Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 7

 

Mánudaginn 7. mars 2005.

Nr. 93/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2005 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar segir að varnaraðili hafi 10. febrúar 2005 verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hið rétta er að það var gert með vísan til a. liðar 1. mgr. sömu greinar. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2005.

             Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2005, klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að [...]

Að mati lögreglu þyki kærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot kærða þyki mjög alvarleg en þau lúti að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og sé þáttur kærða í brotastarfseminni talinn verulegur. Ætla megi að efni þau, sem send hafi verið til landsins, hafi verið ætluð til sölu og dreifingar í ágóðaskyni til ótilgreinds fjölda fólks. Hagsmunir almennings krefjist þess að kærði gangi ekki laus heldur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í málinu. Sé mat þetta á almannahagsmunum staðfest í fjöldamörgum nýlegum dómum Hæstaréttar t.a.m. í málum nr. 423/2004 og 488/2004.  Verði þannig að telja áframhaldandi gæslu­varðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.

             Lögreglan kveður sakarefnið vera talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði var handtekinn þann 27. janúar sl. og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan.  Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur hann viðurkennt tiltekna aðild að málinu. Kærði sætti í upphafi gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2005, í málinu nr. R-52/2005, var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sú úrlausn var ekki kærð til Hæstaréttar Íslands. Fallist er á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi framið brot, sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotin eru þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærða. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæslu­varðhald, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2005 kl. 16.00.