Hæstiréttur íslands

Mál nr. 737/2017

Ákæruvaldið (Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að héraðsdómari viki sæti í máli Á gegn X.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Kristinn Halldórsson héraðsdómari víki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 eru í stafliðum a. til g. taldar upp þær ástæður, sem leiða til þess að dómari sé vanhæfur til að fara með mál. Varnaraðili hefur hvorki í héraði né fyrir Hæstarétti rökstutt kröfu sína um að framangreindur héraðsdómari víki sæti í máli þessu með vísan til fyrrgreindra stafliða, en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að krafan styðjist við g. lið ákvæðisins. Þar segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Þá er 1. mgr. 111. gr. sömu laga kveðið á um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Sönnunarfærsla í máli þessu á eftir að fara fram og tekur héraðsdómarinn afstöðu til sönnunargagna að henni lokinni. Samkvæmt þessu er ekkert fram komið í málinu um að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                              

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 22. nóvember 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 27. september sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 7. febrúar 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...];

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 15. mars 2015 í íbúð að [...] í [...], haft í vörslum sínum að hluta til í sölu- og dreifingarskyni samtals 259,51 g af kannabislaufi, 48,30 g af maríhúana og 57 kannabisplöntur, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. 

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á samtals 259,51 g af kannabislaufi, 48,30 g af maríhúana og 57 kannabisplöntum, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Af hálfu ákærða er þess nú krafist að „... dómari úrskurði um hæfi sitt.“

Ákæruvaldið segir dómara ekki vanhæfan og krefst þess að hann víki ekki sæti í málinu.

I

Ákærði vísar til þess að öll rannsóknargögn málsins séu því marki brennd að þeirra hafi verið aflað með og á grundvelli ólögmætrar rannsóknaraðgerðar lögreglu. Áður en leit hafi verið framkvæmd í húsnæði ákærða hafi lögregla hvorki aflað samþykkis húsráðanda né dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi lögreglu ekki verið heimil leit án úrskurðar dómara í þessu tilviki þar sem engin hætta hafi verið á að bið eftir úrskurði ylli sakarspjöllum, sbr. 2. mgr. 75. gr. sömu laga.

Ákærði heldur því fram að með úrskurði sínum 12. júlí sl. hafi dómari málsins heimilað ákæruvaldinu að byggja efnislega á framlögðum rannsóknargögnum. Þá megi að mati ákærða ráða af ummælum í úrskurðinum að ákærði verði sakfelldur og dæmdur til refsingar í málinu. Hið sama leiði af niðurstöðu úrskurðarins og þeim rannsóknargögnum sem ákæruvaldinu hafi verið heimilað að byggja á. Í úrskurðinum hafi dómari því tjáð sig um atriði er tilheyri efnishlið málsins og megi því með réttu draga óhlutdrægni hans í efa, sbr. hér dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 26/2004. Dómara beri því að víkja sæti í málinu.

II

Ákæruvaldið telur engin efni til þess að dómari málsins víki sæti. Vísar ákæruvaldið til þess að í úrskurði dómara frá 12. júlí sl. hafi hvorki verið tekin afstaða til lögmætis leitar lögreglu né efnislega til þeirra skriflegu gagna er ákæruvaldið hafi lagt fram og byggi á í málinu. Þar sé heldur enga afstöðu að finna til sektar eða sýknu ákærða. Niðurstaða dómara hafi að meginstefnu til einfaldlega verið á því reist að í íslensku sakamálaréttarfari sé ekki til staðar útilokunarregla.

Ákæruvaldið segir enga ákvörðun hafa verið tekna af dómnum um að byggja á hinum umdeildu rannsóknargögnum. Sönnunarfærsla í málinu hafi enn ekki farið fram. Hún fari lögum samkvæmt fram við aðalmeðferð málsins og að henni lokinni leggi dómari efnislega mat á þau sönnunargögn og framburði sem færð verða þar fram. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu séu engin efni til þess að dómari málsins víki sæti.

III

Dómari telur að skilja verði kröfugerð ákærða og málflutning verjanda hans svo að hann krefjist þess að dómari málsins víki sæti.

Í úrskurði dómsins 12. júlí sl. var meðal annars vísað til þess að í íslenskum lögum væri ekki fyrir að fara reglu sem útilokaði að stuðst yrði við gagn sem kynni að hafa verið aflað án þess að fylgt hefði verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í sakamálum. Jafnframt var til þess vísað að þau andmæli sem ákærði hefur teflt fram vegna öflunar umræddra sönnunargagna komi til úrlausnar við efnismeðferð málsins, sbr. ákvæði 109. gr. laga nr. 88/2008, en leiði ekki til þess að ákæruvaldinu verði synjað um að byggja á gögnunum í málinu. Dómari fær ekki séð að með þessum ummælum eða öðrum ummælum í forsendum úrskurðarins hafi verið tekin afstaða til lögmætis leitar lögreglu eða efnislega til þeirra skriflegu gagna er ákæruvaldið hefur lagt fram og byggir á í málinu. Í úrskurðinum er heldur ekki að finna afstöðu dómara til sektar eða sýknu ákærða. Sönnunarfærsla í málinu fer lögum samkvæmt fram við aðalmeðferð málsins og fyrst að henni lokinni mun dómari leggja efnislegt mat á framlögð gögn. Að þessu sögðu fær dómari ekki séð að efni séu til þess að hann víki sæti í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr., sbr. 2. mgr. 159. gr., laga nr. 88/2008.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kristinn Halldórsson héraðsdómari víkur ekki sæti í máli þessu.