Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2008
Lykilorð
- Handtaka
- Gæsluvarðhald
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 14. maí 2009. |
|
Nr. 477/2008. |
Símon Páll Jónsson(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Handtaka. Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.
S krafðist miskabóta eftir að mál gegn honum vegna gruns um aðild að innflutningi á fíkniefnum hafði verið fellt niður, annars vegar vegna handtöku og frelsissviptingar í framhaldi af henni í tæpan sólarhring og hins vegar vegna annarrar handtöku og gæsluvarðhaldsvistar frá þeim degi í tæpar tvær vikur. Talið var að símasamskipti S við annan grunaðan mann, B, hafi gefið fullt tilefni til handtöku hans, en hann hafi ekki fært fram haldbærar skýringar á þeim. Þá hafi verið fullt tilefni til að svipta hann frelsi í framhaldi af handtökunni uns ráðrúm hafi gefist til að bera undir hann skýrslu B og taka af honum skýrslu um þá muni sem hafi fundist við húsleit á heimili hans. Hafi skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 verið uppfyllt í því efni. Þá hafi skýrsla B hjá lögreglu styrkt grun lögreglu um þátt S. Því hafi verið fullt tilefni til að handtaka S aftur og úrskurða hann í framhaldi af því í gæsluvarðhald. Hafi til þessa verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Skilyrði hafi hins vegar brostið fyrir því að halda S í gæsluvarðhaldi þegar skýrsla hafi verið tekin af enn öðrum grunuðum manni, sem hafnaði frásögn B, og önnur atriði, er fram hafi komið við rannsókn málsins, hafi ekki rennt frekari stoðum undir grunsemdir lögreglu um þátt S. Þar sem ekki var litið svo á að S hafi valdið eða stuðlað að þessum aðgerðum var talið að hann ætti rétt til miskabóta samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 úr hendi íslenska ríkisins, vegna gæsluvarðhalds í fimm daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2008 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2007 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi voru tildrög máls þessa að í október 2006 leiddi rannsókn lögreglu í Danmörku í ljós að í fjórum kössum með tölvum, sem afhentar höfðu verið þarlendu fyrirtæki til flutnings til Íslands, hafði verið komið fyrir verulegu magni fíkniefna. Danska lögreglan lagði hald á fíkniefnin, en sú ákvörðun var tekin í samvinnu við íslenska lögreglu að láta vörusendinguna fara hingað til lands til að freista þess að hafa hendur í hári þeirra sem að innflutningnum stæðu. Sendingin, sem var stíluð á tölvudeild Glitnis hf., kom með flugi til landsins. Baldur Þór Eyjólfsson, starfsmaður Hraðflutninga ehf., sótti hana 22. október 2006 og ók henni í vöruhús félagsins í Hafnarfirði. Næsta dag ók Baldur Þór vörum út með bifreið fyrirtækisins og fór meðal annars með sendingar til Glitnis hf. á Kirkjusandi, sem afhentar voru starfsmanni þess félags, en umrædda sendingu, sem sett hafði verið í bifreiðina um morguninn, afhenti Baldur Þór þó ekki. Skildi Baldur Þór sendinguna eftir í bifreiðinni að loknum vinnudegi í andstöðu við starfsreglur fyrirtækisins. Maður að nafni Bjarni Þór Finnbjarnarson sótti að kvöldi sama dags Baldur Þór og ók honum að starfstöð hraðflutningafyrirtækisins í Hafnarfirði, en þeir höfðu einnig hist fyrr um daginn. Baldur Þór var síðan handtekinn eftir að hann ók af stað í bifreiðinni, sem umrædd sending var enn í. Bjarni Þór var þá einnig handtekinn í bifreið sinni. Við könnun á síma Bjarna Þórs eftir að hann var handtekinn komu í ljós samskipti milli hans og áfrýjanda, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en þau höfðu meðal annars farið fram í þann mund, sem sá fyrrnefndi var handtekinn.
Áfrýjandi var handtekinn 26. október 2006 kl. 15.44 og gaf í framhaldi af því skýrslu hjá lögreglu. Kom þar fram að hann var kunningi Bjarna Þórs og kannaðist við Baldur Þór. Snerist skýrslutakan að mestu um efni skilaboðanna milli áfrýjanda og Bjarna Þórs. Áður en henni lauk hófst skýrslutaka af Bjarna Þór, sem skýrði meðal annars frá samskiptum sínum við áfrýjanda 23. október, en að öðru leyti varðaði skýrslan fyrst og fremst efni skilaboðanna milli hans og áfrýjanda. Að fengnu samþykki áfrýjanda var gerð húsleit á heimili hans að kvöldi 26. október og fundust þar efni og tæki sem tengst gátu fíkniefnaneyslu, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi var í haldi um nóttina, en gaf skýrslu öðru sinni eftir hádegi 27. október. Hann var þá meðal annars spurður um símtöl sín við Bjarna Þór, framburð þess síðarnefnda um skilaboð, sem gengu milli þeirra í síma, og muni sem hald hafði verið lagt á við húsleitina kvöldið áður. Áfrýjandi var látinn laus kl. 15.19, skömmu eftir að þessari skýrslutöku lauk.
Í skýrslu Bjarna Þórs hjá lögreglu 31. október 2006 kom fram að áfrýjandi hafi rætt við sig á fimmtudegi eða föstudegi og beðið sig að hafa samband við Baldur Þór, starfsmann Hraðflutninga ehf., til að athuga með einhvern tölvubúnað, sem væri týndur eða hefði ekki skilað sér. Hann hafi rætt þetta við Baldur Þór, sem ekki hafi orðið slíks var. Á mánudeginum 23. október hafi Baldur Þór hins vegar hringt í sig, sagt að komnar væru þrjár eða fjórar turntölvur og spurt hvort þetta væru tölvurnar, sem áfrýjandi hefði verið að spyrjast fyrir um. Bjarni Þór hafi síðan hitt áfrýjanda til að ræða þetta og hann talið sennilegt að þetta væri umræddur tölvubúnaður. Hafi Bjarni Þór síðan staðfest þetta við Baldur Þór. Ákveðið hafi verið að áfrýjandi myndi taka við þessari sendingu úr höndum Baldurs Þórs og koma henni til vina sinna. Áfrýjandi og Baldur Þór hafi ætlað að hittast þá um daginn, en líklega farist á mis. Hafi Baldur Þór sagt sér að ætlunin væri að um kvöldið fengi áfrýjandi afhenta pakkana, sem enn voru í bifreiðinni.
Áfrýjandi var boðaður á lögreglustöð 2. nóvember 2006 og handtekinn við komu þangað kl. 11.20. Skýrsla var tekin af honum síðar um daginn og að kvöldi var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. nóvember 2006 kl. 16.00 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Daginn eftir tók lögregla enn skýrslu af Bjarna Þór. Frásögn hans um hlut áfrýjanda að samskiptum þeirra og Baldurs Þórs að því er tölvubúnaðinn varðaði var í samræmi við það, sem hann hafði borið 31. október, en nákvæmari um ýmis einstök atriði. Í skýrslu 9. nóvember hafnaði Baldur Þór þessari frásögn Bjarna Þórs að því er áfrýjanda varðaði. Við rannsókn lögreglu beindist grunur um aðild að málinu að fleiri mönnum, en ekki verður séð að á þessu stigi hafi komið fram frekari gögn sem bendluðu áfrýjanda við málið. Hann gaf skýrslu aftur hjá lögreglu 7. nóvember og enn 10. sama mánaðar, en var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 14. sama mánaðar kl. 14.30. Með bréfi ríkissaksóknara 6. júní 2007 var áfrýjanda tilkynnt að málið hefði verið fellt niður að því er hann varðaði.
II
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi uppi kröfu um miskabætur annars vegar vegna handtöku 26. október 2006 og frelsissviptingar í framhaldi af henni í tæpan sólarhring og hins vegar vegna handtöku 2. nóvember sama ár og gæsluvarðhaldsvistar frá þeim degi til 14. sama mánaðar. Hann unir á hinn bóginn við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um kröfu um bætur vegna húsleitar á heimili sínu og ætlaðra tafa við ákvörðun um niðurfellingu saksóknar.
Símasamskipti áfrýjanda við Bjarna Þór Finnbjarnarson 23. október 2006, þar á meðal þau skilaboð sem á milli þeirra fóru í þann mund sem Bjarni Þór var handtekinn, gáfu fullt tilefni til handtöku áfrýjanda 26. sama mánaðar. Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi engar haldbærar skýringar fært fram fyrir þessum samskiptum. Þá var á sama hátt fullt tilefni til að svipta hann frelsi í framhaldi af því uns ráðrúm gafst til að bera undir hann skýrslu Bjarna Þórs, sem gefin var að kvöldi 26. október, og taka af honum skýrslu um þá muni sem fundust við húsleit á heimili hans það kvöld. Voru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 í því efni. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að áfrýjandi eigi ekki rétt til bóta af þessu tilefni.
Fyrrgreind skýrsla Bjarna Þórs hjá lögreglu 31. október 2006 um atbeina áfrýjanda að því að afhenda hafi átt vörusendinguna með tölvunum á óhefðbundinn hátt styrkti grun lögreglu um þátt áfrýjanda í tilraun til innflutnings fíkniefnanna. Því var fullt tilefni til að handtaka hann 2. nóvember 2006 og úrskurða hann í framhaldi af því í gæsluvarðhald. Er fallist á með héraðsdómi að til þessa hafi verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þegar skýrsla hafði verið tekin af Baldri Þór 9. nóvember og önnur atriði, er fram voru komin við rannsókn málsins, renndu ekki frekari stoðum undir grunsemdir lögreglu um þátt áfrýjanda brustu á hinn bóginn skilyrði fyrir að halda honum í gæsluvarðhaldi upp frá því. Þar sem ekki verður litið svo á að áfrýjandi hafi valdið eða stuðlað að þessum aðgerðum á hann rétt til miskabóta samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 úr hendi stefnda vegna gæsluvarðhalds, sem hann sætti frá þessum tíma til 14. nóvember 2006. Að öllu virtu eru þær bætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur, en um dráttarvexti fer sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda hér fyrir dómi verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Símoni Páli Jónssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2007 til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí síðastliðinn að lokinni aðalmeðferð, er höfðað 7. desember 2007 af Símoni Páli Jónssyni, Engjaseli 29, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Málavextir
Þann 18. október 2006 hafði eftirlitsmaður hjá flutningafyrirtækinu IRS í Glostrup samband við lögregluna í Kaupmannahöfn vegna þess að sama dag hefði verið tekið á móti fjórum kössum með tölvum sem senda átti til Íslands. Hafi kassarnir reynst vera ótilhlýðilega þungir og af þeim sökum hafi einn þeirra verið opnaður og þá fundist pakki með hassi, falinn í tölvu. Leiddi rannsókn lögreglu í ljós að mestur hluti vélbúnaðar tölvanna hafði verið fjarlægður og í staðinn settir litlir ferningslaga pakkar með hassi í. Fann lögregla alls 17 pakka sem deilt hafði verið niður á tölvurnar. Var efnið vegið og reyndist þar vega 13,350 kg. Í einum pakkanum var og poki með 202 g af kókaíni. Við lögreglurannsókn kom í ljós að tölvurnar höfðu verið keyptar í Danmörku og voru tveir Íslendingar þar í landi taldir tengjast málinu. Að ákvörðun íslenskra og danskra lögregluyfirvalda var ákveðið að láta vörusendinguna fara til Íslands án fíkniefnanna, sem danska lögreglan lagði hald á, í þeim tilgangi að takast mætti að hafa hendur í hári þeirra manna sem stæðu að innflutningnum á Íslandi. Varan kom til Íslands með flugi og fylgdist lögreglan með henni. Sendingin, sem stíluð var á Glitni hf./Tölvudeild, var sótt 22. október 2006 af starfsmanni hraðflutningafyrirtækisins FedEx, Baldri Þór Eyjólfssyni. Ók hann með hana í vöruhús fyrirtækisins í Hafnarfirði þar sem hún var um nóttina. Næsta dag ók Baldur Þór út vörum í bifreið fyrirtækisins. Fór hann meðal annars með sendingar til Glitnis á Kirkjusandi sem afhentar voru starfsmanni þar. Vakti athygli að hann afhenti ekki umrædda sendingu frá Danmörku þrátt fyrir að hún hefið verið sett í bifreiðina um morguninn. Þá kom í ljós að Baldur Þór hafði merkt sendinguna í tölvukerfi FedEx sem „Requested future delivery“ en það þýðir að móttakandi vörunnar hafi óskað eftir að varan verði afhent síðar. Var það talið mjög óeðlilegt hjá fyrirtæki eins og Glitni. Þá skildi Baldur Þór vörusendinguna eftir í bifreið fyrirtækisins að loknum vinnudegi en fór ekki með hana aftur inn í vörugeymslu eins og starfsregla þess mæltir fyrir um. Að kvöldi sama dags var Baldur Þór sóttur af manni að nafni Bjarni Þór Finnbjarnarson sem hinn fyrrnefndi hafði hitt áður um daginn. Fóru þeir saman að starfsstöð FedEx og var Baldur Þór handtekinn eftir að hann ók bifreiðinni í burtu með sendinguna í henni. Þá var Bjarni Þór handtekinn í bifreið sinni þar skammt frá. Við könnun á síma Bjarna Þórs eftir handtöku sást að hann hafði sent stefnanda sms-skilaboðin „BUST“ á sama tíma og handtakan átti sér stað. Þá voru í síma Bjarna Þórs sms-skilaboðin „LEYST“ frá stefnanda rétt fyrir handtöku og skilaboðin „OK“ rétt eftir handtökuna. Taldi lögregla greinilegt að stefnandi hefði verið að spyrja Bjarna Þór um fíkniefnasendinguna.
Stefnandi var handtekinn síðdegis 26. október 2006 og heimiluðu hann og sambýliskona hans að fram færi húsleit á heimili þeirra. Við leitina fannst hvítt duft sem talið var vera mjólkursykur sem notaður er af fíkniefnaneytendum og -sölum til að drýgja og þynna fíkniefni. Einnig fannst grammavog og hvítt sogrör með hvítum efnisleyfum innan í (0,01 g af amfetamíni). Eru grammavogin og sögrörið þekkt sem fylgihlutir fíkniefnaneyslu. Þá fannst við leitina ótilgreint magn svonefndra rennilásapoka sem vitað er að notaðir eru sem umbúðir utan um neysluskammta fíkniefna. Í framhaldinu var tekin skýrsla af stefnanda. Neitaði hann sök en viðurkenndi að þekkja Bjarna Þór og hafa verið í sambandi við hann. Þá kannaðist stefnandi við að þekkja Baldur Þór. Við skýrslutöku næsta dag neitaði stefnandi sem fyrr sakargiftum og kvaðst jafnframt ekkert hafa vitað um framangreinda haldlagða muni. Einnig neitaði hann öllum fíkniefnatengslum við Bjarna Þór. Að lokinni yfirheyrslu var stefnandi látinn laus.
Við skýrslugjöf Bjarna Þórs hjá lögreglu 31. október 2006 kom fram að stefnandi hefði beðið hann um að hafa samband við Baldur Þór sem ynni hjá FedEx til að kanna með tölvubúnað sem væri týndur eða hafði ekki skilað sér. Hafi Baldur Þór kannað málið og látið hann vita um tölvurnar og þá hafi Baldur Þór látið stefnanda vita um það. Eftir að staðfest hafi verið að „tölvubúnaðurinn“ væri kominn í leitirnar hafi verið ákveðið að stefnandi tæki við sendingunni og kæma henni í hendur ótilgreindra vina stefnanda sem hefðu fengið hann til að setja sig í samband við Bjarna Þór þar sem þeir hafi vitað að hann hefði aðgang að Baldri Þór, starfsmanni FedEx.
Stefnandi var boðaður aftur í skýrslutöku hjá lögreglu 2. nóvember 2006 og handtekinn skömmu eftir komu á lögreglustöð. Sama dag var tekin skýrsla af stefnanda sem neitaði sök. Stefnandi var leiddur fyrir dómara að kvöldi sama dags og að kröfu lögreglu úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. sama mánaðar kl. 16. Stefnandi var látinn laus þann dag kl. 14.30.
Með bréfi ríkissaksóknara 6. júní 2007 var stefnanda tilkynnt að málið hefði verði fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem það sem fram væri komið í málinu væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir málsóknina á því að aldrei hafi legið fyrir nein gögn sem fellt gætu sök á hann í umræddu sakamáli. Stefnandi hafi verið handtekinn að ósekju í tvígang, hann hafi þurft að sæta húsleit á heimili sínu og þá hafi hann setið í gæsluvarðhaldi í 13 daga. Að lokum hafi hann þurft að bíða í tæpa 7 mánuði eftir að fá tilkynningu um niðurfellingu málsins.
Svo sem fyrr greini hafi stefnandi verið handtekinn í tvígang en ekki sé augljóst af málsgögnum hvað hafi breyst í millitíðinni. Í hvorugt skiptið hafi verið lögmæt skilyrði fyrir handtöku samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi heldur ekki verið fyrir hendi lögmæt skilyrði til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. nefndra laga. Grunur lögreglu um þátt stefnanda í málinu virðist aðallega hafa byggst á framburði Bjarna Þórs Finnbjarnarsonar. Fyrir hafi legið að stefnandi hafði verið handtekinn nokkrum dögum áður en sleppt að lokinni yfirheyrslu. Hafi því mátt ætla að litlir rannsóknarhagsmunir gætu stutt gæsluvarðhald enda ljóst að stefnandi hafði vitað um rannsóknina í nokkra daga og því haft næg tækifæri til að spilla henni hefði hann talið þörf á því. Skipti engu máli um bótarétt stefnanda að hann hafi ekki skotið gæsluvarðhaldsúrskurðinum til Hæstaréttar.
Fari svo ólíklega að talið verði að skilyrði gæsluvarðhalds hafi verið fyrir hendi byggir stefnandi á að hann hafi verið hafður of lengi í gæsluvarðhaldi. Skipti þá engu máli tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt dómsúrskurði þar sem lögreglu beri stöðugt að endurskoða forsendur gæsluvarðhalds meðan á því stendur. Komi fram í gögnum málsins að lögregla hafi sjálf talið að skilyrði gæsluvarðhalds væru úr sögunni nokkru áður en stefnandi var látinn laus.
Þá hafi ekki verið fyrir hendi lögmæt skilyrði til að gera húsleit á heimili stefnanda og fjölskyldu hans og skipti ekki máli þótt stefnandi hafi samþykkt hana. Hafi ekkert fundist við leitina sem var þess eðlis að grunur beindist að honum í umræddu máli.
Stefnandi hafi orðið fyrir stórfelldum miska vegna aðgerða lögreglu og dómstóla. Við mat á honum verði að hafa í huga að stefnandi hafi verið sakaður um aðild að stórfelldu fíkniefnamisferli og það eitt að vera sakaður um slíkt hafi í för með sér mannorðsmissi og alvarlega röskun á högum hans, þar á meðal atvinnumöguleikum. Þá hafi málið reynt mjög á fjölskyldu stefnanda og haft miklar þjáningar í för með sér fyrir hana.
Um lagarök vísar stefnandi til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár og ákvæða 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991. Þá vísar stefnandi til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979, og almennra skaðabótareglna. Mál stefnanda hafi verið fellt niður og eigi stefnandi því rétt á bótum enda verði hann ekki sakaður um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu og dómstóla sem beinst hafi að honum þannig að efni séu til að lækka bætur eða fella þær niður.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir sýknukröfu á því að fyrir hendi hafi verið upplýsingar um tengsl stefnanda við aðra sakborninga í málinu. Fyrir hafi legið framburður Bjarna Þórs Finnbjarnarsonar um að stefnandi hafi beðið hinn fyrrnefnda að hafa samband við Baldur Þór Eyjólfsson til að kanna með sendingu sem fíkniefnin áttu að vera í. Þá hafi framburður stefnanda um sms-sendingar milli hans og Bjarna Þórs verið ótrúverðugur og bent mjög til vitneskju og þátttöku hans í málinu. Jafnframt hafi skýringar hans á skilaboðum um varahluti í bifreið ekki verið trúverðugar heldur hafi verið um rósamál að ræða þar sem vísað væri til amfetamíns. Einnig hafi stefnandi margsinnis verið í sambandi við Bjarna Þór daginn sem Baldur Þór var með sendinguna í bifreið sinni. Hafi stefnandi ekki gefið trúverðugar skýringar á þeim símtölum. Stefnandi hafi því verið undir rökstuddum grun um refsivert atferli og því verið uppfyllt skilyrði til handtöku hans í bæði skiptin, húsleitar og gæsluvarðhalds vegna rannsóknarhagsmuna.
Rannsókn málsins hafi verið mjög yfirgripsmikil og tímafrek og náð bæði til Íslands og Danmerkur. Afla hafi þurft margra gagna, svo sem upplýsinga um fjármál og símanotkun sakborninga. Sjö menn hafi hlotið stöðu sakbornings og fjórir þeirra sætt gæsluvarðhaldi samtímis hérlendis. Sakborningar hafi neitað sakargiftum og það gert verk lögreglu erfiðara. Hafi lögreglu því verið rétt að líta svo á allan þann tíma sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi að hann hafi haft færi á að torvelda rannsókn málsins væri hann látinn laus. Unnið hafi verð sleitulaust að rannsókn málsins þann tíma sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi og teknar tuttugu og sex framburðarskýrslur.
Stefnandi haldi því fram að ekkert markvert hafi fundist við húsleit hjá honum. Þetta sé rangt þar sem við leitina hafi fundist ætluð fíkniefni og áhöld til neyslu þeirra og annarrar meðferðar. Stefnandi hafi sjálfur samþykkt húsleitina og liggi ekkert fyrir í málinu um að hún hafi verið framkvæmd á annan hátt en lög bjóða.
Sjö mánuðir hafi liðið frá því stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi og þar til honum var tilkynnt um niðurfellingu málsins. Sé það skammur tími að mati stefnda.
Stefnandi hafi og stuðlað að aðgerðum lögreglu gagnvart sér með háttsemi sinni og aðgerðum. Hann hafi margsinnis verið í sambandi við aðra menn í málinu sem lögregla taldi að stæðu að refsiverðri háttsemi og á þeim tíma sem öllu skiptir, þ.e. þegar verið var að flytja fram og aftur umrædda sendingu. Á því hafi stefnandi enga skýringu gefið. Þá hafi fíkniefnatengdir munir fundist á heimili stefnanda sem hann hafi ekki getað gert grein fyrir. Enn fremur hafi stefnandi sjálfur strax við handtöku sagst vita hvers vegna hann væri handtekinn og að hann gæti tengst mörgum fíkniefnamálum. Stefnandi hafi að auki verið ótrúverðugur og óstöðugur í framburði sínum og ekki viljað gera grein fyrir tengslum sínum við aðra í málinu.
Verði fallist á bótaskyldu er krafist stórlegrar lækkunar stefnukröfu. Þá er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt með vísan til niðurlagsákvæðis 9. gr. laga nr. 38/2001.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991, svo sem henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, má dæma bætur ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Þá má samkvæmt 176. gr. laganna dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr.
Skýra verður 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna, sem hér á ekki við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir er leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þarf þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum sem greinir í 176. gr. laganna og þeim skilyrðum sem um ræðir í 175. gr. þeirra. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum, verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en leiddur verði af reglum XXI. kafla laga nr. 19/1991.
Fram er komið í málinu að stefnandi og Bjarni Þór Finnbjarnarson voru í miklum símasamskiptum mánudaginn 23. október 2006. Þá sást við könnun á síma Bjarna Þórs eftir handtöku hans að hann hafði sent stefnanda sms-skilaboðin „BUST“ á sama tíma og handtakan átti sér stað. Þá voru í síma Bjarna Þórs sms-skilaboðin „LEYST“ frá stefnanda rétt fyrir handtöku og skilaboðin „OK“ rétt eftir handtökuna. Hafa engar haldbærar skýringar verið færðar fram af hálfu stefnanda fyrir þessum samskiptum hans og Bjarna Þórs á sama tíma og hinn síðarnefndi var handtekinn. Við þessar aðstæður beindist því með réttu rökstuddur grunur af hálfu lögreglu gegn stefnanda um að hann væri þátttakandi í innflutningi á miklu magni fíkniefna. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 til handtöku stefnanda 26. október 2006 og halds hans fram til næsta dags. Á sama hátt voru uppfyllt skilyrði 89. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. sömu laga, til húsleitar á heimili stefnanda. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hún hafi farið fram á lögmætan hátt.
Fram er komið í málinu að Baldur Þór fór með sendingar til Glitnis á Kirkjusandi 23. október 2006 en afhenti ekki tölvusendinguna þrátt fyrir að hún væri í útkeyrslubifreiðinni. Þá kom í ljós að á kvittun fyrir móttöku sendinganna, sem Baldur Þór afhenti á starfsstöð Glitnis, var nafn manns sem var ekki starfsmaður fyrirtækisins. Einnig kom fram við rannsókn málsins að Baldur Þór hafði merkt tölvusendinguna í tölvukerfi FedEx sem „Requested future delivery“ en það þýðir að móttakandi vörunnar hafi óskað eftir að varan verði afhent síðar. Var það talið mjög óeðlilegt hjá fyrirtæki eins og Glitni. Þá skildi Baldur Þór vörusendinguna eftir í bifreið fyrirtækisins að loknum vinnudegi en fór ekki með hana aftur inn í vörugeymslu eins og mælt er fyrir um í starfsreglum þess. Var öll meðferð umræddrar sendingar frá Danmörku því afar tortryggileg að mati dómsins.
Svo sem rakið hefur verið var stefnandi látinn laus að lokinni yfirheyrslu 27. október 2006. Við skýrslugjöf hjá lögreglu af hálfu Bjarna Þórs 31. sama mánaðar breytti hann framburði sínum og kvað fyrrnefndan Baldur Þór Eyjólfsson hafa haft samband við sig 23. sama mánaðar og skýrt frá því að hann væri búinn að finna „þrjá eða fjóra turna“ (turntölvur) en Bjarni Þór kvað stefnanda áður hafa beðið sig um að grennslast fyrir um tölvunar hjá FedEx sem stefnandi hafi sagt týndar eða ekki skilað sér. Hafi stefnandi sagt að það ætti að fara fram hjá tolli og vörugjöldum með þessa sendingu og ekki ætti að greiða neitt af henni.
Ofangreindur framburður Bjarna Þórs renndi að mati dómsins frekari stoðum undir grun lögreglu um að stefnandi ætti aðild að hinum ólögmæta fíkniefnainnflutningi. Samkvæmt því var fullt tilefni til að handtaka stefnanda í síðara skiptið og úrskurða hann í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Að framan er lýst símasamskiptum stefnanda og Bjarna Þórs Finnbjarnarsonar að kvöldi 23. október 2006 og framburði hins síðarnefnda um að stefnandi hafi haft frumkvæði að því að grennslast fyrir um áðurnefnda vörusendingu hjá FedEx. Verður ráðið af framburði Bjarna Þórs að það hafi verið fyrir tilstuðlan stefnanda að fyrrgreind atburðarás fór af stað eftir að umrædd sending var komin í húsnæði FedEx. Þykir stefnandi ekki hafa gefið trúverðugar skýringar á fyrrnefndum samskiptum sínum við Bjarna Þór.
Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á í skilningi 175. gr. laga nr. 19/1991. Þá er ekki annað fram komið en að rannsókninni, sem var umfangsmikil og teygði anga sína til Danmerkur, hafi verið fram haldið svo sem kostur var. Stóð gæsluvarðhaldið því ekki lengur en nauðsyn bar til.
Á því virðist einnig byggt af hálfu stefnanda að það varði stefnda bótaábyrgð að langur tími hafi liðið þar til stefnanda var tilkynnt um niðurfellingu málins. Enda þótt ekki hafi af hálfu stefnanda verið rennt sérstakri lagastoð undir þessa kröfu skal tekið fram að eigi verður talið að sá tími sem leið frá lokum gæsluvarðhalds yfir stefnanda þar til honum var tilkynnt um niðurfellingu málsins sé óhæfilegur miðað við umfang þess.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Símonar Páls Jónssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Bjarna Haukssonar hdl., 400.000 krónur.