Hæstiréttur íslands
Mál nr. 71/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Slysatrygging ökumanns
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2009. |
|
Nr. 71/2008. |
Smári Guðmundsson(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Slysatrygging ökumanns. Fyrning.
S krafðist skaðabóta úr hendi V hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi árið 1997. Deildu aðilar um hvort skaðabótakrafan hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar málið var höfðað. Var lagt til grundvallar að í örorkumati S var talið að tímabært hafi verið að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum frá slysdegi. S kvaðst ekki hafa haft vitneskju um kröfu sína fyrr en að fengnu læknisvottorði árið 2005. Talið var að gögn um heimsóknir S til læknis árið 2001 bæru með sér að ástand hans hafi verið svipað um langt skeið og að ekki hafi verið að vænta sérstakra breytinga. Þá hafi ástandið í aðalatriðum verið það sama og samkvæmt læknisvottorðinu frá 2005. Hafi S því ekki hnekkt líkum á því að hann hafi ekki síðar en á miðju ári 2001 vitað um kröfu sína í merkingu 99. gr. umferðarlaga. Hafi hann þá getað hafist handa við fullnustu kröfu sinnar. Hafi fyrningarfrestur því hafist 1. janúar 2002 og krafan verið fyrnd er málið var höfðað. Var V hf. því sýknað af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2008. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.294.640 krónur en til vara 1.197.700 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. nóvember 2002 til 25. desember 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 27. febrúar 1997 þegar hann missti stjórn á bifreið sinni á Miðnesheiði með þeim afleiðingum að hún valt. Hann var einn í bifreiðinni umrætt sinn og kom sér sjálfur á sjúkrahús í Keflavík til aðhlynningar. Samkvæmt vottorði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 14. september 2001, sem undirritað er af Gunnari B. Gunnarssyni sérfræðingi í bæklunarlækningum, var áfrýjandi þá með tvö skurðsár á hnakka og eitt á eyra og „nokkuð hressilega“ hafi blætt úr öðrum skurðinum á hnakka. Ekki er getið um aðra áverka, en tekið fram að hreyfingar hafi verið eðlilegar. Að lokinni skoðun hafi áfrýjandi fengið hálskraga og almennar ráðleggingar. Í sama vottorði kemur fram að áfrýjandi hafi næst leitað til heilsugæslu 4. mars 1999 vegna bakverkja og eftir það í sex skipti af sömu ástæðu, síðast 18. apríl 2001. Loks er getið um tvö skipti eftir það, sem áfrýjandi hafi vegna bakverkja leitað til sama sérfræðings, en að því verður vikið nánar síðar.
Í september 2005 leituðu aðilarnir í sameiningu eftir mati tveggja manna á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slyssins á heilsu áfrýjanda og var því lokið 17. nóvember sama ár. Stefndi fékk eftir það dómkvadda tvo menn til að meta sömu atriði og er matsgerð þeirra dagsett 18. júní 2006. Sjúkrasaga áfrýjanda og atvik málsins eru að öðru leyti nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, en bifreiðin, sem hann slasaðist í, hafi verið tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns hjá stefnda. Sá síðastnefndi vefengir ekki bótaábyrgð sína vegna slyssins, en krefst sýknu þar eð krafa áfrýjanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað 3. nóvember 2006.
II
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast allar kröfur samkvæmt XIII. kafla þeirra á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Málið var höfðað skömmu áður en tíu ár voru liðin frá slysinu, en í því reynir á hvort krafa áfrýjanda hafi verið fallin niður 3. nóvember 2006 vegna fyrirmæla 99. gr. umferðarlaga um fjögurra ára fyrningartíma. Við úrlausn um það annars vegar hvenær áfrýjandi fékk vitneskju um kröfu sína og hins vegar hvenær hann átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar verður ekki eingöngu litið til huglægrar afstöðu hans, en bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi til þess að áðurnefndu ákvæði umferðarlaga um fjögurra ára fyrningartíma verði beitt.
Í áðurnefndu örorkumati 17. nóvember 2005 var tekin afstaða til þess hvenær tímabært hefði verið að kveða upp úr um afleiðingar slyss áfrýjanda. Um það var vísað til þess að áfrýjandi hafi hlotið háorkuáverka með höfuðhöggi, en þekkt sé að afleiðingar slíks áverka geti komið fram löngu eftir slys. Í því ljósi var talið að í fyrsta lagi hafi verið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum frá slysdegi. Fyrirvari var gerður vegna höfuðhöggs, sem áfrýjandi hlaut og getið var um hér að framan, en engar frekari afleiðingar þess höggs eru í ljós leiddar og skoðun hjá sérfræðingi í heila- og taugalækningum sýndi ekkert sem benti til heilaskaða. Þessum niðurstöðum í örorkumati var ekki hnekkt í matsgerð dómkvaddra manna. Verður samkvæmt því lagt til grundvallar að unnt hefði verið að meta tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins á fyrri hluta ársins 2000.
Áfrýjandi kveðst ekki hafa haft vitneskju um kröfu sína fyrr en í fyrsta lagi að fengnu læknisvottorði 25. apríl 2005 og því sé skilyrði 99. gr. umferðarlaga, sem að þessu snýr, hvað sem öðru líður ekki uppfyllt til að telja megi fjögurra ára fyrningartíma hafa verið liðinn þegar málið var höfðað. Hann hafi ekki fengið vitneskju um fyrrnefnt læknisvottorð frá 14. september 2001 fyrr en á árinu 2004 og í því komi að auki fram að læknisaðgerðum hafi þá ekki verið lokið, þar sem til álita hafi komið að spengja lendhrygg hans. Hann hafi verið áfram í sjúkraþjálfun og á árinu 2004 verið sendur í segulómun á lendhrygg og til taugalæknis vegna minnisleysis.
Óumdeilt er að læknisvottorðið 14. september 2001 var samið að beiðni stefnda og sent honum, en ekki er fram komið af hvaða tilefni það var gert. Stefndi ber því ekki við að áfrýjandi hafi fengið það í hendur fyrr en sá síðastnefndi heldur sjálfur fram. Í samantekt í niðurlagi þessa vottorðs sagði meðal annars að á því stigi væri ekki unnt að bjóða upp á neina aðra meðferð en að reyna að halda baki áfrýjanda í góðu horfi með þjálfun og bólgustillandi lyfjum þegar þörf væri á. Yrði að telja líklegt að ástand hans væri orðið varanlegt, en það gæti þó skánað eða versnað. Færu einkenni á verri veg gæti hugsanlega komið til álita að gera spengingu neðst á lendhrygg, en einkenni á því stigi gæfu alls ekki tilefni til þess.
Þótt leggja verði til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki fengið þetta vottorð í hendur fyrr en alllöngu eftir að það var samið er til þess að líta að þar er meðal annars greint frá því að hann hafi leitað til viðkomandi læknis 14. maí og 31. júlí 2001. Í vottorðinu er nokkuð ítarleg lýsing á því, sem læknirinn greindi um ástand áfrýjanda hið fyrra sinn. Meðal annars segir að hægri ganglimur sé um einum sentimetra styttri en sá vinstri, en taugaviðbrögð í fótum séu eðlileg. Við þreifingu sé hann „með eymsli lágt í lendhryggnum.“ Ekki sé grunur um að taugar séu klemmdar, heldur sé um að ræða langvinnan bakverk af öðrum toga. Þá segir að „meðferðin sé eingöngu að hægt er að bjóða upp á bólgustillandi lyf og sjúkraþjálfun á tímabilum, auk þess má prófa að leiðrétta lengdarmismun á ganglimum. Hann fær beiðni um hælhækkun og þjálfunarbeiðni“. Um komu áfrýjanda í síðara skiptið segir að hann hafi dottið illa á bakið í fótboltakeppni og sé mjög aumur yfir lendhrygg. Röntgenmynd sýni ekki brot „en óvenju útrétta fettu í lendhryggnum.“ Hann hafi ekki leitað á stofnunina eftir það.
Íþróttaslys áfrýjanda í júlí 2001 og hugsanlegar afleiðingar þess skipta ekki máli fyrir niðurstöðu um það hvernig heilsufar hans vegna umferðarslyssins var metið eftir fyrri komu hans til sérfræðingsins. Skráning eftir þá heimsókn ber með sér að ástand áfrýjanda var þá í aðalatriðum svipað og verið hafði um langt skeið og verður ekkert ráðið af henni um að vænta mætti sérstakra breytinga, sem raktar yrðu til slyssins, umfram þær sveiflur í líðan sem verið höfðu. Það sem greinir í vottorðinu í heild um ástand áfrýjanda við útgáfu þess er að auki í aðalatriðum hið sama og læknirinn lýsti í vottorði sínu 25. apríl 2005, en þá hafði verið gerð segulómun á lendhrygg áfrýjanda án þess að nokkur ráðagerð kæmi fram um frekari aðgerðir af því tilefni. Þá liggur fyrir bréf til lögmanns áfrýjanda 26. júní 2001 frá sjúkraþjálfara, sem kvað áfrýjanda hafa nýlega hafið meðferð hjá sér, en í læknisvottorðinu 14. september 2001 sagði sem áður greinir að áfrýjandi hafi fengið þjálfunarbeiðni í tengslum við komu til sérfræðingsins 14. maí sama ár. Áfrýjandi hlutaðist ekki til um að læknirinn gæfi skýrslu fyrir dómi um samskipti þeirra á þeim tíma, sem hér um ræðir. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, hefur áfrýjandi ekki hnekkt þeim líkum sem fram eru komnar fyrir því að hann hafi ekki síðar en á miðju ári 2001 vitað um kröfu sína í merkingu 99. gr. umferðarlaga.
Á því tímamarki, sem síðast greinir, hafði áfrýjandi jafnframt tilefni til að hefjast handa við fullnustu kröfu sinnar með því að afla nauðsynlegra læknisvottorða og í framhaldi af því örorkumats. Leggja verður til grundvallar að þetta hefði verið unnt að gera áður en árið 2001 var á enda. Samkvæmt því hófst fyrningarfrestur kröfu áfrýjanda eftir 99. gr. umferðarlaga 1. janúar 2002. Krafa hans var því fyrnd þegar málið var höfðað. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 23. október sl., er höfðað með stefnu, birtri 3. nóvember 2006.
Stefnandi er Smári Guðmundsson, Hjallagötu 4, Sandgerði, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 3.294.640,- auk 2% ársvaxta frá 27. febrúar 1997 til 25. desember 2005, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að mati dómsins.
Málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi, þá tæplega 18 ára, missti stjórn á bifreiðinni Y-2026 er hann ók vestur Reykjanesbraut, við afleggjarann að Rockville á Miðnesheiði 27. febrúar 1997. Fór bifreiðin eina veltu til vinstri og hafnaði utan vegar á hjólunum. Stefnandi var í bílbelti, en fékk höfuðhögg, marðist á hálsi og fékk skurði á hnakka og vinstra eyra. Var gert að sárum hans á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og röntgenmyndir teknar af hálsliðum, sem sýndu engin áverkamerki. Fékk stefnandi hálskraga og almennar ráðleggingar og fór heim að því loknu. Bifreiðin Y-2026 var skylduvátryggð hjá stefnda, þ.m.t. slysatryggingu fyrir ökumann bifreiðarinnar.
Samkvæmt áverkavottorði Gunnars B. Gunnarssonar bæklunarsérfræðings, er hann ritaði 14. september 2001, leitaði stefnandi á heilsugæslu 4. mars 1999 vegna bakverkja. Við taugaþanspróf fékk hann verki við 60 gráður báðum megin, en ekki var talin truflun á skyni. Voru honum gefin bólgustillandi lyf. Næst kom stefnandi á heilsugæslu vegna bakverkja 12. ágúst 1999 og var þá stífur í bakinu og mjög aumur yfir réttivöðvum í mjóbaki, sérstaklega vinstra megin. Röntgenmyndir voru teknar af lendhrygg og sýndu þær væga stöðuskekkju, en engin áverkamerki. Fékk hann bólgustillandi lyf og beiðni um sjúkraþjálfun. Aftur fékk stefnandi bólgustillandi lyf eftir vitjun á heilsugæslu 25. nóvember 1999.
Enn leitaði stefnandi á heilsugæslu vegna bakverkja 7. júní 2000, og hafði þá legið rúmfastur í byrjun vikunnar vegna versnandi bakverkja eftir lyftur í vinnunni. Fékk hann bólgustillandi lyf. Aftur kom hann á heilsugæslu 18. desember 2000 vegna bakverkja frá slysinu. Hafði hann þá verið hjá sjúkraþjálfara, en var versnandi. Við skoðun læknis var hann aumur yfir réttivöðvum á lend og brjósthryggjarsvæði. Fékk sem áður bólgustillandi lyf og ráðleggingar um að halda æfingum áfram.
Næst kom stefnandi á heilsugæsluna 10. janúar 2001. Hafði hann þá daginn áður verið á fótboltaæfingu og var slæmur í baki. Þreifieymsli voru yfir brjóstliðum, sem leiddu út í herðablöð. Fékk hann bólgustillandi lyf og nýja sjúkraþjálfunarbeiðni. Enn kom stefnandi á heilsugæsluna 18. apríl 2001, kveðst þá hafa verið búinn að vera með bakverki í tvo daga, eftir að hafa fengið sting í bakið á fótboltaæfingu. Var honum ráðlagt að sjá til, ganga og fara varlega næstu vikur.
Stefnandi leitaði síðan til Gunnars B. Gunnarssonar læknis, 14. maí 2001, og kvaðst hafa verið slæmur í baki frá slysinu 1997. Lýsti hann verkjum sem sitji lágt í lendhrygg og geisli einstaka sinnum út í mjaðmakambinn. Álit læknisins var að langvinnur bakverkur stefnanda væri af öðrum toga en vegna klemmdra tauga, og því aðeins hægt að bjóða upp á bólgustillandi lyf og sjúkraþjálfun í tímabilum. Í vottorði læknisins kemur fram að stefnandi hafi enn leitað á heilsugæsluna 31. júlí 2001, eftir að hafa dottið illa á bakið á fótboltaæfingu. Var hann þá sendur í röntgenmyndatöku, sem sýndi engin brot, en óvenju útrétta fettu í lendhryggnum. Fékk stefnandi bólgustillandi lyf og verkjalyf.
Í samantekt áverkavottorðsins telur læknirinn að um króníska bakverki sé að ræða í kjölfar umferðarslyssins. Hvergi sé getið um bakverki stefnanda fyrir slysið og því verði að teljast líklegt að þeir hafi byrjað við slysið. Enn fremur segir þar: „Á þessu stigi málsins er ekki hægt að bjóða upp á neina ákveðna meðferð, annað en að reyna að halda bakinu í góðu horfi með þjálfun og í tímabilum bólgustillandi þegar hann er slæmur. Vegna þess að þetta hefur lítið skánað þrátt fyrir að fjögur ár séu liðin frá slysinu verður að teljast líklegt að þetta sé varanlegt ástand, getur þetta þó skánað, en einnig versnað og fari einkenni á verri veg gæti hugsanlega komið til greina að gera spengingu neðst í lendhrygg, en einkenni nú gefa alls ekki tilefni til þess.“
Áverkavottorðið var sent starfsmanni stefnda, en barst stefnanda löngu síðar, að því er segir í stefnu.
Samkvæmt síðari vottorðum sama læknis, frá 20. september 2004 og 25. apríl 2005, kemur fram að stefnandi leitaði á ný til læknisins 26. ágúst 2004. Hafi stefnandi þá verið með töluverð óþægindi, og allt frá því hann lenti í bílslysinu 1997, aðallega frá baki , auk þess sem minnisleysi hafi háð honum. Í síðara vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi verið í þjálfun hjá einkaþjálfara og gangi vel, almennt sé hann í betra ástandi en sé þó enn töluvert viðkvæmur ef hann reynir eitthvað á sig. Líklegt sé að ástandið sé orðið varanlegt, þó viðbúið sé að einkennin sveiflist nokkuð. Segir þar að ekki sé hægt að bjóða upp á aðra meðferð en gert hafi verið. Vegna kvörtunar um minnisleysi leitaði stefnandi til heila- og taugasérfræðings 27. september 2004. Í vottorði sérfræðingsins kemur fram að ekkert bendi til heilaskaða, en einkenni séu af þeirri tegund sem sjáist við streituálag og breytt lífskjör.
Lögmaður stefnanda og hið stefnda félag óskuðu sameiginlega eftir örorkumati fyrir stefnanda 5. september 2005, og voru fengnir til verksins Sigurjón Sigurðsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. Er matsgerð þeirra dagsett 17. nóvember 2005. Er þar haft eftir stefnanda að eftir slysið hafi hann verið mjög stífur og stirður um allan hrygginn, mest fyrstu vikuna, en síðan farið batnandi og því haldið að hann myndi lagast. Fljótlega eftir slysið hafi hann þó farið að finna fyrir verkjum vinstra megin í mjóbakinu og yfir vöðvana þar og stífnað þar upp við áreynslu. Þrátt fyrir þetta hafi hann ekkert leitað til lækna fyrr en árið 1999. Sérstaklega spurður hvers vegna hann hafi ekki leitað læknis aftur svaraði stefnandi því til að hann hafi hvort eð er alltaf verið með verki frá hnjám og ökklum og ekki talið ástæðu til að kvarta. Þá hafi hann einnig vonað að þetta lagaðist. Matsmenn töldu að samband bakeinkenna stefnanda við slysið væri óljóst, en það gæti staðist að hann hafi fengið einkenni frá baki við slysið, þar sem um háorkuslys hafi verið að ræða. Ljóst sé og að bakeinkenni geti stafað af öðrum orsökum. Þá segja matsmenn: „Við mat á því hvenær tímabært var að leggja mat á afleiðingar slyssins líta matsmenn einkum til að hér er um að ræða háorkuáverka með höfuðhöggi. Þekkt er að afleiðingar höfuðáverka geta komið fram löngu eftir slys og í því ljósi telja matsmenn að í fyrsta lagi hafi verið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum.“
Að öðru leyti voru niðurstöður matsmanna þær að tímabundin óvinnufærni stefnanda hafi verið tveir dagar, þjáningatímabil þrír mánuðir, varanlegur miski 15 stig og varanleg örorka 15%.
Stefndi féllst ekki á niðurstöður matsgerðarinnar og óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til þess að meta afleiðingar umferðarslyssins fyrir stefnanda. Matsmenn voru dómkvaddir Sigurður Thorlacius læknir og Jörundur Gauksson lögmaður. Er matsgerð þeirra dagsett 18. júní 2006. Þar er einnig haft eftir stefnanda að hann hafi allur verið stífur eftir slysið og stífleikinn ekkert frekar verið í bakinu en annars staðar, t.d. í höfðinu. Hann hafi notað hálskragann í nokkra daga og lokið við skammtinn af bólgueyðandi lyfjum, en ekki leitað frekar til læknis fyrr en tveimur árum eftir slysið, eða 4. mars 1999. Þá hafi hann verið óvenju slæmur í bakinu. Dregið hafi úr verkjum í hálsinum, en eftir staðið verkir í mjóbakinu. Þá segir í matsgerðinni, að þar sem ekki liggi fyrir nægilega skýrar upplýsingar um yngri óhöpp og engar um fyrri sjúkdóma telji matsmenn að orsakasamhengi sé milli slyssins og einkenna stefnanda frá hálshrygg og mjóbaki. Telja matsmenn að ekki hafi verið að vænta frekari bata þremur mánuðum eftir slysið, og byggi þeir það á því um hvers konar áverka sé að ræða og hefðbundnum tíma fyrir þá að gróa.
Við spurningu í matsbeiðni hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins, er svar matsmanna eftirfarandi: „Matsmenn telja að tímabært sé að meta afleiðingar slyssins og ekki hafi verið að vænta frekari bata þremur mánuðum eftir slysið.“
Aðrar niðurstöður matsmanna voru að þjáningatímabil stefnanda var metið tveir dagar, varanlegur miski 8 stig og varanleg örorka 15%.
Með bréfi 23. júní 2006 tilkynnti stefndi lögmanni stefnanda að skaðabótakrafa stefnanda vegna bílslyssins 27. febrúar 1997 væri fyrnd samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Lögmaður stefnanda mótmælti afstöðu stefnda og höfðaði mál þetta til heimtu bóta vegna slyssins úr slysatryggingu ökumanns Y-2026 hjá stefnda.
Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum, svo og dómkvaddir matsmenn, Jörundur Gauksson og Sigurður Thorlacius. Vitnað verður til framburða þeirra, svo sem ástæða þykir til.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi reisir málsóknina á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en bíll stefnanda var tryggður lögboðinni slysatryggingu farþega og ökumanns hjá stefnda. Stefndi hafi og viðurkennt bótaábyrgð á umferðarslysinu.
Bendir stefnandi á að vitneskja um alvarlegar afleiðingar slyssins fyrir hann hafi legið fyrir hjá stefnda í september 2001, er stefndi fékk í hendur áverkavottorð Gunnars B. Gunnarssonar læknis. Í niðurlagi vottorðsins komi reyndar skýrt fram að ekki sé ljóst hverjar varanlegar afleiðingar slyssins séu og læknismeðferð sé ekki lokið. Þrátt fyrir það hafi stefndi hvorki látið stefnanda né lögmann hans vita af vottorðinu, fyrr en eftir beiðni 13. júlí 2004.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 18. júní 2006 telji matsmenn að tímabært sé að meta afleiðingar slyssins og ekki hafi verið að vænta frekari bata þremur mánuðum eftir slysið. Í matsgerðinni komi þannig ekki fram að meta hafi átt afleiðingar slyssins þremur mánuðum eftir það, enda sé það með öllu útilokað þar sem læknismeðferð hafi ekki verið lokið og engar upplýsingar legið fyrir um varanlegar afleiðingar slyssins.
Að áliti stefnanda hefjist fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrst þegar bæði skilyrði greinarinnar séu uppfyllt, þ.e. hið huglæga skilyrði um vitneskju hins slasaða um varanlegar afleiðingar slyssins og bótarétt sinn, og hið hlutlæga skilyrði um hann eigi þess kost að setja fram kröfu á grundvelli þeirrar vitneskju. Síðara skilyrðið sé oftast ekki fyrir hendi fyrr en mat á varanlegri örorku liggi fyrir. Túlkun stefnda um að fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi hafist þegar þrír mánuðir voru liðnir frá slysi stefnanda sé í andstöðu við skýrt orðalag ákvæðisins, enda ljóst að enginn tjónþoli sendi kröfubréf til vátryggingafélags þremur mánuðum eftir slys og ekkert vátryggingafélag greiði skaðabætur fyrir miska og örorku þremur mánuðum eftir slysdag. Geti það ekki verið sá tímapunktur þegar hann eigi þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar.
Stefnandi áréttar að hann hafi verið til meðferðar hjá læknum og sjúkraþjálfara frá 1999 2005. Hann hafi jafnframt undirgengist tvö örorkumöt, 17. nóvember 2005 og 18. júní 2006. Telur stefnandi að honum hafi ekki verið unnt að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr en árið 2005, eins og kröfubréf lögmanns hans frá 25. nóvember 2005 beri vitni um.
Samkvæmt ofanrituðu byggir stefnandi á því að hann hafi ekki haft vitneskju um kröfu sína og ekki átt þess kost að leita fullnustu hennar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrr en í fyrsta lagi eftir lokavottorð Gunnars B. Gunnarssonar læknis, frá 25. apríl 2005, en í síðasta lagi eftir að matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir 18. júní 2006. Því sé krafa stefnanda ekki fyrnd, en skaðabótakröfur fyrnist á 10 árum.
Um bótaútreikning og bótafjárhæð vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Krafan sé reiknuð út samkvæmt lánskjaravísitölu í nóvember 2005 (4.528 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga, og sundurliðist þannig:
|
1. Þjáningabætur 2 x 1.050 |
kr. 2.100,- |
|
2. Varanlegur miski 8% af 5.978.000,- |
kr. 478.240,- |
|
3. Varanleg örorka 15% af 1.876.200,- x 10 |
kr. 2.814.300,- |
|
Samtals |
kr. 3.294.640,- |
Laun til útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku taki mið af því að stefnandi hafi starfað sem verkamaður hjá Nesfiski hf. í Garði um 8 mánaða skeið þegar hann slasaðist og hafi hann unnið þar áfram í 4 mánuði eftir slysið. Mánaðarlaun hans hafi verið u.þ.b. 147.500 krónur og árslaun með 6% framlagi því 1.876.200 krónur. Þau árslaun séu álíka há og meðallaun verkamanna samkvæmt skýrslum kjararannsóknarnefndar.
Vaxtakrafa stefnanda byggist á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Vaxta er krafist frá slysdegi, en dráttarvaxta frá 25. desember 2005 samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda bréflega um greiðslu bóta. Hafi þá öll gögn legið fyrir hjá stefnda til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og krafa hans um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Er sýknukrafa hans á því byggð að bótakrafa stefnanda hafi fallið niður fyrir fyrningu samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 löngu áður en mál þetta var höfðað. Óumdeilt sé að um fyrningu á bótakröfu stefnanda fari eftir tilvitnuðu ákvæði umferðarlaga, en þar segi að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla (fébótakafla) laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Samkvæmt dómvenju beri að beita hlutlægum mælikvarða á það hvenær tjónþoli mátti gera sér grein fyrir kröfu sinni og gat leitað fullnustu hennar, enda myndi önnur regla þýða að tjónþoli réði því í reynd sjálfur hvenær fyrningarfrestur hæfist. Við mat á upphafi fyrningarfests skipti því ekki máli hvenær stefnandi hefjist handa um að leita sér lækninga, láti meta afleiðingar slyssins og krefjist bóta, heldur hvenær þess hafi fyrst verið kostur.
Í báðum fyrirliggjandi matsgerðum um afleiðingar slyssins komi fram að stefnandi hafi fengið bakeinkenni strax eða mjög fljótlega eftir slysið, en hafi harkað af sér og haldið að það myndi lagast. Það hafi ekki gerst og hafi stefnandi verið með viðvarandi bakeinkenni allt þar til hann leitaði loks læknis tveimur árum eftir slysið, og síðan áfram, allt til þess er aflað var matsgerðar á varanlegum afleiðingum þess. Bendi ekkert til þess að nauðsyn hafi borið til þess að draga svo mjög að leita læknis og staðreyna varanlegar afleiðingar umrædds slyss. Þvert á móti liggi fyrir mat dómkvaddra matsmanna þess efnis að ekki hafi verið að vænta frekari bata á einkennum stefnanda þremur mánuðum eftir slysið og að þá hafi verið tímabært að meta afleiðingar þess. Hafi því mati ekki verið hnekkt. Þá telur stefndi að ekkert bendi heldur til þess að stefnandi hafi ekki strax mátt leita mats á varanlegum afleiðingum slyssins, eða að einhverjar nýjar eða frekari afleiðingar af þess völdum hafi síðar komið fram. Bakeymsli stefnanda í kjölfar fótboltaiðkana árið 2001 og slæms falls á bakið í fótboltakeppni stafi ekki af bílslysinu, né bendi nokkuð til þess að kvartanir stefnanda um minnisleysi árið 2004 megi rekja til slyssins eða að stefnandi hafi yfirleitt orðið fyrir nokkrum varanlegum skaða af völdum höfuðáverka.
Af framansögðu þykir stefnda ljóst að stefnandi hafi strax mátt gera sér grein fyrir kröfu sinni og átt þess fyrst kost að láta staðreyna hana og leita fullnustu hennar á árinu 1997, þ.e. þremur mánuðum eftir slysið eða í maílok 1997, þegar ekki var lengur að vænta frekari bata. Fjögurra ára fyrningarfrestur á bótakröfu hans hafi því byrjað að líða frá og með ársbyrjun 1998. Samkvæmt því hafi krafa hans verið löngu fyrnd er stefna var birt í máli þessu, 3. nóvember 2006. Hið sama gildi þótt lagt væri til grundvallar að ekki hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins fyrr en að liðnum þremur árum, þ.e. í febrúar 2000, eins og matsmennirnir Ingvar Sveinbjörnsson og Sigurður Sigurjónsson hafi talið rétt að miða við. Í því tilviki hafi fyrningarfresturinn hafist í ársbyrjun 2001 og krafan fallið niður fyrir fyrningu í árslok 2004. Hins vegar hafi ekkert bent til þess að stefnandi hafi fengið varanlegan skaða af völdum höfuðáverka, og fái því ekki staðist sú ályktun ofangreindra matsmanna, að fyrst hafi verið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum, þar sem þekkt sé að afleiðingar höfuðáverka geti komið fram löngu eftir slys.
Stefndi mótmælir stefnufjárhæð tölulega og telur að lækka beri hana verulega. Slysið hafi orðið í gildistíð skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru fyrir breytinguna með lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí það ár. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1993 beri að ákvarða bætur til stefnanda fyrir varanlega örorku á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. þeirra, en ekki á árslaunagrundvelli, eins og krafist sé. Bendir stefndi á að stefnandi hafi verið 18 ára gamall námsmaður, sem hafi tekið sér stutt fjáröflunarfrí frá námi þegar slysið hafi orðið, en verið á skólabekk fyrir og eftir slysið. Hann hafi lokið grunnskóla árið 1995 og síðan verið í framhaldsskóla til áramóta 1996/1997, þá gert nokkurra mánaða hlé til að afla tekna, en sest aftur á skólabekk 1997 og lokið stúdentsprófi árið 2002. Ef hins vegar ætti að ákvarða örorkubætur á árslaunagrundvelli, telur stefndi að árslaunaviðmiðun stefnanda sé of há, í ljósi stöðu hans og vinnutekna fyrir slysið.
Stefndi mótmælir einnig vaxtakröfum stefnanda. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905, og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi, eða a.m.k. ekki frá fyrri tíma en mánuði eftir að mat hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrir í júní 2006.
Niðurstaða
Ekki er um það ágreiningur að mál þetta eigi undir XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 99. gr. þeirra laga fyrnast allar bótakröfur samkvæmt þeim kafla á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitnesku um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Heldur stefnandi því fram að hann hafi ekki haft vitneskju um kröfu sína og ekki átt þess kost að leita fullnustu hennar fyrr en í fyrsta lagi eftir lokavottorð Gunnars B. Gunnarssonar læknis, frá 25. apríl 2005. Því sé krafa hans ekki fyrnd. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að stefnandi hafi strax mátt gera sér grein fyrir kröfu sinni og að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins þremur mánuðum eftir það, í maílok 1997. Fjögurra ára fyrningarfrestur hafi því byrjað að líða frá og með ársbyrjun 1998 og krafan því löngu fyrnd, er stefna var birt í málinu.
Í niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna, Jörundar Gaukssonar lögmanns og Sigurðar Thorlacius læknis, frá 18. júní 2006, kemur fram að matsmenn telji að orsakasamhengi sé á milli slyss stefnanda og einkenna frá hálshrygg og mjóhrygg. Spurðir um stöðugleikatímapunkt, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, svara matsmenn því til að ekki hafi verið að vænta frekari bata þremur mánuðum eftir slysið. Í matsbeiðni var jafnframt eftirfarandi spurning lögð fyrir dómkvadda matsmenn, merkt nr. 7: „Hvenær var tímabært að meta afleiðingar slyssins?“ Spurningunni svara matsmenn þannig: „Matsmenn telja að tímabært sé að meta afleiðingar slyssins og ekki hafi verið að vænta frekari bata þremur mánuðum eftir slysið.“
Við yfirheyrslu fyrir dómi voru matsmenn sérstaklega inntir eftir því hvað fælist frekar í svari þeirra við spurningu nr. 7, og svöruðu þeir því til að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins á matsfundi, 13. mars 2006, en ítrekuðu jafnframt að frekari bata hafi ekki verið að vænta þremur mánuðum eftir slys.
Í matsgerð frá 17. nóvember 2005, sem aðilar stóðu sameiginlega að og unnin var af Ingvari Sveinbjörnssyni hrl. og Sigurjóni Sigurðssyni lækni, töldu matsmenn ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu matsbeiðenda hvort heilsufar stefnanda væri orðið stöðugt og hvenær það hafi orðið stöðugt. Vísuðu þeir til þess að slysið hafi orðið fyrir gildistöku breytinga á skaðabótalögum á árinu 1999. Hins vegar töldu þeir að í fyrsta lagi hafi verið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum frá slysi. Litu matsmenn þá einkum til þess að hér hafi verið um að ræða háorkuáverka með höfuðhöggi og þekkt sé að afleiðingar höfuðáverka geti komið fram löngu eftir slys.
Með lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí það ár, var m.a. gerð sú breyting á 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að í stað orðalagsins „þar til ekki er að vænta frekari bata“ segir nú „þar til heilsufar hans er orðið stöðugt“. Af lögskýringargögnum verður ekki ráðið að í þessari orðalagsbreytingu hafi falist efnisleg breyting á ákvæðinu.
Þótt dómkvaddir matsmenn telji í matsgerð sinni frá 18. júní 2006 að ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá stefnanda þremur mánuðum eftir slysið, gat stefnanda tæpast verið kunnugt um þá staðreynd. Hins vegar er ekkert fram komið sem skýrt getur og réttlætt nægilega ástæðu þess að stefnandi dró það jafn lengi og raun varð á að leita sér lækninga og staðreyna afleiðingar slyssins, sérstaklega í ljósi þess að hann bjó við viðvarandi bakverki, sem hann rakti til slyssins. Af gögnum málsins verður heldur ekki ráðið að neinar breytingar sem máli skipti hafi orðið á heilsu hans, eftir að hann leitaði sér læknisaðstoðar, að liðnum rúmum tveimur árum frá slysdegi.
Dómurinn telur einsýnt að stefnandi hafi nokkuð fljótlega mátt gera sér grein fyrir því að hann bæri menjar eftir slysið og ætti kröfu á hendur stefnda vegna afleiðinga þess. Í allra síðasta lagi hlaut honum að vera það kunnugt 4. mars 1999, er hann leitaði læknisaðstoðar eftir slysið, þá óvenju slæmur í bakinu, eins og haft er eftir honum í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Af áverkavottorði læknis má ráða að stefnandi hafi a.m.k. tvisvar síðar á árinu 1999 leitað læknisaðstoðar vegna bakverkja, og í bæði skiptin fengið bólgustillandi lyf, auk beiðni um sjúkraþjálfun.
Eins og að ofan greinir svöruðu dómkvaddir matsmenn þeirri spurningu matsbeiðanda hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins á þá leið, að þeir teldu að það væri tímabært á matsfundi, 13. mars 2006. Þótt fallast megi á að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins, getur dómurinn þó ekki á það fallist að af svari matsmanna megi draga þá ályktun að í því felist svar við því hvenær í fyrsta lagi hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, enda var spurning matsbeiðanda ekki þannig orðuð. Ekki verður heldur á það fallist að í svari matsmanna felist að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins á svokölluðum stöðugleikatímapunkti, sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, í þessu tilviki að liðnum þremur mánuðum frá slysdegi. Áverkavottorð læknis frá 25. apríl 2005 getur heldur ekki markað upphaf þess tíma sem stefnandi átti þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar, enda verður af því vottorði ekki annað ráðið en að ástand stefnda og meðferð sé hin sama og fram kom í fyrri vottorðum læknisins.
Þar sem svar dómkvaddra matsmanna samkvæmt ofansögðu verður ekki talið hafa þýðingu við mat á því hvenær í fyrsta lagi hafi verið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyss stefnanda, lítur dómurinn svo á að ekki hafi verið hnekkt niðurstöðu fyrra örorkumats frá 17. nóvember 2005 um það atriði, en samkvæmt því var í fyrsta lagi tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins að liðnum þremur árum frá slysdegi. Verður það tímamark því lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Samkvæmt því, sbr. og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, hófst fyrningarfrestur á bótakröfu stefnanda í ársbyrjun 2001 og féll krafan niður fyrir fyrningu í árslok 2004. Af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu. Allur gjafsóknarkostnaður, samtals 703.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Í þeirri fjárhæð felst þóknun lögmanns stefnanda, Tómasar Hrafns Sveinssonar hdl., sem ákveðst hæfileg 700.000 krónur, og 3.900 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Smára Guðmundssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, alls að fjárhæð 703.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði.