Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Kæruheimild


Miðvikudaginn 5

Miðvikudaginn 5. maí 1999.

Nr. 171/1999.

Jakob A. Traustason

(sjálfur)

gegn

Almennu málflutningsstofunni sf.

Hróbjarti Jónatanssyni

Jónatan Sveinssyni og

Reyni Karlssyni

(enginn)

                                                             

Kærumál. Hæfi dómara. Kæruheimild.

J kærði úrskurð héraðsdómara um að hann viki ekki sæti í máli sem J hafði höfðað. Talið var að kæruheimild skorti fyrir ýmsum kröfum sem J hafði uppi fyrir Hæstarétti og komu þær því ekki til álita. Talið var, að hvað sem liði réttmæti þeirra ákvarðana héraðsdómara um málsmeðferð, sem J vísaði til, gæti efni þeirra ekki leitt til þess að héraðsdómari yrði vanhæfur til að fara með málið. Þótti J ekki hafa sýnt fram á að önnur atvik leiddu til þess að héraðsdómara bæri að víkja sæti og var úrskurður héraðsdómara því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1999, þar sem Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari hafnaði kröfu sóknaraðila um að víkja sæti í máli hans gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að víkja sæti frá og með þinghaldi 19. febrúar sl., en málsmeðferð í héraði verði látin standa óhögguð fram að því. Þá krefst hann þess að skrifleg sókn, sem héraðsdómari hafnaði að leggja fram í sama þinghaldi, komist að í málinu, svo og að ómerkt verði ákvörðun héraðsdómara 29. mars sl. um að málið yrði endurupptekið. Verði ekki fallist á kröfu um að héraðsdómarinn víki sæti krefst sóknaraðili þess að mælt verði fyrir um hvort forföll varnaraðila frá þinghaldi 27. janúar 1999 hafi verið lögmæt og hvort héraðsdómara hafi verið heimilt að breyta bókun í þingbók vegna þinghaldsins.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 143. gr. laga nr. 91/1991 sæta ákvarðanir héraðsdómara um atriði varðandi rekstur máls ekki kæru til Hæstaréttar, heldur eingöngu úrskurðir um tiltekin atriði, sem þar eru tæmandi talin. Kröfur sóknaraðila, sem varða annað en niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að héraðsdómarinn víki ekki sæti, koma því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Krafa sóknaraðila um að héraðsdómaranum verði gert að víkja sæti er reist á atriðum, sem varða meðferð málsins og ákvarðanir dómarans eftir að þing var ekki sótt í því af hálfu varnaraðila 27. janúar 1999, þar á meðal ákvörðun um að varnaraðilar hefðu þá haft lögmæt forföll og væri heimilt að halda áfram uppi vörnum. Hvað sem líður því, hvort þessar ákvarðanir dómarans hafi verið réttar, getur efni þeirra eitt og sér ekki leitt til þess að hann verði talinn vanhæfur til að fara með málið. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu önnur atvik, sem geta orðið til þess að krafa hans verði tekin til greina. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1999.

Í þinghaldi 29. mars s.l. krafðist stefnandi þess að dómari viki sæti í málinu á grundvelli b- og g- liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu þessari var mótmælt af hálfu stefndu. Úrskurður þessi er kveðinn upp í tilefni af framangreindri kröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 6. gr. einkamálalaga.

Í upphafi þykir rétt að varpa ljósi á gang málsins frá því undirrituð tók við því 19. janúar s.l. af Skúla J. Pálmasyni héraðsdómara, sem áður fór með málið.

Er málið var tekið fyrir 27. janúar 1999 varð útivist af hálfu stefndu. Höfðu lögmæt forföll ekki verið boðuð af þeirra hálfu. Stefnandi sótti sjálfur þing. Dómari leiðbeindi stefnanda, sem er ólöglærður, um formhlið málsins eins og lög standa til. Lýsti stefnandi því yfir við dómara að hann myndi hleypa stefndu aftur að í málinu í næsta þinghaldi þar sem hann teldi það henta málatilbúnaði sínum betur að málið yrði sótt og varið og vitni leidd fyrir dóminn. Dómari taldi ekki ástæðu til að bóka framangreint eftir stefnanda en formsins vegna var bókað að málinu væri frestað til framlagningar sóknar af hálfu stefnda í samræmi við ákvæði 3. mgr. 96. gr. einkamálalaga. Var stefnanda gert ljóst að til framlagningar sóknar kæmi ekki ef stefnandi hleypti stefndu að í málinu á ný. Eftir þinghaldið hafði lögmaður stefndu samband við dómarann og var honum þá tjáð að málið hefði verið tekið fyrir kl. 11:50 þann dag en útivist orðið af hálfu stefndu. Einnig tjáði dómari lögmanninum að stefnandi hefði lýst því yfir við fyrirtöku málsins að hann myndi hleypa stefndu aftur að í málinu. Jafnframt var lögmanni stefndu tjáð að málinu hefði verið frestað til 19. febrúar 1999 kl. 11:00. Er málið var tekið fyrir þann dag sótti lögmaður stefndu því þing í þeirri trú að stefnandi hefði samþykkt að hleypa stefndu aftur að í málinu. Stefnandi kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa gefið slíkar yfirlýsingar í síðasta þinghaldi og mótmælti þingsókn af hálfu stefndu. Eftir að stefnandi og lögmaður stefndu höfðu tjáð sig um álitaefnið var málinu frestað til ákvörðunar þess til 25. febrúar s.á. Að athuguðu máli þótti rétt að af hálfu stefndu yrði lögð fram skrifleg beiðni um endurupptöku málsins, sbr. ákvæði 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga. Beiðni þessi var lögð fram í næsta þinghaldi og málið tekið til úrskurðar eða ákvörðunar um kröfu stefndu, sbr. 1. og 2. mgr. 112. gr., sbr. i-lið 1. mgr. 143. gr. einkamálalaga. Veikindi dómara ollu því að uppkvaðning úrskurðar eða ákvörðunartaka í málinu dróst, en þann 15. mars 1999 tók dómari þá ákvörðun að heimila endurupptöku málsins með vísan til þess að forföll stefndu í þingahaldi 27. janúar 1999 hefðu verið lögmæt þar sem þau hefðu stafað af óviðráðanlegum atvikum, sbr. b-lið 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga. Tók dómari afstöðu til þessa atriðis með ákvörðun, sbr. 2. málslið 1. mgr. 112. gr. einkamálalaga, þar sem einungis synjun um endurupptöku máls vegna lögmætra forfalla getur sætt kæru, sbr. i-lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga.

Stefnandi rökstyður kröfur sína um að dómari víki sæti í málinu í 13 tölusettum liðum í sjö blaðsíðna skriflegri kröfu sinni, sem hann lagði fram í þinghaldi 29. mars s.l. Virðist svo sem hann byggi framangreinda kröfu sína í fyrsta lagi á því, að dómari hafi veitt stefndu ólögskyldar leiðbeiningar um formhlið málsins með því að beina því til lögmanns þeirra að lögð yrði fram skrifleg beiðni um endurupptöku málsins í samræmi við ákvæði 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga, og í öðru lagi á því að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa vegna ýmissa atvika við meðferð málsins, sem stefnandi tiltekur í kröfu sinni.

Svo sem fyrr greinir lýsti stefnandi því yfir við dómara í þinghaldi 27. janúar s.l., er útivist varð af hálfu stefndu, að hann myndi hleypa stefndu aftur að í málinu í næsta þinghaldi, sem ákveðið var að færi fram 19. febrúar. Í þinghaldi þann dag kom fyrst í ljós hin breytta afstaða stefnanda til þessa atriðis og fór málið því í þann farveg sem raun ber vitni. Að afstöðnu þinghaldi 19. febrúar ákvað dómari að rétt væri að af hálfu stefndu kæmi fram skrifleg beiðni um endurupptöku málsins í samræmi við ákvæði 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga, en nauðsyn þess gat orkað tvímælis fyrir stefndu að afstöðnu fyrrgreindu þinghaldi. Byggðist þessi ákvörðun dómara á heimild í 5. mgr. 112. gr. einkamálalaga. Að þessu atriði virtu verður ekki fallist á, að dómarinn sé vanhæfur til að fara með málið af ástæðum, sem taldar eru í b-lið 5. gr. einkamálalaga, eins og stefnandi heldur fram.

Svo sem fyrr greinir leiðbeindi dómari stefnanda, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, um formhlið máls svo sem honum ber skylda til samkvæmt 4. mgr. 101. gr. einkamálalaga. Leiðbeiningar dómara fólust m.a. í því, er í ljós kom að stefnandi hygðist ekki hleypa stefndu að í málinu á ný, að hann benti stefnanda á þau úrræði, sem stefndu hefðu samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla einkamálalaga um endurupptöku útivistarmála í héraði, færi svo að útivistardómur gengi í málinu. Fullyrðingar stefnanda um að dómari hafi lýst því yfir við stefnanda að það væri hvorki jákvætt né honum til framdráttar að hleypa stefndu ekki að í málinu eru ósannar. Með vísan til framangreinds, svo og þess að stefnandi hefur ekki bent á neinar réttmætar ástæður til að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa, verður heldur ekki fallist á, að dómara beri að víkja sæti með vísan til g-liðar 5. gr. einkamálalaga.

Með vísan til þessa verður að hafna kröfu stefnanda um að dómarinn víki sæti við meðferð málsins.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

             Kröfu stefnanda um að dómarinn víki sæti í málinu er hafnað.