Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2015

A (Björgvin Þórðarson hrl.)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorkumat



 Líkamstjón. Skaðabætur. Örorkumat.

A krafðist skaðabóta úr hendi T hf. vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann starfaði sem verkamaður. Laut deila aðila að því hvaða árslaunaviðmið skyldi leggja til grundvallar við útreikning bóta til A fyrir varanlega örorku. Hafði uppgjör þegar farið fram með fyrirvara af hálfu A þar sem miðað var við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en A hélt því fram í málinu að ákvarða ætti laun hans eftir 2. mgr. sömu greinar. Fyrir lá að A hafði unnið í um 20 ár við landbúnaðarstörf í […] áður en hann kom til Íslands en í tæpa 10 mánuði hér á landi við byggingarvinnu er slysið varð. Ágreiningslaust var að laun A þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag höfðu verið lægri en lágmarkslaun samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Talið var að A hefði ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi að rétt væri að miða við annan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur hans en lágmarksviðmið skaðabótalaga, enda yrði af framburði A fyrir dómi og öðrum gögnum málsins ráðið að hann hefði á slysdegi ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Var T hf. því sýknaður af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 6.469.266 krónur, til vara 6.008.485 krónur en að því frágengnu 5.468.679 krónur,  í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði án tillits til gjafsóknar sem honum var þar veitt og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar við útreikning skaðabóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku. Aðalkrafa áfrýjanda felur í sér að miða beri við uppreiknuð laun sín tímabilið 1. október 2007 til og með 23. júlí 2008, til vara meðaltekjur verkamanna árið 2008 en að því frágengnu uppreiknuð laun sín tímabilið 1. október 2007 til og með 23. júlí 2008 að frádregnum orlofsgreiðslum. Stefndi telur að bætur áfrýjanda eigi að miðast við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Áfrýjandi hafði unnið í um 20 ár við landbúnaðarstörf í […] er hann kom til Íslands árið 2007 og hóf þá að vinna í byggingariðnaði. Hann hafði á slysdegi 23. júlí 2008  unnið í tæpa tíu mánuði við byggingarvinnu. Ágreiningslaust er að laun áfrýjanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag voru lægri en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Spurður fyrir héraðsdómi hvort hann hafi haft í hyggju að setjast hér að kvaðst hann í fyrstu hafa þurft að aðlagast samfélaginu og hann hafi verið óöruggur um hvort hann vildi vera hér áfram eða ekki. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en lagður er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, enda verður af framangreindu og af öðrum gögnum málsins ráðið að hann hafi á slysdegi ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015.

Mál þetta sem dómtekið var 15. desember 2014 var höfðað 14. apríl s.á. af hálfu A, til heimilis að […], en með lögheimili að […], á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík.  

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.469.266 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.008.485 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.468.679 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. maí 2012 til 16. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda að skaðlausu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 23. júlí 2008 þegar hann starfaði sem ófaglærður verkamaður hjá Byggingafélaginu B ehf. Stefnandi hafði þá starfað hjá fyrirtækinu og hjá fyrirtækinu C ehf. frá 1. október 2007 eða í samtals tæplega 10 mánuði, en hann kom til Íslands frá […] til þeirra starfa. Stefnandi hafði á starfstímanum fengið samtals 3.316.209 krónur í laun.

B ehf. var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda og sammæltust lögmenn aðila um að fela Guðjóni Baldurssyni lækni að meta tímabundna og læknisfræðilega örorku vegna líkamstjóns stefnanda. Var læknisfræðileg örorka metin 15%. Á grundvelli matsgerðarinnar greiddi stefndi stefnanda 2.000.992 krónur í bætur úr slysatryggingu launþega sem vinnuveitandi hans hafði hjá stefnda 28. janúar 2010. Afleiðingar slyssins voru einnig metnar 15% læknisfræðileg örorka af Sjúkratryggingum Íslands sem greiddu stefnanda bætur að fjárhæð 838.249 krónur.

Stefndi taldi að rekja mætti slysið að nokkru til eigin sakar stefnanda og var ágreiningi aðila um það skotið til úrskurðarnefndar um vátryggingamál. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stefndi væri greiðsluskyldur sem næmi helmingi tjóns stefnanda. Stefnandi höfðaði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda og með réttarsátt viðurkenndi stefndi greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu B ehf., sem næmi 60% af tjóni stefnanda, en stefnandi bæri 40% tjónsins sjálfur.

Aðilar fólu Guðjóni Baldurssyni lækni og Jörundi Gaukssyni hdl. að vinna matsgerð um afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Varanlegur miski var metinn 15% og varanleg örorka 15%. Gengið var frá uppgjöri skaðabóta á grundvelli matsgerðarinnar og við útreikning bóta fyrir varanlega örorku var byggt á 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (skbl.) um lágmarkslaun. Lögmaður stefnanda tók við greiðslu skaðabótanna 14. desember 2011 með fyrirvara vegna meints vanmats í örorkumatsgerð dags. 31.8.2011 og með áskilnaði um að koma að frekari kröfum á seinni stigum lútandi að öllum bótaþáttum. Þá var tekjuviðmiði til grundvallar útreiknings á varanlegri örorku sérstaklega mótmælt.

Stefnandi óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins og voru þeir Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl., dómkvaddir í því skyni. Í matsgerð þeirra er varanlegur miski stefnanda metinn til 35 stiga og varanleg örorka 35%. Með bréfi, dags. 16. október 2013, gerði stefnandi kröfu um greiðslu úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá stefnda á grundvelli niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Krafa stefnanda um frekari viðbótarbætur fyrir varanlega örorku tók mið af þeim tekjum sem stefnandi hafði aflað sér eftir að hann hóf störf á Íslandi. Stefndi hafnaði þeirri kröfu og greiddi stefnanda á ný viðbótarskaðabætur í desember 2013 miðað við lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga úr launþegatryggingu B ehf. á grundvelli matsgerðarinnar. Lögmaður stefnanda undirritaði skaðabótakvittunina með fyrirvara um metnar afleiðingar og tekjuviðmið stefnda til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku. Þann 3. desember 2013 greiddu Sjúkratryggingar Íslands stefnanda viðbótargreiðslu að fjárhæð 1.797.499 krónur þar sem fallist var á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna um auknar afleiðingar slyssins.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það tekjuviðmið sem stefndi notaði í tveimur fyrirliggjandi uppgjörum á varanlegri örorku, skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en greiddar viðbótarbætur í desember 2011 og í desember 2013 samkvæmt þeim uppgjörum munu vera samtals 2.666.448 krónur. Stefnandi telur að sú ákvörðun stefnda að miða uppgjör skaðabóta fyrir varanlega örorku við lágmarksviðmið skaðabótalaga um tekjur sé ekki rétt og að þess í stað skuli taka mið af þeim tekjum sem stefnandi hafði haft á Íslandi síðustu mánuðina fyrir slys.

Stefnandi kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann 23. júlí 2008 hjá þáverandi vinnuveitanda sínum B ehf. Fyrirtækið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 20. júlí 2011 og sé málshöfðun þessari því eingöngu beint að Tryggingamiðstöðinni hf. (stefnda) með vísan til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, þar sem B ehf. hafi haft ábyrgðartryggingu í gildi hjá stefnda fyrir atvinnurekstur sinn þegar slysið hafi orðið.

Byggt sé á því í máli þessu að aðstæður stefnanda fyrir slysdag hafi verið svo óvenjulegar að um mat á árslaunum hans til útreiknings á bótum vegna varanlegrar örorku geti ekki farið samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (hér eftir skbl.). Meðalatvinnutekjur stefnanda síðustu þriggja ára fyrir slys séu ómarktækar þar sem að á því tímabili hafi orðið miklar sveiflur og breytingar á tekjum og atvinnuhögum stefnanda.

Í ljósi þess hvert meginmarkmið skaðabótalaga sé, þ.e. að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón hans telji stefnandi rétt að ákvarða árslaun sín sérstaklega og í því sambandi beri að líta til reglu 2. mgr. 7. gr. skbl. Útreikningar samkvæmt 3. mgr. þeirrar lagagreinar, eins og stefndi hafi gert varanlegu örorkuna upp, gefi ekki rétta og raunhæfa mynd af áætluðum framtíðartekjum stefnanda.

Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skbl. setji þrjú skilyrði fyrir því að árslaun skuli ákveðin sérstaklega. Í fyrsta lagi að aðstæður hafi verið óvenjulegar, í öðru lagi að árslaun, sem meginreglan miði við, geti ekki talist réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola og í þriðja lagi að annar mælikvarði sé til staðar og sé réttari við mat á líklegum framtíðartekjum hans. Öll skilyrði lagaákvæðisins séu uppfyllt þannig að unnt sé að beita því í máli þessu og ekki séu rök til að skýra ákvæðið þröngt með hliðsjón af lögskýringargögnum. Í frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996 sé þess til að mynda getið að launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára en það eigi þó ekki alltaf við. Þannig séu launatekjur liðinna ára ekki góður mælikvarði hafi breytingar orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys verði eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Í greinargerð með 6. gr. frumvarpsins, sem orðið hafi að lögum nr. 37/1999, sé tekið dæmi um tjónþola sem hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum.

Stefnandi sé fæddur í […] árið 1967. Í […] hafi hann lokið grunnskólaprófi og unnið eftir það sem vinnumaður á bóndabæ í um 20 ár. Stefnandi sé kvæntur og eigi […] börn. Hann hafi flust til Íslands árið 2007 og hafið störf hér á landi í október sama ár. Óumdeilt sé að tekjur stefnanda í […] áður en hann hafi flust til Íslands séu undir lámarkstekjuviðmiðun skbl.

Þegar slysið hafi orðið hafði stefnandi unnið á Íslandi í um 10 mánuði og hafi haft umtalsvert hærri tekjur en hann hafi haft í […]. Af þeirri ástæðu sé ekki unnt að miða við 1. mgr. 7. gr. skbl. um tekjuviðmið til útreiknings varanlegrar örorku. Ekki sé unnt að beita 3. mgr. 7. gr. skbl. við útreikning bóta, enda myndi slík aðferðafræði beinlínis ganga í berhögg við tilgang og markmið skaðabótalaga, sem sé að bæta tjónþola tjón sitt að fullu. Til þess að mögulegt sé að bæta stefnanda tjónið að fullu verði að miða við þær árstekjur sem gefi réttan mælikvarða á áætlaðar framtíðartekjur og þeim mælikvarða verði aðeins náð með beitingu 2. mgr. 7. gr. skbl.

Tilgangur 3. mgr. 7. gr. skbl. sé að gefa mælikvarða á hugsanlegar framtíðartekjur þegar enginn annar mælikvarði sé til staðar. Þannig beri að beita 3. mgr. 7. gr. skbl. um þá sem engar eða óverulegar launatekjur hafi. Hins vegar sé það svo, að þegar til staðar sé tekjusaga sem hægt sé að miða við, þá beri að miða við hana. Sé tekjusaga hins vegar ekki nægilega löng til þess að unnt sé að beita 1. mgr. 7. gr. skbl. beri að meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Beiting 2. mgr. 7. gr. sé mun líklegri til þess að gefa réttan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur stefnanda en beiting 3. mgr. 7. gr. laganna. Þar sem til staðar séu upplýsingar um tekjur á Íslandi fyrir slys sé í raun óheimilt að beita 3. mgr. 7. gr. laganna.

Stefnandi sé enn búsettur og starfandi á Íslandi eins og hann hafi verið allar götur síðan hann hafi flust hingað til lands árið 2007. Stefnandi fyrirhugi enn fremur að flytja eiginkonu sína og […] yngri börn sín hingað til lands þannig að þau muni búa saman hér á landi áður en langt um líði.

Kröfur stefnanda taki mið af örorkumatsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dags. 4. september 2013 og af því að tekjuviðmið reiknist samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skbl. Varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 35% og stöðugleikadagur talinn 22. maí 2012. Endanleg aðalkrafa stefnanda taki mið af uppreiknuðum tekjum hans árin 2007 og 2008 og miðað sé við þær tekjur sem stefnandi hafi sannanlega verið farinn að afla sér eftir að hann hafi hafið störf á Íslandi. Tekjur stefnanda fyrir tímabilið 1. október 2007 til 23. júlí 2008, sbr. staðgreiðsluyfirlit 2007 og 2008 hafi verið eftirfarandi:

október 2007

kr. 363.732,-

 

nóvember 2007

kr. 412.934,-

 

desember 2007

kr. 333.378,-

 

janúar 2008

kr. 388.060,-

 

febrúar 2008

kr. 367.430,-

 

mars 2008

kr. 336.041,-

 

apríl 2008

kr. 324.093,-

 

maí 2008

kr.   94.055,-

Stefnandi í launalausu leyfi stærstan hluta maí

júní 2008

kr. 323.873,-

 

júlí 2008

kr. 372.613,-

Laun fyrir hvern dag júlímánaðar 12.020 krónur og viðmiðunarlaun fyrir 23 daga í júlí því 276.455 krónur.

Laun stefnanda fyrir 92 daga árið 2007 (október, nóvember og desember) hafi verið samtals 1.110.047 krónur, sem séu uppreiknaðar til 365 daga, samtals 4.403.991 krónur. Fjárhæðin sé síðan framreiknuð miðað við meðaltalslaunavísitölu árið 2007 til stöðugleikadags í maí 2012 og nemi þá 5.974.578 krónum (4.403.991 x 432,9/319,1).

Laun stefnanda fyrir 174 daga árið 2008 (janúar, febrúar, mars, apríl, júní og 23 daga í júlí) hafi verið samtals 2.015.952 krónur, sem séu uppreiknaðar til 365 daga samtals 4.228.865 krónur. Fjárhæðin sé síðan framreiknuð miðað við meðaltalslaunavísitölu 2008 til stöðugleikadags í maí 2012 og nemi þá 5.306.306 krónum (4.228.865 x 432,9/345).

Viðmiðunarfjárhæðin nemi 6.091.677 krónum eftir að tekið hafi verið tillit til 8% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð (5.974.578 + 5.306.306 / 2 x 1,08).

Aldursstuðull stefnanda sé 9,244 enda hafi hann verið 45 ára og 31 dags gamall þegar batahvörf hafi orðið.

Heildargreiðsla stefnda til stefnanda er hér skipti máli samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé eftirfarandi:

Þjáningabætur (339.510 + 55.250)                                                    kr.           394.760,-

Varanlegur miski (1.388.325 + 1.998.300)                                      kr.           3.386.625,-

Varanleg örorka (3.653.199 + 5.273.702)                                                       kr.           8.926.901,-

Bætur úr slysatr. launþega (2.000.992 + 3.100.800)                      kr.           -5.101.792,-

Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj. (838.249 + 1.797.499)                       kr.           -2.635.748,-

Eigin sök tjónþola (40%)                                                                    kr.           - 1.988.298,-

Eigin áhætta                                                                                                          kr.           - 316.000,-

SAMTALS                                                                                                             kr.           2.666.448,-

Aðalkrafa stefnanda, í stefnu eina krafa hans, er þar sundurliðuð þannig:

Þjáningabætur                                                                                                       kr.           394.760

Varanlegur miski                                                                                   kr.           3.386.625

Varanleg örorka (6.091.677  x 9,244 x 35%)                                  kr.           19.709.012

Bætur úr slysatr. launþega                                                                  kr.           -5.101.792

Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj.                                                                 kr.           -2.635.748

Eigin sök tjónþola (40%)                                                                    kr.           - 6.301.143

SAMTALS                                                                                                             kr.           9.451.714

Stefnufjárhæðin var upphaflega 6.785.266 krónur (9.451.714 – 2.666.448). Við meðferð málsins breytti stefnandi kröfugerð sinni og féllst á frádrátt vegna eigin áhættu vátryggingartaka að fjárhæð 316.000 krónur. Endanleg aðalkrafa stefnanda sé því að fjárhæð 6.469.266 krónur.

Varakrafa stefnanda taki mið af meðaltekjum verkamanna, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands fyrir árið 2008. Mánaðarlaun hafi á þessum tíma verið að fjárhæð 360.000 krónur, sbr. upplýsingar á heimasíðu Hagstofunnar. Viðmiðunarlaunin séu framreiknuð miðað við meðallaunavísitölu 2008 til stöðugleikadags í maí 2012 ásamt því sem tekið sé tillit til 8% mótframlags vinnuveitanda, sbr.: 12 x 360.000 x 432,9/345 x 1,08 = 5.854.313 krónur.

Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist því með eftirfarandi hætti: 5.854.313 x 9,244 x 35% = 18.941.044 krónur. Varakrafan sé sundurliðuð þannig:

Þjáningabætur                                                                                                       kr.           394.760

Varanlegur miski                                                                                   kr.           3.386.625

Varanleg örorka (5.854.313  x 9,244 x 35%)                                  kr.           18.941.044

Bætur úr slysatr. launþega                                                                  kr.           -5.101.792

Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj.                                                                 kr.           -2.635.748

Eigin sök tjónþola (40%)                                                                    kr.           - 5.993.956

Eigin áhætta                                                                                                          kr.           - 316.000

SAMTALS                                                                                                             kr.           8.674.933

Heildargreiðsla stefnda til stefnanda samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé óumdeilanlega að fjárhæð 2.666.448 krónur og sé varakrafan því 6.008.485 krónur (8.674.933 – 2.666.448).

Þrautavarakrafa sé sett fram telji dómurinn rétt að byggja á uppreiknuðum tekjum stefnanda árin 2007 og 2008 eins og aðalkrafan taki mið af en þó með þeirri breytingu að orlofsgreiðslur, 10,17% af tekjum stefnanda, séu dregnar frá.

Viðmiðunarlaun aðalkröfu nemi 6.091.677 krónum, 10.17% af þeirri fjárhæð séu 5.529.343 krónur (6.091.677/1,1017). Það þýði að orlofsgreiðslur nemi 562.334 krónum af heildar viðmiðunarlaunum sé miðað við 12 mánuði. Í 5. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 komi hins vegar fram að orlofslaun reiknist ekki af orlofslaunum. Orlofslaun sem til frádráttar komi nemi því 515.473 krónum (562.334/12 = 46.861 x 11). Viðmiðunartekjur í þrautavarakröfu nemi samkvæmt því 5.576.240 krónum (6.091.677 – 515.473).

Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist því þannig: 5.576.240 x 9,244 x 35% = 18.041.367 krónur. Þrautavarakrafan sé sundurliðuð þannig:

Þjáningabætur                                                                                                       kr.           394.760

Varanlegur miski                                                                                   kr.           3.386.625

Varanleg örorka (5.576.240  x 9,244 x 35%)                                  kr.           18.041.367

Bætur úr slysatr. launþega                                                                  kr.           -5.101.792

Greitt af Tr.stofn. og Líf.sj.                                                                 kr.           -2.635.748

Eigin sök tjónþola (40%)                                                                    kr.           - 5.634.085

Eigin áhætta                                                                                                          kr.           - 316.000

SAMTALS                                                                                                             kr.           8.135.127

 

Heildargreiðsla stefnda til stefnanda samkvæmt uppgjörum í desember 2011 og desember 2013 sé óumdeilanlega að fjárhæð 2.666.448 krónur og sé þrautavarakrafan því 5.468.679 krónur (8.135.127 – 2.666.448).

 

Krafist sé vaxta af stefnufjárhæðinni skv. 16. gr. skbl. frá stöðugleikadegi, en dráttarvaxta skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 einum mánuði eftir að bótakrafa af hálfu stefnanda var sett fram þann 16. október 2013, sbr. 9. gr. sömu laga.

Um aðild stefnda sé vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Krafa stefnanda sé reist á skaðabótalögum nr. 50/1993 ásamt síðari breytingum (skbl.), aðallega 5.-7. gr. þeirra. Einnig sé byggt á almennum reglum skaðabótaréttar um fébótaábyrgð tjónvalds og rétt tjónþola til að fá allt tjón sitt bætt sem og á almennum reglum kröfuréttar. Krafa um vexti styðjist við 16. gr. skbl. Krafa um dráttarvexti styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðji stefnandi við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. eml.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu skaðabóta á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.

Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi fengið fullnaðarbætur fyrir atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skbl., að stefnandi hafi fengið fullnaðargreiðslu fyrir þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skbl. og fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skbl. Ágreiningslaust sé í dómsmálinu að varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skbl. hafi verið metin 35%. Þá sé ágreiningslaust að þeir frádráttarliðir sem fram komi á skaðabótakvittunum vegna greiðslna úr slysatryggingu launþega, og frá Sjúkratryggingum Íslands séu réttir. Enn fremur sé ágreiningslaust að stefnandi skuli bera 40% tjónsins sjálfur. Ekki sé lengur deilt um það hvort heimilt hafi verið að draga frá bótum tjónþola eigin áhættu vátryggingartakans. Ágreiningurinn sé um það hvort bætur fyrir varanlega örorku skuli reiknaðar samkvæmt 1., 2. eða 3. mgr. 7 gr. skbl.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skbl. skulu árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku teljast meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við.

Samkvæmt 2. mg. 7. gr. skbl. skuli árslaun metin sérstaklega séu óvenjulegar aðstæður fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur.

Samkvæmt 3. mgr. skbl. skuli ekki miðað við lægri árslaun en tilgreind séu í töflu greinarinnar.

Slysið hafi orðið í júlí 2008. Beri því samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skbl. að miða við meðaltekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksár fyrir þann dag sem slysið varð, þ.e. árin 2005, 2006 og 2007. Á þessum tíma mun stefnandi hafa unnið sem vinnumaður á bóndabæ í […]. Í stefnu, bls. 5, sé svohljóðandi staðhæfing: Óumdeilt er að tekjur stefnanda í […] áður en hann fluttist til Íslands eru undir lágmarstekjuviðmiðum skbl.

Í fyrsta lagi hafi við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku verið litið til þess að óumdeilt væri að tekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi verið lægri en lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.

Í öðru lagi hafi ekki getað komið til álita að miða við þær tekjur sem stefnandi hafi til skamms tíma haft við störf sín á Íslandi áður en slysið hafi orðið. Stefndi hafi lagt til grundvallar útreikningi sínum að stefnandi hefði dvalið og unnið mjög skamman tíma á Íslandi þegar hann hafi lent í slysinu, eða í um 10 mánuði. Allan þann tíma sem stefnandi hafi dvalið á Íslandi hafi fjölskylda hans dvalið í […]. Á báðum matsfundum, greini stefnandi frá því að hann hafi einvörðungu komið til Íslands til að vinna en hafi ekki ætlað sér að dvelja hér til langframa. Hann hafi flust til Íslands vegna meiri atvinnumöguleika en hyggist ekki setjast hér að. Stefndi telji að fullvíst sé að stefnandi hafi ekki í hyggju að starfa á Íslandi út starfsævina heldur sé um tímabundna dvöl að ræða. Ekki hafi verið sýnt fram á að framtíðarárslaun stefnanda hefðu orðið hærri en þau lágmarkslaun sem miðað er við í 3. mgr. 7. gr. skbl. Til stuðnings sjónarmiðum stefnda sé vísað til Hrd. 646/2009 og Hrd. 60/2011.

Kröfur sínar byggi stefnandi á 2. mgr. 7. gr. skbl. þar sem kveðið sé á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Stefnandi þurfi að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá honum síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Hvort tveggja skilyrða verði að vera uppfyllt.

Litlar tekjur stefnanda við störf í […] þrjú síðustu árin fyrir slys verði með engu móti heimfærðar undir óvenjulegar aðstæður. Í riti sínu, Skaðabótaréttur, Reykjavík 2005, bls. 685-686, nefni höfundurinn Viðar Már Matthíasson, í dæmaskyni yfir óvenjulegar aðstæður, að tjónþoli hafi t.d. tekið sér ólaunað leyfi hluta af þeim tíma, sem notaður sé til viðmiðunar, t.d. annað foreldri, sem kjósi að vera heima hjá ungu barni, eða tjónþoli sem eytt hafi tíma í að endurmennta sig, til þess að búa sig undir annað starf. Þá gæti komið til tímabundið atvinnuleysi, veikindi o.fl. Óvenjulegar aðstæður séu því breytingar sem verði á högum tjónþola sem áður hafi haft tekjur eða störf sem réttara væri að taka mið af. Reglan um lágmarkslaun tryggi öllum tjónþolum, einnig þeim sem hafi litlar eða engar atvinnutekjur, af hvaða ástæðum sem það sé, lágmarksbætur vegna líkamstjóns.

Þegar tjón stefnanda hafi verið gert upp í desember 2013 hafi lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. skbl. verið 2.852.500 krónur. Meðallaunatekjur stefnanda þrjú árin eftir slysið, árin 2009-2011, séu verulega lægri en lágmarksviðmið skbl, sbr. framlögð skattframtöl stefnanda.

Í stefnu sé reynt að sýna fram á að tekjur stefnanda hafi á tilteknu tímabili verið hærri en lágmarksviðmið skbl. Þá séu tekin laun stefnanda tiltekið tímabil, október 2007-júlí 2008, og þeim deilt upp í dagafjölda og það síðan heimfært á heilt ár. Dómkröfur stefnanda séu síðan settar fram á grundvelli þessa útreiknings. Viðmiðunartímabil það sem stefnandi byggi á, október 2007 til júlí 2008 hafi auk þess verið eitt mesta uppgangstímabil í íslensku efnahagslífi. Því hafi skyndilega lokið með hruni íslensks efnahags í október 2008. Af skattframtölum og staðgreiðsluyfirlitum megi sjá að þessir atburðir hafi haft veruleg áhrif á afkomu stefnanda og hafi hann t.d. verið atvinnulaus um tíma. Stefnandi hafi aldrei á þeim árum sem hann hafi dvalið á Íslandi haft árstekjur í námunda við það sem útreikningar dómkröfunnar miðist við. Skaðabótalögin heimili undir engum kringumstæðum ámóta reikningsaðferðir og stefnandi viðhafi. Þegar af þessum ástæðum beri að hafna útreikningum stefnanda.

Stefndi telji enn fremur að útreikningur stefnanda sé mjög villandi enda engir launaseðlar lagðir fram honum til staðfestingar. Að óbreyttu telji stefndi að í launum hvers mánaðar sé orlofsgreiðsla sem nemi skv. kjarasamningi 10,17%. Gert sé ráð fyrir því að launþegi taki út orlofsgreiðsluna þegar hann fari í orlof og verði launalaus á meðan. Þessi staðhæfing fái stuðning í maílaunum stefnanda árið 2008, sem séu töluvert lægri en aðra mánuði. Orlofsárið hefjist í maí og þá hafi stefnandi getað tekið út orlofið og haldið til […], sem hann hafi væntanlega gert, og verið launalaus á meðan. Það nái ekki nokkurri átt að færa tekjur stefnanda ákveðið tímabil til 365 daga. Með útreikningi stefnanda sé í reynd verið að reikna með 13 mánuðum í árinu. Gera verði ráð fyrir því að stefnandi eins og aðrir launþegar taki sér orlof og beri að taka tillit til þess við alla útreikninga.

Stefndi telji að tjón stefnanda sé að fullu uppgert og stefnandi eigi engar frekari kröfur á stefnda. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi vísi máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993, sem og meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku að meginreglu leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag og skulu þær fjárhæðir framreiknaðar til samræmis við breytingar á launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar tjónþola verður stöðugt. Hvorki skal þó reikna bæturnar út með tilliti til lægri atvinnutekna en greindar eru í 3. mgr. þessarar lagagreinar né hærri tekna en segir í 4. mgr. hennar. Frá framangreindri reglu 1. mgr. 7. gr. er gerð undantekning í 2. mgr. 7. gr., þar sem mælt er svo fyrir að árslaun skuli meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Í málinu heldur stefnandi því fram að skilyrði séu til að ákveða honum skaðabætur vegna varanlegrar örorku eftir framangreindri reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt dómaframkvæmd ber tjónþoli, sem reisir kröfu um bætur á síðastnefndu lagaákvæði, sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum þess sé fullnægt og ber stefnanda því að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið og þá hvaða árslaun það séu sem teljast réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans.

Í skrifum fræðimanna um skýringu á orðunum óvenjulegar aðstæður í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og henni hefur verið beitt í dómaframkvæmd, kemur m.a. fram að þá sé átt við atvik á viðmiðunartímabili sem haft hafi þau áhrif að tekjur tjónþola verði ekki þær sem hann hafi að jafnaði haft eða hefði getað haft ef umrædd atvik hefðu ekki orðið. Þegar metið er hvort aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar að þessu leyti er til þess að líta að hann kom haustið 2007 frá […] til Íslands til þess að afla hærri tekna en hann kveðst hafa átt kost á í […], en þar mun hann þá hafa unnið á sama vinnustað í 20 ár. Að þessu leyti voru aðstæður stefnanda óvenjulegar í tekjulegu tilliti þegar slysið varð þann 23. júlí 2008. Ekki verður þó ályktað af því einu að meðaltekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag hafi verið ómarktækar um líklegar tekjur hans í framtíðinni.

Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2008 og yfirliti úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra voru tekjur stefnanda á árinu 2007 1.110.047 krónur, greiddar af C ehf. frá október 2007 til ársloka. Aðrar tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir í málinu um tekjur stefnanda á árunum 2005, 2006 og 2007, þ.e. síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið. Stefnandi lýsir því yfir í stefnu að tekjur hans, áður en hann kom til Íslands til vinnu á árinu 2007, hafi verið undir lágmarkstekjuviðmiði samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki er upplýst um raunverulegar heildartekjur hans á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt skattframtali stefnanda árið 2009 voru launagreiðslur til hans á árinu 2008, frá C ehf. og B ehf. samtals 2.841.241 króna, þar með munu vera talin  þriggja mánaða veikindalaun eftir slysið, sem varð í júlí það ár.

Svo sem bent er á af hálfu stefnda voru aðstæður á Íslandi óvenjulegar þegar stefnandi kom hingað til lands, að því er varðar möguleika ófaglærðra til að afla hárra tekna við störf í byggingariðnaði. Ástand á vinnumarkaði átti eftir að gerbreytast á Íslandi skömmu eftir að slysið varð og m.a. var fyrirtækið sem stefnandi starfaði þá hjá, B ehf., úrskurðað gjaldþrota á árinu 2011. Stefnandi hefur starfað á Íslandi eftir slysið, en hefur dvalið með fjölskyldu sinni í […] í um það bil þrjá mánuði á ári að jafnaði. Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hefði nú ákveðið að setjast að hér á landi, sem ekki hafi verið ætlun hans á þeim tíma sem slysið varð. Hann búi nú í parhúsi í […] ásamt sex öðrum, og geri sér vonir um að eiginkona hans og […] yngri börn þeirra, […] ára, sem enn búa í […] og hafa aldrei komið til Íslands, flyttu hingað til lands. Engin gögn liggja fyrir sem staðreyna að þær væntingar stefnanda verði að veruleika.

Þær óvenjulegu aðstæður sem stefnandi vísar til í málinu valda því að síðustu mánuðina fyrir slysið var hann með hærri mánaðarlegar tekjur en hann mun að jafnaði áður hafa haft. Þessar óvenjulegu tekjur sem stefnandi aflaði á tímabilinu frá október 2007 til júlí 2008 verða, eins og á stendur, ekki taldar áreiðanlegur grundvöllur til að áætla framtíðartekjur hans, eins og stefnandi byggir kröfugerð sína aðallega á. Varakrafa stefnanda um útreikning bóta miðað við meðaltekjur verkamanna á Íslandi árið 2008 er ekki studd málsástæðum sem byggt verði á við úrlausn málsins, hún kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins og andmælti stefndi grundvelli hennar í málflutningi. 

Stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og voru bótagreiðslur við lokauppgjör í desember 2013 miðaðar við 2.852.500 króna árslaun. Sú fjárhæð er hærri en hæstu árlegar raunverulegar launatekjur stefnanda samkvæmt þeim skattframtölum sem hann hefur lagt fram í málinu um tekjur sínar, bæði fyrir og eftir slysið, á árunum 2007 til og með 2012.

Að öllu framangreindu virtu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það að það skilyrði sé fyrir hendi, til að beita reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins 23. júlí 2008, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans, en sá að miða við lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar. Óumdeilt er að stefndi hefur þegar staðið stefnanda skil á slíkum bótum og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

Með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, er ákveðin 650.000 krónur.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 650.000 krónur.