Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2000


Lykilorð

  • Verksamningur


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000.

Nr. 163/2000.

Háberg ehf.

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

Þórði Bogasyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Verksamningur.

Þ er rafvirkjameistari og löggiltur rafverktaki. Ágreiningur reis á milli hans og H  um uppgjör þriggja verka, sem Þ hafði tekið að sér fyrir H. Aðilum bar ekki saman um hvort Þ skyldi veita H afslátt af einu verkinu. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og hafnaði kröfu H um afslátt á þeim forsendum að ósannað væri að samið hefði verið um afslátt eða að kröfu um afslátt mætti leiða af venju. Þá var H sýknað af kröfu Þ um greiðslu fyrir tiltekið verk, sem unnið var að beiðni framkvæmdastjóra H á heimili móður hans, enda þótti ósannað að verkið hefði verið unnið fyrir H. Að síðustu stóð deilan um verk, sem Þ tók að sér fyrir H sem undirverktaki, en Þ skyldi  veita H 12% afslátt af tilboðsverði. Miklar breytingar urðu á verkinu á verktímanum af ástæðum, sem snéru að verkkaupa. Leiddu breytingarnar til aukins kostnaðar við framkvæmd verksins. Sömdu Þ og H við verkkaupann um uppgjör þess. Við uppgjör á milli Þ og H fór H fram á að umsaminn 12% afsláttur yrði látinn ná til þess kostnaðar, sem af breytingunum leiddi, þar á meðal aukaverka. Þessu mótmælti Þ, sem taldi afsláttinn einungis vera af upphaflega tilboðsverðinu, þó að undanskildum þeim hluta þess, sem hvað mestum breytingum hefði tekið. Hæstiréttur hafnaði kröfu H, en leit svo á að Þ bæri að veita afslátt af hinu upprunalega heildartilboðsverði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2000. Hann krefst sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 29. júní 2000. Krefst hann þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 916.710 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 246.749 krónum frá 22. maí 1998 til 1. desember sama árs, af 304.428 krónum frá þeim tíma til 1. janúar 1999, af 593.627 krónum frá þeim tíma til 1. mars sama árs, en af 916.710 krónum frá þeim tíma til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi reis ágreiningur milli málsaðila vegna uppgjörs þriggja verka, sem gagnáfrýjandi vann samkvæmt samningum við aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi er rafvirkjameistari og rafverktaki og var hið fyrsta þessara verka uppsetning raflagna í svokölluðu Drafnarhúsi í Hafnarfirði. Við þær framkvæmdir var hann undirverktaki hjá aðaláfrýjanda, sem tekið hafði að sér framkvæmdir í húsinu sem aðalverktaki. Telur hinn síðarnefndi að gagnáfrýjanda hafi borið að veita sér 10% afslátt af verklaunum sínum, sem hann fékk greidd samkvæmt reikningi. Því hafnar gagnáfrýjandi. Er fyrsti liður kröfugerðar hans, 246.749 krónur, til kominn vegna þessa ágreiningsefnis.

Aðaláfrýjandi hefur hvorki stutt haldbærum rökum að samið hafi verið um þann afslátt, sem hann krefst, né að venja leiði til þess að gagnáfrýjanda beri að veita hann. Ekki er heldur unnt að fallast á að handritað og ódagsett blað, sem stafar frá gagnáfrýjanda og nánar er getið í héraðsdómi, geti breytt neinu um þá niðurstöðu. Er óumdeilt að það varð til við samræður gagnáfrýjanda og forráðamanns aðaláfrýjanda í bifreið, þegar hinn fyrrnefndi gekk eftir greiðslum, en verkið var þá langt komið eða því jafnvel alveg lokið. Á þessu blaði er í fáum orðum getið eftirstöðva vegna verksins og dráttarvaxta, 40.000 króna, sem aðaláfrýjandi skyldi greiða gagnáfrýjanda. Telur aðaláfrýjandi sig óbundinn af síðastnefnda þættinum og að hann hafi ekki fallist á að greiða umrædda dráttarvexti, þótt hann telji gagnáfrýjanda á hinn bóginn bundinn af því atriði, sem lýtur að eftirstöðvum fyrir verkið. Verður ekki talið að neinn samningur hafi komist á í umrætt sinn milli málsaðila um uppgjör fyrir verkið, sem um ræðir. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að taka til greina þennan þátt í kröfugerð gagnáfrýjanda.

II.

Annar hluti kröfu gagnáfrýjanda stafar af vinnu við fasteignina Móabarð 31 í Hafnarfirði. Krefst hann greiðslu fyrir hana sem og dráttarvaxta, sem getið er í I. kafla að framan, miðað við 1. desember 1998. Samkvæmt því, sem þar er rakið um handritað blað gagnáfrýjanda og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu af þessum kröfuliðum gagnáfrýjanda.

III.

Gagnáfrýjandi tók að sér verk sem undirverktaki hjá aðaláfrýjanda við að fullgera húsnæði að Klettagörðum 15 í Reykjavík. Eru tveir liðir í kröfugerð hans sprottnir af því verki, en um er að ræða 289.199 krónur miðað við gjalddaga 1. janúar 1999 og 323.083 krónur miðað við gjalddaga 1. mars sama árs, samtals 612.282 krónur. Þáttur gagnáfrýjanda í verkinu fólst í að leggja til og koma upp smáspennulögnum og raforkuvirki og er meðal málsgagna tilboðsskrá gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda í fjölmörgum liðum. Þáttur í verkinu var að leggja til og setja upp allmarga lampa. Niðurstaða tilboðsins var 5.394.296 krónur og er ómótmælt að gagnáfrýjandi skyldi veita 12% afslátt af tilboðsverðinu, þannig að endanlegt verð yrði 4.746.980 krónur. Skýrir aðaláfrýjandi það svo að hann hafi átt fleiri kosta völ í upphafi og hafi gagnáfrýjandi orðið að lækka tilboð sitt með þessum hætti til að fá verkið.

Fram er komið að mjög miklar breytingar urðu á öllu verkinu á verktímanum, þar á meðal þeim þáttum, sem gagnáfrýjandi hafði tekið að sér. Urðu þær af ástæðum, sem snéru að verkkaupa. Í skýrslu Jóhanns T. Egilssonar fyrir dómi, sem var eftirlitsmaður verkkaupa með framkvæmdum, kom meðal annars fram að arkitekt hússins hafi krafist þess að notaðir yrðu að stórum hluta aðrir og dýrari lampar en miðað hafði verið við í útboði. Þá féllu einnig til fjölmörg aukaverk, sem gagnáfrýjandi vann, meðal annars vegna breytinga, sem gerðar voru á upphaflega verkinu. Kvaðst Jóhann telja að aðaláfrýjanda hafi verið ljós sú breyting, sem gerð var á vali lampa á verktímanum, eins og öðrum sem stóðu að þessu verki.

Sigurður Grímsson gaf skýrslu fyrir dómi, en hann átti hlut að hönnun raflagna í umræddri byggingu og tók auk þess þátt í eftirliti með verkframkvæmdum fyrir verkkaupa. Er dró að verklokum tók hann ásamt gagnáfrýjanda saman lista yfir aukaverk og annan lista um lampa, sem notaðir voru í verkið. Kvað hann þennan hátt hafa verið á hafðan vegna mikilla breytinga, sem urðu á verkinu. Eftir þetta var haldinn fundur fulltrúa verkkaupa og aðal- og undirverktaka og er fundargerð Jóhanns T. Egilssonar 10. október 1998 meðal málsgagna. Segir þar að fundurinn sé haldinn að frumkvæði verkkaupa til þess að fara yfir endanlegt uppgjör á smáspennulögnum og raforkuvirki og aukaverk, sem verktaki telji sig eiga rétt á að fá sérstaklega greidd. Er jafnframt vísað í meðfylgjandi uppgjörsblað um hvern þátt. Á því blaði er annars vegar „Niðurstaða úr uppgjöri tilboðsverks og lampa“, samtals 5.436.317 krónur. Hefur hlutur lampa í því, 2.508.387 krónur, aukist töluvert frá tilboði, en smáspennulagnir og raforkuvirki, 2.927.930 krónur, dregist saman þar eð nokkrir liðir féllu út. Hins vegar er „Niðurstaða úr uppgjöri aukaverka“, samtals 3.053.506 krónur. Kvað Jóhann samkomulag hafa orðið um þetta uppgjör, sem gert hafi verið á grundvelli áðurnefndrar samantektar gagnáfrýjanda og Sigurðar Grímssonar. Síðar hafi fulltrúi aðalverktaka hins vegar leitað til sín með ósk um að ofan á þessar fjárhæðir yrði bætt 15%, sem næmi álagningu aðalverktakans á verk undirverktakans. Taldi vitnið aðalverktakann hafa gleymt þessu á fundinum, þar sem sem samkomulag um uppgjör hafi orðið. Þótt verkkaupa hafi ekki borið skylda til að verða við þessari ósk hafi verið fallist á umbeðið álag á lampauppgjörið, en hafnað tilmælunum að því er varðaði aukaverkin.

Við reikningsgerð sína kveðst gagnáfrýjandi miða við að honum sé einungis skylt að veita aðaláafrýjanda 12% afslátt af upphaflega tilboðsverkinu. Sú skylda nái ekki til svokallaðs lampaþáttar í verkinu, en honum hafi verið gjörbreytt og í raun samið um hann upp á nýtt. Skylda til að veita afslátt nái ekki heldur til aukaverka. Aðaláfrýjandi telur gagnáfrýjanda hins vegar skylt að veita umræddan afslátt af öllu verkinu. Málatilbúnaður hans er að öðru leyti reistur á því að hann sé óbundinn af samningi um uppgjör verksins. Ekki hafi verið samið við hann um breytingar á framkvæmd þess, heldur hafi þær orðið í samskiptum undirverktakans og verkkaupans. Kveður hann sér ekki hafa verið kunnugt um að skipt hafi verið um lampa, enda séu þeir lampar, sem upphaflega var miðað við, áþekkir þeim lömpum í útliti, sem endanlega voru valdir. Hafi undirverktakinn fallist á að nota dýrari lampa og aukið þannig og með öðrum hætti tilkostnað, eigi það að vera á hans eigin kostnað eða verkkaupans. Undirverktakinn hafi ekkert umboð haft til að rýra með þessum hætti hagnað, sem aðaláfrýjandi hefði haft af verkinu óbreyttu.

Annar forráðamanna aðaláfrýjanda var byggingarstjóri á vinnustaðnum. Eftirlitsmaður verkkaupa taldi að aðaláfrýjanda hafi verið ljósar breytingar á vali lampa og báðir forsvarsmenn hans tóku þátt í fundi um uppgjör verksins með undirverktaka og fulltrúum verkkaupa. Við það uppgjör lágu fyrir nákvæmar skrár um lampa og aukaverk. Að þessu virtu verður hafnað staðhæfingum aðaláfrýjanda um að honum hafi ekki verið kunnugt um breytingar á verkinu. Er hann jafnframt bundinn af samkomulagi um uppgjör þess sem óhjákvæmilega fól í sér breytingu á upphaflegum samningi við verkkaupa. Er jafnframt fram komið að það hafi miðast við greiðslur til undirverktakans, en við það bættust síðan 15% til aðalverktakans samkvæmt samkomulagi hans og verkkaupa fyrir hluta verksins, svo sem áður er getið.

Aðaláfrýjandi hefur ekki stutt neinum haldbærum rökum að gagnáfrýjanda sé skylt að veita honum afslátt af aukaverkum. Verður krafa gagnáfrýjanda, sem á þessu er reist, því tekin til greina. Þótt verulegar breytingar hafi hins vegar orðið á tilboðsverkinu, þar sem hlutur smáspennulagna og raforkuvirkis dróst saman, en hlutur lampa jókst, er gagnáfrýjanda engu  að síður skylt að veita umsaminn afslátt af tilboðsverkinu, þrátt fyrir breytingar á vægi einstakra liða innan þess. Verður lögð til grundvallar sú staðhæfing hans að hann hafi við reikningsgerð sína þegar gert ráð fyrir afslætti af þeim hluta, sem er fyrir smáspennulagnir og raforkuvirki, en eftir sé að lækka þann hluta reikninga hans, sem varðar lampa. Að þessu virtu ber að lækka kröfu gagnáfrýjanda um 301.006 krónur. Verður krafa hans vegna Klettagarða 15 svo breytt tekin til greina með 311.276 krónum, enda hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi þegar fullgreitt verkið eða greitt upp í kröfu gagnáfrýjanda, svo sem hann heldur fram. Mótmæli hans gegn upphafstíma dráttarvaxta eru of seint fram komin og verður þegar af þeirri ástæðu ekki sinnt.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða málsins sú að aðaláfrýjandi skal greiða gagnáfrýjanda samtals 558.025 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorði. Þá skal hann greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Háberg ehf., greiði gagnáfrýjanda, Þórði Bogasyni, samtals 558.025 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 246.749 krónum frá 22. maí 1998 til 1. mars 1999, en af 558.025 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 375.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                        

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 27. janúar 2000

                Stefnandi er Þórður Bogason, kt. 100358-2379, Lækjarhjalla 12, Kópavogi, en stefndi er Háberg ehf., kt. 590496-2199, Hnotubergi 1, Hafnarfirði, en stjórnarformaður félagsins er Sófus Berthelsen, kt. 080454-3259, sama stað.

                Umboðsmaður stefnanda er hrl. Friðjón Örn Friðjónsson, en umboðsmaður stefnda er hdl. Jón Auðunn Jónsson.

I. Dómkröfur

                1. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum kr. 916.110,- krónur með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af kr. 246.749,- kr. frá 22. maí 1998 til 1. desember 1998, en af kr. 304.628,- frá þeim tíma til 1. janúar 1999, en af kr. 693-627,- frá þeim degi til 1. mars 1999 en af kr. 1.016.710,- frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

                2. Stefndi krefst þess að verða með öllu sýknaður af kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu skv. framlögðum málskostnaðarreikningi úr hendi stefnanda.

II Málavextir

                Stefnandi er rafvirkjameistari og löggiltur rafverktaki, sem unnið hafði fyrir stefnda í ýmsum verkum, en stefndi er verktaki á tilboðsmarkaði og hafði tekið að sér ýmiss verk sem aðalverktaki og svo ráðið undirverktaka til að annast suma þætti verkanna þ.á.m. stefnanda máls. Ágreiningur er milli aðila um uppgjör greiðslu vegna þriggja verka, þ.e. við Drafnarhúsið, Strandgötu 75, Hafnarfirði, Móabarð 31, Hafnarfirði og að Klettagörðum 15, Reykjavík.

1. Drafnarhúsið

                Stefndi hafði tekið að sér innréttingar á hluta á 3. hæð hússins. Þar sem verið var að útbúa starfsstofu fyrir tölvufyrirtækið Memphis. Hluti af verkinu voru raflagnir og leitaði stefndi til stefnanda um þennan þátt verksins. Var svo umsamið á milli þeirra að stefnandi ynni verkið samkvæmt reikningi en ekki samkvæmt fyrirfram gerðu tilboði. Verkið var unnið á tímabilinu frá nóvember til desemberloka 1997 og gaf stefnandi út heildarreikning vegna verksins að fjárhæð kr. 2.346.749,- Þessari reikningsupphæð er ekki mótmælt af hálfu stefnda, en fram kemur hjá  honum að samið hafi verið um 10 % afslátt af einingarverði svo sem tíðkist er undirverktaki í tilboðsverki vinni verk samkvæmt reikningi. Þá ber aðilum saman um að stefndi hafi greitt vegna verksins kr. 2.000.000,-.       Stefndi kveðst hafa átt að greiða kr. 2.112.074,- miðað við 10 % afslátt á reikningi og vísar til yfirlits merkt dskj. nr. 15 sem stefnandi hafi lagt fyrir stefnda 27. júlí 1998 en þá hafi eftirstöðvar vegna Strandgötu 75, Hafnarfirði eða Memphis verið kr. 100.000,- og lagði stefndi fram í málinu ljósrit af tékkaávísun stefnda til stefnanda, sem er með útgáfudag 16. júlí 1998, og sé ekki tilgreind í reikningsyfirlitum stefnanda og eigi að koma  til frádráttar og því sé skuld  stefnda vegna þessa verks kr. 12.074. Stefnandi hefur lækkað upphaflega kröfu sína um kr. 100.000,- í samræmi við þetta. Stefnandi telur eftirstöðvar vera miðaðar við greiðslur stefnda kr. 246.749. Stefnandi vísar til þess, að á uppgjörsfundi aðila 5. nóvember 1998 hafi stefndi samþykkt að greiða kr. 40.000,- í dráttarverxti vegna síðasta verkliðar og skuldi stefndi honum því vegna þessa verks kr. 286.749,- með dráttarvöxtum 22. maí 1998.

2. Móabarð 31, Hafnarfirði

                Að beiðni Andrésar Ásmundssonar framkvæmdastjóra Hábergs ehf. gerði stefndi við raflagnir í heimili móður hans að Móabarði 31, Hafnarfirði vorið 1998, þar höfðu fyrir slysni verið sagaðar í sundur raflagnir og þurfti að gera við með því að skipta um ídráttarefni og tengja.  Stefnandi kvað þess hafa svo verið óskað að reikningurinn vegna kostnaðar við verkið yrði gerður við stefnda. Við það hefur stefndi ekki kannast og heldur því fram að stefnandi hafi átt að beina reikningnum til Andrésar Ásmundssonar, en ekki er deilt um að verkið hafi verið unnið af stefnanda.

3. Klettagarðar 15, Reykjavík

                Í mars 1998 óskaði Vörfluttningamiðstöðin eftir tilboðum í frágang stoðrýma fasteignarinnar Klettagarðar 15, Reykjavík og lágu fyrir útboðs og verklýsing um verkið. Tilboð stefnda í verkið var samþykkt og samdi Vörufluttningamiðstöðin í framhaldi af því við stefnda um verkið og skyldu V.S.Ó ráðgjöf og Raftæknistofan vera eftirlitsaðilar með verkinu. Stefndi hafð svo óskað eftir tilboði stefnanda í raflagnir og ljósatengingar sem í verkinu fólust og gerði stefnandi tilboð í verkið, dskj. nr. 6, sem er ódagsett en nam kr. 5.394.296,- og tókust samningar með aðilum á þessum grundvelli sem byggðir voru á magntöluskrá stefnanda og hafði hann samþykkt að veita 12 % afslátt af þessu verði til stefnda sbr. áritun á skránna sbr. dskj. nr. 16. Fram kemur hjá stefnda, að í samningnum hans við verkkaupa hafi verkkaupin, lampar verið metin á kr. 2.844.300,- en samkvæmt tilboði stefnanda átt að kosta 1.401.350,-, þegar tekið hafði verið tillit til afsláttar og því hafi verið nokkur hagnaðarvon í þessum lið. Lamparnir hafi svo orðið miklu dýrari  í innkaupi hjá stefnanda heldur en hann hafi áætlað er hann gerði tilboðið til stefnda eða  hljóðað upp á  kr. 2.508.387,-. Án samráðs við stefnda og án samþykkis verkkaupa hafi stefnandi gert reikning fyrir þessari hækkun sem aukaverki, en stefndi hafi ekki fengið þessa hækkun bætta af verkkaupum, hann hafi ekki fallist á að á reikning stefnanda legðist álagning aðalverktaka. Stefndi telur sig af þessum sökum hafa orðið fyrir tjóni sem nemi 1.442.995,- sem stefnandi eigi að bæta honum og koma til skuldajöfnunnar við kröfu stefnanda sem telur  hins vegar stefnda skulda sér kr. 612.282,- vegna þessa verks. Hann hafi unnið verkið svo sem um var samið en það tekið miklum breytingum að beiðni stefnda og því verið mikið um aukaverk og vísar stefnandi til sundurliðunnar á dskj. nr. 7 um þau og á dskj. nr. 8 um yfirlit um kostnað við lampa. Stefnandi vísar og til uppgjörsblaðs eftirlitsaðila með verkinu, sem þeir höfðu tekið saman eftir að hafa framkvæmt úttekt á því, en þar sé sundurliðaður kostnaður við tilboðsverkin auk lampa og vegna aukaverka og er hann samtals að fjárhæð kr. 8.489.823,-. Á fundi með málsaðilum, eftirlitsaðilum og fulltrúa verkkaupa 5. nóvember 1998 hafði uppgjörsblaðið verið samþykkt og lagði stefnandi það til grundvallar reikningsgerð sinni. Samkvæmt þvi nema aukaverk kr. 3.053.506,- og telur stefndi að af þeirri fjárhæð eigi stefnandi samkv. samningi þeirra að veita 12% afslátt þ.e. kr. 366.420,- sem draga beri frá stefnufjárhæðinni.

III. Málsástæður og lagarök

                1. Stefnandi byggir á því að hann hafi unnið þau verk fyrir stefnda sem að ofan greini og mál þetta varði. Verkin hafi verið unnin að beiðni stefnda og í samræmi við fyrirmæli hans á meðan á verkframkvæmd stóð. Stefnandi hafi gert stefnda reikninga fyrir verkin sem hafi ekki sætt andmælum, enda sanngjarnir og eðlilegir og að hluta til byggðir á úttekt og mati óháðra eftirlitsaðila með verkframkvæmd (Klettagarðar 15). Stefnda sem verkkaupa beri samkvæmt grundvallarreglum kröfu og samningaréttar að greiða stefnanda fyrir verkið skv. framlögðum reikningum, sbr. sérstaklega 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922.

                Stefnandi byggir á þvi að verkið  hafi í raun gefið tilefni til mun hærri reikningsgerðar, en hann hafi fallist á að veita verulegan afslátt til að ná samkomulagi um uppgjör við stefnda. Til marks um, að stefnandi hafi unnið verk sitt vel og fullnægjandi af hendi sé að það var tekið út og samþykkt af eftirlitsaðilum verkframkvæmda.

                Á því er byggt, að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því hvaða greiðslur hann hafi innt af hendi inn á verkið. Að hluta til er ágreiningur um innborganir og tilgreindar innborganir í bréfi stefnda á dskj. nr. mótmælt sem röngum að því marki sem þær eru í ósamræmi við reikningsyfirlit stefnanda.

                2. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi ekki neina kröfu á hendur sér vegna þeirra verka sem hann hefur unnið fyrir stefnda. Sama hvernig uppgjör verkanna er reiknað og borið saman við greidd verklaun, verði niðurstaðan ávalt sú að stefndi hafi ofgreitt stefnanda umtalsverðar fjárhæðir. Stefndi áskilur sér rétt til að sækja ofgreidd verklaun síðar úr hendi stefnanda.

                Sérstaklega er mótmælt dráttarvaxtakröfum stefnanda en eins og sjá megi séu þær ekki í neinu samræmi við efni þeirra reikninga sem lagðir hafa verið fram í málinu af hans hálfu.

                Stefndi heldur því fram að eftirstöðvar vegna Memphis hafi þann 27. júlí 1998 verið kr. 12.074,- og byggir það á þeim greiðslum sem stefnandi hafi fengið fyrir verkið og ekki er deilt um í málinu og að sannað hafi verið um 10% afslátt af einingarverði sem dragast hafi átt frá reikningi stefnanda. Þá er mótmælt vaxtakröfu stefnanda að fjárhæð kr. 40.000,- sbr. dskj. nr. 14 og kveðst stefndi ekki hafa samþykkt hana.

                Sýknukröfu sína vegna reiknings stefnanda vegna Móabarðs 31, byggir stefndi á aðildarskorti. Kröfu sína um sýknu vegna verka fyrir Vöruflutningamiðstöðina ehf. byggir stefndi á þvi, sem fram er komið í málavaxtalýsingu, að stefnandi hafi bakað honum tjón að kr. 1.442.955,- með því að nota dýrari lampa inn í verkið en um var samið, sem eigi að koma til skuldajafnaðar og einnig eigi stefndi rétt á 12% afslætti af aukaverkum að fjárhæð kr. 3.053.506,- eða kr. 366.420,- og þegar fleira sé týnt til telur stefndi sig hafa greitt langtum meira en stefnandi eigi tilkall til.

                Sýknukröfu sína byggir stefndi á verksamningi aðila sbr. einnig almennar reglur íslensks samninga og kröfuréttar um réttar efndir . Hann byggir rétt sinn til bóta úr hendi stefnanda vegna oftekinna verklauna fyrir lampa á ákvæðum verksamningsins, almennum reglum kröfuréttarins og reglum skaðabótaréttarins um bætur vegna réttarbrota innnan samninga.  Skuldajafnaðarkröfu sína byggir hann á reglum íslensks kröfuréttar um skuldajöfnuð.

                Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV. Sönnunarfærsla

                Aðilaskýrslur gáfu stefnandi og fyrirsvarsmenn stefndu þeir Sophus Berhelsen og Andrés Ásmundsson, en vitni báru Jóhann Tómas Egilsson kt. 070371-4139, Breiðuvík 37, Reykjavík, sem var eftirlitsmaður á vegum V.S.Ó. sem annaðist eftirlit með verkinu fyrir verkkaupa og Sigurður Grímsson, kt. 021155-3739, Þingási 26, Reykjavík sem kannaði raflagnir fyrir Klettagerða 15 og tók þátt í eftirliti með verki stefnanda þar fyrir verkkaupa.

V. Niðurstöður

                Ágreiningslaust er í málinu að samkvæmt samkomulagi milli aðila skyldi verkið við raflagnir að Strandgötu 71, Hafnarfirði  vegna tölvufyrirtækisins Memphis unnið af stefnanda samkvæmt reikningi, en verkið að Klettagörðum 15 fyrir Vörufluttningamiðstöðina skyldi unnið eftir tilboði, sem stefnandi gerði í verkið. Bæði þessi verk vann stefnandi á fullnægjandi hátt og í samræmi við verklýsingu og breytingar á þeim sem gerðar voru af eftirlitsaðilum verkkaupa. Fyrir liggur að stefnandi veitti 12% afslátt af tilboðinu, en það var byggt á magntöluskrá og var hún árituð þar um.

                Fullyrðing stefnda um að stefnandi hafi lofað að veita 10% afslátt af reikningum vegna verksins að Strandgötu 75, fær ekki stoð í framburði stefnanda né ber reikningagerð hans um verkið það með sér, að taka hafi orðið mið að ákveðnum afslætti við samningu reikninganna. Uppgjörsblað, sem merkt er dskj. nr. 15, en er ódagsett gæti gefið til kynna að eftirstöðvar skuldar vegna verksins hafi um mitt sumar 1998 verið kr. 100.000,-, þær hafi svo verið greiddar 16. júní s.l. og mismunur á inngreiðslum og reikningum væri þessi umræddur afsláttur. Þetta uppgjörsblað nær engan vegin yfir öll viðskipti aðila vegna þessa verks og hvorugur málsaðila vill að fullu leggja það til grundvallar um fullnaðaruppgjör og þykir því ekki fært að byggja á því um þetta atriði. Það þykir því bresta sönnun um það í málinu að stefnandi hafi gengist undir að veita þennan afsláttt og ekki hefur heldur verið sýnt fram á að tíðkanlegt sé, þegar verktaki vinnur í tímavinnu í verki, sem aðalverktaki hefur boðið í, að undirverktaki veiti 10% afslátt af reikningum.

                Það verður því alfarið byggt á reikningum stefnanda um verkið að Strandgötu 75 enda hafa þeir ekki verið véfengdir, sem óeðlilegir miðað við unnið verk.

                Heildarreikningur stefnanda fyrir þetta verk nam kr. 2.346.749,- og hefur stefndi samþykkt þessa reikningsgerð. Ekki er ágreiningur um að stefndi hafi þann 16. júní s.l. lokið greiðslu á 2.100.000,- upp í þennan reikning og skuldaði hann því stefnanda kr. 246.749,-.

                Við uppgjör á milli aðila á verkinu að Klettagörðum 15 verður fyrst og fremst að styðjast við tilboð stefnanda og svo reikningagerð hans vegna breytinga og aukaverka, en þó að hafa hliðsjón af gögnum sem lögð hafa verið fram af báðum aðilum varðandi breytingar á lömpum og um aukaverk. Í viðskiptayfirliti stefnanda merkt dskj. nr. 3, kemur fram að stefndi hafði greitt stefnanda vegna þessa verks kr. 7.077.541,- og er því ekki andmælt af hálfu stefnda og þykir mega við það miða um uppgjörið. Þá verður aðallega að að styðjast við tilboð stefnanda í verkið dskj. nr. 16 og svo yfirlit um heildaruppgjör vegna þess og aukaverka sbr. dskj. nr. 9, en þar er lögð til grundvallar verðlagning stefnanda á verkinu samkvæmt tilboðinu og listinn yfir lampa og aukaverk, sem útbúnir voru með eða í samráði við eftirlitsaðila verkkaupa og voru lagðir fyrir stefndu, áður en framangreint uppgjör fór fram á fundi stefndu, stefnanda og eftirlitsaðila verkkaupa, sem borið hafa vitni í málinu. Samkvæmt uppgjörum er kostnaður vegna tilboðsverks og lampa kr. 5.436.317,-, sem er dálítið meira en tilboðsverð stefnanda. Lampaþátturinn í tilboðinu var upp á kr. 1.661.594,- en varð samkvæmt uppgjörinu að fjárhæð kr. 2.506.387,-.  Smáspennuvirki, raforkuvirki o.fl. var skv. tilboðinu kr. 3.732.702,- varð samkvæmt uppgjörinu kr. 2.927.930,-. Skýringin á þessu er sú að þegar á reyndi gerði verkkaupi eða eftirlitsaðilar verkkaupa og arkitekt kröfu um að aðrir lampar yrðu notaðir en tilgreindir voru í tilboði stefnanda og voru þeir töluvert dýrari og samkv. framburði vitnanna Jóhanns Tómasar og Sigurðar Grímssonar, var verkkaupa ljós þessi kostnaðarauki en vitnið Jóhann gat ekki staðfest, að verkkaupi tæki á sig að greiða þennan kostnað og ekki var formlega gengið frá því. Verkfundir voru haldnir vikulega milli efirlitsaðila, verkkaupa og verktaka og var venjan að leggja fyrir slíka fundi ákvarðanir sem gætu leitt til kostnaðarauka fyrir verktaka, og það bókað og gæti þá verktaki gert athugasemdir ef hann teldi sig verða fyrir tjóni af breytingunum miðað við verktilboð. Vitnið Sigurður taldi að valið á nýjum lömpum næði í gegn, þó að það hefði ekki umboð til að semja við stefnanda heldur hafi þurft að koma til samþykki aðaleftirlitsmanns verkkaupa Jóhanns Tómasar um að þetta kæmi til hækkunnar miðað við tilboðsverð og taldi það að þetta samþykki fengist. Lækkun á liðnum smáspennuvirki og rafspennuvirki mun skýrast af breytingum á verkinu. Hætt var við nokkuð af verkunum skv. verklýsingu eða þau útfærð öðruvísi og að einhverju leyti leiddu beytingar til þess að verk færðist á aukaverk og einnig mun hafa komið til lækkunar af hálfu stefnanda. Þegar þetta er virt, verður talið að breytingarnar á lampaskránni hafi verið gerðar að ósk og í samráði við verkkaupa, sem var ljóst, að þær hefðu í för með sér kostnaðarauka og bar verkkaupa að greiða þannan kostnaðarauka miðað við tilboð stefnda, og stefndu að gera upp við stefnanda á grundvelli þess.

                Þá voru aukaverk unnin að ósk verkkaupa og áttu stefndu rétt á að fá þau greidd með álagi af hálfu verkkaupa, en stefnandi á rétt á greiðslu frá stefndu skv. þeim reikningum og sundurliðun sem liggur frammi í málinu og uppgjörið frá 10. okóber s.l. er byggt á. Ekki var umsamið milli málsaðila að stefndu fengju afslátt af reikningum vegna aukaverka og engar venjur við að styðjast, um að afsláttur sem samið er um í sambandi við tilboðsverk nái til aukaverka. Hins vegar verður að líta svo á að lamparnir falli inn í tilboð stefnanda, þó að breytingar hafi verið gerðar á lampaskrá og er fallist á að stefndu njóti afsláttar miðað við upphaflegt tilboðsverð, þó að liðirnir smáspennuvirki og lampavirki hafi lækkað.

                Samkvæmt þessu þykir mega fallast á reikninga eða kostnaðarlið stefnda vegna verka hans við Klettagarða 15, Reykjavík að fjárhæð kr. 8.489.823,-, en til frádráttar kemur afsláttur að fjárhæð kr. 647.315,- og það sem stefndu hafa áður greitt kr. 7.077.541,-  telst skuld stefndu við stefnanda vegna þessa verks kr. 764.964,-.

                Kemur þá til álita hvort stefnandi eigi sök á því að stefndu misstu af hagnaði í sambandi við lampaþátt tilboðsins, en stefndu telja stefnanda hafa verið bundinn við að vinna verkið samkvæmt tilboði, verklýsingu og útboðsgögnum og frávik frá því sem hefði kostnað í för með sér hafi stefnanda veri óheimilt að samþykkja eða útfæra án samráðs við þá.

                Í samskiptum málsaðila og eftirlitsaðila verkkaupa kom sú staða upp að breytt er lampaplani að ósk verkkaupa, þannig að nota varð dýrari lampa en gert var ráð fyrir í tilboði. Þessar breytingar eru ekki sérstaklega kynntar aðalverktaka né þær ræddar á verkfundum né þau útgjöld sem þeim voru samfara. Svo virðist sem þessir nýju lampar hafi og getað fallið undir verklýsingu og lýsingu í útboðsgögnum og fengu stefndu þennan kosntnaðarauka miðað við tilboð ekki samþykktan á uppgjörsfundinum 10. okt. 1998 og sýnist sem verkkaupi hafi talið hina nýju lampa hafa rúmast innan tilboðs aðalverktaka. Þó að stefnandi hafi afhent stefnda nýja lampaskrá fyrir fundinn, er það eftir að verkið hafði verið framkvæmt. Þarna skortir töluvert á um að stefnandi hafi látið stefndu fylgjast með framvindu verksins og tilgreint við þá um leið kostnaðaraukann samfara breytingum. Einnig má segja að stefndu hefðu með venjulegu eftirliti með verkinu átt að sjá að breyting hafi orðið á lampaplani. Fallist er á það, að fyrir mistök og vangæslu málsaðila hafi stefndu misst af ágóða í sambandi við tilboð stefnanda, en þessi ágóða von kann að hafa valdið því að tilboði stefnanda var tekið. Það er mat réttarins að stefnandi eigi nokkra sök á því að stefndu náðu ekki að tryggja að þeir fengju kostnaðinn af breytingunni greiddan úr hendi verkkaupa og þykir rétt að hann taki að einhverju leyti þátt í tjóni stefndu, sem talið er nema kr. 619.755,- þ.e. kostnaðurinn við breytingar á lampaplaninu að frádregnum 15% álagi  sem sé 2.503.387,-, 1.661.594,-, 120.020, = 619.755,- og beri stefnandi 50% af þessu tjóni.

                Stefndu eru sýknaðir af kröfu stefnanda um greiðslu kr. 17.679,- með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991, en gegn mótmælum stefndu brestur sönnun um að verkið hafi verið unnið að beiðni stefndu og ber stefnanda að beina reikningi þessum til verkbeiðanda, þ.e. Andrésar Ásmundssonar.

                Stefndu ber því að greiða stefnanda kr. 701.836, = 455.087, + 246.749 kr.

                Vaxtakröfur stefnanda eru teknar til greina með þeim hætti að stefndu ber að greiða stefnanda dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga  af kr. 1.246.749,- frá 2. mars 1998 til 14. maí 1998 af kr. 646.749,- frá þeim tíma til 22. maí s.á. en af 346.749 frá þeim tíma til 16. júní 1998  en af kr. 246.749,- frá þeim tíma til 4. janúar 1999, en af kr. 378.913,- frá þeim tíma til 1. apríl 1999, en af kr. 701.836,- frá þeim tíma til greiðsludags.

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda í málskostnað kr. 199.200,- að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan .

                Tafir á dómsuppsögu eru vegna anna dómarans við önnur mál.

Dómsorð

                Stefndu Háberg ehf. greiði Þórði Bogasyni kr. 701.836,- ásamt dráttarvöxtum samkv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.246.749,- frá 2. mars 1998 til 14. maí 1998, en af kr. 646.749,- frá þeim tíma til 22. maí 1998, en af kr. 346.749,- frá þeim tíma til 16. júní 1998, en af kr. 246.749 frá þeim tíma til 1. apríl 1999, en af kr. 701.836,- frá þeim tíma til greiðsludags.

                Stefndu greiði stefnanda kr. 199.200,- í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.