Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 6. ágúst 2008. |
|
Nr. 421/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að í stað gæsluvarðhalds verði honum bönnuð för í sveitarfélagið [...] þar til afplánun dóms hefst, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „málsvarnarlauna skipaðs verjanda“.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 31. júlí 2008 var varnaraðili dæmdur í 4 ára fangelsi, meðal annars vegna brota gegn 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í dómi um gæsluvarðhald yfir varnaraðila 7. júlí 2008 í máli nr. 367/2008 talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. júlí 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stendur, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 16:00.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-709/2008, sem kveðinn var upp í dag, var dómfelldi X dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár. Eftir uppsögu dómsins tók dómfelldi sér lögbundinn áfrýjunarfrest.
Dómfelldi mótmælti gæsluvarðahaldskröfunni.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laganna er fullnægt til þess að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna. Ber því að fallast á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 16:00.