Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2003


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Sifjaspell
  • Tilraun
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 44/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Sifjaspell. Tilraun. Miskabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa gert tilraun til þess að hafa samræði við dóttur sína sem gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi var talið hafið yfir allan skynsamlegan vafa, með vísan til vitnisburðar stúlkunnar, sem þótti staðfastur og fékk stoð í vætti vitna, og þess að X bar fyrir sig algjört minnisleysi um atburðinn, að X hefði misnotað dóttur sína. Var X því sakfelldur fyrir brot gegn 196. gr. og 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvort tveggja sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Var dómur héraðsdóms um 18 mánaða fangelsi og greiðslu miskabóta staðfestur. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. janúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu ákærða og hækkunar dæmdra miskabóta í 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst þess aðallega, að ákæru verði vísað frá héraðsdómi, til vara að dómur verði ómerktur og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar, til þrautavara að hann verði sýknaður af öllum sakargiftum og til þrautaþrautavara að refsing verði stórlega milduð og höfð skilorðsbundin. Þá krefst hann þess, að skaðabótakröfu Y verði vísað frá dómi.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2002.

Málið höfðaði ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 11. október 2002 á hendur ákærða, X, fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni, Y, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 10. júlí 2001, á heimili sínu [...], gert tilraun til að hafa samræði við stúlkuna, sem hún gat ekki spornað við vegna svefndrunga og ölvunarástands.  Í ákæru er háttsemin talin varða við 1. mgr. 200. gr. og 196. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður, skipaður réttar­gæslu­maður Y, krefst þess í málinu að ákærði verði dæmdur til greiðslu miska­bóta að fjárhæð krónur 1.500.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 10. júlí 2001 til 29. júní 2002, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist þóknunar vegna réttargæslustarfa við rannsókn og meðferð málsins.

Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða, krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, en ellegar verði hann dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir brot á 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.  Í báðum til­vikum er þess krafist að framlagðri miskabótakröfu verði vísað frá dómi og máls-varnar­laun og annar sakar­kostnaður greiddur úr ríkissjóði að öllu eða mestu leyti.

I.

Samkvæmt skýrslum lögreglunnar í [...] óskaði A, [...] í Q, eftir því við lögreglu aðfaranótt þriðjudagsins 10. júlí 2001 kl. 04:15 að athugað yrði með mág hennar, ákærða í málinu, þar sem A óttaðist að hann kynni að fyrirfara sér.  Ekki er ljóst hvort lögregla hafi farið að heimili ákærða í það skipti, en um það bil hálfri klukku­stund síðar mun A hafa hringt til lög­reglu á ný og tilkynnt að ákærði hefði mis­notað dóttur sína Y fyrr um nóttina.  Lög­reglumenn fóru á staðinn og ræddu þar við A og eigin­mann hennar.  Er haft eftir þeim í lögregluskýrslum að Y hafi knúið dyra á heimili þeirra sömu nótt.  Hún hafi verið í miklu uppnámi og sagt föður sinn hafa misnotað hana skömmu áður.  Y hafi beðið þau um að segja engum frá og jafn­framt getið þess að ákærði hefði hótað því að fyrirfara sér ef hún þegði ekki yfir þessu.  A hafi engu að síður látið aðstandendur Y vita um atburðinn og hún þá reiðst og rokið í burtu.  Frá því er greint í lögregluskýrslum að Y hafi skömmu síðar fundist á gangi eftir [...] í Q og hafi sterkan áfengisþef lagt frá vitum hennar.  Hún hafi fallist á að koma á lögreglustöð og þar hafi N félagsmálastjóri í Q verið viðstaddur viðræður við stúlkuna.  Fram hafi komið að stúlkan, sem býr í [...], á meðferðarheimili fyrir unga fíkni­efna­neytendur, hafi komið í heimsókn til ákærða miðviku­daginn 4. júlí 2001 og ætlað að dveljast hjá honum fram til sunnudagsins 8. júlí.  Þau hafi setið að drykkju meira og minna frá föstu­deginum og hún auk þess neytt amfetamíns.  Haft er eftir stúlkunni í sömu skýrslum að hún hafi sofnað um nóttina í sófa í stofu heima hjá föður sínum, en vaknað í rúmi hans, klæðlaus að neðan, við það að hann hafi verið að hafa við hana sam­ræði.  Hún hafi barist um og slegið hann og hann í framhaldi hætt athæfinu og beðist fyrirgefningar.  Jafnframt hafi hann hótað að fyrirfara sér ef hún segði ein­hverjum frá þessu.  Y mun síðan hafa rokið á dyr og tekið með sér rommflösku, sem hún hafi drukkið úr, áður en hún, að eigin sögn, hafi snúið aftur á heimili föður síns með járnstöng í hendi, sem hún hafi látið dynja á honum uns hann hafi hnigið niður.  Í framhaldi hafi hún leitað ásjár heima hjá A og eiginmanni hennar.

Fyrir liggur að Y var í framhaldi af veru sinni á lögreglustöð færð á neyðar­móttöku vegna nauðgunar á Landspítalanum í Fossvogi.  Við komu þangað kl. 07:00 að morgni ræddi hún við Arnar Hauksson vakt­­hafandi kvensjúk­dóma­lækni og Elínu Arndísi Margrétardóttur hjúkrunarfræðing.  Í læknaskýrslu dag­settri sama dag, sem Arnar staðfesti fyrir dómi, kemur meðal annars fram að Y hafi greint frá atburðum og Arnar skráð eftir henni frásögn af því að hún hefði liðna nótt vaknað við það að ákærði væri að sleikja kynfæri hennar og því næst hafa við hana samræði.  Hún hefði verið ber að neðan og ákærði ­nakinn.  Y hefði barið hann og komist í burtu og í framhaldi gleypt nokkrar Ritalin töflur, sem hún hefði fundið á heimili ákærða.  Við líkamsskoðun á stúlkunni greindi Arnar roða [...] og bar læknirinn fyrir dómi að umræddur roði hvorki sannaði né afsannaði að samræði hefði átt sér stað um nóttina.  Þá staðfesti læknirinn fyrir dómi að ekki hefðu fundist sæðisfrumur í leg­göngum stúlkunnar. 

Samkvæmt lögregluskýrslum kom Y aftur á lögreglustöð um kl. 11 að morgni þriðjudagsins í fylgd N félagsmálastjóra og A.  Eftir við­­ræður við löglærðan fulltrúa lögreglustjóra mun hafa verið ákveðið, að beiðni Y og fyrir áeggjan A, að stúlkan fengi að snúa aftur til [...] og fór hún þangað samdægurs í fylgd félagsmálastjórans án þess að tekin væri af henni framburðarskýrsla.  Áður mun lögreglan í [...], um kl. 11:40, hafa farið inn á heimili ákærða og komið að honum rænulausum á gólfi í stofunni.  Ákærði var þá alklæddur, með storknað blóð í andliti og var hann færður á Heilbrigðisstofnun [...] til læknisrannsóknar.  Við komu þangað var hann með stóra kúlu og áverka á hægri augabrún.

Í þágu rannsóknar málsins lagði lögregla hald á sængurföt úr hjónarúmi á heimili ákærða og nærbuxur Y og ytri buxur.  Er skemmst frá því að segja að við sérfræðirannsókn á nefndum munum, sem og stroksýnum úr leggöngum stúlkunnar og ytri kynfærum, fannst hvorki sæði né hársýni frá ákærða, sem bendlaði hann við ætlað afbrot.  Niðurstöður rannsókna á áfengismagni í blóði og þvagi ákærða sýndu að hann hefði verið með 0,84 o/oo af áfengi í blóði og 1,84 o/oo í þvagi og er af því dregin sú ályktun að hann hafi verið undir áhrifum áfengis nokkru áður en sýnin voru tekin.  Lög­reglu­­rannsóknargögn málsins bera ekki með sér hvenær umrædd sýni hafi verið tekin.  Niðurstöður sambærilegra rannsókna á blóð- og þvagsýnum úr stúlkunni, sem tekin voru um kl. 07 að morgni þriðjudagsins, sýna að alkóhólmagn í blóði hafi verið 0,51 o/oo og í þvagi 0,84 o/oo, en amfetamín og Ritalin hafi ekki verið í mælanlegu magni í þvagi.  Er af því dregin sú ályktun að stúlkan hafi neytt áfengis nokkru fyrir sýna­tökuna og hún verið lítilsháttar undir áhrifum.

Ákærði var færður í fangageymslu lögreglu kl. 23:19 að kvöldi þriðjudagsins eftir útskrift af sjúkrahúsi.  Hann gaf framburðarskýrslu hjá lögreglu kl. 14:04 næsta dag og kvaðst þá ekki muna sérstaklega eftir atvikum umræddrar nætur sökum ölvunar.  Honum mun því hafa verið kynnt frásögn Y af atburðum næturinnar og í framhaldi var bókað eftir honum að hann myndi ekki eftir slíkri atburðarás og gæti því ekki tjáð sig um hana.  Ákærði gat þess í framhaldi að algengt væri að hann myndi ekki eftir atvikum þegar hann drykki áfengi, en engu að síður ætti hann bágt með að trúa frásögn dóttur sinnar þótt ekki vildi hann draga hana í efa.  Ákærði staðfesti framan­greind atriði síðar við skýrslugjöf fyrir dómi, en gat þess jafn­framt að hann hefði verið illa fyrir kallaður umrætt sinn og vildi því lítið gera úr sann­leiksgildi umrædds framburðar.  Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu öðru sinni 9. janúar 2002 og áréttaði þá að hann myndi lítið eftir atvikum umræddrar nætur.  Hann kvaðst þó minnast þess að hafa farið á veitingastað um nóttina með dóttur sinni og þau neytt áfengis, en næst myndi hann eftir sér í átökum við lögreglu á sjúkrahúsinu.  Sem fyrr kvaðst ákærði lítið geta tjáð sig um frásögn dóttur sinnar og hvorki geta játað né neitað ásökunum hennar.  Ákærði staðfesti nefndan framburð fyrir dómi, en benti jafn­­framt á að honum hefði ekki verið sýnd framburðarskýrsla stúlkunnar og að hann hefði ekkert tjáð sig um framburð hennar.  Ákærði var loks yfirheyrður af lögreglu 29. maí 2002 og honum þá eingöngu kynnt fram komin bótakrafa dóttur sinnar.  Hann kvaðst ekki vera reiðubúinn að tjá sig um kröfuna á því stigi og sagðist ekkert frekar hafa um málið að segja.

Sem fyrr segir fór Y úr landi án þess að tekin væri af henni form­leg framburðarskýrsla.  Úr þessu var reynt að bæta með skýrslugjöf hennar hjá lögreglu í [...] 8. október 2001.  Y skýrði fá því að hún hefði neytt áfengis að kvöldi mánudagsins 9. júlí sama ár og verið að eigin mati búin að drekka of mikið.  Með henni hefðu verið B kunningi hennar og einhver vinur hans og hefðu þau setið að spjalli í sófa í stofu á heimili ákærða og horft á sjónvarp.  Að sögn Y hefði hún verið klædd T-bol, í brjóstahaldara og víðum buxum og hefði hún sofnað þannig í sófanum.  Þegar hún hefði vaknað á ný hefði hún verið ber að neðan og legið á bakinu í rúmi föður síns.  Hann hefði staðið nakinn á gólfi svefnherbergisins, við enda rúmsins, haldið fótum hennar sundur og hreyft neðri hluta líkama síns.  Að sögn Y hefði hún ekki verið viss hvort hann hefði verið með getnaðarliminn inni í henni.  Hún hefði brugðist við atferli föður síns með því að lemja og sparka í hann og þannig losnað undan honum.  Á meðan hefði hann tautað fyrir munni sér „fyrirgefðu, fyrir­­gefðu“.

II.

Ákærði neitaði alfarið sök við skýrslugjöf fyrir dómi án þess að benda á ákveðin atriði þeim framburði til stuðnings.  Hann kvaðst sem fyrr lítið muna eftir atvikum umræddrar nætur og sagðist hafa verið á fylliríi í nokkra daga þar á undan.  Y hefði tekið þátt í óreglunni og einhverjir strákar verið að þvælast með henni.  Að sögn ákærða hefði hann verið afar drukkinn að kvöldi mánudagsins 9. júlí og sofnað ölvunarsvefni í svefnherbergi sínu, að því er hann minnti.  Næst hefði hann munað eftir sér á sjúkrahúsi með einhverja áverka.  Þrátt fyrir minnisleysið kvaðst ákærði telja að hann væri saklaus af ætluðu broti, enda væri ekki í eðli hans að gera neitt slíkt, jafnvel þótt hann væri með verulegum áfengisáhrifum.  Hann kvaðst hafa farið í áfengismeðferð strax eftir að hann hefði losnað úr haldi lögreglu og hefði ekki bragðað áfengi síðan.  Sambýliskona hans hefði farið út af heimilinu með tvö ung börn þeirra tveimur dögum fyrir hinn kærða atburð, en fljótlega snúið aftur og ættu þau nú von á sínu þriðja barni í [...] 2002.            

Y bar fyrir dómi að hún og ákærði hefðu verið búin að drekka áfengi kvöldið fyrir hinn meinta atburð.  B kunningi hennar og einhver vinur hans hefðu komið í heimsókn og ákærði komið fram í stofu til þeirra við og við og fengið sér að drekka, en jafnan farið aftur inn í herbergi sitt að sofa.  Y bar að hún hefði svo sofnað um nóttina, alklædd í sófa í stofunni, en vaknað klæðlaus að neðan, liggjandi á bakinu í rúmi föður síns.  Hann hefði í sömu andrá staðið nakinn við enda rúmsins, milli læra hennar, haldið báðum höndum um utanverð lærin og hreyft sig fram og til baka, eins og hann væri að hafa við hana samræði.  Y kvaðst þó ekki vita með vissu hvort hann hefði sett getnaðarliminn inn í leggöng hennar og ekki heldur hvort hann hefði sleikt kynfæri hennar á undan, en hún hefði dregið þá ályktun af stöðu höfuðs hans við rúmgaflinn.  Að sögn Y hefði það tekið hana nokkrar mínútur að átta sig á því hvað væri að gerast, en í framhaldi hefði hún farið að gráta og sparkað til föður síns með báðum fótum.  Við þetta hefði hann sleppt takinu og beðið hana fyrirgefningar á athæfinu.  Hún hefði síðan klætt sig í snatri og hlaupið út með áfengisflösku í hendi og einnig þrifið með sér nokkrar Ritalin töflur frá yngri bróður sínum, sem hún hefði gleypt áður en hún hefði hitt lækni á neyðarmóttökunni.  Y bar að hún hefði gengið frá heimili ákærða og ætlað heim til A og eiginmanns hennar, en ekki munað hvar þau ættu heima.  Einhverjar stúlkur í bifreið hefðu síðan tekið hana tali og ekið henni þangað.  A hefði svo í framhaldi hringt heim til ákærða og Y þá hlaupið á brott.  Á leið sinni hefði hún fundið járnstöng og farið með hana heim til föður síns, sem þá hefði verið sofandi í hjónarúminu.  Að sögn Y hefði hún kallað til hans að hún hataði hann og slegið hann nokkrum föstum höggum með stönginni.  Ákærði hefði ekki vaknað við bar­smíðarnar.  A og eiginmaður hennar hefðu svo komið á heimili ákærða og hún þá hlaupið út og skömmu síðar verið tekin upp í lögreglubifreið.

B bar fyrir dómi að hann hefði komið á heimili ákærða að kvöldi mánudagsins 9. júlí 2001 til að hitta Y.  Með honum hefði verið D vinur hans, en sá hefði farið heim milli kl. 01 og 01:30 um nóttina.  B hefði setið áfram í sófa í stofu íbúðarhússins og horft á sjónvarp með Y.  Hann kvaðst hafa vitað að Y hefði verið að drekka áfengi umrætt sinn, en sjálfur hefði hann verið allsgáður.  Y hefði sofnað alklædd í sófanum um nóttina og hann setið áfram og horft á sjónvarp þar til ákærði hefði komið til hans um kl. 04 og spurt hvort hann væri ekki að fara.  B hefði sinnt þeim tilmælum og farið heim.

A bar fyrir dómi að Y hefði birst á heimili hennar aðfaranótt þriðjudagsins 10. júlí.  Y hefði verið æst og hágrátandi, en ekki viljað segja frá því í fyrstu hvað hefði gerst.  Hún hefði síðan greint frá því að faðir hennar hefði nauðgað henni og beðið A að segja alls ekki móður hennar og skyldfólki frá því.  A hefði engu að síður reynt að hafa uppi á frænku hennar gegnum síma og á meðan hefði Y hlaupið á brott.  A og eigin-maður hennar hefðu því farið út að leita hennar og fundið hana fyrir utan heimili ákærða.  Y hefði verið A reið vegna símtalsins og hlaupið frá þeim.  Að sögn A hefðu þau hjónin náð henni aftur á [...] og skömmu síðar hefði lögregla komið á staðinn og náð að róa Y.  A kvaðst hafa fylgt Y á lögreglustöð og þar hefði hún greint frá því að ákærði hefði misnotað hana í hjóna­rúmi á heimili sínu.

C og D stöðvuðu bifreið sína fyrir Y á [...] umrædda nótt og óku henni heim til A.  Þær báru fyrir dómi að stúlkan hefði verið grátandi og ráðvillt, en ekki viljað greina frá því hvað amaði að henni.  

N félagsmálastjóri í Q bar fyrir dómi að hann hefði verið kallaður út umrædda nótt vegna málsins.  Hann hefði haft samband við með­ferðar­heimilið, sem Y byggi á í [...] og hefði verið óskað ein­dregið eftir því að stúlkan sneri til [...] án tafar.  Að sögn N hefði hún verið eins og rekald um morguninn og hann því verið meðmæltur að senda hana utan.  N kvaðst ekki hafa rætt um máls­atvik við stúlkuna, enda hefði hann ekki talið það tilhlýðilegt af sinni hálfu.

Elín Arndís Margrétardóttir hjúkrunar­fræðingur á neyðarmóttöku Land­spítalans bar fyrir dómi að Y hefði verið í miklu uppnámi við komu á neyðar­móttökuna, hún grátið og greinilega liðið afar illa.  Elín hefði verið viðstödd frá­sögn stúlkunnar um málsatvik og hefði þar komið fram að hún hefði vaknað um nóttina við það að faðir hennar væri að nauðga henni.  Að sögn Elínar hefði frásögn stúlkunnar verið skýr og greinargóð, en hún jafnframt verið í upp­námi út af því sem hefði gerst.

C, sambýliskona ákærða, gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.  Hún kvaðst hafa farið út af heimili þeirra í Q að kvöldi sunnudagsins 8. júlí 2001 og tekið börn þeirra með sér.  Hún kvað ástæðuna vera þá að ákærði hefði verið búinn að drekka í 1-2 daga, en ósáttust hefði hún þó verið við að Y væri með honum í óreglunni.  C bar að ákærði hefði farið í áfengismeðferð strax í kjölfar hins kærða atburðar og hefði hann ekki bragðað áfengi síðan.

Lotte Bang er sálfræðingur í [...] og hefur haft Y til með­ferðar í kjölfar umrædds atburðar.  Lotte gaf skýrslu vitnis gegnum síma.  Hún bar að hún hefði verið með Y til meðferðar frá því í nóvember 2001, en fyrir þann tíma hefði Y sótt 16 viðtöl hjá öðrum sálfræðingi í [...].  Sú meðferð hefði hafist áður en Y fór til [...] í júlí það ár.  Að sögn Lotte hefði hún nú sjálf hitt Y í 27 skipti og hefðu viðtölin einkennst af umræðu um atferli föður hennar, sem stúlkan hefði ávallt lýst sem nauðgun.  Lotte kvaðst fullviss um tengsl milli háttsemi föðurins og vandamála, sem þjökuðu stúlkuna.  Nefndi hún í því sambandi svefn­truflanir og depurð og sagði Y einnig eiga við að stríða sjálfseyðandi hugsanir og aðgerðir, sem birtust meðal annars í neikvæðri sjálfsmynd og tilhneigingu til að skaða sjálfa sig með eggjárni.  Að mati Lotte mætti Y búast við því að þurfa frekari sál­fræð­iaðstoð í framtíðinni til að vinna úr afleiðingum af háttsemi föðurins og þyrfti stöðuga hvatningu til að vinna gegn nefndum sjálfseyðingarhvötum.  Í vitnis­­burði sínum dró Lotte ekki fjöður yfir að Y hefði átt við erfiðleika og vandamál að stríða fyrir umræddan atburð og upplýsti að stúlkan hefði átt erfiða æsku, [...].  Sjálfs­mynd hennar hefði því ekki verið ýkja sterk fyrir hinn kærða atburð og hún verið við­kvæm ung stúlka, sem hefði átt erfitt með að staðsetja sig í því fjölskyldumynstri, sem henni hefði verið búið.  Lotte kvað afleiðingar uppeldisins og afleiðingar af kyn­ferðis­legri misnotkun að mörgu leyti sambærilegar, en kvaðst engu að síður fullviss um að greina mætti á milli afleiðinga af erfiðum uppeldisskilyrðum Y og áhrifa af hátt­erni föðurins, en stúlkan bæri greinileg merki þess að hafa orðið fyrir miklu áfalli af kyn­ferðislegum toga.  Var það álit Lotte að framkoma föðurins hefði ótvírætt dregið úr möguleikum stúlkunnar til að skapa sér eðlilega tilveru.

III.

Verjandi ákærða hreyfði því við munnlegan málflutning hvort til álita kæmi að vísa bæri málinu frá dómi án kröfu vegna alvarlegra annmarka á lögreglurannsókn þess.  Nefndi verjandi meðal annars í því sambandi að Y hefði verið leyft að fara úr landi án þess að tekin væri af henni framburðarskýrsla í Barna­húsi.  Þá hefðu lífsýni ekki verið tekin til rannsóknar á því hvort finna mætti munnvatn úr ákærða á kynfærum stúlkunnar.  Enn fremur skorti fullnægjandi gögn um lyfja­notkun stúlkunnar á greindum tíma og samspil hennar og mikillar áfengisneyslu fyrir ætlað brot, meðal annars með tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar hennar, en fyrir lægi að stúlkan hefði verið á einhvers konar geðlyfjum að staðaldri.  Að mati verjanda ætti sá vafi, sem og vafi um önnur framangreind atriði, að leiða til frávísunar eða sýknu í málinu.

Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hefur ríkis­sak­sóknari metið það svo, þegar hann gaf út ákæru í málinu 11. október síðastliðinn, að rannsókn þess hjá lögreglu væri lokið og hún nægði til að taka ákvörðun um sak­sókn samkvæmt 116. gr. laganna.  Verður ekki hróflað við því mati ákæruvalds.  Þá eru umrædd atriði ekki þess eðlis að leiði til frávísunar málsins.  Leiki á hinn bóginn vafi um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, meðal annars af völdum framan­greindra atriða, þá gæti það leitt til sýknu samkvæmt meginreglum 45. og 46. gr. laganna.

IV.

Ákærði hefur fyrir dómi staðfastlega neitað sök í málinu, án þess þó að benda á ákveðin atriði því til stuðnings.  Hann viðurkenndi að hafa verið í mikilli áfengis­neyslu umrædda nótt og næstu sólarhringa þar á undan og sagði algengt að hann missti minnið undir slíkum kringumstæðum.  Ákærði kvaðst halda að hann hefði umrætt sinn sofnað ölvunarsvefni í svefnherbergi sínu og sagðist næst muna eftir sér í átökum við lögreglu á sjúkrahúsi.  Er sá framburður í samræmi við framburð hans hjá lögreglu.  Ber að leggja framburð ákærða um þetta atriði til grundvallar, en sam­kvæmt honum er ljóst að ákærða skortir minni um tímabil á heimilinu og ferð sína á sjúkra­hús í lögreglufylgd.  Verður að meta neitun hans á sakarefninu í því ljósi.

Y hefur verið staðföst í vitnisburði sínum fyrir dómi og greint frá því á einkar trúverðugan hátt að hún hafi vaknað um nóttina í rúmi föður síns við það að hann væri að hafa við hana samræði eða sýna tilburði í þá átt.  Ákærði hefði verið búinn að klæða hana úr að neðan og sjálfur staðið nakinn milli læra hennar og við­haft samfarahreyfingar.  Vitnisburður stúlkunnar er án ofhermis og vildi hún til dæmis hvorki fullyrða að ákærði hefði verið búinn að setja getnaðarlim sinn inn í fæðingar­veg hennar né heldur að hann hefði sleikt kynfæri hennar.  Er sá vitnisburður í sam­ræmi við framburð hennar hjá lögreglu í [...] og tekur verknaðarlýsing í ákæru mið af því.  Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki að sök þótt munnvatnssýni hafi ekki verið tekin af kynfærum stúlkunnar.  Ekki dregur það heldur úr sönnunargildi vitnis­­burðar hennar fyrir dómi þótt ekki hafi verið tekin af henni framburðarskýrsla í Barna­húsi áður en hún hélt til [...]. 

Samkvæmt vætti Y fyrir dómi var hún á greindum tíma nýbyrjuð að taka inn þunglyndislyf, sem heitir Cipramil, en umrætt lyf er í töflu­formi og stundum kallað „gleðipilla“.  Lyfið mun vera notað við þung­lyndis­sjúk­dómum og alvarlegu, lang­­varandi þunglyndi, sem á sér ytri orsakir.  Auka­verkanir af lyfinu eru vægar og helst í formi ógleði, höfuðverkja, þreytu og svima.  Y neitaði því eindregið að hún hefði verið á öðrum geðlyfjum á umræddum tíma og hefur ekkert verið fært fram við meðferð málsins, sem hnekkir þeim vitnisburði eða veikir, svo nokkru nemi.  Hefur dómurinn hér í huga annars vegar óstaðfesta upp­lýsingaskýrslu lög­reglu frá 13. júlí 2001, þar sem mun hafa verið haft eftir Y á einhverju stigi rannsóknarinnar að hún notaði lyfið Zyprex, en viðkomandi lögreglu­maður taldi eiga að vera Zyprexa; róandi lyf við geðklofa og skráði svo í skýrslu sinni og hins vegar upplýsingar úr fyrr­nefndri læknaskýrslu Arnars Haukssonar um ætlaða notkun hennar á lyfinu Zyprex, sem læknirinn viðurkenndi fyrir dómi að gæti verið ónákvæm skráning á frá­sögn hennar um lyfjanotkun.  Með hliðsjón af staðföstum vitnisburði Y sjálfrar fyrir dómi um lyfja­notkun hennar á greindum tíma og öðrum sakargögnum er ekkert fram komið, sem gefur minnstu vísbendingu um að lyfjataka hennar og/eða áfengisneysla umrædda nótt hafi valdið því að hún muni ekki fyllilega eftir atburðarás umrætt sinn eða að hún hafi af þeim völdum borið svo þungar sakir á föður sinn að ósekju, sem hún síðan áréttaði bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi.  Vitnisburður hennar hefur verið stöðugur í öllum meginatriðum og fær stoð í vætti A, sem hlýddi á fyrstu frásögn hennar af atburðum, sem og vætti Arnars Haukssonar kven­sjúk­dómalæknis og Elínar Arndísar Margrétardóttur hjúkrunar­fræðings, sem hlýddu á frásögn hennar á neyðarmóttöku Landspítalans snemma næsta morgun. 

Með framangreind atriði í huga og að teknu tilliti til þess að ákærði hefur borið fyrir sig algjört minnisleysi um þann atburð, sem ákært er fyrir, telur dómurinn hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi misnotað Y dóttur sína með þeim hætti, sem hún hefur borið um fyrir dómi og lýst er í ákæru.  Er ákærði því sannur að sök um brot á 196. gr. og 1. mgr. 200. gr., hvort tveggja sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 4. og 8. gr. laga nr. 40/1992.       

V.

Ákærði á að baki langan sakarferil, sem nær aftur til ársins 1976.  Samkvæmt saka­vottorði hefur hann 33 sinnum hlotið refsingu, einkum fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, skjalafals og auðgunarbrot og samtals hlotið rúmlega 4½ árs fangelsi, auk fjöl­­margra sektarrefsinga.  Frá árinu 1995 hefur ákærði ekki orðið uppvís af refsi­verðri hátt­semi, svo kunnugt sé.  Hann hefur verið í sambúð með sömu konu frá árinu 1993 og á með henni tvö börn.  Eiga þau von á sínu þriðja barni nú í [...].

Ekki verður dregið í efa að ákærði hafi bætt ráð sitt verulega á undanförnum árum og að hann hafi haldið sig að mestu frá því böli, sem áfengi hefur verið honum, þótt hann síðan „félli“ nokkrum dögum áður en hann framdi brot það, sem hann er nú sak­felldur fyrir.  Verður háttsemin með engu móti réttlætt með ölvunarástandi hans umrædda nótt, þótt ef til vill megi reyna að finna henni þar einhverjar skýringar.

Hátt­semin var alvarleg og beindist gegn mikil­vægum hagsmunum, enda brotið gegn dóttur hans, sem var gestkomandi á heimili hans og gat enga björg sér veitt vegna svefn­­drunga og eigin ölvunarástands.  Stúlkan var nýorðin 16 ára þegar brotið var framið og því ósjálfráða og undir verndarvæng föður síns, sem bar ábyrgð á vel­ferð hennar. Horfa þessi atriði óhjákvæmilega til refsiþyngingar.  Ákærða var kunnugt um langvarandi vímuefnavandamál stúlkunnar, en lét engu að síður ekki aðeins viðgangast að hún neytti áfengis á heimili hans heldur drakk hann einnig áfengi með henni ótæpilega í nokkra sólar­hringa og stuðlaði þannig að því ástandi, sem hún var í þegar brotið var framið.  Ákærði sætir ekki ákæru fyrir grófa vanrækslu sína sem foreldri, en við ákvörðun refsingar þykir einnig mega hafa framangreind atriði í huga.  Þá ber að horfa til aldurs ákærða, sem var tæplega fertugur þegar hann framdi brotið.  Hann á sér engar málsbætur að áliti dómsins.     

Samkvæmt framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda þegar litið er til alvarleika brotsins, aldurs ákærða og sakarferils.

VI.

Af hálfu Y hefur verið sett fram miskabóta­krafa, sem reist er á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með hliðsjón af sak­fellingu ákærða fyrir hið alvarlega kynferðisbrot á stúlkan skýlausan rétt til bóta úr hendi hans á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Ljóst er að brot sem þetta eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfið­­­leikum.  Í máli þessu er vandi að greina fyllilega á milli afleiðinga af erfiðri æsku og uppeldi Y annars vegar og afleiðinga af broti föður hennar hins vegar.  Nýtur þar einkum vitnisburðar sálfræðingsins Lotte Bang, sem áður er rakinn og vættis Y sjálfrar, en hún lýsti því fyrir dómi á trúverðugan hátt að umræddur atburður hefði sótt mjög á hana fyrstu mánuðina á eftir og hefði hún átt erfitt með einbeitingu og fengið martraðir um föður sinn.  Y sagði jafnframt að sér liði betur í dag.  Hún kvaðst hafa byrjað að fikta með áfengi 12 ára gömul og hafa misnotað það frá 14 ára aldri.  Hún hefði búið á meðferðarheimili í [...] fyrir unga vímuefnaneytendur frá því í mars 2001.  Hún hefði verið greind með þunglyndi og notaði því áðurnefnt lyf.  Aðspurð hvort hún hefði áður orðið fyrir kynferðislegri misnotkun skýrði Y frá því að hún hefði verið misnotuð í eitt skipti í [...] þegar hún hefði verið 13 ára.

Vitnisburður Y og sálfræðingsins renna stoðum undir þá ályktun dómsins að þeir miklu erfiðleikar, sem stúlkan hefur átt við að etja undanfarin ár, stafi af fleiru en hinu alvarlega broti ákærða.  Engu að síður telur dómurinn ljóst að atferli ákærða gagnvart dóttur sinni hafi markað djúp spor í sálarlíf hennar og að hún muni eiga við sál­­ræna erfiðleika að stríða af þeim völdum um ófyrirséða framtíð.  Með framferði sínu fór hann út fyrir öll siðferðismörk í samskiptum föður og dóttur og rauf með grófum hætti það trúnaðartraust, sem þar á að ríkja.  Slíkt traustsamband verður ekki endurreist með hægu móti.  Með framangreind atriði öll í huga þykja miskabætur hæfi­­lega ákveðnar krónur 700.000. 

Bótakrafan var birt fyrir ákærða 29. maí 2002.  Ber hún því almenna vexti samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2001 til 29. júní 2002, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

VII.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar í málinu.  Er þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur, auk virðisaukaskatts.

                Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari og með­dóms­mennirnir Finnbogi H. Alexandersson  héraðs­dómari og Ólöf Péturs­dóttir dóm­stjóri kváðu upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Y 700.000 krónur í miskabætur með almennum vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 10. júlí 2001 til 29. júní 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda 150.000 króna þóknun Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y og 250.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.