Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/2005


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabótamál
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 59/2005.

Sigfinnur Þór Lúðvíksson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Gjafsókn.

S hafði setið í gæsluvarðhaldi í 10 daga vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um skjalafals og tollsvik í tengslum við innflutningi á bifreiðum og vegna ætlaðrar aðildar hans að fjársvikum. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands var hann sýknaður af þessum sakargiftum. Í kjölfarið krafðist hann þess að íslenska ríkið greiddi honum bætur vegna miska, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsins. Það var mat dómsins að tilefni hafi verið til að S sætti gæsluvarðhaldi á því stigi rannsóknar málsins, er gæsluvarðhaldsúrskurðurinn var kveðinn upp, og að skilyrði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hafi að öðru leyti verið uppfyllt. Ekki var talið að ákvæði stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu eða annarra laga, sem S vísaði til, ættu að leiða til þess að hann ætti rétt á bótum úr hendi ríkisins. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. febrúar 2005. Hann krefst þess, að stefnda verði gert að greiða sér bætur að fjárhæð 1.350.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann.

Rétt þykir, að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigfinnur Þór Lúðvíksson, greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2004.

         Mál þetta, sem dómtekið var 8. nóvember sl., er höfðað 2. mars sl. af Sigfinni Þór Lúðvíkssyni, [...], Miðhúsum 12, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.350.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags. Krafist er að stefndi greiði stefnanda málskostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn 30. mars 2004. Þá er og krafist að máls­kostnaður beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla ofangreindra vaxtalaga frá dóms­uppsögu til greiðslu­dags.

         Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

 

         Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

         Með úrskurði dómsins 30. október 2002 var stefnanda gert að sæta gæsluvarð­haldi allt til föstudagsins 8. nóvember það ár. Úrskurðurinn er studdur þeim rökum að stefnandi væri grunaður um brot gegn ákvæðum XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 248. gr., sem varðað geti fangelsisrefsingu. Hann hafi neitað sakargiftum en rannsóknargögn, sem liggi fyrir, veki hins vegar grunsemdir um aðild hans að málinu þannig að telja verði að rökstuddur grunur hafi fram komið um að hann tengdist meintum brotum. Með hliðsjón af því að rannsókn málsins væri á byrjunarstigi og hætta á því að kærði gæti torveldað hana fari hann frjáls ferða sinna, með því að hafa samband við aðra sem kunni að tengjast meintum brotum og hann hafi tengsl við, þættu skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 vera fyrir hendi og bæri því að taka gæsluvarðhaldskröfuna til greina. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 1. nóvember sama ár. Í dóminum er því lýst að við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. október s.á. hafi verið haft eftir A, sem grunaður væri um að eiga aðild að ætluðum brotum stefnanda, að fyrir tilstuðlan stefnanda hafi verið unnt að nýskrá um tuttugu tjóna­bifreiðar án þess að viðgerð á þeim hefði verið lokið. Hann hafi sagst ekki vita með hvaða hætti það hafi verið gert. Við staðfestingu úrskurðarins er í dómi Hæstaréttar vísað til þessa og forsendna úrskurðarins að öðru leyti.

         Með ákæru 3. júlí 2003 var höfðað mál á hendur stefnanda ásamt tveimur öðrum einstaklingum. Þar var stefnanda gefið að sök að hafa framið skjalafalsbrot og tollsvik með því að hafa við tollmeðferð hjá tollgæslunni á Selfossi á notuðum og skemmdum bifreiðum, sem hann hafi keypt í Bandaríkjunum og flutt inn í nafni Impex ehf., lagt fram innborgunarkvittanir eða vörureikninga sem hefðu verið falsaðir frá rótum í nafni seljanda bifreiðanna, Imports Motors V&E Inc., þar sem kaupverð hverrar bifreiðar hafi verið tilgreint lægra en það hefði í raun verið og hafi hann með því komið sér undan greiðslu aðflutnings­gjalda, samtals að fjárhæð 10.219.481 krónu, en þessum meintu brotum er nánar lýst í ákærunni. Einnig var hann ákærður fyrir bókhaldsbrot, en hann hafi sem framkvæmdastjóri Impex ehf. látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhaldsgögn, færa bókhald og gera ársreikning fyrir félagið í samræmi við það sem lög áskilji vegna ársins 1998. Þá voru honum ásamt meðákærðu gefin að sök fjársvik, þegar þau hefðu í félagi í tiltekin fimm skipti blekkt Sparisjóð Hafnarfjarðar til þess að kaupa tilgreind skuldabréf gegn tryggingu með veði í bifreiðum OI-630, SL-482, RF-679, RF-496 og MR-159, með því að leyna því að bifreiðarnar væru skemmdar og að raunvirði langt undir lánsfjárhæðum en öll skuldabréfin hafi verið í vanskilum eins og nánar er rakið í ákærunni. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 20. nóvember 2003 var stefnandi sakfelldur fyrir bókhalds­brot, sem hann hafði viðurkennt að hafa framið, en brotin voru talin varða við 1., 2. og 5. tl. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bók­hald, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Stefnandi var hins vegar sýknaður af öðrum ákæruatriðum.

         Stefnandi krefst bóta úr hendi stefnda vegna gæsluvarðhaldsins, sem hann þurfti að sæta á framangreindu tímabili, en stefnandi telur að ekki hafi verið heimilt að beita því. Hvorki hafi verið kominn fram rökstuddur grunur um að ákærði hefði framið brotin, sem hafi verið til rannsóknar þegar gæsluvarðhaldinu var beitt, né hafi verið ástæða til að ætla að stefnandi myndi torvelda rannsóknina næði gæsluvarðhaldskrafan ekki fram að ganga. Af stefnda hálfu er bótakröfu stefnanda mótmælt en stefndi heldur fram að öll skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi hafi verið uppfyllt.

 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að með bréfi ríkistollstjóra 16. febrúar 2000 hafi innflutningi stefnanda á ákveðnum bifreiðum verið vísað til opinberrar rann­sóknar. Þá hefði þegar farið fram þó nokkur rannsókn vegna hins meinta brots á vegum ríkistollstjóra í samstarfi við bandarísk tollyfirvöld. Um hafi verið að ræða 24 bifreiðar sem fluttar hafi verið til landsins frá Bandaríkjunum á árinu 1998 og toll­afgreiddar hjá tollstjóranum á Selfossi. Samkvæmt útreikningi miðað við upplýsingar um söluverð bifreiðanna frá bandarískum tollyfirvöldum hafi verið talið að vangreidd aðflutningsgjöld, vörugjald og virðisaukaskattur næmi samtals 10.219.481 krónu.

         Stefnandi hafi verið handtekinn 29. október 2002 kl. 1110 þar sem hann hafi verið staddur í bifreið sinni við Smiðjuvegi 70 í Kópavogi. Ástæða handtökunnar hafi annars vegar verið grunur um tollsvik og skjalafals við ofan­greindan innflutning, en stefn­anda hafi verið gefið að sök að hafa falsað skjöl um kaupverð bifreiðanna og fram­vísað þeim til íslenskra tollyfirvalda. Hins vegar hafi ástæða handtökunnar verið meint hlutdeild stefnanda í fjársvikum með kaupum á fimm tjónabifreiðum, þremur frá Banda­ríkjunum á árunum 1997 og 1999 og tveimur af Vátryggingafélagi Íslands árið 1999 og lántökum hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar með veði í téðum bifreiðum. Handtakan hafi verið talin nauðsynleg til að tryggja að stefnandi hefði ekki kost á að spilla hugsan­legum sönnunargögnum.

         Ríkislögreglustjóri hafi lagt fram kröfu um gæsluvarðhald 30. nóvember 2002 með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krafan hafi verið byggð á því að þrjár hinna innfluttu bifreiða, RF-679, RF-469 og MR-159, hafi verið fluttar inn notaðar frá Bandaríkjunum og fram hafi komið í skráningarferli þeirra allra að um tjónabíla hafi verið að ræða. Kærði hafi haft milligöngu um innflutning og tollafgreiðslu bifreiðanna sem hafi farið fram hjá embætti sýslu­mannsins á Selfossi. Að lokinni tollafgreiðslu hafi tvær þessara bifreiða, RF-679 og RF-469, verið skráðar á nafn X ehf., en forráðamenn félagsins hafi verið þau A og B. Í framhaldi af þessu hafi fyrirtæki í eigu stefnanda, Anco ehf., gert tilboð í viðgerð á bifreiðunum. Skömmu síðar hafi þær verið nýskráðar, kaskótryggðar og veðsettar fyrir lánum að fjárhæð 5.825.000 krónur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Ekki hafi verið greitt af lánunum og þegar ganga hafi átt að bifreiðunum hafi þær ekki fundist og stefnandi ekki getað eða viljað benda á þær. Bifreiðin MR-159 hafi verið flutt inn á vegum stefnanda en toll­afgreidd og forskráð á nafn B. Við tollafgreiðslu hjá embætti sýslumannsins á Selfossi hafi skattflokki bifreiðarinnar verið breytt úr skattflokki 79 (tjónabíll) í skatt­flokk 00 (nýr bíll). Bifreiðin hafi verið kaskótryggð og veðsett fyrir láni að fjárhæð 3.600.000 krónur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Lánið hafi verið tekið í nafni B. Þegar ganga hafi átt að bifreiðinni til fullnustu greiðslu hafi stefnandi ekki getað eða viljað vísa á hana. Einnig hafi verið byggt á meintu broti stefnanda hvað varði bifreið­ina OI-630. Hún hafi verið keypt í nafni Anco ehf. af Vátrygginga­félagi Íslands hf. með tjóni eftir umferðaróhapp. Bifreiðin hafi síðan verið seld B og í framhaldi af því tryggð og veðsett fyrir láni að fjárhæð 900.000 krónur. Þegar ganga hafi átt að bifreiðinni til fullnustu greiðslu hafi bifreiðin ekki fundist og stefnandi hafi ekki getað eða viljað upplýsa um hvar hún væri niðurkomin þrátt fyrir að B hafi bent á að hann hefði vörslur bifreiðarinnar. Loks hafi verið byggt á meintu broti stefnanda varðandi bifreiðina SL-482. Stefndi hafi átt að hafa keypt hana í nafni X ehf. af Vátryggingafélagi Íslands hf. með tjóni eftir umferðaróhapp. Hún hafi svo verið tryggð og veðsett fyrir láni að fjárhæð 1.250.000 krónur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Bifreiðin hafi ekki fundist þegar ganga hafi átt að henni til fullnustu skuldarinnar og stefnandi hafi ekki getað eða viljað upplýsa um hvar hún væri niðurkomin.

         Framburður stefnanda varðandi ofangreindar sakargiftir hafi verið skýr allt frá fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Varðandi bifreiðarnar RF-679 og RF-469 hafi hann haldið því fram að hann hafi gert við bifreiðarnar en eftir það vissi hann ekkert um afdrif þeirra. Um bifreiðina MR-159 hafi hann haldið því fram að til hafi staðið að hann gerði við hana en þar sem varahluti hafi vantað hafi ekkert orðið af því. Bifreið­ina OI-630 hafi hann afhent B án þess að viðgerð hafi farið fram og vissi hann ekki um frekari afdrif hennar. Hann hefði aldrei gert við bifreiðina SL-482 og líklegast hefði henni verið fleygt.

         Samkvæmt kröfu embættis ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald hafi verið talinn rökstuddur grunur um að kærði tengdist öllum fimm bifreiðunum. Því hafi verið haldið fram að bifreiðarnar hafi aldrei verið annað en bílhræ sem ekki hafi verið gert við, heldur hafi þær verið notaðar sem andlag fjársvika með einum eða öðrum hætti. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar hafi enn beinst grunsemdir að toll­verðinum sem hafi tollafgreitt bifreiðarnar. Auk þess hafi legið fyrir að yfirheyra þá sem taldir hafi verið samsekir. Ríkislögreglustjóri hafi haldið því fram að gæsluvarð­hald yfir stefnanda væri nauðsynlegt þar sem hætta hefði verið á að hann gæti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka, fengi hann að fara frjáls ferða sinna.

         Stefnandi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 30. október 2002 og hafi hann sætt því til 8. nóvember sama ár í samtals 10 daga. Dómur hafi fallið 20. nóvember 2003 í máli stefnanda nr. S-368/2203: Ákæruvaldið gegn B, Sig­finni Þór Lúðvíkssyni og A. Í dóminum hafi stefnandi verið sýknaður af öllum ofangreindum brotum sem hafi verið grundvöllur gæsluvarð­hald­s­ins. Ekkert þótti hafa fram komið sem renndi stoðum undir að stefnandi hefði tekið þátt í að blekkja Sparisjóð Hafnarfjarðar við veðsetningu bifreiðanna varðandi suma ákæruliðina og varðandi aðra ákæruliði að sparisjóðurinn hefði yfirleitt verið blekktur.

         Þvingunarráðstafanir þær sem heimilaðar séu í lögum nr. 19/1991 feli í sér að skert séu mikilvæg réttindi manna á borð við persónufrelsi, friðhelgi einkalífs eða eignarétt, sem að öðru jöfnu njóti ríkrar réttarverndar að lögum. Gæsluvarðhald sé þvingunar­ráðstöfun sem skerði með afgerandi hætti persónufrelsi manna. Því verði að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt auk þess sem ákvæði um heimild til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald verði að skýra þröngt.

         Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé frumskilyrði gæsluvarð­halds að fram sé kominn rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið verknað sem fangelsis­refsing sé lögð við. Svipað ákvæði sé í c-lið 1. mgr. 5. gr. mann­réttinda­sáttmála Evrópu. Skilyrðið um rökstuddan grun verði að skýra þröngt. Ekki megi því beita gæsluvarðhaldi ef ekkert, sem hönd sé á festandi og fram hafi komið í málinu, bendi til að viðkomandi hafi framið afbrot.

         Þrátt fyrir að ríkislögreglustjóri hafi haft upplýsingar um að stefnandi hefði útvegað ofangreindar tjónabifreiðir fyrir X ehf. annars vegar og B hins vegar hafi ekkert haldbært í gögnum málsins tengt hann við hina eiginlegu brotastarfsemi, hvorki við það að hafa svikið út kaskótryggingu á bifreiðina hjá Sjóvá-Almennum, né að hafa blekkt Sparisjóð Hafnarfjarðar til að veita lán út á veð í bifreiðunum langt umfram verðmæti eða að hafa látið bifreiðarnar hverfa. Það eina sem ríkis­lögreglu­stjóri hafi getað byggt á um þetta hafi verið fram­burður A, en þeim framburði hafi margsinnis verið breytt við meðferð málsins. 

         Stefnandi byggi bótakröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið kominn fram nægilega rökstuddur grunur um að hann hefði framið brot sem fangelsisrefsing væri lögð við þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Frum­skilyrði gæsluvarðhalds­vistar hafi því ekki verið fullnægt og þegar af þeirri ástæðu hafi ekki átt að beita því. Við rannsókn málsins hefði lögreglan gert margvísleg mistök og dregnar hefðu verið rangar ályktanir af því sem fram hefði komið. Ekki hafi verið aflað vörureikninga, sem leggja hafi þurft fram við útflutning bifreiðanna frá Banda­ríkjunum, eða gagna um greiðslu kaupverðs bifreiðanna. Engra gagna um útflutning þeirra hefði verið aflað hjá flutningsaðilum. Misræmið sem fram hefði komið í gögnum málsins um ákveðin atriði hefði heldur ekki verið nægilega kannað. Varðandi misræmi á kaupverði hafi verið byggt á markaðsverði óskemmdra bifreiða þegar ríkistollstjóri hafi talið að of lágt kaupverð hefði verið gefið upp á hinum innfluttu bifreiðum, en þær hefðu allar lent í tjóni og hefði kaupverð þeirra því verið lægra en ella. Ríkistollstjóri hefði ekki kannað ástand bifreiðanna sem stefnandi flutti inn. Engar skýringar hefðu komið fram á misræmi varðandi dagsetningar á afhendingu hinna seldu bifreiða. Hvorki hefði verið aflað bandarískra skráninga­skírteina né annarra gagna frá skráningastofu og engar formlegar lögregluskýrslur hefðu verið teknar af hinum bandarísku seljendum bifreiðanna. Hefði þetta allt saman verið gert í tæka tíð hefði legið fyrir að engin þörf hafi verið á að beita gæslu­varðaldinu sem stefnandi hafi verið látinn sæta. Ekkert benti til að stefnandi hefði falsað skjölin, sem fyrir lágu við tollafgreiðslu bifreiðanna, eða að hann hafi haft vitneskju um annað en að þau væru rétt.    

         Varðandi það sérstaka skilyrði sem gæsluvarðhaldsúrskurðinn hafi verið byggður á, um hættuna á að rannsókn yrði torvelduð, hafi heldur ekkert verið við rannsókn eða í gögnum málsins sem hafi gefið ástæðu til að ætla að stefnandi gæti torveldað rann­sókn málsins. Öll gögn varðandi bifreiðarnar er tengdust A hafi verið í bók­haldi stefnanda sem hafi verið í vörslum skattayfirvalda eða skiptastjóra. Ekki sé því hægt að sjá hvaða möguleika stefnandi hafi átt að hafa til að spilla rannsókninni á meintum tollalagabrotum, þar sem þegar hafi verið búið að rannsaka það mál ítarlega og taka skýrslur af þeim einu aðilum sem hafi tengst þeim viðskiptum fyrir utan kæranda, þ.e.a.s. hinum erlendu seljendum. Bótakrafa stefnanda sé því í öðru lagi byggð á því að sérstöku skilyrði um hættu á að rannsókn yrði torvelduð hafi ekki verið fullnægt.

         Bótakrafa stefnanda byggi á þeim mikla miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar. Miski stefnanda felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþæg­indum vegna framangreindrar rannsóknar og frelsissviptingar. Miðist miskabóta­krafan við 150.000 krónur fyrir hvern dag í einangrun. Eðli sínu samkvæmt sé frelsissvipting sem þessi alvarleg skerðing á mannréttindnum auk þess sem hún sé mikil andleg þrekraun fyrir þann sem fyrir henni verði. Stefnandi hafi sætt einangrun, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni í gæslu­varðhaldsvistinni. Hann hafi því haft áhyggjur af ættingjum og ástvinum sínum og hafi átt við andlega van­líðan og svefnleysi að stríða. Ekki sé með neinu móti hægt að halda því fram að stefnandi hafi á nokkurn hátt stuðlað að handtökunni eða gæsluvarðhaldsvistinni þar sem framburður hans hafi ávallt verið skýr og afdráttarlaus.

         Framangreindar kröfur séu byggðar á 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnar­skrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 21. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála, einkum 175. og 176. gr. Einnig sé byggt á 5. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um gjalddaga bótakröfu og dráttarvexti vísist til 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af réttargæsluþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Málið sé höfðað fyrir dóminum með vísan til 32. gr. laga nr. 91/1991.

 

         Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi vísi til þess að stefnandi krefjist í máli þessu miskabóta að fjárhæð 1.350.000 króna auk dráttarvaxta frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags vegna gæslu­varð­­halds­vistar sem hann hafi sætt samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2002 til 8. nóvember sama ár. Kröfu sína reisi stefnandi á því að með dómi 20. nóvember 2003 hafi hann verið sýknaður af öllum brotum sem hafi verið grundvöllur gæsluvarðhaldsins. Hvorki hafi verið kominn fram nægilega rökstuddur grunur um að hann hefði framið brot sem fangelsisrefsing væri lögð við þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum né hafi verið fullnægt því skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir beitingu gæsluvarðhalds að hætta væri á því að hann gæti torveldað rannsókn málsins. Stefnandi haldi því fram að engum haldbærum gögnum hafi verið til að dreifa er tengdu hann við hina eiginlegu brotastarfsemi og öll gögn varðandi bifreiðar hafi verið í bókhaldi hans sem hafi verið í vörslum skattyfir­valda eða skiptastjóra. Um lagarök vísi stefnandi til 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnar­skrár og 21. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 175. og 176. gr. Einnig vísi stefnandi til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þessum sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum vísi stefndi eindregið á bug. Samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála megi taka til greina kröfu um bætur hafi sakborningur verið sýknaður með óáfrýj­uðum eða óáfrýjanlegum dómi vegna þess að sú háttsemi sem hann hafi verið borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær hafi sakborningurinn valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Samkvæmt 176. gr. megi, að uppfylltum skilyrðum 175. gr., dæma bætur meðal annars vegna gæsluvarðhalds, ef lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hafi verið eins og á stóð nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða að þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættu­legan, særandi eða móðgandi hátt. Ákvæði mannréttindasáttmála veiti ekki ríkari bótarétt en framan­greind laga­ákvæði.

         Stefndi mótmæli því að stefnandi uppfylli skilyrði um bótarétt samkvæmt 176., sbr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála vegna þeirrar gæsluvarðhaldsvistar er hann hafi sætt frá 30. október til 8. nóvember 2002 í þágu rannsóknar opinbers máls. Stefnandi hafi verið grunaður um skjalafals og tollsvik við inn­flutning á 24 bílum frá Bandaríkjunum á árinu 1998 og að hann hafi komist með þeim hætti hjá því að greiða 10.219.481 krónu í aðflutningsgjöld. Ætluð brot varði við 155. gr. og/eða 156. gr. almennra hegningarlaga sem geti varðað fangelsi allt að 8 árum og gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi. Þá hafi stefnandi verið grunaður um fjársvik sem geti varðað allt að sex ára fangelsi, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í félagi við B og A í fimm skipti blekkt Sparisjóð Hafnarfjarðar til að kaupa skuldabréf gegn tryggingu með veði í fimm tilgreindum bifreiðum með því að leyna að þær væru skemmdar og að raunvirði væri langt undir lánsfjárhæðum.

         Rannsókn á ætluðum tollsvikum stefnanda við innflutning á 24 bílum frá Banda­ríkjunum hafi hafist hjá ríkistollstjóra. Með símbréfi 1. febrúar 1999 hafi þess verið farið á leit að bandarísk tollyfirvöld öfluðu upplýsinga um hvort uppgefið söluverð sam­kvæmt kvittunum, er lágu til grundvallar tollafgreiðslu, væri rétt. Með bréfi ríkistoll­stjóra 26. apríl sama ár hafi bandarískum tollyfirvöldum verið sent afrit af flutnings­skjölum og kvittunum varðandi umræddan innflutning á bifreiðum til lands­ins. Bandarískir starfsmenn tollyfirvalda hafi yfirheyrt Hamlet Abnous, einn af eig­endum Import Motors Inc., 6. október s.á. Að ósk bandarískra tollyfirvalda hafi fyrir­tækið látið í té afrit af reikningum fyrir þær bifreiðar sem stefnandi hafi keypt af félag­inu. Samkvæmt þeim reikningum hafi söluverð bifreiðanna verið umtalsvert hærra en komi fram í þeim gögnum sem framvísað hafi verið gagnvart íslenskum toll­yfir­völdum. Meðfylgjandi bandarísku rannsóknarskýrslunni hafi verið upplýsingar um nánar tilgreindar 31 bifreið ásamt söluverði 28 þeirra og uppgefnu verði 25 þeirra. Þá hafi verið aflað upplýsinga um hvernig hluti af þessum bifreiðum hefðu verið greiddar. Með bréfi ríkistollstjóra 16. febrúar 2000 hafi síðan innflutningi á 24 bifreiðum verið vísað til opinberrar rannsóknar. Samkvæmt útreikningi miðað við upplýsingar um söluverð bifreiðanna frá bandarískum tollyfirvöldum hafi verið talið að vangreidd aðflutningsgjöld, vörugjald og virðisaukaskattur næmu samtals 10.219.481 krónu. Tveir íslenskir lögreglumenn hafi farið ásamt starfsmanni hjá bandarískum tollyfir­völdum á starfsstöð Import Motors í New York 21. og 22. maí 2001 og hafi þá meðal annars verið tekin skýrsla af Hamlet Abnous og Valot Atakhan­ien, fyrirsvars­mönnum félagsins.

         Rannsókn á ætlaðri hlutdeild stefnanda í fjársvikum gegn Sparisjóði Hafnar­fjarðar hafi hafist 5. mars 2002 er Sparisjóðurinn hafi með fimm kærubréfum kært til ríkis­lögreglu­stjóra fjársvik, en kærur hafi beinst að A, B og stefnanda. Í kærum hafi því verið lýst að gefin hefðu verið út skulda­bréf með veði í fimm bifreiðum, en fjórar þeirra hefðu ekki fundist þegar leita átti fullnustu í veðinu. Ein bifreið hafi fundist á verkstæði í Reykjavík í mjög slæmu ástandi. Enn fremur komi fram að þrjár þessara bifreiða hefðu verið fluttar til landsins að því að talið var eftir að hafa orðið fyrir tjóni. Tvær af bifreiðunum hafi hins vegar verið keyptar af Vátryggingafélagi Íslands hf. en þær hafi einnig verið skemmdar. Umrædd skuldabréf hafi verið keypt af Sparisjóði Hafnarfjarðar á tíma­bilinu frá apríl til desember 1999 og í öllum tilvikum hafi viðskiptin gengið þannig fyrir sig að sótt hafi verið um lán hjá Sparisjóðnum gegn veði í bifeiðunum. Bifreiðarnar hafi ekki verið skoðaðar af hálfu Sparisjóðsins en kaskótrygging hefði verið tekin vegna allra bifreiðanna hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Tvö af skulda­bréfunum hafi verið gefin út af B, en þrjú þeirra af X ehf. með sjálfsskuldarábyrgð B. Samkvæmt gögnum málsins hefði stefnandi haft milli­göngu um innflutning og toll­afgreiðslu innfluttu bílanna og hefði keypt tjónabílana af VÍS ýmist í nafni Anco ehf., sem hafi verið fyrirtæki í hans eigu, eða í nafni X ehf., en B og A hefðu verið forráðamenn þess félags.

         Til grundvallar kröfu ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir stefnanda hafi legið rökstuddur grunur um að stefnandi hefði sem framkvæmdastjóri og einkaeigandi Impex ehf. gerst sekur um skjalafals og brot á tollalögum með því að hafa framvísað röngum og eða fölsuðum vörureikningum við innflutning 24 notaðra bíla frá Banda­ríkjunum á árinu 1998 og komist með þeim hætti hjá því að greiða 10.919.481 krónu í aðflutningsgjöld. Hafi sú rannsókn meðal annars beinst að því að upplýsa um skráningu hjá tollyfirvöldum á tveimur bifreiðum, sem samkvæmt gögnum frá Banda­ríkjunum hafi verið tjónlausar, en á tollpappírum hafi þær verið skráðar með tjóni. Grunur hafi einnig verið um að reikningar, sem tollafgreiðsla hafi verið grund­völluð á, hafi verið falsaðir um kaupverð þar sem það hafi verið miklu lægra en raunverulegt kaupverð. Grunsemdir um þátttöku í broti stefnanda hafi beinst að toll­verðinum sem hafi tollafgreitt bifreiðarnar. Í annan stað hafi rannsókn beinst að meintri hlutdeild stefnanda í ætluðum fjársvikum B og A með kaupum á fimm tjóna­bifreiðum og lán­tökum hjá Sparisjóði Hafnar­fjarðar gegn veði í bifreið­unum sem talið var að aldrei hafi verið annað en bílhræ sem notaðar hafi verið sem andlag fjár­svikanna með einum eða öðrum hætti.

         Þegar krafan um gæsluvarðhald var lögð fram 30. október 2002 hafi verið lagðir fyrir héraðsdóminn vörureikningar, sem bandarísk tollyfirvöld hefðu aflað frá seljanda bifreiðanna 24 þar í landi, Import Motors, þar sem fram komi m.a. að sölu­verð bifreiðanna hefði verið mun hærra en stefnandi hefði gefið upp við tollyfirvöld hér á landi. Þá hafi einnig verið lögð fyrir dóminn skýrsla, sem bandarísk tollyfirvöld hafi tekið af seljendum bifreiðanna að beiðni íslensku lögreglunnar, þar sem seljendurnir hafi staðfest að þeir vörureikningar sem bandarísk tollyfirvöld hefðu aflað hjá þeim væru réttir og á þeim kæmi fram rétt söluverð bifreiðanna. Einnig hafi verið lögð fyrir héraðsdóminn fimm kærur Sparisjóðs Hafnar­fjarðar vegna ætlaðra auðgunarbrota stefnanda í tengslum við kaup á fimm bifreiðum. Ein þessara bifreiða hafi verið bifreiðin SL-482. Stefnandi hafi keypt þá bifreið í nafni X ehf. af Vátryggingar­félagi Íslands. Þessi bifreið hafi ekki fundist. Fyrir héraðs­dóminum hafi legið skýrsla af vitninu Hlöðveri Hjálmarssyni frá 8. október 2002. Þar hafi hann sagst hafa selt stefnanda framhluta bifreiðar ME-992, en hún hafi verið sömu tegundar og bifreiðin SL-482, og á framhlutanum hafi verið verksmiðjunúmer bifreiðarinnar. Bifreiðin ME-992 hafi verið í eigu vitnisins, sem hafi borið að bifreiðin hefði aldrei farið á götuna, enda hafi vitnið aðeins ætlað að nota hana í varahluti. Hins vegar hafi bifreiðin ME-992 síðast verið skráð eign Anco ehf., fyrirtækis stefnanda. Þetta hafi gefið lögreglu rökstuddan grun um að stefnandi væri að eiga við bifreiðar með þeim hætti að uppruni þeirra yrði ekki rakinn. Bifreiðin OI-630 hafi verið keypt af Anco ehf. af Vátrygginga­félagi Íslands, en 6. desember 1999 hafi bifreiðin verið seld B, þá sambýliskonu A. Skömmu síðar hafi bifreiðin verið sett að veði fyrir láni hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. B hafi sagt við skýrslu­töku hjá skiptastjóra á árinu 2001 að hún teldi bifreiðina vera hjá stefnanda. Bifreiðarnar RF-679, RF-496 og MR-159 hafi stefnandi keypt í Bandaríkjunum og flutt hingað til lands. Samkvæmt aðflutnings­skýrslum vegna bifreiðanna RF-679 og RF-496 hafi þær verið fluttar inn af X ehf. og hafi stefnandi ritað á skýrslurnar sem prókúru­hafi félagsins. Varðandi bifreiðina MR-159 hafi stefnandi áritað sölunótu vegna kaupa á bifreiðinni sem hann hafi annast. Legið hafi fyrir að stefnandi hafi verið í nánu samstarfi við B og A við kaup og/eða inn­flutning framan­greindra bifreiða.

         Stefnandi hafði verið yfirheyrður um bæði sakarefnin daginn áður, 29. október, og hafi tvær lögregluskýrslur verið bornar undir hann við fyrirtöku gæslu­varðahalds­kröfunnar. Jafnframt hafi fulltrúi lögreglustjóra skýrt frá því að B hefði borið hjá lögreglu að tvö bílhræ væru í fórum stefnanda. Sú fullyrðing hafi verið borin undir stefnanda en hann hafi talið hana ranga.

         Rannsókn framangreindra brota hafi verið á frumstigi og fyrir hafi legið að yfir­heyra þá sem hafi verið taldir samsekir stefnanda, þau B, A og C tollvörð. Í forsendum úrskurðar héraðsdóms 30. október, sem fallist hafi á að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi, komi fram að stefnandi hafi verið grunaður um brot gegn ákvæðum XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 248. gr., sem varðað geti fangelsis­refsingu. Þar segi enn fremur að stefnandi hafi neitað sakargiftum. Rannsóknargögn, sem fyrir liggi veki hins vegar grunsemdir um aðild hans að málinu þannig að telja verði að rök­studdur grunur sé fram kominn um að hann tengdist meintum brotum. Með hliðsjón af því að rannsókn væri á byrjunar­stigi og hætta á því að kærði gæti torveldað rannsókn málsins, fari hann frjáls ferða sinna, með því að hafa samband við aðra sem kunni að tengjast meintum brotum og hann hafi tengsl við, þyki skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi og beri að taka til greina kröfu ríkis­lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist var. Stefnandi hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem hafi staðfest hann 1. nóvember 2002.

         B hafi verið handtekin og yfirheyrð 30. október. Í framburði hennar komi fram að hún hafi vitað að stefnandi og A væru saman í því að flytja inn einhverja bíla og fá lán út á þá en hún hefði engin samskipti við stefnanda. Henni hafi verið sýnd tilkynning um eigandaskipti bifreiðarinnar OI-630, dagsett 6. desember 1999, þar sem komi fram að hún hefði keypt bifreiðina af Anco ehf., en hún hafi ekki kannast við skjalið. Henni hafi verið kynnt úr framburði stefnanda hjá lögreglu 29. október þar sem fram komi að hann hefði selt A og henni bifreiðina OI-630 og að hann hefði ekki verið búinn að gera við bifreiðina þá. Hún hafi ekkert kannast við þetta og hún hafi ekki vitað hvar bifreiðin væri niðurkomin, en A hafi sagt henni að bifreiðin væri hjá stefnanda. Hún hafi heldur ekki vitað hvar bifreiðin RF-679 væri niðurkomin, en A hefði haldið því fram með þá bíla sem skráðir væru á X ehf. og ekki hefðu fundist að þeir væru hjá stefnanda. Henni hafi verið kynnt afsal 11. júní 1999 þar sem VÍS selji og afsali X ehf. bifreiðinni SL-482 og hafi bifreiðin verið skráð tjónabifreið, en stefnandi hefði undirritað það fyrir hönd X ehf. Hún hefði svarað því til að þetta skjal hefði hún aldrei séð og stefnandi hefði enga heimild haft til að kaupa bifreið fyrir hönd X ehf.

         A hafi verið yfirheyrður um sakarefnið sama dag. Hann hafi greint frá því að einu til tveimur árum eftir að hann hafi opnað bílasölu árið 1998 hefðu þeir stefnandi í sameiningu farið út í að kaupa tjónabifreiðar erlendis frá í nokkrum mæli auk þess sem þeir hefðu keypt nokkrar tjónabifreiðir frá íslenskum tryggingafélögum. Hann hafi sagt að fyrir tilstuðlan stefnanda hafi verið hægt að skrá bifreiðarnar án þess að viðgerð á þeim hefði verið lokið. Þetta hafi átt við um á að giska 20 bifreiðar. Honum væri ekki kunnugt um hvernig stefnandi færi að þessu né hvaða aðferðum hann hefði beitt. Hann hafi spurt stefnanda að þessu en hann ekki viljað segja það. Aðspurður hvar bifreiðin OI-630 væri niðurkomin kvaðst hann ekkert um það vita og aldrei hafa séð þá bifreið. Honum vitanlega hafi bifreiðin síðast verið í vörslu stefnanda. Hann vissi ekki hvort stefnandi hefði gert við bifreiðina RF-679 en hann hefði aldrei séð þá bifreið. Hann hafi greitt fyrir viðgerð en aldrei fengið bílinn afhentan. Framburður stefnanda þess efnis að hann hefði afhent A bifreiðina viðgerða sé rangur. A hafi ekki vitað hvar bifreiðin var niður komin en honum vitanlega hafi bifreiðin síðast verið í vörslum stefnanda. Borinn hafi verið undir hann framburður stefnanda þess efnis að hann hefði afhent A bifreiðina RF-496 við­gerða og hafi A sagt þann framburð rangan. Aðspurður hvort hann vissi hvar bifreiðin væri niðurkomin hafi hann svarað því til að hann vissi það ekki og hefði aldrei séð bifreiðina. Honum vitanlega hafi bifreiðin síðast verið í vörslu stefnanda.

         Yfirheyrslum yfir A hafi verið haldið áfram daginn eftir. Honum hafi verið sýnt ljósrit af afsali Vátrygginga­félags Íslands 11. júní 1999 þar sem bifreiðin SL-482 hafi verið seld X ehf. og sögð skemmd eftir umferðaróhapp. Hann hafi verið spurður hvort hann kannaðist við að X ehf. hefði keypt bifreiðina. Hann hafi ekki munað eftir því sérstak­lega, honum hafi ekki verið kunnugt um að bifreiðin hafi verið keypt í nafni X ehf. Hann hafi ítrekað að hann hefði aldrei séð bifreiðina og ekki vitað kaupverð hennar enda staðið í þeirri meiningu að hann hefði verið að kaupa bifreið af stefnanda. Hann hafi verið spurður hvort hann vissi hvar bifreiðin væri niðurkomin og hafi hann ekki vitað það, en honum vitanlega hafi bifreiðin síðast verið í vörslu stefnanda. Í yfirheyrslu yfir honum varðandi bifreiðina MR-159 hafi honum verið sýnt skoðunarvottorð Athugunar ehf. 13. apríl 1999. Þar komi fram að ekki væru gerðar athugasemdir við hana vegna útlitsskaða. A hafi ritað nafn sitt sem stað­festingu viðskiptavinar um framkvæmd skoðunar. Hann hafi kannast við vottorðið en hann hafi ekki vitað hvernig skoðun hafi verið gerð, stefnandi hafi séð um það. Hann hefði kannast við að hafa komið á skoðunarstofu Athugunar og greitt tolla, bifreiða­gjöld og fleira. Aðspurður hvort bifreiðin hafi verið viðgerð á þessum tíma hafi hann kveðið svo ekki hafa verið. Bifreiðin MR-159 hafi aldrei farið í skoðunar­stöðina Athugun. Aðspurður hvaða bifreið hefði farið í umrædda skoðun hafi hann svarað því til að hann vissi það ekki eða hvort einhver bifreið hafi yfir höfuð farið í skoðun. Stefnandi hafi alfarið séð um að koma bifreiðinni á skrá. Hann hafi verið spurður hvort honum hafi á þeim tíma verið kunnugt um að bifreiðin MR-159 hafi ekki farið í umrædda skoðun þrátt fyrir að hafa greitt gjöld af henni og hafi hann svarað því til að honum hafi verið kunnugt um þetta.

         C tollvörður hafi verið yfirheyrður sem sakborningur 4. nóvember sama ár vegna ætlaðra auðgunarbrota stefnanda, B og A við innflutning, toll­afgreiðslu og skráningu og veðsetningu bifreiðarinnar MR-159. Í gögnum málsins komi fram að um tjónabíl hafi verið að ræða, en í gögnum varðandi toll­afgreiðslu bifreiðar­innar hafi ekki verið að finna neina skoðunarskýrslu. Í skráningarferli bifreiðarinnar komi fram að hún hafði ekki verið skráð í skattflokk 70 eins og eðlilegt hefði verið þar sem um tjónabíl hafi verið að ræða. Yfirheyrslu hafi verið frestað og farið með C á skrifstofu tollgæslunnar á Selfossi þar sem hann hafi leitað að gögnum varðandi forskráningu og tollafgreiðslu bifreiðarinnar án þess að finna þar skoðunarskýrslu eða ljósmyndir af bifreiðinni. Hann hafi mætt aftur til skýrslutöku vegna málsins 7. nóvember þar sem hann hafi óskað eftir að koma að bókun vegna atriðis sem honum hefði láðst að nefna í fyrri skýrslu. Bifreiðin hafi skemmst í gámi Samskipa við flutning frá Bandaríkjunum. Hann hefði talið ástæðu þess að bifreiðin hafi ekki verið sett í skattflokk 70, ekki hafi verið gerð aðvinnslu­skýrsla og að ekki hafi verið teknar ljósmyndir af bifreiðinni vera þá að Könnun ehf. hafi skoðað bifreiðina vegna tjónsins sem hafi orðið á henni í gámi Samskipa.

         Stefnandi hafi verið yfirheyrður vegna ætlaðra fjársvika 6. nóvember 2002 en þá hafi honum verið kynnt að B og A hefðu verið yfirheyrð varðandi sakar­giftirnar og að við þær yfir­heyrslur hafi komið fram verulegt ósamræmi í fram­burði hans frá 29. október og framburðum A 30. og 31. október og hafi þau atriði verið borin undir stefnanda í skýrslutökunni. Framburðarskýrsla hafi verið tekin af Sigurði J. Stefánssyni, skoðunar­­manni hjá Athugun, 7. nóvember sama ár vegna skráninga bifreiðanna RF-496 og MR-159.

         Stefnandi hafi verið yfirheyrður varðandi sakarefnið er lotið hafi að ætluðu skjala­falsi og broti á tollalögum varðandi þrjú rannsóknartilvik 29. október og aftur 31. október um flest rannsóknartilvikin. Yfirheyrslunni hafi verið haldið áfram 1. nóvem­ber og hafi hann þá verið yfirheyrður um tiltekin rannsóknar­tilvik. Honum hafi þá verið kynnt skýrsla Arnars Jenssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns og Högna Einarssonar lögreglu­fulltrúa um ferð þeirra til Bandaríkjanna á starfsstöð Import Motors og athuganir þeirra þar í þágu rannsóknar málsins. Hafi stefnanda í öllum tilvikum verið boðið að tjá sig um það sem fram kæmi í skýrslunni varðandi einstök rannsóknartilvik og hafi hann svarað því til að að því leyti sem efni skýrslunnar væri í mótsögn við framburð hans þá mótmælti hann þeim sem röngum.

         C hafi verið yfirheyrður 7. nóvember varðandi ætluð tollalagabrot stefnanda í sambandi við innflutning á 24 bílum frá Bandaríkjunum. Við rannsókn málsins hefðu vaknað grunsemdir um ætluð brot C á tollalögum og almennum hegningarlögum í sambandi við forskráningu, vöruskoðun og toll­afgreiðslu bifreið­anna. 

         Með vísan til þess sem að framan greinir fái ekki á nokkurn hátt staðist stað­hæfingar stefnanda um að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju. Úrskurður Héraðs­dóms Reykjavíkur um að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar, og gæsluvarðhaldsvist sú er stefnandi hafi sætt á grundvelli þeirra hafi í einu og öllu verið lögmætar aðgerðir sem hafi helgast af rannsóknarhagsmunum, sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Framburður stefnanda við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi ekki verið trúverðugur um það að hann tengdist ekki ætluðum brotum B og A og mikið hafi borið í milli í framburðum þeirra, en gögn málsins sýndu að þau hafi öll verið í nánu samstarfi.

         Rannsókn málsins hafi verið haldið sleitulaust áfram á gæsluvarðhaldstímanum. Málið hafi verið mjög yfirgripsmikið og á þeim tíma sem stefnandi sætti gæsluvarð­haldinu hafi verið teknar fjölmargar skýrslur, bæði af honum sjálfum auk skýrslna af öðrum sak­borningum og vitnum. Af þessum skýrslum megi sjá að málið hafi verið mjög yfirgripsmikið og að lögregla hafi orðið að fá tækifæri til að yfirheyra ýmsa einstaklinga án þess að stefnandi, sem hafi verið sá eini sem tengdist öllum þeim tilvikum sem til rannsóknar hafi verið, hefði tækifæri til að spilla þeirri vinnu. Upp á bókhaldi stefnanda hafi þurft að hafa en hann hafi sagst ekki hafa það undir höndum. Stefnandi hafi gefið lögreglu ýmsar skýringar á því hvers vegna hann framvísaði ekki bókhaldi félagsins og hafi hann bent á ýmsa aðila og einstaklinga sem hefðu bókhaldið undir höndum. Þær upplýsingar hafi reynst rangar og hafi stefnandi þannig torveldað rannsókn málsins. Lögregla hafi haft samband við þessa aðila og einstaklinga en enginn þeirra hafi haft bókhaldið undir höndum og hafi lögregla aldrei fundið það á meðan á rannsókn málsins stóð. Stefnandi hafi verið ákærður fyrir bókhaldsbrot, en hann hafi játað sök samkvæmt þeim lið ákæru og verið sakfelldur.

         Bresti þannig með öllu skilyrði fyrir að stefnandi geti átt bótarétt samkvæmt 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála. Ákvæði stjórnar­skrár og mannréttindasáttmála veiti ekki ríkari bótarétt en þau ákvæði.

         Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist sé þess krafist til vara að stefnu­kröfurnar verði stórkostlega lækkaðar. Vísað sé til umfjöllunar að framan, þar á meðal vegna eigin sakar stefnanda.

         Stefnandi hafi fyrst sett fram kröfu sína um bætur með bréfi til embættis ríkislög­manns 16. febrúar síðastliðinn. Bréfinu hafi ekki fylgt önnur gögn en gæsluvarðhalds­úrskurðurinn frá 30. október og dómur Héraðsdóms Suðurlands en enginn rök­stuðningur hafi fylgt bótakröfunni. Sé því mótmælt að dráttarvextir dæmist frá fyrri tíma en við þingfestingu málsins.

 

         Niðurstaða

         Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. tollalaga nr. 55/1987 er tollverð innfluttra vara við­skipta­­­verð, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Þegar hinu umdeilda gæsluvarðhaldi var beitt og úrskurður kveðinn upp um það 30. október 2002 lá fyrir að misræmi var í gögnum um kaupverð 24 bifreiða við innflutning þeirra á árinu 1998, annars vegar í gögnum, sem stefnandi hafði framvísað við tollafgreiðslu þeirra á Selfossi, og hins vegar í gögnum sem ríkistollstjóri hafði aflað á árinu 1999 frá tollyfirvöldum í Banda­ríkjunum. Mis­ræmið kemur fram í skýrslu bandarísku tollgæslunnar frá október 1999, en þar eru upplýsingar annars vegar um verð tilgreindra bifreiða samkvæmt reikningum frá seljanda, Imports Motors, og hins vegar verð sem íslensk toll­yfirvöld höfðu samkvæmt gögnum sem stefnandi hafði látið þeim í té. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig nokkrar einstakar greiðslur fóru fram. Ríkislögreglu­stjóri hafði jafn­framt óskað eftir upplýsingum vegna rannsóknar málsins sem aflað var frá tveimur fyrir­svars­­mönnum seljanda bifreiðanna í New York í viðtali við starfsmann bandarísku tollgæslunnar 21. maí 2001. Þar kemur einnig fram misræmi á uppgefnu kaupverði við tollafgreiðslu á Selfossi og kaupverði sem seljandi hafði í sínu bókhaldi. Þá liggur fyrir að misræmi kom fram í gögnum málsins um ástand tveggja bifreiða þar sem þeim var lýst sem óskemmdum í gögnum, sem aflað var frá Bandaríkjunum, en með skemmdum í gögnum sem stefnandi hafði framvísað hjá tollafgreiðslunni á Selfossi. Ekki hafa komið fram haldbærar skýringar á þessu misræmi og ekki liggur fyrir hvert verð var raunverulega greitt fyrir bifreiðarnar. Þegar gæsluvarðhaldinu var beitt hefði stefnandi átt að geta sýnt fram á hvað Impex ehf. greiddi fyrir hverja bifreið með viðeigandi gögnum, en félagið var bókhaldsskylt samkvæmt lögum um bókhald og bar stefnandi sem fram­kvæmda­stjóri þess ábyrgð á því að ákvæðum laganna væri fullnægt. Við skýrslu­töku hjá lögreglu 29. október 2002 var hann beðinn að gera grein fyrir bókhaldi Impex ehf. Hann sagði að bókhald vegna þessara viðskipta væri að einhverju leyti hjá Ríkisskattstjóra og hjá skiptastjóranum sem hafi séð um skiptin á búi einka­hluta­félagsins þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta. Í gögnum málsins kemur fram að dagana 11. til 18. nóvember sama ár aflaði ríkislögreglustjóri upplýsinga um bók­hald Impex ehf. vegna rekstrarársins 1998. Samkvæmt þeim hafði skiptastjóri þrota­búsins aldrei fengið bókhaldið í hendur heldur hafði hann aðgang að því hjá viðskipta­fræðingi á bókhaldsstofu. Nokkrum vikum áður en athugun ríkis­lögreglu­stjóra fór fram hafði viðskiptafræðingurinn afhent stefnanda öll bókhalds­gögn Impex ehf., sem hann hafði verið með, önnur en eina bókhaldsmöppu vegna ársins 1996. Engin bókhalds­gögn vegna rekstrarársins 1998 voru hjá Skattrannsóknar­stjóra ríkisins eða Ríkis­skatts­stjóra. Rannsókn málsins leiddi síðar í ljós að stefnandi hafði sem fram­kvæmdastjóri Impex ehf. vanrækt að varðveita bókhaldsgögn, færa bókhald og gera ársreikning fyrir einkahlutafélagið, í samræmi við það sem lög áskilja, vegna ársins 1998 og var hann ákærður fyrir það eins og fram kemur hér að framan. Þessi brot játaði stefnandi að hafa framið við meðferð ákæru­málsins og var hann sakfelldur fyrir þau með dómi Héraðsdóms Suðurlands 20. nóvem­ber 2003.

         Rannsókn lögreglunnar í tilefni af kærum Sparisjóðs Hafnarfjarðar benti til að stefnandi ætti aðild að meintum brotum sem þar var um að ræða og hér að framan er lýst. Í skýrslu lögreglunnar, sem tekin var af B 30. október 2002, kemur meðal annars fram að hún hafi vitað að stefnandi og A væru saman í að flytja inn bíla og fá lán út á þá. Sama kemur fram í lögregluskýrslu, sem tekin var af A sama dag, er hann skýrði svo frá að hann og stefnandi hafi farið í sameiningu út í að kaupa margar tjónabifreiðar frá öðrum löndum og nokkrar tjóna­bifreiðar frá íslenskum tryggingafélögum. Fyrir tilstuðlan stefnanda hafi verið hægt að skrá bifreiðarnar án þess að viðgerð á þeim hefði verið lokið og hafi það átt við um á að giska 20 bifreiðar. Hann vissi hvorki hvernig stefnandi hefði farið að þessu né hverjum aðferðum hann hefði beitt, en stefnandi hafi ekki viljað segja honum það. A sagðist hafa látið stefnanda hafa 900.000 krónur fyrir kaupverði og varahlutum í bifreiðina OI-630. Samkvæmt gögnum málsins keypti Anco ehf. bifreiðina af Vá­trygginga­félagi Íslands 29. október 1999 sem seldi B hana 6. desember sama ár. Í ofangreindri lögregluskýrslu, sem tekin var af henni, kemur fram að hún kannaðist ekkert við bifreiðina. Hún hafi komist að því snemma á árinu 2000 að bifreiðin var skráð á hana. Um mitt árið hafi A sagt henni að þetta væri tjónabíll og að stefnandi væri með hann í viðgerð. Hún hafi árangurslaust reynt að ná sambandi við stefnanda til að finna bílinn. Hún vissi ekki hvar bifreiðin var þá niðurkomin en A hafi sagt hana vera hjá stefnanda. Í lögregluskýrslu af A 30. október 2002 kemur fram að hann vissi ekki hvar bifreiðin væri niðurkomin, hann hefði aldrei séð hana en hann vissi ekki betur en að hún hefði síðast verið í vörslum stefnanda. Í lögreluskýrslu 29. sama mánaðar er haft eftir stefnanda að hann myndi ekki betur en að bíllinn hafi staðið við verkstæði, sem hann var með að Viðarhöfða 2, þegar Anco ehf. seldi B hann. Hann mundi ekki hvort hann greiddi kaupverð bifreiðarinnar sjálfur hjá vátryggingafélaginu eða hvort hann fékk peninga hjá A eða B til þess. A skýrði svo frá í lögregluskýrslu að bifreiðin RF-679 hafi verið flutt inn af X ehf., en stefnandi hafi fyllt út aðflutningsskýrslu til tollgæslunnr á Selfossi og hann hafi séð um að forskrá bifreiðina. Áætlað hafi verið að skipta hagnaði af sölu bifreiðarinnar milli þeirra tveggja og hafi það átt við um allar bifreiðarnar sem þeir hafi keypt í samvinnu erlendis frá. Lánin frá Sparisjóði Hafnar­fjarðar hafi í öllum tilvikum nægt fyrir kostnaði vegna kaupa á þessum bifreiðum. Rangt sé að stefnandi hafi afhent honum bifreiðina viðgerða. Bifreiðin hafi ekki verið sýnd þegar hún var veðsett. Hann hafi aldrei séð bifreiðina og vissi ekki hvar hún var niðurkomin, en síðast hafi hún verið í vörslum stefnanda. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda 29. október 2002, kemur fram að hann hafi séð um að flytja þennan bíl inn fyrir A og fá hann tollafgreiddan hjá toll­gæslunni á Selfossi, en hann mundi ekki hvernig staðið var að greiðslu kaupverðsins. Hann kvaðst hafa afhent A bifreiðina. Hann kunni enga skýringu á því hvers vegna bifreiðin hefði ekki fundist. Í aðflutningsskýrslu, sem stefnandi hefur viðurkennt að hafa fyllt út, er innflytjandi tilgreindur X ehf. en stefnandi áritaði skýrsluna sem prókúruhafi. Sama kom fram um bifreiðina RF-496. Í lögregluskýrslunni, sem tekin var af A, kemur fram að hann hefði greitt stefnanda á fjórðu milljón króna sem umframverð á umsömdu kaupverði vegna viðskipta með ofan­greindar bifreiðar ásamt einni til viðbótar. Hann hafi gert það til að knýja stefnanda til að afhenda bifreiðarnar viðgerðar. Afsal fyrir bifreiðinni SL-482, tegund Subaru Legacy, er undirritað af stefnanda fyrir hönd X ehf. 11. júní 1999. Í lögregluskýrslu kvaðst stefnandi hafa keypt þessa bifreið, sem hafi verið mikið skemmd eftir veltu, fyrir A með það fyrir augum að hún yrði lagfærð. Ekkert hafi orðið af því. Hann vissi ekki fyrir víst hvað hefði orðið um bifreiðina en hann kunni að hafa látið fjarlægja hana þegar hann seldi húsnæðið að Viðarhöfða 2. Í lögregluskýrslu 8. október 2002 af Hlöðveri Hjálmarssyni, eiganda bílapartasölu, kemur fram að hann hafi keypt bifreiðina ME-992, tegund Subaru Legacy, án skráningar­númera í þeim tilgangi að nota hana í varahluti, en hún hafði þá orðið fyrir miklum skemmdum og aldrei farið á götuna eftir það. Haustið 1999 hafi stefnandi fengið framhluta bifreiðarinnar ME-992. Bifreiðin sé ónýt en samkvæmt ökuferilsskrá, sem hann framvísaði við skýrslutökuna, var Anco ehf. skráður eigandi bifreiðarinnar. Hann vissi ekki hverju það sætti. Ekki verður þó ráðið af gögnum þessa máls að rannsókn á hinum meintu brotum hafi leitt nokkuð frekar í ljós um þetta atriði.    

         Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að nauðsynlegt var að afla frekari gagna um hin meintu brot en rannsókn málsins var skammt á veg komin þegar stefnandi sætti gæsluvarðhaldi. Skilyrði fyrir því að gæsluvarðhaldi verði beitt í þágu rannsóknar opinbers máls eru þau að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi að hann muni tor­velda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka eins og fram kemur í 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. a lið lagaákvæðisins. Þegar virt eru þau atriði sem fyrir lágu og hér hafa verið rakin verður að telja að fullt tilefni hafi verið til að stefnandi sætti gæslu­varðhaldi, enda var þá vegna þessara sömu atriða kominn fram rök­studdur grunur um aðild hans að meintum brotum sem fangelsisrefsing er lögð við samkvæmt almennum hegningar­lögum og tolla­lögum, eins og hér að framan hefur verið lýst og fram kemur í gæsluvarðhalds­úrskurðinum 30. nóvember 2002, sem staðfestur var með dómi Hæsta­réttar 1. nóvem­ber sama ár. Verður þar með ekki fallist á að stefnanda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi að ósekju. Einnig verður að telja að þörf hafi verið á að stefnandi sætti gæsluvarð­haldi þar sem ella mætti ætla að hann myndi torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að koma gögnum undan eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Rannsókn málsins, þar með talið skýrslutökum, var fram haldið allan gæslu­varðhaldstímann. Að þessu virtu verður ekki talið að skort hafi á lögmæt skilyrði þess að gæsluvarðhaldinu var beitt eða að ákvæði stjórnarskrárinnar, mannréttinda­sáttmála Evrópu eða annarra laga, sem stefnandi vísar til, leiði til að hann eigi rétt á bótum úr hendi stefnda. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

         Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutnings­þóknun lögmanns hans, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur án virðisaukaskatts.

         Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

         Stefnda, íslenska ríkið, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Sigfinns Þórs Lúðvíkssonar, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutnings­þóknun lögmanns hans, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 350.000 krónur.