Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Lögmaður
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 20. apríl 2010.

Nr. 187/2010.

Arion banki hf.

(Sigurður Guðmundsson hdl.)

gegn

Guðmundi Reykjalín

 (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Lögmenn. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A hf. gegn G var vísað frá dómi. G krafðist frávísunar málsins frá Hæstarétti þar sem lögmaður sem hafi undirritað kæru í málinu hafi ekki haft heimild til að reka kærumálið fyrir Hæstarétti. Talið var að kæran færi ekki að efni til í bága við 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi ekki verið skilað greinargerð til Hæstaréttar af hálfu A hf. Hafi þessi framkvæmd ekki sætt athugasemdum af hálfu Hæstaréttar. Var kröfu um að vísa málinu frá Hæstarétti hafnað. Þá var talið að þótt finna mætti að málatilbúnaði A hf. hafi þeir annmarkar ekki lotið að málsgrundvellinum heldur fremur að sönnun þess að hann ætti þá kröfu sem hann gerði í málinu. Hafi varnaraðila ekki geta dulist hver krafan hafi verið, hvernig hún hafi verið tilkomin og hvernig A hf. hugðist rökstyðja hana. Aðilar hafi ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið hafi verið flutt um frávísunarkröfuna. Var því talið að A hf. hafi lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur G og ekki væru efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti reisir varnaraðili á því að lögmaður sá, er undirritar kæru í málinu fyrir hönd sóknaraðila, hafi ekki heimild til að reka kærumálið fyrir Hæstarétti. Hann hafi hvorki flutt málið fyrir sóknaraðila í héraði né hafi hann málflutningsleyfi fyrir Hæstarétti. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og til dóms Hæstaréttar 11. desember 2002 í máli nr. 543/2002.

Í dómi Hæstaréttar í máli því, sem varnaraðili telur styðja kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti, kemur fram að kæra á úrskurði héraðsdóms í því máli hafi verið haldin verulegum annmörkum, sem héraðsdómari hafi gefið sóknaraðila málsins færi á að ráða bóta á. Sóknaraðilinn brást við þeirri ábendingu með því að afhenda héraðsdómara greinargerð sína til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar í málinu segir um þetta: ,,Samkvæmt greinargerðinni er hagsmuna sóknaraðila gætt af héraðsdómslögmanni, sem brestur heimild til að flytja mál annarra fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Er því ekki unnt að taka tillit til hennar við meðferð þessa kærumáls. Að því gættu eru slíkir annmarkar á kæru sóknaraðila sem slíkri og málatilbúnaði hans öllum fyrir Hæstarétti að máli þessu verður vísað sjálfkrafa héðan frá dómi.“

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, beindi sóknaraðili kæru sinni til héraðsdóms. Kæran, sem undirrituð er af héraðsdómslögmanni, fer að efni til ekki í bága við 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið skilað greinargerð til Hæstaréttar. Hefur þessi framkvæmd ekki sætt athugasemdum af hálfu Hæstaréttar og verður því hafnað kröfu um að vísa málinu frá Hæstarétti.

II

Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að krafan sé vegna yfirdráttarskuldar á tilgreindum tékkareikningi varnaraðila í einu útibúa sóknaraðila. Hafi reikningnum verið lokað og nemi uppsöfnuð skuld varnaraðila stefnufjárhæðinni. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram, auk stefnu og skrár um framlögð skjöl, ,,reikningaskrá“, innheimtubréf og tilkynningu um lokun veltureiknings vegna vanskila. Eftir að varnaraðili hafði lagt fram greinargerð sína í héraði lagði sóknaraðili fram bókun, þar sem leiðrétt var sú dagsetning, er reikningi varnaraðila var lokað, yfirlýsingu vegna stofnunar veltureiknings, tilkynningu um óheimilan yfirdrátt og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Þótt finna megi að málatilbúnaði sóknaraðila lúta þeir annmarkar ekki að málsgrundvellinum heldur fremur að sönnun þess að hann eigi þá kröfu, sem hann gerir í málinu. Gat varnaraðila ekki dulist hver krafan var, hvernig hún var til komin og hvernig sóknaraðili hugðist rökstyðja hana. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lagt fram yfirlit um yfirdráttarheimild varnaraðila á reikningnum og reglur og skilmála um debetkort. Aðilar höfðu ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið var flutt um frávísunarkröfu varnaraðila.

Samkvæmt þessu má fallast á að sóknaraðili hafi lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur varnaraðila og eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2003, bls. 997 í dómasafni það ár í máli nr. 57/2003 og dóm réttarins 17. apríl 2008 í máli nr. 169/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Guðmundur Reykjalín, greiði sóknaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar í dag er höfðað með stefnu birtri 8. september sl.

Stefnandi er Nýi Kaupþing banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík nú Arion banki hf..

Stefndi er Guðmundur Reykjalin, kt. 141152-7699, Miðbraut 36,

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.602.912 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvænt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20. maí 2009 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins

Stefnandi lýsir því svo í stefnu að krafan sé vegna uppsafnaðrar yfirdráttarskuldar á tékkareikningi stefnda nr. 000161 í útibúi stefnanda nr. 0327. Hafi stefndi gerst brotlegur við reglur um reikningsviðskipti og nefndum reikningi lokað hinn 30. apríl 2009. Hafi uppsafnaður yfirdráttur stefnda þá numið samtals 6.602.912 krónum sem sé stefnufjárhæð þessa máls. Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi skuldin ekki fengist greidd af stefnda.

Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann.  Ákvörðun þessi sé dagsett 9. október 2008.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 22. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf.

Stefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.  Þá er vísað til 4. gr. laga nr. 94/1933, en skv. þeirri grein sé útgefandi tékka skuldbundinn til að hafa til umráða fé hjá greiðslubanka, sem honum sé heimilt, samkvæmt samningi við greiðslubankann, að ráðstafa með tékka.  Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.  Um dráttarvexti vísast til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. l. nr. 50/1988, og beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda við ákvörðun málskostnaðar.  Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991 og um aðild til 100. gr. a. 1. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ákvörðunar fjármálaeftirlitsins 22.10. 2008.

Aðalkrafa stefnda í máli þessu er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós í stefnu og í ósamræmi við framlögð gögn hans, að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar.  Ranglega sé fullyrt í stefnu, að reikningnum hafi verið lokað hinn 30. apríl 2009, þar sem stöðuyfirlit á dskj. nr. 3 sýni, að síðasta hreyfing hafi verið hinn 30. apríl 2009.  Þá komi fram á dskj. nr. 5 hótun um að loka reikningnum, og sé sú hótun dags. 20. maí 2009.  Ekkert yfirlit yfir reikningsviðskiptin síðustu mánuði sé lagt fram og ekki sé verið að krefja stefnda um greiðslu neins ákveðins tékka, sem yfirdregið hafi reikninginn.  Þar af leiðandi sé tilvísun stefnanda til 4. gr. tékkalaga nr. 94/1933 óskiljanleg.  Vísar stefndi til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til stuðnings frávísunarkröfu sinni, aðallega d- og e- liða lagagreinarinnar.  Byggi stefndi málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi hefur mótmælt frávísunarkröfu stefnda og krafist þess, að málið verði tekið til efnisdóms, auk þess sem stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.

Fallast má á með stefnda, að málavaxtalýsingu stefnanda sé ábótavant.  Auk þeirra atriða sem stefndi tilgreinir er engin grein gerð fyrir því hvort yfirdráttarheimild stefnda hafi verið fyrir hendi og þá hver fjárhæð hennar var, úttektum af reikningnum, í hverju meint brot stefnda á reglum um reikningsviðskipti felist eða hvenær þau brot voru framin. Fram kemur í bókun lögmanns stefnanda sem lögð var fram í þinghaldi 3. mars sl. dagsetning lokunar á reikningi hafi verið misrituð í stefnu og í innheimtubréfi. Reikningi stefnda hjá stefnanda hafi verið lokað hinn 20. maí 2009 en ekki 30. apríl þess árs.

Framangreindur málatilbúnaður stefnanda brýtur gegn ákvæðum 80. gr. l. nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað og er ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 100.000.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Arion banki hf., greiði stefnda, Guðmundi Reykjalín, 100.000 krónur í málskostnað.