Hæstiréttur íslands

Mál nr. 396/2006


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Samningsgerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2007.

Nr. 396/2006.

Auður Ragnarsdóttir

Pétur J. Pétursson

Ingibjörg Hanna Pétursdóttir og

Hrafnhildur Pétursdóttir

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Kaupþingi líftryggingum hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Vátrygging. Samningsgerð. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Áfrýjendurnir AR, PP, IP og HP kröfðust greiðslu samkvæmt líftryggingarskírteini, sem K hafði gefið út í janúar 1993, vegna sameiginlegrar vátryggingar sem AR hafði tekið ásamt sambúðarmanni sínum PS, föður annarra áfrýjenda, en hann hafði látist í ágúst 2004. Fyrir lá að PS hafði verið með kransæðasjúkdóm frá árinu 1990 og ekki getið um það í umsóknareyðublaði fyrir vátryggingunni, þrátt fyrir að spurt væri um sjúkdóma vátryggingartaka. Talið var að K hefði hafnað umsókninni hefðu réttar upplýsingar um heilsufar PS legið fyrir. Að þessu virtu og með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954 var K sýknað af kröfu um greiðslu vátryggingabóta. Til vara var gerð krafa um að K yrði gert að endurgreiða iðgjöld sem greidd hefðu verið af líftryggingu PS frá janúar 1993 til ágúst 2004. Vegna annmarka á útreikningi kröfunnar var ekki talið að félaginu hefði gefist nægilegt tilefni til að halda fram til frádráttar henni kostnaði, sem það kynni að hafa borið vegna vátryggingarinnar. Var því talið óhjákvæmilegt að vísa kröfunni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2006. Þau krefjast þess að stefnda verði gert að greiða þeim aðallega 11.543.000 krónur, en til vara 1.100.688 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2004 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að krafa áfrýjenda verði lækkuð. Hann krefst í báðum tilvikum málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var nafni stefnda, sem áður hét KB Líftrygging hf., breytt í Kaupþing líftryggingar hf. eftir uppkvaðningu héraðsdóms.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi leita áfrýjendur með máli þessu greiðslu samkvæmt líftryggingarskírteini, sem stefndi gaf út 20. janúar 1993 vegna sameiginlegrar vátryggingar, sem áfrýjandinn Auður Ragnarsdóttir hafði tekið ásamt sambúðarmanni sínum, Pétri Svavarssyni, föður áfrýjendanna Péturs, Ingibjargar Hönnu og Hrafnhildar, en hann lést samkvæmt gögnum málsins í ágúst 2004. Stefndi hefur borið því við að hann sé laus undan skyldum sínum samkvæmt vátryggingarsamningnum með því að Pétur heitinn hafi við gerð hans leynt upplýsingum um heilsufar sitt, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, en að auki hefði stefndi neitað um vátryggingu ef þær hefðu komið fram, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Verði fallist á þetta með stefnda telja áfrýjendur að líta beri svo á að yfirlýsing Péturs 20. janúar 1993, sem gefin hafi verið í beinum tengslum við töku þessarar vátryggingar, um uppsögn á fyrri líftryggingu hjá stefnda frá 3. nóvember 1989 sé ekki bindandi og sé honum þannig skylt að greiða kröfu áfrýjenda í skjóli eldri vátryggingarinnar. Í tengslum við þetta hafa áfrýjendur einnig haldið fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti að til vara sé stefnda skylt að greiða þeim það hlutfall líftryggingarfjár samkvæmt eldri vátryggingunni, sem svari til hlutfallslegs munar á iðgjöldum af þeirri yngri miðað við þá eldri, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að stefndi sé vegna ákvæðis 1. mgr. 6. gr. sömu laga óbundinn af vátryggingarsamningnum frá 20. janúar 1993 að því er varðar líftryggingu Péturs heitins, svo og að réttindi samkvæmt vátryggingarsamningnum 3. nóvember 1989 geti ekki raknað við af þeim sökum. Vegna þess, sem hér síðast var getið, getur ekki reynt sjálfstætt á fyrrgreinda málsástæðu áfrýjenda, sem tengd er ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954.

Varakrafa áfrýjenda um greiðslu á 1.100.688 krónum er reist á því að stefnda beri hvað sem öðru líður að endurgreiða iðgjöld, sem hann fékk greidd af líftryggingu Péturs heitins frá janúar 1993 til ágúst 2004, enda valdi ógilding vátryggingarsamningsins því að stefndi hafi fengið þau greidd án þess að taka á sig samsvarandi áhættu af vátryggingaratburði. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjenda leggja þau til grundvallar við útreikning þessarar kröfu heildarfjárhæð iðgjalds af vátryggingunni á árinu 2004. Í þeim útreikningi er þó hvorki tekið tillit til afsláttar, sem stefndi veitti af iðgjaldinu, né þess að eftir gögnum málsins virðist það hafa jafnframt náð til þess þáttar vátryggingarinnar, sem varðaði líftryggingu áfrýjandans Auðar. Að auki miðast þessi krafa ekki við iðgjöld, sem í reynd voru greidd á hverju ári af vátryggingunni, heldur er hún fengin með hlutfallsreikningi af iðgjaldi síðasta ársins. Vegna þessara annmarka á útreikningi kröfunnar verður ekki litið svo á að stefnda hafi gefist nægilegt tilefni til að halda fram til frádráttar henni kostnaði, sem hann kann að hafa borið vegna vátryggingarinnar. Með því að ekki er unnt af þessum sökum að fella efnisdóm á kröfuna er óhjákvæmilegt að vísa henni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi, en að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að varakröfu áfrýjenda, Auðar Ragnarsdóttur, Péturs J. Péturssonar, Ingibjargar Hönnu Pétursdóttur og Hrafnhildar Pétursdóttur, um greiðslu á 1.100.688 krónum úr hendi stefnda, Kaupþings líftrygginga hf., er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2006.

                       Mál þetta, sem dómtekið var 3. maí sl., var höfðað 26. september 2005 af Auði Ragnarsdóttur, Meistaravöllum 15, Reykjavík, Pétri J. Péturssyni, sama stað, Ingibjörgu H. Pétursdóttur, með lögheimili í Hollandi, og Hrafnhildi Pétursdóttur, Hlíðarhjalla 51, Kópavogi, á hendur KB Lífi hf., Sóltúni 26, Reykjavík, en nafni félags­ins var breytt í KB Líftryggingu hf. haustið 2005.

                       Stefnendur krefjast þess aðallega að stefnda verði gert að greiða þeim 11.543.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. september 2004 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt máls­kostnaðar­­reikningi. Til vara er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnendum 1.100.688 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu og málskostnað.

Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara að dómkröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnenda samkvæmt mati dómsins.

Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en því var hafnað með úrskurði dómsins 1. mars sl.

                       Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Sambýlismaður stefnanda Auðar og faðir annarra stefnenda, Pétur heitinn Svavarsson, lést 9. ágúst 2004. Upphaflega hafði hann líf­tryggingu hjá Alþjóða líf­tryggingarfélaginu samkvæmt skírteini útgefnu 28. október 1982 en nýtt skírteini var gefið út 23. september 1987 og aftur 3. nóvember 1989. Stefnandi Auður og Pétur heitinn höfðu sameiginlega líftrygg­ingu hjá sama félagi samkvæmt líftryggingar­skírteini nr. 31488, útgefnu 20. janúar 1993. Nafni félagsins var breytt í KB Líf hf. 22. apríl 2005, er Kaupþing banki hf. hafði keypt allt hlutafé í því, en því var breytt í KB Líftryggingar hf. um haustið sama ár.  

                       Í málinu krefjast stefnendur greiðslu líftryggingar úr hendi stefnda samkvæmt líftryggingar­skírteini nr. 31488, útgefnu 20. janúar 1993, eða samkvæmt líftryggingar­skírteini nr. 3423, útgefnu 3. nóvember 1989. Af hálfu stefnda er greiðsluskyldu neitað en stefnda telur vátryggingarsamninginn óskuldbindandi fyrir stefnda. Á árinu 1990 kom í ljós að Pétur heitinn hafði kransæðasjúkdóm en ekki var getið um hann þegar líftryggingin var tekin á árinu 1993. Sýknukrafa stefnda er byggð á því að þar sem Pétur heitinn hafi ekki veitt stefnda réttar upplýsingar um heilsufar sitt sé líftrygg­ingar­samningurinn ekki skuldbindandi fyrir stefnda. Stefnendur telja þetta atriði engu máli skipta enda hafi líftryggingin verið endurnýjun á þeirri lífvátrygg­ingu sem Pétur heitinn hafi tekið á árinu 1989. Verði ekki fallist á það telja stefnendur að uppsögnin á tryggingunni frá 1989 sé haldin ógildingarannmörkum samkvæmt lögum um samn­ings­gerð, umboð og ógilda löggerninga enda óheiðarlegt og ósann­gjarnt af hálfu stefnda að bera upp­sögn­ina fyrir sig eins og við­­skiptum vegna hennar við stefnda hafi verið háttað. Er því byggt á þeirri málsástæðu til vara af hálfu stefnenda að líftrygg­ingin frá 1989 sé enn í gildi sem leiði til þess að krafa þeirra í málinu verði tekin til greina. Í því sambandi hafa stefnendur áskilið sér rétt til að krefja stefnda í sérstöku máli um mismun uppreiknaðrar líftrygginga­rfjárhæðar þess skírteinis, 11.813.000 krónur, og framangreindrar uppreiknaðrar fjárhæðar skírteinis nr. 31488, 11.543.000 krónur, samtals 270.000 krónur. Af stefnda hálfu er því mótmælt að ógild­ingar­reglur, sem stefnendur vísi til, eigi við um atvik málsins. Engin slík atvik hafi verið fyrir hendi sem réttlæti ógildingu uppsagnarinnar.

                       Aðalkrafa stefnenda er um greiðslu úr hendi stefnda á uppreiknaðri fjárhæð samkvæmt síðari líftryggingunni, en vara­krafan er um endurgreiðslu á uppreiknuðum iðgjöldum frá árinu 1993.

                       Málsástæður og lagarök stefnenda

                       Af stefnenda hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi Auður og sam­býlis­­maður hennar, Pétur heitinn Svavarsson, hafi haft sameiginlega líftryggingu hjá stefnda samkvæmt líftryggingarskírteini nr. 31488 við andlát Péturs 9. ágúst 2004. Stefnendur séu rétthafar til líftryggingarbóta eftir Pétur heitinn samkvæmt tilgreiningu á líftryggingarskírteininu, þannig að stefnandi Auður sé rétthafi að 50% bóta en börn Péturs heitins, stefnendur Pétur, Ingibjörg og Hrafnhildur, séu hvert um sig rétthafi til 16,67% þeirra.

                       Hið stefnda félag hafi fengið dánarvottorð Péturs heitins afhent 26. ágúst 2004. Stefnda hafi samkvæmt 4. gr. líftryggingarskilmála á bakhlið líftryggingar­skírteinisins borið að greiða stefnendum líftryggingarbæturnar innan 14 daga. Með bréfi stefnda til stefnanda Auðar 16. nóvember 2004 hafi stefndi hins vegar hafnað greiðsluskyldu sinni með vísun til þess að Pétur heitinn hefði leynt félagið mikilsverðum upplýs­ingum um heilsufar sitt 20. janúar 1993, en hann hafi haft þekktan kransæðasjúkdóm frá árinu 1990.

                       Stefnendur hafi mótmælt greiðsluhöfnun stefnda og bent á að meintar rangar upplýsingar um heilsu Péturs heitins á umsóknareyðublaðinu geti engu máli skipt þegar virt séu fyrri viðskipti hans og félagsins og að jafnvel þó að getið hefði verið um sjúkdóminn á umsóknareyðublaðinu, hefði félagið allt að einu samþykkt að gefa út nýtt tryggingarskírteini, enda hafi þar verið um endurnýjun eldri tryggingar að ræða, sem Pétur heitinn hefði tekið hjá stefnanda áður en hann greindist með kransæða­sjúkdóminn.

                       Pétur heitinn hafi fyrst tekið líftryggingu hjá stefnda með líftryggingarskírteini nr. 13235, útgefnu 28. október 1982. Nýtt líftryggingarskírteini hafi verið gefið út 23. september 1987 nr. 7116 og loks hið þriðja 3. nóvember 1989 nr. 3423. Ekki sé umdeilt að sú trygging hafi verið í gildi er Pétur heitinn var greindur með kransæðasjúkdóm á árinu 1990.

                       Stefnandi Auður hafi hafið sambúð með Pétri heitnum á árinu 1989 og þau hafi eignast soninn Pétur í desember 1990. Að frumkvæði Arnar Sigurðssonar, þáverandi sölustjóra stefnda, hafi þau átt fund með honum á heimili sínu 20. janúar 1993 þar sem rædd hafi verið líftryggingarvernd þeirra. Örn hafi lagt til að Auður tæki líftryggingu til jafns við Pétur og að í því skyni væri einfaldast að breyta skilmálum líftryggingar Péturs þannig að þau myndu njóta gagnkvæmrar tryggingarverndar. Þau hafi fallist á þetta og hafi Örn þá fyllt út þrjú eyðublöð sem þau hafi skrifað undir, þ.e. uppsagnarbréf Péturs á gildandi líftryggingu og tvær beiðnir þeirra um líftryggingu. Þeim hafi svo borist líftryggingarskírteini í pósti og uppgjörskvittanir. Á þessum fundi hafi ekkert verið rætt um hvaða áhrif kransæðasjúkdómur Péturs, sem hann hafði greinst með rúmum tveimur árum áður, gæti haft á líftrygginguna og ekki hafi sölustjórinn gert þeim sérstaka grein fyrir því að stefndi liti svo á að um nýja tryggingartöku væri að ræða. Þau Auður og Pétur hafi ekki gætt að því sérstaklega hvaða upplýsingar Örn sölustjóri færði inn á eyðublöðin. Eftir þetta hafi þau greitt uppsett iðgjöld líftryggingarinnar í ellefu ár, eða allt til þess er Pétur féll frá.

                       Eftir ábendingar stefnda hafi stefnendur freistað þess að fá skorið úr máli þessu fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum án þess að þar hafi verið fallist á málsástæður stefnenda. Þeim sé því nauðsyn á að fá leyst úr ágreiningi sínum við stefnda fyrir dómi.

                       Stefnendur mótmæli að stefnda geti borið fyrir sig ákvæði 4. gr. eða 6. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og hafnað greiðsluskyldu sinni. Þeir byggi á því að jafnvel þó getið hefði verið um kransæðasjúkdóm Péturs heitins í beiðni hans um líf­tryggingu frá 20. janúar 1993 hefði stefndi allt að einu gefið út vátryggingarskírteini nr. 31488 enda liggi fyrir að á þeim degi hafi líftrygging Péturs samkvæmt skírteini nr. 3423 verið í fullu gildi. Þannig verði að líta á að virtum atvikum málsins að stefndi hefði sönnunarbyrði fyrir því að ætla mætti að félagið hefði ekki gefið hið nýja líftryggingarskírteini út ef sjúkdómsupplýsingar hefðu legið fyrir. Sú sönnun hafi ekki tekist og því geti stefndi ekki borið fyrir sig ákvæði 6. gr. laganna.

                       Stefndi geti heldur ekki borið fyrir sig ákvæði 4. gr. laganna og byggt á því, að Pétur heitinn hafi sviksamlega leynt upplýsingum 20. janúar 1993 sem hafi mátt ætla að skiptu máli fyrir félagið. Upplýsingar um kransæðasjúkdóm Péturs heitins hefðu ekki skipt félagið neinu máli þegar litið sé til þess að eldri líftryggingin hafi á þeim degi verið í fullu gildi. Samkvæmt upplýsingum stefnda í bréfi 17. janúar 2005 hafi  framreiknuð líf­tryggingarfjárhæð Péturs heitins samkvæmt skírteini nr. 3423 verið  11.813.000 krónur 1. ágúst 2004, en líftryggingarfjárhæð samkvæmt skírteini nr. 31488 hafi þann dag numið 11.543.000 krónum. Stefndi hafi því ekki tekið á sig aukna áhættu 20. janúar 1993.

                       Að virtum atvikum málsins verði að leggja til grundvallar að Pétur heitinn hafi hvorki vitað né mátt vita að með undirritun sinni á beiðni um líftryggingu, sem sölustjóri stefnda hafi fyllt út 20. janúar 1993, hefði hann gefið stefnda rangar upplýs­ingar sem áhrif gætu haft á áhættutöku stefnda og því verði að telja stefnda skuld­bundið til að greiða stefnendum líftryggingarfjárhæðina svo sem krafist sé, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 20/1954.

                       Stefndi hafi litið svo á að með útgáfu á líf­tryggingarskírteini nr. 31488 hinn 20. janúar 1993 hafi verið um endurnýjun eldri tryggingar að ræða. Stefndi hafi ekki talið ástæðu til að greiða stimpilgjald af skírteininu, sbr. 30. gr. laga um stimpilgjald nr. 36/1978 og 1. mgr. 2. gr., sbr. 11. gr. og 14. gr. reglugerðar nr. 219/1978. Beri því að líta á tilgreiningar stefnda á beiðni um líftryggingu og á kvittun hans fyrir iðgjaldi 20. janúar 1993 um að stimpilgjald sé 0 krónur sem yfirlýsingu hans um að um endur­nýjun eldri tryggingar hafi verið að ræða.

                       Stefnendur byggi enn fremur á því að ef talið verði að máli kunni að skipta að ekki hafi verið getið um kransæðasjúkdóm Péturs heitins í beiðni hans 20. janúar 2003 og að stefnda hafi því verið rétt að hafna greiðsluskyldu sinni vegna líftryggingar­skírteinis nr. 31488 þá verði að telja uppsögn Péturs heitins á líftryggingu samkvæmt líftryggingaskírteini 3423 ógilda með vísun til ógildingarreglna III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum 33. gr., 36. gr. og 36. gr. a., b. og c., með þeim lögfylgjum að líftrygging hans samkvæmt líftryggingar­skírteini nr. 3423 teljist enn vera í gildi og að kröfur stefnenda verði þá reistar á henni. Augljóst hljóti að vera að Pétur heitinn hefði aldrei sagt upp líftrygg­ingu samkvæmt líf­trygginga­rskírteini 3423 hinn 20. janúar 1993 ef hann hefði þá gert sér grein fyrir að með því móti myndi hann svipta erfingja sína líftryggingarbótum, sem þeir ella hefðu átt rétt til hefði hann ekki sagt upp tryggingunni. Það verði því að telja hvort tveggja í senn óheiðarlegt, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936, og ósanngjarnt, sbr. 36. gr. sömu laga, gagnvart stefnendum að stefndi, sem hafi líftryggingastarfsemi með höndum, beri fyrir sig að uppsögn Péturs heitins á tryggingunni hafi gildi.

                       Krafa stefnenda um greiðslu á 11.543.000 krónum sé reist á upplýsingum frá stefnda um uppreiknaða fjárhæð líftryggingar samkvæmt líftryggingarskírteini nr. 31488, sem komi fram í bréfi til lögmanns stefnenda 17. janúar 2005. Verði niðurstaða dómsins sú, að til grundvallar uppgjöri líftryggingarbóta eigi að leggja líftryggingar­skírteini nr. 3423 frá 3. nóvember 1989, áskilji stefnendur sér rétt til að krefja stefnda um mismun uppreiknaðrar líftrygginga­rfjárhæðar þess skírteinis, 11.813.000 krónur, og framangreindrar uppreiknaðrar fjárhæðar skírteinis nr. 31488, samtals 270.000 krónur, í sérstöku máli. Stefnendur lýsi því yfir að stefnandi Auður sé rétthafi vegna þess líftryggingarskírteinis á grundvelli ákvörðunar Péturs heitins um tilgreiningu hennar sem rétthafa 20. janúar 1993.

                       Stefndi hafi í atvinnustarfsemi sinni þegið iðgjöld vegna líftrygg­ingar Péturs heitins. Verði niðurstaða málsins sú að stefn­endur eigi ekki rétt á líf­tryggingar­bótunum vegna atvika 20. janúar 1993, sem hér hafi verið lýst, sé ljóst að stefnda hafi auðgast um iðgjöldin frá þeim tíma, án þess að félagið hafi raunverulega tekið á sig áhættu á móti. Stefnendur krefjist þess því til vara að stefnda verði gert að endurgreiða þeim þá fjármuni sem stefnda hafi móttekið í formi iðgjalda frá Pétri heitnum frá 20. janúar 1993 til 9. ágúst 2005. Stefnendur reisi varakröfu sína á upplýsingum frá stefnda um árlegt iðgjald að fjárhæð 95.292 krónur og krefjist endurgreiðslu þess fyrir 11 ár og 201 dag, eða samtals 1.100.688 krónur (95.292 krónur x 11 + (95.292 krónur x 201/365).

                       Aðalkrafa stefnenda sé reist á líftryggingarskírteini nr. 31488, en höfuðstóll kröfunnar sé byggður á útreikningum stefnda. Fjárhæð líftryggingarinnar sé tilgreind í skírteininu 8.000.000 krónur. Við þá fjárhæð beri að bæta hækkun samkvæmt vísitölu, sem stefndi fullyrðir að sé 3.543.000 krónur og stefnendur samþykki að leggja til grundvallar.

                       Krafa stefnenda um greiðslu dráttarvaxta frá 9. september 2004, hvort sem er í aðalkröfu eða varakröfu, sé reist á ákvæðum í líftryggingarskírteini nr. 31488 á bak­hlið þess, en þar komi fram að tryggingar­fjárhæðina skuli greiða út innan 14 daga frá því að skrifstofu stefnda berist í hendur fullnægjandi sannanir fyrir greiðsluskyldu, þar með talið dánarvottorð útgefið af lækni sem stefndi hafi móttekið 26. ágúst 2004.

                       Stefnendur vísi til laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, laga um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga nr. 36/1978 um stimpilgjald. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um rétt stefnenda til að sækja mál þetta sameiginlega sé vísað til heimildar í 19. gr. sömu laga.

                       Málsástæður og lagarök stefnda

       Af hálfu stefnda er vísað til þess að viðskipti Péturs Svavarssonar og stefnda hafi hafist 28. október 1982 þegar Pétur hafi tekið líftryggingu hjá stefnda, sbr. skírteini nr. 13235. Pétur hafi tekið nýja líftryggingu 23. september 1987, sbr. skírteini nr. 7116. Árið 1989 hafi Pétur hafið sambúð með stefnanda Auði. Sama ár hafi líftryggingin frá árinu 1987 fallið úr gildi, en Pétur hafi sótt um nýja líftryggingu 3. nóvember 1989 og hafi verið gefið út nýtt skírteini nr. 3423. Þá tryggingu hafi Pétur verið með þar til hann sagði henni upp 20. janúar 1993. Sama dag hafi þau Pétur og Auður sótt um nýja líftryggingu. Stefndi hafi sent þeim bréf í febrúar 1993 með nýju vátryggingarskírteini, nr. 31488, ásamt skilmálum fyrir tryggingunni. Í bréfinu hafi einnig verið skorað á Pétur og stefnanda Auði að hafa samband við stefnda ef einhverjar spurningar væru, en það hafi þau aldrei gert.

       Stefnda hafi verið tilkynnt um andlát Péturs 26. ágúst 2004. Í kjölfarið hafi farið fram hefðbundin athugun á því hvort hann hefði uppfyllt skyldur sínar samkvæmt vátryggingarsamningnum frá 20. janúar 1993. Við gagnaöflun stefnda, sem farið hafi fram til að staðfesta þær heilsufarsupplýsingar sem samningurinn frá 1993 byggðist á, hafi komið í ljós að Pétur, sem var tannlæknir að mennt, hefði leynt stefnda mikil­vægum upplýsingum um heilsufar sitt við vátryggingartökuna. Stefndi hafi því ekki átt annan kost en að hafna því að greiða bætur úr líftryggingunni á grundvelli 4. og 6. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga og hafi stefnanda Auði verið tilkynnt um það með bréfi 16. nóvember 2004. Áður hefði stefnda óskað eftir lögfræðiáliti frá lög­manni en niðurstaða hans hafi verið sú að hafna bæri að greiða aðstandendum Péturs bætur úr tryggingunni með vísan til framangreindra lagaákvæða. Stefnendur hafi ekki verið sammála þessari afstöðu stefnda. Í bréfi þeirra til stefnda 22. desember 2004 segi að trygging nr. 31488 hafi verið sú sama og trygging nr. 7116. Þessu mótmæli stefnda harðlega enda hafi sú trygging fallið úr gildi. Stefnda hafi því sent lögmanni stefnenda bréf 17. janúar 2005 þar sem bent hafi verið á að þessi skoðun stefnenda stæðist ekki. Enn fremur hafi verið bent á að Pétur hefði tekið aðra tryggingu 3. nóvember 1989 og sagt henni upp 20. janúar 1993 á sama tíma og hann tók tryggingu nr. 31488. Þegar hann tók líftryggingu nr. 31488 hafi hann því ekki verið með aðrar tryggingar í gildi hjá stefnda. Í kjölfarið hafi lögmaður stefnenda sent stefnda bréf 26. janúar 2005, en þar virtist því vera haldið fram að trygging Péturs frá 3. nóvember 1989 væri í gildi en ekki tryggingin frá 23. september 1987, eins og lögmaðurinn hafi haldið fram með bréfi 22. desember 2004. Stefndi hafi sent lögmanni stefnenda bréf 17. febrúar þar sem fyrri afstaða hafi verið ítrekuð. Málinu hafi verið skotið fyrir Tjónanefnd vátryggingarfélaganna, en hún sé skipuð einum fulltrúa frá þremur stærstu vátrygg­ingar­félögunum. Tjónanefnd hafi skilað niðurstöðu í máli nr. 212/05 hinn 15. mars 2005 en þar segi:

Af gögnum málsins, þ.á m. upplýsingum úr sjúkraskrá, þykir sýnt að vátryggingartaki hafi ekki svarað spurningum um heilsufar sitt með réttum hætti þegar hann undirritaði beiðni um líftryggingu þann 20. janúar 1993. Skv. upplýsingum félagsins hefði það ekki veitt vátryggingartaka líftryggingu, hefðu réttar upplýsingar legið fyrir við töku vátryggingarinnar. Með hliðsjón af ákvæði 6. gr. VSL er ekki fyrir hendi bótaréttur úr líftryggingu.

                       Niðurstaða Tjónanefndar sé í samræmi við afstöðu stefnda en stefnendur hafi skotið málinu fyrir úrskurðaefnd í vátryggingarmálum. Samkvæmt 2. gr. samþykkta fyrir nefndina nr. 336/1996 skuli þar sitja þrír fulltrúar sem valdir eru af viðskiptaráðu­neytinu, Neytendasamtökunum og Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Úrskurðar­nefndin hafi komist að niðurstöðu í máli nr. 91/2005 hinn 7. júní 2005, sem hafi verið í samræmi við niðurstöðu Tjónanefndar og afstöðu stefnda, en í úrskurðinum segi:

Þegar tekið er mið af fyrirliggjandi gögnum, þykir sýnt að vátryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt við töku tryggingarinnar á árinu 1993. Gegn neitun félagsins er ekki unnt að fallast á að um endurnýjun vátryggingar hafi verið að ræða. Vátryggingafélagið kveðst ekki hafa veitt vátryggingartaka vátryggingarvernd hefðu réttar upplýsingar um heilsufar legið fyrir við töku vátryggingarinnar. Sú sérstaða máls þessa að vátryggingartaki sagði upp annarri vátryggingu á sama tíma og hann tók nýja vátryggingu, ásamt sambýliskonu sinni á árinu 1993, breytir ekki framanrituðu.

                       Af hálfu stefnda sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnda hefði sam­þykkt að gefa út nýtt tryggingarskírteini jafnvel þó getið hefði verið um sjúkdóm Péturs á umsóknareyðublaðinu, enda hafi verið þar um að ræða endurnýjun eldri trygg­ingar. Pétur hafi sagt upp eldri líftryggingu og tekið nýja 20. janúar 1993. Þann dag hafi stefndi og Pétur gert nýjan vátryggingarsamning. Sönnunarbyrðin um þetta atriði hvílir augljóslega á stefnendum en þeir hafi ekki reynt að sanna það með neinum hætti hvers vegna um endurnýjun á eldri líftryggingu ætti að vera að ræða. Í stefnu sé rakið hvernig Örn Sigurðsson, fyrrverandi sölustjóri stefnda, hafi fengið Pétur og Auði til að breyta líftryggingu hjá stefnda. Einnig að Örn hafi fyllt út eyðublöð fyrir þau. Þessum fullyrðingum stefnenda sé í fyrsta lagi mótmælt sem ósönnuðum og í öðru lagi þannig að jafnvel þótt einhver hefði fyllt út beiðnina fyrir Pétur þá beri hann ábyrgð á efni hennar með undirskrift sinni.

       Sýknukrafa stefnda sé studd þeim rökum að Pétur hafi tekið líftryggingu hjá stefnda með beiðni um hana 20. janúar 1993. Hann hafi látist vegna hjarta­áfalls sem hafi verið rakið til kransæðasjúkdóms. Á beiðninni hafi Pétur hvorki getið þess að hann hefði né hefði haft sjúkdóma, líkamlega eða andlega. Við gagna­öflun stefnda til að staðfesta þær heilsufars­upplýsingar sem líftryggingar­samningurinn frá 20. janúar 1993 byggðist á hafi komið í ljós að Pétur, sem var tannlæknir að mennt, hefði leynt stefnda mikilvægum upplýsingum. Í lækna­skýrslu 15. maí 1991 komi fram að Pétur hefði fengið kransæðastíflu 26. desember 1990 og í læknisvottorði 26. ágúst 1992 komi fram að árið 1991 hefði hann greinst með kransæðasjúkdóm. Í læknis­vottorði 23. febrúar 1996 komi fram að Pétur hefði þekktan kransæðasjúkdóm og að árið 1990 hafi hann fengið infarctus myocardii. Þá sé ljóst að hann hafi látist vegna kransæða­sjúkdóms, eins og fram komi í læknisvottorði yfirlæknis 25. ágúst 2004. Stað­hæfing Péturs um að hann hvorki hefði né hefði haft sjúkdóma sé röng miðað við gögn málsins.

       Í líftryggingarbeiðninni 20. janúar 1993 hafi Pétur sagst vera fullkomlega heilsu­hraustur en þessi staðhæfing sé ekki rétt. Í skýrslu Einars Baldvinssonar læknis 15. maí 1991 segi að enn einu sinni hafi verið brýnt fyrir Pétri að fara í strangan megrunar­kúr. Þessi aðvörun hafi verið vegna þess að þyngdin hafi verið farin að ógna heilsufari hans og valdið því m.a. að ekki hafi verið hægt að framkvæma aðgerð sem læknar hafi talið nauðsynlega vegna kransæðasjúkdóms. Gestur Þorgeirsson læknir hafi sagt 26. ágúst 1992 að Pétur væri allt of feitur. Meltingarsérfræðingur hefði verið fenginn til að líta á hann og jafnvel setja belg niður í magann á honum. Í læknis­vottorði Ásgeirs Jónssonar 26. september 1994 segi að Pétur þyrfti að grennast svo hægt væri að gera hjartaþræðingu til að komast til botns í hjartasjúkdómi hans. Fyrir utan þyngdarvandamál hafi hann verið fyrrum stór­reykingamaður og nýlega hætt reyk­ingum þegar hann hafi tekið líftrygginguna. Í læknisvottorði Ásgeirs Jónssonar 23. febrúar 1996 komi fram að Pétur hafi hætt að reykja 1992 og ætti 80 pakkaár að baki. Sama komi fram í læknisvottorði Kristjáns Eyjólfssonar 19. mars 1996. Pétur hafi verið með kransæðasjúkdóm og undir stöðugu eftirliti lækna. Í framangreindu læknisvottorði Ásgeirs Jónssonar komi til dæmis fram að Pétur hefði verið í eftirliti hjá honum undanfarin ár og verið á betablockerum, Atenololi intermittent, á undan­förnum árum. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að Pétur hafi ekki verið fullkomlega heilsu­hraustur. Þvert á móti hafi hann verið fyrrum stór­reykinga­maður og offitusjúk­lingur með kransæðasjúkdóm og undir stöðugu eftirliti lækna. Hann hafi sem tann­læknir borið enn ríkari skyldu til að gefa upp réttar upplýs­ingar, en gerðar séu mun ríkari kröfur um réttmæti yfirlýsinga lækna en annarra stétta sem gildi sérstaklega um heilsufars­upplýsingar. Með alla þá þekkingu og reynslu og í ljósi stöðu sinnar hafi Pétur mátt vita að rangar upplýsingar um heilsufar hans hefðu áhrif á rétt til bóta úr líf­tryggingunni.

       Pétur hafi svarað ýmsum spurningum á umsókn sinni um líftrygginguna rangt. Rangt sé að hann hafi ekki legið á sjúkrastofnunum vegna sjúkdóms, slyss eða rann­sókn­ar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hann verið lagður inn á Borgarspítal­ann 26. desember 1990 vegna kransæðasjúk­dóms. Hann hafi útskrifast 31. desember sama ár og verið ráðlagt að hvíla sig í 6 vikur. Hann hafi einnig svarað neitandi spurning­unni um það hvort hann hefði þá eða hefði haft aðra sjúkdóma, líkamlega eða and­lega. Það sé ekki rétt því að hann hefði fengið kransæðasjúkdóm og sem tannlæknir hafi hann vitað vel að hann hefði átt að geta þess á umsókninni, líkt og hann hafi getið þess sérstaklega að hann reykti ekki. Hann hafi svarað því játandi að hann væri fullkomlega heilsuhraustur og vinnufær þrátt fyrir öll þau vandamál sem hann hafi búið við. Van­ræksla Péturs á að svara framangreindum spurningum rétt sé sérstaklega vítaverð í ljósi þess að hann hafi verið tannlæknir að mennt. Samkvæmt framansögðu liggi ljóst fyrir, þegar tekið sé mið af fyrirliggjandi gögnum, að Pétur hafi gefið rangar upplýs­ingar um heilsufar sitt við töku tryggingarinnar 20. janúar 1993. Stefndi mótmæli sérstaklega að um hafi verið að ræða einhvers konar endurnýjun á eldri tryggingum. Stefndi hefði ekki veitt Pétri vátryggingarvernd  hefði  hann  gefið  réttar upplýsingar  um  heilsufar við vátryggingartökuna. Í 6. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar­samn­inga segi að hafi vátryggingartaki gefið rangar upplýsingar sé félagið laust mála ef ætla megi að það hefði ekki tekið á sig vátrygginguna, hefði það haft rétta vitneskju um málavexti. Samkvæmt þessari lagagrein beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda.

Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að félagið hefði gefið út vá­trygginga­rskírteini nr. 31488 jafnvel þótt stefndi hefði vitað um kransæðasjúkdóm Péturs. Þvert á móti hefði stefndi ekki tekið Pétur í tryggingu hefði stefndi vitað af öllum þeim atriðum sem hann hafi ekki getið um í umsókn sinni.

Einnig sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að sölumaður stefnda hafi fyllt út umsóknina fyrir Pétur árið 1993. Jafnvel þótt svo hefði verið hafi undirritun Péturs átt að vera staðfesting á því að svör við spurningum sem fram komi í umsókninni hafi verið rétt. Í umsókninni segi að umsækjandi lýsi því yfir að hann sé við góða heilsu og öll svör við spurningum beiðninnar ítarleg og rétt. Hann hafi samþykkt að beiðnin yrði undirstaða og grundvöllur líftryggingar­samningsins. Enn fremur að honum hafi verið ljóst að ábyrgð félagsins hæfist ekki fyrr en félagið hefði samþykkt undirritaða beiðni með nauðsynlegum upplýsingum og vottorðum og að greiðsla fyrsta iðgjalds hefði farið fram. Honum hafi verið ljóst að heimild til að gera tryggingarsamning og sam­þykkja áhættu eða tryggingarhæfi væri einvörðungu í höndum framkvæmdastjóra félagsins og að enginn umboðsmaður eða læknir hefði slíka heimild.

       Skírteini nr. 31488 hafi ekki komið í stað skírteinis nr. 3423. Pétur hafi sjálf­viljugur sagt upp eldri tryggingunni en honum hefði verið í lófa lagt að halda áfram með eldri trygginguna í stað þess að taka nýja tryggingu. Auk þess sé trygging nr. 31488 byggð á öðrum reiknigrunni en tryggingin nr. 3423. Iðgjald samkvæmt trygg­ingu nr. 31488 sé lægra en samkvæmt eldri tryggingu. Pétur hafi staðfesti 20. janúar 1993 að beiðnin væri undirstaða og grundvöllur líftryggingarsamningsins. Þar af leiðandi sé ljóst að ekki hafi verið um sömu trygginguna að ræða.

Ekki sé hægt að líta svo á að félagið hafi talið að um endurnýjun eldri tryggingar hafi verið að ræða þrátt fyrir að stimpilgjald hafi ekki verið greitt af hinni nýju trygg­ingu. Árið 1993 hafi stimpilgjaldataka verið framkvæmd með þeim hætti að eingöngu hafi verið innheimt stimpilgjald þegar tekin var trygging í fyrsta sinn. Þannig hafi einstaklingar sloppið við stimpilgjöld ef þeir hefðu áður haft samskonar tryggingu og greitt stimpilgjald af henni.

Stefnendur byggi á því að ógildingarreglur samningalaga nr. 7/1936 leiði til þess að uppsögn Péturs á samningnum frá 1989 hafi verið ógild, sbr. einkum 33. gr., 36. gr. og 36. gr. a., b. og c. Þessari málsástæðu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Stefnendur hafi ekki rökstutt á neinn hátt að hvaða leyti framan­greind lagaákvæði ættu við en stefndi átti sig ekki á því við hvað stefnendur ættu með því að vísa til ógild­ingar­reglna samningaréttarins. Engin atvik hafi verið fyrir hendi sem réttlæti ógildingu uppsagnarinnar. Pétur hafi sjálfur tekið ákvörðun og stefndi hafi þar hvergi komið nálægt. Meginreglan sé sú að samningar skuli standa.

       Stefnendur telji sig eiga rétt á endurgreiðslu iðgjalds fyrir árin 20. janúar 1993 til 9. ágúst 2005, en ekki sé á neinn hátt rökstutt hvers vegna stefnda beri að endurgreiða iðgjöldin. Þessari málsástæðu sé því vísað á bug.

       Verði ekki fallist á sýknukröfuna er krafa stefnda um lækkun á kröfum stefnenda studd þeim rökum að kröfur þeirra séu ekki rétt út reiknaðar. Kröfur stefnenda miðist við iðgjaldið, 6.821 krónu, sem Pétur hafi greitt fyrir líftrygg­ingu nr. 31488, en það iðgjald miði við að ný trygging hafi tekið gildi 20. janúar 1993. Stefnendur haldi því hins vegar fram að miða eigi við tryggingu nr. 3423 sem hafi tekið gildi 3. nóvember 1989. Pétur hefði þurft að greiða 11.820 krónur í iðgjald fyrir þá tryggingu. Rétt sé að miða við að ef eldri tryggingin hefði haldist í gildi hefði Pétur greitt 11.820 krónur á mánuði eins og hann hafi gert fram að tryggingartökunni 20. janúar  1993. Ætti þá dómkrafa stefnenda að hljóða uppá 6.661.150 krónur ((11.543.000 x  6.821) / 11.820). Í 2. mgr. 6. gr. vátryggingarsamningalaga segi að ef ætla mætti að félagið hefði tekið vátrygginguna á sig, en með öðrum kjörum, ábyrgðist það að þeim mun sem það myndi hafa skuldbundið sig fyrir hið umsamda iðgjald. Ef félagið hefði takmarkað ábyrgð sjálfs sín enn frekar með endurtryggingu lækki bæturnar í hlutfalli við það. Telji dómurinn að krafa stefnenda eigi við rök að styðjast beri að lækka hana í samræmi við þetta ákvæði samkvæmt mati dómsins.

       Dráttarvaxtakröfu stefnenda sé mótmælt. Ef fallist verði á dráttarvaxtakröfu stefnenda sé í fyrsta lagi hægt að miða við dómsuppsögu.

                       Stefndi vísi til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, einkum 4.-6. gr., og til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað.

                       Niðurstaða

                       Óumdeilt er í málinu að Pétur heitinn Svavarsson lést 9. ágúst 2004 vegna krans­æða­sjúkdóms sem hann hafði verið með frá árinu 1990. Hann vissi því af sjúk­dómnum í janúar 1993 þegar hann óskaði eftir nýrri líftryggingu ásamt stefnanda Auði og er það einnig óumdeilt í málinu þótt deilt sé um það hvort um nýja tryggingu hafi verið að ræða eða endurnýjun á eldri tryggingu. Í umsókninni veitti Pétur heitinn stefnda ekki upp­lýs­ingar um sjúkdóminn þrátt fyrir að spurt væri um sjúkdóma vátryggingartaka á umsóknareyðu­blaðinu. Þar svaraði hann því neitandi að vera með nokkurn sjúkdóm og hann svaraði því játandi að hann væri fullkomlega heilsuhraustur. Jafnframt undirritaði hann yfirlýsingu þess efnis að hann væri við góða heilsu og öll svör við spurningum beiðninnar væru ítarleg og rétt. Hvort sem hann fyllti umsóknareyðublaðið út sjálfur eða sölumaður stefnda verður að telja að þessar upplýsingar hafi komið frá honum sjálfum. Eins og fram hefur komið greiddu stefnandi Auður og Pétur heitinn lægri iðgjöld en þau hefðu gert sem einstaklingar vegna afsláttar sem sambúðarfólki var veittur. Einnig voru iðgjöldin lægri en ella þar sem þau reyktu ekki. Verður að telja að Pétri heitnum hljóti að hafa verið ljóst að upplýs­ingar sem óskað var eftir að hann veitti um heilsufar gátu skipt máli varðandi grundvöll líftryggingarsamningsins.

                       Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 er vátrygg­ingar­félag laust mála ef vátryggingartaki hefur gefið rangar upplýs­ingar og ef ætla má að félagið hefði ekki tekið á sig vátrygginguna hefði það haft rétta vitneskju um málavexti. Deildarstjóri áhættumats- og tjónadeildar hjá stefnda kom fyrir dóminn og lýsti viðmiðunum og almennum verklagsreglum sem notaðar væru hjá stefnda við ákvarð­anir um líftryggingar. Kom þá meðal annars fram að upplýsingar, sem vátrygg­ingar­taki veitir vegna umsóknar um líftrygg­ingu, séu áhættumetnar af vátryggingar­félaginu. Vá­trygg­ingar­taki eigi að veita ítarlegar heilsufarsupplýsingar og ef eitthvað komi fram þar geti það leitt til þess að umsókninni verði synjað eða til breytinga á skil­málum. Í framburði deildarstjórans kom einnig fram að hefði komið fram í umsókn Péturs heitins að hann hefði fengið kransæðasjúkdóm og auk þess verið of þungur hefði umsókn hans um líftryggingu verið hafnað samkvæmt almennum verklags­reglum stefnda. Þessu er ekki mótmælt af hálfu stefnenda að öðru leyti en því að stefnendur telja að vegna fyrri líftryggingar hefðu þessar upplýsingar um sjúkdóminn ekki skipt máli. Á þessa málsástæðu stefnenda verður ekki fallist enda er ljóst að Pétur heitinn sagði upp líftrygging­unni, sem hann hafði haft frá 1989 hjá stefnda þegar þau Auður sóttu um hina sameiginlegu líftryggingu, og ekki var gert ráð fyrir því, hvorki af hans hálfu né stefnda, að hann hefði þessa fyrri líftryggingu áfram. Þótt þeim Auði og Pétri hafi ekki verið gert að greiða stimpilgjald af vátryggingarsamningnum getur það atriði ekki ráðið úrslitum við úrlausn á því hvort um endurnýjun eldri líftryggingar var að ræða eða nýja líf­tryggingu. Með vísan til þessa verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að Pétri heitnum hafi verið ljóst að um nýja líftryggingu var að ræða en ekki endurnýjun á eldri líftryggingu eins og stefnendur halda fram. Ber jafnframt að hafna þeim rökum stefnenda að upplýs­ingar, sem Pétri heitnum var skylt að veita, hafi engu máli skipt eða að engu máli hefði skipt þótt hann hefði veitt þær þegar virt séu fyrri viðskipti hans og félagsins. Verður að líta þannig á að í tilefni af umsókn þeirra um líf­tryggingu á árinu 1993 hafi stefndi átt rétt á því að meta upplýs­ingarnar, sem skylt var að veita í tilefni af umsókninni, og eftir atvikum hafna vátrygg­ing­unni á grundvelli þeirra upplýsinga. Jafnframt verður að hafna því að jafnvel þó að getið hefði verið um sjúkdóminn á umsóknareyðublaðinu hefði stefnda allt að einu samþykkt að gefa út nýtt líftryggingarskírteini vegna endurnýjunar á eldri líftryggingu sem Pétur heitinn hafði hjá stefnanda áður en hann greindist með kransæða­sjúkdóminn. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefndi hefði samþykkt að gefa út nýtt líftryggingarskírteini hefðu upplýsingar um heilsufar vátryggingartaka legið fyrir eða að stefnda hafi verið það skylt vegna fyrri líftryggingar. Hér verður að ætla að stefnda hefði hafnað umsókn Péturs heitins um líftryggingu á árinu 1993 hefðu réttar upplýs­ingar um heilsufar hans legið fyrir. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingar­samninga var stefnda ekki skylt að greiða stefnendum vátrygg­ingar­bætur eins og þeir krefj­ast.

                       Stefnendur vísa til ógildingarreglna laga um samningsgerð, umboð og ógilda lög­gern­inga og telja óheiðarlegt og ósanngjarnt að stefnda geti borið fyrir sig uppsögn á fyrri líftryggingu vegna atvika sem þar var um að ræða. Eins og hér að framan er rakið kom uppsögnin 20. janúar 1993 til af því að stefnandi Auður og Pétur heitinn sóttu um sameiginlega líftryggingu sama dag. Rangar upplýsingar á umsókninni leiddu til þess að staðfest hefur verið að stefnda telst ekki bundið af vátryggingar­samningnum frá 1993 á þann hátt sem stefnendur telja vegna atvika er varða vátryggingartaka og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingarsamninga. Verður í ljósi þessa ekki unnt að meta atvik málsins þannig að óheiðarlegt eða ósanngjarnt geti talist af hálfu stefnda að bera uppsögnina á fyrri líftryggingu Péturs heitins fyrir sig, enda hafa af hálfu stefnenda ekki verið færð við­hlít­andi rök fyrir því gegn andmælum stefnda.

                       Með vísan til þessa verður krafa stefnenda um greiðslu vá­trygginga­bóta sem byggð er á framangreindum líftryggingarsamningum ekki tekin til greina.

                       Af hálfu stefnenda er vísað til þess að hið stefnda félag hafi auðgast um iðgjöldin sem greidd hafi verið frá 20. janúar 1993 til 9. ágúst 2004 án þess að hafa tekið á sig raunverulega áhættu á móti. Þessu verður að hafna með vísan til þess að þótt niður­staðan hafi orðið sú að stefnda verði ekki talið bundið af líftryggingar­samningnum á þeim grundvelli sem stefnendur reisa kröfur í málinu um vátryggingar­bætur á og hér hefur verið rakið liggur ekki annað fyrir en að samningurinn hafi á umræddu tímabili verðið í gildi að öðru leyti. Með vísan til þessa verður krafa stefnenda um endur­greiðslu iðgjalda ekki tekin til greina.

                       Samkvæmt öllu framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnenda í málinu. 

                       Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.

                       Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

                       Stefnda, KB Líftrygging hf., skal sýkn vera af kröfum stefnenda, Auðar Ragnarsdóttur, Péturs J. Péturssonar, Ingibjargar H. Pétursdóttur og Hrafnhildar Pétursdóttur, í máli þessu.

                       Málskostnaður fellur niður.