Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning


                                     

Fimmtudaginn 26. janúar 2012.

Nr. 40/2012.

Steingrímur Páll Kárason

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Kærumál. Kyrrsetning

S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem lagt var fyrir sýslumanninn í Reykjavík að halda áfram kyrrsetningargerð í nánar tilgreindu húsnæði þar sem K hf. taldi að S geymdi verðmætt lausafé. Héraðsdómur taldi að S hefði verið tilkynnt með lögmætum hætti um fyrirhugaða aðfarargerð og tilefni hefði verið fyrir sýslumann til að kanna hvort verðmæti væru í húsinu þótt S ætti aðeins helmingshlut í fasteigninni. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2012, þar sem lagt var fyrir sýslumanninn í Reykjavík að halda áfram kyrrsetningargerð á hendur sóknaraðila að Smiðshöfða 9 í Reykjavík að undangenginni boðun til hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 23. júní 2011 um að hafna kröfu varnaraðila um aðgang að húsnæði að Smiðshöfða 9 í Reykjavík. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Steingrímur Páll Kárason, greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2012.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 14. nóvember sl., barst dóminum 27. júní 2011. Það er höfðað af Kaupþingi banka hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykja­vík á hendur Steingrími Páli Kárasyni, kt. 060168-4079, 23 Rue Auguste Liesch, Bertrange, Lúxemborg.

 Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, tekin 23. júní 2011, í kyrrsetningarmáli nr. K-18/2011, að hafna kröfu sóknaraðila um aðgang að húsnæði nr. 9 við Smiðs­höfða, með fastanúmerið 222-8159, Reykjavík, og lagt verði fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að veita sóknaraðila aðgang að húsnæðinu.

 Sóknaraðili krefst þess jafnframt að varnaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða honum málskostnað að mati réttarins.

 Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

 Til vara krefst hann þess að staðfest verði sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykja­vík, tekin 23. júní 2011, í kyrrsetningarmáli nr. K-18/2011, að hafna kröfu sókn­ar­aðila um aðgang að húsnæði við Smiðshöfða 9, fnr. 222-8159, Reykjavík.

 Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðis­auka­skatti.

Málsatvik

 Að sögn sóknaraðila var varnaraðili, Steingrímur Páll Kárason, yfirmaður áhættu­stýringar Kaupþings banka hf. á Íslandi. Hann hafi tekið lán hjá sóknar­aðila til hluta­bréfakaupa. Hinn 25. september 2008 hafi Hreiðar Már Sigurðs­son, for­stjóri Kaup­þings banka hf., tilkynnt að ábyrgð varnaraðila á lánum hans við bankann hefði verið felld niður. Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hlut­hafa­fundar í bankanum 9. október 2008 og 25. maí 2009 hafi bankanum verið skipuð slitastjórn. Hún hafi ákveðið að rifta niðurfellingu ábyrgðarinnar og hafi verið höfðað sérstakt riftunarmál, 16. desember 2010, gegn varnaraðila, sem enn sé rekið fyrir héraðsdómi.

Hinn 23. júní 2011 hafi farið fram, að beiðni sóknaraðila, kyrrsetning á eignum varnar­aðila, þar með talið eignarhlut hans í húsinu nr. 9 við Smiðshöfða, Reykja­vík. Sóknar­aðili hafi óstaðfesta vitneskju um að í húsnæðinu séu geymd verð­mæti í eigu varnar­aðila. Hann hafi því krafist þess að fá aðgang að húsnæðinu og vísað um þá heimild til 11. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann, sbr. og 30. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sýslumaður hafi ekki orðið við kröfu sóknaraðila.

 Vegna lýsingar málavaxta vill varnaraðili taka fram að hann hafi ekki verið boðaður, með réttum hætti, til þeirrar kyrrsetningar sem þetta mál sé sprottið af. Lögmaður sókn­ar­aðila hafi haft samband við lögmann varnar­aðila og sagt honum að framan­greind kyrr­setning ætti að fara fram og hafi innt lög­mann varnaraðila eftir því hvort hann myndi ekki mæta til gerðarinnar. Í ljósi þess að varnaraðila hafi ekki borist lögmæt boðun til kyrrsetningargerðarinnar hafi lögmaður varnaraðila sagt lögmanni sókn­ar­aðila að hann hefði ekki umboð til að mæta til gerðarinnar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

 Sóknaraðili vísar til þess að gögn málsins beri það með sér að meint skuld varn­ar­aðila við sóknaraðila hafi, 1. júní sl., numið 154.814.709 krónum. Fyrir liggi að bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Héraðsdómur Reykjaness hafi fellt dóma í riftun­ar­málum Kaupþings banka hf. á hendur fyrrum starfsmönnum bankans og hafi dómar fallið sóknaraðila í vil.

Þá vísar sóknaraðili til þess að það húsnæði sem hann óski aðgangs að sé geymslu­húsnæði. Varnaraðili eigi heimili í Lúxemborg og því sé ekki á neinn hátt raskað friðhelgi heimilis hans þótt sóknaraðila verði veittur aðgangur að húsnæðinu. Grunur leiki á að þar séu eignir varnaraðila. Sóknaraðili hafi þegar lagt fram tryggingu að fjárhæð 10 milljónir króna fyrir því tjóni sem kyrrsetningargerð kunni að valda varn­ar­aðila. Hagsmunir varnar­aðila séu því í raun varðir. Komi í ljós að varnar­aðili eigi eignir í húsnæðinu muni sóknaraðili biðja um endurupptöku gerðarinnar hjá sýslu­manni og kyrrsetja þær.

Varnaraðili hafi kosið að mæta ekki til gerðarinnar þrátt fyrir löglega boðun. Þannig hafi ekki verið höfð uppi nein mótmæli gegn kröfu sóknaraðila hjá sýslu­manni. Sýslumanni hafi því borið að verða við beiðni sóknaraðila. Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til 11. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann, sbr. 29.-31. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili vitnar sérstaklega til 2. mgr. 30. gr. laga um aðför þar sem segi að sýslumanni sé rétt, að kröfu gerðarbeiðanda, að veita honum aðgang að hús­næði gerð­ar­þola mæti hann ekki þrátt fyrir löglega boðun til gerðar­innar. Þannig hafi sýslu­manni borið að verða við kröfu sóknaraðila í málinu um aðgang að umræddu geymslu­húsnæði.

Þá sýni gögn málsins að varnaraðili hafi nýverið selt hluta sinna eigna hér á landi og því sé full ástæða til þess að verða við kröfu sóknaraðila.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

 Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun á því að sóknaraðili hafi ekki lög­varða hagsmuni af því að fá skorið úr ágreiningi þessa máls þar sem lokið sé þeirri gerð, sem þetta mál sé sprottið af. Sóknaraðili virðist gera sér grein fyrir þessum vanda þar sem hann segi í greinargerð sinni að hann muni, að fengnum dómi sér í hag, biðja um endur­upptöku gerðarinnar hjá sýslumanni og kyrrsetja þær eignir sem kunni að vera í húsnæðinu. Ekki verði séð að lagaheimild sé fyrir slíkri endurupptöku, hvorki í V. kafla laga nr. 31/1990 né í 14. kafla laga nr. 90/1989. Þessi leið sé sóknar­aðila því ekki fær.

 Varnaraðili telur ákvæði 2. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, byggja meðal annars á þessum grunni en þar sé kveðið á um að ákvörðunum um framkvæmd kyrrsetningar­gerðar verði ekki skotið til dóms eftir að henni ljúki. Af 1. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, leiði að fresta hefði átt gerð­inni þegar sóknaraðili krafð­ist úrlausnar héraðsdóms um umþrætta ákvörðun sýslu­manns. Annað fyrir­komu­lag, og þar með talið það fyrirkomulag sem fyrir hendi er í þessu máli, leiði til þess að til úrlausnar verði í tveimur málum, þessu og máli til stað­fest­ingar gerðinni, atriði sem lúti að sömu gerð, það er hvort heimild til kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi og hvort rétti­lega hafi verið boðað til gerðarinnar. Með þessum rökum telur varnaraðili að vísa beri þessu máli frá dómi.

 Varnaraðili byggir varakröfu sína á því að sýslumanni hafi verið rétt að verða ekki við kröfu sóknaraðila um aðgang að húsnæðinu við Smiðshöfða 9, Reykjavík. Í þeirri boðun, sem lögð hafi verið fram í málinu og kyrr­setningargerðin byggi á, komi fram að gerðin verði tekin fyrir á skrifstofu Sýslu­mannsins í Reykjavík. Eitt skilyrða 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1989 sé að gerðar­þola sé tilkynnt, við boðun til gerðar­innar, að hún muni fara fram á þeim stað sem krafist er aðgangs að. Í þessu tilfelli hafi þetta ekki verið raunin og bresti þegar af þeim sökum heimild til að láta umbeðna leit fara fram án undangengis dómsúrskurðar, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1989. Í þessu sambandi tekur varnaraðili fram að hann telji að ekki hafi verið rétti­lega boðað til gerðar­innar skv. 2. mgr. 21. gr. laga 90/1989, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990.

 Varnaraðili hafnar þeirri lagatúlkun sóknaraðila að þar sem varnaraðili hafi ekki mætt til gerðarinnar, og hafi þar af leiðandi ekki haft uppi mótmæli gegn kröfu sókn­ar­aðila, hafi sýslumanni borið að verða við kröfu sóknaraðila. Varnaraðili vísar annars vegar til þess að hann hafi ekki verið réttilega boðaður til gerð­ar­innar samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga 90/1989, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990. Hins vegar vísar hann til þess að sýslumaður verði alltaf að meta sjálf­stætt hvort efni séu til að verða við kröfu gerðarbeiðanda um að beita gerðarþola þving­unar­úrræði 30. gr. laga nr. 90/1989. Aldrei komi til álita að fallast á slíkt nema skilyrðum laga­ákvæð­is­ins sé full­nægt. Sýslumanni hafi því borið að hafna kröfu sóknaraðila um aðgang að hús­næð­inu.

Eins og fram komi í gerðabók sýslumanns sé umrædd fasteign aðeins að hluta í eigu varnaraðila. Það leiði af 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1989 að gerðarbeiðandi geti aðeins krafist þess að aðgangur verði veittur að húsakynnum gerðarþola. Í ljósi þess að tilhögun þessi sé leyfð í samræmi við áskilnað stjórnarskrárinnar um beina laga­heim­ild til húsleitar beri að túlka ákvæðið þröngt. Því sé ljóst að gerðarbeiðandi geti ekki krafist þess að sér verði veittur aðgangur að húsakynnum annarra en gerðarþola eins og sóknaraðili krefjist í þessu máli. Í því sambandi sé rétt að benda á að talið hafi verið að ekki verði stuðst við ákvæði 30. gr. laga nr. 90/1989 til að koma við leit hjá þriðja manni, jafnvel þótt rökstuddur grunur sé um að hann hafi undir höndum hlut sem gerð­ar­beiðandi leitar gerðarinnar til að fá umráð yfir.

Niðurstaða

 Varnaraðili styður kröfu sína um vísun málsins frá dómi þeim rökum að sókn­ar­aðili hafi ekki lögvarða af því að fá skorið úr ágreiningi þessa máls þar sem kyrr­setn­ingar­gerð­inni sé lokið og lögin heimili ekki endurupptöku gerðar sem sé lokið í því skyni að fá aðgang að húsnæði gerðarþola til þess að kyrrsetja eignir sem kunni hugsanlega að vera þar.

 Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. skulu ákvæði 86.-91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför taka til mála samkvæmt V. kafla laga um kyrr­setn­ingu. Í 1. mgr. 86. gr. laga um aðför segir að krefjist málsaðili úrlausnar um ákvörðun sýslu­manns, sem fellur undir ákvæði 1.-3. mgr. 85. gr. lag­anna, frestist gerðin að því leyti sem hún er háð viðkomandi ákvörðun.

 Samkvæmt gerðabók sýslu­manns, sem var færð 23. júní sl., við fyrirtöku þess kyrr­setn­ing­ar­máls sem þetta ágreiningsmál er sprottið af, er bókað að sóknaraðili krefjist kyrrsetningar fyrir kröfu að fjárhæð 154.814.709 krónur. Að ábendingu lög­manns sóknaraðila kyrrsetti sýslu­maður hluta­fjár­eign varn­ar­aðila í tveimur hluta­félögum, eign­ar­hluta hans í tveimur fast­eignum og greiðslur sam­kvæmt kaup­samn­ingi um þriðju eignina. Síðan er bókað að að kröfu lögmanns sóknaraðila og með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1991 sé gerðinni lokið án árangurs að hluta.

 Þá krafðist sóknaraðili þess að sýslumaður veitti honum aðgang að fasteign varn­ar­aðila að Smiðshöfða 9, á grundvelli 11. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 30. gr. laga nr. 90/1989, með þeim rökum að sóknaraðili hefði grun um að þar geymdi varnaraðili verð­mætt, óskráð lausafé.

 Þrátt fyrir að sýslumaður hefði, eftir virðingu eigna varnaraðila, fallist á að þær eignir hans sem höfðu verið kyrrsettar nægðu ekki fyrir kröfu sóknaraðila taldi sýslu­maður ekki nauðsynlegt fyrir framgang gerðar­innar að veita sóknaraðila aðgang að fast­eign varnaraðila til að kanna hvort þar væru verðmæti í eigu varnaraðila og ákvað að hafna kröfu sóknaraðila. Þá þegar kvaðst sóknaraðili myndu bera þessa ákvörðun sýslu­manns undir héraðsdóm. Af þeim sökum frestaðist gerðin sjálfkrafa og lauk henni því ekki í raun þrátt fyrir bókun sýslumanns þess efnis í gerðabók. Fallist héraðs­dómur á að sýslumanni beri að veita sóknaraðila aðgang að húsnæði varn­ar­aðila þarf sókn­ar­aðili ekki að óska endur­upptöku gerðar­innar heldur eingöngu þess að henni verði fram haldið, sbr. 2. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Kröfu sókn­ar­aðila verður því ekki vísað frá dómi af þeim sökum að lög hindri fram­hald gerðarinnar fallist héraðs­dómur á kröfu sóknaraðila. Orðaval hans í greinar­gerð hefur ekki neina þýðingu í þessu sambandi.

 Til stuðnings þeirri kröfu, að kröfu sóknaraðila verði hafnað, vísar varnaraðili til þess að hann hafi ekki verið boðaður réttilega til gerðarinnar, gerðin hafi ekki farið fram á réttum stað, svo og að ekki sé unnt í tveimur málum, annars vegar ágreinings­máli um ákvörðun sýslu­manns og hins vegar máli til staðfestingar gerð, að taka afstöðu til sömu atriða.

 Þar sem gerðinni var í raun ekki lokið við fyrirtöku hennar 23. júní sl., þrátt fyrir bókun þess efnis í gerðabók, þykir ekki hafa þýðingu í þessu máli þótt sóknar­aðili hafi þegar höfðað mál til staðfestingar gerðinni. Af þeim sökum er ekkert því til fyrir­stöðu að tekin sé afstaða til þess í þessu máli hvort boðun til fyrirtöku kyrr­setn­ing­arbeiðni sókn­ar­aðila hafi rétti­lega verið birt varn­ar­aðila.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 skulu upp­hafs­aðgerðir sýslumanns vegna kyrrsetningargerða fara eftir 20.-24. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili afhenti sýslumanni beiðni um kyrrsetningu eigna varn­ar­aðila 1. júní sl. Varnaraðili býr í Lúxemborg. Sýslumaður útbjó boðunarbréf 14. júní og lagði fyrir sókn­ar­aðila að annast birtingu þess samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sókn­ar­aðili fól fyrir­tækinu TNT að afhenda varnaraðila boðunarbréfið. Samkvæmt fram­lögðum gögnum var bréfið afhent á heimili varnaraðila í Lúxemborg 15. júní sl., kl. 12:36 að staðartíma, og „Karason“ staðfestir móttöku.

 Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför skal senda gerðarþola til­kynn­ingu um fram komna beiðni með útbornu ábyrgð­ar­bréfi eða símskeyti eða birta honum af stefnuvotti. Framlögð staðfesting þykir nægja til sönnunar þess að ábyrgðar­bréfið hafi verið afhent varnaraðila.

 Samkvæmt 22. gr. laga um aðför, skal aðför að jafnaði byrja á starfstofu sýslu­manns, hafi gerðarþola verið send tilkynning samkvæmt 21. gr. laganna. Þar sem varn­ar­aðila var send tilkynning samkvæmt síðastnefndu ákvæði var rétt að byrja gerðina á starfs­stöð sýslumanns. Krafa sóknaraðila um aðgang að iðnaðarhúsnæði varn­ar­aðila var hins vegar ekki sett fram fyrr en við fyrirtöku gerðarinnar.

Sóknaraðili fékk ekki nægilega tryggingu krafna sinna með þeim eignum varn­ar­aðila sem kyrrsettar höfðu verið. Hann hefur grun um það að varnaraðili geymi verð­mætt lausafé í iðn­að­ar­húsnæði sínu að Smiðshöfða 9. Að mati dómara var nægi­legt tilefni til að kanna hvort þar kynnu að vera verðmæti sem unnt væri að kyrr­setja. Samkvæmt framlögðum gögnum á varnaraðili helmingshlut í fasteigninni og girðir ekki fyrir hugsanlega leit þar að verðmætum í hans eigu, þótt hann eigi hana með öðrum. Sýslumanni var því ekki rétt að synja um hugsanlega leit með skírskotun til þess að það væri ekki nauðsynlegt fyrir framgang gerðarinnar og að annar en varn­ar­aðili ætti hlutdeild í húsnæðinu.

 Af hálfu varnaraðila var ekki mætt við fyrirtöku gerðarinnar. Honum hafði ekki heldur verið tilkynnt að gerðin myndi fara fram við húsnæði hans að Smiðshöfða 9. Af þeim sökum voru ekki skilyrði til að beita valdi til að fara inn í það, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1989. Að svo stöddu voru ekki heldur skilyrði til að beita þeim úrræðum sem 3. mgr. 30. gr. laganna heimilar. Sýslumanni var því rétt að bregðast við kröfu sóknaraðila með því að fresta gerðinni og láta boða varnaraðila til að mæta til hennar að Smiðshöfða 9, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður lagt fyrir hann að halda gerðinni áfram á þeim stað, að undangenginni boðun varnar­aðila.

 Eins og atvikum þessa máls er háttað þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

 Lagt er fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að halda áfram kyrrsetningargerð nr. K-18/2011 að Smiðshöfða 9, Reykjavík, að undangenginni boðun til varnaraðila, Steingríms Páls Kárasonar.

 Málskostnaður fellur niður.