Hæstiréttur íslands
Mál nr. 525/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Varnarþing
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 3. desember 2002. |
|
Nr. 525/2002. |
X(Ingi Tryggvason hdl.) gegn M (enginn) |
Kærumál. Faðerni. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.
X höfðaði mál á hendur M, sem var búsettur í Póllandi, og krafðist þess að viðurkennt væri að M væri ekki faðir sinn. Málinu var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að ekki væri heimild í lögum til að höfða það hér á landi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. nóvember 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. nóvember 2002.
Mál þetta var höfðað 17. maí 2002 og tekið til úrlausnar 22. október sama ár. Stefnandi er X, [...], en stefndi M, [...] í Póllandi.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé ekki faðir stefnanda. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
[...].
II.
Stefndi er búsettur í Póllandi og var stefna birt fyrir honum þar 27. maí 2002. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sótt þing í málinu.
Mál þetta er rekið eftir VII. kafla barnalaga, nr. 20/1992, sem fjallar um dómsmál vegna faðernis barna. Sá kafli greinist annars vegar í A-hluta, sem fjallar um faðerni barns sem 2.-6. gr. laganna taka ekki til, og hins vegar í B-hluta, sem fjallar um mál til vefengingar á faðerni barns og ógildingar á faðernisviðurkenningu.
Í 41. gr. laganna er mælt fyrir um lögsögu dómstóla hér á landi til að fjalla um mál sem falla undir A-hluta VII. kafla laganna. Þar segir meðal annars að mál verði höfðað hér á landi ef móðir barns eða barn séu búsett hér. Einnig er að finna sérreglu um varnarþing vegna þessara mála í 42. gr. laganna. Í B-hluta VII. kafla laganna er ekki vísað til þessara ákvæða og eiga þau því ekki við um mál samkvæmt þeim hluta kaflans. Jafnframt verður þessum reglum ekki beitt með lögjöfnun, enda hafa ákvæðin að geyma undantekningu frá almennum reglum réttarfars um lögsögu dómstóla og varnarþing. Samkvæmt þessu skortir heimild til að reka málið hér á landi og verður því vísað frá dómi án kröfu.
Málskostnaður úrskurðast ekki.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og skal gjafsóknarkostnaður hans greiðast úr ríkissjóði, eins og nánar er rakið í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, X, samtals 278.778 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans Inga Tryggvasonar, hdl., 112.500 krónur auk virðisaukaskatts.