Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2009


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Aðild
  • Umboð
  • Málsástæða
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009.

Nr. 125/2009.

Þrotabú Marks, markaðsmála ehf.

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Flugu ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Aðild. Umboð. Málsástæður. Frávísun frá héraðsdómi.

B höfðaði mál fyrir hönd þb. M ehf. gegn F ehf. og krafðist skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar á samningi aðila um sölu á auglýsingum. Í málinu lá fyrir umboð skiptastjóra þb. M ehf. til B, fyrrverandi fyrirsvarsmanns félagsins, þar sem henni var heimilað að innheimta umrædda kröfu í nafni þrotabúsins með málsókn. Í umboðinu var hins vegar tekið fram að þrotabúið tæki ekki á sig ábyrgð á kostnaði vegna þessa. Talið var að B gæti ekki notið heimildar 1. eða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að fara með mál um hagsmuni þrotabúsins í eigin nafni. Hefði skiptastjóri að öllum líkindum leitað heimildar í 122. gr. laga nr. 21/1991 er hann gaf umboðið og ætti þrotabúið því sjálft beina aðild að kröfunni á hendur F ehf. Þannig fengi það ekki staðist að þrotabúið hefði getað veitt B umboð til að höfða málið en um leið undanþegið sig skyldu til greiðslu málskostnaðar svo sem kveðið var á um í fyrirvara umboðsins. Af þessum sökum var umboðið ekki talið fullnægjandi til þess að málið yrði höfðað í nafni þrotabúsins á grundvelli þess og var málinu því vísað frá héraðsdómi.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.521.125 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2007 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, 200.000 krónum 16. mars 2007, 250.000 krónum 30. mars 2007 og 211.095 krónum 10. apríl 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var Mark, markaðsmál ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007. Meðal gagna málsins er skjal sem ber yfirskriftina „Umboð til innheimtu kröfu“, undirritað af skiptastjóra þrotabús félagsins 11. janúar 2008 og hljóðar svo: „Undirritaður skiptastjóri í þrotabúi Mark, markaðsmála ehf. ... veitir hér með Birnu Sigurðardóttur ... fullt og ótakmarkað umboð til þess [að] innheimta í nafni þrotabúsins, þ.m.t. með málsókn, kröfu á hendur Flugu hf. (Reiðhöllinni á Svaðastöðum – Skagafirði) vegna ólögmætrar riftunar á tímabundnum samningi um auglýsingasöfnun. ... Þrotabúið tekur ekki neina ábyrgð á kostnaði vegna þessarar innheimtu hvorki til lögmanns þess, er fer með málið, né heldur dæmdum málskostnaði, fari svo að málið tapist.“ Á grundvelli þessa umboðs höfðaði Birna Sigurðardóttir „vegna þrotabús Marks, markaðsmála ehf.“ mál þetta með stefnu birtri 16. apríl 2008.

Birna Sigurðardóttir nýtur ekki heimildar samkvæmt 1. eða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að fara með mál um hagsmuni þrotabús Marks, markaðsmála ehf. í eigin nafni, þar sem slík heimild er bundin við kröfuhafa í þrotabúi eða þrotamann sjálfan. Ætla verður að skiptastjóri áfrýjanda hafi stuðst við 122. gr. laga nr. 21/1991 er hann gaf umboðið 11. janúar 2008. Þrotabúið telst sjálft vera aðili  málsins. Það fær ekki staðist að búið hafi getað tekið ákvörðun um að fela nefndri Birnu umboð til að höfða málið en um leið undanþegið sig skyldu til greiðslu málskostnaðar svo sem kveðið var á um í fyrirvara umboðsins. Í greinargerð sinni í héraði gerði stefnda meðal annars kröfu um málskostnað úr hendi áfrýjanda. Með þeirri kröfu telst hann strax hafa mótmælt að efni til framangreindum fyrirvara í umboði skiptastjórans til Birnu Sigurðardóttur. Verður því að líta svo á að vegna fyrirvarans teljist nefnt umboð ekki fullnægjandi til þess að málið yrði höfðað í nafni þrotabúsins á grundvelli þess.

Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá héraðsdómi en rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2008.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember sl., var höfðað með stefnu birtri 16. apríl 2008 af Birnu Sigurðardóttur, Björtuhlíð 6, Mosfellsbæ, vegna þrotabús Marks, markaðsmála ehf., Skólavörðustíg 12, Reykjavík, á hendur Flugu ehf., Aðalgötu 21, Sauðárkróki.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 2.521.125 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 18. ágúst 2007 til greiðsludags, allt að frádregnum 661.095 krónum.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 3. febrúar 2005 gerðu aðilar með sér samning um sölu auglýsinga fyrir reiðhöllina Svaðastaði, Sauðárkróki.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi taka að sér sölu auglýsingaskilta fyrir stefnda til að setja upp í reiðhöllinni Svaðastöðum á gildistíma samningsins, sem var frá undirritunardegi, 4. febrúar 2005, til 31. desember 2007.  Skyldi samningum þá ljúka án sérstakrar uppsagnar.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi selja auglýsendum áskrift að auglýsingaskiltum í 1-3 ár í senn, þ.e. árin 2005, 2006 og 2007.  Stefnandi gæti því selt auglýsingar hvenær sem væri á tímabilinu og fengið umsamda þóknun fyrir.

Samkvæmt 2. gr. samningsins var stefndu ekki heimilt að semja við aðra aðila um sölu auglýsinga er snertu reiðhöllina Svaðastaði á gildistíma samningsins.  Í sömu grein kom fram að stefndu væri heimilt að leita til stefnanda um sölu auglýsinga í sýningarskrár og fleira sem tengdist einstökum viðburðum eða sýningum sem stefnda stæði fyrir.  Að sögn stefnanda leitaði stefnda til stefnanda um slíka sölu öll árin, þ.e. frá 2005 til 2007.  Stefnda heldur því hins vegar fram að eingöngu hafi verið samið við stefnanda vegna áranna 2005 og 2006, en enginn samningur hafi komist á milli aðila um að stefnandi annaðist sölu annarra auglýsinga á árinu 2007 en sölu á auglýsingaskiltum til uppsetningar inni í reiðhöllinni.

Samkvæmt 5. gr. samningsins skyldi stefnda greiða stefnanda þóknun fyrir hvern undirritaðan samning við auglýsendur, sem stefnandi skilaði.  Skyldi þóknunin vera 25% af upphæð hvers samnings sem skilað væri, þar til náð hefði verið 2,5 milljónum í sölu, en eftir það skyldi greiðast 28% í þóknun til stefnanda.

Með tölvupósti, dagsettum hinn 28. júní 2007, frá Jóni Þór, verkefnastjóra Landbúnaðarsýningar 2007, var stefnanda boðin greiðsla á 20% af andvirði þeirra samninga sem frágengnir væru við sýnendur af hálfu stefnanda, gegn því að sent yrði yfirlit yfir þá aðila samdægurs.

Með tölvupósti frá sama aðila, dagsettum 4. júlí 2007, var stefnanda tilkynnt að tilboðið til hans frá 28. júní væri ekki lengur í gildi.  Telur stefnandi þar um að ræða ólögmæta riftun á áður gerðum samningi aðila.

Með bréfi stefnanda, 18. júlí 2007, var stefnda krafin um bætur vegna hinnar meintu ólögmætu riftunar.  Með bréfi stefndu frá 8. ágúst 2007 var þeirri kröfu stefnanda hafnað. 

Mark markaðsmál var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 10. október 2007.  Með bréfi skiptastjóra hinn 11. janúar fékk stefnandi leyfi til að annast innheimtu kröfu þessarar á sinn kostnað, en til hagsbóta fyrir kröfuhafa.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að í gildi hafi verið tímabundinn samningur milli aðila um að stefnandi sæi einn um öflun auglýsingaskilta fyrir stefndu á tímabilinu 2005 til og með 2007.  Jafnframt hafi stefnanda verið falið að afla annarra auglýsinga í sýningarskrár.  Þessum samningi hafi stefnda, einhliða og með ólögmætum hætti, vikið til hliðar með ákvörðun sinni, sem tilkynnt hafi verið stefnanda með rafpósti, hinn 28. júní 2007.  Stefnandi hafi orðið fyrir tekjumissi og tjóni vegna þessarar riftunar samnings aðila, sem stefnandi krefjist að fá bætt.  Stefnda byggir á því, að um tímabundinn samning hafi verið að ræða, sem óheimilt hafi verið að breyta eða segja upp.  Stefnda hafi með ólögmætum hætti rift samningi aðila og sé bótaskyld gagnvart stefnanda vegna þessa.

Byggir stefnandi kröfufjárhæðina á því að heildarsala hefði náð 7.500.000 krónum á árinu 2007, en árið 2005 hafi andvirði heildarsölu numið 6.447.000 krónum og árið 2006 hafi andvirði heildarsölu numið 6.702.100 krónum.

IV

Stefnda byggir málatilbúnað sinn á því stefnda hafi ekki talið ástæðu til að nýta sér heimild 2. gr. samnings aðila um heimild til að leita til stefnanda um sölu auglýsinga í sýningarskrár og fleira, sem tengdust einstökum viðburðum, sem stefnda stæði fyrir á árinu 2007.  Stefnandi hafi gefið í skyn að búið væri að ganga frá nokkrum samningum varðandi fyrirhugaða landbúnaðarsýningu á árinu 2007, án samráðs við forsvarsmenn stefndu.  Hafi stefnanda því verið gefinn kostur á að leggja þessa samninga fram innan tiltekinna tímamarka, en það hafi stefnandi ekki gert.  Stefnanda hafi aldrei verið falið að undirbúa Landbúnaðarsýninguna 2007.  Stefnda hafi á allan hátt virt einkaheimild stefnanda til að selja áskrift að auglýsingaskiltum og greitt að fullu þá reikninga sem fram hafi verið lagðir vegna þeirra verka.

V

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins auk Vésteins Vésteinssonar, fjármálastjóra stefnda, Ingimars Ingimarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra stefndu, og Árna Gunnarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns stefndu.

Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um túlkun á 2. gr. samnings aðila frá 3. febrúar 2005.  Þar segir í 2. mgr. að stefndu sé ekki heimilt að semja við aðra aðila en stefnanda um sölu auglýsinga er snerta reiðhöllina Svaðastaði á gildistíma samningsins, sem var til 31. desember 2007, samkvæmt 1. gr. hans.  Þá segir í 3. mgr. 2. gr. samningsins að stefnda sé heimilt að leita til stefnanda um sölu auglýsinga í sýningarskrár og fleira sem tengist einstökum viðburðum eða sýningum sem stefnda stæði fyrir.

Óumdeilt er að fyrstu tvö árin á gildistíma samningsins, þ.e. árin 2005 og 2006, nýtti stefnda sér heimildarákvæði 3. mgr. 2. gr. samningsins. Þau ár var samið við stefndu um sölu allra auglýsinga er tengdust reiðhöllinni Svaðastöðum, bæði er varðar auglýsingaskilti og allt er tengdist einstökum viðburðum. Kom þetta m.a. fram í framburði Ingimars Ingimarssonar.  Ágreiningur aðila lýtur því eingöngu að uppgjöri vegna ársins 2007.

Af málatilbúnaði stefnanda má ráða að stefnandi líti svo á að stefndu hafi verið óheimilt að semja við aðra aðila um sölu auglýsinga er snertu reiðhöllina Svaðastaði á árinu 2007 á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 2. gr. samnings aðila.  Einu gildi hvort um væri að ræða auglýsingaskilti eða aðrar auglýsingar. Stefnda heldur því hins vegar fram að ákvæði 2. mgr. 2. gr. samningsins hafi eingöngu tekið til auglýsingaskilta, en um aðrar auglýsingar hafi gilt heimildarákvæði 3. mgr. 2. gr. samningsins.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samningsins tók stefnandi að sér sölu auglýsingaskilta fyrir stefndu til að setja upp í reiðhöllinni Svaðastöðum.  Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skyldi stefnandi selja auglýsendum áskrift að auglýsingaskiltum á gildistíma samningsins. Í öðrum ákvæðum samningsins, svo sem 3. gr., 4. gr. og 6. gr., er einnig rætt um auglýsingaskilti, en ekki aðrar auglýsingar.  Með vísan til þessara ákvæða og þá einkum 1. gr. samningsins, telur dómurinn að ekki sé hægt að túlka samning aðila á annan hátt en þann, að hann snúist um sölu á auglýsingaskiltum fyrir reiðhöllina Svaðastöðum, en ekki öðrum auglýsingum.  Því er ekki hægt að túlka ákvæði 2. mgr. 2. gr. samningsins öðru vísi en svo að þar sé eingöngu átt við auglýsingaskilti.  Stefndu hafi þannig ekki verið heimilt að semja við aðra aðila um sölu slíkra auglýsinga á gildistíma samningsins. Um aðrar auglýsingar gildir heimildarákvæði 3. mgr. 2. gr. samningsins.

Í málinu liggur frammi reikningur frá Mark-Felli sf., dagsettur 27. febrúar 2007, að fjárhæð 661.095 krónur, vegna sölu á auglýsingaskiltum fyrir reiðhöllina Svaðastaði.  Þá liggur og frammi annar reikningur sömu fjárhæðar frá stefnanda, ódagsettur, vegna sölu á auglýsingaskiltum í reiðhöllina.  Að sögn stefndu kom sá reikningur til þar sem stefnda hafði neitað að greiða fyrri reikninginn, þar sem hann var útgefinn af öðrum aðila en samningur var við.  Óumdeilt er að fjárhæð sú, sem tilgreind er á þessum reikningum, hefur verið greidd af stefndu, að fullu. Aðrir reikningar liggja ekki fyrir vegna ársins 2007. Verður því gegn mótmælum stefndu að telja með öllu ósannað að það sem eftir stendur af kröfu stefnanda sé tilkomið vegna sölu á auglýsingaskiltum fyrir reiðhöllina.  Ber stefnandi hallann af þeim sönnunarskorti.  Af málatilbúnaði stefnanda verður og ekki annað ráðið en að það sem stendur eftir af kröfu stefnanda sé tilkomið vegna annarra auglýsinga.  Engin gögn liggja fyrir um það í málinu að samkomulag hafi náðst milli stefnanda og stefndu um sölu annarra auglýsinga á grundvelli 3. mgr. 2. gr. samningsins.  Með vísan til þessa sem og þess sem að ofan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ekki verði hjá því komist að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefnda, Fluga ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, Birnu Sigurðardóttur vegna þrotabús Marks, markaðsmála ehf.

Málskostnaður fellur niður.