal en því hafi verið hafnað 16. nóvember 2012. Ákvörðuninni hafi verið áfrýjað en niðurstaða þess máls liggi ekki fyrir.
II.
Sóknaraðili byggir á því að stefna hafi ekki verið birt fyrir sóknaraðila á réttan hátt. Samkvæmt 2. tl. 27. gr. laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn skal dómur ekki viðurkenndur ef hann er útivistardómur og varnaraðila hafi ekki réttilega verið birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega að hann geti undirbúið vörn sína. Sóknaraðili kannist við að hafa móttekið skjöl í pósti á portúgölsku í apríl eða maí 2007 en ekki sé hægt að ætlast til þess að hann gerði gangskör að því að láta þýða skjöl af erlendu tungumáli sem honum hafi borist án skýringar í pósti. Hafi varnaraðili ætlað að koma stefnu til skila hafi honum borið að láta þýða stefnuna á íslensku og birta hana þannig fyrir sóknaraðila svo honum gæfist ráðrúm til að undirbúa vörn sína. Sóknaraðili telur því uppfyllt skilyrði 2. tl. 27. gr. laga nr. 68/1995. Sóknaraðili vísar einnig til Haagsamnings frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Í samningnum sé kveðið á um að miðlægt stjórnvald í hverju ríki taki við beiðnum um birtingu frá öðrum samningsríkjum og birti skjöl með þeirri aðferð sem kveðið sé á um í lögum viðkomandi ríkis, sbr. 5. gr. samningsins. Í 15. gr. samningsins komi fram að dómur skuli ekki kveðinn upp nema leitt sé í ljós að skilyrði um stefnubirtingu hafi verið uppfyllt og að birting hafi farið fram svo tímanlega að stefnda hafi verið gert kleift að taka til varna. Sóknaraðili telur að sönnunarbyrðin hvíli alfarið á varnaraðila að sýna fram á að stefna hafi verið réttilega birt fyrir sóknaraðila.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að dómur hins portúgalska dómstóls frá 17. desember 2007 hafi ekki verið birtur fyrir sóknaraðila. Sönnunarbyrðin fyrir því að dómurinn hafi verið birtur fyrir sóknaraðila hvíli einnig á varnaraðila.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að ákvörðun um fullnustuhæfi hafi ekki verið birt fyrir sóknaraðila, sbr. 36. gr. laga nr. 68/1995, en þar sé gert ráð fyrir að sá sem fullnustu sé krafist hjá geti skotið ákvörðuninni til æðri réttar eða fengið hana endurupptekna innan eins mánaðar frá birtingu hennar. Af þessu ákvæði leiði að þegar fullnusta sé heimiluð beri að birta ákvörðunina fyrir þeim sem fullnustu er krafist hjá til þess að hann geti nýtt sér þau ákvæði Lúganósamningsins sem lögin leyfa um endurupptöku ákvörðunar eða málskot. Gagnaðila hafi borið að birta yfirlýsingu héraðsdóms um aðfararhæfi fyrir sóknaraðila og hafi því verið óheimilt að fara með aðfarabeiðnina til sýslumanns og krefjast aðfarar án þess að birta ákvörðunina fyrst.
Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á því að málatilbúnaður varnaraðila sé með þeim hætti að hann uppfylli ekki skilyrði íslenskra réttarfarslaga um skýrleika. Í beiðninni sé gerð krafa um að heimilað verði að gera fjárnám hjá gerðarþola fyrir skuld hans við gerðarbeiðanda að fjárhæð 60.507,12. Ekki komi fram í hvaða gjaldmiðli þessi fjárhæð sé. Samkvæmt d-lið 80. gr. einkamálalaga skuli fjárhæð kröfu vera í krónum.
Sóknaraðili tekur fram að með því að birta hvorki stefnu né dóm fyrir sóknaraðila hafi varnaraðili firrt sóknaraðila öllum þeim hugsanlegu möguleikum sem sóknaraðili kunni að hafa haft til endurupptöku málsins í Portúgal. Allir frestir til endurupptöku málsins í Portúgal séu fyrir löngu útrunnir. Einnig hafi varnaraðili með því að koma fram með aðfararbeiðni svo löngu eftir að dómur gekk í Portúgal firrt sóknaraðila þeim möguleika að koma að athugasemdum við vaxtakröfu varnaraðila, varnarþingsreglu svo og allar efnislegar varnir. Með þessum framgangsmáta hafi varnaraðili firrt sóknaraðila möguleika á áfrýjun málsins í Portúgal til æðri dómstóls.
Sóknaraðili krefst einnig álags á málskostnað. Varnaraðili hafi valdið sóknaraðila verulegu tjóni með framferði sínu og hafi í trássi við þágildandi lög 68/1995 skirrst við að birta stefnu með lögmætum hætti svo og ekki birt dóm fyrir sóknaraðila né yfirlýsingu um aðfararhæfi. Hann hafi komið sóknaraðila að óvörum með því að gera kröfu um fjárnám. Fyrirséð sé að þetta framferði muni valda varnaraðila verulegu tjóni og kostnaði. Málskostnaðarkrafa sé rökstudd með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um álag á málskostnað með vísan til 131. laga nr. 91/1991.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 68/1995, einkum 26., 27., 36., 37. og 46. gr. Þá vísar sóknaraðili einnig til laga nr. 7/2011 um nýjan Lúganósamning þar sem það á við. Ennfremur vísar sóknaraðili til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum XXIII. kafla og XXI. kafla. Sóknaraðili vísar einnig til laga um aðför nr. 90/1989 og að lokum til Haagsamnings frá 15. nóvember 1995 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum, einkum 2. gr., 5. gr. og 50. gr.
III.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt 26. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 68/1995, skuli dómur sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki viðurkenndur í öðrum samningsríkjum án þess að nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar sé þörf. Dómur uppkveðinn í öðrum samningsríkjum sé samkvæmt því sjálfkrafa viðurkenndir hér á landi. Þó sé ekki skylt að viðurkenna erlendan dóm ef þau atvik sem greind séu í 27. og 28. gr. Lúganó-samningsins eigi við. Við mat á því hvort að þau ákvæði geti átt við verði hins vegar að hafa í huga að erlendan dóm má aldrei endurskoða að efni til, sbr. 29. gr. samningsins, og kveðið sé á um fullnustu dóma í 2. kafla Lúganósamningsins. Samkvæmt 31. gr. hans skal fullnægja dómi, sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki og fullnægja má í því ríki, í öðru samningsríki þegar hann að beiðni rétts aðila hefur verið lýstur fullnustuhæfur þar. Einungis sé heimilt að synja beiðni um fullnustu ef þær ástæður sem tilgreindar eru í áðurnefndum ákvæðum 27. og 28. gr. samningsins eiga við, sbr. 2. mgr. 34. gr. samningsins. Í fyrrnefndum greinum sé tekið fram að ekki skuli viðurkenna dóm ef hann er útivistardómur og varnaraðila hafi ekki réttilega verið birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega að hann hafi ekki getað undirbúið vörn sína. Byggir varnaraðili á því að þessi atriði eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræðir.
Varnaraðili bendir í fyrsta lagi á að við mat á því hvort stefna hafi verið réttilega birt í skilningi 2. tl. 27. gr. Lúganósamningsins beri að leggja til grundvallar lög þess lands þar sem dómur var kveðinn upp. Þarf því með öðrum orðum að ganga úr skugga um hvort stefna hafi verið réttilega birt samkvæmt lögum þess lands þar sem útivistardómur var kveðinn upp. Þar komi jafnframt til skoðunar þeir alþjóðlegu samningar sem dómsríki og fullnusturíki séu aðilar að. Í þessu sambandi beri ekki að leggja til grundvallar lög þess lands þar sem fullnustu sé krafist. Þá eigi heldur ekki að beita ólögbundnu mati eða einhvers konar sanngirnisrökum. Við matið beri einfaldlega að leggja til grundvallar lög þess lands þar sem dómurinn var kveðinn upp. Matið sé hins vegar falið dómstólum í því ríki þar sem fullnustu er krafist. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að samkvæmt 1. mgr. 246. gr. portúgalskra laga um meðferð einkamála, sem fjalli um stefnubirtingar á hendur aðila sem búsettur er erlendis, beri að fara eftir þeim reglum sem kveðið sé á um í alþjóðlegum samningum og sáttmálum. Þegar enginn alþjóðlegur samningur eða sáttmáli sé til staðar beri hins vegar samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að birta stefnu í pósti og þá með ábyrgðarbréfi þar sem viðtaka sé staðfest.
Í endurupptökubeiðni sinni til dómsins vísi sóknaraðili til Haagsamningsins um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá 15. nóvember 1965. Þessi samningur hafi ekki verið staðfestur af Íslands hálfu fyrr en 11. nóvember 2008 og ekki tekið gildi að því er Ísland varðar fyrr en 1. júlí 2009. Ísland hafi því ekki verið aðili að greindum samningi þegar stefna í máli aðila hafi verið birt sóknaraðila.
Portúgalskur dómstóll hafi komist að þeirri niðurstöðu að birting hafi verið lögmæt. Sú niðurstaða hafi verið staðfest í hinum portúgalska dómi og einnig af starfsmanni dómstólsins. Bæði skjölin séu vottuð af lögbókanda í Portúgal og staðfest af þar til bærum aðila í samræmi við Haagsáttmálann um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961. Annað efni nefndra skjala, sem og annarra þeirra skjala sem staðfest voru með ofangreindum hætti og lögð voru fram með beiðni varnaraðili um fullnustu, teljist því rétt þar til annað sé sannað, sbr. ákvæði nefnds samnings, sbr. og 2. og 3. mgr. 71. gr. laga um meðferð einkamála 19/1991.
Varnaraðili telur að honum hafi verið óskylt að birta stefnuna á öðru tungumáli en portúgölsku. Samkvæmt portúgölskum lögum sé sú skylda ekki lögð á stefnendur að þýða stefnur yfir á móðurmál þess aðila sem í hyggju sé að stefna. Í portúgölskum rétti hvíli einfaldlega sú skylda á erlendum aðila sem stefnt er fyrir dóm í Portúgal að hlutast til um að þýða stefnuna eða leita sér lögmannsaðstoðar til að leiða efni hennar í ljós.
Samkvæmt framansögðu hafi stefna verið réttilega birt. Hafa verði í huga í þessu sambandi að sóknaraðili hafi sjálfur tekið ákvörðun um að stofna til viðskipta í Portúgal og hafi því átt að vera reiðubúinn að þurfa að hlíta þeim lögum sem þar gilda. Hafi sóknaraðili á annað borð ætlað sér að láta málið til sín taka hafi sú athafnaskylda hvílt á honum að láta þýða stefnuna eða leita sér annars konar aðstoðar við að leiða efni hennar í ljós. Sóknaraðili hafi hins vegar kosið að sýna af sér algjört athafnaleysi í þessum efnum og verði hann því að sætta sig við að dómur hafi verið kveðinn upp að honum fjarstöddum. Þá sé einnig ótrúverðug sú skýring sóknaraðila að honum hafi ekki verið ljóst hvaða skjöl hann móttók. Sé til þess að líta að heiti varnaraðila hafi verið tilgreint á bréfi dómstólsins til sóknaraðila og sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um þær deilur sem risið höfðu milli aðila, enda töluverð tölvupóstsamskipti átt sér stað milli þeirra.
Varnaraðili mótmælir því að stefna hafi ekki verið birt sóknaraðila með nægum fyrirvara. Honum hafi verið veittur tveggja mánaða frestur í þessu skyni. Til samanburðar megi benda á að það sé tvöfaldur sá tími sem kveðið sé á um í íslenskum lögum, sbr. 3. mgr. 91. gr. laga nr. 91/1991.
Í endurupptökubeiðni sinni til dómsins haldi sóknaraðili því fram að honum hafi ekki verið birtur hinn portúgalski dómur sem sé grundvöllur fullnustu kröfunnar. Rétt sé að taka fram í því sambandi að hvorki er heimilt að synja um viðurkenningu eða fullnustu erlends dóms hér á landi sökum þess að hann hafi ekki verið réttilega birtur fyrir þeim aðila sem fullnustu er krafist hjá. Eingöngu sé heimilt að synja um viðurkenningu og eða fullnustu dóms á grundvelli þeirra atriða sem greinir í 27. og 28. gr. samningsins. Birting dóms sé þar ekki gerð að skilyrði fyrir viðurkenningu eða fullnustu. Þrátt fyrir ofangreint sé rétt að benda á að dómurinn hafi vissulega verið birtur sóknaraðila en það hafi verið gert bréflega 20. desember 2007. Hafi það verið staðfest af hinum portúgalska dómstól. Sú birting fór fram samkvæmt portúgölskum lögum.
Í endurupptökubeiðni sinni geri sóknaraðili athugasemdir við að honum hafi ekki verið birt ákvörðun héraðsdóms um að heimila fullnustu fyrir kröfu varnaraðila samkvæmt hinum portúgalska dómi. Vísi sóknaraðili í þeim efnum til 1. mgr. 36. gr. Lúganósamningsins þar sem fram kemur að ef fullnusta er heimiluð geti sá aðili, sem fullnustu er krafist hjá, skotið ákvörðun til æðri réttar eða fengið hana endurupptekna innan eins mánaðar frá birtingu hennar. Ofangreind ákvæði geri ekki áskilnað um að ákvörðun sé birt með tilteknum hætti eða innan tiltekins tíma frá því að hún var tekin. Sé ákvæðið raunar ekki heldur með öllu skýrt um það hver eigi að birta ákvörðun um fullnustu. Sóknaraðila hafi hins vegar í öllu falli verið birt ákvörðun um fullnustuhæfi þegar hann var boðaður til fyrirtöku fjárnámsgerðarinnar hjá sýslumanninum í Keflavík og liggi fyrir birtingarvottorð því til staðfestingar. Varnaraðili tekur þó fram að hann hafni því alfarið að birta þurfi ákvörðun um fullnustuhæfi með slíkum formlegum hætti.
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um málskostnað og álag á málskostnað. Ekkert tilefni sé til að verða við þeirri kröfu.
Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 68/1995, til laga um aðför nr. 90/1989, einkum 1. og 12. gr. laganna. Varnaraðilli vísar jafnframt til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 71., 80. og 91. gr. laganna en málskostnaðarkröfu varnaraðila styður hann við XXI. kafla laganna. Varnaraðili vísar einnig til ákvæða Haagsáttmálans um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961 sem tók gildi að því er Ísaland varðar 27. nóvember 2004 en 4. febrúar að því er Portúgal varðar. Þá vísar varnaraðili til portúgalskra laga um meðferð einkamála, einkum 46., 47., 247.,484., 805 og 806 gr. og til portúgalskra verslunarlaga, einkum 102. gr. laganna.
IV.
Eins og framan er rakið sendi þriðji einkamáladómstóllinn í Aveiro í Baixo Vouga-héraði í Portúgal sóknaraðila stefnu í ábyrgðarbréfi, sem móttekin var 24. apríl 2007, og fylgdu gögn málsins með. Sóknaraðili móttók póstinn en fyrirsvarsmaður sóknaraðila sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að um stefnu væri að ræða þar sem öll skjöl hefðu verið á portúgölsku og hann skildi ekki þá tungu. Hann hafi því ekkert frekar aðhafst. Útivistardómur gekk í málinu í Portúgal 17. desember 2007 og voru kröfur varnaraðila teknar til greina. Aðför til fullnustu kröfum samkvæmt dóminum var heimiluð í Héraðsdómi Reykjaness 14. febrúar 2012. Fjárnámsbeiðni var tekin fyrir hjá sýslumanni 23. maí 2012 en henni frestað uns niðurstaða verður fengin í þessu máli.
Sóknaraðili telur að framangreind birting stefnu standist ekki ákvæði laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Sóknaraðila hafi því verið gert ómögulegt að taka til varna í málinu og gæta réttar síns. Í öðru lagi byggir sóknaraðili á að dómurinn 17. desember 2007 hafi ekki verið birtur fyrir sóknaraðila og sé það einnig brot á Lúganósamningnum. Með því að birta dóminn ekki fyrir sóknaraðila hafi varnaraðili líklega firrt sóknaraðila rétti til að fá málið endurupptekið. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á að ákvörðun um fullnustuhæfi hafi ekki verið birt fyrir sóknaraðila sem sé einnig í andstöðu við ákvæði Lúganósamningsins. Loks byggir sóknaraðili á því að það skorti á skýrleika í aðfararbeiðni varnaraðila.
Heimild til endurupptöku á ákvörðun héraðsdóms frá 14. febrúar 2012 um fullnustuhæfi er í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 68/1995 og heimild til að synja beiðni um fullnustu er í 2. mgr. 34. gr., sbr. 2. tl. 27. gr., laganna. Um ágreining aðila gilda ákvæði laga um Lúganósamninginn nr. 68/1995 um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum en nýr samningur, sbr. lög nr. 7/2011, tók ekki gildi fyrr en 1. maí 2011. Þá tók Haagsamningurinn um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum ekki gildi að því er Ísland varðar fyrr en 1. júlí 2009 eða eftir að stefna var birt í þessu máli.
Markmiðið með reglum um stefnubirtingar er að tryggja að stefndi hafi vitneskju um fyrirhugaða málssókn, enda er honum að öðrum kosti ekki gert kleift að grípa til varna og gæta réttar síns, kjósi hann það. Stefna hins portúgalska dómstóls var birt með ábyrgðarbréfi í samræmi við portúgölsk lög og var stefnan á portúgölsku svo og öll önnur skjöl að sögn sóknaraðila. Birtingarvottorð eða móttökukvittun var einnig á portúgölsku og var ekki getið um á henni að um stefnu væri að ræða. Þó að fallast megi á með sóknaraðila að portúgalska sé framandi mál fyrir flesta Íslendinga verður engu að síður að líta til þess að sóknaraðili hafði átt í viðskiptum við varnaraðila um skeið og verið í samskiptum við hann vegna þess ágreinings sem upp var kominn þeirra í milli vegna síðustu vörusendingar sem varnaraðili taldi gallaða. Sóknaraðila var því kunnugt um kröfu varnaraðila og sættir höfðu ekki tekist með aðilum. Þegar sóknaraðila barst bréf frá opinberri stofnun í Portúgal, Tribunal Judicial de Aveiro, en þannig var sendandi tilgreindur í móttökukvittun, hvíldi sú athafnaskylda á sóknaraðila að kynna sé innihald bréfsins með því að láta þýða skjölin, setja sig í samband við sendandann eða varnaraðila til þess að leita upplýsinga eða með öðrum hætti að leiða efni stefnunnar í ljós. Stefnan var því réttilega birt sóknaraðila og einnig hefur verið sýnt fram á í málinu að stefnan var birt á réttan hátt samkvæmt portúgölskum lögum.
Ágreiningur er um hvort dómurinn hafi verið birtur sóknaraðila. Er því haldið fram af varnaraðila að svo hafi verið gert 20. desember 2007 með sama hætti og áður, þ.e. með ábyrgðarbréfi, en sóknaraðili hafi ekki veitt bréfinu viðtöku. Af hálfu sóknaraðila er þessari fullyrðingu varnaraðila mótmælt. Samkvæmt lögum nr. 65/1995 er ekki heimild til að synja um viðurkenningu eða fullnustu erlends dóms hér á landi þó að hann hafi ekki verið birtur fyrir þeim sem krafist er fullnustu hjá. Er eingöngu heimilt að synja um viðurkenningu og þar með fullnustu á grundvelli 27. og 28. gr. laganna en birting dóms er þar ekki gerð að skilyrði.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðila hafi borið að birta fyrir sóknaraðila sérstaklega ákvörðun héraðsdóms um fullnustuhæfi og skírskotar til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 68/1995. Þetta ákvæði Lúgnósamningsins gerir þó ekki áskilnað um að ákvörðun sé birt með tilteknum formlegum hætti og verður litið svo á að hún hafi verið birt þegar sóknaraðili var boðaður til fyrirtöku fjárnámsgerðar hjá sýslumanni.
Þá verður ekki fallist á með sóknaraðila að aðfararbeiðni varnaraðila sé það óskýr að hún hafi ekki verið tæk til ákvörðunar um fullnustuhæfi.
Samkvæmt öllu framansögðu verur ekki fallist á kröfu sóknaraðila í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Íslenska félagsins ehf., um að felld verði úr gildi ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 14. febrúar 2012 um fullnustuhæfi dóms þriðja einkamáladómstóls í Aveiro í Baixo Vouga-héraði í Portúgal frá 17. desember 2007.
Málskostnaður fellur niður.