Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 17. febrúar 2009. |
|
Nr. 74/2009. |
Ákæruvaldið(Arnþrúður Þórarinsdóttir aðstoðarsaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að lögð yrði fram þýðing yfir á móðurmál hans á lögregluskýrslum sem teknar voru af honum og meðákærðu við rannsókn máls sem ákæruvaldið höfðaði gegn honum. Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2009, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila, X, um að lögð yrði fram þýðing yfir á móðurmál hans á lögregluskýrslum sem teknar voru við rannsókn máls sem ákæruvaldið hefur nú höfðað gegn varnaraðila, Y og Z. Telja verður að varnaraðili geri kröfu sína vegna þess réttar sem hann nýtur að lögum til að gefa skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er því í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Ekki var bókuð yfirlýsing um kæru í þingbók við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Í kæru varnaraðila er kröfum hans ekki lýst að öðru leyti en því að hann segist kæra ofangreindan úrskurð héraðsdóms. Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í skriflegri kæru hvaða úrskurður er kærður, hvaða kröfur eru gerðar um breytingu á honum og ástæður þær sem kæra er reist á. Kæra varnaraðila uppfyllir ekki þessi skilyrði. Er málinu af þessum sökum vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2009.
Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 30. desember 2008, var höfðað opinbert mál á hendur ákærðu fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í þinghaldi 4. febrúar 2009 gerði verjandi ákærða X og verjandi ákærða Y kröfu um að lögð verði fram þýðing á móðurmáli ákærðu á lögregluskýrslum sem teknar voru af öllum ákærðu. Af hálfu ákæruvaldsins var þessum kröfum mótmælt. Krafan var tekin til úrskurðar eftir að verjendum og fulltrúa ákæruvaldsins var gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.
Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála kemur fram sú grunnregla að þingmálið er íslenska. Þegar maður gefur skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel ber hins vegar að kalla til túlk, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 12. gr. að skjali á „erlendu tungumáli“ skuli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt er á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 segir að ákvæði 12. gr. séu sniðin eftir 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt orðalagi 12. gr. laga nr. 88/2008, og eins og 10. gr. laga nr. 91/1991 hefur verið í framkvæmd, tekur ákvæðið einungis til þess að þýða skuli skjöl sem eru á erlendu tungumáli á íslensku, en ekki íslensk skjöl á erlent tungumál. Er því ekki fallist á með verjendum að samkvæmt 12. gr. laga nr. 88/2008 beri að þýða lögregluskýrslur í málinu á móðurmál ákærðu. Af hálfu ákærðu er því haldið fram að það leiði af 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að leggja beri fram þýðingu á móðurmáli ákærðu. Á þetta er ekki fallist enda hefur það verið þannig í framkvæmd að ekki er lögð fram þýðing fyrir erlenda sakborninga á íslenskum skjölum og hefur það ekki verið talið brjóta gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu ákærðu, X og Y.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu ákærðu, X og Y, um að lögð verði fram þýðing á móðurmáli ákærðu á lögregluskýrslum sem teknar voru af öllum ákærðu, er hafnað.