Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2009


Lykilorð

  • Ábyrgð
  • Ógilding samnings


                                                        

Fimmtudaginn 11. mars 2010.

Nr. 403/2009.

Íslandsbanki hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Jóni Auðuni Jónssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Ábyrgð. Ógilding samnings.

Í banki krafði J um greiðslu á rúmlega sex milljónum króna á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar er J hafði ritað undir vegna yfirdráttarheimildar á reikningi sem stofnaður var af G ehf. Sýknukrafa J var meðal annars reist á því að ekki hafi verið gætt ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem Í var aðili að, er J tókst ábyrgðina á hendur. Talið var að þar sem eigandi reikningsins hafi verið einkahlutafélag hafi Í ekki verið skylt samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi að meta greiðslugetu G ehf. vegna þeirrar ábyrðar er J gekkst í. J væri því bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu sem hann undirritaði og engar forsendur væru til að víkja henni til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Var Krafa Í því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. október 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram gekkst stefndi 28. maí 2002 undir sjálfskuldarábyrgð ásamt fleirum vegna allt að 7.000.000 króna yfirdráttarheimildar á reikningi Hjördísar Ingvarsdóttur nr. 5858 hjá áfrýjanda. Lýsir stefndi því svo í skýrslu fyrir héraðsdómi að einungis hafi átt að vera þörf fyrir þessa yfirdráttarheimild í stuttan tíma. Í árslok 2004 mun áfrýjandi hafa krafist uppgjörs þar sem skuldin var enn ógreidd. Á þeim tíma bar stefndi ekki fyrir sig að áfrýjandi hefði vanrækt að fara eftir fyrirmælum samkomulags „um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“ og að af þeim sökum mætti draga gildi ábyrgðar hans í efa. Þess í stað gekkst hann að nýju í ábyrgð fyrir 6.200.000 krónum 27. desember 2004 vegna yfirdráttarheimildar, nú vegna reiknings nr. 5612 á nafni nýstofnaðs einkahlutafélags G. Alfreðs, sem síðar mun hafa breytt um nafn og heiti nú Húsþak ehf. Gat stefnda ekki dulist að tilgangur þessa var að greiða upp skuldina á reikningi nr. 5858 og var það gert fáum dögum síðar. Þar sem eigandi reiknings nr. 5612 var einkahlutafélag var áfrýjanda ekki skylt samkvæmt ofangreindu samkomulagi að meta greiðslugetu hans vegna þeirrar ábyrgðar sem stefndi gekkst í. Af framangreindu leiðir að stefndi er bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu sem hann undirritaði 27. desember 2004 og eru engar forsendur til að víkja henni til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verður krafa áfrýjanda því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Jón Auðunn Jónsson, greiði áfrýjanda, Íslandsbanka hf., 6.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. október 2007 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2009.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. maí 2009, var þingfest 17. desember 2008. Stefnandi er Nýi Glitnir banki hf., Kirkjusandi, Reykjavík, nú Íslandsbanki hf. Stefndi er Jón Auðunn Jónsson, Erluási 48, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 6.200.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. október 2007 til greiðsludags. Þá er og krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu, auk virðisaukaskatts. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og leggist við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti.

I.

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig í stefnu að hinn 20. desember 2004 hafi Húsþak ehf. stofnað tékkareikning nr. 5612 við útibú stefnanda í Hafnarfirði. Hinn 3. október 2007 hafi verið felld niður heimild reikningseiganda til yfirdráttar á reikningum og reikningnum lokað, en staða reikningsins hafi þá verið neikvæð um 11.568.828 krónur. Áður hafi stefnda, sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, verið send loka­aðvörun þar sem fram kom að reikningurinn væri í vanskilum og reikningslokun yfirvofandi. Hafi sjálfskuldarábyrgð því verið gjaldfelld miðað við 28. september 2007. Lokun reikningsins hafi verið tilkynnt reikningshafa 3. október 2007.

Stefndi kveður upphaf máls þessa vera það að hann hafi hinn 28. maí 2002 skrifað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 5858. Eigandi reikningsins hafi verið nágranni stefnda, Hjördís Ingvarsdóttir, og hafi  fjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar verið 7.000.000 króna. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið framkvæmt greiðslumat hjá reikningseigandanum né upplýsingar verið kynntar um fjárhagsstöðu hans. Um ástæðu þess að stefndi hafi skrifað undir téða sjálfskuldar­ábyrgðar­yfirlýsingu segir stefndi að Hjördís og maður hennar, Gústav Alfreðsson, hafi verið nágrannar stefnda til nokkurra ára og með þeim hafi tekist góður vinskapur. Hafi nágrannar stefnda virst á yfirborðinu standa vel fjárhagslega. Á árinu 2001 hafi þau orðið fyrir því óláni að fyrirtæki þeirra brann og þau þurft að koma sér fyrir í nýju húsnæði. Hafi þetta leitt til þess að Gústav hafi verið tekjulaus í marga mánuði og töluverður kostnaður fallið til við enduruppbyggingu fyrirtækisins. Þau hjónin hafi vantað fjármuni til þess að ljúka endurbyggingunni og hafi stefndi litið svo á að einungis væri um tímabundið ástand að ræða þar til reksturinn kæmist aftur í gang, auk þess sem þau hafi átt von á bótagreiðslu frá vátryggingafélagi vegna brunans. Hjónin hafi leitað til útibús stefnanda í Hafnarfirði og fengið vilyrði fyrir láni gegn því að vera með trausta ábyrgðarmenn. Í framhaldinu hafi hjónin leitað til stefnda um að gangast í sjálfskuldarábyrgð, sem hafi eingöngu átt að vara í nokkra mánuði. Til hafi staðið að fyrirtæki stefnda, Lögmenn Thorsplani s.f., tæki á sig þessa ábyrgð, en það hafi ekki getað gengið eftir þar sem samþykki meðeiganda stefnda hafi þurft að koma til og stefndi þá skrifað einn undir sjálfskuldarábyrgðina. Þar sem lítið hafi verið greitt inn á skuld sem myndast hafði á tékkareikningnum hafi bankinn gert kröfu um breytingar sem hafi m.a. leitt til þess að Gústav hafi greitt inn á skuldina og fengið að svo búnu samþykki bankans fyrir því að færa skuld þá sem myndast hafði á tékkareikningnum yfir á nýstofnað félag sitt sem bar heitið G. Alfreðs. Hins vegar hafi stefndi ekki losnað undan ábyrgðum við það heldur hafi þess verið krafist að stefndi skrifaði upp á nýja ábyrgðaryfirlýsingu, en að öðrum kosti yrði hann að greiða upp skuldina. Hafi stefndi því nánast verið þvingaður til að skrifa undir nýja yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð.

Hinn nýi reikningur, nr. 5612, hafi svo verið stofnaður 22. desember 2004 (sic) og stefndi skrifað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 27. desember 2004, en sama dag hafi sá reikningur verið yfirdreginn um sjö milljónir og sú fjárhæð flutt á fyrrnefndan tékkareikning Hjördísar. Síðan þá hafi reikningur nr. 5612 ekkert verið notaður að undanskilinni millifærslu 28. desember 2004 og eftir það einungis hlaðist á hann vextir. Ekki hafi heldur verið framkvæmt greiðslumat af hálfu bankans í tilefni af stofnun þessa reiknings og sjálfskuldarábyrgðarinnar.

II.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi hinn 27. desember 2004 undirritað, ásamt Gústav Alfreðssyni, fyrirsvarsmanni Húsþaks ehf., og Hjördísi Ingvarsdóttur, eiginkonu hans, yfirlýsingu um að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar allt að fjárhæð 6.200.000 kr. ásamt vöxtum og kostnaði vegna reiknings nr. 5612. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá öðrum ábyrgðarmönnum skuldarinnar og Húsþak ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 6. maí 2008. Ekkert hafi fengist greitt upp í kröfu þessa og allar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafi reynst árangurslausar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málskostnaðarkrafa er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

III.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að í hvorugu þeirra tilvika er hann gekkst í ábyrgðir vegna yfirdráttar á tékkareikningi hafi verið framkvæmt mat á greiðslugetu skuldarans né hafi stefndi verið upplýstur um skuldastöðu hans af hálfu bankans. Ábyrgðarmaður leysi bankann ekki undan þeirri skyldu að framkvæma greiðslumat með því að haka ekki við beiðni um greiðslumat í ábyrgðaryfirlýsingu. Samkvæmt 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem hafi tekið gildi 1. nóvember 2001 og stefnandi sé aðili að, sé fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 kr. Ábyrgðarmaður hafi því í raun ekki forræði á að gefa yfirlýsingu um greiðslumat þegar ábyrgðarfjárhæðin sé hærri en fyrrnefnd tala. Hafi því legið fyrir skilyrðislaus skylda á stefnanda að framkvæma greiðslumatið.

Að þessu virtu telur stefndi ljóst að yfirlýsing sú, er hann undirritaði 28. maí 2002, vegna yfirdráttar á tékkareikningi Hjördísar Ingvarsdóttur nr. 5858, þar sem hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar hafi numið 7.000.000 króna, haldi ekki. Stefndi telur að með því að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt hjá reiknings­eigandanum og þar sem engar haldbærar upplýsingar hafi legið fyrir um fjárhagsstöðu hans, hafi stefnandi orðið uppvís að háttsemi er varði ógildingu á ábyrgðar­skuldbindingu stefnda. Þannig hafi stefnanda skilyrðislaust borið að framkvæma greiðslumat samkvæmt þeim reglum sem hann hafi undirgengist samkvæmt framan­greindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Stefndi telur að hann geti byggt á reglum líkt og um þriðja manns loforð væri að ræða. Stefndi hafi mátt treysta því að brot á reglunum hefðu í för með sér einhverjar réttarverkanir og í þessu tilviki ógildingu ábyrgðar. Þá verði jafnframt að telja að ef stefnandi hefði farið að settum reglum, og fyrir hefði legið greiðslumat, hefði stefnanda mátt vera það ljóst að niðurstaða matsins væri líkleg til að hafa áhrif á ákvörðun stefnda um að gangast í ábyrgð. Vandað greiðslumat þar sem fram komi heildstætt yfirlit yfir fjárhagsstöðu skuldara sé klárlega best til þess fallið fyrir væntanlegan sjálfskuldarábyrgðarmann að meta hugsanlega fjárhagslega áhættu sína af slíkum gjörningi. Af þessu verði stefnandi að bera hallann.

Stefndi heldur því fram að hann hafi í raun verið þvingaður til að gerast ábyrgðarmaður að tékkareikningi nr. 5612, sem G. Alfreðs ehf. hafi verið upphaflegur eigandi að. Af hálfu stefnda er því haldið fram að 3. gr. framangreinds samkomulags, um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, eigi því einnig við í því tilviki. Allt bendi til þess að hinn nýi tékkareikningur hafi verið stofnaður til að greiða niður skuld Hjördísar Ingvarsdóttur, þar sem aðeins tvær færslur eigi sér stað á hinum nýja reikningi, annars vegar á stofndegi sjálfskuldar­ábyrgðarinnar og hins vegar degi síðar. Umræddar færslur hafi þannig á engan hátt tengst atvinnurekstri aðalskuldara og stofnun reikningsins virðist hafa verið gerð í þágu Hjördísar og stefnanda. Telur stefndi því að stefnanda hafi, eins og á stóð, verið skylt að framkvæma greiðslumat, þar sem ábyrgðarfjárhæðin hafi numið hærri fjárhæð en 1.000.000 króna. Stefndi telur því að ábyrgð hans á framangreindum tékkareikningi sé ógildanleg.

Stefndi telur enn fremur að gera verði miklar kröfur til þeirra sem starfi í bankageiranum, enda séu þeir oft í yfirburðastöðu gagnvart viðsemjendum sínum. Það að láta hjá líða að framfylgja reglum sem eigi að vernda ábyrgðarmenn sérstaklega sé með öllu ólíðandi. Stefnandi verði hér að bera hallann af þeirri ákvörðun sinni að fylgja ekki þeim vönduðu vinnubrögðum sem hann hafi undirgengist með aðild sinni að samkomulaginu um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Annars sé vandséð að takast megi að öðrum kosti að ná fram því meginmarkmiði samkomulagsins, að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga geri sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir taki með því að undirgangast slíka ábyrgð.

Stefndi telur að samkomulagið staðfesti að í gildi sé sú viðskiptavenja að bankar og sparisjóðir framkvæmi mat á greiðslugetu einstaklings þegar ábyrgðar­skuldbinding sé hærri en 1.000.000 króna. Þannig hafi stefnandi ekki einvörðungu brotið reglu samkomulagsins í máli þessu heldur og orðið uppvís að háttsemi sem fari í bága við gilda viðskiptavenju. Með vísan til þessa og 36. gr. samningalaga sé ábyrgðarskuldbinding hans ógildanleg, enda verði að telja bersýnilega ósanngjarnt að stefnandi geti hagnast á því að reglum sé ekki fylgt, þannig að ábyrgðarmaðurinn sitji í súpunni. Stefndi hafi ekki á nokkurn máta hagnast eða notið góðs af umræddum lánveitingum, en stefnanda hafi hins vegar tekist að fá góðan ábyrgðarmann, fyrir það sem reyndist heldur dapur skuldari.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í máli nr. 163/2005 þar sem fallist hafi verið á ógildingarkröfu manns þar sem ekki hafi verið gætt ákvæða umrædds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Hafi að öllum atvikum virtum verið fallist á að víkja bæri til hliðar sjálfskuldarábyrgð með vísan til 36. gr. samningalaga. Telur stefndi sömu aðstöðu uppi í máli því sem hér er til úrlausnar hvað þetta varði og að víkja beri ábyrgðinni til hliðar.

Með vísan til framangreinds telur stefndi að framangreind ábyrgðar­skuldbinding hans sé ógild og því beri að sýkna hann í málinu.

                Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um ógilda samninga, forsendubrest, vanefndir sem og gagnkvæma tillitssemi. Þá er sérstaklega vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum. Þá er einnig byggt á samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

IV.

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 6.200.000 krónur á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem stefndi skrifaði undir hinn 27. desember 2004 vegna reiknings nr. 5612 sem stofnaður var 22. desember s.á. af fyrirtæki Gústavs Alfreðssonar, G. Alfreðs ehf., sem síðar fékk heitið Húsþak ehf.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem stefnandi er aðili að og tók gildi 1. nóvember 2001, er fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en einni milljón króna. Í 2. gr. téðs samkomulags segir að með sjálfskuldarábyrgð sé átt við það þegar einstaklingur gengst í ábyrgð fyrir annan einstakling. Skylda fjármála­fyrirtækis til að greiðslumeta skuldara getur samkvæmt þessu því ekki átt við þegar einstaklingur gengur í ábyrgð fyrir félag, eins og stefndi gerði með sjálfskuldarábyrgð sinni vegna reiknings nr. 5612.

Við úrlausn þessa máls verður hins vegar ekki litið framhjá forsögu málsins. Eins og rakið hefur verið gekkst stefndi í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 7.000.000 króna fyrir Hjördísi Ingvarsdóttur, eiginkonu Gústavs Alfreðssonar, hinn 28. maí 2002 vegna yfirdráttar á reikningi hennar nr. 5858. Stefnandi greiðslumat ekki skuldarann eins og honum var skylt samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Hinn 20. desember 2004 stofnaði Gústav áðurnefndan reikning nr. 5612 í nafni fyrirtækis hans, G. Alfreðs ehf. Lagt hefur verið fram í málinu yfirlit yfir reikning nr. 5612 þar sem fram kemur að viku síðar, hinn 27. desember, var reikningurinn yfirdreginn um 7.000.000 króna og fjárhæðin millifærð á reikning 5858, sem er eins og áður segir í eigu Hjördísar. Engar aðrar færslur eru á reikningi 5612 fram til þess að honum var lokað 3. október 2007, að því undanskildu að 28. desember 2004 lagði Hjördís 507.888 kr. inn á reikninginn og vextir hafa safnast á skuldina. Stefndi kveðst ekki hafa átt annarra kosta völ en að skrifa undir nýja sjálfskuldarábyrgð vegna reiknings nr. 5612, því ella hefði hann þurft að greiða upp skuldina á reikningi 5858. Fram hefur komið að stefndi hafi óskað eftir gögnum frá stefnanda vegna skuldar á  reikningi nr. 5858, en án árangurs.

Af forsögu málsins og þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu verður ekki annað ályktað en að reikningur nr. 5612 hafi eingöngu verið stofnaður af eiginmanni Hjördísar, í nafni fyrirtækis hans, í þeim tilgangi að losa Hjördísi undan persónulegri ábyrgð vegna yfirdráttar hennar á reikningi nr. 5858. Er því ekki fallist á að um tvo sjálfstæða og ótengda löggerninga sé að ræða, eins og haldið var fram af lögmanni stefnanda við aðalmeðferð málsins. Stefnandi lét eins og áður segir ekki greiðslumeta skuldara þegar stefndi gekkst í sjálfskuldarábyrgð vegna reiknings nr. 5858 og stefnandi getur ekki komið sér undan skyldum sínum samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga með tilfæringum eins og þeim sem hér um ræðir.  

Þegar litið er til framangreinds, atvika málsins og stöðu samningsaðila, telur dómurinn ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig sjálfskuldarábyrgð stefnda. Þykir því rétt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að víkja sjálfskuldarábyrgð stefnda til hliðar og fallast á kröfu hans um sýknu.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Jón Auðunn Jónsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Íslandsbanka hf.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.