Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð


Þriðjudaginn 5

 

Þriðjudaginn 5. febrúar 2002.

Nr. 43/2002.

Erla Svava Sigurðardóttir

(Svala Thorlacius hrl.)

gegn

Bjarna Einarssyni

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.

Í málinu var deilt um hvort fullnægt væri skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að fram færu opinber skipti til fjárslita milli E og B vegna loka óvígðrar sambúðar. Héraðsdómur féllst á kröfu B um opinber skipti með vísan til þess að ekki væri varhugavart að telja sannað að sambúð aðila hefði staðið samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um opinber skipti verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Erla Svava Sigurðardóttir, greiði varnaraðila, Bjarna Einarssyni, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 50.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2002.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 19. desember sl. 

Sóknaraðili er Bjarni Einarsson, Skólavegi 26, Reykjanesbæ.

Varnaraðili er Erla Svava Sigurðardóttir, Þórustíg 30, Reykjanesbæ.

Sóknaraðili krefst þess að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila vegna slita á óvígðri sambúð. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að skiptakröfu sóknaraðila verði hafnað. Að auki krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en varnaraðila var með vísan til a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi með bréfi dómsmálaráðuneytisins 18. desember sl.

I.

Í 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er kveðið á um það að slíti karl og kona óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár geti annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með bréfi til héraðsdóms 14. september 2001 var þess krafist af hálfu sóknaraðila að „bú” hans og varnaraðila yrði tekið til opinberra skipta með vísan til þessa ákvæðis. Við fyrirtöku málsins 22. október sl. mótmælti varnaraðili þessari kröfu. Í ljósi þessarar afstöðu varnaraðila og í samræmi við 1. mgr. 120. gr. tilvitnaðra laga var mál þetta þingfest. Skiluðu aðilar greinargerðum sínum 2. og 16. nóvember sl. Aðalmeðferð í málinu fór síðan fram 19. f.m.

II.

Sóknaraðili segir málsaðila hafa verið í óvígðri sambúð frá jólum eða áramótum 1998/1999 til loka apríl 2001. Varnaraðili mótmælir þessu en segir það rétt að málsaðilar hafi kynnst á árinu 1998. Þá hafi hún búið hjá systur sinni en sóknaraðili hjá afa sínum og ömmu. Í desember 1998 hafi varnaraðili fengið heimild móður sinnar til að dvelja yfir jólin í íbúð hennar að Brekkustíg 33 í Njarðvík. Þau afnot hafi verið tímabundin og hafi það verið fastmælum bundið milli varnaraðila og móður hennar að sóknaraðili fengi aðeins að koma þangað í skemmri heimsóknir. Eftir hátíðirnar hafi varnaraðili flutt aftur til systur sinnar og sóknaraðili haldið áfram að búa hjá afa sínum og ömmu.  Því sé fráleitt að málsaðilar hafi hafið sambúð á þessum tíma.

Sóknaraðili segir málsaðila hafa staðið saman að kaupum á fasteigninni að Þórustíg 30 í Keflavík á fyrri hluta árs 1999. Þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá honum hafi íbúðin verið skráð á nafn varnaraðila eingöngu. Einnig þessu mótmælir varnaraðili sem segist hafa staðið ein að kaupunum. Þegar hún hafi fest kaup á eigninni hafi hún og sóknaraðili ekki verið í sambúð. Einnig hafi verið munur á fjárhagslegri stöðu þeirra, framtíðar­áætlunum og vilja þeirra til fasteignarkaupa. Sóknaraðili hafi verið eignalaus og skuldugur og hafi hvorki haft hug né efni á að ráðast í fasteignakaup á þessum tíma. Hins vegar hafi varnaraðili viljað komast í eigin húsnæði og standa á eigin fótum. Sóknaraðili hafi á þessum tíma talað um að greiða niður skuldir sínar og kaupa seinna fasteign afa síns og ömmu. Það hafi því hvorki verið samhugur né samvinna hjá málsaðilum um kaup á fasteigninni að Þórustíg 30. Varnaraðili hafi aflað fjár til kaupanna, staðist ein greiðslumat vegna yfirtöku lána, tekið persónulegt lífeyrissjóðslán, ein verið skráð kaupandi samkvæmt kaupsamningi og fengið eigninni afsalað til sín. Þegar hún hafi keypt húsið hafi hún og sóknaraðili verið kærustupar en ekki í sambúð og alls óvíst hafi verið á þeim tíma hvort þau myndu stofna til sambúðar. Þegar varnaraðili hafi fengið íbúðina afhenta í lok mars 1999 hafi hún eðlilega notið aðstoðar sóknaraðila við flutningana.  Í apríl 1999 hafi þau bæði flutt í hús varnaraðila. Samkvæmt búsetuvottorði hafi sóknaraðili flutt lögheimili sitt þangað 14. apríl það ár án vitneskju varnaraðila.  Hún hafi þó látið það afskiptalaust þegar hún hafi síðar komist að því. Sjálf hafi hún ekki flutt lögheimili sitt þangað fyrr en 25. apríl 1999, en þá fyrst hafi hún að fullu verið flutt þangað. Þrátt fyrir að aðilar byggju samkvæmt þessu á sama stað hafi varnaraðili langt í frá litið svo á að sú samstaða hefði myndast með þeim að hún teldi þau búa saman í óvígðri sambúð eða að líkja mætti samvistum þeirra við sambúð manns og konu í hjónabandi.

Sóknaraðili vísar til þess að af lánum sem tekin voru til kaupanna hafi verið greitt af sameiginlegum greiðsluþjónustureikningi aðila, en einnig hafi fleiri greiðslur vegna heimilisins verið inntar af hendi í gegnum þennan reikning. Samkvæmt bankayfirlitum hafi framlög sóknaraðila numið 1.349.822 krónum á sambúðartímanum en framlag varnaraðila hafi numið 904.400 krónum. Ennfremur hafi sóknaraðili lagt fram 195.624 krónur í formi efnis til þakviðgerða og að auki hafi hann og vinir hans unnið að þakviðgerðinni. Varnaraðili telur aftur á móti að engin fjárhagsleg samstaða hafi myndast með aðilum meðan á samvistum þeirra stóð.

Varnaraðili kveðst hafa gert greiðsluþjónustusamning við Sparisjóð Keflavíkur þann 26. júlí 1999. Málsaðilar hafi samið um að sóknaraðili kæmi inn í þann samning með innborgunum á greiðsluþjónustureikninginn. Varnaraðili hafi lagt skýr fyrirmæli fyrir þjónustufulltrúa spari­sjóðsins að varnaraðili greiddi af lánum vegna kaupa hennar á framangreindri fasteign. Ennfremur hafi það verið skýrt að í gegnum þjónustu sparisjóðsins ætti sóknaraðili að greiða eldri skuldir og skuldir vegna íbúðar að Vesturholti 8 í Hafnarfirði. Að auki hefði verið um það samið við sparisjóðinn að í gegnum greiðsluþjónustureikninginn færu greiðslur á reikningum vegna tiltekins kostnaðar, svo sem vegna reksturs bifreiðar og hluta reksturs fasteignarinnar að Þórustíg 30.  Þetta hafi verið gert til þess að tryggja að báðir aðilar legðu nokkuð til sameiginlegs kostnaðar sem félli til eftir að greiðsluþjónustusamningurinn var gerður og kostnaður vegna veru sóknaraðila í húsinu myndi ekki alfarið lenda á varnaraðila. Tilgangurinn með samn­ingnum hafi ekki verið sá að mynda fjárfélag með aðilum né hafi sameiginleg eignamyndun orðið til í gegnum hann.

Að sögn varnaraðila gekk samband málsaðila bærilega frá miðju ári 1999 og um sinn hafi verið samstaða með þeim. Á haustmánuðum 2000 hafi farið að bera á óánægju sem hafi vaxið smátt og smátt.  Í lok nóvember það ár hafi þau síðan tekið þá sameiginlegu ákvörðun að binda endi á samband sitt. Hafi samist svo á milli þeirra að sóknaraðili fengi að dvelja í húsinu á Þórustígnum þar til fram yfir próf sem varnaraðili hafi þreytt í Háskóla Íslands á þessum tíma, en varnaraðili dveldi í íbúð móður sinnar í Reykjavík. Eftir tæplega tæplega þriggja vikna samvistaslit hafi aðilar náð sáttum og ákveðið að láta reyna á samband sitt að nýju. Af hálfu sóknaraðila er því mótmælt að upp úr sambúð þeirra hafi slitið á þessum tíma.

III.

Til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að málsaðilar hafi búið saman í óvígðri sambúð í að minnsta kosti tvö ár samfleytt vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til þess að þau hafi átt sameiginlegt lögheimili að Þórustíg 30 í Njarðvík frá 25. apríl 1999 til 24. apríl 2001. Í öðru lagi er því haldið fram að aðilar hafi flutt að Þórustíg 30 um miðjan mars 1999, það er nokkru áður en formlegur lögheimilisflutningur þeirra þangað átti sér stað. Vísar sóknaraðili þessu til stuðnings einkum til vættis vitna, sem staðfesti staðhæfingu hans um upphaf búsetu og sambúðar aðila að Þórustíg 30, og yfirlýsingar frá þjónustumiðstöð Landssíma Íslands í Keflavík þar sem fram komi að aðilar hafi látið tengja síma sína þangað á þessum tíma. Sé með þessu algerlega yfir allan vafa hafið að aðilar hafi í mars 1999 stofnað til sambúðar, sem staðið hafi fram í apríl 2001. Með þessu sé fullnægt skilyrðum fyrir töku „bús” málsaðila til opinberra skipta samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Skiptir þá ekki máli hvort sambúð þeirra hafi hafist á fyrra tímamarki, svo sem sóknaraðili haldi fram. Þá hafnar sóknaraðili því að upp úr sambúðinni hafi slitnað tímabundið, svo sem varnaraðili staðhæfi.

Um frekari sönnur fyrir staðhæfingu sinni þess efnis að um óvígða sambúð hafi verið að ræða vísar sóknaraðili til þess að umtalsverð fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum, sem staðfest sé með gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu.

IV.

Til stuðnings kröfu sinni um það að fram kominni skiptakröfu sóknaraðila verði hafnað byggir varnaraðili aðallega á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem málsaðilar hafi aldrei búið saman í óvígðri sambúð. Telur hún að með samvistum málsaðila hafi aldrei myndast slík samstaða á milli þeirra að henni verði jafnað við samlíf karls og konu í hjónabandi, enda hafi samstaða þeirra alla tíð verið takmörkuð. Aðilar hafi aldrei látið skrá sig saman í óvígða sambúð hjá Hagstofu Íslands og þau hafi ekki talið saman fram til skatts.  Að auki eigi málsaðilar ekki barn saman. Því geti samband þeirra og samvistir ekki talist óvígð sambúð í skilningi laga.

Verði fallist á það með sóknaraðila að málsaðilar hafi búið saman í óvígðri sambúð byggir varnaraðili á því að sambúðin hafi ekki staðið í full tvö ár. Upphaf hennar verði ekki miðað við fyrra tímamark en lok júlí eða byrjun ágúst 1999, en þá hafi þau tekið ákvörðun um sameiginlegt fjárhald að nokkru. Sambúðinni hafi síðan lokið í apríl 2001. Málsaðilar hafi ekki verið í sambúð af nokkru tagi fyrir það tímamark sem sé tilgreint á framlögðum búsetuvottorðum, en frá 25. apríl 1999 hafi lögheimili þeirra verið sameiginlegt. Varnaraðili hafnar því að sameiginlegt lögheimili aðila, eitt og sér, teljist nægilegt til að aðilar geti talist búa saman í óvígðri sambúð. Fleiri skilyrði þurfi að vera uppfyllt, svo sem skilyrði um nánar samvistir og fjárhagslega samstöðu, en hún hafi sannanlega ekki verið með aðilum nema ef til vill hluta þess tíma sem þau hafi verið skráð á sama lögheimili. Líta verði til þess að sóknaraðili hafi flutt lögheimili sitt á Þórustíg 30 í Njarðvík án samráðs við varnaraðila. Sú skráning hafi ekki verið liður í sameiginlegri ákvörðun málsaðila um að hefja hjúskap eða sambúð. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að sóknaraðili flutti inn í íbúðina á Þórustígnum að samband aðila hafi farið að þróast í átt að raunverulegri sambúð. Með gerð greiðsluþjónustusamnings við Sparisjóð Keflavíkur um mánaðamót júlí/ágúst hafi málsaðilar byrjað að leggja saman fram fé til greiðslu tiltekins kostnaðar. Fyrir stofnun þessa samnings hafi því ekki verið nein fjárhagsleg samstaða með aðilum.

Verði það niðurstaða dómsins að miða sambúðartíma við sameiginlega lögheimilisskráningu aðila bendir varnaraðila á það að aðilar hafi haft sameiginlegt lögheimili að Þórustíg 30 í Njarðvík frá 25. apríl 1999 til 24. apríl 2001. Sambúð á grundvelli sameiginlegrar lögheimilisskráningar hafi því staðið í tæp tvö ár. Þá heldur varnaraðili því fram að aðilar hafi bundið endir á samband sitt 19. apríl 2001. Ennfremur er byggt á því að ekki hafi verið samfella í sambúð málsaðila og því hafi sambúð þeirra ekki staðið samfleytt í tvö ár eins og 100. gr. skiptalaga gerir að skilyrði.  Í nóvember 2000 hafi varnaraðili þannig flutt úr íbúðinni á Þórustígnum í tæpar þrjár vikur þar sem aðilar hafi þá tekið sameiginlega meðvitaða ákvörðun um að slíta sambandi sínu. Að mati varnaraðila hafi vilji sóknaraðila til sambandsslita verið meiri en vilji varnaraðila. Um páskana 2001 hafi varnaraðili enn farið af heimilinu. 

Varnaraðili hafnar því að myndast hafi sameiginlegt fjárfélag með aðilum, sem sóknaraðili geti krafist skipta á eftir ákvæði 100. gr. skiptalaga. Ekkert „bú” hafi myndast hjá aðilum sem unnt sé að krefjast opinberra skipta á. Fjárhagur aðila hafi verið aðskilinn og alla samvistartíðina hafi verið greint á milli hvaða skuldir hvort þeirra um sig greiddi svo og hvaða verðmætari muni hvort þeirra um sig keypti.

V.

Deila málsaðila lýtur svo sem fram er komið einvörðungu að því hvort fullnægt sé skilyrðum 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. að því er varðar óvígða sambúð og sambúðartíma. Af niðurstöðu þar um ræðst hvort fallist verði á þá kröfu sóknaraðila að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila.

Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þá komu alls átta vitni fyrir dóminn til að bera um það hvort og þá hvenær sambúð aðila hafi hafist, fjögur á vegum sóknaraðila og fjögur á vegum varnaraðila. Við mat á sönnunargildi þessara vitnisburða verður að líta til tengsla sem eru á milli vitnanna og aðila málsins.

Óvígð sambúð er almennt talin felast í því að karl og kona flytji saman og fari að búa sem hjón væru. Stofnun hennar og slit eru ekki formbundin. Ræðst það af atvikum hverju sinni hvort samband karls og konu sé með þeim hætti að um óvígða sambúð geti verið að ræða. Samkvæmt vottorði þjóðskrár Hagstofu Íslands áttu málsaðilar sameiginlegt lögheimili að Þórustíg 30 í Reykjanesbæ frá 25. apríl 1999 til 24. apríl 2001. Í framburði vitnisins Steinunnar Unu Sigurðardóttur, sem er systir varnaraðila, kom fram að varnaraðili hefði sagt vitninu að hún hefði fest kaup á fasteigninni til þess að hún og sóknaraðili gætu búið þar saman. Ágreiningslaust er að málsaðilar bjuggu þar báðir. Þá er það ljóst að viss fjárhagsleg samstaða skapaðist í öllu falli á milli þeirra fljótlega eftir að skráð lögheimili þeirra varð sameiginlegt. Að þessu virtu og þegar jafnframt er litið til þess sem sannanlega liggur fyrir um samband málsaðila þar til þau fluttu að Þórustíg 30 þykir mega slá því föstu að þau hafi strax við upphaf búsetu sinnar þar tekið upp óvígða sambúð í skilningi laga. Sóknaraðili hefur hins vegar ekki fært viðhlítandi sönnur fyrir þeirri fullyrðingu sinni að leggja megi samvistir aðila fram að því að jöfnu við sambúð. 

Fullnægjandi sönnun er komin fram fyrir því að sambúð málsaðila hafi lokið að fullu 19. apríl 2001. Við mat á því hvort tvö ár hafi þá verið liðin frá því að sambúðin hófst að Þórustíg 30 þykir í fyrsta lagi mega líta til yfirlýsingar frá þjónustumiðstöð Landssíma Íslands í Reykjanesbæ sem lögð hefur verið fram í málinu. Þar er staðfest að símanúmer sem varnaraðili er rétthafi að hafi verið tengt að Þórustíg 30 þann 13. mars 1999, svo og að símanúmer sem sóknaraðili er handhafi að hafi verið tengt 24. sama mánaðar á sama stað. Veitir þetta sterkar líkur fyrir því að aðilar hafi verið farnir að búa í húsinu á þessum tíma. Í sömu átt hnígur vitnisburður þeirra Sigurðar Árna Gunnarssonar, sem annaðist tenginu á síma fyrir sóknaraðila, og Gísla Einarssonar. Var vitnisburður þeirra í heild trúverðugur að mati dómsins, en tengsl vitnanna við sóknaraðila draga þó nokkuð úr sönnunargildi hans. Þá er til þess að líta að samkvæmt kaupsamningi um fasteignina Þórustíg 30 skyldi hún afhent varnaraðila á tímabilinu 1. til 15. mars 1999. Er ekki annað fram komið en að það hafi gengið eftir og margt bendir reyndar til þess að afhendingin hafi átt sér stað á fyrri hluta þessa tímabils. Bendir þetta helst til þess að upphafstími sambúðar málsaðila að Þórustíg 30 hafi verið sá sem sóknaraðili heldur fram, enda hefur af hálfu varnaraðila ekki verið vísað til atvika sem hafi getað staðið því í vegi.

Með vísan til þess sem greinir hér að framan þykir ekki varhugavert að telja sannað að þá er sambúð málsaðila lauk hinn 19. apríl 2001 hafi rúmlega tvö ár verið liðin frá því hún hófst. Þá telst það ósannað að sambúðarslit hafi orðið á þessu rúmlega tveggja ára tímabili. Samkvæmt þessu er fullnægt því skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 að sambúð aðila hafi staðið samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. Er því fallist á þá kröfu sóknaraðila að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila vegna slita á óvígðri sambúð þeirra.

Eftir þessum málsúrslitum ber að úrskurða varnaraðila til að greiða sóknaraðila 220.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila hér fyrir dómi, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Árna Auðólfssonar héraðsdómslögmanns, 220.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar til lögmannsins hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekin er til greina krafa sóknaraðila, Bjarna Einarssonar, um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, Erlu Svövu Sigurðardóttur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 220.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Árna Auðólfssonar héraðsdómslögmanns, 220.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.