Hæstiréttur íslands
Mál nr. 44/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 30. janúar 2008. |
|
Nr. 44/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannesdóttir, fulltrúi) gegn X (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að skilyrði væru fyrir hendi til að X sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og tekin til greina krafa L um að gæsluvarðhaldi yrði markaður lengri tími en héraðsdómari hafði fallist á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 28. janúar 2008 og krefst þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008 kl. 16.
Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og að rannsóknarhagsmunir standi til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með hliðsjón af umfangi málsins verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008 kl. 16.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðahaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2008.
Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í gær, er þess krafist að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008, kl. 16.00. Var málið tekið til úrskurðar um kl. 18.00 í gær.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á um 4,6 kg af amfetamíni og 600 g af kókaíni, sem fannst við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins Z við húsakynni Y á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Áður hafði lögreglu borist upplýsingar um að starfsmaður Z flutningsþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli sjái m.a. annars um að halda ákveðinni leið fyrir innflutning fíkniefna opinni. Þessi starfsmaður er X kt. [...], sem mun vera yfirmaður á gólfi og hefur því óheftan aðgang að flugsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að þessi innflutningsleið hafi verið notuð áður og jafnframt eftir 15. nóvember sl.
Í tengslum við rannsókn málsins voru bræður, A, kt. [...], og B, kærði, handteknir en þeir eru taldir góðvinir X.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hefur kærði neitað að vera viðriðinn innflutning fíkniefna og í þeim innflutningi hafi hann gengt ákveðnu hlutverki. Mikið misræmi er í framburði handtekinna aðila.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þarf er umfang þess innflutnings sem farið hefur í gegnum hraðflutningaþjónustuna Z á síðustu mánuðum og árum og hverjir séu eigendur þeirra sendinga og þeirrar sendingar sem lögregla og tollgæsla haldlagði þann 15. nóvember sl. Þá á eftir að rannsaka hver/hverjir fjármagni innflutning fíkniefnanna og hverjir fleiri kunni að vera viðriðnir innflutning fíkniefnanna að öðru leyti. Það magn fíkniefna, sem haldlagt var þann 15. nóvember sl. þykir benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka og vitni gangi hann laus.
Með vísan til þess og alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16.00.
Brot gegn 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til þess, rökstuðnings lögreglustjóra og eftir lestur fyrirliggjandi rannsóknargagna þykja dómara lög standa til þess að verða við kröfu hans eins og hún er fram sett að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldinu verður markaður tími til 1. febrúar n.k. kl 16.00
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 1. febrúar 2008.