Hæstiréttur íslands
Mál nr. 188/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2012. |
|
Nr. 188/2012. |
Kaupþing banki hf. (Davíð B. Gíslason hdl.) gegn Gunnari
Birni Þórhallssyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Staðfest var
niðurstaða héraðsdóms um að fresta aðalmeðferð í máli G á hendur K hf., þar sem
krafist var viðurkenningar á kröfu sem lýst var við slit K hf., þar til fyrir
lægju niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun K hf., eða
eftir atvikum úrslit sakamáls, yrði það höfðað í kjölfarið.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var frestað þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun sóknaraðila, eða eftir atvikum úrlit sakamáls, verði það höfðað í kjölfarið. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að fresta aðalmeðferð málsins með áðurgreindum hætti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Kaupþing banki hf., greiði varnaraðila, Gunnari Birni Þórhallssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28.
febrúar 2012.
Mál þetta sem þingfest
var 29. júní 2011 var tekið til úrskurðar 6. febrúar 2012 um kröfu sóknaraðila
um að aðalmeðferð, sem fara átti fram þann dag, verði frestað þar til
niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun varnaraðila, eða
eftir atvikum úrslit sakamáls, verði það höfðað í kjölfarið, liggi fyrir.
Sóknaraðili er Gunnar
Björn Þórhallsson, Steinahlíð 7a, Akureyri.
Varnaraðili er Kaupþing
hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að
skaðabótakrafa hans að fjárhæð 6.953.950 krónur, nr. 20100106-1536 á kröfuskrá
varnaraðila, sem lýst var sem almennri kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr.
21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verði viðurkennd eins og henni var lýst
fyrir slitastjórn varnaraðila með kröfulýsingu 30. desember 2009. Þar af er
krafist greiðslu kostnaðar af kröfulýsingu, 336.935 króna, ásamt
virðisaukaskatti af kostnaði, 82.550 króna. Einnig er krafist greiðslu
dráttarvaxta af skaðabótakröfunni frá og með 2. nóvember 2009 til greiðsludags
og alls kostnaðar sem til fellur frá og með 2. nóvember 2009 til greiðsludags,
sem lýst var sem eftirstæðum kröfum, samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Til
vara krefst sóknaraðili þess að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 6.647.575
krónur, nr. 20100106-1536, á kröfuskrá varnaraðila verði viðurkennd sem almenn
krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þar af er krafist greiðslu kostnaðar
af kröfulýsingu, 336.935 króna, ásamt virðisaukaskatti af kostnaði, 82.550
króna. Einnig er krafist greiðslu dráttarvaxta af skaðabótakröfunni frá og með
23. apríl 2009 til greiðsludags og alls kostnaðar sem til fellur frá og með 23.
apríl 2009 til greiðsludags, sem lýst var sem eftirstæðum kröfum, samkvæmt 114.
gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum
sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að
viðbættum virðisaukaskatti.
I
Krafa sóknaraðila í
málinu er skaðabótakrafa. Sóknaraðili kveður kröfuna til komna vegna tjóns sem
starfsmenn varnaraðila hafi valdið honum. Hann hafi leitað til varnaraðila
haustið 2007 í því skyni að fjárfesta fyrir hluta af sparnaði sínum í
verðbréfum. Hann hafi lagt 1.527.000 krónur inn á peningamarkaðsreikning hjá
varnaraðila. Í samræmi við ráðgjöf starfsmanna varnaraðila hafi hann síðan
tekið lán hjá varnaraðila að fjárhæð 2.400.000 krónur í japönskum jenum.
Andvirði framangreindra fjármuna hafi síðan verið notað til að fjárfesta í
hlutabréfum í varnaraðila. Lántakan hafi þó einungis átt að vera byrjunin
samkvæmt upplýsingum starfsmanns varnaraðila því hann væri reiðubúinn að lána
allt að 7,5 milljónir króna út á þær rúmlega 1,5 milljónir króna sem lagðar
hafi verið inn í peningamarkaðssjóð.
Sóknaraðili kveðst hafa
treyst á sérfræðiþjónustu og ráðleggingar starfsmanna varnaraðila og því hafa
gengið að fjárfestingunni eins og hún hafi verið lögð upp, en henni hafi meðal
annars verið lýst sem „algjörri snilld“. Í dag sé staðan sú að hlutabréfin í
varnaraðila séu einskis virði og verðmæti peningamarkaðssjóðsins hafi skerst
verulega, en eftir sitji lán sem tekið hafi verið til að fjármagna
fjárfestinguna og hafi hækkað umtalsvert. Krafa sóknaraðila í málinu sé vegna
þessa láns.
Hinn 9. október 2008 tók
Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og vék stjórn hans í
heild sinni frá störfum og skipaði honum skilanefnd í samræmi við ákvæði 100.
gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.
Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var
skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002,
sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau
lög. Upphafsdagur slitameðferðar var 22. apríl 2009. Varnaraðili gaf út
innköllun til skuldheimtumanna sem birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30.
júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu
við slit varnaraðila 30. desember 2009 að fjárhæð 6.953.950 krónur, en til vara
6.647.575 krónur. Kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga
nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en kröfulýsingarkostnaði og
dráttarvöxtum frá og með 23. apríl 2009 sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr.
laganna. Með bréfi, dagsettu 19. ágúst 2010, hafnaði slitastjórn varnaraðila
kröfunni, meðal annars með vísan til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að um
bótaskylt atvik hafi verið að ræða. Þeirri afstöðu slitastjórnar var mótmælt af
hálfu sóknaraðila á kröfuhafafundi 21. september 2010. Haldinn var fundur vegna
ágreinings um kröfuna 20. apríl 2011 en ekki tókst að jafna ágreining aðila.
Með bréfi 10. maí 2011, mótteknu sama dag, var ágreiningi aðila vísað til
Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl.
II
Sóknaraðili
hefur farið þess á leit við dómara að aðalmeðferð málsins, sem fyrirhuguð var
6. febrúar sl., verði frestað þar til niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun
varnaraðila, eða eftir atvikum úrslit sakamáls, verði það höfðað í kjölfarið,
liggi fyrir.
Sóknaraðili bendir á að
meðal helstu málsástæðna sem hann byggi á sé að varnaraðili hafi stundað
markaðsmisnotkun sem leitt hafi til tjóns fyrir hann. Úrslit málsins muni að
verulegu leyti ráðast af því hvort markaðsmisnotkun teljist sönnuð.
Umfjöllun um ætlaða
markaðsmisnotkun varnaraðila sé að finna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Af dómaframkvæmd verði ráðið að tilvísanir til skýrslunnar einar og sér um
hegðun varnaraðila teljist ekki fullnægjandi. Sé í því sambandi vísað til dóma
Hæstaréttar í málunum nr. 561/2010 og 81/2011. Þá sé einnig bent á dóm
Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-382/2011 frá 4. janúar sl.
Skýrt hafi komið fram í
fréttaflutningi fjölmiðla undanfarið að sérstakur saksóknari hafi haft ætlaða
markaðsmisnotkun varnaraðila til rannsóknar frá árinu 2009. Ætla verði, miðað
við það sem fram hafi komið á þeim vettvangi að rökstuddur grunur sé um að
markaðsmisnotkun hafi átt sér stað. Sá grunur fái einnig stoð í framburði
stefnda fyrir dómi í máli nr. E-4902/2010 sem dómur hafi verið kveðinn upp í 2.
nóvember 2011 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndi, sem hafi verið forstöðumaður
markaðsviðskipta samstæðu varnaraðila, hafi þar fullyrt að markaðsmisnotkun
hafi átt sér stað af hálfu varnaraðila.
Telja verði að
niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara og eftir atvikum sakamáls sem höfðað
verði í kjölfar rannsóknarinnar kunni að skipta verulegu máli um úrslit
málsins. Sóknaraðili telji því rétt að málinu verði frestað þar til niðurstöður
rannsóknar sérstaks saksóknarar, eða eftir atvikum úrslit sakamáls, verði slíkt
mál höfðað í kjölfarið, liggi fyrir. Er í því sambandi vísað til 102. gr. laga
nr. 19/1991, einkum 3. mgr.
III
Varnaraðili bendir á að
það sé eðli mála í slitameðferð að þeim skuli flýta eins og hægt sé. Ríkar
ástæður þurfi að vera fyrir því að máli verði frestað ótiltekið. Varnaraðili
sjái ekki ástæðu til þess í þessu máli. Ekki verði séð að rannsókn á meintri markaðsmisnotkun
varnaraðila geti haft áhrif í málinu, enda sé ekki sýnt fram á að sóknaraðili
hafi yfirhöfuð átt hlutabréf í varnaraðila. Skorað hafi verið á sóknaraðila að
leggja fram gögn um verðbréfaeign sína, en af framlögðum skjölum verði ekki séð
að hann hafi átt hlutabréf í varnaraðila. Krefjist varnaraðili þess að beiðni
um frest verði hafnað.
IV
Í
þessum hluta málsins er til úrlausnar hvort aðalmeðferð málsins skuli frestað
þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun
varnaraðila, eða eftir atvikum úrslit sakamáls, verði það höfðað í kjölfarið.
Eins
og varnaraðili hefur bent á er það eðli mála sem þessa að þeim verði flýtt svo
sem kostur er, sbr. 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ef hins
vegar mál er þannig vaxið að eðli þess er ekki frábrugðið venjulegu einkamáli
gilda hliðstæð sjónarmið um málshraða og fresti og um væri að ræða mál sem
farið væri með samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr.
178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 679/2011. Er mál
það sem hér er til umfjöllunar þannig vaxið.
Krafa
sóknaraðila um að aðalmeðferð málsins verði frestað byggir á 102. gr. laga nr.
91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins getur
dómari orðið við ósk aðila um að fresta máli frekar ef hann
telur það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna sem
nægilegur frestur hefur ekki áður verið til, en báðum aðilum ber þá jöfnum
höndum að nota sama frest til gagnaöflunar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins getur
dómari frestað máli af sjálfsdáðum þar til séð er fyrir enda sakamáls eða
rannsóknar fái hann vitneskju um að sakamál hafi verið
höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja má að úrslit
þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins.
Krafa
sóknaraðila í málinu er skaðabótakrafa sem byggist á því að saknæm og ólögmæt
háttsemi hafi átt sér stað af hálfu varnaraðila. Sóknaraðili hefur lagt fram
kafla úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til stuðnings kröfum sínum.
Samkvæmt nýlegri dómaframkvæmd hefur ekki verið talið nægjanlegt að byggja á
þessari skýrslu einni saman til sönnunar á ólögmætri háttsemi. Fyrir liggur að
hjá embætti sérstaks saksóknara er til rannsóknar meint markaðsmisnotkun af
hálfu varnaraðila. Samkvæmt ummælum sem höfð eru eftir sérstökum saksóknara í
fjölmiðlum hefur rannsóknin staðið yfir allt frá árinu 2009 og hillir nú undir
lok hennar þótt óvíst sé hvenær vænta megi niðurstöðu.
Ekki
verður fallist á þau rök varnaraðila að ekki verði séð að rannsókn sérstaks
saksóknara geti haft áhrif í málinu þar sem ekki sé sýnt fram á að sóknaraðili
hafi átt hlutabréf í varnaraðila, en á greinargerð varnaraðila verður ekki séð
að dregið sé í efa að sóknaraðili hafi átt hlutabréf í varnaraðila, heldur
þvert á móti gengið út frá því að svo hafi verið.
Ljóst
er að úrslit máls þessa geta ráðist að verulegu leyti af því hvort
markaðsmisnotkun af hálfu varnaraðila teljist sönnuð. Telja verður að
niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara geti haft veruleg áhrif á málstað
sóknaraðila. Þá er hugsanlegt að fram komi ný gögn til stuðnings málsástæðum
aðila. Með vísan til alls framangreinds og 2. og 3. mgr. 102. gr. laga nr.
91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður því fallist á beiðni
sóknaraðila um frestun málsins þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar
sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun varnaraðila, eða eftir atvikum úrslit
sakamáls í kjölfar hennar.
Barbara
Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er
frestað þar til fyrir liggja niðurstöður rannsóknar sérstaks saksóknara á
markaðsmisnotkun varnaraðila, eða eftir atvikum úrslit sakamáls, verði það
höfðað í kjölfarið.