Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2000
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2001. |
|
Nr. 375/2000. |
Hreinn Skagfjörð Gíslason (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Sænesi ehf. (Karl Axelsson hrl.) |
Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Dráttarvextir.
H höfðaði mál gegn S og krafðist skaðabóta vegna varanlegs líkamstjóns sem hann varð fyrir við vinnu sína við löndun úr fiskiskipi í eigu S. Ekki var fallist á að H ætti rétt til bóta vegna meints vanbúnaðar skipsins. Á hinn bóginn var talið að þegar aðstæður við slysið væru metnar í heild hefði sérstök skylda hvílt á skipstjóra skipsins, sem stjórnaði lönduninni, að haga henni þannig að sem minnst hætta stafaði af fyrir skipverja. Þar sem ekkert lá fyrir um að gefin hefðu verið fyrirmæli um að sérstakrar varúðar skyldi gætt við hífingu úr lest eða störf skipverja þar og með hliðsjón af framburði skipstjórans var fallist á að S bæri bótaábyrgð á tjóni H. Var S gert að bæta H tjón hans að 1/3 hluta en vegna aðgæsluleysis H sjálfs, sem var reyndur sjómaður, var hann látinn bera 2/3 hluta tjóns síns sjálfur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2000. Krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.005.974 krónur með 1% ársvöxtum frá 28. júní 1993 til 11. ágúst sama árs, 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember sama árs, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 18. febrúar 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Verði-Vátryggingafélagi til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Réttargæslustefndi tekur undir kröfur stefnda í málinu.
I.
Í máli þessu er deilt um rétt áfrýjanda til skaðabóta vegna slyss, sem hann varð fyrir við löndun á Grenivík úr fiskiskipi stefnda, Sænesi EA 75, hinn 28. júní 1993. Komi til þess að skaðabótaskylda verði felld á stefnda deila aðilar ekki um örorkustig eða útreikning bóta, en þó andmælir hann bótakröfunni sem of hárri. Er í því sambandi einkum ágreiningur með þeim um hver frádráttur eigi að vera vegna skattfrelsis bóta og hagræðis við eingreiðslu þeirra, svo og með hvaða hætti frádrátturinn eigi að fara fram. Auk þess telur stefndi vexti fyrnda að hluta og andmælir kröfu áfrýjanda um upphafstíma dráttarvaxta.
II.
Atvik að slysi áfrýjanda eru í meginatriðum óumdeild. Var hann að störfum við annan mann í lest Sæness við löndunina og var notaður krani á stjórnborðssíðu skipsins til þess að hífa fiskkör og kassa úr lestinni upp á bryggju. Var löndun langt komin og lögðu skipverjar kapp á að ljúka henni sem fyrst til þess að þeir úr hópnum, sem bjuggu syðra, gætu náði flugi. Lá skipið með stjórnborðshliðina að bryggjunni. Voru yfirleitt hífð tvö kör í einu hið minnsta og almennt reynt að hífa eins og krani skipsins afkastaði. Körin voru misstór og í þeim frá 300 til 350 kg af fiski og ís. Til þess að nýta betur rýmið út með síðunum í lest skipsins voru notaðir fiskkassar og voru þeir þar á hillum. Í þeim munu hafa verið 50 til 60 kg af fiski og ís. Sannað er að Sænes valt mikið og að aflokinni veiðiferð þegar vatns- og olíubirgðir þess voru litlar hafi þær hreyfingar verið meiri en ella, einkum þegar langt var komið að landa eins og er slysið varð. Kemur fram í skýrslu Sævars Ólafssonar skipstjóra fyrir héraðsdómi að skipið hafi getað hallað rúmlega 35° þegar körin voru hífð úr lestinni yfir borðstokkinn og á bryggjuna og er þau komu á bryggjuna hafi komið bakslag og við það hafi skipið rést af.
Áfrýjandi var framarlega í lest skipsins og kraup þar við að tína fisk, sem fallið hafði á lestargólfið, er tveir fiskkassar runnu úr stæðu bakborðsmegin vegna halla skipsins og lentu á baki hans. Hélt hann áfram löndun þrátt fyrir meiðslin, en leitaði til læknis síðar um daginn.
III.
Áfrýjandi reisir bótakröfu sína á því að búnaður skipsins og verkstjórn við löndunina hafi verið með þeim hætti að saknæmt sé af hálfu útgerðarmanns þess.
Heldur hann því fram, að varasamt hafi verið að nota krana á stjórnborðshlið skipsins við löndun, einkum þegar hún var eins langt komin og er slysið varð. Hafi það valdið því að hreyfingar skipsins urðu svo miklar að hætta stafaði af. Ekkert liggur fyrir um að Siglingastofnun Íslands hafi gert athugasemdir við staðsetningu kranans eða notkun hans við löndun úr skipinu. Önnur atriði leiða heldur ekki til þess að telja þessi atriði sjálfstætt til sakar hjá stefnda. Er þessari málsástæðu áfrýjanda því hafnað.
Áfrýjandi heldur því einnig fram, að skipið hafi verið vanbúið vegna óstöðugleika þess. Bendir hann í því sambandi meðal annars á að skipstjórinn hafi upplýst í skýrslu fyrir héraðsdómi að hann hafi talið óeðlilegt hve skipið var óstöðugt. Þess vegna hafi hann að gefnu tilefni síðar látið mæla stöðugleika þess og þá komið í ljós að fimm tonn hafi vantað í kjöl til þess að það hafi verið nægilega stöðugt. Hafi skipið gerbreyst við að úr var bætt. Ekki liggur annað fyrir en að skipið hafi haft gilt haffæriskírteini og staðist lögboðnar kröfur um stöðugleika. Verður því ekki á málsástæðu þessa fallist. Ræður það ekki úrslitum að þessu leyti þótt síðar hafi verið gerðar ráðstafanir til að auka stöðugleika skipsins.
Þá heldur áfrýjandi því fram að festingum á fiskkössum í síðum skipsins hafi verið áfátt. Hafi átt að hafa á þeim bönd, sem ekki yrðu losuð fyrr en þeim yrði landað. Ekkert liggur fyrir um hvernig festa hefði mátt kassana né tryggja betur að þeir hreyfðust ekki úr stað. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að búnaður þessi hafi verið þannig að saknæmt eigi að teljast fyrir stefnda. Verður málsástæðu þessari því hafnað.
Loks reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að þegar aðstæður séu metnar heildstætt sé ljóst að verkstjórn hafi verið stórlega ábótavant. Nefnir hann ýmis atriði í þessu sambandi, svo sem að gefa hefði átt fyrirmæli um að hífa minna magn í einu þegar leið á löndun til að takmarka veltuhreyfingar skipsins og brýna fyrir skipverjum í lest að tína ekki upp lausan fisk fyrr en eftir að allir kassar hefðu verið hífðir frá borði. Þegar aðstæður við slysið eru metnar í heild verður að telja að sérstök skylda hafi hvílt á skipstjóra, sem bar ábyrgð á framkvæmd verksins á vegum stefnda, að haga löndun þannig að sem minnst hætta stafaði af fyrir skipverja. Ekkert liggur fyrir um að gefin hafi verið fyrirmæli við framkvæmdina um að sérstakrar varúðar skyldi gætt við hífingu úr lest eða störf skipverja þar, er kom að lokum löndunar. Samkvæmt skýrslu skipstjórans fyrir héraðsdómi var hann staddur á bryggju við skipshlið þegar löndun fór fram. Hann bar að hreyfingar skipsins hafi verið með þeim hætti, sem að framan greinir, og hafi þær verið skyndilegar. Í ljósi þessara aðstæðna hefði mátt tryggja öryggi skipverja betur við löndun, meðal annars með því að framkvæma hana á þann veg, sem áfrýjandi heldur fram. Er því fallist á með honum að stefndi verði að bera bótaábyrgð á saknæmri vanrækslu við verkstjórn löndunar umrætt sinn, sbr. 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en upplýst er að stefndi keypti slysatryggingu samkvæmt 172. gr., sbr. 175. gr. laganna og hefur áfrýjandi notið greiðslna samkvæmt henni.
Áfrýjandi var 41 árs er slysið varð. Hann lýsti því í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hafi byrjað til sjós 15 ára gamall og alltaf verið á sjó öðru hverju síðan og yfirleitt á veturna. Hann skýrði jafnframt frá því að hann hefði verið á togurum um nokkurt skeið en síðan flust til Grenivíkur í árslok 1982 eða í upphafi næsta árs á eftir og verið frá þeim tíma mest á litlum bátum, netabátum, línubátum og trillum þar til slysið varð í júní 1993. Hann hafði verið á Sænesi í um þrjá mánuði er slysið varð. Í skýrslu skipstjóra fyrir héraðsdómi kom fram að áhöfn skipsins hefði alltaf séð um löndun úr því og hún hefði alltaf verið framkvæmd með sama hætti. Ekkert er fram komið um að hreyfingar skipsins í þetta sinn hafi verið öðru vísi en venja var til. Áfrýjanda mátti vera ljóst að hætta hlaut að stafa af því að vinna undir kassastæðum í síðum skipsins þegar verið var að landa. Var því óvarlegt af honum að tína fisk og haga því verki þannig að hann sneri baki í kassastæðurnar og gat ekki varað sig ef kassar runnu til. Er ekkert fram komið um að hann hafi fengið fyrirmæli um að haga vinnu sinni svo sem hann gerði. Vegna reynslu sinnar átti honum að vera ljóst að rétt var að hífa minna magn fiskjar upp á bryggju þegar langt var komið löndun vegna aukinna veltuhreyfinga skipsins. Hlaut hann að hafa um það að segja þar sem hann var við störf í lestinni við löndunina. Verður því talið að aðgæsluleysi hans hafi verið verulegt og þess vegna verði hann að bera megin hluta ábyrgðar á slysinu. Verður hann látinn bera tjón sitt sjálfur að 2/3 hlutum, en stefndi að 1/3 hluta.
IV.
Svo sem fyrr greinir eru aðilar sammála um að leggja til grundvallar að varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins sé 15%. Tryggingarfræðingur hefur 15. desember 1995 áætlað tjón hans og telur höfuðstólsverðmæti þess á slysdegi vera 5.274.000 krónur vegna varanlegrar örorku. Eru ekki gerðar kröfur vegna tímabundinnar örorku. Þá telur hann að verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda, miðað við sama tímamark, sé 316.400 krónur. Ekki er ágreiningur um þennan útreikning í málinu og verður hann lagður til grundvallar ákvörðun um bótafjárhæð. Við ákvörðun á miskabótum verður að líta til þess að líkamstjónið hefur ekki valdið lýtum, en veldur áfrýjanda stöðugt nokkrum þjáningum og erfiðleikum í daglegu lífi, meðal annars við núverandi störf hans á vinnuvélum. Taka verður þó tillit til þess að hann hefur af öðrum ástæðum átt við bakeymsli að stríða og hefur í tvö önnur skipti hlotið meiðsl á vinstri öxl. Með hliðsjón af þessu eru miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.
Áfrýjandi naut greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, sem að höfuðstólsverðmæti á slysdegi nema 313.200 krónum samkvæmt útreikningi tryggingarfræðings. Auk þess fékk áfrýjandi greiddar 508.035 krónur vegna slysatryggingar sjómanna. Koma þessar fjárhæðir til frádráttar bótum vegna varanlegrar örorku, en til lækkunar mismuninum verður að koma hæfilegur frádráttur vegna skattfrelsis þessara bóta og hagræðis af eingreiðslu þeirra. Að viðbættum áðurgreindum bótum vegna tapaðra lífeyrisréttinda og miskabótum er heildartjón áfrýjanda þannig hæfilega ákveðið 3.900.000 krónur. Svo sem að framan greinir ákveðast bætur til áfrýjanda þriðjungur af þeirri fjárhæð eða 1.300.000 krónur.
Málið var höfðað 13. apríl 1999. Fallist er á með stefnda að vextir, sem á bótakröfuna hafa fallið fyrir 13. apríl 1995, séu þannig fyrndir samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Stefndi hefur andmælt því að krafa áfrýjanda beri dráttarvexti frá 18. febrúar 1996, en þá var mánuður liðinn frá því að áfrýjandi sendi kröfubréf reist á örorkumati og útreikningi tryggingarfræðings. Telur stefndi ekki unnt að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu í héraði, þar sem áfrýjandi hafi sjálfur valið að hafast ekkert að fyrr en hann höfðaði málið með birtingu stefnu 13. apríl 1999. Í kröfubréfi áfrýjanda til réttargæslustefnda 18. janúar 1996 var greint frá atvikum að slysi hans, en engin gögn fylgdu um rannsókn á tildrögum þess. Réttargæslustefndi átti frumkvæði að lögreglurannsókn, sem hófst í apríl 1996, en líkamstjón áfrýjanda var ekki slíkt að tilefni hafi verið til sjóprófs í kjölfar slyssins. Endanlega lauk lögreglan við að taka skýrslur af vitnum í mars 1997. Í framhaldi af því tóku stefndi og réttargæslustefndi þá afstöðu að hafna kröfu áfrýjanda og var honum tilkynnt það með bréfi 4. apríl 1997. Verður við það að miða að þann dag hafi legið fyrir upplýsingar, sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Verða dráttarvextir þannig dæmdir frá því að mánuður var liðinn frá þeim degi, sbr. 15. gr. vaxtalaga, en til þess tíma ber krafa áfrýjanda vexti samkvæmt 7. gr. sömu laga, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Sænes ehf., greiði áfrýjanda, Hreini Skagfjörð Gíslasyni, 1.300.000 krónur með ársvöxtum sem hér segir: 0,5% frá 13. apríl 1995 til 11. maí sama árs, 0,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1996, 0,9% frá þeim degi til 11. febrúar sama árs, 1% frá þeim degi til 21. febrúar sama árs, 0,9% frá þeim degi til 21. apríl sama árs, 0,8% frá þeim degi til 11. maí sama árs, 0,7% frá þeim degi til 1. október sama árs, 0,8% frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama árs, en 1% frá þeim degi til 4. sama mánaðar. Frá 4. maí 1997 beri krafan dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag er höfðað með stefnu birtri 13. apríl 1999.
Stefnandi er Hreinn Skagfjörð Gíslason kt. 020951-2739 Þinghólsbraut 51 Kópavogi.
Stefndi er Sænes, ehf., kt. 420393-2299, Túngötu 25, Grenivík.
Verði vátryggingafélagi, kt. 690269-6359, Skipagötu 9, Akureyri, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmdur til að greiða honum 4.005.974 krónur, með 1 % ársvöxtum frá 28. júní 1993 til 11. ágúst 1993, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 18. febrúar 1996 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Enn fremur er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts úr hendi stefnanda.
Af hálfu réttargæslustefnda, Varðar vátryggingafélags, eru ekki gerðar sjálfstæðar kröfur en tekið undir kröfur stefnda Sæness ehf.
MÁLAVEXTIR:
Stefnandi var matsveinn á m/b Sænesi EA-75 sem gerður var út frá Grenivík. Þann 28. júní 1993 var stefnandi við vinnu við löndun um borð í bátnum þar semhann lá í höfn á Grenivík. Var stefnandi að tína upp lausan fisk fremst í lest skipsins. Lýsir stefnandi því svo að hann hafi unnið á fjórum fótum og stutt sig með vinstri hendi en hent lausum fiski aftur fyrir sig með hægri hendi. Á sama tíma var verið að hífa fiskkassa úr lest skipsins með krana, sem fastur var á stjórnborðshlið bátsins. Staðhæft er af hálfu stefnanda að við hífingu hafi skyndilega komið mikill halli á skipið þannig að það hafi slegist í bryggjukantinn, með þeim afleiðingum að tveir fiskkassar, fullir af fiski, hafi hrunið ofan úr hárri stæðu á bak stefnanda. Fall kassanna hafi verið um 2,5 metrar og hvor kassi hafi vegið um 60 kíló.
Við höggið af kössunum hafi stefnandi fengið mikinn slink á bakið og áverka á vinstri öxl, og lýsir hann því svo að vinstri handleggur hans hafi "bögglast saman" þar sem hann var á fjórum fótum. Stefnandi var algjörlega óvinnufær um þriggja vikna skeið vegna slyssins, reyndi að hefja aftur störf á Sænesi EA-75 en varð hins vegar strax svo slæmur af verkjum og stirður í baki að hann hætti störfum. Alls var Hreinn frá vinnu vegna slyssins í fimm vikur en þá hóf hann aftur vinnu um borð í Sænesi EA-75.
Þann 28. ágúst 1993 lenti stefnandi í öðru vinnuslysi. Hann var þá í sínum öðrum veiðitúr eftir fyrra slysið. Stefnandi krefur ekki stefnda um skaðabætur vegna afleiðinga þessa síðara slyss og verður því ekki fjallað frekar um það hér.
Stefnandi kveðst hafa haft mikla verki og óþægindi í vinstri öxl og baki allt frá slysinu. Hái það honum verulega við leik og störf, og kveðst hann nær aldrei verkjalaus, og er um þetta vitnað til örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar, læknis, dags. 17. nóvember 1995. Stefnandi fái m.a. verki í öxlina ef hann lyfti höndum í axlahæð, hann geti ekki lyft þungum hlutum, ekki unnið upp fyrir sig og hafi lítið úthald til vinnu. Öll þessi einkenni stefnanda versni í kulda. Vinstri handleggur stefnanda nýtist honum lýtið sem ekkert við vinnu.
Hann hafi einkenni einkenni frá baki, stöðugan verkjaseyðing hægra megin á um 25 cm svæði við hryggsúluna yfir vöðva, en þar hafi aðalhöggið af fiskkörunum komið. Þar fáir hann oft verki og stingi, og þar taki í við allar snöggar hreyfingar. Hreyfingar í baki stefnanda séu skertar og jafnvægi hans sé skert, og hann þurfi því að passa sig við að setjast og standa upp. Stefnandi hafi þjáðst af svefntruflunum eftir slysið og vakni að meðaltali þrisvar á nóttunni vegna verkja í baki og vinstri öxl. Þá vakni stefnandi oft við sinadrátt í bakinu á því svæði sem höggið kom af fiskkörunum.
Stefnandi hafi orðið að gefa vinnu á sjó upp á bátinn, og muni væntanlega aldrei geta starfað sem sjómaður aftur. Hafi hann því orðið af miklum tekjum, en hann hafði nokkuð góðar tekjur sem sjómaður fyrir slysið.
Sigurjón Sigurðsson, læknir, mat tímabundnar og varanlegar læknisfræðilegar afleiðingar slysa stefnanda, sbr. örorkumat Sigurjóns dags. 17. nóvember 1995. Niðurstaða Sigurjóns er að tímabundin örorka stefnanda vegna fyrra slyssins hafi verið 100% í fimm vikur frá slysinu, en að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé 15% eftir það.
Þá kemur fram að Sigurjón telur að tímabundin örorka stefnanda vegna seinna slyssins hafi verið 100% í sjö mánuði frá því slysi, en að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda sé 15% eftir það. Samanlögð varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda vegna vegna beggja slysanna er því 30% að mati Sigurjóns.
Þann 27. nóvember 1995 sendi lögmaður stefnanda bréf til Vélbátatryggingar Eyjafjarðar, þar sem krafist var greiðslu úr slysatryggingu sjómanna, sem tekin hafði verið hjá því félagi. Fór greiðsla úr tryggingunni fram skömmu síðar. Á grundvelli niðurstöðu matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar, læknis, reiknaði Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, út höfuðstólsverðmæti tjóns stefnanda vegna líkamstjóns hans, sbr. líkindareikning hans dags. 18. desember 1995. Þann 18. janúar 1996 sendi lögmaður stefnanda Vélbátatryggingu Eyjafjarðar kröfubréf, þar sem krafist var skaðabóta vegna slyss stefnanda þann 28. júní 1993, en félagið var ábyrgðartryggjandi stefnda er slysið varð. Þeim kröfum hafnaði lögmaður félagsins fyrir hönd þess og stefnda, sbr. bréf hans dags. 29. október 1996. Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfur stefnanda með bréfi til lögmanns stefnda og Vélbátatryggingar Eyjafjarðar, dags. 26. febrúar 1997, en kröfum stefnanda var enn hafnað með bréfi lögmanns þeirra dags. 4. apríl 1997.
Stefnandi kveður sér nauðsyn á að höfða mál þetta til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns síns. Eftir að nefnd kröfubréf voru send Vélbátatryggingu Eyjafjarðar tók réttargæslustetndi við öllum réttindum og skyldum þess félags vegna ábyrgðartryggingar stefnda.
Að beiðni stefnda voru læknarnir Jónas Hallgrímsson og Júlíus Valsson dómkvaddir til þess að meta örorku stefnanda og í matsgerð þeirra dagsettri 1. febrúar sl. segir:
"Almenn niðurstaða:
Við könnun á heimildum kom í ljós að Hreinn hafði haft einkenni frá mjóbaki all frá árinu 1985 og stundum tengt áföllum í starfi. Hann virðist þó ætíð hafa getað snúið aftur til fyrri starfa þar sem bakóþgindi hafa líklega verið tímabundin hverju sinni. Matsmenn telja að meirihluta einkenna Hreins frá mjóbaki í dag megi rekja til slyssins 28. 06. 1993 enda hafa bakeinkenni verið viðvarandi síðan.
Læknisfræðileg örorka vegna mjóbaks er metin 15%. Einkenni frá vinstri öxl má rekja til tveggja slysa, annars vegar þess sem hér er metið og hins vegar til síðara slyss sama ár og vill Hreinn skipta núverandi óþægindum sínum að jöfnu. Matsmenn benda á að vinstri öxl Hreins var ekki alveg heil fyrir slysið í júní 1993 þar sem hann hafði orðið fyrir slysaskoti tuttugu árum áður og skemmdir sáust kringum öxlina við aðgerð sem gerð var 1994 sem rekja mátti til skotáverkans. Matsmenn telja að núverandi einkenni Hreins sem rekja má til slyssins 28.06. 1993 séu hæfilega metin 5%. Þannig er læknisfræðileg örorka Hreins vegna slyssins 28.06. 1993 samtals metin 20%.
Niðurstaða:
Varanleg læknisfræðileg örorka Hreins Skagfjörð Gíslasonar vegna vinnuslyss um borð í mb Sænesi 28.06. 1993 er metin 20%."
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna sinna samkvæmt sakarreglu og ólögfestri húsbóndareglu íslensks skaðabótaréttar. Einnig er vísað til strangra bótareglna skaðabótaréttar og reglna um ábyrgð vinnuveitenda á hættulegum atvinnurekstri og aðstæðum á vinnustað.
Vinnuaðstæður stefnanda voru óforsvaranlegar og hættulegar að hans mati, og eftirlit og tilsögn með vinnu stefnanda bæði ófullnægjandi og röng. Með því að gæta ekki að þessum atriðum hafi yfirmenn hjá stefnda gerst sekir um gáleysi, sem hafi síðan leitt til þess að stefnandi hafi beðið alvarlegt líkamstjón. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda, sem sé afleiðing þessarar háttsemi starfsmanna stefnda.
Telja verður að óforsvaranlega hafi verið að nota krana, sem fastur er á stjórnborðshlið bátsins við löndun umrætt sinn. Við hífingu færist allur þungi þess, sem lyft er frá lestinni, yfir á kranann og þar með stjórnborðshlið bátsins, með þeim afleiðingum að mikill veltingur og halli komi á bátinn. Þessi áhrif verði síðan enn meiri þegar fiskkassarnir séu hífðir út fyrir bordstokkinn, einkum ef ekki sé gætt þyngdardreifingar í lest skipsins. Hefði krani úr landi verið notðaur, hefði mátt koma í veg fyrir slys stefannda. Á þessum mistökum verði útgerðarmaður bátsins að bera ábyrgð í samræmi við 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og almennar reglur skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.
Þá verði að líta til þess að Sænes EA-75 var mjög valtur bátur. Sævar Ólafsson, skipstjóri, hafi m.a. borið að í stöðugleikamælingu hafi komið í ljós, að um fimm tonn hafi vantað upp á þyngd kjalar Sæness EA-75 til að báturinn væri nægilega stöðugur. Því hafi ballest verið bætt í bátinn eftir slysið. Ljóst sé að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem leiði af þessum vanbúnaði bátsins sem útgerðarmaður hans. Hafi stefndi raunar viðurkennt vanbúnað bátsins að þessu leyti með því að auka þyngd kjalar hans eftir slysið.
Með hliðsjón af þessum óvarlegu vinnubrögðum hefði í það minnsta þurft að huga vel að festingum þeirra fiskkassa sem eftir voru í lestinni. Festingum á kassastæðum hafi greinilega verið ábótavant þar sem engin bönd hafi verið á þeim, eða þau höfðu verið losuð af. Kassastæður hafi því verið frístandandi eða einungis haft stuðning hver af annarri. Hafi því ekki þurft mikið til að stæður hryndu, líkt og kom á daginn. Telja verði að koma hefði mátt t veg fyrir slysið með betri verkstjórn á slysstað og ef uppfylltar hefðu verið þær sjálfsögðu öryggiskröfur að hafa bönd á öllum stæðum þar til kom að þvf að flytja þær úr lestinni.
Í öllu falli hefðu verkstjórar hjá stefnda átt að haga vinnu stefnanda þannig að ekki yrði hafist handa við að tína upp lausan fisk úr lestinni fyrr en eftir að allir kassar höfðu verið hífðir frá borði, og vinnuaðstæður stefnanda orðnar öruggar.
Vélbátatrygging Eyjafjarðar var ábyrgðartryggjandi stefnda Sæness ehf. þegar slysið varð og var kröfum um skaðabætur því áður beint til þess félags. Réttargæslustefndi hefur hins vegar tekið við öllum réttindum og skyldum Vélbátatryggingar Eyjafjarðar, og er því stefnt til réttargæslu í málinu.
Við ákvörðun bótafjárhæðar til stefnanda beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón.
Kröfugerð er við það miðuð að stefnandi hafi í slysinu þann 28. júní 1993 hlotið 15% varanlega örorku, sbr. áðurnefnt örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 17. nóvember 1995 og miðast tjónsútreikningar við það enda þótt nú liggi fyrir það mat dómkvadddra manna að örorka stefnanda sé 20%. Frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku komi til frádráttar greiðslur úr slysatryggingu sjómanna, 508.035 krónur og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, 313.200 krónur. Ekki sé um tímabundið tekjutap að ræða, þar sem stefnandi fékk greidd laun í veikindum sínum.
Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, hefur reiknað út höfuðstólsverðmæti tekjutaps stefnanda á slysdegi vegna varanlegrar örorku hans, með hliðsjón af örorku hans eins og hún var metin af Sigurjóni Sigurðssyni, þ.e. 15% varanleg örorka. Líkindareikningur hans er dags. 18. desember 1995. Samkvæmt því sundurliðast krafa stefnanda á eftirfarandi hátt:
1. Varanleg örorka 15% kr. 5.274.000,-
2. Frádráttur vegna greiðslu úr slysatryggingu sjómanna kr. - 508.035,-
3. Frádráttur vegna greiðslu frá
Tryggingastofnun ríkisins kr. - 313.200,-
kr. 4.452.765,-
4. 25% frádráttur af samtölunni vegna
skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis kr. - 1.113.191,-
5. Miskabætur kr. 350.000,-
6. Töpuð lífeyrisréttindi .. kr. 316.400,-
SAMTALS kr. 4.005.974,-
Um 1. tölulið.
Um forsendur hér vísar stefnandi til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Hann byggi niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum, þ. á m. um 4,5 % framtíðarávöxtun. Við mat á tekjutapi er tekið mið af tekjum stefnanda, samkvæmt skattframtölum fyrir tekjuárin 1990-1992. Eftir 60 ára aldur er miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna.
Um 4. tölulið.
Frádráttur þessi er vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Sé hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands. Verði að hafa hliðsjón af því að sem sjómaður hefði stefnandi notið sérstakra fríðinda, sjómannaafsláttar, og því greitt lægri tekjuskatt og útsvar en annað fólk.
Um 5. tölulið.
Miskabótakrafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst af stöðugum verkjum í baki, stirðleika, jafnvægisleysi og svefntruflunum. Hann geti ekki lyft neinu þungu og er vinstri handleggurinn honum til lítils nýtur. Hann sé aumur í bakinu og með mikla hreyfiskerðingu. Hér sé því um að ræða einkenni sem hái stefnanda stöðugt, hvort sem er í leik eða starfi. Með hliðsjón af því verði að telja að miskabótakröfunni sé í hóf stillt.
Um 6. tölulið.
Hér vísast til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar en skv. honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku.
Aðrar málsástæður og lagarök
Varðandi skaðabótaábyrgð stefnda er vísað til IX. kafla siglingalaga nr. 34/1985, einkum 171. og 172. gr. laganna.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Krafist er dráttarvaxta frá 18. febrúar 1996, er liðinn var einn mánuður frá því að lögmaður stefnanda sendi Vélbátatryggingu Eyjafjarðar f.h. stefnda kröfu um greiðslu skaðabóta. Hafi þá enda legið fyrir allar upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Því er mótmælt af hálfu stefnda að sú staðreynd að notast var við krana á stjórnborðshlið skipsins eigi að leiða til þess að vinnubrögð teljist hafa verið óforsvaranleg, enda séu slík vinnubrögð alvanaleg og liggi ekkert fyrir um að þau séu óforsvaranleg. Þá er því mótmælt að of þungu hlassi hafi verið lyft með krananum þegar slysið átti sér stað. Þá er því alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu að þau vinnubrögð sem voru viðhöfð hafi leitt til þess að skipið hafi hallað "miklum halla" og "allt að 40 gráðum" og "slegist" utan í bryggjukantinn. Um slíkt liggi ekkert fyrir annað en einhliða staðhæfingar stefnanda.
Um það að skipið hafi verið óforsvaranlega búið segir stefndi að skipið hafi verið búið í samræmi við venju og það sem tíðkað er víða á fiskiskipaflotanum. Sænes EA-75 hafi verið með gilt haffærisskírteini þegar slysið átti sér stað og það liggi ekkert fyrir um annað en að stöðugleiki þess hafi verið í fullkomlega löglegu horfi. Stöðugleiki skipa sé eðli málsins samkvæmt afar mismunandi og þær kröfur sem gerðar verði til skips stefnda séu þær lágmarkskröfur sem gildi lögum og reglum samkvæmt.
Hvað verkstjórn varðar er einkum vísað til þess að stefnandi hafi verið vanur störfum og því hafi ekki þurft að hafa sérstakt eftirlit með honum. Þá hafi stefnanda verið kunnugt um velting skipsins og hafi þar fyrir utan ekki, að því er virðist, fengið fyrirmæli um að hefjast handa við að tína upp lausan fisk.
Þá er byggt á því að sýkna beri af fjárkröfu stefnanda vegna eigin sakar hans, eða a.m.k. lækka fjárkröfu hans verulega. Stefnandi hafi verið vanur vinnu við þær aðstæður sem voru þegar slysið varð, verið kunnugt um veltihreyfingar skipsins og tekið sjálfur um það ákvörðun að tína upp lausan fisk í lestinni.
Ekki er gerður ágreiningur um örorkustig það sem miðað er við í kröfugerð stefnanda hins vegar er frádrætti vegna hagræðis sem tengist eingreiðslu bóta og skattfrelsi þeirra mótmælt sem allt of litlum. Þá sé miskabótakrafa of há og krefst stefndi lækkunnar hennar.
Þá taki stefnandi ekkert tillit til þess að hann njóti réttar til lífeyris úr lífeyrissóði sjómanna, en slíkar greiðslur eiga að koma til lækkunar bótakröfu.
Þá er mótmælt því að um skyldu til greiðslu vaxta geti verið að ræða nema fjögur ár fyrir stefnubirtingu, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Loks er upphafsdegi dráttarvaxta mótmælt en ekki standi efni til að dæma þá fyrr en frá dómsuppsögudegi, sbr. ákvæði vaxtalaga og dómaframkvæmd. A.m.k. séu fráleitt efni til að dæma dráttarvexti frá því í desember 1996 líkt og stefnandi byggi á, enda hafi stefnandi valið að hafast ekki að í málinu fyrr en stefna var þingfest í lok apríl 1999.
Um lagarök er helst vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins um skilyrði og fjárhæð bóta, og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum, og laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi sagði frá því í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði stundað sjómennsku frá 15 ára aldri og verið á bátum frá Grenivík frá því um 1982 -3 er hann flutti þangað. Hafði hann unnið við löndun úr Sænesinu tvisvar eða þrisvar sinnum og þá við þær aðstæður að kraninn á stjórnborðshlið bátsins var notaður. Fram kemur í málinu m.a. í skýrslu Sævars Ólafssonar skipstjóra að báturinn valt töluvert og að vitnið hlutaðist til um að bætt var við kjölfestu og batnaði stöðugleiki við það. Einnig kom fram hjá vitninu að kraninn um borð var ætíð notaður er híft var. Ekki mundi vitnið eftir að báturinn hefði slegist í bryggjukantinn umrætt sinn.
Samkvæmt þessu er fram komið í málinu að Sænesið var valtur og að er verið var að hífa með umræddum krana hreyfðist báturinn mikið. Ekki liggja fyrir gögn um hversu mikill hallinn varð og ekki er sýnt fram á að búnaði skipsins hafi verið áfátt þannig að ekki væri í samræmi við reglur um búnað skipa og er ekki fallist á það með stefnanda að búnaði skips hafi verið áfátt þannig að varði stefnda bótaskyldu. Þá er ekki fallist á það með stefnanda að vinnubrögð við löndun hafi verið óforsvaranleg. Notkun kranans sem beinlínis var ætlaður til þeirra nota sem þarna ræddi um verður ekki talin stefnda sknæm. Þá er ekki sannað að of mikið hafi verið híft í einu.
Eins og að framan segir var stefnandi vanur sjómennsku og mátti vera kunnugt um þann eiginleika Sænessins að það hreyfðist töluvert við löndun. Bar honum því að gæta sérstakrar varúðar við verk það er hann vann. Með því að stefnandi hefði fylgst með hífingu hefði hann getað komið í veg fyrir slysið. Ekki er sýnt fram á það hér að menn á vegum stefnda beri ábyrgð á því að stefnandi varð fyrir slysi sínu og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi Sænes ehf skal sýkn af öllum kröfum stefnanda Hreins Skagfjörð Gíslasonar.
Málskostnaður fellur niður.