Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. ágúst 2008.

Nr. 453/2008.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(enginn)

gegn

X

(Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

X var laus úr gæsluvarðhaldi er kæra á gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms barst Hæstarétti. Var þeim þætti málsins er laut að gæsluvarðhaldinu því vísað frá Hæstarétti. Fallist var á að S væri heimilt að synja verjanda X um aðgang að framburðarskýrslu kæranda, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst 2008. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 16. ágúst 2008 kl. 18. Þá var verjanda varnaraðila synjað um aðgang að framburðarskýrslu kæranda í máli þessu, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 18. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að lögreglu verði gert að afhenda verjanda sínum öll gögn málsins.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 16. ágúst 2008. Kæra barst Hæstarétti 19. sama mánaðar. Samkvæmt því var það ástand, sem leiddi af atvikum þeim sem fjallað er um í hinum kærða úrskurði, þegar um garð gengið. Verður þessum þætti málsins því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum sem mál varða. Frá þessari reglu er sú undantekning í 2. málslið ákvæðisins að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn þess enn á frumstigi. Með þessari athugasemd verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar að sóknaraðila sé heimilt að synja verjanda varnaraðila um aðgang að framburðarskýrslu kæranda í máli þessu eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti aðalkröfu varnaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varakröfu hans um að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðila er heimilt að synja verjanda varnaraðila um aðgang að framburðarskýrslu kæranda í máli þessu, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst 2008 kl. 18.

 

 

                                        Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2008.

Mál þetta barst dóminum síðdegis miðvikudaginn 13. ágúst með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dags. þann dag.  Að lokinni skýrslutöku þá um kvöldið var málið tekið til úrskurðar.

Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú, að X, kt[...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi  til laugardagsins 16. ágúst 2008.

Þá krefst sýslumaður þess að lögreglu sé heimilt að synja verjanda kærða um aðgang að framburðarskýrslu brotaþola hjá lögreglu.

Kærði krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfu verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.  Þá andmælir kærði þeirri kröfu að verjanda hans verði synjað um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Í greinargerð sýslumanns kemur fram, að um kl. 21.00 þriðjudaginn 12. ágúst s.l. hafi komið á lögreglustöðina á Blönduósi konan A, kt. [...], og greint frá því að þá skömmu áður hefði kærði, X, nauðgað sér á heimili hans að [...]. 

Í nefndri greinargerð er að nokkru rakin frásögn kæranda af ætluðum atvikum, en einnig er til þess vísað að samskipti aðila hafi m.a. byggst á vinnuréttarsambandi.  Fram kemur að kærandi hafi verið í miklu andlegu ójafnvægi, að lögreglunni á Akureyri hafi þá þegar verið tilkynnt um kæruna og að rannsóknardeild  þar á bæ hafi tekið við stjórn rannsóknarinnar.  Þá er því lýst að  kærandi hafi verið fluttur á neyðarmóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.  Fram kemur að kærði hafi verið handtekinn á heimili sínu umrætt kvöld kl. 22:07 og færður á lögreglustöðina á Akureyri, en þar hafi hann verið látinn sæta líkamsskoðun.

Sýslumaður kveður rannsókn málsins vera á frumstigi og sé það mat lögreglu að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir alla möguleika kærða á því að spilla rannsókninni.  Búið sé að taka skýrslu af kæranda og fyrstu skýrslu af kærða þar sem fram komi að hann neiti kæruefninu.  Staðhæft er að ekki sé enn búið að ljúka rannsókn á vettvangi ætlaðs brots og var það áréttað fyrir dómi.  Þá sé eftir að taka skýrslur af vitnum, þ.á.m. þeim er kærandi kveðst fyrst hafa haft samband við eftir ætlað brot, en um sé að ræða vinnufélaga kæranda, sem jafnframt sé undirmaður kærða.  Þá sé einnig eftir að rannsaka símanotkun kærða og kæranda, og er tekið er fram að lögreglu sé kunnugt um að þau hafi haft símasamskipti bæði fyrir og eftir hið ætlaða brot.

Sýslumaður byggir kröfu sína á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.  Þá byggir hann kröfuna varðandi gagnaafhendingu á 1. mgr. 43. gr. sömu laga.

Niðurstaða.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar lögregluskýrslur, sem eru í samræmi við framangreint.  Verður á það fallist að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og sé það skammt á veg komið að efni séu til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna.  Þykir með vísan til þessa og röksemda sýslumanns rétt að taka kröfu hans til greina á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19, 1991 og ákveða að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 16. ágúst n.k., kl. 18:00.

Með vísan til þess sem fram er komið um atvik máls og framvindu rannsóknar þykja ekki vera efni til annars en að fallast á kröfu sýslumanns varðandi gagnaafhendingu líkt og hún er sett fram, þ.e. að verjandi hans fái ekki aðgang að framburðarskýrslu brotaþola, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19, 1991, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst n.k., kl. 18:00.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.

                                Á l y k t a r o r ð :

Kærði, X, kt [...], sæti gæsluvarðhaldi til laugardagsins 16. ágúst 2008, kl. 18:00.

Lögreglunni er heimilt að synja verjanda kærða um aðgang að framburðarskýrslu kæranda í máli þessu, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 28. ágúst n.k. kl. 18:00.