Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Greiðsla
|
|
Miðvikudaginn 18. mars 2009. |
|
Nr. 100/2009. |
Ragnar Ólafsson(Jóhannes Ásgeirsson hrl.) gegn Þorsteini G. Eggertssyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Greiðsla.
R kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu Þ um ógildingu fjárnáms, sem sýslumaðurinn í Borgarnesi hafði gert hjá honum á grundvelli dóms Hæstaréttar 4. október 2007 þar sem Þ og eiginkonu hans var gert að greiða R óskipt tiltekna fjárhæð. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, en þar er vísað til þess að í kjölfarið af hinum aðfararhæfa dómi hafi R tekið saman yfirlit yfir skuld Þ og eiginkonu hans við R þar sem fram kom að skuld þeirra næmi 606.122 krónur. Þ hafi í framhaldinu greitt þá fjárhæð og lögmaður R gefið út yfirlýsingu þess efnis að greiðsla þessarar fjárhæðar hefði verið innt af hendi af hálfu hjónanna ásamt því að vísað var í umrætt yfirlit. R hefði því mátt vera ljóst að greiðslan hafi verið innt af hendi til lúkningar skuldinni. Hvorki bréfið frá lögmanni R, né önnur gögn málsins hafi borið með sér að umrædd greiðsla hafi verið móttekin með fyrirvara af hálfu R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. febrúar 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði hjá honum 17. september 2008 í eignarhluta hans í jörðinni Kvíum, fyrir kröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði breytt og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur, en til vara að fjárnáminu verði breytt á þann veg að einungis verði gert fjárnám til tryggingar kröfu að fjárhæð 314.428 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili í framhaldi af dómi Hæstaréttar 4. október 2007 saman yfirlit um skuld varnaraðila og eiginkonu hans við sóknaraðila þar sem fram kom að skuld þeirra við hann næmi 606.122 krónum. Varnaraðili greiddi sóknaraðila þessa fjárhæð. Lögmaður sóknaraðila gaf út yfirlýsingu 22. október 2007 um að greiðslan hafi verið innt af hendi til sóknaraðila vegnar skuldar hjónanna. Í yfirlýsingunni var vísað til áðurnefnds yfirlits. Sóknaraðila mátti vera ljóst að greiðslan var innt af hendi til lúkningar skuldinni. Hvorki bréfið né önnur gögn málsins bera með sér að umrædd greiðsla hafi verið móttekin með fyrirvara af hálfu sóknaraðila um að hann ætti frekari kröfu á hendur varnaraðila og eiginkonu hans. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ragnar Ólafsson, greiði varnaraðila, Þorsteini G. Eggertssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. febrúar 2009.
Mál þetta var þingfest 21. október 2008 og dómtekið 16. janúar 2009. Sóknaraðili er Þorsteinn G. Eggertsson, Kvíum II í Borgarbyggð, en varnaraðili er Ragnar Ólafsson, Barmahlíð 16 í Reykjavík.
Sóknaraðili gerir þá kröfu aðallega að ógilt verði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði 17. september 2008, að kröfu varnaraðila, í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Kvíar fyrir kröfu að fjárhæð 920.550 krónur, auk áfallandi vaxta og kostnaðar. Til vara er þess krafist að fjárnáminu verði breytt á þann veg að einungis verði gert fjárnám til tryggingar kröfu að fjárhæð 314.428 krónur. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.
I.
Milli sóknaraðila og eiginkonu hans, Laufeyjar Valsteinsdóttur, annars vegar og varnaraðila hins vegar hafa um nokkurt skeið verið deilur sem snerta jörðina Kvíar og nýbýlið Kvíar II sem byggt var úr jörðinni. Af þessu tilefni hafa verið rekin nokkur dómsmál milli aðila.
Meðal annars laut ágreiningur aðila að því hvort varnaraðili, sem var eigandi að þriðjungi jarðarinnar Kvíar, ætti rétt á að fá samsvarandi hlutdeild í greiðslumarki jarðarinnar í sauðfé, sem selt var 9. júlí 2003. Vegna þessa ágreinings höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og eiginkonu hans 13. janúar 2006 og lauk málinu með dómi réttarins 10. nóvember sama ár. Með þeim dómi var þeim hjónum gert að greiða varnaraðila óskipt 524.333 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 18. desember 2005 til greiðsludags. Jafnframt var hjónunum gert að greiða varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað. Með dómi Hæstaréttar 4. október 2007 í máli nr. 78/2007 var dómurinn staðfestur og hjónunum gert að greiða varnaraðila óskipt 300.000 í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Með aðfararbeiðni 8. desember 2006 krafðist varnaraðili fjárnáms hjá sóknaraðila og eiginkonu hans til fullnustu á nefndum dómi réttarins frá 10. nóvember sama ár. Varnaraðili sundurliðaði kröfuna þannig:
|
Höfuðstóll |
kr. |
524.333 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
117.817 |
|
Málskostnaður |
kr. |
250.000 |
|
Endurrit |
kr. |
500 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
6.250 |
|
Aðfararbeiðni |
kr. |
12.450 |
|
Aðfarargjald |
kr. |
9.200 |
|
Samtals |
kr. |
920.550 |
Til viðbótar var þess krafist að fjárnámið yrði gert fyrir áfallandi vöxtum til greiðsludags auk kostnaðar af framkvæmd gerðarinnar og eftirfarandi fullnustugerða, ef til þeirra kæmi.
Með bréfi 3. september 2008 var sóknaraðila tilkynnt um fjárnámið og var það tekið fyrir hjá sýslumanninum í Borgarnesi 17. sama mánaðar. Við fyrirtökuna var því mótmælt af hálfu sóknaraðila að gerðin næði fram að ganga þar sem uppgjör milli aðila á öllum skuldum hefði farið fram. Sýslumaður féllst ekki á þessi andmæli og að ábendingu varnaraðila var gert fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í jörðinni Kvíar. Samhliða var einnig gert fjárnám hjá eiginkonu sóknaraðila í eignarhluta hennar í sömu eign.
Með bréfi sóknaraðila 30. september 2008, sem barst dóminum 7. október sama ár, var krafist úrlausnar dómsins um gerðina. Málið var síðan þingfest 21. þess mánaðar, svo sem áður getur.
II.
Eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar gekk 4. október 2007 fóru fram viðræður um heildaruppgjör milli aðila vegna deilumála þeirra. Af því tilefni tók lögmaður varnaraðila saman yfirlit sem er svohljóðandi:
1. Dómur-greiðslumark. Ragnar Ólafss. gegn Þorsteini og Laufeyju [Hrd. 78/2007]:
|
Höfuðstóll |
kr. |
524.333 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
248.081 |
|
Málskostnaður í héraði |
kr. |
250.000 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
54.823 |
|
Málskostnaður í Hæstarétti |
kr. |
300.000 |
|
Samtals |
kr. |
1.377.237 |
2. Dómur-leiga. Ragnar Ólafsson gegn Þorsteini [Hérd. Rvík mál nr. E-7818/2005]:
|
|
Höfuðstóll |
kr. |
200.00 |
|
||
|
|
Dráttarvextir |
kr. |
182.984 |
|
||
|
|
Endurrit |
kr. |
1.200 |
|
||
|
|
Aðfararbeiðni |
kr. |
12.450 |
|
||
|
|
Aðfarargjald |
kr. |
4.600 |
|
||
|
|
Samtals |
kr. |
401.234 |
|
||
|
Þorsteinn skuldar Ragnari |
kr. |
1.778.471 |
||||
Skuldir Ragnars við Þorstein:
1. Málskostnaður í eignarréttarmálinu [Hrd. 20/2007]
|
Réttargæslustefndu í héraði |
kr. |
200.000 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
46.861 |
|
Samtals |
kr. |
246.861 |
2. Afsalsmálið [Hérd. Rvík mál nr. E-4327/2005]
|
Málskostnaður í héraði |
kr. |
200.000 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
81.119 |
|
Hæstiréttur |
kr. |
100.000 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
22.582 |
|
Samtals |
kr. |
403.701 |
|
Ragnar skuldar Þorsteini |
kr. |
650.562 |
|
|
|
|
Þorsteinn gerir kröfu á Ragnar vegna hlunninda:
|
Kr. 1. mars 2005 fyrirfram |
kr. |
305.000 |
|
Dráttarvextir |
kr. |
216.787 |
|
Samtals |
kr. |
521.787 |
Niðurstaða:
Skuld Þorsteins við Ragnar:
|
Skv. framansögðu |
kr. |
1.778.471 |
|
Skuld Ragnars við Þorstein: |
|
|
|
Skv. framansögðu |
kr. |
(650.562) |
|
Mismunur |
kr. |
1.127.909 |
|
Hlunnindi |
kr. |
(521.787) |
|
Mismunur |
kr. |
606.122 |
Skv. framansögðu er skuld Þorsteins við Ragnar að teknu tilliti til kröfu vegna veiðihlunninda kr. 606.122.
Í kjölfar þess að yfirlitið barst þáverandi lögmanni sóknaraðila og eiginkonu hans voru gerð skil við lögmann varnaraðila. Í kjölfarið gaf lögmaður varnaraðila út svohljóðandi yfirlýsingu 22. október 2007:
Hér með staðfestist að Jón Höskuldsson hrl. hefur greitt undirrituðum vegna skulda Þorsteins Eggertssonar og Laufeyjar Valsteinsdóttur kr. 606.122, sbr. ódags. yfirlitsblað um uppgjör Ragnars Ólafssonar og Þorsteins og Laufeyjar.
III.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um ógildingu fjárnámsins á því að komist hafi á samkomulag með málsaðilum um uppgjör allra skulda og hafi það einnig náð til kröfu samkvæmt þeim dómi sem liggi til grundvallar aðfararbeiðni varnaraðila. Í samræmi við þetta hafi sóknaraðili og eiginkona hans gert upp við varnaraðila með greiðslu að fjárhæð 606.122 krónur sem innt hafi verið af hendi í október 2007 gegn kvittun lögmanns varnaraðila.
Sóknaraðili tekur fram að boðun til fjárnámsins rétt tæpu ári eftir uppgjörið hafi komið sér algerlega í opna skjöldu. Vísar sóknaraðili til þess að fjárnáminu hafi harðlega verið mótmælt þar sem skyldan hefði að fullu verið efnd, en þessi andmæli hafi sýslumaður virt að vettugi.
Sóknaraðili andmælir því harðlega að yfirlit lögmanns varnaraðila, sem lagt var til grundvallar við uppgjörið, hafi verið án skuldbindingar af hálfu varnaraðila. Í því sambandi tekur sóknaraðili fram að hann og eiginkona hans hafi greitt til lögmanns varnaraðila á grundvelli uppgjörs sem stafaði frá lögmanninum og hafi hann gefið kvittun fyrir greiðslunni sem hann tók við fyrirvaralaust. Með þessu hafi lögmaðurinn staðfest fyrir hönd umbjóðanda síns að endanlegt uppgjör hefði farið fram. Þá var því hreyft við munnlegan flutning málsins að varnaraðili hefði sýnt af sér mikið tómlæti í kjölfar uppgjörsins þar sem tæpt ár hefði liðið þar til hafist var handa á ný við innheimtuna.
Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins er þess krafist að gerðinni verði breytt á þann veg að aðeins verði gert fjárnám fyrir kröfu að fjárhæð 314.428 krónur. Byggist sú krafa á því að til frádráttar komi greiðsla sóknaraðila samkvæmt uppgjörinu.
IV.
Varnaraðili vísar til þess að yfirlit það sem lögmaður varnaraðila tók saman hafi verið óundirritað og ósamþykkt uppkast að heildaruppgjöri milli aðila. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki fengið fullnaðarkvittun um endanlegt uppgjör, enda hafi varnaraðili aldrei fallist á þessa tillögu um lyktir mála. Hér telur varnaraðili að greiðsla án fyrirvara um samþykki varnaraðila geti engu breytt og hafi hún verið tekin sem innborgun.
Varnaraðili bendir á að á yfirlitinu hafi verið umdeildir liðir eins og krafa sóknaraðila vegna hlunninda. Heldur varnaraðili því fram að forsenda fyrir því að sá liður yrði tekin til greina væri að sóknaraðili gæfi út reikning svo hægt yrði að bakfæra greiðslu vegna hlunninda, en varnaraðili hafi tekjufært þessar greiðslur á sínum tíma og greitt af þeim skatt. Því hafi varnaraðili þurft reikning frá sóknaraðila til að geta óskað eftir endurupptöku hjá skattstjóra í því skyni að fá skattinn endurgreiddan.
Varnaraðili vísar til þess að á yfirlitinu hafi allt verið tínt til svo freista mætti þess að ljúka öllum hugsanlegum ágreiningi milli aðila. Hér hafi eingöngu verið um vinnuplagg að ræða til að varpa ljósi á málið og sætta aðila. Þetta hafi þó verið bundið augljósum fyrirvörum eins og að sóknaraðili gæfi út reikning vegna hlunnindagreiðslu.
V.
Með dómi réttarins 10. nóvember 2006 var sóknaraðila og eiginkonu hans gert að greiða varnaraðila óskipt 524.333 krónur auk tilgreindra dráttarvaxta og 250.000 krónur í málskostnað. Á grundvelli dómsins krafðist varnaraðili aðfarar hjá sóknaraðila og eiginkonu hans með aðfararbeiðni 8. desember 2006. Áður en aðfararbeiðnin var tekin fyrir var dóminum áfrýjað 8. febrúar 2007 og frestaðist því aðfararhæfið, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
Að gengnum dómi Hæstaréttar 4. október 2007 í umræddu máli fóru fram viðræður milli aðila um heildaruppgjör vegna fjölda deilumála þeirra og tók lögmaður saman það yfirlit sem áður er rakið. Á grundvelli þess greiddu síðan sóknaraðili og eiginkona hans mismun samkvæmt yfirlitinu til lögmannsins sem gaf út kvittun til þeirra 22. október 2007. Í þeirri kvittun er beinlínis vísað til þess að greitt hafi verið samkvæmt umræddu yfirliti lögmannsins.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að neinn reki hafi verið gerður að því að innheimta það sem varnaraðili taldi sig eiga hjá sóknaraðila fyrr en með fjárnámsboðun sýslumanns 3. september 2008, en þá voru liðlega 10 mánuðir liðnir frá því sóknaraðili og eiginkona hans inntu greiðsluna af hendi. Ef varnaraðili vildi ekki una við það uppgjör sem hans eigin lögmaður hafði annast fyrir hans hönd bar honum þegar í stað að hreyfa andmælum við sóknaraðila, sem var rétt að ganga út frá að uppgjörið væri endanlegt. Að virtu þessu tómlæti varnaraðila verður hann talinn bundinn við uppgjörið og þarf þá ekki að skera úr um hvort lögmaður hans hafði í raun umboð til að ganga frá málum á þennan veg. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili efnt þá skyldu sem lögð var á hann með þeim dómi sem lá til grundvallar fjárnáminu og því verður fjárnámið fellt úr gildi.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til hagræðis af því að samskonar mál hefur verið rekið hér fyrir dómi milli eiginkonu sóknaraðila og varnaraðila.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fellt er úr gildi fjárnám sýslumannsins í Borgarnesi frá 17. september 2008, sem gert var að kröfu varnaraðila, Ragnars Ólafssonar, hjá sóknaraðila, Þorsteini G. Eggertssyni, í eignarhluta hans í jörðinni Kvíum.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.