Hæstiréttur íslands
Mál nr. 642/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 2010. |
|
Nr. 642/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Fallist var á kröfu um gæsluvarðhald X á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2010 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. nóvember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi verði beitt en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. nóvember 2010 klukkan 16, en það er sama krafa og hann gerði í héraði. Þessi kröfugerð er sóknaraðila heimil samkvæmt 4. mgr. 199. gr., sbr. 4. mgr. 195. gr., laga nr. 88/2008.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Fram er kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett af Héraðsdómi Reykjavíkur með dómi 13. október 2009. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 veður krafa sóknaraðila því tekin til greina.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. nóvember 2010 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], óstaðsettum í hús, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. nóvember 2010, kl. 16.00.
Kærði krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu lögreglustjórans, en til vara að beitt verði vægari úrræðum og til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að Lögreglan á Suðurnesjum hafi til rannsóknar innbrot í þrjú hús í [...], að A þann 31. október sl., að C þann 1. nóvember sl. og að B þann 3. nóvember sl. Allmiklum verðmætum hafi verið stolið í þessum innbrotum: Ýmsum skartgripum, Sony upptökuvél, Sharp skjávarpa, armbandsúrum, Casio stafrænni myndavél, Sony MP3 spilara, vegabréfi, 1000 Evrum, 300 bandaríkjadölum, Nokia farsíma, United flatskjá, HP turntölvu og kuldagalla.
Hafi kærði verið handtekinn í [...] ásamt öðrum manni mánudaginn 8. nóvember sl. Hann hafi þá verið á gangi og hafi athygli lögreglu verið vakin á því að þeir hafi virst vera að kanna hvort fólk væri heima. Hafi kærði reynst vera með tvö sporjárn í vasa sínum. Húsleit hafi verið framkvæmd á dvalarstað kærða, að D, en þar hafi hann dvalið tímabundið á heimili foreldra Y, sem hafi verið með kærða þegar hann var handtekinn. Í herbergi sem kærði hafi búið í í húsinu hafi fundist munir sem reynst hafi vera meðal þýfis úr öllum ofangreindum innbrotum, þar á meðal skartgripir, úr og myndavél, sem meðal annars innihélt myndir af heimilisfólki í B og hafði verið stolið þaðan. Þá hafi kærði verið með úr á handlegg sínum af tegund Lotus, sem hafi verið stolið að B. Á vettvangi innbrota að B og C hafi fundist för eftir sporjárn sem samrýmist því að vera eftir sporjárn sömu stærðar og það sem kærði hafi borið á sér við handtöku. Þá hafi fundist á vettvangi allra þriggja innbrotanna skóför sem séu eftir nákvæmlega eins skó og kærði klæddist er hann var handtekinn. Fram hafi komið í skýrslu sem tekin hafi verið af Y, sem hafi verið handtekinn um leið og kærði, og sem kærði hafi búið hjá, að kærði X hafi sýnt honum muni, skartgripina, sem hafi verið meðal þýfis úr ofangreindum innbrotum og hafi boðið honum þá til kaups.
Lögreglu hafi ekki tekist að hafa upp á hinum stærri hlutum, sem hafi verið stolið í innbrotunum, flatskjá, tölvu og skjávarpa. Kærði hafi gefið fjarstæðukenndar skýringar á því hvernig ofangreint þýfi hafi komist í hans hendur. Hvað varði skóna sem hann hafi verið í hafi hann sagst hafa fundið þá tveimur dögum áður en hann hafi verið handtekinn sem þyki afskaplega ótrúverðugt.
Samkvæmt sakavottorði hafi kærði hlotið fimm mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. október 2009 fyrir þjófnaðarbrot og hafi fullnustu dómsins verið frestað skilorðsbundið í tvö ár. Verði kærði dæmdur fyrir þau brot sem hann er grunaður um nú er ljóst að um skilorðsrof væri að ræða. Kærða hafi nú verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að honum verði vísað úr landi og um endurkomubann vegna dómsins. Kærði sé samkvæmt upplýsingum lögreglu ekki í vinnu og eigi sér ekki fast heimili. Þá sé ekki vitað hvar hann muni dvelja gangi hann laus. Telji lögregla að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum, gangi hann laus og þá sé ljóst samkvæmt framangreindu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa í verulegum atriðum rofið skilyrði sem honum voru sett í skilorðsbundnum dómi frá 13. október 2009.
Rannsókn þessa máls sé nokkuð á veg komin. Haldið sé áfram rannsókn á því hvað hafi orðið um hluta þýfis úr framangreindum innbrotum og tengsl kærða við aðra í því sambandi. Kærði sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varði fangelsi allt að 6 árum. Krafan sé sett fram með vísan til a-liðar, b-liðar og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þyki nauðsynlegt með vísan til þess sem að framan sé rakið að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Telji lögregla brýna nauðsyn að kærða verði, með vísan til ofanritaðs, gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudags 30. nóvember 2010 kl. 16.00. Muni verða stefnt að því að ljúka rannsókn málsins innan þess tíma og taka málið til ákærumeðferðar.
Til rannsóknar eru ætluð brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess sem fram er komið, svo og gagna málsins, er fallist á það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála frá 9. nóvember sl. vegna rannsóknar málsins sem ekki er lokið. Fallist er á að kærði geti torveldað rannsóknina og skotið undan munum gangi hann laus. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á framkomna kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, en rétt þykir að gæsluvarðhaldi verði markaður tími sem greinir í úrskurðarorði. Þykir ekki fært, eins og á stendur, að beita vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærða, X, kt. [...], er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. nóvember 2010, kl. 16.00.