Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Snorrason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b.lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni til fimmtudagsins 25. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot sem sem varðað getur fangelsi. Með þessari athugasemd er fallist á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að varnaraðila verði áfram gert að sæta farbanni. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                             

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni allt til fimmtudagsins 25. ágúst 2016, kl. 16:00.

                Í greinargerð með kröfunni segir að þann 14. mars sl. hafi A, kt. [...], komið ásamt móður sinni, B, kt. [...], til viðtals hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Tilefnið hafi verið að skömmu áður hafði lögreglu borist upplýsingar þess efnis frá réttargæslumanni brotaþola að brotið hefði verið gegn A kynferðislega af hálfu kærða. Hafi lögreglu jafnframt verið greint frá því að kærði væri meðvitaður um að málið væri komið inn á borð lögreglu og að hann hefði í hyggju að yfirgefa landið vegna málsins við fyrsta tækifæri. Við könnun lögreglu á flugbókunum kærða hafi mátt sjá að hann átti bókað flug þann 15. mars sl. til London, sjá megi meðfylgjandi upplýsingaskýrslur frá C rannsóknarlögreglumanni og flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þá hafi jafnframt mátt sjá að kærði hafði átt bókaðar 7 flugferðir frá landinu árið 2015, 1. flugferð frá landinu árið 2014 og 8 flugferðir frá landinu árið 2013.

                Í viðtalinu mun brotaþoli m.a. hafa greint frá því að kærði hefði í a.m.k. 5 skipti káfað á einkastað hennar, eins og hún orðaði það í viðtalinu. Í ljósi þessara upplýsinga hafi lögregla farið fram á það við Héraðsdóm Reykjaness að tekin yrði skýrsla fyrir dómi af brotaþola, sbr. a. lið 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Þann 15. mars. 2016, hafi lögregla tekið skýrslu af móður A, B. Hafi hún m.a. greint frá því að A hefði greint sér frá meintum brotum kærð, vísast nánar til samantektar af skýrslutöku af B, dags. 15. mars 2016.

Þann 16. mars 2016, fór fram skýrslutakan í Barnahúsi af brotaþola. Við skýrslutökuna staðfesti brotaþoli að kærði hefði í 4 til 5 skipti brotið gegn sér, m.a. með því að hafa í nokkur skipti sett fingur sinn í leggöng sín.

Við skýrslutöku yfir kærða, þann 16. mars 2016, hafi kærði viðurkennt að hafa í nokkur skipti stungið fingri sínum í leggöng brotaþola.

Þann 9. júní s.l. hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum sent málið til embættis héraðssaksóknara til þóknanlegrar meðferðar. Þann 27. júní s.l. hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum fengið málið á ný til meðferðar, nú til frekari rannsóknar. Áætlar lögregla að rannsókn málsins ljúki innan fjögurra vikna.              Vísast nánar til meðfylgjandi gagna.

Þá segir að þau brot sem kærði sé sakaður um séu mjög alvarleg að mati lögreglu og telji lögregla rökstuddan grun vera fyrir hendi um að kærði hafi brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nánar tiltekið 1. og 2. mgr. 202. gr. auk þess sem meint brot hans kunni að varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við þeim brotum sem kærða sé gefið að sök að hafa framið liggi við allt að 16 ára fangelsi. Í ljósi alls framangreinds telji lögregla að það sem þegar hafi komið fram við rannsókn málsins gefi til kynna að sterkur og rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi brotið gegn brotaþola og að háttsemi hans falli undir framangreind ákvæði almennra hegningarlaga.

Kærði sé fæddur á [...] en hafi íslenskan ríkisborgararétt og hafi verið búsettur hér á landi. Lögregla hafi ekki upplýsingar um að kærði stundi atvinnu hér á landi en samkvæmt tekjubókhaldi ríkisins hafi kærði þegið bætur frá Tryggingamiðstöð Ríkisins undanfarið ár. Þá hafi rannsókn á flugbókunum kærða leitt í ljós að hann hafi undanfarin 3 ár átt bókaðar 17 flugferðir frá landinu, sjá megi meðfylgjandi upplýsingaskýrslu frá C rannsóknarlögreglumanni. Þá hafi kærði jafnframt farið til [...] fjórum sinnum á undanförnum þremur árum, sbr. meðfylgjandi upplýsingaskýrslu frá flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum. Kærði hafi því takmörkuð tengsl við landið að mati lögreglu. Þá beinist rannsókn lögreglu að alvarlegum brotum sem kærða sé gefið sök að hafa framið. Í ljósi þess og alvarleika þeirra brota sem kærða sé gefið að sök, telji lögregla hættu á að ákærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta farbanni meðan á rannsókn málsins stendur. Þá telji lögregla jafnframt mikilvægt að tryggja viðveru kærða á meðan mál hans sé til meðferðar innan refsivörslukerfisins.

Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála, um farbann, sé fullnægt í málinu. Þá telji lögregla jafnframt að atvik í því máli sem hér um ræðir séu að verulegu leyti sambærileg og í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 536/2014, 559/2014 og 614/2014.

                Með vísan til alls framangreinds, b liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 1. og 2. mgr. 202. gr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 telur lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta farbanni allt til fimmtudagsins 25. ágúst 2016 kl. 16:00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir sterkum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Við flutning málsins kom fram að Héraðssaksóknari hafi vísað málinu aftur til lögreglunnar til frekari rannsóknar og er henni því ekki lokið. Kærði er af erlendu bergi brotinn en engar upplýsingar liggja fyrir um fjölskyldutengsl hans hér á landi. Í fyrri úrskurðum dómsins um farbann kom fram að kærði þæði tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins en stundi ekki vinnu hér. Þá liggja fyrir nýjar upplýsingar um að kærði hafi á undanförnum þremur árum farið fjórum sinnum til [...]og dvalið þar allt frá þremur vikum uppí tvo mánuði í hvert sinn. Ekki er vitað hvaða tengsl kærði hefur þar en líkur eru meiri en minni að tengsl séu þar til staðar. Telur dómurinn, að þrátt fyrir að kærði hafi hlotið íslenskt ríkisfang, og hafi búsetu hér á landi, þá sé hætta á að hann yfirgefi landið og reyni að koma sér undan dómi og eftir atvikum refsingu hér á landi en kærði hefur viðurkennt það brot sem honum er gefið að sök og varðar fangelsisrefsingu allt frá einu ári uppí sextán ár. Samkvæmt þessu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður kærða bönnuð brottför af landinu á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett eða til fimmtudagsins 25. ágúst nk. kl. 16.00.

Ástríður Grímsdóttir  héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ.

Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til fimmtudagsins 25. ágúst nk. kl. 16:00.