Hæstiréttur íslands

Mál nr. 583/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Miðvikudaginn 15

 

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006.

Nr. 583/2006.

C

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

A og

B

(Gizur Bergsteinsson hdl.)

 

Kærumál. Lögræði.

Úrskurður héraðsdóms um að svipta C sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2006, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að þóknun skipaðs talsmanns þeirra greiðist úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Gizurar Bergsteinssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur til hvors þeirra.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2006.

Með beiðni, dagsettri 20. október sl. hefur Gizur Bergsteinsson hdl. f.h. sóknaraðila A, [kt. og heimilsfang] og B, [kt. og heimilisfang], krafist þess, með vísan til 4. gr. lögræðislaga nr. 71,1997, að sonur þeirra, C, [kt. og heimilisfang], sem sætt hafi nauðungarvistun frá 29. september sl., verði sviptur lögræði í sex mánuði vegna geðveiki.  Mál þetta var þingfest 25. f.m. og tekið til úrskurðar í dag.  Um aðild vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Í vottorði Tómasar Zoëga yfirlæknis, frá 23. f.m. kemur fram að varnaraðili sé haldinn geðklofa af aðsóknargerð og hafi hann fyrst vistast á geðdeild vegna hans fyrir 10 árum og síðan hafi hann margsinnis komið á geðdeildir vegna þessa.  Hann hafi lagst bráðveikur inn á geðdeild 33c 27. september sl.  Hann skorti innsæi í sjúkdóm sinn og margreynt sé að hann fáist ekki til samvinnu um að taka geðlyf, sem honum hafi verið ávísað við sjúkdóminum, eða gangast undir aðra nauðsynlega meðferð vegna hans.  Hann hafi ekki þrifið sig eða íbúð sína og nærist hann á fábreyttu fæði og forðist samneyti við aðra.  Sé nú svo komið að nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði til þess að tryggja það að hann fái nauðsynleg lyf og að regla komist á líferni hans.  Læknirinn hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt.  Hann kveður ástand varnaraðila hafa skánað síðan hann var lagður inn á geðdeild en þó sé enn nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði.

Varnaraðili mótmælir kröfunni og kveður ekki vera forsendur til þess að svipta hann sjálfræði.  Hann segir félagslega stöðu sína ráða mestu um það hvernig komið sé fyrir honum, en hann sé atvinnulaus.  Geti það ekki réttlætt það að maður sé tekinn af heimili sínu og sviptur frelsi, eins og læknar og sóknaraðilar ætlist til.

Dómarinn lítur svo á að sannað sé í máli þessu með vætti Tómasar Zoëga geðlæknis, að varnaraðili sé vegna geðsjúkdóms ófær um að ráða persónulegum högum sínum.  Ber því með vísan til a- liðar 4. gr. lögræðislaga að svipta hann sjálfræði í sex mánuði.

Allan kostnað við mál þetta, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, Gizurar Bergsteinssonar hdl. og Kristjáns Stefánssonar hrl., 100.000 krónur til hvors um sig, að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiða úr ríkissjóði. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, C, [kt. og heimilisfang], er sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Allur kostnaður við mál þetta, þar með talin þóknun til talsmanna aðilanna, Gizurar Bergsteinssonar hdl. og Kristjáns Stefánssonar hrl., 100.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.