Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldabréf


                       

Mánudaginn 25. október 1999.

Nr. 421/1999.

Ingimundur Bernharðsson

(Sigurður Eiríksson hdl.)

gegn

Samskipum hf.

(Sveinn Skúlason hdl.)

Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf.

I krafðist þess að ógilt yrði fjárnám, sem gert var hjá honum að kröfu S. Taldi hann að honum sem sjálfskuldarábyrgðarmanni hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða kröfuna áður en hún komst í vanskil og hafi honum því ekki verið skylt að greiða hærri upphæð en sem næmi höfuðstól kröfunnar og samningsvöxtum. Féllst héraðsdómari ekki á umrædd rök og úrskurðaði að fjárnámsgerðin skyldi standa óröskuð. Var sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. september 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði hjá honum 12. maí 1999 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr.  laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst að fyrrnefnt fjárnám verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ingimundur Bernharðsson, greiði varnaraðila, Samskipum hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. september 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 17. þ.m. að loknum munnlegum flutningi, er höfðað með beiðni sóknaraðila dagsettri 18. maí 1999, móttekinni af Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 19. maí 1999 og þingfestri þann 7. júní 1999.

Sóknaraðili er Ingimundur Bernharðsson kt. 210255-5599, Reykjasíðu 14, Akureyri, en varnaraðil er Samskip hf., kt. 440986-1539, Holtabakka, Holtavegi, Reykjavík.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að fjárnámsgerð sýslumannsins á Akureyri, nr. 024-1999-00607 sem fram fór hjá sóknaraðila þann 12. maí 1999, fyrir kr.345.398,- í eign sóknaraðila að Draupnisgötu 7 L, Akureyri, að kröfu Samskipa hf. verði ógilt með úrskurði.

Varnaraðili krefst þess að hin umdeilda aðfarargerð standi óröskuð og að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðar-reikningi.

Málsatvik eru þau, að sögn sóknaraðila að krafa gerðarbeiðanda, varnaraðila í máli þessu, byggi á skuldabréfi, útgefnu af Bílver hf., kt.660384-0739, Draupnisgötu 7 I, Akureyri. Kveðst sóknaraðili hafa áritað bréf þetta sem sjálfsskuldarábyrgðar-maður, en ekki fengið neinar tilkynningar um vanskil bréfsins fyrr en honum var birt greiðsluáskorun hinn 22. febrúar 1999. Telur sóknaraðili að þar sem honum sem sjálfsskuldarábyrgðarmanni hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða kröfuna áður en hún komst í vanskil hafi honum ekki verið skylt að standa skil á hærri upphæð en sem næmi höfuðstól og samningsvöxtum. Sóknaraðili kveðst hafa fullnægt þessum skyldum sínum með því að geymslugreiða kr. 232.620,- þann 9. mars 1999 og kveður hann varnaraðila hafa fengið tilkynningu um þetta. Sóknaraðili kveður að vegna þess að hann hafi þannig staðið full skil á sjálfsskuldarábyrgð sinni hafi ekki verið fyrir hendi lagaskilyrði til að umdeild aðför færi fram. Kveðst hann hafa mætt við gerðina og haft uppi mótmæli, en þeim verið hafnað af sýslumanni.

Varnaraðili lýsir málsatvikum svo að hér sé um einfalda innheimtu á skuldabréfi að ræða. Kveður varnaraðili bréfið ekki hafa fengist greitt hjá aðalskuldara og því hafi kröfum verið beint að sjálfsskuldarábyrgðarmanni.

Sóknaraðili kveðst byggja málatilbúnað sinn á því að honum beri ekki sem sjálfsskuldarábyrgðarmanni að standa skil á hærri upphæð en sem nemur höfuðstól og samningsvöxtum. Heldur sóknaraðili því fram að þetta stafi af því að honum hafi sem sjálfsskuldarábyrgðarmanni ekki borist tilkynningar um að bréfið væri í vanskilum og því ekki gefinn kostur á því að greiða áður en vanskilakostnaður félli á kröfuna. Telur sóknaraðili að geymslugreiðsla sú er hann framkvæmdi þann 9. mars 1999 hafi falið í sér fullar efndir af hans hálfu og því hafi lagaskilyrði skort fyrir hinni umdeildu aðfarargerð.

Varnaraðili kveður kröfu sína byggða á skuldabréfi er sóknaraðili ritaði undir sem sjálfsskuldarábyrgðarmaður. Kveður varnaraðili að í skuldabréfinu sé greint að öll ákvæði þess gildi gagnvart sjálfsskuldarábyrgðarmanni. Varnaraðili kveður að hvergi sé að finna ákvæði í skuldabréfinu um tilkynningaskyldu gagnvart sjálfsskuldarábyrgðarmanni, þvert á móti sé það tekið fram að ábyrgðin gildi jafnt þótt greiðslufestur sé veittur einu sinni eða oftar, uns skuldin sé að fullu greidd. Ennfremur kveður varnaraðili geymslugreiðslu sóknaraðila ekki hafa neitt gildi að lögum, þar sem sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um hvar umrætt skuldabréf var vistað og hafi því engir annmarkar verið á því að koma greiðslu til skila. Auk þessa kveður varnaraðili að aðalskuldaranum, Ey ehf., sem upphaflega hét Bílver hf., sé stjórnað af sóknaraðila, en sóknaraðili sé bæði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri. Telur varnaraðili því að sóknaraðila gæti ekki hafa dulist að innheimtuaðgerðum og áminningum var beint að aðalskuldara og því alltaf vitað um vanskil á greiðslu umrædds skuldabréfs. Kveður varnaraðili að af þessu sé ljóst að málsástæður sóknaraðila séu rangar og algerlega órökstuddar og fer fram á ríflegan málskostnað vegna þessarar tilefnislausu málshöfðunar.

Með vísan í rökstuðning varnaraðila sem hefur trausta stoð í gögnum málsins er kröfu sóknaraðila hafnað. Sóknaraðili greiði varnaraðila kr.150.000,- í málskostnað.

Freyr Ófeigsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan

Ályktarorð:

Fjárnámsgerð sýslumannsins á Akureyri, nr. 024-1999-00607 sem fram fór hjá sóknaraðila, Ingimundi Bernharðssyni, þann 12. maí 1999, skal standa óröskuð.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Samskipum hf., kr. 150.000,- í málskostnað.