Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2000


Lykilorð

  • Áfrýjun
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Réttargæsla
  • Meðalganga


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. maí 2001.

Nr. 370/2000.

Arnar Theodórsson

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

gegn

Miðbúðinni hf.

(Jóhann Halldórsson hrl.)

 

Áfrýjun. Frávísun frá Hæstarétti. Réttargæsla. Meðalganga.

A var stefnt í héraði til réttargæslu sem kaupsamningshafa eignar er M krafðist lögveðréttar í. Ekki voru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur A, en hann krafðist þess í greinargerð að kröfum um lögveðrétt yrði hafnað. Héraðsdómur staðfesti lögveðrétt í eignarhlutanum og A áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar. Var málinu vísað frá Hæstarétti með þeim athugasemdum að A hefði ekki gerst meðalgöngumaður í málinu í héraði með greinargerð sinni. Hann hefði því ekki orðið aðili að því og héraðsdómur ekki hljóðað á hendur honum. Með því hefði hann ekki heimild til áfrýjunar málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. október 2000 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að að hnekkt verði staðfestingu héraðsdóms á lögveðrétti í 23,52% húseignarinnar Seljabraut 54 í Reykjavík, sem auðkennd er sem M–0201 í þinglýsingabókum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

         Áfrýjanda máls þessa var stefnt í héraði til réttargæslu, en stefndi var Hótel Egilsstaðir ehf., sem verið hafði þinglýstur eigandi að 23,52% húseignarinnar Seljabraut 54. Útivist varð af hálfu þess félags. Ekki voru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur áfrýjanda, en þinglýst hafði verið kaupsamningi hans og fyrrgreinds félags um eignina. Krafðist hann þess í greinargerð að hafnað yrði kröfu um staðfestingu lögveðs í umræddri fasteign.

         Ekki verður talið að áfrýjandi hafi með greinargerð sinni í héraði gerst meðalgöngumaður í málinu samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varð hann því ekki aðili að því, sbr. 2. mgr. 21. gr. sömu laga og hljóðaði héraðsdómur ekki á hendur honum. Með því að hann var ekki aðili málsins hefur hann ekki heimild til áfrýjunar héraðsdóms samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 38/1994. Ber því að vísa málinu frá Hæstarétti.

Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

                                      Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, Arnar Theodórsson, greiði stefnda, Miðbúðinni hf., 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 11. janúar síðastliðinn.

Stefnandi er Miðbúðin hf., kt. 660489-1349, Seljabraut 54, Reykjavík.

Stefndi er Hótel Egilsstaðir ehf., kt. 650997-2719, Bragagötu 31, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 40.902 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 1.381 krónu frá 15. desember 1998 til 31. desember 1998, af 5.773 krónum frá þeim degi til 16. mars 1999, af 7.911 krónum frá þeim degi til 15. maí 1999, af 11.502 krónum frá þeim degi til 26. maí 1999 og af 40.902 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist staðfestingar á lögveðrétti í 23.5% eignarhluta stefnda í Seljabraut 54, merktum 0201, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

Arnari Theodórssyni, kt. 300457-4369, Löngumýri 22, Garðabæ, er stefnt til réttargæslu, en engar kröfur gerðar á hendur honum. Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Málavextir

Krafa stefnanda er samkvæmt fimm reikningum, dagsettum 16. nóvember 1998, að fjárhæð 5.874 krónur, 31. desember 1998, að fjárhæð 18.675, 16. mars 1999, að fjárhæð 9.089, 13. apríl 1999, að fjárhæð 15.269 og 26. maí 1999, að fjárhæð 125.000 krónur. Reikningarnir eru vegna kostnaðar við sameign fasteignarinnar nr. 54 við Seljabraut hér í borg. Um er að ræða snjómokstur og annað nauðsynlegt viðhald sameignarinnar. Eignarhlutur stefnda, sem ekki tekur til varna í málinu, í umræddri fasteign er 23,52%.

II.

Lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að stefnda beri að greiða 23,52% af áðurnefndum kostnaði við sameignina samkvæmt 43. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þá styður stefnandi kröfu um staðfestingar lögveðréttar við 48. gr. sömu laga.

III.

Lagarök réttargæslustefnda

Réttargæslustefndi kveðst hafa eignast umræddan eignarhluta með kaupsamningi, dagsettum 3. júní 1999. Telji hann samninginn að fullu efndan, enda þótt afsal hafi ekki verið gefið út.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Svo sem áður greinir er vörnum ekki haldið uppi af hálfu stefnda í máli þessu. Ber því að dæma málið eftir kröfum stefnanda og þeim gögnum, sem hann hefur lagt fyrir dóminn. Þar sem gögnin eru í samræmi við stefnukröfur og engir þeir gallar á málatilbúnaði stefnanda, að frávísun varði án kröfu, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda stefnufjárhæð málsins, ásamt vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 26/1994 eignast húsfélag fjöleignarhúss eða aðrir eigendur lögveð í eignarhluta þess eiganda, sem ekki greiðir hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði við eignina, svo sem hér háttar til. Skiptir því í raun ekki máli, hvað slík réttindi húsfélagsins eða annarra eigenda fjöleignarhúss áhrærir, hver er eigandi þess eignarhluta fjöleignarhúss, sem ekki staðið í skilum fyrir vegna sameiginlegs kostnaðar af fasteigninni. Fram kemur í 3. mgr. 48. gr. ofangreindra laga um fjöleignarhús, að lögveð stofnist, þegar húsfélag eða aðrir eigendur inna greiðslur af hendi. Af gögnum málsins verður ráðið, að stefndi hafi verið þinglýstur eigandi eignarinnar við höfðun málsins. Var því nægjanlegt að stefna Arnari Theodórssyni til réttargæslu sem kaupsamningshafa eignarinnar. Með vísan til þessa ber að fallast á kröfu stefnanda um staðfestingu lögveðréttar í umræddum eignarhluta fasteignarinnar.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 30.000 krónur, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli stefnanda og réttargæslustefnda falli niður.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Hótel Egilsstaðir ehf., greiði stefnanda, Miðbúðinni hf., 40.902 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 1.381 krónu frá 15. desember 1998 til 31. desember 1998, af 5.773 krónum frá þeim degi til 16. mars 1999, af 7.911 krónum frá þeim degi til 15. maí 1999, af 11.502 krónum frá þeim degi til 26. maí 1999 og af 40.902 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Staðfestur er lögveðréttur í 23.5% eignarhluta stefnda í Seljabraut 54, merktum 0201.

Stefndi greiði stefnanda 30.000 krónur í málskostnað, en málskostnaður milli stefnanda og réttargæslustefnda fellur niður.