Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðslustöðvun
- Nauðasamningur
|
|
Föstudaginn 28. febrúar 2014. |
|
Nr. 60/2014.
|
A (Jón Egilsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (enginn) |
Kærumál. Greiðslustöðvun. Nauðasamningur.
Eftir ákvörðun umboðsmanns skuldara hlaut A samþykki til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samningar tókust ekki með A og lánardrottnum hennar og í kjölfar þess lýsti hún því yfir við umsjónarmann greiðsluaðlögunarinnar að hún vildi leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum X. kafla a. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Lánardrottnar gerðu enn athugasemdir við frumvarp til nauðasamnings og af þeim sökum beindi A kröfu til héraðsdóms um staðfestingu nauðasamnings síns. Vísað var til þess að samkvæmt 63. gr. b. laga nr. 21/1991 færi um meðferð kröfu um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 55. til 59. gr. sömu laga. Af því leiddi að hafna skyldi kröfu um staðfestingu nauðasamnings ef uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 57. gr. laganna, auk þess sem heimilt væri að gera slíkt hið sama að fullnægðum skilyrðum 58. gr. þeirra. Talið var að A hefði ekki uppfyllt skilyrði b. liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2010, sem svaraði til 38. gr. laga nr. 21/1991, er umsókn hennar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var samþykkt og því hefði borið að synja henni þeirrar heimildar í öndverðu. Af þeim sökum var hafnað kröfu A um staðfestingu nauðasamnings með skírskotun til 1. tölul. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2014 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um staðfestingu frumvarps hennar 14. október 2013 að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreind beiðni hennar verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómi að umboðsmaður skuldara hefði átt að synja beiðni um heimild sóknaraðila til greiðsluaðlögunar þar sem ljóst var að hún fór í bága við b. lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2014.
Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjaness 14. október 2013 krafðist sóknaraðili, A, kt. [...], [...],[...], þess að dómurinn staðfesti frumvarp hennar að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar dagsett sama dag.
I
Í greinargerð með frumvarpinu segir að með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. ágúst 2011 hafi umsókn sóknaraðila og eiginmanns hennar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga verið samþykkt. Skuldarar hafi nýtt sér heimild 3. mgr. 2. gr. laganna til að leita í sameiningu greiðsluaðlögunar. Jóhannes Árnason héraðsdómslögmaður hafi verið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni þann 1. september 2011. Þá segir í greinargerðinni að samningsumleitanir við lánardrottna hafi ekki borið árangur. Sóknaraðili hafi því lýst því yfir við umsjónarmann þann 11. október 2013 að hún vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar í samræmi við ákvæði X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við frumvarp skuldara. Umsjónarmaður hefur mælt með því að svo verði gert. Þá kemur fram í greinargerð umsjónarmanns að sóknaraðili hafi ásamt eiginmanni sínum fengið samþykkta skilmálabreytingu á húsnæðislánum sínum sem geri þeim kleift að halda fasteign sinni og standi hún því utan nauðasamningsumleitana.
Með kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar fylgdi frumvarp hennar til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, greinargerð skipaðs umsjónarmanns hennar og frekari fylgigögn. Í frumvarpi að nauðasamningi er heildarfjárhæð samningskrafna sögð nema 10.711.455 krónum. Samningskröfuhafar sóknaraðila eru þar tilgreindir BYR hf., Landsbankinn hf., Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Norðurorka ehf., Vodafone, Tal og Netvistun ehf. Samkvæmt frumvarpinu hafi sóknaraðili ekki greiðslugetu til að standa skil á áðurnefndum skuldbindingum sínum. Umsjónarmaður leggi því til 80% eftirgjöf á samningskröfum og greiðsluaðlögun í 24 mánuði. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samningskröfur á greiðsluaðlögunartímabili skuli aðeins bera þá vexti og eftir atvikum verðtryggingu sem þær hefðu borið í skilum án tillits til gjalddaga. Meðan á greiðsluaðlögunartímabili standi falli ekki vanskilagjöld, dráttarvextir eða innheimtukostnaður á samningskröfur. Samkvæmt frumvarpinu verða engar tryggingar lagðar fram og ekki sé gert ráð fyrir greiðslum í samningi þessum.
Auglýsing samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 21/1991 um þinghald til staðfestingar á nauðasamningi var birt í Lögbirtingablaði 25. nóvember 2013. Í samræmi við þá auglýsingu var krafa um staðfestingu nauðasamningsins tekin fyrir á dómþingi 6. desember 2013. Einn kröfuhafi sóknaraðila, Íslandsbanki hf., sótti þá þing og mótmælti staðfestingu nauðasamningsins með vísan til 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991 og var þá þingfest ágreiningsmál þetta. Var málinu frestað til 12. desember 2013 til framlagningar greinargerðar varnaraðila og frekari gagna af hálfu beggja málsaðila. Málið var svo tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 18. desember 2013.
Sóknaraðili krefst þess að staðfestur verði nauðasamningur hennar til greiðsluaðlögunar frá 14. október 2013. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um staðfestingu á nauðasamningi til greiðsluaðlögunar verði hafnað.
II
Í greinargerð umsjónarmanns sóknaraðila kemur fram að hún sé 32 ára gömul og búi ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum í eigin húsnæði að [...] í [...]. Sóknaraðili hafi starfað sem stuðningsfulltrúi hjá [...], í félagsmiðstöð á kvöldin og í heilsdagsskóla á daginn. Sú vinna hafi einungis verið yfir vetrartímann og hafi hún fengið í framhaldi vinnu hjá [...] sem flokkstjóri síðastliðið sumar. Þá kemur fram að sóknaraðili hafi lokið námi frá Iðnskólanum í Hafnarfirði vorið 2013. Sóknaraðili hafi stefnt að því að fara í áframhaldandi nám í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands en það hafi ekki gengið eftir. Sóknaraðili sé nú í atvinnuleit og hafi sótt um störf sem miðuð séu við menntun hennar. Hún hafi ekki sérmenntun og því megi búast við að þau störf sem henni bjóðist séu láglaunastörf. Líkt og staðan sé nú hafi sóknaraðili ekki áform um að fara í fullt háskólanám en gæti hugsað sér að fara í nám samhliða vinnu, þó ekki þannig að það hafi áhrif á vinnuframlag hennar.
Ástæða fjárhagserfiðleika sóknaraðila og eiginmanns hennar sé rakin til þess að á árinu 2002 hafi eiginmaður hennar veikst og þurft að láta af störfum í kjölfarið. Þá hafi sóknaraðili veikst á meðgöngu á sama tíma og hafi jafnframt þurft að hætta störfum. Þau hafi á þessum tíma stofnað til nokkurra skulda sem síðar voru sameinaðar í eitt lán. Á árinu 2005 hafi þau keypt sér íbúð og tekið til þess húsnæðis- og endurbótalán. Sóknaraðili hafi þá starfað sem dagmóðir en síðan skipt um starfsvettvang og starfað sjálfstætt við saumaskap til ársins 2009. Þá hafi hún þurft að hætta sökum samdráttar í þjóðfélaginu og orðið fyrir tekjulækkun vegna þess. Tekjur hjónanna hafa því verið lágar síðustu ár og af þeim sökum hafi yfirdráttarskuldir safnast upp.
Í greinargerð umsjónarmanns er jafnframt gerð grein fyrir fjárhag sóknaraðila en þar kemur fram að hún fái nú 100.000 krónur í atvinnuleysisbætur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður sóknaraðila eftirfarandi:
|
|
Gjöld |
|
Matur og hreinlætisvörur |
61.639 kr. |
|
Samgöngur |
30.501 kr. |
|
Fatakaup |
11.506 kr. |
|
Lækniskostnaður |
8.531 kr. |
|
Tómstundir |
19.742 kr. |
|
Samskiptakostnaður |
10.629 kr. |
|
Önnur þjónusta |
6.714 kr. |
|
Rafmagn, hiti og hússjóður |
7.500 kr. |
|
Fasteignagjöld |
5.000 kr. |
|
Tryggingar |
15.800 kr. |
|
Útvarpsgjald |
1.567 kr. |
|
Gjald í framkvæmdasjóð aldraða |
765 kr. |
|
Mánaðarlegt svigrúm |
5.000 kr. |
|
Samtals |
184.894 kr. |
Mánaðarlegur framfærslukostnaður þessi byggist annars vegar á neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara frá 1. september 2013 fyrir hjón/sambúðarfólk með tvö börn sem reka eina bifreið, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 101/2010, og hins vegar á gögnum frá sóknaraðila sjálfri. Hér sé einungis gert ráð fyrir helmingi af þessum útgjöldum en eiginmaður sóknaraðila, sem sæki samhliða um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, beri hinn helming framfærslunnar auk þess að greiða alla afborgun af fasteign þeirra í ljósi þess að sóknaraðili hafi neikvæða greiðslugetu.
Varðandi eignir sóknaraðila kemur fram að hún eigi 50% hlut í fasteigninni að [...] í [...], með fastanúmerið [...], á móti eiginmanni sínum. Verðmat eignarinnar sé 16.650.000 krónur og byggist á fasteignamati hennar samkvæmt fasteignaskrá Íslands fyrir árið 2013. Þau hafi jafnframt átt fasteignina að [...] í [...], með fastanúmerið [...]. Sú eign hafi verið metin á 250.000 krónur af fasteignasala 14. ágúst 2011. Hafi hún verið seld á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana í samráði við umsjónarmann og hafi kaupverðið verið 350.000 krónur. Við söluna hafi kaupandi greitt upp áhvílandi lögveð til [...] vegna vangreiddra fasteignagjalda, samtals að fjárhæð 140.280 krónur. Eftirstöðvar kaupverðs séu hluti af uppsöfnuðum sparnaði skuldara.
Þá sé eiginmaður sóknaraðila skráður umráðamaður bifreiðarinnar Landrover Freelander [...] sem metin sé á 300.000 krónur en Lýsing hf. sé skráður eigandi hennar samkvæmt bílasamningi.
Aðrar eignir séu ekki fyrir hendi og telji umsjónarmaður að ekki sé frekari þörf á sölu eigna.
Þá gerir umsjónarmaður grein fyrir því í greinargerð sinni að sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi náð að leggja fyrir 400.000 krónur á greiðsluaðlögunartímabilinu. Aðstæður þeirra hafi ekki leyft frekari uppsöfnun fjármuna. Skýringar á því megi rekja til atvinnuleysis á stórum hluta tímabilsins, meðal annars vegna veikinda eiginmanns sóknaraðila og ólánshæfs náms sóknaraðila. Þau hafi átt erfitt með að ná endum saman á tímabilinu og ýmis aðkallandi aukakostnaður hafi fallið til, til að mynda greiðslur æfingagjalda vegna barna þeirra, kostnaður við kaup á íþróttabúnaði fyrir börnin, viðgerðarkostnaður bifreiðar, skólagjöld og námsgögn sem og tannréttingakostnaður. Það hafi ekki verið fyrr en í lok árs 2012 sem sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi náð að leggja fyrir fjármuni.
Umsjónarmaður kveður mánaðarlega greiðslugetu sóknaraðila vera neikvæða um 84.894 krónur.
Í greinargerð umsjónarmanns er jafnframt gerð grein fyrir þeim kröfum sem lýst hafi verið á hendur sóknaraðila og eiginmanni hennar og séu þær eftirfarandi:
|
Kröfunúmer |
Kröfuhafi |
Tegund kröfu |
Fjárhæð kröfu |
|
1. |
BYR hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
1.323.364 kr. |
|
2. |
BYR hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
1.224.825 kr. |
|
3. |
Landspítalinn |
Samningskrafa/reikningur |
20.862 kr. |
|
4. |
Orkuveita Reykjavíkur |
Samningskrafa/reikningur |
11.326 kr. |
|
5. |
Fjallabyggð |
Lögveðskrafa/fasteignagjöld |
27.003 kr. |
|
6. |
Fjallabyggð |
Lögveðskrafa/fasteignagjöld |
91.623 kr. |
|
7. |
Lýsing hf. |
Samningskrafa/bílasamningur |
315.715 kr. |
|
8. |
Kreditkort hf. |
Samningskrafa/kreditkort |
202.888 kr. |
|
9. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
270.607 kr. |
|
10. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
1.218.000 kr. |
|
11. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
6.142.180 kr. |
|
12. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
400.000 kr. |
|
13. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
254.438 kr. |
|
14. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/VISA kort |
8.169 kr. |
|
15. |
Arion banki hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
66.504 kr. |
|
16. |
Frjálsi Fjárfestingarbankinn hf. |
Veðkrafa |
17.401.065 kr. |
|
17. |
Gildi lífeyrissjóður |
Skuldabréf með veði í fasteign þriðja aðila |
9.915.524 kr. |
|
18. |
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda |
Samningskrafa/iðgjöld |
156.165 kr. |
|
19. |
Norðurorka hf. |
Samningskrafa/reikningur |
98.352 kr. |
|
20. |
Landsbankinn hf. |
Eftirstæð krafa/kröfulýsing |
6.225 kr. |
|
Samtals |
|
|
39.154.835 kr. |
Í greinargerðinni er tiltekið að lögveðskröfur Fjallabyggðar hafi verið greiddar við sölu á fasteigninni að [...]. Þá kemur fram að umsjónarmaður hafi kallað eftir uppfærðri stöðu á kröfu Lýsingar hf. og þann 26. ágúst hafi hún staðið í 389.801 krónu. Að endingu kemur fram að nauðasamningur þessi nái ekki til veðkrafna Frjálsa fjárfestingarbankans hf. en sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi samið um afborganir af veðskuldum við kröfuhafa og munu greiða 85.000 kr. á mánuði.
Eftirfarandi kröfum hafi ekki verið lýst:
|
21. |
Vodafone |
2.803 kr. |
|
22. |
Tal |
13.947 kr. |
|
23. |
Netvistun ehf. |
26.466 kr. |
|
Samtals |
|
43.216 kr. |
Eftirfarandi kröfur sem falli brott við greiðsluaðlögun:
|
Kröfunúmer |
Kröfuhafi |
Fjárhæð |
|
1. |
BYR hf. |
8.534 kr. |
|
2. |
BYR hf. |
8.534 kr. |
|
4. |
Orkuveita Rvík. |
3.500 kr. |
|
5. |
Fjallabyggð |
7.530 kr. |
|
6. |
Fjallabyggð |
7.530 kr. |
|
16. |
Frjálsi fjárfestingabankinn |
7.000 kr. |
|
18. |
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda |
10.793 kr. |
|
20. |
Landsbankinn hf. |
6.225 kr. |
|
Samtals |
|
59.646 kr. |
Þá segir að kröfuhafar beri þann kostnað sem á þá falli vegna meðferðar umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar, sbr. 30. gr. laga nr. 101/2010. Sá hluti framangreindra krafna sem auðkenndur sé með kröfulýsingarkostnaði falli því brott. Engar kröfur séu sagðar standa utan greiðsluaðlögunar.
Eftirfarandi kröfur séu samningskröfur á hendur sóknaraðila sjálfri:
|
Kröfunúmer |
Kröfuhafi |
Tegund kröfu |
Fjárhæð |
|
1. |
BYR hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
1.314.830 kr. |
|
2. |
BYR hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
1.216.291 kr. |
|
9. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
270.607 kr. |
|
10. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/yfirdráttur |
1.218.000 kr. |
|
11. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
6.142.180 kr. |
|
13. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/skuldabréf |
254.438 kr. |
|
14. |
Landsbankinn hf. |
Samningskrafa/Visa Kort |
8.169 kr. |
|
18. |
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. |
Samningskrafa/iðgjöld |
145.372 kr. |
|
19. |
Norðurorka hf. |
Reikningur |
98.352 kr. |
|
21. |
Vodafone |
Reikningur |
2.803 kr. |
|
22. |
Tal |
Reikningur |
13.947 kr. |
|
23. |
Netvistun ehf. |
Reikningur |
26.466 kr. |
|
Samtals |
|
|
10.711.455 kr. |
Þá séu kröfur sem tryggðar séu með ábyrgð þriðja aðila eftirfarandi:
|
Kröfunúmer |
Kröfuhafi |
Gerð ábyrgðar og nafn ábyrgðarmanna |
Tegund kröfu |
Fjárhæð |
|
17. |
Gildi lífeyrissjóður |
C, kt. [...] og D, kt. [...] |
Veðskuldabréf tryggt í fasteign ábyrgðarmanna, [...], fastnr. [...] |
9.915.524 kr. |
|
9. |
Landsbankinn hf. |
E, kt. [...] |
Sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð allt að 1.500.000 kr. |
270.607 kr. |
|
10. |
Landsbankinn hf. |
E, kt. [...] |
Sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð allt að 225.000 kr. |
1.218.000 kr. |
|
11. |
Landsbankinn hf. |
E, kt. [...] |
Sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð allt að 4.095.000 kr. |
6.142.180 kr. |
Eftirgjöf samningskrafna gagnvart skuldara hafi ekki áhrif á veðkröfu Gildis lífeyrissjóðs sem tryggð sé með lánsveði. Gildi lífeyrissjóður skuldbindi sig til þess að ganga ekki að lánsveðinu á greiðsluaðlögunartímabilinu og muni innheimta gagnvart lánsveðseiganda að öðru leyti verða í samræmi við fyrirliggjandi verklagsreglur lífeyrissjóðsins. Þá nái eftirgjöf samningskrafna ekki til ábyrgðarmanna.
Engar kröfur séu óvirkar ábyrgðarkröfur á hendur sóknaraðila og engar þeirra umdeildar.
Umsjónarmaður leggur til að lengd greiðsluaðlögunartímabils, frá því að nauðasamningur taki gildi, sé 24 mánuðir. Þá segir að sóknaraðili sé nú atvinnulaus og á meðan svo sé, munu tekjur hennar ekki aukast. Vonandi komi sóknaraðili til með að fá vinnu á tímabilinu, en hún hafi lokið stúdentsprófi. Megi því gera ráð fyrir hóflegri tekjuhækkun hjá sóknaraðila miðað við að hún vinni láglaunastörf en í nauðasamningi sé gert ráð fyrir að hún hafi 100.000 krónur í mánaðartekjur. Því þyki hæfilegt að hafa tímabil greiðsluaðlögunar 24 mánuði á meðan sóknaraðili finni sér vinnu við hæfi. Eiginmaður sóknaraðila sé með fasta atvinnu en ekki megi gera ráð fyrir að tekjur hans aukist umfram það sem eðlilegt megi teljast. Sóknaraðili og eiginmaður hennar skuldi umtalsverðar fjárhæðir í samningskröfur eða yfir 20 milljónir króna. Þar af hvíli rúmar 10 milljónir á sóknaraðila. Sumar samningskröfur hvíli þó á báðum skuldurum. Ljóst þyki að staða sóknaraðila sé þröng, greiðslugeta hennar neikvæð og ekkert svigrúm sé til að greiða af samningskröfum. Það sé því tillaga umsjónarmanns að sóknaraðila verði veitt 80% eftirgjöf samningskrafna við lok samningstímabils.
Hvað ráðstöfun einstakra krafna varðar þá sé ekki gert ráð fyrir því að sóknaraðili greiði mánaðarlega af samningskröfum sínum á greiðsluaðlögunartímabilinu, enda sé greiðslugeta hennar neikvæð um 84.894 krónur. Sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi lagt fyrir 400.000 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og leggur umsjónarmaður til að sparnaðnum verði ráðstafað til að greiða upp bílasamning við Lýsingu hf. á fyrsta mánuði nauðasamningsins, kröfu að fjárhæð 389.801 króna. Skuldarar þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna fjölskyldu og atvinnu.
Framangreind niðurstaða umsjónarmanns sé byggð á því að skuldastaða sóknaraðila sé alvarleg og ekki sé raunhæft að hún lagist af sjálfu sér. Tekjumöguleikar sóknaraðila gefi ekki til kynna að breyting verði þar á þannig að hún muni ráða við afborganir af kröfum sínum. Þá hafi ekkert komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Sóknaraðili hafi uppfyllt þær skyldur sem á henni hvíldu samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010 og að hún hafi staðið heiðarlega að verki við umleitanir greiðsluaðlögunar. Það sé því mat umsjónarmanns að í ljósi fjárhags sóknaraðila og framtíðarhorfa sé ekki hægt að ná fram markmiðum greiðsluaðlögunar nema með 80% eftirgjöf af samningskröfum. Sú eftirgjöf sé ekki umfram það sem eðlilegt megi teljast og sé raunhæft að sóknaraðili geti staðið við skuldbindingar sínar komist nauðasamningur á. Hafi allir kröfuhafar sóknaraðila nema varnaraðili fallist á þá tillögu. Sóknaraðili og eiginmaður hennar geti staðið undir greiðslum af fasteign sinni og hafa náðst samningar við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. um afborganir af fasteignaveðkröfum. Þá kemur fram að í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 101/2010 segi að frumvarp umsjónarmanns skuli vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.
III
Við aðalmeðferð málsins kvaðst sóknaraðili byggja kröfu sína um að nauðasamningur hennar til greiðsluaðlögunar verði staðfestur á því að hagir hennar séu óbreyttir frá því að frumvarp til greiðsluaðlögunar var samþykkt af umsjónarmanni. Þá vísar sóknaraðili til þess að eiginmaður hennar, sem jafnframt sæki um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, þjáist af hrygggigt. Sá sjúkdómur sé þess eðlis að honum sé haldið niðri með lyfjagjöf en hann geti án lítils fyrirvara versnað til muna. Þrátt fyrir þetta vinni eiginmaður sóknaraðila fulla vinnu en hann sé jafnframt 75% öryrki.
Sóknaraðili mótmælir þeirri túlkun varnaraðila að hafa skuli lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga til hliðsjónar við mat á því hvort staðfesta eigi nauðasamning sóknaraðila. Slíkt eigi sér hvorki stoð í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. né öðrum lagaákvæðum. Því ber að fara eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 í þessu máli.
Sóknaraðili vísar til þess að mótmæli varnaraðila í þessu máli byggist fyrst og fremst á þeim mótmælum sem hann hafði uppi við greiðsluaðlögunarumleitanir hjá umsjónarmanni á grundvelli laga nr. 101/2010. Varnaraðili hafi með tölvupósti 7. júní 2013 mótmælt því að frumvarp til greiðsluaðlögunar kæmist á með vísan til þess að sparnaður sóknaraðila hafi ekki verið nægilegur sem og að sóknaraðili væri að skerða tekjumöguleika sína með áframhaldandi námi. Varnaraðili hafi talið eðlilegra að sóknaraðili myndi fresta námi sínu og færi út á vinnumarkaðinn uns endurskipulagningu fjárhags hennar væri lokið. Umsjónarmaður hafi reynt að jafna ágreining málsaðila og sent varnaraðila útskýringar sóknaraðila á fjárhæð sparnaðar. Varnaraðili hafi fallist á þær útskýringar með tölvupósti 22. júlí 2013 en hafi ekki verið reiðubúinn að fallast á 90% eftirgjöf samningskrafna líkt og umsjónarmaður hafi lagt til. Eftir frekari sáttaumleitanir með öðrum kröfuhöfum sóknaraðila hafi eftirgjöfin verið lækkuð í 80%. Umsjónarmanni hafi þótt fyrirséð að tekjur eiginmanns sóknaraðila myndu ekki aukast í framtíðinni en að tekjur sóknaraðila gætu aukist að einhverju leyti. Sóknaraðili væri þó ekki með háskólamenntun og því yrði að gera ráð fyrir hóflegri tekjuaukningu. Þá yrði að hafa í huga að óvissa væri um atvinnuþátttöku eiginmanns sóknaraðila í framtíðinni vegna sjúkdóms hans. Með hliðsjón af þessu taldi umsjónarmaður tillögu varnaraðila um 35% eftirgjöf samningskrafna í lok samningstíma óraunhæfa og fór fram á að varnaraðili samþykkti 80% niðurfellingu samningskrafna. Varnaraðili hafi hafnað þessari tillögu umsjónarmanns og talið að sóknaraðili ætti að geta greitt 65% samningskrafna sinna í lok samningstímans.
Sóknaraðili telur útilokað að hún geti greitt af 65% samningskrafna sinna, eftir að hafa jafnframt greitt af veðkröfum fasteignar sinnar, enda hafi hún og eiginmaður hennar ekki tekjur til þess samkvæmt því sem að framan greini. Sóknaraðili beri því við að hún sé í atvinnuleit og hafi verið það í nokkurn tíma án árangurs. Við mat á atvinnumöguleikum hennar verði að líta til þess að hún hafi ekki sérmenntun og því megi hún búast við því að fá láglaunastarf. Hún hafi ekki áform um að sækja fullt háskólanám eins og staðan sé í dag en gæti hugsað sér að fara í frekara nám samhliða vinnu. Ástæða þess að sóknaraðili hyggst sækja frekara nám sé fyrst og fremst sú að vera undir það búin að eiginmaður hennar fari af vinnumarkaði vegna framangreindra veikinda og að hún þurfi að vera meginfyrirvinna fjölskyldunnar. Með sérmenntun myndi hún líklega eiga meiri möguleika til hærri tekna en ella.
Sóknaraðili mótmælir þeirri málsástæðu varnaraðila að hún hafi tekjur af hundaræktun. Hundaræktun sé aðeins áhugamál hennar og að hún hafi ekki tekjur af henni. Þá ber varnaraðili því við að tekjur vegna ætlaðrar hundaræktunar hennar séu ekki færðar inn í skattframtöl hennar.
Loks vísar sóknaraðili til þess að eini ágreiningur málsaðila varði hlutfall eftirgjafar samningskrafna. Allir kröfuhafar nema varnaraðili hafi fallist á 80% eftirgjöf samningskrafna og að samningstímabilið yrði 24 mánuðir. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi hvorki rökstutt hvers vegna framangreind tillaga ætti ekki að vera samþykkt né fært rök fyrir því með hvaða hætti eftirgjöf sú sem krafist sé staðfestingar á sé meiri en sanngjarnt verði talið í ljósi efnahags sóknaraðila. Þá telji sóknaraðili að líta verði til þess að samningskröfur varnaraðila séu lítill hluti samningskrafna á hendur sóknaraðila.
IV
Varnaraðili kveðst byggja á því að við mat á því hvort staðfesta eigi nauðasamning til greiðsluaðlögunar skuli hafa til hliðsjónar ákvæði laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, enda gildi sambærileg sjónarmið við mat á því hvort eðlilegt sé að veita greiðsluaðlögun og staðfesta nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Eigi þetta sér enn fremur stoð í því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komi aðeins til greina fyrir þann sem hefur árangurslaust leitað eftir samningi á grundvelli fyrrgreindra laga, þó með þeirri undantekningu að gjaldþrotaskiptum megi ljúka með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sbr. 63 gr. c laga nr. 21/1991, auk þess sem umsjónarmanni beri að meta það hvort mælt sé með nauðasamningi með hliðsjón af reglum laga nr. 101/2010, einkum 12. gr. þeirra. Varnaraðili telji því viðhorf sitt eðlilegt og eiga sér stoð bæði í lögum nr. 101/2010 og nr. 21/1991
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010, einkum a-lið 1. mgr. þeirrar greinar, en þar sé kveðið á um að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar þann 5. júní 2013 hafi tekjur sóknaraðila og eiginmanns hennar verið samtals að fjárhæð 432.682 krónur, þar af hafi launatekjur sóknaraðila verið 40.000 krónur og barnalífeyrir eiginmanns hennar 40.000 krónur. Varnaraðili bendir á að í frumvarpi að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar þann 14. október 2013 hafi tekjur sóknaraðila hækkað úr fyrrgreindum 40.000 krónum í 100.000 krónur. Framfærsla þeirra í hinu fyrra frumvarpi hafi verið áætluð 362.891 króna miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara 1. maí 2013 sem og samkvæmt gögnum frá skuldurunum sjálfum. Samkvæmt því framvarpi hafi greiðslugeta þeirra verið að fjárhæð 69.591 króna. Greiðslugeta sóknaraðila og eiginmanns hennar sé samkvæmt núverandi frumvarpi til nauðasamnings 122.894 krónur, án þess að tekið sé tillit til greiðslu fasteignaveðkrafna. Ástæða þess að það sé ekki gert sé sú að sóknaraðili og eiginmaður hennar séu enn í greiðsluskjóli samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 og því sé þeim óheimilt að greiða af kröfum sínum og kröfuhöfum þeirra krafna sem skjólið taki til sé óheimilt að taka við slíkum greiðslum. Þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu sóknaraðila og eiginmanns hennar, og raunar hækkun greiðslugetu frá 5. júní 2013, hafi þau einungis bætt 100.000 krónum við sparnað sinn frá upphafi árs 2013 og þar af 30.000 krónum síðan frumvarp til greiðsluaðlögunar var lagt fram í júní síðastliðnum, sem sé töluvert minna en áætluð greiðslugeta fjölskyldunnar. Varnaraðili telji það rýra uppskeru á þeim tæplega þremur árum sem greiðsluskjól sóknaraðila hafi varað og þá í ljósi þess að frumvarp hafi verið í fullri vinnslu í upphafi árs 2013 og að gögn málsins beri með sér að sóknaraðili hafi verið með mun hærri tekjur á fyrri stigum greiðsluskjóls þegar hún hafi verið í vinnu. Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 101/2010 og með því rýrt fjárhagsstöðu sína af ásetningi eða gáleysi, sbr. 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa varnaraðila er jafnframt á því byggð að sú eftirgjöf sem sóknaraðila yrði veitt samkvæmt frumvarpi hans yrði mun meiri en sanngjarnt yrði talið í ljósi efnahags hennar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991. Við greiðsluaðlögunarumleitanir hjá umsjónarmanni hafi sú afstaða varnaraðila komið fram að eftirgjöf samningskrafna á hendur sóknaraðila væri of hátt ákveðin, bæði 80% og 90%. Þá vísar varnaraðili til þess að frumvarp að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar geri ráð fyrir að heildarfjárhæð samningskrafna sé 10.711.455 krónur. Af þeim samningskröfum séu fjórar kröfur sameiginlegar með eiginmanni sóknaraðila og fái sóknaraðili greiðslur sem nemi 384.072 krónum frá honum ef nauðasamningur hans verði staðfestur. Eftirstæðar kröfur í lok samningstíma yrðu þá 10.327.383 krónur en 20% af þeirri fjárhæð eru 2.065.477 krónur.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili sé atvinnulaus og njóti aðeins lágmarksatvinnuleysisbóta samkvæmt frumvarpi. Sé því eðli málsins samkvæmt greiðslugeta hennar neikvæð. Varnaraðili kveður að sé miðað við að sóknaraðili fái starf þar sem hún hafi a.m.k sambærilegar tekjur og hún hafi haft árið 2011, en það ár hafi hún verið í stöðugri vinnu, gætu meðaltekjur hennar verið á bilinu 259.884 krónur til 283.510 krónur. Munurinn á þessum fjárhæðum liggi í því hvort janúarmánuður það ár sé tekinn með í útreikning á meðaltekjum eða ekki en í þeim mánuði hafi sóknaraðili verið með mun lægri tekjur miðað við aðra mánuði ársins. Verði miðað við framfærslu samkvæmt frumvarpi til nauðasamnings og því að sóknaraðili greiði helming af fasteignakostnaði myndi greiðslugeta sóknaraðila vera á bilinu 32.490 krónur til 56.116 krónur. Þá byggir varnaraðili á því að endurfjármagni sóknaraðili eftirstæðar samningskröfur sínar ætti hún að geta greitt af óverðtryggðu láni til 5 ára, að fjárhæð 1.600.000 krónur, miðað við þá vexti sem í boði séu hjá helstu viðskiptabönkum í dag. Sú fjárhæð sé miðuð við lægri mörk ætlaðrar greiðslugetu hér að framan en af 2.800.000 krónum. Fjárhæð eftirstöðva gæti hækkað verulega ef lengt yrði í láninu eða í um 3.500.000 krónur ef lánið yrði til 7 ára og í 4.500.000 krónur ef það yrði til 10 ára miðað við efri mörk. Varnaraðili bendir einnig á að aðeins sé um nálgun að ræða þar sem óvissa ríki um framtíðartekjur sóknaraðila. Þá standi það sóknaraðila nær að bera hallann af þeirri óvissu en varnaraðila, sem á lögmætar kröfur á hendur henni og séu þær varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í 72. gr. hennar, sbr. lög nr. 33/1944.
Varnaraðili telji þó í öllu falli vera ljóst að sóknaraðili gæti greitt talsvert meira en nauðasamningsfrumvarpið geri ráð fyrir. Þá verði að líta til þess að þó að sóknaraðili sé nú atvinnulaus þá sé hún ung að árum og heilsuhraust auk þess sem ekki liggi fyrir nægilega glöggar upplýsingar um vænta þróun fjárhags hennar. Þá sé eiginmaður sóknaraðila, sem hafi framfærsluskyldur gagnvart henni, með ágætistekjur. Því sé ekki hægt að leggja mat á það með nokkurri vissu að sóknaraðili sé „ófær um fyrirsjáanlega framtíð“ að standa við skuldbindingar sínar, svo vísað sé til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010, sbr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna. Með þetta í huga vísi varnaraðili til þess að sóknaraðili virðist leggja stund á hundaræktun, án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir henni, tekjum af þeirri starfsemi á fyrri stigum málsins, hvorki við greiðsluaðlögunarumleitanir né í frumvarpi til nauðasamnings. Telji varnaraðili þetta hugsanlega vera brot á d-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, sbr. 1. tl. 57. gr. laga nr. 21/1991. sbr. 3. tl. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að hafna beri staðfestingu nauðasamnings með vísan til fyrrgreinds ákvæðis 57. gr. sem og 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök vísast til ákvæða laga nr. 21/1991, einkum 3. tl. 1. mgr. 38. gr., 1. tl. 1. mgr. 57. gr. og 1. og 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna. Til hliðsjónar vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 101/2010, einkum 1., 2., 6., 12. og 18. gr. laganna. Auk þessa sé byggt á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. laga nr. 33/1944 með síðari breytingum. Loks styður varnaraðili kröfu sína við meginreglur laga og eðli máls.
Forsendur og niðurstaða:
Leitað er staðfestingar nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010, sbr. lög nr. 21/1991.
Samkvæmt 63. gr. b laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 skal eftir því sem við getur átt, farið eftir ákvæðum 55. 59. gr. laganna við meðferð kröfu um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í 57. gr. laganna eru talin upp atriði í þremur töluliðum sem leiða eiga til þess að héraðsdómari hafni af sjálfsdáðum kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings. Í 58. gr. laganna eru atriði talin upp í sex töluliðum sem heimila dómara að hafna kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings eftir kröfu þess sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta og mótmælir kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamningsins.
Þegar krafist er staðfestingar nauðasamnings, þarf dómurinn meðal annars að meta hvort veita hefði átt heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991. Verður að jafna orðalaginu „heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu skv. 1. mgr. 38. gr.“ við það mat embættis umboðsmanns skuldara hvort samþykkja eigi umsókn skuldara um greiðsluaðlögun samkvæmt II. kafla laga nr. 101/2010. Með slíkri samþykkt er skuldurum gert kleift að leita samnings við lánardrottna sína, líkt og héraðsdómur hefði ellegar gert samkvæmt almennum nauðasamningum fyrir dómi með vísan til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991. Að þessu leyti eiga lög nr. 101/2010 við um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Samningskröfur sóknaraðila eru samtals 10.711.455 krónur. Að auki eru samningskröfur tryggðar með veði eða sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 17.546.311 krónur.
Sóknaraðili var með í árstekjur árið 2007, að frádregnum sköttum en viðbættum vaxta- og barnabótum, samtals 1.546.953 krónur eða á mánuði 128.913 krónur.
Samkvæmt skattframtölum sóknaraðila sem liggja frammi í málinu voru árstekjur hennar árið 2008 1.092.149 krónur eða 91.012 krónur á mánuði.
Árstekjur sóknaraðila árið 2009 voru 1.251.614 krónur eða 104.301 króna á mánuði og á árinu 2010 voru árstekjur sóknaraðila 1.880.739 eða 156.728 krónur á mánuði.
Þann 6. nóvember 2006, stofnaði sóknaraðili ásamt maka sínum til skuldar við Frjálsa fjárfestingarbankanum vegna kaupa á [...], að fjárhæð að nafnvirði 11.646.943 krónur, verðtryggt með mánaðarlegri afborgun um 55.000 krónur. Var því láni skilmálabreytt 3. nóvember 2009 og 30. desember 2010. Á sama tíma tók hann yfir lán hjá sama banka að nafnvirði 1.455.875, með mánaðarlegar afborganir um 10.000 krónur á mánuði. Var því láni skilmálabreytt 29. desember 2010. Hefur heildarafborgun verið í það minnsta 65.000 krónur á mánuði.
Sóknaraðili tók lán þann 25. september 2006 að fjárhæð 4.095.000 krónur til tíu ára hjá Landsbankanum hf., með fyrsta gjalddaga 1. janúar 2007. Var láni þessu skuldbreytt 13. október 2008 og 4. desember 2009. Ekki liggja fyrir upplýsingar um mánaðarlega afborganir af láni þessu en nettóafborgun, án vaxta og verðtryggingar, hefur verið mánaðarlega um 34.000 krónur.
Sóknaraðili tók lán hjá BYR-sparisjóði þann 18. mars 2008 að fjárhæð 900.000 krónur til fimm ára með afborgunum mánaðarlega og skyldi hver greiðsla vera að meðaltali tæplega 24.000 krónur. Skilmálabreytti sóknaraðili þessu láni fjórum sinnum eða 21. október 2008, 3. júní 2009, 15. desember 2009 og 10. júní 2010.
Sóknaraðili gekkst í ábyrgð fyrir láni hjá Landsbankanum þann 30. júní 2008 fyrir fjárhæð 600.000 krónur sem skyldi greiða á fjórum árum með 20,45% ársvöxtum og var fyrsti gjalddagi 1. júlí 2008. Var meðalgreiðsla á mánuði um 15.000 krónur.
Frá 5. janúar 2010 var sóknaraðili í vanskilum við Norðurorku hf. Þann 10. janúar 2009 var sóknaraðili í vanskilum við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að fjárhæð 149.959 auk vaxta og kostnaðar og frá 10. janúar 2010 að fjárhæð 84.000 auk vaxta og kostnaðar.
Ekki liggur fyrir frá hvaða tíma sóknaraðili var með yfirdráttarskuld á reikning 1101-26-60209 fyrir utan að þann 11. janúar 2010 var yfirdráttur orðinn 975.215 krónur og jókst upp frá því. Á sama tíma var sóknaraðili með yfirdráttarskuld hjá Landsbankanum hf., tæplega 1.500.000 krónur.
Í ágúst árið 2006 voru framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara 137.700 krónur fyrir hjón með tvö börn. Í ágúst 2007 voru framfærsluviðmið 143.900 krónur, í ágúst 2008 166.000 krónur og í ágúst 2009 183.400 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til reksturs einnar bifreiðar.
Að teknu tilliti til mánaðarlauna sóknaraðila, framfærslu hans og þeirra mánaðarlegu skuldbindinga sem hann var með á hverjum tíma hefur sóknaraðili ekki verið greiðslufær á hverjum tíma fyrir sig þegar hann stofnaði til fjárskuldbindinganna og hefur því greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.
Þegar af þessari ástæðu hefði átt að synja sóknaraðila um heimild til greiðsluaðlögunar í öndverðu, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010. Mótmæli varnaraðila lúta í fyrsta lagi að því að sóknaraðili hafi brotið skyldur sínar við greiðsluaðlögun samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 101/2010, en þar segir að á meðan skuldari leiti greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Við umleitanir greiðsluaðlögunar hjá umsjónarmanni gerði varnaraðili athugasemd við sparnað sóknaraðila á tímabili greiðsluskjóls. Í kjölfarið sendi sóknaraðili varnaraðila útskýringar á því hvers vegna uppsöfnun fjármuna var ekki meiri en raun bar vitni á tímabilinu. Af gögnum málsins má ráða að varnaraðili hafi ekki gert frekari athugasemdir við útskýringar sóknaraðila. Þá vísar varnaraðili til þess að samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar 5. júní 2013 hafi greiðslugeta sóknaraðila verið 69.591 króna á mánuði en sparnaður þeirra hafi verið töluvert minni. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi virt skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010 að vettugi og þannig rýrt fjárhagsstöðu sína af ásetningi eða gáleysi, sbr. 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Í málinu liggur fyrir að sóknaraðili og eiginmaður hennar lögðu 400.000 krónur fyrir á þeim tíma sem þau voru í greiðsluskjóli. Í greinargerð umsjónarmanns með frumvarpi til nauðasamnings kemur fram að aðstæður skuldara hafi ekki leyft meiri uppsöfnun fjármuna sem eigi sér eðlilegar skýringar. Þannig hafi skuldarar verið atvinnulausir á stórum hluta tímabilsins, sóknaraðili hafi sótt nám sem ekki var lánshæft, veikindi hafi hrjáð eiginmann sóknaraðila sem hafi orðið til þess að hann þurfti að sækja sjúkraþjálfun í kjölfarið og ýmis aðkallandi útgjöld vegna barna þeirra hafi komið til. Þá kemur fram í greinargerð umsjónarmanns að það sé mat hans að sóknaraðili hafi uppfyllt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010 og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir greiðsluaðlögunar. Hér ber að hafa í huga að samkvæmt 2. mgr. sama lagaákvæðis er það umsjónarmaður sem metur hvort skuldari hafi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. en ef svo er skal hann óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Með vísan til framangreinds er ekki fallist á það með varnaraðila að synja beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings hans á þessum grundvelli, enda hefur varnaraðili ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti að sóknaraðili hafi af ásetningi eða með gáleysi rýrt fjárhagsstöðu sína, sbr. 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Í öðru lagi lúta mótmæli varnaraðila að því að sú eftirgjöf sem sóknaraðili krefst þess að verði staðfest með nauðasamningi sé mun meiri en sanngjarnt geti talist í ljósi efnahags hennar, sbr. 1.tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Markmið greiðsluaðlögunar er að koma nýrri skipan á fjárhag skuldara með varanlegum hætti þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. áðurnefndra laga. Heldur varnaraðili því fram að ekki sé hægt að miða við það að sóknaraðili, sem sé ung að árum og heilsuhraust, muni vera á lágmarkslaunum það sem eftir er, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpi að nauðasamningi.
Ekkert er fram komið í málinu sem sýnir að sóknaraðili verði með skert aflahæfi í framtíðinni en tímabundið atvinnuleysi uppfyllir ekki skilyrði 2. gr. laga nr. 101/2010, þannig að skuldari sé og verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa við skuldbindingar sínar.
Sóknaraðili byggir einnig á því að hann geti ekki staðið við hærra endurgjald en 20% krafna sinna í framtíðinni og miðar þá við framtíðaratvinnuleysistekjur, 100.000 krónur á mánuði. Með vísan til þess að sóknaraðili byggir framtíðargreiðslugetu sína á atvinnuleysisbótum telur dómurinn að öllu ofansögðu virtu að ljóst sé að niðurfelling skulda eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé ósanngjörn, sbr. 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, sbr. 1. tl. 1. mgr. 57. gr. og 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991, ber að hafna kröfu sóknaraðila um að nauðasamningur hans til greiðsluaðlögunar verði staðfestur.
Að þessum málalokum virtum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð.
Hafnað er kröfur A um að frumvarp hennar um nauðasamning til greiðsluaðlögunar verði staðfest.
Málskostnaður fellur niður.