Hæstiréttur íslands

Mál nr. 555/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 9. desember 2010.

Nr. 555/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

Tomasz Burdzan

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

T var sakfelldur fyrir að hafa þvingað A til samræðis með því að beita hana ofbeldi. Var brot hans talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn málsins var meðal annars litið til þess að framburður T þótti ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins en hann neitaði meðal annars að hafa haft við A samræði umrætt kvöld. Samkvæmt lífsýni sem tekið var til greiningar úr leggöngum A stóðst þessi framburður T ekki. Þá þótti framburður hans ekki á einn veg um hvernig samskiptum hans og A lauk umrædda nótt. Framburður A þótti á hinn bóginn trúverðugur og á einn veg um þau atriði er skiptu máli fyrir niðurstöðu málsins. Við ákvörðun refsingar var vísað til 1., 2., og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og hún ákveðin fangelsi í 3 ár og sex mánuði. Þá var T gert að greiða A 1.200.000 krónur í bætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og hann sýknaður af kröfunni, en hún ella lækkuð.

Eins og rakið er í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 26. júní 2009 þvingað A til samræðis með því að beita hana ofbeldi. Samkvæmt gögnum málsins voru tekin lífssýni til greiningar af og úr líkama hennar á neyðarmóttöku sömu nótt, meðal annars úr leggöngum og leghálsi. Í sýninu af fyrrnefnda staðnum greindist sæði úr ákærða, en frekari rannsókn var ekki gerð á sýni úr leghálsi, þar sem sæði var að finna. Með þessari athugasemd verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Um refsingu hans verður gætt þeirra atriða, sem í héraðsdómi greinir, með tilliti til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og er hún þar hæfilega ákveðin. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Tomasz Burdzan, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 557.890 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. ágúst sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 29. júní 2010 á hendur Tomasz Burdzan, kennitala 120774-2129, [...], Reykjavík, fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt 26. júní 2009, á heimili ákærða í herbergi að [...], haft samræði við A með því að beita hana ofbeldi. Við atlögu ákærða hlaut A bólgu á enni og kinn vinstra megin.

Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júní 2009 til 10. desember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk kostnaðar vegna þóknunar við réttargæslu.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Mánudaginn 13. júlí 2009 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur óþekktum aðila fyrir kynferðisbrot, framið aðfaranótt 26. júní 2009. Í ítarlegri skýrslu sinni greindi hún m.a. frá því að maður af erlendu bergi brotinn hafi boðið henni heim til sín að [...] en hún hafi þurft að hringja. Í herbergi mannsins hafi hann hrint henni þannig að hún hafi fallið á skáp eða hillu. Hún hafi vankast og ekki vitað fyrr en hún hafi legið í rúmi mannsins. Hann hafi klætt hana úr buxum og nærbuxum og í framhaldinu, gegn vilja hennar, haft við hana samræði. Eftir að manninum hafi orðið sáðfall hafi henni tekist að komast á brott en vinir hennar hafi sótt hana á Ingólfstorg. Í framhaldi hafi hún farið á Neyðarmóttöku vegna nauðgana. 

Í rannsóknargögnum málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Fram kemur að A hafi komið til skoðunar föstudaginn 26. júní 2009 kl. 5.00. Í skýrslunni er rakin frásögn hennar af atvikum. Um ástand við skoðun kemur fram að A hafi greinilega verið í sjokki. Hafi henni verið heitt og kalt til skiptis. Hafi hún grátið og brosað. Að því er tilfinningalegt ástand varðar er tekið fram að hún hafi verið í losti, en frásögn hennar verið skýr. Um kreppuviðbrögð er tekið fram að hún hafi verið með skjálfta, hroll, svima og ógleði. Þá hafi hún verið með magaverk. Fram kemur að A hafi verið með áverka í andliti. Áverkarnir hafi annars vegar verið á enni og hins vegar á kinn. Komi þeir heim og saman við frásögn A um tvö högg í andlit. Sýni til DNA greiningar hafi verið tekin af kvið þar sem grunur hafi leikið á um sæðisbletti þar. Tekin hafi verið sýni úr nærbuxum og bol. Þá hafi verið tekin sýni úr kynfærum, en sýni hafi verið tekin úr leggöngum og frá leghálsi. Loks hafi verið tekið þvag- og blóðsýni til rannsóknar á áfengisinnihaldi.  

Sýni úr nærfatnaði og kynfærum var sent til Rettsmedisinsk Institutt í Noregi til rannsóknar. Samkvæmt niðurstöður stofnunarinnar var DNA snið sáðfrumuhluta sýnis úr leggöngum A eins og DNA snið ákærða. Sýni úr nærfatnaði leiddi í ljós blöndu DNA sniðs frá tveim aðilum. Eitt DNA snið var í meirihluta í sýninu og var það úr ákærða, en um var að ræða sæðissýni. Í skýrslu B sérfræðings í tæknideild lögreglu á skjali nr. IV/II kemur fram að ekki sé útilokað að sýnið innihaldi lítið eitt af DNA frá konu sem unnt sé að skýra með því að ekki hafi verið greint með fullnægjandi hætti milli sæðisfruma og þekjufruma. Áreiðanleiki rannsóknarinnar var 1:1000.000.000.

Fyrir liggja niðurstöður Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 7. ágúst 2009 um rannsókn á blóð-og þvagsýni er tekin voru úr A á Neyðarmóttöku. Samkvæmt niðurstöðum var alkóhól í blóði 0,98 o/oo og í þvagi 1,74 o/oo. Fram kemur að niðurstöður mælinga bendi til að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið fallandi þegar sýni var tekið og kunni því að vera umtalsverður tími frá því hlutaðeigandi hafi neytt áfengis síðast.

Ákærði var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 27. ágúst 2009. Greindi hann þannig frá atvikum málsins að umrætt sinn hafi hann hitt A við Kolaportið í Reykjavík, en ákærði hafi verið á reiðhjóli. Ákærði hafi safnað flöskum og dósum og því farið um miðbæinn síðla nætur. Hafi hún stöðvað ákærða og spurt hvort hann ætti handa henni sígarettu. Ákærði reykti ekki og hafi hún þá spurt hvort hann gæti útvegað sígarettur. Hafi ákærði sagt svo vera og í framhaldinu náð í sígarettur hjá kunningja sínum. Hafi hún innt ákærða eftir því hvort hann byggi langt frá og ákærði svarað því neitandi. Hafi ákærði ekki skilið mikið af því er stúlkan hafi sagt en honum hafi virst stúlkan eitthvað skilja pólsku. Hafi hún í framhaldinu komið heim til ákærða að [...]. Hafi hún viljað fá að reykja. Þá hafi hún viljað fá að drekka áfengi, en ákærði ekkert áfengi átt. Þessa nótt hafi ákærði ekki verið undir áhrifum áfengis, en A verið ölvuð. Atburðirnir hafi átt sér stað á milli kl. 4.00 og 6.00 um nóttina. A hafi þegið kaffi er ákærði hafi gefið henni. Síðar hafi hún farið á salernið. Eftir það hafi hún tekið mynd með farsíma sínum og fært símanúmer ákærða inn í síma sinn. Hafi hún beðið ákærða um að setjast í fangið á sér og kyssa sig. Þau hafi ,,knúsast“ hvort í öðru. Síðar hafi hún beðið ákærða um að hafa við sig mök. Þau hafi staðið upp og hlustað á tónlist. Hafi hún byrjað að lyfta peysu ákærða upp. Hafi hún klætt sig úr fötum og ákærði sig úr sínum fötum. Þau hafi kysst og ,,knúsast“. Síðan hafi þau farið í rúmið. Ákærði hafi ætlað að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar en fengið sáðlát áður en það hafi gerst. Sæðið hafi farið í lak rúmsins. Ekki kvaðst ákærði muna hvort eitthvað af sæðinu hafi hugsanlega farið á maga hennar. Hafi getnaðarlimur ákærða við þetta orðið linur. Ákærði hafi því ekki getað haft samfarir. A hafi orðið reið, sennilega þar sem ákærði hafi ekki getað fullnægt henni. Síðan hafi hún sagt að allt væri í lagi. Ákærði hafi ekki þvingað A til neinna athafna sem hafi verið gegn vilja hennar. Ákærði hafi spurt hvort ekki væri allt í lagi þar sem hann hafi ekki viljað að hún fengi samviskubit síðar og myndi kalla til lögreglu. Hún hafi síðan átt að koma í afmæli ákærða 12. júlí. Hún hafi klætt sig í flýti og yfirgefið húsnæðið. Ákærði hafi ekki náð að klæða sig. Hafi hurðin verið opin og A farið út. Eftir að A hafi yfirgefið íbúðina hafi ákærði haldið áfram að safna dósum í bænum og hann rekist aftur á stúlkuna við Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur. Ákærði hafi viljað láta hana hafa fjármuni fyrir leigubifreið en hún ekki þegið það. Aðspurður kvað ákærði A hafa ,,dregið“ ákærða í það kynlíf er þau hafi haft. Hafi hann ekki þvingað hana til athafnanna og ekki valdið henni neinu líkamstjóni. Umrædda nótt hafi tveir vinir ákærða verið á [...]. Þeir hafi sofið í öðru herbergi og ekki orðið varir við ferðir ákærða og A um nóttina.  

Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 10. nóvember 2009. Við það tilefni kvaðst hann vilja ítreka fyrri framburð sinn hjá lögreglu, sem væri réttur. Ákærði ítrekaði að hann hafi ekki haft samræði við A um nóttina. Þá kvaðst hann neita að hafa haft við hana munnmök. Hafi hann ekki sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar. Eitthvað af sæði frá ákærða hafi farið á maga A. Geti verið að eitthvað af því hafi lekið niður. Væri ekki útilokað að A hafi sett eitthvað af því á fingur sinn og sett inn í leggöngin. Ákærði kvað A ekki hafa verið með neina áverka í andliti er hún hafi yfirgefið íbúð ákærða. Þá hafi hún ekki verið grátandi eða í neinu sjokki. Ákærði staðfesti að hafa tekið mynd af A á síma sinn kl. 03.10 um nóttina. A hafi sennilega yfirgefið íbúðina um 20 mínútum síðar. Hafi ákærði farið með henni að útidyrahurð þar sem hann hafi þurft að opna fyrir henni hurðina. Hurðina hafi þurft að opna og læsa með lykli innanfrá. Hafi ástand hennar ekki verið í samræmi við það er fram kæmi á myndum er hún hafi tekið síðar um nóttina eða kl. um 4.26. Hafi A farið upp í svarta bifreið í miðbæ Reykjavíkur eftir að hún hafi yfirgefið íbúð ákærða.

Ákærði var í þriðja sinn yfirheyrður af lögreglu 3. júní 2010. Aðspurður kvaðst hann hafa verið dæmdur í Póllandi fyrir um 10 árum síðan. Hafi sakarefnið verið þjófnaður á tré úti í skógi. Ekki hafi hann verið dæmdur fyrir neitt annað. Ákærða voru kynntar niðurstöður úr réttarlæknisfræðilegri skoðun á sýnum sem send voru til DNA greiningar í Noregi. Niðurstöður leiddu í ljós að sæðisfrumur úr ákærða voru í leggöngum A. Er leitað var skýringa ákærða á því kvað hann mögulegt að sæðið úr ákærða hafi eitthvað færst til og farið inn í hana. Hafi sæðið getað lekið af maga hennar og niður í kynfærin. Þá vissi ákærði ekki hvað A gæti hafa gert eftir að hafa yfirgefið íbúð ákærða, en hún gæti hafa sett sæðið inn í sig.

Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði vilja vísa til lögregluskýrslna sinna varðandi atvik málsins. Væri framburður ákærða réttur þar. Aðspurður kvaðst hann hafa hitt A í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt 26. júní 2009. Hafi ákærði verið á reiðhjóli og hjólað fram hjá Kolaportinu en þar hafi hún setið. Hafi hún stöðvað för ákærða og beðið hann um sígarettur. Hafi hann engar verið með og farið til vinar síns og útvegað sígarettur. A hafi langað í drykk en ákærði sagt henni að hann ætti eingöngu kaffi. Í framhaldinu hafi þau gengið heim til ákærða. Ákærði hafi sjálfur ekkert áfengi drukkið um nóttina. A hafi hins vegar verið töluvert undir áhrifum áfengis. Heima hjá ákærða hafi þau rætt saman. Ákærði hafi talað pólsku og A eitthvað skilið hana. Hafi ákærði m.a. tekið myndir af henni og þeim saman. Myndirnar hafi ákærði tekið á sinn eigin síma. Í framhaldinu hafi þau átt kynferðisleg samskipti. Ekki myndi ákærði nákvæmlega í hverju þau hafi falist, en hann hafi gert grein fyrir þeim í skýrslutökum hjá lögreglu. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samfarir við A með því að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar. Ákærði hafi sennilega fengið sáðlát yfir maga hennar. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á því að DNA snið úr honum hafi fundist í sýni er tekið hafi verið úr leggöngum A. Ákærði kvaðst ekki getað áttað sig á því í hve langan tíma hin kynferðislegu samskipti hafi staðið. A hafi síðan yfirgefið íbúðina. Allt hafi verið eðlilegt. Ákærði hafi klætt sig og hjálpað A við að komast út um útidyr, sem hafi verið læstar innanfrá og lykil þurft til að opna. Ákærði og A hafi ekki farið úr öllum fötum í hinum kynferðislegu samskiptum. Ákærði myndi hins vegar ekki nákvæmlega hvernig því hafi verið háttað en hann hafi greint frá því hjá lögreglu. Ákærði hafi spurt A hvort lögreglu yrði nokkuð blandað í málið. Spyrði hann íslenskar konur alltaf að því. A hafi ekki verið með neina áverka er hún hafi yfirgefið íbúðina. Ákærði staðfesti að hafa verið dæmdur fyrir kynferðisbrot í Póllandi fyrir um 10 árum síðan. 

A kvaðst að kvöldi föstudagsins 25. júní 2009 hafa farið út að borða með frænkum sínum í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafi hún drukkið hálfa flösku af léttvíni. Í framhaldinu hafi þær farið á kaffihús þar sem hún hafi drukkið einn bjór. Á kaffihúsinu hafi hún m.a. hitt vinkonur sínar. Er staðnum hafi lokað hafi þær yfirgefið hann. Vinkonurnar hafi allar búið í miðbæ Reykjavíkur en A búið í [...]. Hafi hún ekki verið með nægjanlega fjármuni meðferðis til að taka leigubifreið heim. Hafi hún án árangurs reynt að semja við leigubifreiðastjóra um að aka sér heim. Að því loknu hafi hún farið á bak við Tollhúsið þar sem hún hafi fengið sér sæti um leið og hún hafi reynt að hringja í kærasta sinn. Á þessum tíma hafi hún séð til ferða ákærða á reiðhjóli en hann hafi verið að hjóla í kringum hana. Hafi hún spurt hann að því hvort hann ætti sígarettur. Hafi ákærði komið með þær í framhaldinu. Þau hafi ekki talað sama tungumál en samt getað haft einhver tjáskipti. Hafi hún bent honum á að sími hennar hafi ekki virkað. Hafi ákærði þá boðið henni að koma heim til sín og hringja þar. Það hafi hún þegið. Myndi hún eftir því að hafa gengið inn til ákærða og farið úr skóm við herbergi hans. Ákærði hafi tekið skóna upp og fært þá inn í herbergið. Hún hafi spurt hann hvort hann ætti áfengi en hann sagt að hann ætti einungis kaffi. Það hafi hún þegið. Hafi ákærði komið með kaffi og kex. Þau hafi reynt að ræða saman og m.a. ritað nöfn sín á blað. Þau hafi sennilega veitt hvoru öðru upplýsingar um símanúmer sín. Einnig hafi ákærði tekið myndir af A. Þá hafi hún sennilega verið búin að vera í um 15-20 mínútur í herberginu. Allt hafi gengið vel þar til A hafi viljað yfirgefa íbúðina, en það hafi hún ákveðið að gera þar sem áform hennar um að hringja þaðan hafi ekki gengið eftir. Hafi hún staðið upp og ætlað að taka skó sína. Ákærði hafi þá staðið upp og tekið fast utan um A eins og hann ætlaði að dansa við hana. A hafi ekki komist neitt. Ákærði hafi í framhaldinu hrint henni á nærliggjandi hillusamstæðu. Hafi hún dottið og um leið rekið ennið í samstæðuna. Hún hafi staðið á fætur, en greinilega vankast við höggið. Hafi hún ekki vitað fyrr en ákærði hafi verið búinn að koma henni í rúmið og taka hana úr buxum og nærbuxum. Því næst hafi hann klætt sig úr. Í framhaldinu hafi hann haft við hana samfarir. Hafi hún reynt að sporna við þeim og sagt nei við ákærða. Hafi hún gefið skýrt til kynna að samfarir væru gegn vilja hennar. Hafi hún reynt að streitast á móti. Hann hafi hins vegar tekið hendur hennar og sett þær fyrir ofan höfuð hennar. Samfarirnar hafi staðið í stuttan tíma og ákærði haft sáðlát sennilega yfir maga hennar. Hafi verið eins og hún hafi í þessu vaknað af sjokki. Hafi hún hugsað það eitt að hún yrði að komast frá honum. Hafi hún náð að komast úr rúminu og gripið föt sín. Hafi hún í snarhasti klætt sig í nærbuxur og buxur. Allt hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Hún hafi náð að komast út úr íbúðinni og út. Ákærði hafi ekki opnað fyrir henni neina hurð heldur hafi hún náð að komast út af eigin rammleik. Hafi hún orðið þess áskynja að ákærði hafi einnig farið út úr íbúðinni. Hún hafi verið hrædd og hlaupið í nærliggjandi húsasund. Hafi hún fundið að hún var talsvert vönkuð. Hún hafi tekið myndir af andliti sínu á farsíma sinn þar sem hún hafi merkt að hún var með áverka í andliti. Um leið hafi hún náð símasambandi við C, góðan vin kærasta síns. C og vinkona hans, D, hafi spurt A hvar hún væri og hún getað sagt þeim að hún væri nærri Ingólfstorgi. Hafi hún farið að Hlöllabátum og beðið eftir þeim þar. Hún hafi á sama tíma séð ákærða þar sem hann hafi hjólað um í nágrenninu. Hún hafi verið mjög hrædd. Eftir að hún hafi verið komin í bifreið C og D hafi hún tjáð þeim að henni hafi verið nauðgað fyrr um nóttina. Þau hafi viljað fara með hana á Neyðarmóttöku. A kvaðst hafa drukkið áfengi þessa nótt og verið drukkin. Þrátt fyrir það myndi hún atvik málsins. Kvaðst hún ekki hafa munað atvikin vel er hún hafi gefið skýrslu á Neyðarmóttökunni, en þá hafi hún verið í sjokki. Að því er varðar það sem eftir henni er haft á Neyðarmóttökunni um fleiri gerendur kvaðst hún muna eftir því að hafa heyrt í fleiri mönnum í húsinu er hún og ákærði hafi farið inn. Engir aðrir en ákærði hafi hins vegar tekið þátt í árásinni. A kvaðst hafa sótt tíma hjá sálfræðingi eftir atburðinn. Hafi hún farið í samtals 12 tíma. Viðtölin hafi hjálpað henni við að glíma við afleiðingar atburðarins. Eftir atburðinn hafi hún fundið fyrir mikilli hræðslu. Hafi henni liðið mjög illa og m.a. misst úr vinnu. Sambandi hennar við kærasta hafi lokið vegna þessa. Hún hafi fengið martraðir um nætur og sofið illa. Ekki hafi hún getað verið ein heima hjá sér í fyrstu. 

Fyrir dóminn komu E, C og D. E var kærasti A á þessum tíma, en C og D náði A símasambandi við um nóttina. Í framhaldinu náðu þau í hana á Ingólfstorg. E kvaðst hafa hitt A á Neyðarmóttökunni um nóttina. Hún hafi ekki greint honum frá því fyrr en næsta dag hvað í raun og veru hafi komið fyrir um nóttina. Hafi hún þá tjáð honum að henni hafi verið nauðgað. Ákærði kvaðst hafa sofið einn heima hjá sér um nóttina. Farsími hans hafi verið á gólfi í svefnherberginu og væri símasambandið þannig að ef síminn lægi á gólfinu á heimilinu næði hann ekki alltaf sambandi. Atvikið hafi haft áhrif á samband þeirra en þau hafi slitið því eftir þetta. Talsverðar breytingar hafi orðið á A við atburðinn. Erfitt hafi verið að ræða við hana og hún átt erfitt með svefn. Hún hafi verið mjög félagsfælin eftirá og ekki viljað fara í bæinn. Ekki hafi mátt skilja hana eina eftir heima fyrst á eftir. Hafi hún óttast að ákærði myndi koma inn á heimili hennar. C kvaðst hafa rætt við A í síma um nóttina. Hún hafi þá verið mjög hrædd og grátið í símann. C og D hafi náð í A við Hlöllabáta á Ingólfstorgi. Þá hafi hún bæði grátið og hlegið í senn. Hafi hún sagt að henni hafi verið nauðgað um nóttina af einum manni. Í fyrstu hafi hún viljað fara heim og í sturtu. Þau hafi hins vegar sagt henni að hún yrði að fara á Neyðarmóttökuna. A hafi sagt að sér liði mjög illa og að hún vissi ekki hvað hún ætti að gera. C kvaðst hafa séð lítilsháttar áverka í andliti A um nóttina. Hafi hún ekki nefnt sérstaklega ástæður áverkanna aðrar en að þeir tengdust nauðguninni. D lýsti A þannig að hún hafi verið grátandi er  hún hafi rætt við hana í síma. Eftir að A hafi verið komin í bíl D og C hafi hún lýst því að henni hafi verið nauðgað fyrr um nóttina. Þau hafi ekið henni á Neyðarmóttökuna.

F og G gerðu grein fyrir læsingu á útidyrahurð að [...] í Reykjavík. F kvaðst vera húsráðandi. Væri útidyrahurð þannig gerð að henni væri læst og aflæst með lykli innanfrá. Reglan væri sú að hurðin ætti að vera læst yfir nóttu og þegar enginn væri í húsinu. Annars væri hún opin. Til í dæminu væri að gleymst hafi að læsa hurðinni. Ekki vissi hann til þess að gleymst hafi að læsa hurðinni að nóttu til. G lýsti atvikum með sambærilegum hætti.

H læknir staðfesti skýrslu sína um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Gerði hún grein fyrir einstökum atriðum í skoðuninni. Áverkar í andliti A hafi verið sýnilegir, en þeir hafi verið á enni og á kinnbeini.  Greinilegt hafi verið að um nýja áverka var að ræða. Hafi verið eins og þeir hafi verið eftir tvö högg. Áverkarnir hafi verið dreifðir og ekki með skurði í eins og eftir brún á hillu eða öðru skörpu. B sérfræðingur gerði grein fyrir niðurstöðum úr DNA rannsókn sem Rettsmedisinsk Institutt gerði á sýnum sem tekin voru úr A á Neyðarmóttöku og borin voru saman við DNA sýni úr ákærða. Niðurstöður hafi leitt í ljós að sæði úr ákærða hafi fundist í sýni sem tekið hafi verið úr leghálsi A og í sýni úr nærbuxum hennar. Engar sáðfrumur hafi greinst í sýni sem tekið hafi verið af maga A um nóttina.

I geðlæknir staðfesti skýrslu sína um geðrannsókn á ákærða og gerði grein fyrir atriðum tengdum rannsókninni.

Niðurstaða:   

Ákærða er gefið að sök að hafa aðfaranótt föstudagsins 26. júní 2009, að [...] í Reykjavík, haft samræði við A með því að beita hana ofbeldi. Við atlöguna á A að hafa hlotið bólgu á enni og kinn vinstra megin. Eru brot ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að A hafi komið á heimili hans þessa nótt og að til kynferðislegra samskipta hafi komið á milli þeirra. Hann hefur hins vegar synjað fyrir að hafa beitt hana þvingunum eða að hafa haft samræði við A. Honum hafi orðið sáðfall áður en að því kom.

Framburður ákærða er ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins. Er þar fyrst og fremst til að telja synjun ákærða á að hafa haft samræði við A. Undir rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi var hann margspurður um það hvort hann hafi stungið getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Hefur hann ávallt synjað fyrir það. Fær þessi framburður ákærða ekki staðist í ljósi þess að DNA sýni með sniði ákærða fannst í sýni sem tekið var úr leghálsi A. Það staðfestir að ákærði hafði samræði við hana. Eru tilraunir hans til að skýra tilvist þessa sýnis fjarstæðukenndar að mati dómsins. Þá er framburður ákærða ekki á einn veg um hvernig samskiptum hans og A lauk þessa nótt. Í fyrstu yfirheyrslu greindi hann frá því að hann hafi verið fáklæddur í rúminu er hún hafi yfirgefið íbúðina. Í næstu yfirheyrslu bar hann að hann hafi verið klæddur og aðstoðað A við að komast út um útidyrahurðina. Þrátt fyrir að ákærði tali ekki íslensku og þurfi á aðstoð túlks að halda við yfirheyrslur fær sú staðreynd ekki skýrt það ósamræmi sem er í framburði ákærða að þessu leytinu til.

Framburður A er aftur á móti trúverðugur að mati dómsins. Þannig hefur framburðurinn verið á einn veg um þau aðalatriði málsins er máli skipta fyrir niðurstöðu þess. Hefur hún ávallt staðhæft að hún hafi fengið áverka í andliti af völdum ákærða. Hefur hún ekki getað fullyrt með hvaða hætti það nákvæmlega atvikaðist. Hann hafi því næst komið henni í rúmið og fært hana úr buxum og nærbuxum. Síðan hafi hann gegn vilja hennar haft við hana samræði. Vitni bera um að A hafi verið illa á sig komin síðar þessa nótt. Hafa þau lýst því þannig að hún hafi verið í sjokki og grátandi. Hún hafi strax skýrt frá því að henni hafi verið nauðgað. 

Ákærði tók myndir af sér og A þessa nótt um kl. 3.10. Bera þær ekki með sér að A hafi þá verið með áverka í andliti. Síðar um nóttina, eða um kl. 4.26, tók A sjálf myndir af sér, eftir að hún var komin út frá ákærða. Af þeim má sjá roða í andliti. C varð þess einnig áskynja að A var með áverka í andliti þegar hann sótti hana í miðbæinn. Samkvæmt réttarlæknisfræðilegri skýrslu í málinu var A með áverka í andliti við skoðun. Í þessu ljósi leggur dómurinn til grundvallar að A hafi fengið áverka þessa heima hjá ákærða.  

Þegar til ofangreindra atriða málsins er litið og hliðsjón höfð af ótrúverðugum framburði ákærða, er að mati dómsins sannað að ákærði hafi, gegn vilja A, haft samræði við hana og beitt við það líkamlegu ofbeldi. Einnig leggur dómurinn til grundvallar að hún hafi við atlöguna hlotið áverka samkvæmt ákæru. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.   

I geðlæknir hefur framkvæmt geðrannsókn á ákærða og er rannsóknin dagsett 14. júlí 2010. Er það álit geðlæknisins að ekki sjáist nein merki geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940, sem gert hafi ákærða ófæran um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem afbrotið eigi að hafa verið framið. Þá verði ekki séð að nein þau atriði séu til staðar samkvæmt 16. gr. laga nr. 19/1940 sem komið gæti í veg fyrir að refsing beri árangur.

Ákærði er fæddur í júlí 1974. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi hér á landi, svo kunnugt sé. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Póllandi var hann í mars 2000 sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar.  Ákærði hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir nauðgun. Lék hann konuna illa og olli henni líkamlegum áverkum. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 2., 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 ár og sex mánuði.

Réttargæslumaður hefur fh. A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að verknaðurinn hafi leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Hafi henni liðið hörmulega eftir atburðinn og þurft að leita sér hjálpar í viðtölum við sálfræðing. Þvingun til hvers kyns kynmaka sé gróft brot gegn persónu, friði og frelsi brotaþola. Afleiðingar verknaðarins muni hafa mikil áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu og þroska um ókomna framtíð. Sé því krafist bóta fyrir brot sem muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér um ókomna tíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Fyrir dóminum var leitt í ljós að A hefur sótt tíma hjá sálfræðingi vegna atviksins, en sálfræðingurinn átti ekki færi á því að koma fyrir dóminn sökum veikinda. Girðir það ekki fyrir að unnt sé að leggja mat á miska í málinu, en brotaþoli og vitni hafa lýst líðan hennar eftir atburðinn. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakar­kostnað, að viðbættum kostnaði við DNA-rannsókn og geðrannsókn, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.

Símon Sigvaldason, Ásmundur Helgason og Eggert Óskarsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Tomasz Burdzan, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði.

Ákærði greiði A, 1.200.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júní 2009 til 10. desember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.173.445 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 313.750 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdóms­lögmanns, 213.350 krónur.