Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2007


Lykilorð

  • Farmflutningur
  • Farmskírteini
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Málsástæða


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. mars 2008.

Nr. 330/2007.

Atlantsskip-Evrópa ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Ice–W ehf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Farmflutningar. Farmskírteini. Skaðabætur. Fyrning. Málsástæða.

I samdi við A um farmflutning á pakkaðri þorsklifur til St. Pétursborgar. Viðtakandi gámsins átti samkvæmt samningi við I að greiða 24.000 bandaríkjadali þremur dögum fyrir afhendingu og yrði þá farmskírteinið framselt til viðtakanda sem gæti í framhaldi leyst út gáminn. Óumdeilt er að A afhenti vöruna án þess að framvísað væri einu þriggja frumrita farmskírteinisins en honum var þetta óheimilt samkvæmt ákvæðum skráðum á framsíðu þess. Eftirstöðvar endurgjalds fyrir vöruna fengust ekki greiddar og krafði I A um skaðabætur vegna tjóns síns. Hæstiréttur taldi að háttsemi A fæli í sér verulega vanefnd á farmsamningnum og skapaði honum bótaskyldu gagnvart I. Samkvæmt 4. gr. flutningsskilmála A féll ábyrgð hans niður nema honum væri stefnt innan níu mánaða frá því að farmur var afhentur en ágreiningslaust var að stefna í máli þessu var birt 11 mánuðum eftir að farmur var afhentur. Ákvæði siglingalaga stóðu því ekki í vegi að aðilar semdu um annan fyrningarfrest en greinir í 6. tölulið 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Var krafa I á hendur A því fyrnd. Þá var ekki fallist á þá málsástæðu I að A hefði verið óheimilt að bera fyrir sig neina takmörkun á ábyrgð, hvorki að því er varðaði dráttarvexti né fyrningartíma þar sem hann hefði gerst sekur um verulega vanefnd. Málsástæða I sem byggði á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 var fyrst höfð uppi í Hæstarétti og var henni mótmælt sem of seint fram kominni. Kom hún því ekki til frekari skoðunar. Var A sýknað af kröfu I.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2007. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 17. september 2007. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 24.000 bandaríkjadali með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2005 til 23. nóvember sama ár en með dráttarvöxtum „samkvæmt 8. gr. sömu laga“ frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Nafni gagnáfrýjanda var breytt eftir að héraðsdómur gekk.

I.

Farmsamningur komst á með málsaðilum þegar aðaláfrýjandi tók að sér að flytja pakkaða frysta þorsklifur á 19 pallettum frá Hafnarfirði til St. Pétursborgar. Farmskírteini var gefið út í þríriti 22. september 2005. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi afhenti vöruna án þess að framvísað væri einu þriggja frumrita farmskírteinisins. Var honum þetta óheimilt samkvæmt ákvæðum skráðum á framsíðu þess. Gagnáfrýjandi hefur sannað tilkall sitt til vörunnar með handhöfn sinni á öllum þremur eintökum farmskírteinisins. Hann kveðst hafa orðið fyrir tjóni þar sem eftirstöðvar endurgjalds fyrir vöruna, sem áttu að greiðast áður en farmurinn væri afhentur, hafi ekki fengist greiddar. Nemur krafa hans þessum eftirstöðvum.

Gagnáfrýjandi hefur sannað tjón sitt vegna þessa með reikningi, sem er í samræmi við kröfu hans og farmskírteinið og er útgefinn sama dag og það. Réttarstaða gagnáfrýjanda byggði á farmskírteininu, sbr. 111. gr. siglingalaga nr. 34/1985, og var það vanefnd á farmsamningnum af hálfu aðaláfrýjanda að afhenda vöruna án þess að því væri framvísað. Með því skapaði hann sér skaðabótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda.

II.

Aðaláfrýjandi heldur því fram að krafa gagnáfrýjanda hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað og vísar þar um til 4. gr. flutningsskilmála sinna. Þar segir að öll ábyrgð farmflytjanda falli niður nema honum sé stefnt innan níu mánaða frá því farmur var afhentur. Ágreiningslaust er að farmurinn var afhentur um 23. október 2005, en stefna var birt 23. september 2006 eða 11 mánuðum síðar. Gagnáfrýjandi heldur því hins vegar fram að ákvæði 6. töluliðar 215. gr. siglingalaga um 12 mánaða fyrningarfrest gildi um viðskiptin, og telur hann óheimilt að víkja frá því ákvæði með samningi. Vísar hann til þess að við setningu siglingalaga hafi verið stefnt að því að samrýma íslensk siglingalög alþjóðlegum réttarreglum á sviði farmflutninga á sjó. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafi fullgilt svonefndar Haag-Visby reglur og aðlagað löggjöf sína þeim. Ennfremur kveði venjur í alþjóðlegum farmflutningum á um eins árs fyrningarfrest þegar farmur sé afhentur án þess að farmskírteini sé framvísað.

Ekki verður fallist á þessi rök. Í 6. tölulið 215. gr. siglingalaga segir að skaðabótakrafa sem rís vegna þess að vöru er skilað án þess að farmskírteini sé framvísað falli niður vegna fyrningar „innan eins árs frá því er vöru bar að skila eða frá því er henni var skilað ef það gerist síðar.“ Samkvæmt orðalagi sínu er regla 6. töluliðar 215. gr. ekki ófrávíkjanleg og engin önnur ákvæði siglingalaga leiða til þeirrar niðurstöðu, öndvert við til dæmis 3., 4. 5. og 7. tölulið 215. gr., sbr. 118. og 149. gr. siglingalaga. Stóðu ákvæði siglingalaga því ekki í vegi að aðilar semdu um annan fyrningarfrest en greinir í 6. tölulið 215. gr. laganna. Þá hefur gagnáfrýjandi ekki sannað að á sviði sjóflutninga gildi venja um 12 mánaða fyrningarfrest í hliðstæðum tilvikum sem sé bindandi fyrir aðila.

III.

Gagnáfrýjandi byggir einnig á því að aðaláfrýjandi hafi gerst sekur um verulega vanefnd með því að afhenda vöruna án þess að farmskírteini væri afhent. Hann geti því ekki borið fyrir sig neina takmörkun á ábyrgð, hvorki að því er varðar dráttarvexti, sbr. 10. gr. skilmála sinna, né fyrningartíma samkvæmt 4. gr. sem sé þrengri en regla 6. töluliðar 215. gr. siglingalaga. Í málflutningi vísaði gagnáfrýjandi einnig í 6. mgr. 70. gr. til hliðsjónar um þetta.

Farmskírteini er viðskiptabréf og er fallist á með gagnáfrýjanda að veruleg vanefnd felist í því að afhenda farm án þess að farmskírteini sé framvísað. Í 6. mgr. 70. gr. siglingarlaga segir: „Farmflytjandi getur ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmörkun samkvæmt þessari grein ef það sannast að hann hafi sjálfur valdið tjóninu eða skaðanum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og honum mátti vera ljóst að tjón mundi sennilega hljótast af.“ Fjallar 70. gr. að öðru leyti um verðgildi vöru eða farms og mat á því við ákvörðun skaðabóta og í 2. mgr. er fjallað um takmörkun bótafjárhæðar. Hér er ekki deilt um takmörkun bótafjárhæðar eða efnisinntak bótaréttarins heldur lengd fyrningarfrests. Verður því ekki fallist á málflutning gagnáfrýjanda að því er þetta varðar.

Loks byggir gagnáfrýjandi á því að vegna verulegrar vanefndar aðaláfrýjanda leiði það af 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að hann geti ekki borið fyrir sig ákvæði 4. gr. farmskírteinisins. Þessi málsástæða var fyrst höfð uppi fyrir Hæstarétti og mótmælti aðaláfrýjandi henni sem of seint fram kominni. Er á það fallist og kemur hún því ekki til frekari skoðunar.

IV.

Af öllu framangreindu leiðir að ákvæði 4. gr. farmsamnings aðila gildir um viðskipti þeirra og var skaðabótakrafa gagnáfrýjanda því fyrnd þegar hann höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.

Samkvæmt úrslitum málsins verður gagnáfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Atlantsskip-Evrópa ehf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Ice–W ehf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                  

                                   Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2007.

Mál þetta var dómtekið 29. janúar s.l. að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnandi er Á.B. lýsi ehf., kt. 711095-2689, Hólmaslóð 6, Reykjavík, en stefndi er Atlantsskip- Evrópa ehf., kt. 580602-3710, Vesturvör 29, Kópavogi.

Umboðsmaður stefnanda er Skarphéðinn Pétursson hdl., umboðsmaður stefnda er Magnús Guðlaugsson hrl.

I.  Dómkröfur.

1.  Stefnandi krefst þess, að stefndi greiði honum USD 24.000 (tuttugu og fjögur þúsund bandaríska dollara) með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23.10.2005 til 23.11.2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt sömu lögum frá þeim degi til greiðsludags og leggist vextirnir og dráttarvextirnir við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. nefndra laga í fyrsta sinn 23.11.2006.

Þá er þess krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað.

2.  Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þá er þess krafist að stefnandi greiði stefnda málskostnað að mati dómsins.

II.  Málavextir.

Haustið 2005 samdi stefnandi við stefnda um farmflutning á pakkaðri þorsklifur á 19 pallettum í 40 feta frystigámi frá Hafnarfirði til St. Pétursborgar í Rússlandi.  Frystigámurinn fékk einkennisnúmerið CCE 6045760 IS SCS04 1037.  Stefnandi var skráður eigandi, en móttakandi 006 "utlansa" Russia 198097 St. Petersburg, ul Trefileva d.t. lit P Porn 8B korn 7.  Vegna flutninganna gaf stefndi út farmskírteini í þríriti hinn 22. september 2005 nr. VO 18 og sem stefnandi tók við án athugasemda.  Sendingarnúmer gámsins var M-KRE-22-09-5-IS-HAF-VO18.  Gámurinn var fluttur með skipinu Kársnesi til Rotterdam, en þar umskipað um borð í skipið Morpeth og fluttur með því til St. Pétursborgar.  Farmbréf vegna flutninganna voru send stefnanda.  Gámurinn kom til St. Pétursborgar 19. október 2005.  Fram kom hjá stefnanda, að hann hafi gefið út reikning á hendur viðtakanda gámsins, sem hafi verið að fjárhæð USD 46.758 og greiddi viðtakanda gámsins helmin .reikningsins auk kostnaðar fyrirfram eða USD 23.995,23 en eftir stóðu alls USD 24.000 sem viðtakandi skyldi greiða þremur dögur fyrir afhendingu og yrði þá farmskírteinið framselt til viðtakanda, sem gæti í framhaldi af því leyst út gáminn.

Stefnandi kvaðst hafa treyst á venju og ákvæði farmskírteinisins um að gámurinn yrði ekki afhentur nema gegn frumriti farmskírteinisins.

Stefnandi kvaðst hafa fengið þær skýrsingar hjá stefnda, er hann fór að undrast um hve langan tíma flutningurinn tæki, að stefndi hafi skilað af sér gámnum í Rússlandi, án þess að fá afhent frumrit farmskírteinisins, enda stefnandi haft öll þrjú frumrit þess. 

Fram kemur hjá stefnda að gámurinn hafi verið afhentur í St. Pétursborg, án þess að frumriti farmskírteinisins væri skilað og hafi þetta verið gert samkvæmt fyrirmælum Halldórs Ágústar Björnssonar, starfsmanns stefnanda og sonur aðaleiganda hans.  Gámnum hafði svo verið skilað tómum á athafnasvæði stefnda 29. október 2005.  Stefndi hafi ekki vitað annað en allt væri í lagi.  Stefnanda hafði ekki borist greiðsla frá viðtakanda og í janúar 2006 hafði Björn Halldórsson, aðaleigandi stefnanda haft samband við stefnda til að spyrjast fyrir um gáminn og kveðst  stefndi þá hafa upplýst hann um það, að gámurinn hafi verið afhentur samkvæmt fyrirmælum Halldórs.

III.  Málsásæður og lagarök.

1.  Stefnandi byggir á þessum atriðum.

            1. Stefnandi sé samkvæmt 21. gr. siglingalaga nr. 34/1985 sbr. 2. gr. farmskírteinis nr. V018 farmsamningshafi (dskj. 4). Með farmskírteini þessu hafi komst á farmsamningur milli stefnanda og stefnda sem stefndi hafi með ólögmætum aðgerðum ekki efnt. Aðild stefnanda að þessu máli sé því byggð á farmsamningi.

            2. Stefndi sé samkvæmt 21. gr. siglingalaga nr. 34/1985 sbr. 2. gr. farmskírteinis nr. V018 farmflytjandi, sem með samningi hafi tekið að sér fyrir stefnanda sjóflutning á umræddum gámi frá Hafnarfirði til St. Pétursborgar. Með vísan til þess byggir stefnandi á því að stefndi sé réttur aðili að bótakröfu  vegna þess tjóns sem stefnandi hafi beðið vegna ólögmætrar afhendingar stefnda á gámnum.

            3. Stefndi beri ábyrgð á tjóni samkvæmt ákvæðum siglingalaga nr. 34/1985

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. siglingalaga nr. 34/1985 geti sá sem kemur með farmskírteini sem hann sé rétt að kominn eftir orðum þess sjálfs eða við framsal í óslitinni röð eða eyðuframsal krafist afhendingar vörunnar. Nægi að framvísa einu eintaki í skiptum fyrir vöruna, eins og nánar sé lýst í 2. mgr. 106. gr. 

            Síðan segi í 2. mgr. 108. gr. siglingalaga að þegar affermingu sé lokið skuli farmskírteini afhent farmflytjanda með áritaðri viðurkenningu um viðtöku vörunnar.

            Stefnandi byggi á því, að framlagt farmskírteini nr. V018 sé grundvöllur réttarstöðu milli stefnanda og stefnda, sbr. 111. gr. siglingalaga. Með vísan til 101. gr. siglingarlaga og samkvæmt framlögðum farmskírteinum sé sannað að stefndi hafi veitt viðtöku og lestað vöru.

            Í farmskírteininu sé ekki að finna neinn fyrirvara á því að heimilt hafi verið að afhenda gáminn án samhliða afhendingu á frumriti farmskírteinis. Sé þar þvert á móti beinlínis fullyrt að vöruna megi ekki afhenda nema að því skilyrði uppfylltu. Hafi stefndi heldur ekki uppfyllt skilyrði 106. gr. siglingalaga.

            Stefnandi byggi einnig á því, að starfsmenn stefnda eða aðrir aðilar sem hann beri ábyrgð á, hafi með ásetningi eða vítaverðu gáleysi afhent vörur stefnanda þrátt fyrir að hafa eða mátt vita að slíkt væri ólögmætt. Vísar stefnandi þar til þeirrar grundvallar reglu farmflutninga á sjó að vara skuli aldrei afhent nema gegn framvísun frumrits farmskírteinis með óslitinni framsalsröð. Þetta hafi þeir gert vísvitandi um þá áhættu sem í afhendingunni hafi falist og geti stefndi því ekki borið fyrir sig nokkra þá ábyrgðartakmörkun sem finna megi í siglingalögum eða skilmálum stefnda.

            Stefnandi telji samkvæmt ofangreindu að stefndi beri óskipta ábyrgð á tjóni stefnanda sem stefndi hafi skapað með ólögmætum og saknæmum athöfnum eða athafnaleysi. Ástæður að öðru leyti fyrir því að afhending fór fram skipti ekki máli að mati stefnanda varðandi bótaábyrgð stefnda. Í þessu sambandi leggi stefnandi áherslu á að sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi beri ekki ábyrgð hvíli á stefnda.

            Í málinu liggur fyrir að stefndi afhenti farminn án þess að móttakandi hafi sýnt heimild sína til viðtöku á farminum, sem hafi verið eins og fram kemur í skilmálum á framhlið farmskírteinisins eitt eintak farmskírteinisins með þeirri heimild sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 106. gr. siglingalga. 

            Með því hafi stefndi brotið þá grundvallarreglu farmflutninga á sjó að vara skuli aldrei afhent nema gegn framvísun frumrits farmskírteinis í óslitinni framsalsröð og sem skýrt komi fram í skilmálum á framhlið farmskírteinisins. 

            Í þessu sambandi bendir stefnandi á að farmskírteini sé viðskiptabréf með þeim réttaráhrifum sem fram koma í 101-109. gr. silgingalaga.

            Með vísan til þess byggir stefnandi á því að stefndi beri að bæta honum það tjón sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar afhendingar á farminum.

            Um sé að ræða víðtæka og ótakmörkuð ábyrgð sem byggi á farmsamningi aðila og viðkomandi ákvæðum siglingalaga.

            Grundvallarbrot á samningi leiði til þess að stefndi verði að bæta allt tjón og geti ekki borið fyrir sig neina takmörkun á ábyrgð þar með talið takmörkun á rétti stefnanda til dráttarvaxta.

            Hvað túlkun á þessum stöðluðu skilmálum farmskírteinisins varði vísi stefnandi til almennra reglna samningaréttar um túlkun staðlaðra samningsskilmála, sem samdir séu einhliða af öðrum aðilanum.

            4.  Útreikningur stefnukröfunnar

            a.  Höfuðstóll

            Eins og fram kemur á dskj. 5 hafi viðtakandi átt að greiða USD 24.000 gegn því að fá frumrit farmskírteinisins framselt. Þetta gerði viðtakandi ekki en engu að síður hafði hann fengið vöruna afhenta. Stefnandi telji stefnda því bera að greiða honum sömu upphæð í skaðabætur vegna þess tjóns sem stefnandi hafi hlotið.

Alls hafi viðtakandi átt að greiða stefnanda USD 47.995.23 og þar af USD 46.758.33 fyrir vöruna en USD 1236.9 vegna banka og umsýslukostnaðar stefnanda. Viðtakandi hafi greitt USD 23.995.23 fyrirfram en höfuðstól stefnukröfunnar USD 24.000 hafi átt að greiðast við afhendingu, eins og að ofan greinir.

b.  Vextir og dráttarvextir.

Upphafstími vaxta sé miðaður við áætlaða komu “Kársness” til St. Pétursborgar (dskj. 7) og upphafstími dráttarvaxta við mánuð eftir að upplýsingar hafi legið fyrir um tjónsatvik og fjárhæð bóta sem stefnandi telji að miða eigi við afhendingardag. Þá sé krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti ef til þess komi að vextir og dráttarvextir séu ekki greiddir innan tólf mánaða.

Takmörkun á bótafjárhæð eigi ekki við þar sem um verulega vanefnd á farmsamningi er að ræða.

Um lagarök sé fyrst og  fremst vísað til siglingalaga nr. 34/1985, einkum 101., 105., 106., 108., 110. og 111. gr. auk þeirra skilmála sem fram koma í framlögðum farmskírteinum.  Einnig sé vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi og vanefndir samninga og almennra reglna sjó- og skaðabótaréttar um rétt til skaðabóta fyrir tjón.

Krafa um dráttarvexti styðjist við reglur IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og 12. gr. laganna.

Krafa um málskostnað sé byggð á 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

            Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála sbr. 5. gr. farmskírteinisins. Samkvæmt útprentun úr hlutafélagaskrá sé varnarþing og höfuðstöðvar stefnda í Kópavogi (dskj. ).

2.  Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann beri ekki ábyrgð á meintu tjóni stefnanda, þar sem hann hafi í einu og öllu farið eftir fyrirmælum stefnanda sjálfs um afhendingu á gáminum.  Halldór Ágúst Björnsson, starfsmaður stefnanda og sonur aðaleiganda hans, hafi gefið fyrirmæli um að afhenda skyldi gáminn og var þeim fyrirmælum hlýtt þrátt fyrir að frumriti farmskírteinis væri ekki skilað, enda hafi stefndi treyst stefnanda fullkomlega.  Stefnandi hafði áður flutt vörur með stefnda og öll samskipti við hann, bæði munnleg og skrifleg, staðið eins og stafur á bók.  Stefndi byggi því sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi sjálfur fyrirskipað afhendingu farmsins, án framvísunar á frumriti farmskírteinis.  Þetta hafi stefnanda sem eiganda farmsins verið fullkomlega heimilt.  Þar sem stefndi hafi í einu og öllu fylgt fyrirmælum stefnanda eigi stefnandi ekki þá bótakröfu, sem hann hafi uppi í máli þessu.

Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann eigi þá kröfu, sem hann hefur uppi í máli þessu.  Það sé stefnanda að sanna allar kröfur sínar, en engin gögn, umfram fullyrðingar stefnanda sjálfs, séu í málunu um kröfu stefnanda eða fjárhæð hennar.  Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt tjón, ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.

Í þriðja lagi byggi stefndi sýknukröfu sína á því að allar kröfur stefnanda á hendur honum, vegna afhendingarinnar hafi verið fyrndar, er hann höfðaði mál þetta.  Samkvæmt 4. gr. skilmála farmskírteinisins „Time bar“ fyrnast allar köfur skv. því á 9 mánuðum.  í 4. gr. segir: 

„All liability whatsoever of the Carrier shall cease unless suit is brought within 9 months after delivery of the goods or  the date when the goods should have been delivered“

Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta ákvæði farmskírteinisins enda þótt honum væri það kunnugt, enda ekki að flytja farm með stefnda í fyrsta sinni.

Farmurinn hafi komið til St. Pétursborgar hinn 19. október 2005 og verið afhentur skv. munnlegum fyrirmælum Halldórs Ágústar Björnssonar.  Gámnum hafi svo verið skilað aftur tómum 29. október 2006.  Stefna í máli þessu hafi hins vegar ekki verið birt fyrr en 23. september 2006, en þá hafi verið liðnir 11 mánuðir frá því afhending átti sér stað.

Samkvæmt 6. tl. 215. gr. Siglingalaganna nr. 34/1985 fyrnist skaðabótakröfur út af því að vöru hafi verið skilað án þess að farmskírteini sé framvísað eða henni sé skilað til rangs móttakanda: innan eins árs frá því er vöru bar að skila eða frá því er henni var skilað ef það gerist síðar.  Þetta ákvæði sé hins vegar frávíkjanlegt í þá átt að heimilt er að stytta þennan frest skv. gagnályktun frá 217. gr. s.l. en þar segir.

„Ógildir eru samningar sem mæla fyrir um að kröfur þær, sem taldar eru í 215. gr., skuli ekki fyrnast eða að þeim skuli fylgja lengri fyrningarfrestur en þar er boðinn.

Þetta fær einnig stoð í 118. gr. þar sem bannað sé með samningi að víkja frá ákvæðum 7. tl. 215. gr. til tjóns fyrir vörusendanda og 149. gr. þar sem bannað er að víkja frá tl. 3 – 5 farþegum í óhag.  Ekkert sambærilegt ákvæði sé í siglingalögunum um 6. tl. 215. gr. og hann því frávíkjanlegur.  Stytting fyrningarfrests í 9 mánuði sé því lögmæt og hafi allar kröfur stefnanda fallið niður hinn 19. júlí 2006.  Því ber að sýkna stefnda.

Loks sé mótmælt öllum vöxtum fyrir dómsuppsögu með vísan til 5. tl. 10. gr. skilmálanna á dskj. nr. 6.

                Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                IV. Sönnunarfærsla.

                Í málinu gáfu aðilaskýrslu Björn Halldórsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, kt. 300348-3869, Dalsbyggð 17, Garðabæ, en vitni báru Halldór Ágúst Björnsson, kt. 290972-4269, Dalsbyggð 17, Garðabæ, sonur fyrirsvarsmanns stefnanda og Þorkell Hjörleifsson, kt. 030645-2789, Sólheimum 25, Reykjavík.

                Björn Halldórsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, framkvæmdastjóri og eigandi kvaðst þekkja farmskírteini og gera sér grein fyrir því, að það að fá öll þrjú frumritin í hendur, hafi þær afleiðingar að hann eigi enn vöruna.  Það kvað viðskiptin hafa verið þannig háttað, að það hafi verið gefinn út reikningur, reikningurinn hafi verið greiddur  að helmingi áður en varan fór af stað, en hitt hafi átt að greiðast þrem dögum fyrir afhendingu.  Það kvaðst engar skýringar hafa fengið frá Atlantsskipum um hvenær varan hafi komið, eða það muni ekki eftir því.  Hann setti sig í samband við stefnda skömmu eftir að afhendingartímanum átti að vera lokið, þ.e. í október. Hann kvað stefnda aldrei hafa fengið eftirstöðvar greiðslunnar.  Hann kvað það ekki standast að sonur hans Halldór Ágúst hafi gefið stefnda fyrirmæli um að afhenda gáminn.  Hann hafi enga stöðu haft hjá stefnanda og bara hjálpað honum að afhenda vörur af lager og ekki verið með neinn titil og enga ábyrgð og hafi aldrei séð um þessi viðskipti.  Það kvað enga þýðingu hafa að reyna að innheimtu skuldina hjá viðtakanda í Rússlandi, hann svari engu.  Það kvað stefnda engu hafa getað svarað um afhendingu vörunnar annað en hún hafi verið á leiðinni, verið lengi á leiðinni, en varan hafi átt að afhendast þegar skipið kæmi  til St. Pétursborgar og greiðsla hafi átt að fara fram þremur dögum áður eða 16. október 2005 en hún hafi ekki komið.Reikningur dskj. nr. 5 stafi frá stefnanda.

                Vitnið Halldór Ágúst kvaðst bara vera sendill hjá stefnanda og útilokað að það hafi veitt leyfi til afhendingar á gámnum.  Það kvaðst oft hafa rætt við Perlu starfsmann stefnda en aldrei um neitt svona.  Það hafi bara farið með pappíra fram og til baka milli aðila.  Vitnið kveðst ekki muna hvort faðir þess hafi verið erlendis um miðjan október 2005 og taldi útilokað að það hafi í fjarveru hans heimilað afhendingu gámsins, enda engar heimildir haft til þess.

                Vitnið Þorkell kvaðst hafa séð um uppgjör hjá stefnanda fyrir árið 2005 og 2006, færði umræddar færslur í bókhald stefnanda.  Vitninu er sýndur reikningur dskj. nr. 5, sem greiðast skyldi í tvennu lagi annars vegar fyrir fram og svo við afehndingu með “swift-” greiðslu.  Það kvað inn á reikninginn hafi komið ein greiðsla upp á 24.000 USD, sem færð hafi verið inn, en eftirstöðvar standi enn samkvæmt bókhaldi og það kvaðst ekki vita til að greiðsla hafi komið inn á reikninga hjá stefnanda sem það viti um eða aðra reikninga á vegum stefnanda.  Það kannast við að Björn hafi rætt um að þetta væri útistandandi og hafi verið farið yfir það um síðustu áramót og engin greiðsla hafi komið síðar vegna þessa.

                Hann sé ekki löggiltur endurskoðandi og reki ekki sjálfstæða stofu, en í þessu tilviki er það verktaki hjá Tryggva Geirssyni endurskoðanda og hafi hann aðstöðu þar og geri upp svona fyrirtæki fyrir hann.  Það hafi séð um að færa bókhald stefnanda og gert það upp.  Kemur ekki að verðlagningu eða sölu afurða.

Það kvaðst ekki geta staðfest að vara samkvæmt reikningi dskj. nr. 5, hafi verið send út og það taldi útilokað að eftirstöðvar greiðslu vegna vörunnar hefðu verið greiddar og færðar á eitthvað annað.

                V.  Niðurstöður.

                Ekki fer á milli mála að samkvæmt framlögðum farmskírteinum og öðrum gögnum málsins, að stefndi tók að sér að flytja frá Hafnarfirði til St. Pétursborgar í Rússlandi fyrr tilgreindan frystigám með pakkaðri þorsklifur og verður byggt á því að við viðtöku gámsins til flutnings hafi stefndi vegna lestunar skipsins látið kanna þyngd hans og innihald.  Ljóst er og af því, sem fram er komið hjá stefnda að farmurinn hafði komið á tilsettum tíma til St. Pétursborgar, verið afhentur skráðum viðtakanda og afhentur aftur tómur að um viku liðinni. Samkvæmt skýrum ákvæðum farmskírteinisins sem og samkvæmt ákvæðum siglingalaga var afhending gámsins óheimil nema gegn afhendingu frumrits farmskírteinis sem hafði verið framselt viðtakanda.  Stefnandi var með öll þrjú frumrit farmskírteinisins og er óumdeilt að gámurinn var afhentur án þess að farmskírteini um hann væri framvísað.  Stefndi hefur borið því við að afhendingin hafi farið fram með samþykki stefnanda og er vísað til samþykkis Halldórs Ágústar Björnssonar starfsmanns stefnanda og sonar eiganda hans.

                Í vitnisburði Halldórs kemur fram afdráttarlaus neitun um þetta efni og hjá því og fyrirsvarsmanni stefnanda kemur og fram að vitnið hafði ekki þá stöðu hjá stefnanda að það gæti bundið hann.

Stefndi hefur heldur ekki getað lagt fram skriflega yfirlýsingu eða staðfestingu um greint samþykki og þykir bresta sönnun um það og verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki tryggtn sér þessa sönnun.

                Á það er því fallist að stefndi hafi bakað sér bótaábyrgð á tjóni stefnanda með því að afhenda gáminn án þess að ganga úr skugga um að viðtakandi hans hefði fullnægjandi heimildir til að fá hann afhentan.

                Tjón stefnanda er samkvæmt kröfugerð hans eftirstöðvar greiðslu samkvæmt reikningi hans merkt dskj. nr. 5  Í málinu þykir verða að byggja á fullyrðingu stefnanda um að þessar eftirstöðvar hafi ekki fengist greiddar og fær hún stoð í framburði vitnisins Þorkels Hjörleifssonar, enda ekki með neinum hætti gert líklegt af hálfu stefnda að greiðslan hafi borist.

Krafa stefnanda um að stefndi greiði honum 24.000 U.S.D. er því tekin til greina.

                Hins vegar verður að miða við að stefnandi sé bundinn 5. tölulið 10. gr. farmskírteinis stefnda sbr. dskj. nr. 6 og skal upphafstími vaxta og þá dráttarvaxta miðast við uppsögu dóms þessa.

                Ekki er fallist á kröfu stefnda um að krafa stefnanda sé fyrnd vegna þess að málið hafi ekki verið höfðað innan 9 mánaða, svo sem kveðið sé á um í 4. gr. skilmála farmskírteinis.   Samkvæmt skýrum ákvæðum 6. tl. 1. mgr. 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985 er málshöfðunarfrestur út af skaðabótakröfu vegna afhendingar vöru án framvísunar farmskírteinis 1 ár og og er það lágmarksfrestur samkvæmt greininni. Þegar virt er vísun 1. mgr. 118. gr. í fyrri málslið 216. gr. siglingalaga verður að álykta að óheimilt sé að víkja frá þessum fresti og verði því ekki gagnályktað frá 118. gr. svo sem stefndi heldur fram, en öll rök hníga gegn þvi í þessu sambandi að aðalkrafa njóti minni réttarverndar en endurkrafa. Sýknukrafa stefnda á grundvelli 4. gr. skilmála framskírteinisins er því ekki tekin til greina.

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda í málskostnað 325.000 krónur.

                Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

                                                                                DÓMSORÐ

                Stefndi, Atlantsskip-Evrópa ehf., greiði stefnanda, Á.B. lýsi ehf., U.S.D. 24.000,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá deginum í dag að telja.

                Stefndi greiði stefnanda 325.000 krónur í málskostnað.