Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2006. |
|
Nr. 246/2006. |
Árni Jón Gissurarson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Ólínu Kristínu Jónsdóttur (Lilja Jónasdóttir hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.
Ó slasaðist í umferðarslysi í janúar 2002 með þeim afleiðingum að hún hlaut 20% varanlega örorku. Aðila greindi á um hvort miða skyldi bætur fyrir varanlega örorku við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Tekið var fram að í nánar tilgreindum dómum Hæstaréttar hefði því verið slegið föstu að þegar tjónþoli er við nám þegar slys ber að höndum, en ekki kominn svo langt á veg að námslok séu fyrirsjáanleg, eigi regla 3. mgr. 7. gr. um lágmarkslaun við. Vísað var til þess að Ó hefði verið 26 ára á slysdegi og lokið 39 einingum af 120 í hjúkrunarfræði eða tæplega þriðjungi námsins. Þótt hún hefði á þessum tíma fengist við störf á þeim vettvangi, sem nám hennar stefndi að, voru aðstæður hennar taldar sambærilegar þeim sem fyrir hendi voru í framangreindum dómsmálum. Með hliðsjón af því var talið að við uppgjör á tjóni Ó skyldi fara eftir 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem Á og V höfðu þegar greitt Ó bætur samkvæmt því var krafa þeirra um sýknu tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. maí 2006 og krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Svo sem í héraðsdómi greinir er óumdeilt að áfrýjandinn Árni Jón Gissurarson beri skaðabótaábyrgð á tjóni, sem stefnda varð fyrir í umferðarslysi 27. janúar 2002, og að áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. sé greiðsluskyldur vegna tjónsins. Ágreiningur málsaðila stendur hins vegar um það hvort bætur fyrir varanlega örorku stefndu skuli miðaðar við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, eða hvort árslaun skuli metin sérstaklega þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Verði fallist á að síðastnefnt lagaákvæði eigi við deila aðilar um við hvaða laun skuli miða, meðallaun hjúkrunarfræðinga, sem stefnda krefst, eða byrjunarlaun þeirra, eins og varakrafa áfrýjenda er reist á.
Fyrra ágreiningsefnið, hvort miða beri við 2. mgr. eða 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þegar námsmenn eiga í hlut, hefur komið til kasta réttarins í allmörgum málum, eins og rakið er í dómum hans 13. febrúar 2003 í máli nr. 375/2002 og 4. nóvember 2004 í máli nr. 188/2004. Þar hefur verið slegið föstu að þegar tjónþoli er við nám þegar slys ber að höndum, en ekki kominn svo langt á veg að námslok séu fyrirsjáanleg, eigi regla 3. mgr. 7. gr. um lágmarkslaun við. Stefnda var 26 ára á slysdegi og hafði þá lokið 39 einingum af 120 í hjúkrunarfræði, eða tæplega þriðjungi námsins. Þótt hún hafi á þessum tíma fengist við störf á þeim vettvangi, sem nám hennar stefndi að, voru aðstæður hennar sambærilegar þeim, sem fyrir hendi voru í framangreindum dómsmálum. Með hliðsjón af þessu verður að fallast á með áfrýjendum að við uppgjör á tjóni stefndu skuli farið eftir núgildandi 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Áfrýjendur hafa greitt bætur samkvæmt því. Verður krafa þeirra um sýknu því tekin til greina.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Árni Jón Gissurarson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknir af kröfu stefndu, Ólínu Kristínar Jónsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 6. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólínu Kristínu Jónsdóttur, kt. 191275-4119, Furubyggð 30, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 21. júní 2005 á hendur Árna Jóni Gissurarsyni, kt. 160565-3819, Miðvangi 65, Hafnarfirði og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða henni kr. 6.950.402 með 4,5% vöxtum frá 27. apríl 2002 til 22. desember 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafizt, að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið mið af því, að stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattskyld.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmd að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins. Til vara krefjast stefndu þess, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.
II
Málavextir
Hinn 27. janúar 2002 var stefnandi farþegi í bifreið, þegar hjólbarði sprakk undir bílnum með þeim afleiðingum, að stefnandi, sem sat í aftursæti bifreiðarinnar, kastaðist út um þakglugga og hlaut af talsverða áverka. Samkvæmt matsgerð læknanna, Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, dags. 2. nóvember 2004, er varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 20% og varanlegur miski 15%.
Ágreiningslaust er, að stefndi, Árni Jón, beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli 88. - 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., sé greiðsluskylt vegna þess, sbr. 91. og 95. gr. sömu laga. Hins vegar er ágreiningur um tekjuviðmiðun örorkutjónsútreiknings og bótafjárhæð. Telur stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., að ákvarða beri bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli lágmarkstekjuviðmiðs, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á það getur stefnandi ekki fallizt og telur að beita eigi 2. mgr. 7. gr. laganna og leggja til grundvallar meðaltekjur hjúkrunarfræðinga, en hún var nemandi í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands, þegar hún lenti í slysinu og hafði þá stundað það nám frá því í september 1999. Um það leyti sem stefnandi lenti í slysinu vann hún 20% vinnu við umönnun á hjúkrunarheimili samhliða námi. Vorið 2004 útskrifaðist hún sem hjúkrunarfræðingur og hélt áfram að vinna á hjúkrunarheimili sem hjúkrunarfræðingur í 80% starfi. Kveðst hún ekki treysta sér til að vinna fulla vinnu vegna óþæginda, sem hún fái í bakið við þá áreynslu, sem fylgi hefðbundnum hjúkrunarstörfum.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi stefnanda tjónið miðað við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Kvittaði lögmaður stefnanda fyrir móttöku bótanna með fyrirvara um viðmiðunarlaunafjárhæð vegna varanlegrar örorku.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja mál sitt á því, að tjón hennar sé rakið til notkunar ökutækis stefnda, Árna Jóns, sem tryggt hafi verið ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands. Byggir stefnandi kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á 5. - 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og matsgerð læknanna, Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, dags. 2. nóvember 2004, sbr. dskj. nr. 17.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. l. nr. 37/1999, skuli, við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, miða við árslaun, sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag, er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma, er upphaf varanlegrar örorku miðist við. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segi síðan, að árslaun skuli þó metin sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi telji, að byggja eigi á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku vegna afleiðinga ofangreinds slyss. Aðstæður stefnanda séu að því leyti óvenjulegar, að síðustu árin fyrir slysið hafi hún verið í hjúkrunarfræðinámi, auk þess að vera tímabundið í störfum, sem tengzt hafi mjög námi hennar í hjúkrun.
Er stefnandi lenti í slysinu, hafi hún verið vel á veg komin með nám sitt í hjúkrunarfræði og hafi verið búin að stunda það af mikilli einurð undanfarin ár, auk þess sem hún hafi unnið samhliða námi við hjúkrunarstörf og sýnt þar með ætlun sína um framtíðarstarf í verki. Stefnandi hafi enn fremur starfað á sama hjúkrunarheimili, áður en hún hóf nám í hjúkrunarfræði. Með hliðsjón af þessu telji stefnandi rétt, að leggja til grundvallar ákvörðun um bætur fyrir varanlega örorku meðaltekjur hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu á árinu 2002 með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda verði að ætla, að sá mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda en sá, sem um ræði í 1., sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna.
Krafa stefnanda um bætur á grundvelli meðaltekna hjúkrunarfræðinga sé auk þess í samræmi við athugasemdir með 8. gr. skaðabótalaga. Í athugasemdum með 7. gr. laga nr. 37/1999, sem breytt hafi 8. gr. skaðábótalaga, komi fram, að við þær aðstæður, að námslok, tengd starfsferli eða starfsréttindum, megi teljast fyrirsjáanleg, verði að meta möguleika námsmannsins til að gegna því starfi, sem hann hafi stefnt að með menntun sinni. Eigi þetta við, hvort heldur sem slys valdi því, að hann verði að hætta námi eða það dragi úr starfsgetu í fyrirhuguðu starfi.
Af þessu megi ráða, að bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku skuli meta sérstaklega. Með hliðsjón af því, að stefnandi hafi þá þegar lokið við 39 einingar í hjúkrunarfræðinámi, sbr. dskj. nr. 21, og hafi verið búin að starfa við fag sitt samhliða námi, megi telja, að starfsferill hennar sem hjúkrunarfræðings hafi verið fyrirsjáanlegur í skilningi ákvæðisins. Stefnandi hafi nú lokið námi sínu að fullu, eins og fyrr segi. Jafnframt sé til þess að líta, að meðaltekjur hjúkrunarfræðinga séu ekki langt frá almennum meðaltekjum hér á landi og því eðlilegt og sanngjarnt að leggja þær til grundvallar fremur en lágmarkstekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.
Meðalárslaun hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu á árinu 2002 hafi verið kr. 3.783.319, sbr. dskj. nr. 22, sem hafi að geyma niðurstöðu Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna um það efni. Við þá tölu bætist 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga á stöðugleikapunkti hafi verið 14,424.
Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku sundurliðist því svo: 3.783.319 x 1,06 x 14,424 x 20% = kr. 11.568.966.
Hið stefnda tryggingafélag hafi greitt stefnanda kr. 4.618.564 í bætur vegna varanlegrar örorku hinn 11. janúar 2005. Höfuðstóll stefnufjárhæðar sé því:
11.568.966 - 4.618.564 = kr. 6.950.402.
Að auki krefjist stefnandi 4,5% vaxta af ofangreindri fjárhæð frá stöðugleikapunkti til upphafsdags dráttarvaxta, sbr. 16. gr. skaðabótalaga.
Þá krefjist stefnandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fjárhæðinni frá 22. desember 2004, en þá hafi verið liðinn mánuður frá þeim degi, er stefnandi sannanlega hafi lagt fram þær upplýsingar, sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. sömu laga, en það hafi stefnandi gert í síðasta lagi með tölvupósti, dags. 22. nóvember 2004, sbr. dskj. nr. 18.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við 88. - 90., 91. og 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 5.-8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um aðild vísist til 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Kröfur um vexti og dráttarvexti styðji stefnandi við III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 16. gr. skaðabótalaga. Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt á málskostnaðarkröfu vísist til laga nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda
Sýknukrafa stefndu sé byggð á því, að með þegar uppgerðum bótum sé stefnandi búin að fá tjón sitt af völdum slyssins að fullu bætt samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 og eigi hún ekki rétt til frekari bóta úr hendi stefndu.
Í 5. gr. skaðabótalaga sé fjallað um, hvernig mat á varanlegri örorku fari fram. Það sé svo 6. gr. sömu laga, sem kveði á um að meta skuli varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónaþola samkvæmt 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og töflu, sem sé hluti af ákvæðinu. Þannig séu margfölduð saman örorkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma, sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna sé meginreglan varðandi árslaunaviðmiðið. Í ákvæðinu segi, að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. skuli teljast vera meðaltekjur tjónaþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma, sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Undantekningin frá þessari reglu í 1. mgr. 7. gr., sem skýra beri þröngt, birtist í 2. mgr., en þar segi, að árslaun skuli þó metin sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í 3. mgr. 7. gr. laganna sé sett fram regla um lágmarkslaun, sem miða skuli við.
Tekjusaga stefnanda fyrir slys sé stutt og því ekki unnt að miða við meðalatvinnutekjur hennar síðustu þrjú almanaksárin fyrir tjónsdag, eins og 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna geri ráð fyrir. Tekjur stefnanda árið 1999 séu samkvæmt skattframtali kr. 269.562. Tekjur ársins 2000 samkvæmt skattframtali séu kr. 1.313.375, og loks séu tekjur fyrir árið 2001 kr. 1.379.092. Það sé því eðlilegt að styðjast við tekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skbl.
Stefndu hafni því, að sérregla 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við í máli þessu, enda hafi aðstæður stefnanda á slysdegi ekki verið óvenjulegar í skilningi ákvæðisins. Þegar slysið verði þann 27. janúar 2002, hafi stefnandi lokið 39 einingum af 160 eininga námi. Það sé ekki óvenjulegt, að námsfólk vinni hlutastarf með námi sínu og hafi stefnandi m.a. starfað við aðhlynningu á hjúkrunarheimilinu Eir samhliða náminu.
Í athugasemdum við frumvarp til skaðabótalaga nr. 50/1993 segi í umfjöllun um ákvæði 7. gr., að stundi tjónþoli nám, þegar líkamstjón beri að höndum og þiggi laun í tengslum við námið, t.d. iðnnám, verði venjulega að miða árslaun við tekjur, sem tjónþoli myndi hafa haft, ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi. Stefnandi hafi sinnt almennum aðhlynningarstörfum á hjúkrunarheimili og ekki liggi fyrir í málinu, að starfið hafi verið í beinum tengslum við nám stefnanda. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps nr. 37/1997, sem breytt hafi 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, segi, að m.a. sé eðlilegt að ákveða viðmiðunarlaun við nýjar aðstæður, t.d. þegar um sé að ræða námsmann, sem væri að ljúka starfsréttindanámi. Í slíkum tilfellum væri eðlilegast, að tekjuviðmiðun námsmannsins miðaðist við það starf, sem hann sé að öðlast réttindi til að starfa við.
Stefnandi hafi einungis verið búin að ljúka ¼ af námi sínu, þegar slysið varð, og hafi hún því verið langt frá því að ljúka námi sínu og því eðlilegt að miða tekjuviðmiðið við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Á þeim tímapunkti, þegar slysið varð, hafi ekki verið fyrirsjáanlegt, að stefnandi myndi ljúka námi sínu, enda ekki langt á veg komin í því. Í þó nokkrum dómum Hæstaréttar hafi reynt á beitingu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þar sem um námsmenn hafi verið að ræða, sem hefðu lokið innan við helming af námi á háskólastigi. Í þeim málum hafi niðurstaðan verið sú, að ekki bæri að beita sérreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna varðandi tekjuviðmið, heldur miða við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. laganna.
Það sé meginregla skaðabótalaga, sem dómstólar hafi staðfest, að bótauppgjör beri að miða við aðstæður tjónþola á slysdegi, en ekki ímyndaðar aðstæður hans í óvitaðri framtíð. Þegar þetta sé haft í huga, sé slík óvissa tengd þeim þáttum, sem geti verið hinu sérstaka mati 2. mgr. 7. gr. skbl. til grundvallar, að á þeim verði ekki byggt, þegar metin séu árslaun til grundvallar fjárhagslegri örorku stefnanda. Það sé því ekki unnt að líta svo á, að sýnt hafi verið fram á, að annar mælikvarði, en sá sem stuðzt hafi verið við í bótauppgjöri, sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Málskostnaðarkrafa stefndu sé byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varakröfu sína um lækkun dómkrafna byggi stefndu á því að miða beri við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga, en ekki meðallaun hjúkrunarfræðinga, þegar varanleg örorka stefnanda sé reiknuð út.
Verði ekki fallizt á aðalkröfu stefndu, hefði verið eðlilegra, í ljósi þess, hversu stutt á veg stefnandi hafi verið kominn í námi sínu á tjónsdegi, að miða við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga í stað meðallauna, því stefnandi hafi eingöngu verið búin að ljúka ¼ af námi sínu, þegar slysið átti sér stað.
Sé miðað við stofnanasamning milli Landspítala háskólasjúkrahúss og starfsmanna spítalans, sem starfi samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 2002, raðist nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar í svokallaða B1-B2 launaramma (dskj. 26). Samkvæmt launatöflu sjáist, að nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, yngri en 30 ára, fái kr. 178.052, ef raðist í launaramma B1 og kr. 183.434, ef raðist í B2. Sé tekið meðaltal þessara tveggja talna sé útkoman kr. 180.743 í mánaðarlaun, sem geri kr. 2.168.916 í árslaun, að teknu tilliti til leiðréttingar samkvæmt launavísitölu, til þess dags, sem upphaf varanlegrar örorku miðist. Við þá tölu bætist 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga á stöðugleikapunkti hafi verið 14,424.
Bótafjárhæðin vegna bóta fyrir varanlega örorku sundurliðist því svo:
2.656.512 x 1,06 x 14.424 x 20% = kr. 7.663.505.
Við uppgjör bóta hinn 11. janúar 2005 hafi stefnanda verið greiddar kr. 4.618.564 í bætur vegna varanlegrar örorku, dskj. nr. 25.
Höfuðstóll kröfunnar ætti því að vera:
7.663.505 - 4.618.564 = kr. 3.044.941.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi skv. 3. mgr. 5. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa byggist á 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur aðila snýst um það, hvort beita skuli 2. eða 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning bótafjárhæðar.
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar er sú viðmiðun höfð að leiðarljósi, þegar námsmönnum eru ákvarðaðar bætur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, að námsframvinda tjónþola sé slík, að telja megi ljóst, að hann hafi markað sér framtíðarstarf með náminu. Hefur þá einkum verið litið til þess, hversu langt viðkomandi er kominn í náminu.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði svo frá m.a., að hún hefði unnið á sumrin árum saman fyrir slysið við umönnunarstörf, einkum á hjúkrunarheimilinu Eir, en einnig með námi. Þá hefur hún lagt fram í málinu yfirlýsingu frá hjúkrunarheimilinu Eir, þess efnis, að frá 1. febrúar 2001 til 19. júní 2004 hefði hún verið hjúkrunarnemi á Eir. Hefði hún á þessum tíma starfað sem staðgengill hjúkrunarfræðings og tekið laun samkvæmt því. Þá bar stefnandi, að hún hefði hafið nám í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands haustið 1999, en ekki náð tilskildum einkunnum á jólaprófum vegna reglna um fjöldatakmarkanir í deildinni. Hefði hún því unnið við umönnunarstörf fram á næsta haust, þegar hún hóf námið á ný. Hafði hún lokið 39 einingum af 120, þegar slysið varð. Enda þótt stefnandi hefði ekki lokið nema um þriðjungi námsins á þessum tíma, verður að telja ljóst, með hliðsjón af aldri stefnanda, starfs- og námsferli, að hún hafi þá þegar, er slysið varð, sýnt einbeittan vilja til að ljúka því námi, sem hún hafði hafið og verið búin að marka sér starfsvettvang til framtíðar.
Þar sem tilgangur skaðabótalaganna er sá, að tjónþolum verði ákvarðaðar sanngjarnar bætur, er ekki fallizt á, með vísan til framanritaðs, að þeim tilgangi verði náð í tilviki stefnanda, verði henni ákvarðaðar bætur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna, heldur ber að ákvarða bæturnar samkvæmt 2. mgr. 7. gr., svo sem stefnandi krefst, en með vísan til framangreinds er fallizt á, að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar í skilningi lagaákvæðisins. Þá þykja stefndu ekki hafa fært að því haldbær rök, að bætur verði miðaðar við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga, svo sem varakrafa þeirra lýtur að. Dráttarvextir dæmast eins og krafizt er.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu in solidum til að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 600.000, og rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 600.000 og greiðist úr ríkissjóði.
Við ákvörðun málskostnaðar og gjafsóknarkostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Árni Jón Gissurarson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefnanda, Ólínu Kristínu Jónsdóttur, kr. 6.950.402 með 4,5% vöxtum frá 27. apríl 2002 til 22. desember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði stefndu in solidum kr. 600.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, kr. 600.000, greiðist úr ríkissjóði.