Mál nr. 329/2016
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Skuldajöfnuður
- Virðisaukaskattur
Í málinu krafðist þrotabú GM hf. riftunar á sex greiðslum GM hf. til Í sem fengust með skuldajöfnuði á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þannig að inneign sem félagið átti vegna mismunar á innskatti og útskatti var greidd upp í skuld vegna ógreiddra opinberra gjalda þess. Þá krafðist þrotabúið endurgreiðslu heildarfjárhæðar greiðslnanna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skuldir GM hf., sem Í hafði fengið greiddar með skuldajöfnuði, nytu engrar sérstöðu þótt þær hefðu átt rætur að rekja til virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, enda skapaðist ekki að lögum eignarréttur Í yfir fjármunum þess, sem bæri skyldu til að standa skil á slíkum gjöldum, heldur kröfuréttur Í á hendur gjaldandanum, sem þess utan stæði við gjaldþrotaskipti í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Líta yrði til þess að 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 geymdi sérstaka reglu um heimild Í til að beita við þessar aðstæður skuldajöfnuði við gjaldanda. Ákvæðið leiddi á hinn bóginn ekki til þess, hvorki samkvæmt orðanna hljóðan né eftir viðteknum aðferðum við lögskýringar, að Í gæti á grundvelli ákvæðisins staðið í öðrum sporum en sérhver annar, sem neytt hefði lögmætrar heimildar til skuldajafnaðar í aðdraganda gjaldþrotaskipta á búi gagnaðila. Gæti Í því ekki orðið undanþeginn ákvæðum 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 af þeirri ástæðu einni að hann hefði tekið til sín greiðslu úr hendi GM hf. með skuldajöfnuði eftir heimildinni í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, heldur gilti um Í jafnt sem aðra ákvæði 136. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem kröfur GM hf. um greiðslu samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 hefðu allar orðið til eftir frestdag, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, var fallist á kröfur þrotabús GM hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Markús Sigurbjörnsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins var bú GM framleiðslu hf. tekið til gjaldþrotaskipta 12. júní 2014 og er frestdagur við þau 6. mars sama ár. Fyrir liggur að eftir frestdag hafi ríkisskattstjóri tekið 14. mars 2014 til afgreiðslu virðisaukaskattskýrslur félagsins fyrir uppgjörstímabilin september og október 2013 og nóvember og desember 2013 og komist að þeirri niðurstöðu að innskattur þess, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, hafi numið hærri fjárhæð en útskattur, þannig að mismunurinn, samtals 1.916.160 krónur, kæmi til útborgunar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. sömu laga. Innheimtumaður ríkissjóðs, sem í þessu tilviki var sýslumaðurinn í Hafnarfirði, hafi 17. og 27. mars 2014 ráðstafað fjárhæðinni að fullu til skuldajafnaðar samkvæmt lokamálslið síðastnefnds lagaákvæðis á móti skuld GM framleiðslu hf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins fyrir nóvember og desember 2013 og janúar 2014. Þá hafi ríkisskattstjóri 15. maí 2014 endurákveðið virðisaukaskatt félagsins vegna ársins 2012 og hafi myndast á þann hátt inneign þess að fjárhæð samtals 771.254 krónur. Af henni hafi innheimtumaður ríkissjóðs notað 636.421 krónu 16. maí 2014 til skuldajafnaðar við kröfu á hendur félaginu vegna virðisaukaskatts frá uppgjörstímabilinu janúar og febrúar 2014. Samkvæmt þessu fékk áfrýjandi með skuldajöfnuði greiddar skattkröfur á hendur GM framleiðslu hf. að fjárhæð samtals 2.552.581 króna á tímabilinu eftir frestdag við gjaldþrotaskipti á stefnda.
Í bréfi 22. janúar 2015 lýsti stefndi yfir riftun á framangreindum greiðslum með vísan til 136. gr., 1. mgr. 139. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt lýsti hann yfir riftun meðal annars á greiðslum að fjárhæð samtals 6.000.000 krónur, sem GM framleiðsla hf. hafi innt af hendi til innheimtumanns 7., 14. og 24. mars og 9. apríl 2014 upp í skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins, sbr. 139. og 141. gr. sömu laga. Með bréfi 6. febrúar 2015 samþykkti tollstjóri riftun á síðastnefndum greiðslum og kröfu stefnda um endurgreiðslu fjárins, en mótmælti á hinn bóginn riftun á greiðslunum, sem fengust á framangreindan hátt með skuldajöfnuði. Um þau mótmæli var vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, sem legði skyldu á innheimtumann til að neyta skuldajafnaðar við skuld gjaldanda áður en inneign vegna virðisaukaskatts gæti komið til útborgunar.
Stefndi höfðaði mál þetta 20. febrúar 2015 til riftunar á greiðslunum, sem fengust samkvæmt framansögðu með skuldajöfnuði, og endurgreiðslu heildarfjárhæðar þeirra. Með hinum áfrýjaða dómi voru þessar kröfur stefnda teknar til greina.
II
Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 má við gjaldþrotaskipti krefjast riftunar á greiðslu skuldar, sem innt hefur verið af hendi eftir frestdag. Frá þeirri heimild eru gerðar undantekningar, sem taka í fyrsta lagi til tilvika, þar sem skuld hefði hvort sem er fengist greidd við gjaldþrotaskipti eftir reglum XVII. kafla laganna, í öðru lagi að greiðsla hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni og í þriðja lagi að viðtakandi greiðslu hafi hvorki vitað né mátt vita að þau atvik hafi gerst, sem markað geti frestdag eftir 2. gr. laganna. Samkvæmt 136. gr. sömu laga fellur greiðsla með skuldajöfnuði undir þessi ákvæði 1. mgr. 139. gr. ef ekki mætti beita honum eftir reglum 100. gr. laganna. Eins og áður var getið samþykkti tollstjóri með bréfi 6. febrúar 2015 kröfu stefnda um riftun á greiðslum GM framleiðslu hf. að fjárhæð samtals 6.000.000 krónur inn á skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, sem inntar voru af hendi með peningum á tímabilinu 7. mars til 9. apríl 2014, en þá kröfu reisti stefndi einkum á 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Sú afstaða tollstjóra, sem er bindandi fyrir áfrýjanda, fól í sér viðurkenningu á því að áðurnefndar undantekningar í lagaákvæðinu gætu ekki leyst áfrýjanda undan því að þola riftun á þeim greiðslum. Þegar af þeirri ástæðu getur áfrýjandi ekki borið fyrir sig nú að skilyrði ákvæðisins bresti til riftunar á greiðslunum, sem mál þetta varðar, nema að því leyti, sem þær geti notið sérstöðu í samanburði við greiðslurnar sem tollstjóri samþykkti að rift yrði. Eins og atvikum er hér háttað getur slík sérstaða aðeins verið fólgin í því að greiðslurnar, sem þegar hefur verið rift, voru inntar af hendi eftir frestdag með peningum, á meðan greiðslurnar, sem málið snýst um, fóru fram með skuldajöfnuði eftir sama tímamark. Í þessu sambandi verður jafnframt að gæta að því að skuldir GM framleiðslu hf., sem áfrýjandi fékk greiddar með skuldajöfnuði, njóta engrar sérstöðu í þessu tilliti þótt þær hafi átt rætur að rekja til virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, enda skapast ekki að lögum eignarréttur áfrýjanda yfir fjármunum þess, sem ber skyldu til að standa skil á slíkum gjöldum, heldur kröfuréttur áfrýjanda á hendur gjaldandanum, sem þess utan stendur við gjaldþrotaskipti í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. apríl 1977 í máli nr. 158/1976 og 11. maí 1987 í máli nr. 327/1986, sem birtir eru í dómasafni 1977 á bls. 334 og 1987 á bls. 664.
Í fyrrnefndri 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 eru fyrirmæli um hvernig farið verði með virðisaukaskatt í tilvikum, þar sem innskattur gjaldanda reynist hærri á uppgjörstímabili en útskattur. Skal þá ríkisskattstjóri taka virðisaukaskattskýrslu gjaldandans til sérstakrar rannsóknar, en sé skýrslan tekin til greina tilkynnir ríkisskattstjóri það gjaldandanum ásamt innheimtumanni ríkissjóðs, sem innir af hendi endurgreiðslu, sem svo er nefnd í ákvæðinu. Endurgreiðsluna skal fyrst nýta til skuldajafnaðar við kröfu á hendur gjaldandanum um vangoldna skatta og önnur opinber gjöld til áfrýjanda ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum, en standi þá eitthvað eftir af henni skal það fé greitt gjaldandanum. Við úrlausn málsins verður að líta til þess að ákvæði þetta geymir sérstaka reglu um heimild áfrýjanda til að beita við þessar aðstæður skuldajöfnuði við gjaldanda. Ákvæðið leiðir á hinn bóginn ekki til þess, hvorki samkvæmt orðanna hljóðan né eftir viðteknum aðferðum við lögskýringar, að áfrýjandi geti á grundvelli ákvæðisins staðið í öðrum sporum en sérhver annar, sem neytt hefur lögmætrar heimildar til skuldajafnaðar í aðdraganda gjaldþrotaskipta á búi gagnaðila. Getur áfrýjandi því ekki orðið undanþeginn ákvæðum 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 af þeirri ástæðu einni að hann hafi hér tekið til sín greiðslu úr hendi GM framleiðslu hf. með skuldajöfnuði eftir heimildinni í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, heldur gildir um áfrýjanda jafnt sem aðra sú regla 136. gr. laga nr. 21/1991 að rifta megi greiðslu til hans, sem fengist hefur með skuldajöfnuði, ef ekki hefði mátt beita honum eftir 100. gr. sömu laga eftir upphaf gjaldþrotaskipta á búi félagsins.
Heimild lánardrottins samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 til að beita skuldajöfnuði gagnvart þrotabúi er meðal annars háð því skilyrði að krafa búsins á hendur honum hafi orðið til fyrir frestdag. Kröfur GM framleiðslu hf. um greiðslu samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, sem málið varðar, urðu allar til eftir frestdag við gjaldþrotaskipti á stefnda. Þegar af þessum ástæðum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms, þar á meðal um vexti af fjárkröfu stefnda, enda er hún um skaðabætur samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, þrotabúi GM framleiðslu hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2016.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 12. janúar sl., er höfðað af þrotabúi GM framleiðslu hf., kt. [...], Borgartúni 26, Reykjavík, með stefnu, birtri 20. febrúar 2015, á hendur íslenska ríkinu.
Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnuði stefnda við kröfur sem stefnandi átti á hendur honum, samtals að fjárhæð 2.552.581 kr., og inntar voru af hendi með skuldajöfnuði 17. mars 2014 að fjárhæð 299.115 kr., skuldajöfnuði 17. mars 2014 að fjárhæð 1.055.141 kr., skuldajöfnuði 27. mars 2014 að fjárhæð 561.904 kr., skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 292.862 kr., skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 343.548 kr. og skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 11 kr.
Hann krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða sér 2.552.581 kr. ásamt vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 1.354.256 kr. frá 17. mars 2014 til 27. mars 2014, af 1.916.160 kr. frá 27. mars 2014 til 16. maí 2014 og af 2.552.581 kr. frá 16. maí 2014 til 21. febrúar 2015, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 21. febrúar 2015 til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 6. mars 2014, krafðist Premium ehf. þess að bú Gunnars majones hf. (síðar GM framleiðsla hf.) yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi beiðni var afturkölluð skömmu síðar. Innan mánaðar, 3. apríl 2014, barst Héraðsdómi Reykjaness bréf þar sem Gildi lífeyrissjóður krafðist þess að bú GM framleiðslu hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði dómsins 12. júní 2014, var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta. Innköllun birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaðinu 23. júní 2014 og kröfulýsingafrestur rann út 23. ágúst 2014. Fyrsti skiptafundur var haldinn 17. september 2014.
Frestdagur við skiptin er 6. mars 2014, en auglýsing þess efnis birtist í Lögbirtingablaðinu 19. desember 2014. Krafa Premium ehf. um gjaldþrotaskipti fylgdi ekki þeim gögnum sem héraðsdómur afhenti skiptastjóra við upphaf skiptameðferðar. Þegar skiptastjóri fékk upplýsingar um kröfu Premium ehf. var frestdagur sem tilgreindur er í innköllun leiðréttur, með framangreindri auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Þegar skiptastjóri kannaði eignir búsins kom í ljós að félagið hafði með kaupsamningi dags. 4. mars 2014 selt nýstofnuðu félagi, Gunnars ehf., allar eignir sínar og rekstur. Engin starfsemi var því í félaginu GM framleiðslu hf. eftir þann tíma. Helsta eign búsins er skuldabréf sem Gunnars ehf. gaf út til greiðslu á kaupverði að fjárhæð 62.500.000 kr. Á það leggjast 7,25% ársvextir til tíu ára með mánaðarlegum afborgunum höfuðstóls og vaxta. Þrotabúið hefur lýst yfir riftun á sölunni þar sem skiptastjóri telur eignir og rekstur hafa verið seld við lægra verði en markaðsverði. Gunnars ehf. mótmælti riftuninni og mun það mál því verða borið undir dómstóla. Auk skuldabréfsins átti félagið nokkrar útistandandi kröfur, en samtals hefur stefnandi innheimt 3.421.972 kr. vegna þessa. Lýstar kröfur í búið námu upphaflega 183.086.418 kr. en nema nú 155.626.218 kr.
Við söluna 4. mars 2014 var fjárhagsstaða félagsins orðin mjög slæm, eins og fram kemur í fundargerð stjórnarfundar frá þeim degi. Þar segir að nýlega hafi bráðabirgðauppgjöri fyrir rekstrarárið 2012 verið lokið. Það hafi leitt í ljós að félagið hefði verið rekið með tapi sem nam 29.335.106 kr. á því rekstrarári. Í fundargerðinni kemur einnig fram að félagið hafi á þessum tíma átt erfitt með að halda áfram rekstri vegna skorts á lausafé. Vegna ónógs fjár hafi ekki verið unnt að greiða starfsmönnum laun fyrir vinnu í febrúar 2014. Félagið átti ekki fé til að standa lífeyrissjóðum skil á verulegum lífeyrisskuldum. Það skuldaði jafnframt opinber gjöld sem námu 12.850.916 kr. Taka átti fyrir aðfararbeiðni sýslumannsins í Hafnarfirði skömmu síðar, 17. mars 2014. Félagið hafði einnig fullnýtt lánstraust sitt hjá birgjum og hafði af þeim sökum þurft að staðgreiða aðföng um allnokkurn tíma. Skammtímaskuldir félagsins námu a.m.k. 190.000.000 kr. Þar af voru 95.000.000 kr. í lögfræðilegri innheimtu. Niðurstaða stjórnarfundarins var því sú að selja skyldi rekstur og eignir til Gunnars ehf. eins og áður greinir.
Samkvæmt ársreikningi félagsins 2011 námu skuldir þess í lok árs 2011 164.274.805 kr. en eignir 112.691.515 kr. Samkvæmt ársreikningi 2012 voru skuldir félagsins í lok árs 2012 210.332.143 kr. en eignir 129.413.747 kr. Skuldir við viðskiptamenn og birgja höfðu um nokkurra ára skeið safnast upp og að lokum fór svo að félagið varð gjaldþrota.
Skiptastjóri hefur farið yfir og kannað bókhald stefnanda og athugað hvort rifta megi þeim ráðstöfunum sem fóru fram stuttu fyrir gjaldþrot, ekki síst eftir frestdag 6. mars 2014. Við könnun skiptastjóra kom meðal annars í ljós að stefndi hafði skuldajafnað inneign félagsins vegna innskatts á móti ógreiddum opinberum gjöldum stefnanda eftir frestdag á grundvelli 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 2.552.581 kr. Einnig kom í ljós að stefnda höfðu verið greiddar samanlagt 6.047.307 kr. með reiðufé.
Nánar tiltekið beitti stefndi skuldajöfnuði með því að skuldajafna innskatti vegna virðisaukatímabilanna september-október 2013 (tímabil 2013 40) og nóvember-desember 2013 (tímabil 2013 48), samtals að fjárhæð 1.916.160 kr., á móti ógreiddri staðgreiðslu vegna nóvember 2013, desember 2013 og janúar 2014. Þessi skuldajöfnuður fór fram dagana 17. mars 2014 (vegna nóvember og desember 2013) og 27. mars 2014 (vegna janúar 2014). Að auki var innskattur vegna ársins 2012 endurákvarðaður 15. maí 2014 og hluta fjárhæðarinnar sem koma átti til endurgreiðslu ráðstafað inn á virðisaukaskattstímabilið janúar-febrúar 2014 (2014 08).
Skiptastjóri sendi stefnda bréf 21. janúar 2015 og lýsti yfir riftun á þessum ráðstöfunum, sem námu samtals 8.599.748 kr. Þar af námu riftanlegar ráðstafanir vegna skuldajöfnuðar samanlagt 2.552.581 kr. Þrotabúið krafðist þess að stefndi endurgreiddi fjárhæðina. Í bréfinu kemur fram að engin starfsemi hafi verið í félaginu þegar þessar greiðslur fóru fram, en allar eignir þess hafi verið seldar 4. mars 2014. Með skuldajöfnuðinum hafi verið greidd staðgreiðsla sem hafi verið í vanskilum um nokkurt skeið, auk þess sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafi gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu 17. mars 2014. Að lokum segir í bréfinu að í ljósi þess að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi eftir frestdag og skömmu áður en stefnandi var tekinn til gjaldþrotaskipta, og með hliðsjón af því að þessar ráðstafanir væru til þess fallnar að mismuna kröfuhöfum, telji skiptastjóri einsýnt að þær hafi verið ólögmætar og riftanlegar í skilningi gjaldþrotaréttar.
Stefndi svaraði erindi skiptastjóra 6. febrúar 2015 og féllst á að greiðslur til sýslumannsins í Hafnarfirði 7. mars til 9. apríl 2014 væru riftanlegar ráðstafanir, að undanskilinni 47.037 kr. greiðslu sem var innt af hendi 11. mars 2014 vegna eftirágreiddra skatta starfsmanna. Stefndi féllst á að endurgreiða þrotabúinu 6.000.000 kr. samkvæmt framangreindu og hefur sú greiðsla farið fram. Ekki er því ágreiningur um þann þátt.
Stefndi féllst hins vegar ekki á að hann hefði ekki haft heimild til skuldajöfnuðar og er þeim hluta riftunaryfirlýsingar stefnanda er laut að riftun á skuldajöfnuði því hafnað. Stefndi byggði á því að skýrt væri kveðið á um skyldu innheimtumanns til skuldajöfnuðar á móti endurgreiðslum á mismun innskatts og útskatts í 3. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og að skattaðili eignaðist ekki lögvarða kröfu um endurgreiðslu inneignar á meðan opinber gjöld væru í vanskilum.
Vegna þessarar afstöðu stefnda telur stefnandi sig eiga þann kost einan að leita til dómstóla til þess að sækja kröfur sínar að lögum. Þar eð málsaðilar hafi ekki náð samkomulagi og vegna málshöfðunarfrests 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ekki ráðrúm til að hefja frekari viðræður. Því sé óhjákvæmilegt að höfða þetta mál nú til að fá skorið úr þessum ágreiningi.
Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir riftunar- og endurgreiðslukröfu
Stefnandi höfðar þetta mál til að fá rift nánar tilgreindum ráðstöfunum sem fram fóru áður en félagið GM framleiðsla hf. var tekið til gjaldþrotaskipta en eftir frestdag 6. mars 2014 þannig að hann endurheimti þau verðmæti sem séu, vegna skuldajöfnuðarins, ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Stefnandi reisir riftunarkröfu sína aðallega á 139. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 136. gr. þeirra en til vara á 141. gr. laganna, sbr. 136. gr. Stefnandi krefst endurgreiðslu auðgunar skv. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 en til vara greiðslu skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 142. gr.
Riftun skuldajöfnunar
Að mati stefnanda snýst ágreiningur málsins fyrst og fremst um það hvort tollstjóra, sem innheimtumanni ríkissjóðs, hafi verið heimilt, á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, að skuldajafna inneign sem félagið átti í ríkissjóði, vegna mismunar á innskatti og útskatti, upp í skuld við ríkissjóð vegna ógreiddra opinberra gjalda félagsins. Í bréfi sínu frá 6. febrúar 2014 haldi stefndi því fram að ákvæði 3. mgr. 25. gr. laganna sé fortakslaust og að réttur til endurgreiðslu verði ekki ríkari við það að aðili sé úrskurðaður gjaldþrota. Stefndi telji skuldajöfnuðinn ekki aðeins hafa verið lögmætan, heldur hafi stefnda verið skylt að láta þessar kröfur mætast á þann hátt sem gert var. Jafnframt byggi stefndi á því í bréfi sínu að skilyrði um gagnkvæmni hafi verið uppfyllt, enda hafi kröfurnar myndast vegna starfsemi félagsins áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta.
Stefnandi hafnar þessum röksemdum stefnda og byggir á því að þar sem skilyrði skuldajöfnuðar skv. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi ekki verið fyrir hendi þegar skuldajöfnuður fór fram sé ráðstöfunin riftanleg samkvæmt riftunarreglum laganna, skv. 136. gr. þeirra.
Samkvæmt 100. gr. laganna sé þeim sem skuldar þrotabúi heimilt að skuldajafna því sem hann á hjá búinu við kröfu búsins á hendur sér að uppfylltum þeim skilyrðum
(i) að hann hafi eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags,
(ii) að hann hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn hafi ekki átt fyrir skuldum og
(iii) að hann hafi ekki fengið kröfuna til að skuldajafna,
(iv) hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins þurfi öll fjögur skilyrðin að vera uppfyllt svo heimilt sé að skuldajafna við kröfu þrotabús.
Stefnandi telur þessi skilyrði fyrir skuldajöfnuði ekki hafa verið uppfyllt þegar stefndi fékk kröfu sína á hendur félaginu greidda með því að skuldajafna kröfum ríkisins á hendur félaginu við kröfu þess á hendur ríkissjóði.
Í fyrsta lagi hafi engin þeirra krafna stefnda sem greidd hafi verið eftir frestdag orðið til áður en þrír mánuðir voru til frestdags, eða nánar tiltekið fyrir 6. desember 2013, að undanskilinni kröfu vegna staðgreiðslu í nóvember 2013, sem varð til 1. desember 2014, skv. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú krafa hafi þó ekki fallið í eindaga fyrr en 16. desember 2013. Krafa vegna staðgreiðslu í desember 2013 hafi orðið til 1. janúar 2014, með eindaga 15. janúar 2014, krafa vegna staðgreiðslu í janúar 2014 hafi orðið til 1. febrúar 2014, með eindaga 17. febrúar 2014, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Krafa vegna virðisaukaskatts í janúar-febrúar 2014 hafi orðið til 7. apríl 2014, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Í öðru lagi hljóti stefndi að hafa vitað eða mátt vita að félagið ætti ekki fyrir skuldum þegar hann beitti skuldajöfnuðinum. Í því sambandi beri helst að nefna að 17. mars 2014 hafi innheimtumaður ríkissjóðs fengið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Þar að auki hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda 7. nóvember 2012 og 14. maí 2014, og á tímabilinu maí 2012 til janúar 2014 hafi verið skráðar í vanskilaskrá átta færslur um greiðsluáskoranir birtar félaginu. Auk þess hafi félagið verið í nokkrum vanskilum við stefnda.
Í þriðja lagi bendir stefnandi á að endurgreiðslukröfur þrotabúsins á hendur stefnda hafi ekki orðið til fyrr en annars vegar 14. mars 2014 og hins vegar 15. maí 2014, í báðum tilvikum eftir frestdag.
Stefnandi hafnar því að skylda til skuldajöfnuðar á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 gangi framar reglu 100 gr. laga nr. 21/1991 um skuldajöfnuð við kröfur þrotabús. Stefnandi telur skuldajöfnuð skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 við kröfur þrotabús aðeins heimilan í þeim tilvikum þar sem hann rúmast innan 100. gr. laga nr. 21/1991 og öll skilyrði 100. gr. séu uppfyllt.
Stefnandi byggir á því að við töku bús til gjaldþrotaskipta taki gildi sérstakar reglur um ráðstöfun fjármuna búsins og réttinda þess almennt. Meðal annars beri við búskipti að gæta jafnræðis kröfuhafa í hvívetna og tryggja að tilteknum kröfuhöfum verði ekki ívilnað á kostnað annarra kröfuhafa. Regla 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um skyldu til skuldajöfnuðar á móti innskatti sé almenn regla, en hún geti ekki takmarkað ótvíræðan rétt kröfuhafa til jafnræðis samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og almennum reglum skuldaskilaréttar, eftir að bú hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 taki ótvírætt af skarið um það í hvaða tilvikum heimilt sé að beita skuldajöfnuði við kröfur þrotabús. Í reglunni sé almenn takmörkun sett við rétti allra kröfuhafa til að beita skuldajöfnuði við kröfur þess. Líta verði á 100. gr. sem sérreglu um skuldajöfnuð gagnvart þrotabúi, sem gildi framar öllum öðrum reglum laga um skuldajöfnuð gagnvart þrotabúi, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Vera kunni að í reglum laga nr. 21/1991 um greiðslustöðvun annars vegar og nauðasamninga hins vegar séu ekki ákvæði sem takmarki rétt stefnda til skuldajöfnuðar á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Öðru máli gegni hins vegar um þrotabú, því í reglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti hafi rétti kröfuhafa til skuldajöfnuðar verið settar skorður, sem gildi jafnt um alla kröfuhafa. Reglan sé sérregla sem gildi um gjaldþrotaskipti, og geti ákvæði laga um virðisaukaskatt ekki vikið henni til hliðar. Í lögum sé ekki nein heimild sem veiti stefnda, sem handhafa almennrar kröfu í þrotabú, rýmri rétt til skuldajöfnuðar en öðrum kröfuhöfum, umfram þau mörk sem skuldajöfnuði séu sett í 100. gr.
Ekki verði litið fram hjá því að kröfur vegna vangoldinna skatta njóti stöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Hafi löggjafinn ætlað kröfum vegna vangoldinna skatta meiri forgang við gjaldþrotaskipti hefði hæglega verið unnt að skipa slíkum kröfum framar í réttindaröð samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar eð kröfum ríkisins vegna vangoldinna skatta sé ætlað að sitja við sama borð og öðrum almennum kröfum, sé ljóst að stefnda hafi ekki verið heimilt að fá kröfur sínar á hendur félaginu greiddar með skuldajöfnuði við eigin kröfur á hendur því, enda skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Greiðsla skuldar eftir frestdag
Stefnandi byggir aðallega á því að skuldajöfnuður stefnda, samtals að fjárhæð 2.552.581 kr., sé riftanleg ráðstöfun í skilningi 139. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi stefndi ekki mátt beita skuldajöfnuði skv. 100. gr. laganna, sbr. 136. gr. þeirra. Regla 139. gr. sé hlutlæg, sett til að auðvelda skiptastjóra að rifta greiðslum sem séu inntar af hendi eftir að halla fari undan fæti skuldara fjárhagslega og líkur séu til þess að hann geri ráðstafanir sem séu fallnar til þess að mismuna kröfuhöfum. Ráðstafanir hafi farið fram eftir frestdag og því sé tímaskilyrði lagaákvæðisins fullnægt. Stefnandi telji þessa ráðstöfun hafa verið ívilnandi fyrir stefnda á kostnað kröfuhafa og brot gegn jafnræðisreglum skuldaskilaréttar.
Stefnandi telur málsatvik sýna að þessar greiðslur til stefnda séu riftanlegar með vísan til 139. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt hreyfingalista tollstjóra dags. 14. mars 2014 hafi innskattsskýrslur félagsins fyrir september-október 2013 (tímabil 2013 40) og nóvember-desember 2013 (tímabil 2013 48) verið afgreiddar. Samkvæmt því hafi stefnandi átt að fá endurgreiddar 490.259 kr., að frádregnum 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattskýrslu skv. 27. gr. B í lögum nr. 50/1988, eða samtals 485.259 kr. fyrir september-október 2013 (tímabil 2013 40). Félagið hafi einnig átt að fá endurgreidda 1.435.901 kr., að frádregnum 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattskýrslu, skv. 27. gr. B í lögum nr. 50/1988, samtals 1.430.901 kr. fyrir nóvember-desember 2013 (tímabil 2013 48). Sú endurgreiðsla sem félagið hafi samtals átt að fá vegna framangreindra tímabila hafi því numið 1.916.160 kr.
Tímabil |
Fjárhæð endurgreiðslu |
Frádráttur vegna síðbúinna skila á VSK-skýrslu |
Samtals endurgreiðsla |
2014 40 (sept.-okt. 2014) |
490.259 |
5.000 |
485.259 |
2014 48 (nóv.-des. 2014) |
1.435.901 |
5.000 |
1.430.901* |
|
|
Samtals |
1.916.160 |
* Greitt í tvennu lagi, annars vegar 1.354.256 kr. 17. mars 2014 og hins vegar 76.645 kr. 27. mars 2014.
Í stað þess að endurgreiða stefnanda framangreinda fjárhæð hafi tollstjóri ráðstafað henni inn á vangoldin opinber gjöld. Samanlagt 299.115 kr. hafi verið nýttar til skuldajöfnuðar við ógreidda staðgreiðslu vegna nóvember 2013 (tímabil 2013 11). Samtals 1.055.141 kr. hafi verið nýtt til skuldajöfnuðar við ógreidda staðgreiðslu vegna desember 2013 (tímabil 2013 12) og alls 561.904 kr. hafi verið notaðar til skuldajöfnuðar við ógreidda staðgreiðslu vegna janúar 2014 (tímabil 2014 01). Þessi skuldajöfnuður hafi farið fram dagana 17. og 27. mars 2014:
Dags. skuldaj. |
Ráðstafað á tímabil (staðgr.) |
Fjárhæð skuldajöfnuðar |
17. mars 2014 |
2013 11 |
299.115 |
17. mars 2014 |
2013 12 |
1.055.141 |
27. mars 2014 |
2014 01 |
561.904 |
|
Samtals |
1.916.160 |
Virðisaukaskattur vegna ársins 2012 hafi einnig verið endurákveðinn og innskattur hafi verið hækkaður samtals um 771.254 kr. Endurákvörðunin hafi farið fram 15. maí 2014 og skiptist svona:
Tímabil |
Fjárhæð endurákvörðunar |
2012 08 |
284.508 |
2012 16 |
11 |
2012 24 |
354.192 |
2012 32 |
14.252 |
2012 40 |
88.975 |
2012 48 |
29.316 |
Samtals |
771.254 |
Í stað þess að greiða stefnanda þá inneign sem skapaðist vegna endurákvörðunar innskatts hafi tollstjóri ákveðið að skuldajafna hluta inneignarinnar við ógreidd opinber gjöld stefnanda. Samanlagt hafi 636.421 kr. verið skuldajafnað við ógreiddan virðisaukaskatt vegna tímabilsins janúar-febrúar 2014 (2014 08). Ekki liggi fyrir hvernig eftirstöðvunum, samtals að fjárhæð 135.013 kr., hafi verið ráðstafað.
Dagsetning skuldaj. |
Ráðstafað á tímabil (vsk.) |
Fjárhæð skuldaj. |
16. maí 2014 |
2014 08 |
292.862 |
16. maí 2014 |
2014 08 |
343.548 |
16. maí 2014 |
2014 08 |
11 |
|
Samtals |
636.421 |
Nánar tiltekið hafi félagið innt þessar greiðslur af hendi með skuldajöfnuði:
Dagsetning |
Fjárhæð |
17. mars 2014 |
299.115 |
17. mars 2014 |
1.055.141 |
27. mars 2014 |
561.904 |
16. maí 2014 |
292.862 |
16. maí 2014 |
343.548 |
16. maí 2014 |
11 |
Samtals |
2.552.581 |
Stefnandi bendir á þá meginreglu 139. gr. laga nr. 21/1991 að greiðsla skuldar eftir frestdag sé riftanleg, nema undantekningarreglur ákvæðisins eigi örugglega við. Stefnandi telur ljóst að undantekningar í 1. mgr. 139. gr. eigi ekki við um framangreindar ráðstafanir en sönnunarbyrði um að þær eigi við hvíli á stefnda.
Vegna bréfs stefnda 6. febrúar 2015, þar sem hann hafnaði riftun skuldajöfnuðar bendir stefnandi á að fyrir liggi að félaginu GM framleiðslu hf. hafi ekki verið nauðsynlegt að greiða skuld sína við stefnda til að forðast tjón, enda hafi allar eignir og allur rekstur þess verið seldur Gunnars ehf. 4. mars 2014. Þegar félagið hafi afhent stefnda greiðslurnar hafi það ekki haft neina starfsemi. Það hefði því ekki haft nein áhrif á félagið þótt stefndi hefði hætt að veita þá þjónustu eða afhenda þær vörur sem viðskiptasamband aðila byggðist á, enda félagið hætt starfsemi.
Skiptastjóri telur ljóst að stefndi hafi vitað, eða a.m.k. mátt vita, að komið hafi fram krafa um gjaldþrotaskipti þegar hinar riftanlegu greiðslur fóru fram. Eins og áður segi hafi Premium ehf. lagt fram kröfu um gjaldþrotaskipti í Héraðsdómi Reykjaness 6. mars 2014. Fjárhagsstaða félagsins GM framleiðslu hf. hafi þá um langt skeið verið mjög slæm eins og segi í fundargerð stjórnarfundar 4. mars 2014. Samkvæmt fundargerðinni hafi félagið meðal annars fullnýtt lánstraust sitt hjá birgjum og af þeim sökum þurft að staðgreiða aðföng um allnokkurn tíma. Skammtímaskuldir þess hafi numið að minnsta kosti 190.000.000 kr. og þar af hafi 95.000.000 kr. skuld verið í lögfræðilegri innheimtu. Á þessum tíma hafi stefnandi skuldað ríkissjóði töluvert fé. Frá því í maí 2012 til janúar 2014 hafi að auki verið skráðar í vanskilaskrá átta færslur um greiðsluáskoranir birtar stefnanda. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá félaginu 7. nóvember 2012, 17. mars og 14. maí 2014. Með vísan til þessa telur stefnandi stefnda hafa vitað, eða a.m.k. mátt vita, að komin væri fram krafa um gjaldþrotaskipti þegar hinar riftanlegu ráðstafanir fóru fram á tímabilinu 17. mars 2014 til 16. maí 2014. Stefndi ítrekar þá meginreglu 139. gr. laga nr. 21/1991 að greiðslur skulda sem fari fram eftir frestdag séu riftanlegar, nema öruggt sé að undanþágur 139. gr. eigi við.
Í framkvæmd hafi þessar undantekningarreglur verið túlkaðar þröngt. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telur stefnandi einsýnt að þær greiðslur sem stefndi fékk greiddar með skuldajöfnuði séu ólögmætar og riftanlegar á grundvelli 139. gr. laganna.
Almenna riftunarreglan
Stefnandi byggir til vara á því að framangreindar greiðslur félagsins til stefnda séu riftanlegar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 136. gr. laganna. Stefnandi telur þessar ráðstafanir hafa á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess að eignir stefnanda voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Stefnandi telur þannig einsýnt að í þessum ráðstöfunum hafi falist brot gegn jafnræðisreglum skuldaskilaréttar og orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns.
Stefnandi telur félagið hafa á þeim tíma er framangreindar greiðslur voru inntar af hendi, og raunar allnokkru áður, verið ógjaldfært. Eins og áður greini hafi á þessum tíma nokkrar færslur verið á vanskilaskrá, þ.m.t. árangurslaust fjárnám 17. mars 2014. Einnig segi í fundargerð stjórnarfundar, sem áður sé getið, að félaginu hafi í byrjun mars 2014 reynst erfitt að halda áfram rekstri vegna skorts á lausafé, það hafi ekki átt nægt fé til að greiða laun og skuld þess við lífeyrissjóði verið veruleg. Að auki hafi félagið staðið í töluverðri skuld við stefnda vegna vangoldinna opinberra gjalda. Það hafi jafnframt fullnýtt lánstraust sitt hjá birgjum og af þeim sökum þurft að staðgreiða aðföng um allnokkurn tíma. Skammtímaskuldir þess hafi numið a.m.k. 190.000.000 kr. og þar af hafi 95.000.000 kr. verið í lögfræðilegri innheimtu. Eins og áður greini sýni ársreikningar félagsins að fjárhagsleg staða þess hafi verið mjög slæm.
Stefnandi vísar að öðru leyti til þess sem áður er rakið, eftir því sem við á, til stuðnings þessari málsástæðu, m.a. um fjárhagsstöðu félagsins og vanskil þess við stefnda.
Krafa um greiðslu skaðabóta eða endurgreiðslu auðgunar
Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi haft hag af hinum umdeildu ráðstöfunum, sem nemi 2.552.581 kr. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns, sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna þessara ráðstafana, því samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Riftun stefnanda byggist á 139. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 136. gr. laganna en til vara á 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 136. gr. þeirra. Krafan um greiðslu skaðabóta byggist á 3. mgr. 142. gr. laganna og almennu skaðabótareglunni.
Verði ekki á það fallist að 3. mgr. 142. gr. eigi við þegar riftun byggist á 136. gr. krefjist stefnandi til vara endurgreiðslu auðgunar á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 100., 136., 139. og 141. gr. laganna. Til stuðnings skaðabótakröfu sinni vísar stefnandi til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 og almennu skaðabótareglunnar. Til stuðnings kröfu um endurgreiðslu auðgunar er vísað til 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Hann vísar að auki til 2. mgr. 24. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, auk 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Krafa um skaðabóta- og dráttarvexti styðst við ákvæði III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Um upphafsdag dráttarvaxta vísast til 3. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og val á varnarþingi styðst við 33. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og sjónarmiðum stefnanda. Hann byggir á því að 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé sérregla gagnvart reglu 100. gr. laga nr. 21/1991. Hann byggir einnig á því að skattaðili geti ekki eignast lögvarða kröfu til greiðslu mismunar innskatts og útskatts skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 á meðan hann skuldi ríkissjóði opinber gjöld. Löggjafinn hefði þurft að taka það fram ætti ofangreind regla að víkja í aðdraganda töku bús til gjaldþrotaskipta, sbr. sjónarmið um nauðasamninga og greiðslustöðvun í dómum Hæstaréttar í málum nr. 186/1995 (Tollstjórinn í Reykjavík gegn Stálsmiðjunni hf.) og nr. 156/1996 (Skagstrendingur hf. gegn íslenska ríkinu). Í þessum dómum sé skýrt dregin fram sérstaða 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt gagnvart ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga.
Stefndi telur það rangt að skuldajöfnuður hans sé fallinn til þess að raska því jafnræði kröfuhafa sem lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. byggist á. Félagið hafi ekki áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta átt lögvarða kröfu til greiðslu inneignarinnar þar eð það skuldaði stefnda opinber gjöld. Af þeim sökum sé því alfarið hafnað að þrotabúið geti eignast betri rétt til greiðslu inneigna á grundvelli 100. gr. laga nr. 21/1991 en þrotamaður átti áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta.
Inneign hafi myndast vegna viðskipta félagsins fyrir töku bús þess til gjaldþrotaskipta en málið varði ekki inneign í ríkissjóði vegna ráðstafana nýju lögpersónunnar, þrotabúsins. Þá væri ótæk sú niðurstaða ef endurgreiðsla skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 væri til reiðu í búinu til fullnustu annarra kröfuhafa. Aðrir kröfuhafar hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna umrædds skuldajafnaðar þar eð bú félagsins hafi aldrei átt lögvarða kröfu til greiðslu þeirrar inneignar sem um er deilt, vegna skulda félagsins. Yrði fallist á riftunarkröfur stefnanda væri staða annarra kröfuhafa í raun betri en hefði félagið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Því fáist engan veginn séð að meginreglum gjaldþrotaskiptalaga um jafnræði kröfuhafa sé raskað með lögboðnum skuldajöfnuði.
Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 10. gr. laga nr. 119/1989, sé fortakslaust kveðið á um skuldajöfnun inneignar séu til staðar ógreidd gjöld og skattar, eins og hér hátti til.
Með lögum nr. 119/1989, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum hafi eftirfarandi málslið verið bætt við 3. mgr. 26. gr. laganna (nú 3. mgr. 25. gr.): „Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum.“ Í athugasemdum í greinargerð með 10. gr. frumvarpsins sagði að með breytingunni „væri skýrt kveðið á um það að skuldajafna skuli öllum vangreiddum opinberum gjöldum sem renna í ríkissjóð á móti endurgreiðslu virðisaukaskatts“. Stefndi telur ákvæðið því ekki verða túlkað á annan veg en þann að endurgreiðsla inneignar félags vegna mismunar á innskatti og útskatti geti ekki, eins og hér háttar til, farið fram sé félagið í skuld við ríkissjóð. Riftun á skuldajöfnuði í þessu tilviki væri því í andstöðu við skýran tilgang ákvæðisins og vilja löggjafans.
Stefndi hafnar því að inneign sem félag átti í ríkissjóði vegna virðisaukaskatts sem stofnaðist þegar félagið var í rekstri, skuli greiða þrotabúi þannig að þeir fjármunir standi öðrum kröfuhöfum félagsins til reiðu. Innheimtumanni ríkissjóðs hafi verið skylt að beita skuldajöfnuði við kröfur félagsins samkvæmt skýru ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Hvorki ákvæði laga um gjaldþrotaskipti né ákvæði laga um virðisaukaskatt leiði til annarrar niðurstöðu en að skuldajöfnuðurinn hafi verið lögmætur og því ekki riftanlegur á grundvelli riftunarákvæða laga um gjaldþrotaskipti.
Stefndi bendir á að í XII. kafla laga nr. 21/1991 sé kveðið á um þýðingu gjaldþrotaskipta. Í 1. mgr. 72. gr. laganna segi að þegar héraðsdómari kveði upp úrskurð um að bú skuldarans sé tekið til gjaldþrotaskipta taki þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins. Slíkt eigi þó ekki við verði annað leitt af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verði ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Þessi regla sé áréttuð í 73. gr. laganna.
Stefndi vísar til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, m.a. VII. kafla um uppgjör á virðisaukaskatti.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og því að skilyrðum þeirra ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem stefnandi vísar til sé fullnægt. Því séu ekki skilyrði til að rifta umræddum greiðslum.
Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda um sönnunarbyrði. Hann mótmælir því jafnframt að hann hafi valdið stefnanda tjóni. Hann hafi ekki heldur auðgast við skuldajöfnuðinn og beri ekki að greiða bætur fyrir meint tjón. Að auki sé ekki fullnægt skilyrðum almennu skaðabótareglunnar. Hann telur skuldajöfnuðinn hafa verið lögmætan og er öðru mótmælt sem röngu. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Varakrafa um lækkun
Varðandi lækkunarkröfu sína vísar stefndi til sömu málsástæðna og sjónarmiða og reifuð voru vegna sýknukröfu.
Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að dæma vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti en verði þeir dæmdir eigi ekki að dæma þá fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögudegi.
Niðurstaða
Í starfi lögfræðinga getur það hent að þótt einn hafi unnið sitt verk hárnákvæmlega eftir lögum geti annar komið og eyðilagt allt fyrir honum með því að vinna sitt verk hárnákvæmlega eftir lögum. Eins og gefur að skilja skýrast þessi tilvik oftast nær af ákvörðunum löggjafans.
Stefnandi er þrotabú félags, GM framleiðslu hf. (áður Gunnars majones hf.), sem krefst riftunar á skuldajöfnuði sem tollstjóri beitti, á grundvelli heimildar í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þannig að krafa sem félagið átti á hendur ríkissjóði áður en það var tekið til skipta var greidd með kröfum sem ríkissjóður átti á hendur félaginu.
Allir rekstaraðilar sem selja eða afhenda vöru eða skattskylda þjónustu eiga að innheimta virðisaukaskatt fyrir ríkissjóð og afhenda hann ríkissjóði á lögboðnum skiladögum. Til þess að ríkissjóður skattleggi ekki sömu vöru og þjónustu margsinnis ber virðisaukaskattsskyldu fyrirtæki (rekstraraðila) einungis að afhenda ríkissjóði skatt sem nemur þeirri verðmætisaukningu vörunnar sem varð í meðförum þess. Séð er til þess með því að við uppgjör í lok hvers virðisaukaskattstímabils er sá virðisaukaskattur sem fyrirtækið hefur þurft að greiða öðrum (innskattur) dreginn frá þeim skatti sem fyrirtækið hefur innheimt af þeim sem kaupa af því (útskatti). Fyrir kemur að á tilteknu tveggja mánaða virðisaukaskattstímabili sé innskatturinn hærri en útskatturinn. Þá eignast fyrirtækið inneign í ríkissjóði.
Standi svo á að rekstraraðili eigi inneign í ríkissjóði en skuldi ríkissjóði jafnframt opinber gjöld og skatta er tollstjóra, sem innheimtumanni ríkissjóðs, skylt samkvæmt orðalagi 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að greiða inneign rekstraraðilans með því að skuldajafna henni við vangoldnu opinberu gjöldin.
Auk þess að vera skylt að innheimta virðisaukaskatt var fyrirtækinu GM framleiðslu hf. (Gunnars majones hf.) sem launagreiðanda skylt samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að draga mánaðarlega tekjuskatt af skattskyldum launum starfsmanna sinna og afhenda ríkissjóði skattinn.
Ágreiningur þessa máls snýst um inneign sem félagið átti í ríkissjóði áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta 12. júní 2014. Til að byrja með átti félagið inneign í ríkissjóði vegna tveggja síðustu virðisaukaskattstímabila ársins 2013. Félagið greiddi ríkissjóði hins vegar ekki þann tekjuskatt sem það dró af starfsmönnum sínum í nóvember 2013 og komst þar með í skuld við ríkissjóð. Það sama endurtók sig vegna tekjuskattsins sem það dró af starfsmönnum sínum í janúar og febrúar 2014.
Tollstjóri fór því að lögum og nýtti inneign félagsins vegna virðisaukaskatts í mánuðunum september til desember 2014 til þess að greiða skuld þess við ríkissjóð vegna tekjuskattsins. Sá skuldajöfnuður fór fram 17. og 27. mars.
Starfsmenn tollstjóra komust einnig að því, þegar þeir endurskoðuðu virðisaukaskattsskýrslur félagsins 15. maí 2014, að skattur sem félagið greiddi af þeim vörum sem það keypti (innskattur) árið 2012 hefði numið hærri fjárhæð en sá virðisaukaskattur sem það lagði á vöru sem það seldi (útskattur) sama ár og því ætti félagið inneign hjá ríkissjóði vegna þessa. Daginn eftir, 16. maí 2014, nýtti tollstjóri þá kröfu sem ríkissjóður átti enn á hendur félaginu til þess að greiða þá kröfu sem félagið átti á hendur ríkissjóði vegna endurákvörðunar virðisaukaskattsins.
Það teldist ekki til tíðinda að tollstjóri hefði í störfum sínum farið að lögum ef um þetta leyti hefði ekki staðið svo á að rekstur félagsins GM framleiðslu hf. gekk frekar illa. Hann stóð reyndar svo tæpt að félagið var úrskurðað gjaldþrota 12. júní 2014. Þar eð kröfuhafi hafði lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti félagsins 6. mars það ár var sá dagur frestdagur við skiptin, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Tekjuskattur og virðisaukaskattur ásamt fleiri gjöldum eru svonefndir vörsluskattar því fyrirtæki innheimta tekjuskattinn af starfsmönnum sínum og virðisaukaskattinn af viðskiptavinum sínum fyrir hönd ríkisins og ber að afhenda ríkinu þessa skatta á tilteknum gjalddögum. Þessi fjármunir eiga aðeins að vera tímabundið í vörslum fyrirtækjanna og eru aldrei eign neins annars en ríkissjóðs. Þrátt fyrir það hefur löggjafinn ákveðið að ríkissjóður eigi ekki að njóta forgangs til þessara fjármuna þegar svo stendur á að félag er í vanskilum við ríkissjóð þegar það er tekið til skipta, heldur eigi krafa ríkisins til greiðslu þeirra að njóta sömu stöðu og allar aðrar venjulegar fjárkröfur í þrotabúið, sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar skiptastjóri fær þrotabú til meðferðar ber honum að fylgja fyrirmælum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Honum ber meðal annars að meta kröfur sem greiddust á tilteknum tímabilum fyrir úrskurðinn út frá mælikvarða sem kallast rétthæð krafna. Á þann kvarða raðast kröfur eftir eðli sínu, og þeim réttaráhrifum sem þær njóta að lögum, í sértökukröfur, búskröfur, veðkröfur, forgangskröfur, almennar kröfur og eftirstæðar kröfur. Skiptastjóri verður meðal annars að meta hvort krafa sem félag greiddi eftir frestdag yrði, vegna stöðu sinnar í réttindaröðinni, greidd kröfuhafanum að fullu við skiptin, hefði hún ekki greiðst fyrir úrskurð um töku félagsins til skipta.
Samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991 má skiptastjóri krefjast riftunar greiðslu skuldar sem var greidd eftir frestdag nema reglur XVII. kafla laganna um rétthæð krafna hefðu leitt til þess að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 136. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um riftun greiðslu einnig um greiðslu sem fer fram með skuldajöfnuði, ef aðstæður eru þannig að ekki mætti beita honum skv. 100. gr. laganna.
Þá fjármuni sem stefndi fékk greidda með skuldajöfnuði 17. og 27. mars og 16. maí 2014 mun hann hugsanlega ekki fá greidda eða einungis greidda að litlum hluta við skiptin, vegna stöðu kröfunnar í réttindaröð sem almennrar kröfu. Skiptastjóra var því heimilt, skv. 139. gr., sbr. 136. gr., laga nr. 21/1991, að lýsa yfir því að þeim greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnuði tollstjóra á þessum dögum væri rift.
Þegar svo stendur á að krafa sem greiddist eftir frestdag flokkast sem almenn krafa og er því riftanleg samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991 skiptir ekki neinu máli þótt tollstjóri hafi ekki gert annað en það sem honum bar að lögum að gera og greitt kröfur fyrirtækis á hendur ríkissjóði með skuldajöfnuði við kröfur ríkissjóðs á hendur því.
Þótt tollstjóri hafi vitað að félagið ætti í rekstrarerfiðleikum mátti hann ekki í störfum sínum ganga út frá því að félagið yrði innan skamms tekið til gjaldþrotaskipta enda eru þau ekki óhjákvæmileg afleiðing rekstrarerfiðleika. Jafnframt leiðir beiðni um gjaldþrotaskipti ekki óhjákvæmilega til gjaldþrotaskipta enda dró Premium ehf. beiðni sína til baka.
Það er jafnframt undir hælinn lagt hvaða dagur verður frestdagur fari svo að rekstrarerfiðleikar leiði til gjaldþrotaskipta. Hefði Gildi lífeyrissjóður komið með kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi félagsins örfáum dögum síðar en 3. apríl 2014 þannig að ekki hefði verið uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 að ný krafa bærist innan mánaðar frá því að önnur hefði verið afturkölluð, hefði frestdagurinn ekki verið 6. mars heldur 7. apríl eða annar dagur löngu síðar.
Tollstjóri gat því ekki haldið að sér höndum og dregið að beita skuldajöfnuði þótt honum væri kunnugt um árangurslaust fjárnám, enda hafði árangurslaust fjárnám sem gert var í eigum Gunnars majones hf. 7. nóvember 2012 ekki leitt til gjaldþrotaskipta félagsins þá. Tollstjóra bar þvert á móti að tryggja að fjármunir sem ríkið ætti hjá félaginu skiluðu sér í ríkissjóð. Þar eð löggjafinn hefur ákveðið að krafa sem þessi njóti einungis stöðu sem almenn krafa mátti tollstjóri þó vita að svo kynni að fara að skiptastjóri rifti ráðstöfuninni á grundvelli laga nr. 21/1991 og greiðslur yrðu því að ganga til baka færi svo að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Það er rétt hjá stefnda að með því að gera honum að endurgreiða þrotabúinu fjármunina séu aðrir kröfuhafar betur settir en þeir hefðu verið fyrir skiptin því eign ríkissjóðs, sem þeir áttu ekkert tilkall til hlutdeildar af fyrir skiptin, sé færð þeim til fullnustu.
Það var hins vegar ákvörðun löggjafans með lögum nr. 78/1989, sem breyttu 2. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, að eign ríkisins í vörslum félags nyti ekki forgangsstöðu heldur stöðu almennrar kröfu kæmi til þess að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þeirri ákvörðun fylgir að hærri fjárhæð kemur til skipta milli annarra almennra kröfuhafa.
Það er kjarni þessa máls að löggjafinn ákvað að kæmi til gjaldþrots félags skyldu vörsluskattar sem ríkissjóður ætti hjá félaginu ekki njóta þeirrar eignarréttarlegu stöðu sem þeir hafa þegar félag er í fullum rekstri. Það er einnig ákvörðun löggjafans að ekki skuli einungis líta til stöðu krafna á hendur félagi eins og þær eru þegar félagið er tekið til skipta, heldur jafnframt nokkurrar fortíðar í rekstri þess, allt að 24 mánuðum fyrir frestdag, og stöðu og eðlis þeirra krafna sem greiddust á þeim tíma.
Vegna þessarar ákvörðunar löggjafans er eðli kröfu ríkissjóðs ekki einungis breytilegt eftir því hvort félagið sem skuldar honum er í rekstri eða hefur verið tekið til skipta. Eðli og staða kröfunnar getur jafnframt breyst afturvirkt þannig að krafa sem hafði, þegar skuldajöfnuðinum var beitt, stöðu sambærilega sértökukröfu fær eftir gjaldþrotaskiptin einungis stöðu almennrar kröfu og það einnig á tímabilinu frá frestdegi að úrskurðardegi.
Þegar löggjafinn hefur mælt fyrir um slíka afturvirkni þýðir stefnda ekkert að bera fyrir sig að bú félagsins hafi aldrei átt lögvarða kröfu til greiðslu þeirrar inneignar sem um er deilt. Félag í rekstri átti ekki lögvarða kröfu til greiðslu inneignarinnar ef það skuldaði ríkissjóði á sama tíma vegna þess að skuld þess við ríkissjóð og þar með krafa ríkissjóðs á hendur því hafði fyrir töku búsins til skipta eðli svipað sértökukröfu, fjármunirnir voru eign ríkissjóðs. Ríkið mátti því með skuldajöfnuði taka sér af inneign félagsins hjá ríkissjóði til greiðslu skuldarinnar rétt eins og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 mælir fyrir um.
Þrotabúið á hins vegar rétt til inneignarinnar vegna þess að við töku búsins til skipta breyttist eðli kröfu ríkissjóðs afturvirkt í almenna kröfu á þeim tíma þegar ríkið nýtti hana til að greiða skuld fyrirtækisins við sig. Þótt ráðstöfunin, skuldajöfnuðurinn, hafi verið fyllilega eðlileg og lögmæt þegar hún fór fram heimilar gjaldþrotaréttur engu að síður riftun hennar vegna þeirrar eðlisbreytingar sem verður á rétthæð kröfu ríkissjóðs við gjaldþrotaskiptin. Svona er lífið í ævintýraskógi lögfræðinnar.
Ákvæði 72. og 73. gr. laga nr. 21/1991 raska ekki þeirri skyldu skiptastjóra að rifta gerningum sem fóru fram að liðnum frestdegi að öðrum skilyrðum 139. gr. laganna uppfylltum.
Stefndi hefur ekki borið því við að nein undantekning sem tilgreind er í 139. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um þennan skuldajöfnuð. Hann hefur aðeins borið því við að 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 sé fortakslaus og af þeim sökum verði þeim ráðstöfunum sem fólust í skuldajöfnuðinum ekki rift.
Ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eru sértæk og andspænis þeim eru lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt almenn. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 veitir ríkissjóði enga vörn gegn því að lög nr. 21/1991 heimili riftun ráðstafana sem fóru fram í aðdraganda gjaldþrotaskipta félags og að greiðslur sem fóru fram með skuldajöfnuði á grundvelli ákvæðisins verði endurgreiddar. Dómurinn fellst á að það eigi við um þann skuldajöfnuð sem tollstjóri beitti 17. og 27. mars og 16. maí 2014.
Engu að síður gæti 100. gr. laga nr. 21/1991 um skuldajöfnuð veitt kröfum ríkissjóðs nokkra vernd gegn riftunarreglum laganna ef skuldajöfnuðurinn hefði farið fram við þær aðstæður sem þar er lýst.
Ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 setur ákvæði 139. gr. laganna takmörk að því leyti að samkvæmt 100. gr. skiptir ekki máli þótt gagnkrafan, þ.e. krafa ríkissjóðs á hendur félaginu, verði þegar til skiptanna er komið skilgreind sem almenn krafa. Greiðslu sem farið hefur fram með skuldajöfnuði verður ekki rift ef gagnkröfuhafinn, ríkissjóður, eignaðist kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags.
Stefndi eignaðist eina kröfu á hendur félaginu Gunnars majones hf. áður en þrír mánuðir voru til frestdags, 1. desember 2013, þegar félagið greiddi ríkissjóði ekki staðgreiðsluskatta sem það hafði tekið af launum starfsmanna sinna.
Það er jafnframt skilyrði 100. gr. að félagið hafi eignast kröfu á hendur kröfuhafanum fyrir frestdag. Félagið Gunnars majones hf. eignaðist kröfu á hendur ríkissjóði vegna mismunar á innskatti og útskatti árið 2012, sem uppgötvaðist þó ekki fyrr en 15. maí 2014 þegar starfsmenn tollstjóra fóru yfir virðisaukaskattsskýrslur félagsins.
Þrátt fyrir að þessi skilyrði 100. gr. séu uppfyllt stendur skuldajöfnuður samkvæmt ákvæðinu þó því aðeins óraskaður að gagnkröfuhafi, hér ríkissjóður, hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum. Stefndi hefur hins vegar aldrei haldið því fram að hann hafi ekki vitað af rekstrarerfiðleikum félagsins. Hann hefur því ekki sýnt fram á að skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt og að hann geti, þrátt fyrir stöðu kröfu sinnar sem almennrar kröfu, komist hjá því að rift verði greiðslum sem fram fóru með skuldajöfnuði eftir frestdag 6. mars 2014 við kröfu á hendur honum sem stofnaðist fyrir frestdag.
Öllum greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnuði tollstjóra við kröfur GM framleiðslu hf. á hendur ríkissjóði og stefnandi tilgreinir í kröfu sinni er því rift.
Vegna þeirrar ákvörðunar löggjafans að afturvirk eðlisbreyting yrði á kröfu ríkissjóðs á hendur félagi þegar það er tekið til gjaldþrotaskipta verður að fallast á það með stefnanda að stefndi hafi haft hag af ráðstöfunum sínum, umfram aðra kröfuhafa sem áttu almenna kröfu í búið en gátu ekki fengið hana greidda eins og stefndi. Því ber stefnda að greiða stefnanda bætur skv. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi ber því hvorki við að fjárhæðir né gjalddagar í kröfum stefnanda séu röng en hvort tveggja fær jafnframt stoð í fram lögðum gögnum.
Dómurinn hefur fallist á að riftun ráðstafananna byggist á 139. gr., sbr. 136. gr., laga nr. 21/1991. Þar eð þá skal greiða þrotabúinu bætur samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna verður ekki hjá því komist að sú fjárhæð sem stefndi þarf að greiða stefnanda beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og það frá þeim dögum þegar skuldajöfnuðurinn fór fram.
Til stuðnings gjalddaga dráttarvaxta vísar stefnandi til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 en samkvæmt því ákvæði er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Stefnandi sendi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu kröfu um endurgreiðslu 22. janúar 2015. Stefnandi þykir því eiga rétt til dráttarvaxta af fjárkröfu sinni frá 22. febrúar 2015.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað. Að teknu tilliti til umfangs málsins þykir málskostnaður, að meðtöldum virðisaukaskatti, hæfilega ákveðinn 820.000 kr.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Rift er greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnuði stefnda, íslenska ríkisins, við kröfur sem félagið GM framleiðsla hf. átti á hendur ríkissjóði, samtals 2.552.581 kr., og inntar voru af hendi með skuldajöfnuði 17. mars 2014 að fjárhæð 299.115 kr., skuldajöfnuði 17. mars 2014 að fjárhæð 1.055.141 kr., skuldajöfnuði 27. mars 2014 að fjárhæð 561.904 kr., skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 292.862 kr., skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 343.548 kr. og skuldajöfnuði 16. maí 2014 að fjárhæð 11 kr.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi GM framleiðslu hf., 2.552.581 kr. ásamt vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 1.354.256 kr. frá 17. mars 2014 til 27. mars 2014, af 1.916.160 kr. frá 27. mars 2014 til 16. maí 2014 og af 2.552.581 kr. frá 16. maí 2014 til 22. febrúar 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 22. febrúar 2015 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 820.000 kr. í málskostnað.