Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 9

 

Mánudaginn 9. september 2002.

Nr. 417/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með þeirri breytingu að gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Rannsókn máls þessa hefur staðið yfir frá 2. ágúst sl. og mun vera á lokastigi. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hafa sóknaraðila borist frá Noregi niðurstöður úr DNA samanburðarrannsókn, sem var gerð á blóðsýni úr varnaraðila, Y og Z annars vegar og A hins vegar. Sóknaraðili kveður frekari úrvinnslu á þessum gögnum standa yfir. Þá á sóknaraðili eftir að bera niðurstöður rannsóknarinnar undir varnaraðila. Með vísan til þessa verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila, en rétt er að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími, sem nánar greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16 föstudaginn 13. september 2002.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. september 2002 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að málsatvik séu með þeim hætti að laust eftir kl. 11:00 þann 2. ágúst sl. hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um að tveir bræður hefðu sést styðja blóðugan og ölvaðan mann við Skeljagranda í Reykjavík. Stuttu síðar hafi komið önnur tilkynning um að tveir menn hefðu ýtt manni yfir grindverk við leikskóla við Rekagranda 14 og taldi tilkynnandi að hugsanlegt væri að um lík hafi verið að ræða. Eftir ábendingu vitna hafi lögreglumenn fundið mikið slasaðan mann á leikskólalóðinni. Hafi þar reynst vera um að ræða A. Kærði hafi verið handtekinn ásamt bróður sínum, Y, við bensínafgreiðslu við Austurströnd á Seltjarnarnesi kl. 12:36 sama dag í kjölfar árásar á annan mann við verslunarmiðstöðina við Eiðistorg.

Lögreglan hafi rætt við nokkur vitni í málinu. Fram hafi komið að mikil læti hafi borist frá íbúð kærða að […] aðfaranótt föstudagsins og um morguninn. Telji vitni að þessi hávaði hafi líkst því að um slagsmál hafi verið að ræða, húsgögn hafi verið færð til og mikill köll og læti hafi borist frá íbúðinni. Eitt vitni sem farið hafi út úr húsinu snemma morguns hafi séð blóð á svalargólfi fyrir framan íbúðina. Við vettvangsrannsókn lögreglu á íbúðinni hafi komið í ljós að þar hafi verið mikið blóð m.a. á veggjum og gólfum. Í íbúðinni hafi lögreglumenn fundið skilríki A. Vitni sem þekki kærða í sjón hafi borið að það hafi séð kærða og bróður hans henda manni yfir girðingu við lóð leikskólans.

Kærði hafi játað að hafa slegið A nokkrum sinnum en játning kærða skýri einungis að hluta þá áverka sem A reyndist með.

Í málinu liggi fyrir vottorð tveggja lækna og vottorð Þóru Steffensen réttarmeinafræðings. Komi fram í þessum vottorðum að A hafi verið höfuðkúpubrotinn og með blæðingu inn á heila við komu á Landspítala. Höfuðáverkar hans hafi verið svo alvarlegir að þeir hefðu leitt hann til dauða ef hann hefði ekki komist undir læknishendur svo fljótt sem raun varð. Þá sé í vottorðum þessum lýst margháttuðum áverkum sem A hafi verið veittir m.a. með hnífum, eggvopnum og bareflum.

Rannsókn máls miði vel áfram. Enn sé þó beðið eftir niðurstöðu úr DNA samanburðarrannsókn sem send hafi verið til Noregs en rannsókn þessi hafi mikla þýðingu fyrir rannsókn málsins. Sé þess vænst að niðurstaða úr þeirri rannsókn komi til landsins á morgun.

Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við aðra menn ráðist á A og misþyrmt honum á hrottafenginn hátt og síðan hent honum yfir háa girðingu við leiksvæði í nágrenninu þar sem hann hafi verið skilinn eftir með lífshættulega áverka. Ef kærði haldi frelsi sínu hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að hafa áhrif á vitni og samseka. Beri því brýna nauðsyn til þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fari fram.

Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða sem kann að varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Kærði hefur hér fyrir dómi játað að hafa ráðist á A.  Þá hefur hann staðfest rétta lögregluskýrslu, sem tekin var af honum 3. september sl. þar sem hann lýsir árásinni. 

Þrátt fyrir játningu kærða er ljóst að rannsókn málsins er ekki lokið og enn ber mikið í milli í framburði kærðu. Með hliðsjón af þessu og með vísun til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra og með vísun til rannsóknargagna, sem lögð hafa verið fyrir dóminn, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði gæti spillt rannsókn málsins hefði hann óskert frelsi. Það er því fallist á kröfu lögreglustjóra og skal kærði sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er með heimild í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, Reykjavík, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. september 2002 kl. 16.00.