Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Óskipt bú
|
|
Föstudaginn 28. september 2001. |
|
Nr. 356/2001. |
Eiríkur Karlsson(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Karli Eiríkssyni, Hallgrími Skúla Karlssyni og Þóru Karlsdóttur (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Óskipt bú.
E krafðist þess að dánarbú móður sinnar (S) yrði tekið til opinberra skipta en faðir hans (K) sat í óskiptu búi eftir andlát hennar. Vísaði E til þess að tilefni væri til að óttast rýrnun á efnum búsins með óhæfilegri fjárstjórn K, sbr. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962, þar sem hann hyggðist veðsetja allar eignir búsins til tryggingar greiðslu láns, sem taka ætti til fjármögnunar viðbótarhlutafjár í félaginu B. Hæstiréttur kvað fyrirætlanir K til þess fallnar að gefa tilefni til að óttast slíka rýrnun og féllst á kröfu um opinber skipti E til handa á dánarbúi S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. september sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að dánarbú móður sinnar verði tekið til opinberra skipta og varnaraðilar dæmdir óskipt til greiðslu málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Karl Eiríksson og Hallgrímur Skúli Karlsson krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að dánarbúið verði einungis tekið til skipta sóknaraðila til handa. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Þóra Karlsdóttir hefur ekki látið málið til sín taka.
I.
Varnaraðilinn Karl Eiríksson, faðir sóknaraðila, fékk leyfi til setu í óskiptu búi 1. júlí 1997 eftir lát eiginkonu sinnar Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur, sem lést 10. júní sama ár. Er leyfi til setu í óskiptu búi var veitt voru eignir búsins taldar 5 fasteignir, samtals að fasteignamati 25.722.630 krónur, hlutabréf í Bræðrunum Ormsson ehf. að nafnverði 968.240 krónur, hlutabréf í öðrum félögum að nafnverði 128.497 krónur og inneign hjá Bræðrunum Ormsson ehf. 7.630.697 krónur. Töldust eignir búsins samkvæmt þessu nema samtals 34.450.064 krónum en skuldir 2.640.879 krónur. Óumdeilt er að eignir búsins eru að mestu óbreyttar frá því að leyfi var veitt til setu í óskiptu búi. Tap á rekstri Bræðranna Ormsson ehf. á árinu 2000 nam um 30 milljónum króna og var eigið fé félagsins í árslok tæplega 97 milljónir króna. Samkvæmt rekstrarreikningi tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2001 nam tap félagsins rúmum 88 milljónum króna og var eigið fé þess í lok tímabilsins rúmar 9 milljónir krónur. Á stjórnarfundi sem haldinn var í Bræðrunum Ormsson ehf. 10. september 2001 var samþykkt tillaga til framhaldshluthafafundar í félaginu að styrkja stöðu félagsins með því að auka hlutafé þess að lágmarki um 800.000 krónur en að hámarki um 1.500.000 krónur með áskrift nýrra hluta og skyldi gengi þeirra vera 100. Var þessi tillaga samþykkt á framhaldshluthafafundi sem haldinn var sama dag. Ákvörðun þessi var tekin í framhaldi af viðræðum sóknaraðilans Karls og stjórnar félagsins um að Kaupþing hf. eða dótturfélag þess keypti fasteignir Bræðranna Ormsson ehf. og yfirtæki allar áhvílandi skuldir á þeim og greiddi auk þess um 135 milljónir króna en félagið tæki fasteignirnar á leigu til 10 ára. Eitt skilyrða viðskiptanna af hálfu Kaupþings hf. var að hlutafé félagsins yrði aukið um að minnsta kosti 100 milljónir króna. Varnarðilinn Karl ætlaði að skrá sig fyrir hinum nýju hlutum og taka lán í því skyni, en veðsetja eignir búsins til tryggingar á greiðslu lánsins. Málavöxtum er nánar lýst í úrskurði héraðsdóms.
Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 12. og 19. september sl. var fallist á þá kröfu sóknaraðila, sem er einn þriggja barna varnaraðilans Karls Eiríkssonar og hinnar látnu eiginkonu hans, að réttaráhrif leyfis föður hans til setu í óskiptu búi skuli niður falla meðan skorið er úr ágreiningi um hvort búið skuli tekið til opinberra skipta.
II.
Sóknaraðili krefst í máli þessu opinberra skipta á dánarbúi móður sinnar. Reisir hann kröfu sína á 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og vísar til þess að ætla megi, að tilefni sé til að óttast rýrnun á efnum búsins með óhæfilegri fjárstjórn varnaraðilans Karls. Bendir hann því til stuðnings á að Bræðurnir Ormsson ehf. hafi tapað verulegum fjármunum á árinu 2000 og fram til loka júnímánaðar 2001. Viðurkennt sé að Karl hyggist veðsetja eignir hins óskipta bús til kaupa á viðbótarhlutafé í Bræðrunum Ormsson ehf. Sóknaraðili mótmælir þessari meðferð á móðurarfi sínum og telur þessar fyrirætlanir afar áhættusamar og líklegast að þær muni ekki skila þeim árangri sem að sé stefnt. Varnaraðilarnir Karl og Hallgrímur Skúli telja aftur á móti að fyrirhugaðar ráðstafanir Karls séu vel ígrundaðar og geti á engan hátt talist þess konar að þær gætu fallið undir „óhæfilega fjárstjórn” í skilningi 15. gr. erfðalaga. Þvert á móti sé Karl að bjarga hagsmunum búsins í rekstrarerfiðleikum félagsins og forða því frá hugsanlegu gjaldþroti.
Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, enda hafi viðkomandi erfingi heimild til þess eftir ákvæðum erfðalaga. Í 1. mgr. 15. gr. erfðalaga með áorðnum breytingum er meðal annars kveðið á um að erfingi geti krafist skipta sér til handa, ef hann sannar að maki veiti tilefni til að óttast megi rýrnun á efnum búsins með óhæfilegri fjárstjórn sinni. Fallast verður á það með sóknaraðila að fyrirætlanir varnaraðilans Karls, sem greint er frá hér að framan, séu til þess fallnar að gefa tilefni til að óttast slíka rýrnun, enda mun hann hafa hug á að veðsetja eignir búsins til tryggingar umfangsmiklum fjárskuldbindingum sínum vegna kaupa á hlutafé í áhættusömum rekstri. Með skýrum orðum 1. mgr. 15. gr. laganna eru tekin af tvímæli um það, að erfingi geti aðeins krafist þess að fá erfðahlut sinn greiddan. Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti í þessu skyni á dánarbúi móður hans, Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur.
Varnaraðilarnir Karl Eiríksson og Hallgrímur Skúli Karlsson skulu greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Fallist er á kröfu sóknaraðila, Eiríks Karlssonar, um opinber skipti sér til handa á dánarbúi Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur.
Varnaraðilar Karl Eiríksson og Hallgrímur Skúli Karlsson skulu í sameiningu greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, samtals 60.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2001.
Málið barst Héraðsdómi með bréfi lögmanns skiptabeiðanda, sem dagsett er 11. september sl. Það var tekið fyrir 12. september sl. og frestað til greinargerðar og gagnaöflunar til 14. sama mánaðar að beiðni lögmanns varnaraðila.
Það var tekið til úrskurðar 14. september sl. Lögmenn málsaðila óskuðu ekki eftir því að flytja málið munnlega, en gerðu dóminum munnlega grein fyrir þeim málsástæðum og lagarökum, sem umbj. þeirra byggðu kröfur sínar á.
Í þinghaldinu 12. september sl. kvað dómari upp úrskurð að kröfu sóknaraðila, þess efnis, að réttaráhrif leyfis Karls Eiríkssonar til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, Ingibjörgu Sigríði Skúladóttur, skyldu falla niður að öllu leyti, meðan skorið væri úr um þann ágreining, hvort taka skuli bú hennar til opinberra skipta.
Dómkröfur:
Sóknaraðili Eiríkur Karlsson krefst opinberra skipta á dánarbúi móður sinnar, Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur, en varnaraðilinn Karl Eiríksson, fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína með börnum þeirra með beiðni um setu í óskiptu búi dags. 1. júlí 1997. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðilanna, Karl Eiríkssonar og Hallgríms Skúla Karlssonar eru sem hér segir:
Aðallega, að kröfum sóknaraðila í máli þessu verði hafnað.
Til vara, að krafa sóknaraðila verði aðeins tekin til greina að því marki að dánarbú Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur verði tekið til skipta til handa sóknaraðila.
Að sóknaraðili verði í báðum tilvikum dæmdur til greiðslu kostnaðar varnaraðila af máli þessu.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Eins og áður er getið, fékk varnaraðilinn Karl Eiríksson leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, Ingibjörgu Sigríði Skúladóttur, í júlí mánuði 1997. Í beiðni hans til sýslumanns um setu í óskiptu búi er getið helstu eigna búsins, sem eru sem hér segir:
Efstaleiti 14, Reykjavík fasteignamat (fm.) kr. 17.473.830
Ásvallagata 40, Reykjavík 1/5 hluti fm.- 576.600
Skeggjastaðir (lóð 1/5 hluti) fm.- 770.400
Stíflisdalur I og sumarbústaður- 6.901.800
Hlutabréf:
Bræðurnir Ormsson ehf. (BO ehf.)- 968.240
Önnur félög - 128.497
Aðrar eignir.
Inneign BO ehf.- 7.630.697
Skuldir eru tilgreindar samtals 2.640.879 krónur við Stofnlánadeild landbúnaðarins og Byggingarsjóð ríkisins, þar af Byggingasjóður 2.320.843 krónur.
Ingibjörg Sigríður og Karl Eiríksson gerðu með sér gagnkvæma erfðaskrá, sem dagsett er 16. desember 1988. Sú erfðaskrá var gerð í þeim eina tilgangi, að tryggja því hjóna, sem lengur lifði heimild til að sitja í óskiptu búi í samræmi við ákvæði laga nr. 29/1985, eins og segir í 1. gr. erfðaskrárinnar. Í 2. gr. segir, að hvorugt þeirra hjóna geti breytt eða afturkallað erfðaskrána, án samþykkis hins.
Þá liggur fyrir gagnkvæm erfðaskrá þeirra hjóna, sem dagsett er og vottuð 24. október 1996.
Erfðaskráin er svohljóðandi:
1. Hvort okkar, sem lifir hitt, skal erfa hlut hins í einkahlutafélaginu Bræðurnir Ormson ehf., Lágmúla 8-9, Reykjavík, en hvort um sig eigum við 26% í félaginu.
2.Eftir lát þess okkar, sem lengur lifir, skuli hlutir okkar ásamt jöfnunarhlutum, sem þeim fylgja í einkahlutafélaginu Bræðurnir Ormsson ehf., skiptast til eftirgreindra lögerfingja okkar:
Til eftirgreindra barna okkar skulu renna hlutir sem gera þau hvert um sig að 24% hluthöfum í félaginu þannig:
Eiríkur Karlsson, kt. 110650-2809, Rauðagerði 50, hlýtur hlut, sem svarar 6% af hlutafé félagsins.
Hallgrímur Skúli Karlsson, kt. 200560-5829, Bugðutanga 9, Mosfellsbæ hlýtur hlut, sem svarar til 9% af hlutafé félagsins.
Þóra Karlsdóttir, kt. 180653-2959, Kirkjubæjarklaustri, hlýtur hlut, sem svarar til 9% af hlutafél félagsins.
Hvert eftirgreindra barnabarna okkar hlýtur hlut, sem svarar 4% af hlutafél félagins: Tilgreind eru nöfn 7 barnabarna, sem ekki er ástæða til að nafngreina hér sérstaklega.
3. Breytist hlutareign okkar til hækkunar eða lækkunar, breytist skipting hlutanna til erfingja okkar skv. 2. tl. hlutfallslega.
4. Sú kvöð skal hvíla á hlutum, sem arfleiddir eru af okkur með erfðaskrá þessari, að verði erfðaskrá þessi virk fyrir 1. janúar 2002, skal erfingjum óheimilt að selja þá eða ráðstafa þeim með öðrum hætti, þ.m.t. að heimila fjárnám í þeim fyrir skuldum sínum, fyrr en eftir þann tíma. Þá hvílir sú kvöð á hlutum þeim, sem falla í hlut þeirra Eiríks Karlssonar og Þóru Karlsdóttur, er nema samkvæmt framansögðu samtals 15% hlutafjár í félaginu, að Skúli Karlsson skal fara með atkvæðisrétt hluta þessara á hluthafafundum í Bræðrunum Ormsson ehf. allt til 1. janúar 2002, verði erfðaskrá þessi virk fyrir þann tíma. Er það vilji okkar að Skúli Karlsson ráði meirihluta félagsins til 1. janúar 2002 með hlutum sínum, barna sinna og atkvæðum er fyljga hlutum sem við arfleifum til Eiríks og Þóru, en hlutir þessir nema samtals 51% hlutafjár. Kvöð þessi nær einnig til jöfnunarhlutabréfa, sem gefin kunna að vera út á grundvelli hluta þessara.
5. Það okkar sem lengur lifir, má ekki ráðstafa hlutum þessum þannig að í bága komi við réttindi erfingja samkvæmt framansögðu.
Samkvæmt framlögðum ársreikningi fyrir rekstrarárið 1998 skilaði rekstur BO ehf. hagnaði að fjárhæð u.þ.b. 3,4 milljónum króna, miðað við u.þ.b. 28, 4 milljónum árið áður. Eigið fé félagsins nam í árslok 1998 88,7 milljónum króna.
Samkvæmt ársreikningi síðastliðins árs, nam tap félagsins samkvæmt rekstrarreikningi þess 30,2 milljónum króna og eigið fé félagsins sagt nema 96,8 milljónum króna í árslok. Einnig hefur verið lagt fram í dóminum efnahags- og rekstrarreikningur BO ehf. fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní þessa árs. Þar kemur fram að tap fyrra misseris þessa árs nemur u.þ.b. 88,5 milljónum króna. Eigið fé þess hefur lækkað verulega og nemur nú 9,3 milljónum króna.
Stjórn BO ehf. hefur ákveðið að bregðast við taprekstri félagsins með því að auka hlutafé þess um allt að 150 milljónum króna. Á hluthafafundi, sem haldinn var í félaginu 10. september sl., var samþykkt svohljóðandi tillaga: ,,Framhaldshluthafafundur í Bræðrunum Ormsson ehf. haldinn 10. september 2001 samþykkir að auka hlutafé félagsins að nafnverði um að lágmarki kr. 800.000 og að hámarki kr. 1.500.000 með áskrift nýrra hluta. Gengi hinna nýju hluta skal vera 100. Frestur til áskriftar skal vera til og með 29. september 2001. Hluthafar skulu eiga forgangsrétt til að skrá sig fyrir hinum nýju hlutum í hlutfalli við hlutaeign sína til og með 24. september 2001. Greiðslukjör skulu vera eftirfarandi: Kaupverð skal greiða innan þriggja mánaða, en greiðast skulu 15% vextir p. a. frá 1. október 2001 til greiðsludags. Áætlaður kostnaður við hlutafjáraukninguna er kr. 10.000.”
Í skýrslu stjórnar BO ehf. fyrir hluthafafundinn 10. september sl. segir m.a. svo: ,,Til að styrkja stöðu félagins, sem hefur aukið umsvif sín geysilega á undanförnum árum, er nauðsynlegt að auka eigið fé félagsins m.a. með sölu eigna og hlutafjáraukningu. Þessi mál hafa verið til umræðu á stjórnarfundum og hluthafafundum sl. ár. Með auknum innri fjárhagslegum styrk skapast tækifæri til að láta nýja vaxtarbrodda í rekstrinum skila auknum arði til að styrkja hagnaðarvon og tryggja arðgreiðslu til hluthafa. Með auknum styrk er hægt að horfa til framtíðar, hugsanlega í sameinuðum rekstri, sem gæti gert félagið að markaðstæku fyrirtæki innan fárra ára. Stjórn félagsins hyggst leita allra leiða hið fyrsta til að lækka vaxtagjöld fyrirtækisins og snúa rekstri í jákvæða stöðu að nýju. Teljum við að það sé best gert í sameinuðu öflugu fyrirtæki, sem byggir framtíð sína á sterkum og vönduðum vörumerkjum og með því að bjóða bestu þjónustu til viðskiptamanna fyrirtækisins.”
Rétt er að geta þess, að fyrir liggur áætlaður efnahagsreikningur, sem byggður er á því, að ráðstafanir stjórnarinnar gangi eftir. Niðurstaða reikningsins sýnir að eigið fé BO ehf. nemur eftir aðgerðirnar u.þ.b. 350 milljónum króna.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili vísar til 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 til stuðnings kröfu sinni um að dánarbú móður hans Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur verði tekið til opinberra skipta. Eignir dánarbúsins séu að mestu óbreyttar frá því að föður hans var veitt heimild til setu í óskiptu búi.
Hann byggir kröfu sína á því, að rekstur einkahlutafélagsins BO ehf hafi gengið mjög illa undanfarandi ár. Félagið hafi tapað nær öllu eiginfé sínu, eins og framlögð gögn sýni. Samþykkt hluthafafundar í félaginu hinn 10. september sl. hafi verið að frumkvæði föður hans, Karl Eiríkssonar. Jafnframt hafi faðir hans lýst yfir því á hluthafafundi í félaginu 6. september sl. að hann hefði í hyggju að veðsetja allar eignir hins óskipta bús til að fjármagna veruleg kaup sín á viðbótarhlutafénu. Hann muni hafa undirbúið lántöku í þessu skyni hjá Kaupþingi hf.
Sóknaraðili kveðst vera andvígur þessum fyrirætlunum, enda telji hann engar horfur á því, að unnt verði að snúa hinum mikla hallarekstri BO ehf. við, þannig að forsvaranlegt geti talist að hætta eigum hins óskipta bús með þessum hætti. Hann sjái sig því knúinn til að óska eftir opinberum skiptum á dánarbúi móður sinnar á grundvelli ofangreindrar lagaheimildar.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðilar byggja aðalkröfu sína á því, að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hæfi eða fjárstjórn Karls Eiríkssonar á hinu óskipta búi hafi verið ábótavant. Framlögð gögn sýni, að eignastaða búins hafi síður en svo skerst frá því leyfið til setu í óskiptu búi var veitt.
Þá hafi sóknaraðili ekki heldur fært fram sönnur á því, að fyrirhuguð hlutafjárkaup Karls í BO ehf. gefi tilefni til, að hann verði sviptur leyfi til setu í óskiptu búi og að búið verði tekið til opinberra skipta, eins og krafist sé af hans hálfu. Þvert á móti séu þessar ráðstafanir gerðar í því eina skyni að styrkja stöðu hlutafélagins. Eins og fram komi í gagnkvæmri erfðaskrá Karls og Ingibjargar hafi það verið sameiginlegur vilji þeirra hjóna að auka sem mest verðmæti BO ehf. og stuðla þannig að því, að félagið skilaði börnum þeirra og barnabörnum framtíðarverðmætum. Félagið hafi á síðustu árum aukið mjög umsvif sín með fjölgun umboða, sem aftur hafi leitt til fjölgunar starfsmanna, aukinna vörubirgða og viðskiptakrafna og nauðsyn á bættri húsnæðisaðstöðu. Félagið hafi í sex ár samfleytt skilað hagnaði, þ.e. frá 1994 til 1999 og hafi eigið fé þess vaxið í um 140 milljónir í lok ársins 1999, auk dulinna fjármuna í fasteignum. Aukin umsvif félagsins og lágt hlutafé þess hafi útheimt meira lánsfé, sem aftur hafi hækkað stórlega fjármagnskostnað félagsins. Háir vextir og gengisfellingar á þessu ári og því síðasta hafi gert það nauðsynlegt að auka hlutafé félagsins. Því hafi stjórn félagsins, sem skipuð sé utan að komandi mönnum, lagt það til á hluthafafundi þann 6. september sl., að hlutafé félagsins yrði aukið og fasteignir þess seldar til þess eins að bæta eiginfjárstöðu þess og draga úr fjármagnskostnaði. Þá standi yfir viðræður um hugsanlega sameiningu við annað félag í sama tilgangi. Þær viðræður séu á trúnaðarstigi. Endurskoðunar - og ráðgjafarfyrirtækið Price Waterhouse Cooper hafi verið fengið til að kanna hagkvæmi sameiningar og verðmæti viðkomandi félaga. Verðmat PWC á BO ehf. sé á bilinu 209 til 259 milljónir króna, eftir því hvaða aðferðum sé beitt við matið.
Með þessum aðgerðum er talið að BO ehf. geti bætt rekstrarstöðu sína til muna, lækkað skuldir verulega og verið álitlegri kostur fyrir nýja hluthafa. Endurskoðandi félagsins hafi yfirfarið áætlaðan rekstrar - og efnahagsreikning félagsins, eftir að ráðgerðar ráðstafanir hafi gengið eftir og gefið jákvæða umsögn um skýrslu stjórnarinnar um fyrirhugaðar aðgerðir, eins og framlögð gögn beri með sér.
Umrædd hlutafjáraukning hafi verið samþykkt á hluthafafundinum 10. september sl. með meira en 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Hún hafi verið samþykkt í kjölfar viðræðna, sem átt hafi sér stað milli Karls Eiríkssonar, félagsins og Kaupþings hf. Viðræðurnar hafi beinst að því, að Kaupþing hf. eða dótturfélag þess kaupi fasteignir félagsins, yfirtaki allar áhvílandi skuldir og greiði auk þess 135 milljónir. Gert sé ráð fyrir því, að BO ehf. taki eignirnar á leigu til 10 ára. Það skilyrði hafi verið sett af hálfu Kaupþings hf. að hlutafé félagsins yrði aukið um a.m.k. 100 milljónir króna og hafi Kaupþing hf. lýst sig reiðubúið til að lána þá fjárhæð gegn ásættanlegum tryggingum. Gangi þessar fyrirætlanir eftir, muni eigið fé BO ehf. verða því sem næst 400 milljónir króna um næstu áramót.
Karl Eiríksson hafi tekið þá ákvörðun að kaupa viðbótarhlutafé fyrir 100 milljónir króna, þar sem aðrir hluthafar og erfingjar hans og Ingibjargar Sigríðar, eiginkonu hans hafi ekki bolmagn til kaupanna. Hann hafi boðið fram sem tryggingu íbúð í Efstaleiti, 80% eignarhluta í jörðinni Stíflisdal og 20% eignarhluta í jörðinni Skeggjastöðum í Mosfellsbæ. Hann líti svo á, að með þessum ráðstöfunum sé hann að bæta stöðu fjölskyldufyrirtækisins og um leið búsins. Hann bendir á, að í félaginu hafi á síðustu árum myndast verulegt sýnilegt og dulið eigið fé, sem hann sé að verja með aðgerðum sínum. Um sé að ræða að fórna minni hagsmunum fyrir meiri og bendir á, að hann hafi oft þurft að mæta áföllum á áralöngum ferli með persónulegum ábyrgðum.
Aðgerðir þessar kunni að vera tímabundnar og muni auðvelt reynast að endurgreiða lánið. Þær leiði aftur á móti til þess, að unnt verði að greiða aukinn arð úr félaginu til að mæta láninu, auk þess sem auðveldara verði að leita eftir nýjum hluthöfum, fá kaupendur að hlutum eða selja félagið allt.
Varakröfu sína styðja varnaraðilar þeim rökum, að sóknaraðili sé aðeins erfingi að u.þ.b. 11% af eignum dánarbúsins og hafi þá ekki verið tekið tillit til arfs til barnabarna skv. erfðaskrá. Aðrir erfingjar hafi ekki krafist skipta. Því sé fráleitt að ætla, að honum einum sé stætt á því að bregða fæti fyrir fyrirhugaðri lántöku og setu varnaraðilans Karls í óskiptu búi. Hann geti því aðeins krafist skipta sér einum til handa en ekki skipta á dánarbúinu í heild.
Forsendur og niðurstaða.
Lagaákvæði það, sem sóknaraðili vísar til og byggir á kröfu sína um að bú móður hans, Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur skuli tekið til opinberra skipta er svohljóðandi:
,,Erfingi getur krafist skipta sér til handa, ef hann sannar, að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til, að óttast megi slíka rýrnun.” (1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962).
Hér reynir á túlkun síðari málsliðar lagaákvæðisins. Úrlausn dómsins lítur að mati á því, hvort í fyrirhugðuðum aðgerðum varnaraðilans, Karls Eiríkssonar, felist óhæfileg fjárstjórn, sem veiti tilefni til að óttast, að muni leiða til þess að eignir umrædds dánarbús rýrni.
Ljóst er, að Bræðurnir Ormson ehf. eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum. Stjórn félagsins ber því skylda til að leita allra leiða til að snúa við þeirri þróun. Fyrir liggur, að stjórn félagsins hefur leitað sérfræðiaðstoðar í þessu skyni og byggir fyrirhugaðar aðgerðir á þeirri ráðgjöf.
Ráðlögð og áskilin hlutafjáraukning er liður í endurskipulagningu félagsins. Sú ákvörðun varnaraðilans, Karls, að veðsetja eigur sínar og dánarbúsins, er bersýnilega tekin í því skyni að endurreisa fjárhag BO ehf. Frá hans sjónarhóli er því um eðlilega og skynsamlega ráðstöfun að ræða. Hún er einnig í samræmi við yfirlýstan vilja, sem fram kemur í gagnkvæmri erfðaskrá hans og Ingibjargar Sigríðar heitinnar eiginkonu hans. Af efni erfðaskrárinnar og framsetningu hennar má draga þá ályktun, að félagið Bræðurnir Ormson ehf. er sú eign, sem þau telja að mestu varði og leggja gagnkvæma áherslu á, að verðmæti hennar skili sér til barna þeirra og barnabarna.
Veðsetningin felur að sönnu í sér þá áhættu, ef allt fer á versta veg, að eignir dánarbúsins rýrni verulega eða glatist.
Ljóst er, að í viðskiptum þarf ávallt að taka nokkra áhættu. Telja verður, að fyrirhugaðar ráðstafanir Karls Eiríkssonar séu eðlilegar vel undirbúnar og gerðar með það eitt fyrir augum að styrkja stoðir BO ehf. og búa í haginn fyrir sig og niðja sína.
Krafa sóknaraðila er einnig í andstöðu við gagnkvæman vilja foreldra hans, sem fram kemur í fyrri erfðaskrá þeirra, en þar leggja þau áherslu á að það þeirra sem lengur lifir skuli sitja í óskiptu búi.
Í 12. gr. erfðalaga er sett fram sú meginregla, að eftirlifandi maki, sem situr í óskiptu búi hafi eignarráð á fjármunum búsins. Í því felst, að erfingjar verða að sæta því að taka við þeim eignum, sem fyrir hendi eru við andlát eftirlifandi maka. Ákvæði 1. mgr. 15. gr. sýnist fela í sér úrræði, sem erfingjar geta beitt, ef eftirlifandi maki sólundar eignum búsins með óráðsíu.
Eins og málum er hér háttað, verður ekki talið, að þær fyrirætlanir varnaraðilans, Karls Eiríkssonar, sem að framan er lýst, falli undir eðlilega skýringu 1. mgr. 15. gr. erfðalaga.
Það er því niðurstaða dómsins, að rétt þykir að hafna kröfu sóknaraðila, Eiríks Karlssonar, um að dánarbú móður hans Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur verði tekið til opinberra skipta.
Rétt þykir, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Eiríks Karlssonar, um að dánarbú Ingibjargar Sigríðar Skúladóttur, verði tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður fellur niður.