Hæstiréttur íslands
Mál nr. 287/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Réttargæslumaður
|
|
Þriðjudaginn 5. júlí 2005. |
|
Nr. 287/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn Y (Sif Konráðsdóttir hrl.) |
Kærumál. Réttargæslumaður.
Talið var að skilyrði 2. mgr. 44. gr. b. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væru uppfyllt til að skipunar réttargæslumanns við rannsókn opinbers máls, sbr. 2. mgr. 44. gr. c. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005, þar sem synjað var kröfu varnaraðila um að dómari skipaði henni réttargæslumann við rannsókn opinbers máls á grundvelli 2. mgr. 44. gr. c. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. 44. gr. b. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.
Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa Sif Konráðsdóttur hæstaréttarlögmann réttargæslumann hennar við rannsókn lögreglu á ætluðu „heimilisofbeldi“ gagnvart henni.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krefst staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Í máli þessu hefur varnaraðili kært fyrrum sambúðarmann sinn fyrir líkamsárás 25. febrúar 2005 á þáverandi heimili þeirra. Heldur hún því fram að hún hafi mátt sæta ofbeldi af hans hálfu mestan sambúðartíma þeirra. Auk framangreinds atviks hafi hún tvisvar séð ástæðu til að kalla lögreglu á vettvang vegna ofbeldis sambúðarmannsins. Hann hefur við skýrslugjöf neitað sök. Lagt hefur verið fram vottorð slysa- og bráðadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss vegna áverkanna 25. febrúar 2005 og jafnframt skýrslur Miðstöðvar um áfallahjálp, sem rekin er innan þess sviðs sjúkrahússins, um viðtöl við varnaraðila varðandi ætlað ofbeldi þann dag og fjórum sinnum áður.
Skilyrði þess að fá sér tilnefndan réttargæslumann við lögreglurannsókn samkvæmt 44. gr. b. laga nr. 19/1991 er að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brots og hann hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna. Á þessu stigi málsins verður ekkert fullyrt um til hverrar niðurstöðu rannsókn lögreglu leiðir og hvort hún muni beinast eingöngu að líkamsárás 25. febrúar 2005. Ljóst er hins vegar að sí endurtekið ofbeldi innan heimilis er til þess fallið að valda þeim sem fyrir því verður verulegu tjóni á andlegu heilbrigði sínu. Samkvæmt skýrslum heilbrigðisstarfsfólks hefur verið kvartað undan fleiri árásum. Af framangreindu leiðir að telja verður að skilyrði ákvæðis 44. gr. b. laga nr. 19/1991 til skipunar réttargæslumanns séu uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og krafa varnaraðila tekin til greina.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að skipa Sif Konráðsdóttur hæstaréttarlögmann réttargæslumann varnaraðila, Y, við lögreglurannsókn út af ætluðu ofbeldi gagnvart henni á heimili hennar og fyrrum sambúðarmanns.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.
Ítrekuð er krafa um skipun réttargæslumanns samkvæmt 2. mgr. 44. gr. c laga nr. 19/1991. Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði synjað. Málsefnið er reifað nokkrum orðum.
Dómarinn tekur fram að samkvæmt 44. gr. b laga nr. 19/1991, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999 sé lögreglu skylt að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 eða 251.-253. gr. laganna, ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Lögregla hafi synjað beiðni um það að tilnefna réttargæslumann fyrir kæranda þar sem skilyrði samkvæmt 44. gr. b væru ekki uppfyllt og hefur lögmaður kærandans borið synjunina undir dóminn, sbr. 2. mgr. 44. gr. c laga nr. 19/1991.
Kærði í máli þessu er borinn sökum sem varðað gætu hann refsingu samkvæmt XXIII. kafla almennra hegningarlaga. Ekki verður séð af málsgögnunum að kærandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins. Á hinn bóginn þykja málsatvik benda til þess að kærandi hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns meðan á rannsókn málsins stendur. Orðalag 44. gr. b í oml. og athugasemdir við frumvarpsgreinina verður þó að skilja þannig að báðum aukaskilyrðunum, um afleiðingar brotsins og um þörfina á réttargæslumanni, verði að vera fullnægt til þess að tilnefna eða skipa megi kæranda réttargæslumann. Kröfunni er því synjað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.